Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Frétt: Skógrækt á Norðurhjara

    photo_forest_landscape_largeÞegar talað er um kolefnisjöfnun, þá er oft rætt um skógrækt. Almennt hefur það verið talið að vænlegast til árangurs að rækta skóga í hitabeltinu til að binda kolefni og þar með hafa áhrif á loftslag til kólnunar. En ný rannsókn um áhrif þess að planta trjám hefur sáð efasemdum um að þetta sé rétt. Til að ná sem mestum áhrifum til kólnunar, þá sé betra að planta trjám á hærri breiddargráðum.

    Hópur vísindamanna frá St. Francis Xavier Háskólanum í Nova Scotia í Kanada undir stjórn Alvaro Montenegro hefur fært rök fyrir því með hjálp hágæða gervihnattagögnum hvar nýir skógar myndu gera mest gagn. Þeir mátu áhrifin af því að planta trjám á 5 ferkílómetra svæðum þar sem skógur myndi geta vaxið, þar sem fyrir eru ræktarlönd. Við útreikninga sína reyndi hópurinn að áætla bæði kólnunaráhrif skógarins vegna kolefnisupptökunar og svo upphitunaráhrifin, þar sem skógur endurvarpar minna af sólarljósi en ræktarlöndin sem þeir kæmu í staðinn fyrir. Hópnum til undrunnar þá benda útreikningar þeirra til að bestur árangur til kólnunar náist á háum breiddargráðum, t.d. í Norður Rússlandi, Mið Kanada og í Evrópu, myndi hafa meiri áhrif en á Indlandi, Brasilíu og í stærstum hluta Kína.

    Govindasamy Bala hjá indversku vísindastofnuninni í Bangalore, telur þó að núverandi kolefnisbinding með skógrækt í hitabeltinu hafi yfirhöndina. Hann varar við því að Montenegro og hópur hans hafi ofmetið það magn kolefnis sem skógar í Síberíu og Kanada geti geymt, og að það geti haft áhrif á niðurstöðuna.

    Ágrip á ensku úr rannsókninni

    Climate models indicate that warming due to increase in shortwave absorption from the lowering of albedo caused by afforestation reduces and can even overcome, particularly at high latitudes, the cooling caused by the carbon drawdown. We use high resolution (0.05 × 0.05° to 1 × 1°) global satellite observations to investigate the effects of afforestation. Results are markedly different from the coarser (~ 2.5 × ~ 2.5°) model-based studies. Between 40°S and 60°N afforestation always results in cooling. Many of the areas with the highest net carbon drawdown (drawdown after albedo effects) are at high latitudes. There is large zonal variability in drawdown and latitude is not a good indicator of afforestation efficiency. The overall efficiency of afforestation, defined as the net carbon drawdown divided by the total drawdown, is about 50%. By only considering the total drawdown and not considering albedo effects, the Kyoto Protocol carbon accounting rules grossly overestimate the cooling caused by afforestation drawdown.

    Heimildir:

    Science Direct – Abstract
    Frétt af Newscientist.com

  • Frétt: Hitamet mun fleiri en kuldamet í Bandaríkjunum

    Vegna hlýnunar jarðar, þá koma hitamet hvers dags, síðastliðinn áratug, um tvisvar sinnum oftar en kuldamet í Bandaríkjunum, samkvæmt nýrri rannsókn sem birtast mun í Geophysical Research Letters fljótlega. Talið er líklegt að hlutfall hitameta muni aukast á næstu áratugum ef losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram aukast. 

    Það hvernig hitamet hafa verið að aukast er talin vísbending um að breytingar séu nú þegar orðnar töluverðar á loftslagi.

    Ef hitastig færi ekki vaxandi, mætti búast við að hitamet og kuldamet hvers dags væru svipað mörg. Samkvæmt rannsókninni, þá var tímabilið frá fyrsta janúar 2000 til 30. september 2009 í Bandaríkjunum þannig að 291.237 hitamet voru slegin á meðan 142.420 kuldamet voru slegin, en á því tímabili voru vetur óvenju mildir og óvenju mikið um hitabylgjur yfir sumarið.

    Þessi mynd sýnir hlutfall hitameta og kuldameta sem féllu á 1800 veðurstöðum í Bandaríkjunum frá 1950 til september 2009, skipt eftir áratugum.
    Þessi mynd sýnir hlutfall hitameta og kuldameta sem féllu á 1800 veðurstöðum í Bandaríkjunum frá 1950 til september 2009, skipt eftir áratugum.

    Hitamet dagsins þýðir að hitinn var meiri á þeim degi en á hvaða degi sem er í sögu viðkomandi veðurstöðvar.

    Það sem af er þessum áratug hefur hlýnunin verið mest í ríkjum í Vestur Bandaríkjunum en þar var hlutfallið meira en tvö hitamet á móti einu kuldameti. Í ríkjum Austur Bandaríkjanna var hlutfallið um eitt og hálft hitamet á móti hverju kuldameti.

    Einnig kom í ljós að hlutfallið fyrir Bandaríkin í heild, sem var um tvö hitamet á móti hverju kuldameti, var meira vegna fækkun kuldameta heldur en vegna fjölgunar hitameta. Það bendir til þess að megnið af hlýnuninni eigi sér stað að nóttu til og að kuldamet falli því síður. Þetta samsvarar vel það sem loftslagslíkön hafa spáð því að gerist við hlýnun af völdum aukningar gróðurhúsalofttegunda.

    Framtíðin

    Auk þess að skoða gögn frá síðustu áratugum, þá leituðu höfundarnir til háþróaðra loftslagslíkana til að sjá hvernig hita og kuldamet gætu átt eftir að þróast út þessa öld.

    Líkönin benda til þess að ef losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram óhindrað, þá sé líklegt að hitamet verði í kringum 20 á móti hverju kuldameti um miðja öldina og 50 á móti 1 í lok aldarinnar. Höfundar vara þó við að loftslagslíkön nái illa utan um svona hitamet – þó ljóst sé að hitametin muni aukast mun meira en kuldametin.

    Að lokum er hér myndband með viðtali við einn höfundanna.

    Heimildir

    Þessi frétt er unnin upp úr frétt á heimasíðu UCAR (University Corporation for Atmospheric Research): Record High Temperatures Far Outpace Record Lows Across U.S.

    Greinin sjálf mun birtast fljótlega í Geophysical Research Letters: Gerald A. Meehl, Claudia Tebaldi, Guy Walton, David Easterling, and Larry McDaniel (2009). “The relative increase of record high maximum temperatures compared to record low minimum temperatures in the U.S.”

  • Blogg: COP15 – Kaupmannahöfn nokkur lykilatriði

    Merki COP15 í Kaupmannahöfn
    Merki COP15 í Kaupmannahöfn

    Við höfum áður fjallað um loftslagsfund Sameinuðu Þjóðanna sem verður í Kaupmannahöfn 7. – 18. desember næstkomandi (sjá COP15 – Kaupmannahöfn í stuttu máli). Hér verður farið yfir nokkur lykilatriði.

    Um hvað fjallar loftslagsfundurinn í Kaupmannahöfn?

    Fundur Sameinuðu Þjóðanna er lokadagsetning til að setja saman arftaka Kýótó bókunarinnar, sem hefur það að markmiðið að koma í veg fyrir að hlýnun jarðar verði verulega mikil. Hann verður í tvær vikur, frá 7. desember.

    Hvað er málið?

    Loftslagssérfræðingar eru sannfærðir um að menn verði að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum og það hratt á næstunni. Til að mögulegt sé að halda hlýnun undir tveggja gráðu markinu, verður að minnka losun um 25-40% miðað við þá losun sem var 1990 fyrir árið 2020. Auk þess er miðað við að það þurfi að minnka losun um 80-95% árið 2050. Hingað til hafa flestar þjóðir heims haft lægri markmið en þessi.

    Hverjir eiga að draga úr losun?

    Fyrst er það helsta meginmálið. Iðnríki líkt og Bandaríkin, Bretland, Japan og fleiri hafa losað mun meira af kolefni út í andrúmsloftið og losa enn töluvert meira á hvert mannsbarn en aðrar þjóðir og þeim ber því siðferðisleg skylda til að draga meira úr losun. Á sama tíma eykst losun frá vaxandi hagkerfum líkt og Kína og Indlandi og mun það hafa töluverð áhrif á efnahagsþróun þeirra. Þessi ríki losa minna á hvern mann en iðnríkin og milljónir manna í þessum ríkjum eru fyrir neðan fátækramörk – sem dæmi þá eru 400 milljónir Indverja án rafmagns. Fyrir vikið geta Kína, Indland og önnur ríki fært rök fyrir því að þau þurfi meiri tíma til að þróast áður en kemur að minnkandi losun . Jafnvægi þarf því að gæta í skyldu hvers ríkis til að draga úr losun og um það snúast þessar samningaumleitanir.

    Hverjir munu borga?

    Bangladesh séð úr lofti. Bangladesh er láglent og því hefur sjávarstöðuhækkun mjög slæmar afleiðingar í för með sér fyrir það.
    Bangladesh séð úr lofti. Bangladesh er láglent og því hefur sjávarstöðuhækkun mjög slæmar afleiðingar í för með sér fyrir það.

    Hér er hitt meginmálið. Því er haldið fram að til lengri tíma litið þá munu hagkerfi sem losa lítið verða ódýrari í rekstri en þau sem brenna mikið af jarðefnaeldsneyti og skapa kjörið tækifæri til fjárfestinga. En til skamms tíma litið er talið líklegt að minni losun verði dýr. Menn eru sammála um að fátækari löndin þurfi hjálp. Einstaklingar frá ríkjum eins og Haiti, Súdan og Bangladesh hafa nánast ekkert losað af gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið en munu engu að síður verða verst úti vegna flóða og þurrka. Ríkari þjóðir munu þurfa að borga milljarða – sumir kalla það viðgerðarkostnaður fyrir skemmdir á loftslagi jarðar. Það mun einnig kosta töluverðar fjárhæðir að byggja upp hnattrænt kerfi hreinna orkugjafa til að koma í stað orku frá kola og gasorkustöðvum, sem á þátt í stórum hluta hnattrænnar losunar. Fyrir vaxandi hagkerfi, líkt og Indland, þá er nærtækt að fara beint í endurnýjanlega orkugjafa eða jafnvel kjarnorku. En þá væri einnig ætlast til þess að ríkari þjóðir myndu borga reikningin – ef ekki þá er lítil hvati til staðar til að stöðva uppbyggingu kolaorkustöðvar. Evrópusambandið telur að þetta muni kosta um 100 milljarðar bandaríkjadollara á ári frá 2020, en tölur hafa verið nefndar sem eru fjórum sinnum hærri. Að finna réttu upphæðina sem allar þjóðir sættast á er annað stórt atriði í samningaviðræðunum.

    Hvað með verslun á kolefniskvóta?

    Fræðilega séð, þá lítur það ekki illa út að þeir sem geta minnkað losun hratt megi selja þeim sem eru í erfiðleikum með losunarmarkmiðin. Hinsvegar má færa fyrir því rök að slíkir verslunarhættir séu í raun sniðnir að því að borga fátækari þjóðum fyrir að hreinsa upp eftir þau ríkari. Einnig að ef slík verslun á að fara fram með það að markmiði að draga úr losun, þá verður hámark losunarinnar að vera mjög lágt til að einhver árangur verði af því, auk þess sem að með þessu kerfi þá hafa hagsmunir Jarðarinnar vikið fyrir pólitískum hagsmunum. Þrátt fyrir það er líklegt að verslun á kolefniskvóta verði stór hluti af samningaviðræðunum í Kaupmannahöfn, líkt og það var í Kýótó.

