Frétt: Hitamet mun fleiri en kuldamet í Bandaríkjunum

Vegna hlýnunar jarðar, þá koma hitamet hvers dags, síðastliðinn áratug, um tvisvar sinnum oftar en kuldamet í Bandaríkjunum, samkvæmt nýrri rannsókn sem birtast mun í Geophysical Research Letters fljótlega. Talið er líklegt að hlutfall hitameta muni aukast á næstu áratugum ef losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram aukast. 

Það hvernig hitamet hafa verið að aukast er talin vísbending um að breytingar séu nú þegar orðnar töluverðar á loftslagi.

Ef hitastig færi ekki vaxandi, mætti búast við að hitamet og kuldamet hvers dags væru svipað mörg. Samkvæmt rannsókninni, þá var tímabilið frá fyrsta janúar 2000 til 30. september 2009 í Bandaríkjunum þannig að 291.237 hitamet voru slegin á meðan 142.420 kuldamet voru slegin, en á því tímabili voru vetur óvenju mildir og óvenju mikið um hitabylgjur yfir sumarið.

Þessi mynd sýnir hlutfall hitameta og kuldameta sem féllu á 1800 veðurstöðum í Bandaríkjunum frá 1950 til september 2009, skipt eftir áratugum.

Þessi mynd sýnir hlutfall hitameta og kuldameta sem féllu á 1800 veðurstöðum í Bandaríkjunum frá 1950 til september 2009, skipt eftir áratugum.

Hitamet dagsins þýðir að hitinn var meiri á þeim degi en á hvaða degi sem er í sögu viðkomandi veðurstöðvar.

Það sem af er þessum áratug hefur hlýnunin verið mest í ríkjum í Vestur Bandaríkjunum en þar var hlutfallið meira en tvö hitamet á móti einu kuldameti. Í ríkjum Austur Bandaríkjanna var hlutfallið um eitt og hálft hitamet á móti hverju kuldameti.

Einnig kom í ljós að hlutfallið fyrir Bandaríkin í heild, sem var um tvö hitamet á móti hverju kuldameti, var meira vegna fækkun kuldameta heldur en vegna fjölgunar hitameta. Það bendir til þess að megnið af hlýnuninni eigi sér stað að nóttu til og að kuldamet falli því síður. Þetta samsvarar vel það sem loftslagslíkön hafa spáð því að gerist við hlýnun af völdum aukningar gróðurhúsalofttegunda.

Framtíðin

Auk þess að skoða gögn frá síðustu áratugum, þá leituðu höfundarnir til háþróaðra loftslagslíkana til að sjá hvernig hita og kuldamet gætu átt eftir að þróast út þessa öld.

Líkönin benda til þess að ef losun gróðurhúsalofttegunda heldur áfram óhindrað, þá sé líklegt að hitamet verði í kringum 20 á móti hverju kuldameti um miðja öldina og 50 á móti 1 í lok aldarinnar. Höfundar vara þó við að loftslagslíkön nái illa utan um svona hitamet – þó ljóst sé að hitametin muni aukast mun meira en kuldametin.

Að lokum er hér myndband með viðtali við einn höfundanna.

Heimildir

Þessi frétt er unnin upp úr frétt á heimasíðu UCAR (University Corporation for Atmospheric Research): Record High Temperatures Far Outpace Record Lows Across U.S.

Greinin sjálf mun birtast fljótlega í Geophysical Research Letters: Gerald A. Meehl, Claudia Tebaldi, Guy Walton, David Easterling, and Larry McDaniel (2009). “The relative increase of record high maximum temperatures compared to record low minimum temperatures in the U.S.”

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál