Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Myndband: Loftslagsbreytingar – Andmælin

    Þetta myndband er annað í röðinni af myndböndum Potholer54 um loftslagsbreytingar, fyrsta myndbandið má sjá hér. Potholer er fyrrum vísinda fréttaritari, sem segist hafa áhuga á því að segja frá staðreyndum frekar en fjölmiðlaskrumi. Í þessu myndbandi skoðar hann m.a. aðrar hugmyndir í umræðunni um hnattræna hlýnun. Hann segist eingöngu setja fram athuga tilgátur sem eru lagðar fram af þeim sem vinna við loftslagsvísindi. Í þessu myndbandi skoðar hann m.a. tilgátur Svensmark, Lindzen og Friis-Christensen, sem lagt hafa fram tilgátur sem ekki styðja það að koldíoxíð sé drifkraftur núverandi loftslagsbreytinga.

  • Blogg: Andardráttur Jarðarinnar

    CO2Þegar skoðuð er mynd af magni CO2 í andrúmsloftinu eins og á  myndinni hér til hliðar, þá hváir fólk oft og fer að spá í af hverju magnið sveiflast upp og niður á hverju ári.

    Það má eiginlega segja að ástæðan sé sú að Jörðin er að anda. Það er nefnilega mun meiri landmassi á norðurhveli jarðar en á suðurhveli og þegar vorar á norðuhveli þá sjúga plöntur mikið magn CO2 úr andrúmsloftinu og við það fellur magn CO2 lítillega. Að hausti þá deyja plönturnar og magnið rís á ný. Undirliggjandi er síðan magn CO2 að rísa vegna losunar manna á CO2 (bruni jarðefnaeldsneytis og sementsframleiðsla hefur þar mest áhrif).

    Frá 1959-1964 var aukningin að meðaltali 0,816 ppm á ári, en frá 2004-2008 þá var árleg aukning að meðaltali 1,93 ppm á ári. Aukningin er semsagt að aukast!

    En hvernig er þetta mismunandi eftir löndum?

    Kína losar núna mest allra landa, en Bandaríkin eiga þó langmestan hlut í því magni CO2 sem nú er í andrúmsloftinu.

    Ég var að rekast á nýja heimasíðu sem heitir á ensku  Breathing Earth, eða á íslensku Andandi Jörð – mjög áhugaverð síða.

    Skjáskot af heimasíðunni, sjá www.breathingearth.net
    Skjáskot af heimasíðunni, sjá www.breathingearth.net
  • Myndband: Vísindaleg umræða

    Myndband frá Potholer54 sem er YouTube notandi, fyrrum vísinda fréttaritari, sem segist hafa áhuga á því að segja frá staðreyndum frekar en fjölmiðlaskrumi. Þetta myndband lítur á þær grunn ályktanir sem vísindamenn hafa um, að losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum valdi loftslagsbreytingum og hvernig vísindaleg umræða hefur verið um málið, m.a. þeirra sem eru efins um þá kenningu.

  • Frétt: Fiskistofnar fylgja sínu kjörhitastigi

    Nýleg grein sem birtist í Marine Ecology Progress Series sýnir áhugaverðar breytingar sem eru að verða á landgrunninu við Norðausturströnd Bandaríkjanna. Síðastliðna fjóra áratugi hefur helmingur fiskistofna þeirra sem rannsóknin náði yfir, færst norður á bóginn. Þessi færsla er talin tengjast breytingum í sjávarhita.

    Kort sem sýnir færslu nokkurra fiskistofan við Norðausturströnd Bandaríkjanna
    Kort sem sýnir áætlaða færslu nokkurra fiskistofna við Norðausturströnd Bandaríkjanna við hlýnun sjávar.

    Skoðuð voru árleg könnunargögn frá 1968-2007 á stofnum ýmissa sjávarnytjategunda, allt frá þoski og ýsu og yfir í kola og síld, ásamt öðrum tegundum. Sjávarhitagögn og langtímaferlar líkt og Norður-Atlantshafssveiflan voru einnig greind, til að sjá samhengi hitastigsgagnanna.

    thorskurSamkvæmt niðurstöðu þessarar rannsóknar hafa margir fiskistofnar færst norður á bóginn, til kaldari sjávar eða verið á sama svæði og fært sig dýpra en þeir finnast venjulega. Þessir fiskistofnar virðast því vera að aðlagast sínu kjörhitastigi.

    Valdar voru 36 tegundir, sem voru almennt mikið veiddar við könnun á stofnstærð þeirra (togararallí) en einnig eru þetta mikilvægar nytjategundir sem og vistfræðilega mikilvægar. Þá voru þær ólíkar innbyrðis. Skoðað var hvar fiskurinn var veiddur og ástand hans fyrir hvert ár. Fyrir hvern stofn var áætlað hvar hann sótti í að vera, meðaldýpi, stærð svæðisins og meðalsjávarhiti.

