Grænlandsjökull við ströndina, myndin tengist ekki fréttinni.
Í nýrri grein sem birtist í Nature Geoscience er sagt frá rannsókn þar sem mældar hafa verið árstíðabundnar sveiflur í hraða í skriði jökuls á Suðvestur Grænlandi. Niðurstaðan er sú að á sumrin er hraðinn allt að 220% miðað við hraðann að vetri. Niðurstöðurnar þykja mikilvægar fyrir skilning á því hvernig jöklar munu bregðast við aukinni hlýnun – þ.e. viðbrögð hans við yfirborðsbráðnun og breytingar í vatnskerfi við botn jökulsins.
Jökulbreiða Grænlandsjökuls inniheldur nægilega mikið vatn til að hækka sjávarstöðu hnattrænt um 7 m. Hins vegar er massajafnvægi jökulbreiðunnar illa þekkt og þar með á hvaða hraða jökullinn mun bráðna. Aukin massarýrnun við ströndina hefur orðið samhliða auknum hraða í skriði jökla. Yfirborðsvatn rennur niður að botni jökulsins og talið er að það auki hraðann.
Ian Bartholomew og félagar notuðu GPS móttakara á um 35 kílómetra sniði inn eftir vesturhluta jökulbreiðu Grænlands og mældu þannig hraða jökulsins yfir sumartímann 2008 og veturinn þar á eftir. Mælingarnar sýndu aukinn hraða, en á sama tíma sýndu mælarnir að yfirborðið reis. Túlka þeir það þannig að vatnsþrýstingur lyfti þannig undir jökulinn og að skriðið aukist vegna þess. Hraðinn jókst einnig smám saman lengra frá ströndinni eftir því sem leið á sumarið.
Ein af niðurstöðum höfunda er að við lengri og heitari sumur, þá muni hraðinn aukast lengra inn eftir Grænlandsjökli og því muni bráðnun jökulsins stigmagnast og ná yfir stærra svæði jökulbreiðunnar. Höfundar vonast eftir að þessar nýju upplýsingar séu enn eitt púslið til að auka skilning á því hvernig Grænlandsjökull mun bregðast við aukinni hlýnun.
Í þessu myndbandi frá TED, sýnir ljósmyndarinn James Balog okkur myndskeið frá Extreme Ice Survey verkefninu, sem er net tímastilltra myndavéla sem taka upp hreyfingu jökla. Flestir jöklar eru að hopa og hop þeirra er talið vera skýrt merki um yfirstandandi loftslagsbreytingar. Í myndbandinu útskýrir Balog hvernig verkefnið fer fram. Hann sýnir hvernig breytingar á jöklunum verða sýnilegar þegar notast er við myndir þær sem fást með notkun myndavélanna í verkefninu. Það er áhugavert að sjá þann mismun sem er á jökuljaðrinum á milli ára, sem væri erfiðara sjá ef ekki væri notast við myndavélarnar í verkefninu. Nánar er hægt að lesa um James Balog og fá tengla á verkefnið, hér.
Stutt myndskeið frá Sólheimajökli, tekið á myndavél úr verkefninu.
Oft er gott að fá samhengi í hlutina. Það er hægt að gera með því að bera hlutina sjónrænt við eitthvað sem við teljum okkur þekkja. Stundum vill það verða þannig að gögnin og tölfræðigreiningarnar skyggja á stærðarsamhengið. Gott dæmi um þetta er sá massi sem Grænlandsjökull missir á ári hverju. Þegar vísindamenn ræða um massatap Grænlandsjökuls er oftast talað um gígatonn. Eitt gígatonn er einn milljarður tonna. Til að gera sér þetta í hugarlund, þá er gott að hafa það í huga að 1 gígatonn er u.þ.b. “1 kílómeter x 1 kílómeter x 1 kílómeter”, (reyndar aðeins stærra í tilfelli íss, ætti að vera 1055 m á hvern veg). Til að gera sér í hugarlund hvað 1 gígatonn er þá skullum við bera það saman við hina frægu Empire State byggingu:
Hversu mikið er massatapið á Grænlandsjökli? Með því að fylgjast með og mæla breytingar í þyngdarafli í kringum ísbreiðuna hafa verið notaðir gervihnettir síðasta áratug (Velicogna 2009). Á árunum 2002 og 2003 var tap í ísmassa Grænlandsjökuls u.þ.b. 137 gígatonn á ári.