    Er auðveldara að minnka losun með því að stoppa eyðingu skóga?

    Um 40% af losun manna á kolefnum hefur hingað til verið vegna skógareyðingar. Að stoppa eyðingu skóga er í raun og veru, ódýrt og einfalt: Ekki fella tré!  En að borga þjóðum – með kolefnis inneignum – fyrir að fella ekki tré verður fljótt flókið. Hver á í raun og veru trén? Átti að fella þau og hvernig er hægt að ganga úr skugga um að hvort þau voru síðan felld eður ei. Að finna lausn á þessu vandamáli er eitt af stóru atriðunum sem vonast er til að verði leyst.

    Hverjir eru möguleikarnir á samningi í Kaupmannahöfn?

    Samningaviðræður fyrr í mánuðinum sem fóru fram í Barcelóna voru árangurslitlar. Flestir búast við því nú, að ekki sé möguleiki á lagalega bindandi samkomulag á fundinum í Kaupmannahöfn. Talað er um að kraftaverk þurfi til. Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama er nefndur sem líklegastur til að geta skapað undirstöðu fyrir góðu samkomulagi – en það er þó talið ólíklegt. Nú eru mestar vonir bundnar við að ekki sjóði upp úr og að þjóðir heims haldi áfram samningaumleitunum fram á næsta ár og að skrifað verði undir þá. Ef það sýður upp úr, þá geta undanfarin 20 ár fara í vaskinn og líklegt að áframhaldandi hlýnun jarðar haldi áfram óhindruð. Það er reyndar líka talið ólíklegt, en ekki jafn ólíklegt að fyrrnefnt kraftaverk.

    Heimild

    Þetta er að mestu lausleg þýðing á fréttaskýringu sem birtist á vefsíðu The Guardian og heitir: Copenhagen climate change summit: The issues

  • Frétt: Hitastig októbermánaðar á heimsvísu

    Helstu atriðið varðandi hitastig októbermánaðar á heimsvísu

    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir október 2009, mánuðurinn var sá 6. heitasti samkvæmt skráningum, með hitafráviki upp á 0,57°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar, sem er 14,0°C.
    • Hitastig fyrir land var 0,82°C yfir meðaltali 20. aldar, og var því sá 6. heitasti samkvæmt skráningu.
    • Hitastig hafsins á heimsvísu í október gerði mánuðinn þann 5. heitasta samkvæmt skráningu, með hitafrávik upp á 0,50°C yfir 20. aldar meðaltalið, sem er 15,9°C.
    • Fyrir árið, frá janúar til loka október, er sameinað hitastig fyrir bæði land og haf 14,7°C. Tímabilið er jafnheitt og tímabilið fyrir 2007, í 5. sæti með hitafrávik upp á 0,56°C.
    hitafravik_okt
    Hitafrávik október 2009 – Viðmiðunartímabil 1971-2000

    Athugasemd: Tölurnar eru birtar með fyrirvara og eru bráðabirgðatölur. Röð og hitafrávik geta breyst eftir því sem fleiri gögn berast. M.a. vantar gögn frá Kanada.

    Október 2009

    Sameinað hitafrávik fyrir land og haf í október 2009, var 0,57°C yfir meðaltali 20. aldar, sem verður til þess að mánuðurinn er 6. heitasti október frá því mælingar hófust árið 1880. Svipað er með land hitastigið sem á heimsvísu er 6. heitasta október samkvæmt skráningu. Á myndinni hér fyrir ofan má lesa út helstu upplýsingar um hitafrávik eftir svæðum, punktarnir sýna hitafrávikin (rauðir punktar hærra hitafrávik, bláir punktar lægra hitafrávik, stærð punkta gefur til kynna stærð fráviksins). Í stærstum hluta Bandaríkjana mældist mánuðurinn almennt mjög kaldur miðað við meðaltalið, einnig var kaldara í Skandinavíu. Á móti kemur svo að svæði eins og t.d. í Alaska og stórum hluta Rússlands voru mun heitari en meðaltal mánaðarins.

    Á stórum svæðum í Bandaríkjunum (utan Alaska) var hitastig almennt mikið undir meðaltali mánaðarins fyrir svæðið. Á þessu svæði mældist hitafrávikið meðal þeirra 5 köldustu síðan mælingar hófust. Hitastig var undir meðallagi á 8 af 9 loftslagssvæðum Bandaríkjanna, þar af voru fimm svæði sem voru verulega undir meðallaginu.

    Á Nýja Sjálandi var hitastig undir meðallagi, svo mikið að mánuðurinn varð kaldasti október síðan 1945 þar. Hitastigið á landsvísu var aðeins 10,6°C, sem er 1,4°C undir meðaltalinu fyrir október. Á mörgum svæðum á Nýja-Sjálandi mældist hitastig 2,0°C undir meðallaginu.

    Aftur á móti mældist hitastigið í Darwin, Ástralíu, hærra en venjulega í október 2009. Meðal hámarkshitastig í borginni mældist 34,8°C í október 2009, sem er það hæsta fyrir alla mánuði á því svæði.

    Sjávarhitastig í október 2009 var hærra en meðaltal á flestum hafsvæðum. Á heimsvísu mældist hitastig hafsins það 5. heitasta samkvæmt skráningum, með hitafrávik upp á 0,50°C yfir 20. aldar meðaltalið. El Nino hefur haldið áfram ótrauður í október. Sjávarhiti á stórum svæðum við miðbaug í Kyrrahafi var 1,0°C yfir meðaltalinu. El Nino er talin munu styrkjast og verða áfram til staðar veturinn (á norðurhveli) 2009-2010, samkvæmt NOAA.

    Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastig fyrir október mánuð 2009.

    Október Frávik Röð
    (af 130 árum)
    Heitasti okt.
    samkv. skrám
    Á heimsvísu
    Land +0.82°C (+1.48°F) 6. heitasti 2005 (+1.07°C/1.93°F)
    Haf +0.50°C (+0.90°F) 5. heitasti 2003 (+0.58°C/1.04°F)
    Land og haf +0.57°C (+1.03°F) 6. heitasti 2003 (+0.71°C/1.28°F)
    Norðuhvel jarðar
    Land +0.83°C (+1.49°F) 6. heitasti 2003 (+1.20°C/2.16°F)
    Haf +0.53°C (+0.95°F) 6. heitasti 2006 (+0.65°C/1.17°F)
    Land og Haf +0.64°C (+1.15°F) 5. heitasti 2003 (+0.85°C/1.53°F)
    Suðurhvel jarðar
    Land +0.78°C (+1.40°F) 6. heitasti 2002 (+1.09°C/1.96°F)
    Haf +0.49°C (+0.88°F) 3. heitasti 1997 (+0.59°C/1.06°F)
    Land og Haf +0.53°C (+0.95°F) 5. heitasti 1997 (+0.61°C/1.10°F)

    Í grafinu hérundir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:

    hitafravik_okt_sulurit

    Heimildir og annað efni:

    Hitafrávik september 2009
    NOAA – október 2009

  • Gestapistlill: Jöklabreytingar og hækkun sjávarborðs heimshafanna

    Hlýnunar af mannavöldum gætir nú víða um heim og vekja afleiðingar hennar sífellt meiri athygli almennings og fjölmiðla. Sumar afleiðingarnar má segja að séu í stórum dráttum eins og búast mátti við á grundvelli fyrirliggjandi vísindarannsókna en aðrar hafa komið á óvart. Þar er um það að ræða að vísindamenn uppgötva fyrst með mælingum að veigamikil áhrif vaxandi styrks koldíoxíðs eða hlýnunar eru þegar komin fram án þess að spáð hafi verið fyrir um þessi áhrif. Þar má segja að jöklar hafi leynt á sér vegna þess að tvær af þremur óvæntustu uppgötvunum af þessum toga á síðustu árum hafa verið tengdar jöklabreytingum.

    Fyrst er rétt að nefna þá uppgötvunina sem ekki tengist jöklum en þar á ég við súrnun yfirborðslaga  sjávar sem talin er stafa af vaxandi styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Talið var að sýrustig sjávar væri lítt háð styrk koldíoxíðs í andrúmsloftinu og var ekki talin ástæða til þess að hafa áhyggjur af hafefnafræðilegum afleiðingum af losun mannkyns á  koldíoxíði. Mælingar sýna hins vegar lækkun sýrustigs um u.þ.b. 0,1 pH einingu og talið er að lækkunin verði 0,4 einingar undir lok aldarinnar miðað við ástandið fyrir iðnbyltingu (sjá t.d. http://www.ocean-acidification.net/ og http://ioc3.unesco.org/oanet/OAdocs/SPM-lorezv2.pdf). Þessar breytingar, sem ekki vöktu verulega athygli fyrr en um og eftir 2004, eru taldar mjög veigamiklar fyrir lífríki hafsins og er merkilegt til þess að hugsa að skilningur á þeim sé  nýtilkominn og að þær skuli hafa komið mönnum jafn mikið á óvart og raun ber vitni.

    Óvæntu uppgötvanirnar tvær á sviði jöklafræði sem nefndar voru hér að framan eru einnig tengdar heimshöfunum vegna þess að þær leiða til hækkandi sjávarborðs. Annars vegar er aukning á hraða ísskriðs á mörgum stöðum á Grænlandsjökli en hún er rakin til aukinnar yfirborðsleysingar sem veldur hærri vatnsþrýstingi við jökulbotninn og meira skriði jökulsins með botninum. Talið var líklegt að Grænlandsjökull mundi rýrna af völdum hlýnandi loftslags en það var til skamms tíma eingöngu rakið til aukinnar bráðnunar við yfirborð vegna hærri hita. Spár um hækkun sjávarborðs af völdum jökla byggðust þannig einkum á líkanreikningum af jöklaleysingu. Mælingar á hraða ísskriðs á Grænlandsjökli á síðustum árum sýna hins vegar mjög mikla hraðaaukningu sem ekki hafði verið spáð fyrir um. Áhrif Grænlandsjökuls á sjávarborð heimshafanna eru ekki síst tilkomin vegna þessa aukna hraða og aukinnar kelfingar í sjó fram af hans völdum.

    Hin uppgötvunin tengist bæði Grænlandsjökli og Suðurskautsjöklinum og felur í sér merkileg áhrif sjávarhita á hreyfingu jöklanna. Á árunum 2000–2004 mældist mikil hraðaaukning á mörgum skrið­jöklum á Suðaustur-Grænlandi sem talin er hafa stafað af hærri sjávarhita við ströndina. Hærri sjáv­ar­hiti bræðir hafís á fjörðum og dregur þar með úr viðnámi sem jökultungurnar mæta þegar þær skríða í sjó fram. Þessi hraðaaukning reyndist tímabundin en sýndi hversu viðkvæmur Grænlands­jökull getur verið fyrir breytingum sem ekki hafði verið gert ráð fyrir til þessa að skiptu miklu máli. Hliðstæðar breytingar hafa einnig mælst á Suðurskauts­jöklinum, einkum á Suðurskautsskaganum sem gengur út úr Suðurskautslandinu í átt til Chile, og tengjast þá oft íshellum sem fljóta á sjónum við jökuljaðarinn. Ef umtalsverð hlýnun verður í sjón­um í framtíðinni þá kunna þessi áhrif að leiða til mun meiri hækkunar á sjávarborði en  gert er ráð fyrir í líkanreikningum sem liggja til grund­vallar mati á hækkun sjávarborðs í síðustu skýrslu IPCC.