    Einnig var tekið inn í reikninginn ásókn í fiskinn fyrir hvern tíma ásamt náttúrulegum sveiflum í sjávarhita.

    Sjávarhiti hefur aukist frá sjöunda áratugnum og var færsla 24 af þeim 36 stofnum sem rannsakaðir voru í samræmi við þær breytingar í hitastigi. Tíu stofnar höfðu meiri útbreiðslu en áður, en tólf stofnar höfðu dregist saman í umfangi. Þrátt fyrir miklar breytingar sem hægt var að tengja ásókn í fiskistofnana, þá var eitt sem var alltaf stöðugt og það var hitastigið sem að þeir sóttu í að vera í, hvort heldur það var færsla til norðurs eða niður á meira dýpi.

    Það fer því eftir mikið eftir hæfni tegundanna til að færa sig um set, að sýnu kjörhitastigi, hvort stofnarnir aukast eða minnka. Þróunin virðist almennt vera á þá leið að fyrir hvert svæði, þá séu að koma inn meira af hlýsjávartegundum á kostnað kaldsjávartegunda sem þá færa sig norðar eða niður á meira dýpi.

    Höfundar segja að búast megi við sömu þróun í hafsvæðunum í kring og jafnvel víðar, því skoðaðir voru stofnar mjög ólíkra fiskitegunda.

    Heimildir

    Hægt er að lesa ágrip af greininni hér: Nye o.fl. 2009 – Changing spatial distribution of fish stocks in relation to climate and population size on the Northeast United States continental shelf

    Umfjöllun um greinina má sjá á ScienceDaily.com

  • Myndband: Þarf að bjarga jörðinni?

    Áhugaverðar pælingar um það hvort það þurfi nokkuð að bjarga jörðinni.

  • Frétt: Fugladauði við Norðvesturströnd Bandaríkjanna

    091030-sea-slime-birds-picture_bigHundruðir fugla hafa skolast á land á Norðurströnd Bandaríkjanna síðastliðna mánuði, þaktir froðulegu hvítu sjávarslími (minnir um margt á grút samkvæmt lýsingunni*), samkvæmt frétt á National Geographic.

    Slímið, sem er talið upprunið í þörungarblóma sjávar, eyðileggur vantsheldni fuglafjaðra. Við þetta ofkælast fuglarnir, ef þeir komast ekki tímanlega á land til að hreinsa sig.

    Ólíkt t.d. olíuleka þá myndast þetta slím af náttúrulegum völdum, þegar sérstök skilyrði falla saman í sjónum. Þau skilyrði eru uppstreymi næringaríks sjávar til yfirborðs og óvenjumikill sjávarhiti. Samkvæmt rannsóknum þá ná slíkir þörungablómar nú meiri útbreiðslu, endast lengur og gerast oftar en áður. Vísindamenn telja möguleika á því að aukningin sé vegna hlýnunar sjávar og breytinga á sjávarstraumum og loftslagi.

    ____________________________________________
    *Sá sem þetta skrifar var á sjó við Húnaflóa þegar grúturinn var sem mestur á Norðanverðu landinu sumarið 1991 og rifjaði þessi frétt upp þá tíma. Þó varla sé hægt að kenna hlýnun sjávar um þann grút – vegna þess að sjávarhiti var ekki óvenjulegur þetta sumar, auk þess að um var að ræða dauða á rauðátu – þá er spurning hvort möguleiki sé að grútarmengun við Íslandsstrendur geti orðið algengari við hlýnun sjávar? Annars eru fréttir af grútarmenguninni við Íslandsstrendur úr morgunblaðinu frá þessu ári áhugaverðar – sérstaklega áhugavert að skoða fréttirnar í réttri röð en mikið var rætt um hvað olli þessari mengun: Föstudaginn 12. júlí, 1991Fimmtudaginn 18. júlí, 1991 og Laugardaginn 27. júlí, 1991 

  • Mest lesið

    IMG_4140-1Frá opnun síðunnar þann 19. september til loka október birtust 90 færslur, þ.e. fréttir, blogg, heit efni ásamt gestapistlum o.fl. En hvað er vinsælast? Hér verður birtur topp 10 listinn yfir mest lesnu færslurnar. Í þessum tölum eru ekki fastar síður, eins og þær sem eru undir “Vísindin á bak við fræðin” hér á hliðarstikunni eða yfirlitssíður eins og “Um síðuna” og fleira í þeim dúr.