En massatap Grænlandsjökuls hefur meira en tvöfaldast á innan við áratug. Hraði massatapsins á tímabilinu 2008 til 2009 var um 286 gígatonn á ári.
Þetta er skýr áminning um það að hlýnun jarðar er ekki bara tölfræðilegt hugtak, sett saman á rannsóknarstofum, heldur hefur raunveruleg áhrif.
Við á loftslag.is viljum vekja athygli á ráðstefnu sem haldin er í tilefni af 70 ára afmæli Sigfúsar Johnsen sem er einn af frumkvöðlunum í ískjarnarannsóknum. Ráðstefnan er tvískipt og geta áhugasamir mætt á opna dagskrá á sumardaginn fyrsta . Næstu tvo daga þar á eftir er síðan alþjóðleg ráðstefna með þátttöku 50 erlendra vísindamanna. Hér er tilkynning af heimasíðu Jarðvísindastofnunar Háskólans:
Leyndardómar Grænlandsjökuls – Vitnisburður ískjarna, setlaga og jökla um loftslagsbreytingar og eldgosasögu
Ráðstefna við Háskóla Íslands 22.-24. apríl 2010 í tilefni af 70 ára afmæli Sigfúsar Johnsens
Sigfús Johnsen eðlis- og jöklafræðingur við Hafnarháskóla er einn af kunnustu vísindamönnum Íslendinga um þessar mundir. Hann hefur starfað að borunum og rannsóknum á ískjörnum úr Grænlandsjökli um 40 ára skeið og hafa þær skilað einstökum niðurstöðum um loftslagssögu Norðurhvels Jarðar sl. 125,000 ár. Sigfús verður sjötugur 27. apríl 2010 og af því tilefni verður haldin ráðstefna um loftslagsbreytingar í fortíð og framtíð dagana 22.-24. apríl. Ráðstefnan er skipulögð í sameiningu af Háskóla Íslands, Kaupmannahafnarháskóla, Veðurstofu Íslands og Dansk-íslenska félaginu.
Ráðstefnan verður tvískipt. Sumardaginn fyrsta, 22. apríl, verður efnt til dagskrár á íslensku sem ætluð verður jafnt almenningi og fræðimönnum en dagana 23.-24. apríl verður alþjóðleg ráðstefna með þátttöku 50 erlendra vísindamanna. Sérstök áhersla verður á ískjarnarannsóknir og framlög Sigfúsar Johnsens til þeirra, en einnig verður fjallað um vitnisburð sjávarsets við Ísland og vatnasets á landi um veðurfarssögu. Ennfremur verða fluttir fyrirlestrar um eldgosasögu landsins, um sögu núverandi jökla á Íslandi, framtíðarspár um veðurfar og líklegar breytingar á jöklum við Norður-Atlantshaf á 21. öld.
Opin dagskrá 22. apríl kl. 13:30-17:00, Stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskólans
13:30-13:40 Setning
13:40-14:10 Sigfús Johnsen: Ískjarnaboranir á Grænlandi og veðurfarssaga sl. 150,000 ára
14:10-14:40 Þorsteinn Þorsteinsson: Punktar frá Grænlandsborunum
14:40-15:10 Jón Eiríksson: Sjávarsetlög, hafstraumar og loftslag við Ísland á umliðnum öldum
Kaffihlé
15:30-16:00 Áslaug Geirsdóttir: Vitnisburður vatnasets um veðurfar á Íslandi eftir ísöld
16:00-16:30 Karl Grönvold og Annette Mortensen: Eldgosasaga Íslands rakin í ískjörnum úr Grænlandsjökli
16:30-17:00 Guðfinna Aðalgeirsdóttir: Framtíð Grænlandsjökuls í hlýnandi loftslagi
Alþjóðleg ráðstefna í Hátíðasal Háskóla Íslands 23.-24. apríl.
Ráðstefnan hefst kl. 9 að morgni 23.4. og stendur allan þann dag og fram til hádegis 24.4.
Helstu umfjöllunarefni:
Sögulegt yfirlit um starf Sigfúsar Johnsens við ískjarnaboranir og rannsóknir.
Staða þekkingar á veðurfarssveiflum sl. 150,000 ára.
Sveiflur í styrk gróðurhúslofttegunda sl. 800,000 ár mældar á ískjörnum.
Afkoma Grænlandsjökuls um þessar mundir.
Saga eldgosa og jökla á Íslandi frá ísaldarlokum.
Hlýnandi loftslag á N-Atlantshafssvæðinu og áhrif þess á jökla og hafstrauma.