    Þessar uppgötvanir sýna nokkuð dökka mynd af stöðu þekkingar á heimskautajöklunum og áhrifum þeirra á hækkun heimshafanna á næstu áratugum. Má ekki gera ráð fyrir fleiri óvæntum uppgötvunum sem kollvarpi aftur hugmyndum okkar um viðbrögð jöklanna við hlýnun? Það er vissulega hugsanlegt. Það hefur hins vegar orðið mikil framþróun í vísindarannsóknum á heim­skauta­jöklunum og er athyglisvert að rifja upp hvernig skilningi á þætti jökla í hækkun heimshafanna hefur fleygt fram síðustu 10–15 árin.

    • Hækkun sjávarborðs heimshafanna á 20. öld var í heild um 20 cm eða um 2 mm á ári.
    • Samkvæmt skýrslu IPCC frá 1995 sýndu afkomumælingar og mælingar á yfirborðshæð að Grænlandsjökull og Suðurskautsjökullinn gætu samtals hafa verið úr jafnvægi sem jafngildir um ±18 cm breytingu á sjávarborði heimshafanna á 20. öld. Þetta þýðir að óvissan um framlag þeirra  var talin ámóta mikil og öll hækkun heimshafanna á sama tímabili! Rétt er að taka fram að talið var ólíklegt á grundvelli ýmissa óbeinna vísbendinga að jöklarnir væru svona fjarri jafnvægi en beinar mælingar á jöklunum sjálfum voru sem sé ekki betri en þetta.
    • Í skýrslu IPCC frá 2001 var frá því greint að afkoma Suðurskautsjökulsins gæti samkvæmt mælingum hugsanlega verið jákvæð um +10% af heildarákomunni  á jökulinn, en það samsvarar sjávarborðsbreytingu upp á –0.5 mm á ári (þ.e. lækkun hafsborðsins).
    • Hins vegar var einnig nefnt að ef gert væri ráð fyrir að stóru íshellurnar, sem fljóta á hafinu við jökuljaðarinn, væru nærri jafnvægi þá mætti meta framlag jökulsins til hækkunar heimshafanna +1.04 ± 1.06 mm á ári.
    • Það er athyglisvert að þessar tvær tölur úr IPCC skýrslunni frá 2001 hafa ekki sama formerki og fyrri talan er utan óvissumarka þeirrar síðari!
    • Í IPCC skýrslunni frá 2001 var framlag Grænlands til heimshafanna metið +0.12 ± 0.15 mm á ári, þ.e. það var ekki talið marktækt frábrugðið núlli.

    Framlag stóru hveljökla heimskautanna til hafanna var því augljóslega mjög illa þekkt árið 2001.

    Nú hafa þyngdarmælingar með nýrri kynslóð gervitungla sem nefnist GRACE (Gravity Recovery and Climate Experiment) gerbylt þessari stöðu. Þessar mælingar er unnt að nota til þess að reikna mjög nákvæmlega breytingar á þyngdarsviði jarðar sem stafa af tilfærslu massa og þær hafa verið notaðar til þess að meta jöklabreytingar fyrir bæði stóru jökulhvelin og einnig fyrir smærri jökli eins og hér á landi og á Svalbarða. Segja má að jöklarnir hafi verið viktaðir með þessum mælingum. Meðfylgjandi mynd sýnir niðurstöður GRACE fyrir Norður-Atlandshafssvæðið3. Þar sést skýrt hvernig rýrnun Grænlandsjökuls er mest á suðaustanverðum jöklinum og einnig meðfram norðan­verðri vesturströndinni. Einnig sést móta fyrir rýrnun jökla á Íslandi og á Svalbarða ef rýnt er í myndina. Niðurstöður þessara mælinga fyrir einstök svæði koma fram í meðfylgjandi töflu sem sýnir í flestum tilvikum breytingar á árabilinu 2003 til 2007.

    2008gl034816-mynd
    Hæðarbreytingar geóíðu yfir Grænlandi frá febrúar 2003 til janúar 2008 (3). Myndin vinstra megin (a) sýnir mælingar GRACE gervitunglsins en sú hægra megin (b) sýnir reiknaða geóíðu út frá breytingum á ísþykkt sem leiddar eru út á grundvelli þyngdarmælinganna. Mesta breyting geóíðunnar er um 12,5 cm lækkun á ári nærri Helheim jökli á Suðaustur-Grænlandi.
     Svæði 

    Breyting sjávarborðs (mm á ári)

    Suðurskautsjökullinn1

    0.4 ± 0.2

    Grænlandsjökull3

    0.5 ± 0.1

    Jöklar á Íslandi3

    0.032 ± 0.01

    Jöklar á Svalbarða3

    0.026 ± 0.01

    Jöklar utan heimskautasvæða alls2

    ~1.0

     

     

    Hækkun á sjávarborði alls eftir um 1990 (IPCC)

    ~3

    Það er athyglisvert að jöklar utan heimskautasvæða leggja ámóta mikið til heimshafanna og stóru heimskautajöklarnir tveir samanlagt þrátt fyrir að flatarmál og heildarrúmmál íss í stóru jöklunum sé miklu meira. Þannig var framlag jökla á Íslandi og á Svalbarða samanlagt heldur meira en 10% af framlagi Grænlandsjökuls á árabilinu 2003 til 2007 þrátt fyrir að Grænlandsjökull sé meira en 30 sinnum stærri að flatarmáli og hafi að geyma 250 sinnum meiri ís.