    En hvað hefur verið vinsælast, þ.e. mest lesið á þessum fyrstu vikum, kíkjum nánar á það:

    1. Er jörðin að hlýna? – Blogg þar sem reynt er að svara þessari spurningu – þessi færsla hefur jafnframt fengið flestar athugasemdir.
    2. Vegur niðursveifla í virkni sólar upp á móti hlýnun jarðar af mannavöldum – Frétt, þar sem sagt er frá nýlegri grein sem birtist í Geophysical Research Letters sem m.a. segir, að frá árinu 2002-2008 hafi minni útgeislun í sólinni haft áhrif til kólnunar á móti hlýnun jarðar af mannavöldum.
    3. Meðalsjávarhiti í ágúst sá hæsti fyrir mánuðinn síðan mælingar hófust – Frétt, þar sem farið er yfir helstu hitatölur ágústmánaðar út frá gögnum NOAA.
    4. Mikil bráðnun Grænlandsjökuls fyrir 6000-9000 árum síðan – Frétt um nýlega grein í Nature þar sem bráðnun Grænlandsjökuls á tímabilinu er skoðuð.
    5. Færri Bandaríkjamenn telja traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun – Nýleg könnun í Bandaríkjunum sýnir fram á að færri en áður telja traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun.
    6. Þynning jökla á Grænlandi og Suðurskautinu – Umfangsmikil rannsókn á jöklum Suðurskautsins og Grænlands sýnir að jökulþynning er hafin.
    7. Um gróðurhúsaáhrif og afleiðingar þeirra – Fyrsti gestapistillinn, eftir Halldór Björnsson sérfræðing á Veðurstofunni.
    8. Fuglar og loftslagsbreytingar – Gestapistill eftir Tómas Grétar Gunnarsson.
    9. Bandarísk auglýsing vekur furðu – Myndband.
    10. Opnist allar gáttir – Blogg Höskuldar sem birtist þann 19. september við opnun síðunnar.

    Myndin hérundir hefur einnig verið notuð á síðunum, en ekki er tölfræðilega vitað, hvort hún er mest notuð af öllum þeim fjölda mynda sem við höfum sett inn frá opnun Loftslag.is, væntanlega ekki 🙂

    akvardanafaelni

  • Blogg: Er jörðin að kólna? – Í tilefni fréttar á Visir.is og Stöð 2

    Föstudaginn 20. október birtist frétt á Stöð 2 og á Visir.is, undir yfirskriftinni “Jörðin er að kólna“. Okkur hér á ritstjórninni þótti þetta frekar undarleg frétt, þannig að við báðum um frekari upplýsingar frá fréttamanninum sem gerði fréttina. Við erum honum þakklátir fyrir, að hann var okkur innan handar og gaf okkur tengil á fréttina sem hann hafði unnið sína frétt eftir. En áður en við kíkjum á það viljum við koma betur inn á innihald fréttarinnar á Vísi og Stöð 2.

    Hnattrænt hitastig samkvæmt GISS gögnum frá árinu 1980. Rauða línan sýnir árleg gögn, stóri rauði kassinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009 úr frá hitastigi frá janúar-ágúst. Græna línan sýnir 25 ára leitnilínu (0,19°C á áratug). Bláa línurnar sýna síðustu tvær tíu-ára leitnilínur (0,18°C á áratug fyrir 1998-2007, 0,19°C fyrir 1999-2008).
    Hnattrænt hitastig samkvæmt GISS gögnum frá árinu 1980. Rauða línan sýnir árleg gögn, stóri rauði kassinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009 úr frá hitastigi frá janúar-ágúst. Græna línan sýnir 25 ára leitnilínu (0,19°C á áratug). Bláa línurnar sýna síðustu tvær tíu-ára leitnilínur (0,18°C á áratug fyrir 1998-2007, 0,19°C fyrir 1999-2008).

    Fyrst og fremst þá virðist vera sem umræða um kólnun Jarðar sé byggð á mælingum sem ná yfir of stuttan tíma til að hægt sé að tala um kólnun. Það eru og verða alltaf sveiflur í hitastigi og þar af leiðandi er ekki marktækt að kíkja á hitastig frá t.d. 2005 og segja að leitni hitastigs sé lækkandi. Við fjölluðum um þetta á þessum síðum fyrir ekki svo löngu síðan í frétt um að tölfræðilegar upplýsingar túlkaðar af tölfræðingum benda til að jörðin sé að hlýna. Vísindamenn hafa bent á að tímabundnar sveiflur í veðurfari til nokkurra ára séu ekki mælikvarði á sveiflur í loftslagi. Sjá t.d. mýtuna “Það er að kólna en ekki hlýna“.

    Í fréttinni er talað um að “Vísindamenn sem trúa því ekki að jörðin sé að hlýna af mannavöldum benda á þessar tölur máli sínu til stuðnings.” Ekki er bent á tölur í fréttinni, þannig að erfitt er að sjá hvaða tímabil er verið að tala um. Fyrir utan fáa vísindamenn sem eru sumir hverjir sérfræðingar í öðru en loftslagsfræðum, þá er, samkvæmt könnun sem gerð var meðal vísindamanna, stór hluti af sérfræðingum í loftslagsmálum sammála um að  mannlegar athafnir sé stór þáttur í að breyta hnattrænum meðalhita jarðar.

    Tilvitnun í loftslagssérfræðinginn Mojib Latif frá Þýskalandi er einnig hluti fréttarinnar, þar sem segir að hann spái því að Jörðin fari kólnandi í kannski áratug eða svo. Við tókum þessi orð Mojib Latif fyrir í færslu hér á heimasíðunni þann 9. október s.l., færslan nefndist því lýsandi nafni “Hvernig verða mýtur til?“, þar er farið nokkuð vel í það sem Mojib Latif segir í raun og veru, og hvernig þau orð eru svo rangtúlkuð í kjölfarið.

    Í fréttinni eru loftslagslíkönin einnig nefnd:

    “Hitt er alveg ljóst að loftslagslíkönin sem þeir vísindamenn sem trúa á sekt mannsins hafa vísað til spáðu ekki fyrir um þessa kólnun.

    Þetta viðurkenna bæði trúaðir og vantrúaðir. Mojib Latif viðurkennir að mjög þurfi að bæta líkönin.”

    Fyrst er hér að nefna að verið er að blanda saman trúarbrögðum og vísindum, hægt er að benda á færslu um trúarbrögð í loftslagsvísindum sem nánari lesningu. Þess ber einnig að geta að loftslagslíkön eru að sjálfsögðu í stöðugri þróun, og Mojib Latif er einn af þeim fjölmörgu sem taka þátt í því starfi að gera þau betri. Vísindamenn eru enn að átta sig á því hvernig samspil hina ýmsu þátta er í loftslagsfræðunum, og það er starf sem er alltaf í gangi.

    Þetta voru helstu atriði sem við vildum fá fram varðandi þessa frétt, ásamt því kannski að taka fram að spádómar um hlýnun munu ekki að öllu leiti getað varpað ljósi á náttúrulegar sveiflur, sem ýmist magna upp (magnandi svörun) undirliggjandi hlýnun vegna gróðurhúsalofttegunda eða draga úr og jafnvel lækka hitastig til skemmri tíma. Það er svo sem ekkert nýtt í því, en til lengri tíma gera spár ráð fyrir hlýnun jarðar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Hversu mikil hækkun hitastigs verður er nokkurri óvissu háð, sjá meira um óvissu.

    Það sem við settum fyrir okkur þegar við sáum fréttina, var að okkur fannst vanta heimildir, þ.a.l. sendum við fréttamanninum tölvupóst og báðum hann um heimildir fyrir þessari frétt. Hann sendi okkur í kjölfarið tengil á heimildina, sem var frétt af FoxNews. Sú frétt er nokkuð samhljóða fréttinni af Stöð 2 og Vísi. Í þeirri frétt er einnig tengill á grein sem tekin er af The Wall Street Journal, svo virðist vera sem frétt FoxNews sé unnin upp úr þeirri grein, sem er eftir mann að nafni Jeffrey Ball.

    Við viljum að lokum benda á að okkur þykir miður þegar fjallað er um jafn mikilvægt málefni eins og loftslagsbreytingar, á þann hátt að verið er að hampa mýtum, þ.e. fullyrðingar sem ekki eru byggður á traustum vísindalegum grunni.

  • Frétt: Örður auka virkni metans sem gróðurhúsalofttegund

    news_2009_smogoverLANýleg grein í Science eftir loftslagsvísindateymi frá NASA hefur með tilraunum og loftslagslíkönum fundið aukna virkni metans (CH4) og kolmónoxíð (CO) sem gróðurhúsalofttegundir. Á móti kemur að áhrif Níturoxíð (N2O) virðist vera minna en áður.

    Metan, sem er mikilvirk gróðurhúsalofttegund en í mun minna magni en CO2, virðist auka gróðurhúsavirkni sína þegar það tengist örðum (e. aerosols), t.d. fínu ryki, sjávarsalti, súlfati og svörtu kolefni (sóti). Hingað til hafa gróðurhúsaáhrif metans verið talin 25 sinnum áhrifameira en samsvarandi magn CO2, en þessar nýju rannsóknir benda til þess að það sé um 33 sinnum áhrifameira (það er þó nokkur óvissa um nákvæma tölu).

    Höfundar telja að taka verði tillit til þessa við framtíðaráætlanir við að minnka losun gróðurhúsaáhrifa og að auka þá sérstaklega áhersluna á að minnka losun á skammtímamengunarefnum (e. short-lived pollutants) eins og metan, kolmónoxíð, VOC og örðum – samfara minnkandi losun CO2. Með því móti mætti draga úr hlýnun frekar fljótt á meðan minnkandi losun langtímagróðurhúsalofttegunda, líkt og CO2, taka mun lengri tíma að hafa áhrif. Hagkvæmni minnkandi losunar metans með því að nýta það sem orkugjafa vekur einnig vonir á að þetta sé álitleg lausn.

    Aukning nokkurra gróðurhúsalofttegunda síðastliðna áratugi.
    Aukning nokkurra gróðurhúsalofttegunda síðastliðna áratugi.

