Blogg: Er jörðin að kólna? – Í tilefni fréttar á Visir.is og Stöð 2

Föstudaginn 20. október birtist frétt á Stöð 2 og á Visir.is, undir yfirskriftinni “Jörðin er að kólna“. Okkur hér á ritstjórninni þótti þetta frekar undarleg frétt, þannig að við báðum um frekari upplýsingar frá fréttamanninum sem gerði fréttina. Við erum honum þakklátir fyrir, að hann var okkur innan handar og gaf okkur tengil á fréttina sem hann hafði unnið sína frétt eftir. En áður en við kíkjum á það viljum við koma betur inn á innihald fréttarinnar á Vísi og Stöð 2.

Hnattrænt hitastig samkvæmt GISS gögnum frá árinu 1980. Rauða línan sýnir árleg gögn, stóri rauði kassinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009 úr frá hitastigi frá janúar-ágúst. Græna línan sýnir 25 ára leitnilínu (0,19°C á áratug). Bláa línurnar sýna síðustu tvær tíu-ára leitnilínur (0,18°C á áratug fyrir 1998-2007, 0,19°C fyrir 1999-2008).

Hnattrænt hitastig samkvæmt GISS gögnum frá árinu 1980. Rauða línan sýnir árleg gögn, stóri rauði kassinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009 úr frá hitastigi frá janúar-ágúst. Græna línan sýnir 25 ára leitnilínu (0,19°C á áratug). Bláa línurnar sýna síðustu tvær tíu-ára leitnilínur (0,18°C á áratug fyrir 1998-2007, 0,19°C fyrir 1999-2008).

Fyrst og fremst þá virðist vera sem umræða um kólnun Jarðar sé byggð á mælingum sem ná yfir of stuttan tíma til að hægt sé að tala um kólnun. Það eru og verða alltaf sveiflur í hitastigi og þar af leiðandi er ekki marktækt að kíkja á hitastig frá t.d. 2005 og segja að leitni hitastigs sé lækkandi. Við fjölluðum um þetta á þessum síðum fyrir ekki svo löngu síðan í frétt um að tölfræðilegar upplýsingar túlkaðar af tölfræðingum benda til að jörðin sé að hlýna. Vísindamenn hafa bent á að tímabundnar sveiflur í veðurfari til nokkurra ára séu ekki mælikvarði á sveiflur í loftslagi. Sjá t.d. mýtuna “Það er að kólna en ekki hlýna“.

Í fréttinni er talað um að “Vísindamenn sem trúa því ekki að jörðin sé að hlýna af mannavöldum benda á þessar tölur máli sínu til stuðnings.” Ekki er bent á tölur í fréttinni, þannig að erfitt er að sjá hvaða tímabil er verið að tala um. Fyrir utan fáa vísindamenn sem eru sumir hverjir sérfræðingar í öðru en loftslagsfræðum, þá er, samkvæmt könnun sem gerð var meðal vísindamanna, stór hluti af sérfræðingum í loftslagsmálum sammála um að  mannlegar athafnir sé stór þáttur í að breyta hnattrænum meðalhita jarðar.

Tilvitnun í loftslagssérfræðinginn Mojib Latif frá Þýskalandi er einnig hluti fréttarinnar, þar sem segir að hann spái því að Jörðin fari kólnandi í kannski áratug eða svo. Við tókum þessi orð Mojib Latif fyrir í færslu hér á heimasíðunni þann 9. október s.l., færslan nefndist því lýsandi nafni “Hvernig verða mýtur til?“, þar er farið nokkuð vel í það sem Mojib Latif segir í raun og veru, og hvernig þau orð eru svo rangtúlkuð í kjölfarið.

Í fréttinni eru loftslagslíkönin einnig nefnd:

“Hitt er alveg ljóst að loftslagslíkönin sem þeir vísindamenn sem trúa á sekt mannsins hafa vísað til spáðu ekki fyrir um þessa kólnun.

Þetta viðurkenna bæði trúaðir og vantrúaðir. Mojib Latif viðurkennir að mjög þurfi að bæta líkönin.”

Fyrst er hér að nefna að verið er að blanda saman trúarbrögðum og vísindum, hægt er að benda á færslu um trúarbrögð í loftslagsvísindum sem nánari lesningu. Þess ber einnig að geta að loftslagslíkön eru að sjálfsögðu í stöðugri þróun, og Mojib Latif er einn af þeim fjölmörgu sem taka þátt í því starfi að gera þau betri. Vísindamenn eru enn að átta sig á því hvernig samspil hina ýmsu þátta er í loftslagsfræðunum, og það er starf sem er alltaf í gangi.

Þetta voru helstu atriði sem við vildum fá fram varðandi þessa frétt, ásamt því kannski að taka fram að spádómar um hlýnun munu ekki að öllu leiti getað varpað ljósi á náttúrulegar sveiflur, sem ýmist magna upp (magnandi svörun) undirliggjandi hlýnun vegna gróðurhúsalofttegunda eða draga úr og jafnvel lækka hitastig til skemmri tíma. Það er svo sem ekkert nýtt í því, en til lengri tíma gera spár ráð fyrir hlýnun jarðar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Hversu mikil hækkun hitastigs verður er nokkurri óvissu háð, sjá meira um óvissu.

Það sem við settum fyrir okkur þegar við sáum fréttina, var að okkur fannst vanta heimildir, þ.a.l. sendum við fréttamanninum tölvupóst og báðum hann um heimildir fyrir þessari frétt. Hann sendi okkur í kjölfarið tengil á heimildina, sem var frétt af FoxNews. Sú frétt er nokkuð samhljóða fréttinni af Stöð 2 og Vísi. Í þeirri frétt er einnig tengill á grein sem tekin er af The Wall Street Journal, svo virðist vera sem frétt FoxNews sé unnin upp úr þeirri grein, sem er eftir mann að nafni Jeffrey Ball.

Við viljum að lokum benda á að okkur þykir miður þegar fjallað er um jafn mikilvægt málefni eins og loftslagsbreytingar, á þann hátt að verið er að hampa mýtum, þ.e. fullyrðingar sem ekki eru byggður á traustum vísindalegum grunni.

Athugasemdir

ummæli

About Sveinn Atli

Sveinn Atli: Fjölskyldumaður og áhugamaður um loftslagsmál.