    Nýjustu niðurstöður þyngdarmælinganna fyrir Grænland benda til þess rýrnun jökulsins hafi enn hert á sér síðustu árin og að jökullinn hafi lagt um 0,75 mm á ári til heimshafanna síðan 20065. Það er aukning um u.þ.b. 50% frá því sem taflan sýnir fyrir árin 2003 til 2007.

    Ekki fer á milli mála þegar bornar eru saman tölurnar í listanum hér að framan og tölurnar í töflunni hversu miklar framfarir hafa orðið í mælingum á ástandi heimskautajöklanna. Óvissa um afkomu Suðurskautsjökulsins og Grænlandsjökuls, sem áður var jafn mikil og mæld árleg heildarhækkun heims­hafanna, hefur minnkað niður í um tíundapart af hafsborðshækkuninni, þ.e. óvissan hefur minnkað tífalt á einungis 10–15 árum. Þessar niðurstöður GRACE eru svo nýjar af nálinni að ekki náðist að taka að fullu tillit til þeirra í síðustu IPCC skýrslu sem út kom árið 2007. Þar er gert ráð fyrir sjávarborðshækkun verði á bilinu 20–60 cm til loka 21. aldar. Í nýlegri skýrslu hollenskra stjórnvalda (http://www.deltacommissie.com/doc/deltareport_full.pdf) er hins vegar reynt að taka fullt tillit til nýjustu þekkingar á líklegum breytingum á heimskautajöklunum og komist að þeirri niðurstöðu að líklegasta hækkun heimshafanna til loka aldarinnar sé á bilinu 55–110 cm, þ.e. u.þ.b. helmingi meiri en niðurstaða IPCC frá því fyrir aðeins tveimur árum (þess ber að geta að IPCC tilgreindi að bilið 20–60 cm taki ekki tilliti til áhrifa vaxandi skriðhraða jöklanna en þess er oft ekki getið þegar tölur IPCC eru notaðar). Samkvæmt þessum nýjustu niðurstöðum er gert ráð fyrir því að jöklar muni orsaka meira en helming af hækkun heimshafanna á þessari öld. Árið 2200 gerir hollenska skýrslan ráð fyrir að heimshöfin hafi hækkað um 150 til 350 cm.

    Þessar nýju tölur um sjávarborðshækkun af völdum jökla eru mun hærri en áður var gert ráð fyrir sem líklegustu hækkun sjávarborðs af þeirra völdum, t.d. af IPCC. Hins vegar eru þær lægri en miklu hærri tölur sem einnig voru stundum nefndar sem hugsanlegur möguleiki ef allt færi á versta veg. Nýjustu rannsóknir á Grænlandsjökli benda til þess að fyrri hugmyndir um mjög hraða rýrnun jökulsins og annarra jökla, sem svara til um eða yfir 2 m hækkunar sjávarborðs á þessari öld, eigi ekki við rök að styðjast4. Þannig benda nýjustu rannsóknir til þess að rýrnun jökla sé mun hraðari en áður var gert ráð fyrir en jafnframt að ólíklegt sé að þeir hopi í nánustu framtíð jafn hratt og allra svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir að væri mögulegt.

    Niðurstöður GRACE fyrir Ísland og Svalbarða eru í góðu samræmi við fyrirliggjandi afkomu­mælingar og mældar breytingar á yfirborði jökla á þessum svæðum. Það gefur til kynna að mælingarnar séu einnig áreiðanlegar fyrir heimskautajöklana þar sem slíkar samanburðarmælingar eru ekki jafn nákvæmar. Niðurstöður GRACE sýna hversu mikilvægt er að nýta nýjustu tækni til þess að fylgjast með og draga úr óvissu um þá þróun sem nú á sér stað í tengslum við hlýnun jarðar. Saga rannsókna á stóru heimskautajöklunum síðustu 10–15 árin sýnir bæði hversu miklar framfarir geta orðið þegar háþróuð tækni er notuð til mælinga en einnig hversu miklar gloppur eru í þekkingu okkar á mörgum sviðum. Það er sjálfsagt að reyna eins og unnt er að sjá mikilvægustu breytingar fyrir með rannsóknum en einnig er mikilvægt að vera undir það búin að í framtíðinni geti komið fram óvænt áhrif sem ekki hefur verið spáð fyrir um.

    Heimildir:

    1Velicogna, I., og J. Wahr. 2006. Measurements of Time-Variable Gravity Show Mass Loss in Antarctica. Science, 311, 5768, 1754–1756. DOI: 10.1126/science.1123785.

    2Meier, F. M., M. B. Dyurgerov, U. K. Rick, S. O’Neel, W. T. Pfeffer, R. S. Anderson, S. P. Anderson and A. F. Glazovsky. 2007. Glaciers Dominate Eustatic Sea-Level Rise in the 21st Century. Science, 317, 1064–1067, doi: 10.1126/science.1143906.

    3Wouters, B., D., Chambers og E. J. O. Schrama. 2008. GRACE observes small-scale mass loss in Greenland. Geophys. Res. Lett., 35, L20501, doi:10.1029/2008GL034816.

    4Pfeffer, W. T., J. T. Harper og S. O’Neel. 2008. Kinematic Constraints on Glacier Contributions to 21st-Century Sea-Level Rise. Science. Science, 321(5894), 1340–1343, doi: 10.1126/science.1159099.

    5van den Broeke, M., J. Bamber, J. Ettema, E. Rignot, E. Schrama, W. J. van de Berg, E. van Meijgaard, I. Velicogna og B. Wouters. 2009. Partitioning Recent Greenland Mass Loss. Science, 326(5955), 984–986, doi: 10.1126/science.1178176.