    Metan, örður og aðrar skammtímamengunarefni mynda flókin efnafræðileg tengsl. Sem dæmi þá getur metan aukið ósón í veðrahvolfinu sem er slæmt fyrir uppskeru. Það getur einnig að lokum oxast yfir í CO2 eða með öðrum efnaferlum myndað vatnsgufu í heiðhvolfinu – sem myndar einnig áhrifarík gróðurhúsaáhrif. Enn önnur áhrif metans er nýfundin tilhneiging þess að minnka myndun kælandi súlfat-arða.

    Höfundar segja ennfremur að langtíma loftslagslíkön verði að taka þetta inn í myndina til að gefa skýrari mynd af framtíðarloftslagsbreytingum. Enn eru þessar niðurstöður þó á frumstigi og því nauðsynlegt að fleiri skoði þennan möguleika, svo hægt sé að komast að samkomulagi um það hvernig best sé að tækla þetta. Einn af óvissunum er sú að ef reglugerðum verður breytt þannig að losun muni minnka mikið á svörtu kolefni, þá geti áhrifin orðið þau að minnkandi kælandi áhrif þess verði til þess að það hlýni enn frekar.

    Þetta eru stórar fréttir í heimi loftslagsvísindanna og við munum fylgjast með þessu áfram. Einn höfundanna skrifar einnig á RealClimate og því hljótum við að búast við frétt um málið fljótlega á þeim slóðum.

    Heimildir

    Skoða má ágrip af greininni hér: Schindel o.fl. – Improved Attribution of Climate Forcing to Emissions

    Góða umfjöllun má finna á heimasíðu Nature, sjá hér: Aerosols make methane more potent 

  • Blogg: Geimgeislar Svensmarks og hlýnun jarðar

    Hvað eru geimgeislar?

    Geimgeislar eru í raun ekki geislar, heldur há-orkueindir, mest róteindir, en einnig rafeindir og kjarni frumeindarinnar helíum, sem streyma um geiminn frá sólinni og öðrum stjörnum og meðal annars inn í lofthjúp jarðar.

    Magn geimgeisla sem ná jörðinni sveiflast upp og niður í öfugu hlutfalli við virkni sólar (sólbletta), 11 ára sveifla – en þegar sólin er virk þá heldur segulsvið hennar geimgeislum frá jörðinni.

    Kenningin um áhrif geimgeisla á loftslag

    Henrik Svensmark
    Henrik Svensmark

    Sumar rannsóknir hafa sýnt fylgni í ákveðnum heimshlutum á milli geimgeisla og aukningar í myndun lágskýja. Út frá þessari fylgni hafa menn dregið þær ályktanir að geimgeislar séu megin orsök aukinnar skýjamyndana, sem myndi hafa kælandi áhrif vegna aukins endurskins sólargeisla aftur út í geim.

    Kenningin gengur sem sagt út á það að áhrif sólvirkni hafi verið vanmetin, þar sem virkari sól myndi valda því að minna af geimgeislum kæmu inn í lofthjúpinn og að skýjamyndun yrði fyrir vikið minni og þar af leiðandi yrði meiri hlýnun.

    Henrik Svensmark hefur verið leiðandi í umræðunni um áhrif geimgeisla á loftslag (Svensmark o.fl 1998) og heldur þeirri kenningu enn fram að þeir hafi ráðandi áhrif á loftslag jarðar (Svensmark o.fl. 2009), þrátt fyrir fjölmörg bakslög og gögn sem sýna fram á annað.

    Til að kenningin gangi upp, þá þarf að svara þremur spurningum játandi:

    1. Valda auknir geimgeislar aukinni skýjamyndun?
    2. Breytir mismunandi skýjahula hitastigi jarðar?
    3. Skýrir breyting í skýjahulu þá hlýnun sem orðið hefur undanfarna áratugi?

    Valda auknir geimgeislar aukinni skýjamyndun?

    Ekki hafa fundist sannfærandi gögn sem sýna fram á að geimgeislar hafi áhrif á skýjahulu. Sérfræðingar í eðlisfræði skýja segja líkurnar litlar á því að jónun andrúmslofts vegna geimgeisla geti myndað nógu stórar örður (e. aerosols) til að mynda ský. Og þó það geti gerst þá þykir það enn ólíklegra að það myndi hafa töluverð áhrif á skýjamagn í andrúmsloftinu. Svensmark hefur birt línurit sem sýna fylgni milli geimgeisla og gervihnattamælinga á skýjahulu. Þessi fylgni hefur verið hrakin ( Laut 2003). Til að fá þessa fylgni þurfti að “verka” gögnin til að halda fylgninni, auk þess sem fylgninni lauk árið 1994:

     
    Fylgni milli geimgeisla (rauð lína) og skýjahulu (blá lína). Fylgni milli geimgeisla (rauð lína) og skýjahulu (blá lína). 

    Í kjölfarið á því að kenning hans um tengsl skýjahulu og geimgeisla var hrakin, leitaði Svensmark annarra leiða til að veita kenningu sinni brautargengi. Hann bjó til nýtt línurit sem sýndi tengsl milli lágskýja og geimgeisla – enn á ný þurfti hann að leiðrétta gervihnattagögnin til að fylgnin væri rétt og fékk hann enn á ný ákúrur frá sérfræðingum í loftslagseðlisfræði. Á það hefur einnig verið bent að ef geimgeislar hefðu áhrif á skýjahulu, þá yrðu áhrif þess innan nokkurra daga. Eftir 1991 þá eru sex mánuðir á milli þess sem áhrifin koma fram. Enn að auki, þá hefur verið bent á að geimgeislar sýni meiri breytileika á hærri breiddargráðu og því ætti breytileiki í skýjahulu að vera meira á heimskautasvæðunum. Sú tenging hefur ekki fundist.

    Breytir mismunandi skýjahula hitastigi jarðar?

    Svensmark segir að í heild þýði lítið af skýjum – heitari jörð, að minni hiti týnist vegna endurgeislunar skýja á daginn og að það vegi meira en hitatap á nóttinni. Um þetta eru menn ekki sammála. Í raun eru skýin enn eitt helsta þrætuepli vísindamanna um loftslagsbreytingar. Deilt er um hvort mælingar á skýjahulum með gervihnöttum sýni rétta mynd af breytingum skýjahulu og hvort breytingar sem sjást hafi áhrif á hitastig. Sumir halda því fram að skýin geti hægt á hlýnuninni, aðrir að þau geti magnað þau upp (sjá Magnandi svörun). Allt í allt, þá er óvissan mikil.

    Skýrir breyting í skýjahulu þá hlýnun sem orðið hefur undanfarna áratugi?

    Þessi spurning er ef til vill mikilvægust, því jafnvel þótt hægt yrði einhvern veginn að tengja saman geimgeisla og skýjahulu og áhrif á hitastig, þá getur það ekki útskýrt hlýnunina síðustu áratugi. Beinar mælingar á geimgeislum síðastliðin 50 ár sýna ekki niðursveiflu í geimgeislum, sem ætti að vera í öfugu hlutfalli við hlýnunina síðastliðna áratugi:

    Sveiflur í geimgeislum síðastliðin 50 ár (mynd tekin af heimasíðu ngdc.noaa.) Sveiflur í geimgeislum síðastliðin 50 ár (mynd tekin af heimasíðu ngdc.noaa.) 
    Sambærilegt plott sem sýnir hversu lítil fylgni er á milli hitabreytinga og geimgeisla. Sambærilegt plott sem sýnir hversu lítil fylgni er á milli hitabreytinga og geimgeisla. 

     Einn vísindamaður hjá NASA tekur svona til orða:

    “While the experiments were potentially of interest, they are a long way from actually demonstrating an influence of cosmic rays on the real world climate, and in no way justify the hyperbole that Svensmark and colleagues put into their press releases and more ‘popular’ pieces. Even if the evidence for solar forcing were legitimate, any bizarre calculus that takes evidence for solar forcing of climate as evidence against greenhouse gases for current climate change is simply wrong. Whether cosmic rays are correlated with climate or not, they have been regularly measured by the neutron monitor at Climax Station (Colorado) since 1953 and show no long term trend. No trend = no explanation for current changes.” Dr. Gavin Schmidt NASA/GISS

     Nýlegar fréttir af Svensmark

    00cern2009Svensmark og félagar hafa verið á fullu við tilraunir á því hvort geimgeislar geti myndað ský (sjá umfjöllun á bloggi Ágústs Bjarnasonar).

    Svensmark hefur verið duglegur að koma með yfirlýsingar um ágæti kenningunnar um geimgeisla og hverjar niðurstöður tilrauninnar verði, án þess að koma með niðurstöður til að styðja þær. Sjá t.d. fréttatilkynningu í heimildalista, en þar segir meðal annars:

    Our team at the Danish National Space Center has discovered that the relatively few cosmic rays that reach sea-level play a big part in the everyday weather. They help to make low-level clouds, which largely regulate the Earth’s surface temperature.

    Einnig segir þar:  

    The recent discovery by our team in Copenhagen of the chemical mechanism of cosmic-ray action on cloud formation thus brings to a climax a scientific quest that has lasted two centuries.

    Það skal tekið fram að ef rétt væri það sem Svensmark segir í þessari fréttatilkynningu, þá væri hann væntanlega búinn að fá nóbelinn fyrir þetta brautryðjendastarf í loftslagsfræðunum.