  • Myndbönd & hljóð: Loftslagsstríðin

    Tilefni fyrirsagnarinnar hér að ofan er engin tilviljun, en þessi færsla fjallar um loftslagsstríð með tvennum formerkjum.

    Orðastríðið

    Það virðist vera hálfgert orðastríð í gangi á milli þeirra sem eru sannfærðir um að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu raunveruleg hætta og þeirra sem ýmist viðurkenna ekki að loftslagsbreytingar eru að gerast, viðurkenna ekki að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum, halda því fram að loftslagsbreytingar verði litlar og ekki þurfi að bregðast við eða það sé of dýrt.

    Um það fjalla góðir þættir sem birtust fyrst á BBC og þá í þremur þáttum og heita Climate Wars, en farið er í gegnum vísindin lið fyrir lið á aðgengilegan og auðskiljanlegan hátt. Hægt er að horfa á þá þætti á YouTube í 18 hlutum, en samtalst er þetta um þrjár klukkustundir af efni og því mátulegt í eina-tvær kvöldstundir. Fyrsta hlutann má sjá hér fyrir neðan – en hægt er að nálgast þættina á einfaldan hátt á YouTube með því að fylgja tillögum að næsta myndbandi (sem kemur strax og fyrsti hlutinn er búinn) eða með því að leita að Climate Wars BBC ásamt númeri næsta hluta (02, 03 osv.frv.).

     

     

    Auðlindastríðið

    The_Climate_WarsSeinni hluti þessarar færslu fjallar um möguleg stríðsáök vegna rýrnandi kjara um allan heim vegna loftslagsbreytinga. Hvað gerist ef spár ganga eftir og ýmsar þjóðir verða fyrir umtalsverðum vatnsskorti og matarskorti vegna loftslagsbreytinga. Munu flóttamenn flykkjast að næsta góða landi? Munu þær þjóðir sem eru vel vopnum búnar ráðast á nágranna sína? Um þetta og fleira fjallar Gwynne Dyer, höfundur bókarinnar Climate Wars í útvarpsþáttum sem hægt er að hlusta á heimasíðu CBC Radio. Þetta eru þrír þættir, hver um sig klukkutíma langur. Grípandi útvarpsefni og verður aldrei langdregið, tilvalið í eina-tvær kvöldstundir. Brot úr útvarpsþættinum:

    About 2 years ago I noticed that the military in various countries, and especially in the Pentagon, were beginning to take climate change seriously. Now, it’s the business of the military to find new security threats. It’s also in their own self-interest, since they need a constant supply of threats in order to justify their demands on the taxpayers’ money, so you should always take the new threats that the soldiers discover with a grain of salt. You know, never ask the barber whether you need a haircut.

    But I did start to look into this idea that global warming could lead to wars. It turned into a year-long trek talking to scientists, soldiers and politicians in a dozen different countries. I have come back from that trip seriously worried, and there are four things I learned that I think you ought to know.

    The first is that a lot of the scientists who study climate change are in a state of suppressed panic these days. Things seem to be moving much faster than their models predicted.

    The second thing is that the military strategists are right. Global warming is going to cause wars, because some countries will suffer a lot more than others. That will make dealing with the global problem of climate change a lot harder.

    The third is that we are probably not going to meet the deadlines. The world’s countries will probably not cut their greenhouse gas emissions enough, in time, to keep the warming from going past 2 degrees celsius. That is very serious.

    And the fourth thing is that it may be possible to cheat on the deadlines. I think we will need a way to cheat, at least for a while, in order to avoid a global disaster.

  • Tenglar: Veðurstofa Íslands

    vedurstofaÞað er óhætt að mæla með vefsíðu Veðurstofu Íslands fyrir alla sem vilja kynna sér gróðurhúsaáhrifin og loftslagsbreytingar. 

    Þar er fyrsta stopp síðan Loftslagsbreytingar en vinstri stika á þeirri síðu gefur möguleika á ýmsum undirsíðum, t.d. um gróðurhúsaáhrifin, afleiðingar þeirra og líklegar breytingar á Íslandi.

    Einnig má finna ýmsar upplýsingar um hvernig loftslag og veðurfar hefur verið á Íslandi frá landnámi og fram til 1800 og svo eftir 1800 en þar undir er farið í ýmsa þætti í veðurfari Íslands.

    Ein síðan fjallar um hvaða rannsóknaverkefni Veðurstofan tekur þátt í, í sambandi við loftslagsmál og má þar sjá undirsíður um t.d. Vísindanefnd um loftslagsbreytingar (þar eru tenglar yfir í skýrslu sem nauðsynlegt er að lesa fyrir áhugafólk um vísindin á bakvið loftslagsbreytingar – 11 Mb og 25 Mb). Einnig má finna þar upplýsingar um Vísindanefnd Sameinuðu Þjóðanna (IPCC).

    Einnig er mjög áhugaverð fróðleikssíða sem gott er að skoða reglulega. T.d. var mjög áhugaverður fróðleiksmoli fyrir stuttu um það hvort hlýnun hefði hætt árið 1998.

  • Myndband: Fyrirsagnir um loftslagsmál

    Oft er hægt að nálgast fræðandi fyrirlestra á TED. Hér er fyrirlestur sem Rachel Pike hélt um rannsóknir sem mynda fyrirsagnir blaða og tímarita um loftslagsmál.