    Í haust kom svo út grein eftir Svensmark og félaga í Geophysical Research Letter (Svensmark o.fl 2009). Ágrip greinarinnar má sjá hér:

    Close passages of coronal mass ejections from the sun are signaled at the Earth’s surface by Forbush decreases in cosmic ray counts. We find that low clouds contain less liquid water following Forbush decreases, and for the most influential events the liquid water in the oceanic atmosphere can diminish by as much as 7%. Cloud water content as gauged by the Special Sensor Microwave/Imager (SSM/I) reaches a minimum ≈7 days after the Forbush minimum in cosmic rays, and so does the fraction of low clouds seen by the Moderate Resolution Imaging Spectroradiometer (MODIS) and in the International Satellite Cloud Climate Project (ISCCP). Parallel observations by the aerosol robotic network AERONET reveal falls in the relative abundance of fine aerosol particles which, in normal circumstances, could have evolved into cloud condensation nuclei. Thus a link between the sun, cosmic rays, aerosols, and liquid-water clouds appears to exist on a global scale.

     Loftslagssérfræðingarnir á RealClimate voru ekki uppnumnir yfir þessum niðurstöðum og sögðu meðal annars að þessi tengsl væru undarleg, þar sem líftími þessara skýja væri talinn vera einhverjar klukkustundir, ekki heil vika eða þar um bil. Einnig benda þeir á að í greininni þá fjalli Svensmark og félagar ekki um þann skort á tengslum á milli geimgeisla og loftslagsbreytinga og sleppa því að benda á viðeigandi greinar sem stangast á við þeirra kenningar. Í vísindum, þá þarf að taka efnislega á andstæðum kenningum og mæliniðurstöður, til að veita sinni eigin kenningu brautargengi. 

    Svensmark heldur áfram að láta bera á sér í fjölmiðlum t.d. í Jótlandspóstinum, sjá t.d. umfjöllun á bloggi Ágústs Bjarnasonar en þar segir Svensmark meðal annars:

    Faktisk er den globale opvarmning standset, og en afkøling er så småt begyndt. Ingen klimamodel har forudsagt en afkøling af Jorden, tværtimod. Det betyder, at prognoser for fremtidens klima er utilregnelige 

    Hér fellur Svensmark í þá gryfju að tala um að nú sé að kólna. Það er nefnilega eitt af því sem ætti að vera að gerast nú samkvæmt kenningum Svensmark – það ætti að vera að kólna og reyndar hratt miðað við kenningar Svensmark – því virkni sólar er í miklu lágmarki nú. Sú kólnun lætur samt bíða eftir sér allavega samkvæmt mæliniðurstöðum (sjá t.d. mýtuna um að það sé að kólna). Fleiri rangfærslur eru í blaðagrein Svensmarks, t.d. varðandi miðaldarhlýnunina (sjá t.d. mýtuna um að það hafi verið hlýrra á miðöldum). Svo virðist sem Svensmark vilji með þessari blaðagrein sannfæra fólk um ýmsar mýtur til að styrkja sinn vísindagrundvöll. En blaðagreinar með skrítnum yfirlýsingum skila engum vísindalegum niðurstöðum eins og bent hefur verið á hér fyrir ofan.

    Greinar og athuganir annarra

    Það sem gerir það að verkum að loftslagssérfræðingar heims eru flestir á öndverðu meiði við kenningar Svensmark er einfaldlega vegna þess að vísindalegar niðurstöður annarra eru í miklu ósamræmi við kenningar hans. Úr mörgum greinum er að velja, en hér er bent á nokkrar nýlegar greinar.

    —-

    Kristjánsson o.fl. (2008): Hafði þessa grein efst þar sem Íslendingur er þar í fararbroddi.  Þar segir meðal annars:

    The overall conclusion, built on a series of independent statistical tests, is that no clear cosmic ray signal associated with Forbush decrease events is found in highly susceptible marine low clouds over the southern hemisphere oceans. Whether such a signal exists at all can not be ruled out on the basis of the present study, due to the small number of cases and because the strongest Forbush decrease events indicate slightly higher correlations than the average events…

    For the ongoing global warming, however, the role of galactic cosmic rays would be expected to be negligible, considering the fact that the cosmic ray flux has not changed over the last few decades…

    Fjallað var lítillega um þessa niðurstöðu á mbl.is, en niðurstaðan er sú að geimgeislar hafi hverfandi áhrif á hlýnun jarðar.

    —-

    Erlykin o.fl. (2009): Þar segir meðal annars:

    The long term variations of each of the cosmic ray rate and the solar irradiance are observed to be less than their cyclic variations. Therefore, assuming that there is a causal link between either of them with the mean global surface temperature, the long term variation of the temperature must be less than the amplitude of its cyclic variation of 0.07°C. Hence within our assumptions, the effect of varying solar activity, either by direct solar irradiance or by varying cosmic ray rates, must be less than 0.07°C since 1956 i.e. less than 14% of the observed global warming. 

    Niðurstaðan er sú að frá 1956, þá hafa samanlögð áhrif sólvirkni og geimgeisla átt þátt í minna en 14% af þeirri hlýnun jarðar sem hefur átt sér stað síðan þá. 

    —-

    Pierce og Adams (2009): Þar segir meðal annars:

     In our simulations, changes in CCN from changes in cosmic rays during a solar cycle are two orders of magnitude too small to account for the observed changes in cloud properties; consequently, we conclude that the hypothesized effect is too small to play a significant role in current climate change.

    Niðurstaðan er sú að breytingar í geimgeislum séu of litlar til að hafa áhrif á ský og þar með eru áhrifin of lítil til að vera mikilvægur þáttur í núverandi hlýnun jarðar.

    —-

    Kulmala o.fl (2009): Þar segir meðal annars:

    …Here, we report unique observations on atmospheric aerosol formation based on measurements at the SMEAR II station, Finland, over a solar cycle (years 1996–2008) that shed new light on these presumed relationships. Our analysis shows that none of the quantities related to aerosol formation correlates with the cosmic ray-induced ionisation intensity (CRII). We also examined the contribution of ions to new particle formation on the basis of novel ground-based and airborne observations. A consistent result is that ion-induced formation contributes typically less than 10% to the number of new particles, which would explain the missing correlation between CRII and aerosol formation. Our main conclusion is that galactic cosmic rays appear to play a minor role for atmospheric aerosol formation, and so for the connected aerosol-climate effects as well.

    …Here we have shown, based on long-term experimental data, that atmospheric nucleation frequency or nucleation mode particle concentrations do not show correlation with galactic cosmic rays on either yearly or monthly basis. The geomagnetic activity showed similar seasonal behaviour as nucleation event frequencies, peaking in spring and autumn, but this similarity seems to be caused by different reasons. Accordingly, no significant daily correlation between these variables was found. Our results do not support the idea that the ions produced by galactic cosmic rays would be a major factor behind secondary aerosol production and the related aerosol-cloud interactions.

     Með mælingum yfir heila sólarsveiflu þá fannst lítil fylgni milli geimgeisla og myndunar þeirra agna sem eiga þátt í myndun skýja.

     

    Niðurstaða

    Niðurstaðan er sem sagt  sú að ólíklegt er að geimgeislar hafi áhrif á skýjahulu, en ef svo ólíklega vildi til að þeir hefðu áhrif á skýjahulu, þá deila menn um það hvaða áhrif það hefði á hitastig og þrátt fyrir að það hefði einhver áhrif á hitastig, þá útskýra geimgeislar ekki hlýnunina síðastlliðna áratugi.

    Tilhneyging Svensmark að koma með ótímabærar yfirlýsingar hafa orðið til þess að hann hefur misst töluvert af þeim trúverðugleika sem hann hafði, því smátt og smátt hafa menn áttað sig á því, að þó að hugmyndir hans séu (eða voru) áhugaverðar, þá benda mæliniðurstöður og líkön til þess að geimgeislar hafi mjög lítil áhrif á myndun skýja og þar með á loftslag á jörðinni. Það er ekki þar með sagt að áhrifin séu engin og eflaust á tilraun þeirra eftir að varpa einhverju ljósi á það hvaða áhrif geimgeislar hafa á loftslag – líklegt er að niðurstaðan verði á endanum þau að þeir hafi hverfandi áhrif á loftslag – allavega ef miðað er við þau áhrif sem losun manna á CO2 hefur.

    Ég ætla að enda á áhugaverðum orðum Barrie Pittock (2009) en hann tók saman áhugaverða grein um áhrif sólar á loftslag:

    Quite early in my career as a climate change scientist it was seriously put to me  that as I was a well-known sceptic re solar–weather connections, naturally I would be sceptical of human-induced climate change. I thought I was, but the growing body of evidence convinced me that my scepticism was unjustified and that I needed to get into the details to make this knowledge useful. Maybe that will happen in due course with solar–weather/climate variations, but I doubt such relationships will ever explain a useful amount of the variance. If it did, the correlation would be so large that it would already be well established, mechanism and all.

    Heimildir

    Nokkrar heimildir um kenningar Svensmark:

    Svensmark 1998 – Influence of cosmic rays on Earth’s climate

    Fréttatilkynning frá Svensmark má finna hér: Influence of Cosmic Rays on the Earth’s Climate

    Svensmark o.fl 2009 – Cosmic ray decreases affect atmospheric aerosols and clouds

    Nokkrar heimildir þar sem tengsl milli geimgeisla og skýjahulu eða hlýnunar eru sögð lítil eða engin:

    Laut 2003 –  Solar activity and terrestrial climate: an analysis of some purported correlations

    Kristjánsson o.fl. 2008 – Cosmic rays, cloud condensation nuclei and clouds – a reassessment using MODIS data

    Erlykin o.fl. 2009 – Solar activity and the mean global temperature

    Pierce og Adams 2009 – Can cosmic rays affect cloud condensation nuclei by altering new particle formation rates?

     Kulmala o.fl. 2009 – Atmospheric data over a solar cycle: no connection between galactic cosmic rays and new particle formation

    Pittock 2009 – Can solar variations explain variations in the Earth’s climate? – An editorial comment