  • Heitt: Jöklar Himalayafjalla eru ekki að hopa vegna hlýnunar jarðar!

    discussionFyrr í vikunni kom út skýrsla eða réttara sagt umræðurit (discussion paper) sem gefið er út af Umhverfis og skógræktaráðuneyti Indlands (Ministry of Environment & Forests). Um þessa skýrslu eða réttara sagt ummæli Umhverfisráðherra Indlands, Jairam Ramesh, hafa spunnist heitar umræður um hlýnun jarðar og jökla Himalaya – en í ritinu er því meðal annars haldið fram að ekki sé búið að finna tengsl milli hlýnunar og hörfunar jökla Himalayafjalla – Ramesh hefur verið yfirlýsingaglaður, eins og sjá má í frétt um málið sem birtist á mbl.is: Segir hlýnun ekki ástæðu þess að jöklar hopi. Formaður IPCC  Rajendra Pachauri hefur svarað samlanda sínum, sjá frétt í vefsíðu Guardian: India ‘arrogant’ to deny global warming link to melting glaciers

    Höfundur ritsins er V.K. Raina  – sem var háttsettur jarðfræðingur hjá Jarðfræðastofnun Indlands og það heitir: Himalayan Glaciers. A State-of-Art Review of Glacial Studies, Glacial Retreat and Climate Change

    Við á loftslag.is erum búnir að fletta aðeins í gegnum þetta rit og það fyrsta sem við rákum okkur á er heimildalistinn – sem er stuttur, miðað við hvað þetta er viðamikið viðfangsefni. Það sem skemmir þó þessa skýrslu mest er að hún er álit eins manns, sem nú þegar er með efasemdastimpil á bakinu.

    Efnið er áhugavert, þótt taka verði túlkanir höfundar með fyrirvara. Það getur nefnilega vel verið að jöklar í Himalaya hegði sér öðruvísi en aðrir jöklar í heiminum – séu ekki að hopa vegna hlýnunar – minni úrkoma kannski (þá vegna loftslagsbreytinga)?

    En það breytir ekki þeirri staðreynd að jöklar heims eru almennt séð að hopa – þynnast og minnka og út um allan heim er það tengt hlýnandi veðurfari – þ.e. það er meiri bráðnun og bráðnunin stendur lengur yfir en verið hefur.

  • Blogg: Hörfun jökla

    Það er nokkuð ljóst að mikill meirihluti jökla í heiminum eru að hörfa og er meginástæða þess talin vera hlýnandi veðurfar.

    Stóru jökulhvelin, jöklar Suðurskautsins og Grænlandsjökuls eru að minnka töluvert í massa (Velicogna 2009).

    Massabreeytingar í Grænlandsjökli (Velicogna 2009)
    Massabreytingar í Grænlandsjökli (Velicogna 2009)

     

    Massabreytingar í jöklum Suðurskautsins (Velicogna 2009)
    Massabreytingar í jöklum Suðurskautsins (Velicogna 2009)

     En litlu jöklar heims eru líka að minnka og hafa hingað til átt töluverðan þátt í hækkun sjávarstöðu.

    Rhone jökullinn í svissnesku Ölpunum.
    Rhone jökullinn í svissnesku Ölpunum.

    Í Sviss hefur rúmmál jökla minnkað um 12% síðan 1999, en þar voru mældir um 1400 jöklar. 

    Á Kerguelen eyju sem er sunnarlega í Indlandshafi (lýtur franskri stjórn) hefur rúmmál jökla minnkað um 22 % á síðastliðnum 40 árum.

    Bráðnun helstu jöklanna í Bandaríkjunum
    Massabreytingar í bandarískum jöklum.

    Amerískir jöklar eru einnig að hörfa, sjá t.d. mynd með massabreytingum í bandarískum jöklum.

    Í Perú er stærsti jökull innan hitabeltisins, en hann heitir Quelccaya. Árið 2002 rákust vísindamenn á gróðurleifar við jökullónið framan við jökulinn á stað sem var nýkominn undan jökli. Gróðurleifarnar voru aldursgreindar og voru um 5200 ára gamlar. Sem sagt síðast þegar jökullinn var jafn lítill og hann er nú var fyrir 5200 árum.

    En jöklar á Íslandi eru líka að minnka eins og fólk veit sem fylgist vel með fréttum (t.d. nýleg frétt á RÚV – sjá einnig myndband). 

    Ath, fyrir Vatnajökul þá er bara sýndur sunnanverður Vatnajökull - V. Svo er H=Hofsjökull og L=Langjökull (af heimasíðu Veðurstofunnar).
    Ath, fyrir Vatnajökul þá er bara sýndur sunnanverður Vatnajökull – V. Svo er H=Hofsjökull og L=Langjökull.

    Langflestir jöklar heims eru að þynnast og hopa. Einstaka frétt kemur af jöklum sem eru að þykkna og þá er það talið tengjast aukinni úrkomu á því svæði.

    Hér má sjá breytingar í þykkt jökla frá 1970:

    Þessi mynd sýnir breytingar í þykkt jökla frá árinu 1970. Litaskalinn gulur til brúnn sýnir jökla sem hafa þynnst. Yfirgnæfandi meirihluti jökla eru að þynnast og telja vísindamenn það vera af völdum hlýnunar jarðar.
    Þessi mynd sýnir breytingar í þykkt jökla frá árinu 1970. Litaskalinn gulur til brúnn sýnir jökla sem hafa þynnst. Yfirgnæfandi meirihluti jökla eru að þynnast og telja vísindamenn það vera af völdum hlýnunar jarðar.

    Hér fyrir neðan er svo meðaltalsbreyting í þykkt jökla yfir allan hnöttinn:

    Hnattræn breyting á þykkt jökla frá 1961-2005 (mynd frá NSIDC).
    Hnattræn breyting á þykkt jökla frá 1961-2005 (mynd frá NSIDC).

     Hér hefur verið farið lauslega yfir nokkra jökla sem eru að hörfa – litla og stóra, við fjöllum væntanlega meira um þá síðar – eigum t.d. von á góðum gestapistli bráðlega um málið.

    En ef þið viljið fræðast nánar um það sem hefur verið skrifað um jökla hér á loftslag.is (myndbönd, nýlegar rannsóknir og annað), þá má finna það hér.