Á það skal bent að við á loftslag.is erum með viðburðadagatal sem sjá má neðst á stikunni hér til hægri. Ef einhverjir viðburðir reka á fjörur þínar um loftslagsmál eða þú stendur fyrir slíkum viðburði, þá endilega hafðu samband við okkur á loftslag@loftslag.is
Bráðnun Grænlandsjökuls, sem hefur verið að aukast á Suður Grænlandi undanfarinn áratug hefur einnig verið að aukast til norðurs eftir Vesturströnd Grænlands, samkvæmt niðurstöðum í nýlegri grein sem birtist í Geophysical Research Letters.
Niðurstöðuna fengu vísindamennirnir með því að bera þyngdarmælingar frá gervihnettinum GRACE, saman við samfelldar GPS mælingar á berggrunni við jaðar jökulbreiðunnar.
Gögnin frá GPS mælingunum, ásamt þyngdarmælingunum veita upplýsingar um meðal-landris mánaðarlega, af völdum massabreytinga í Grænlandsjökli. Rannsóknateymið fann að landris við Thule flugstöðina á norðvesturströnd Grænlands var um 4 sm frá október 2005 til ágúst 2009. Þótt upplausn gervihnattagagnanna sé of lítil (um 250 * 250 km reitir) til að sýna nákvæmlega hvar jökull bráðnar mest, þá bendir þynning jökulsins við jaðar jökulbreiðunnar til þess að hraði skriðjöklanna sé að aukast.
Myndband um bráðnun í Grænlandsjökli. Eftirfarandi er hluti þeirrar lýsingar sem fylgir myndbandinu á YouTube:
Ný skýrsla tekur saman þá flóknu mynd úr nýjustu vísindaniðurstöðum varðandi jökulbreiður Grænlands með tilliti til loftslagsbreytinga. Skýrslan er bráðabirgða afurð um ástand; snjó, vatns, ís og sífrera á Norðurslóðum og var gerð af helstu sérfræðingum heims og upp úr ritrýndum vísindagreinum sem gefnar voru út fyrir vorið 2009. Skýrslan var kynnt þann 14. desember á viðburði tengdum COP15, í Bellacenter í Kaupmannahöfn.
Þrjár niðurstöður:
1. Jökulbreiður Grænlands eru að missa massa og jöklar losa meiri ís. Jakobshavn Isbræ hefur hopað um 15 kílómetra síðustu 8 ár.
2. Nýlegar spár um breytingu sjávarborðs, sem innihalda framlag jökulbreiðna Grænlandsjökuls og annars íss á landi, ásamt varmaþennslu sjávar, gefa vísbendingar um að sjávarborðbreytingar gætu orðið u.þ.b. 1 meter á þessari öld. Vísindamenn telja að þegar farið er yfir ákeðna vendipunkta, þá geti verið að jökulbreiðurnar fari í ástand, þar sem óafturkallanlegar breytingar geti átt sér stað sem leiði til algerar bráðnunar.
3. Loftslagsbreytingar geta leitt til þess að ný atvinnutækifæri verði til á Grænlandi, en einnig hamlað venjubundnu lífsviðurværi þar.
Bloggfærsla þýdd af Skeptical Science og einnig birt þar
Eitt af því sem vísindamenn hafa áhyggjur af er óstöðugleiki jökulbreiðanna á Grænlandi og á Suðurskautinu. Ef Grænlandsjökull bráðnar að fullu, þá þýðir það allt að 7 m hækkun sjávarstöðu. Að sama skapi þá myndi Vestur Suðurskautið valda um 6 m sjávarstöðuhækkun. Austur Suðurskautið myndi síðan valda um 70 m hækkun sjávarstöðu, en sú jökulbreiða er ólíklegust til að verða fyrir mikilli bráðnun. Því er mikilvægt að rannsaka viðbrögð þessara jökulbreiða við hlýnun jarðar.
Nýlega kom út grein (Stone 2010), en höfundar hennar áætla að styrkur CO2 í andrúmsloftinu, sem yrði til þess að bráðnun Grænlandsjökuls færi á fullt, sé á bilinu 400-560 ppm. Við núverandi losun CO2 út í andrúmsloftið þá verður styrkur þess orðið 400 ppm innan 10 ára.
Þó það sé ákveðin óvissa um eðli jökulbreiðanna, þá eru ýmsar vísbendingar um það hvernig jökulbreiður hegði sér við hlýnun jarðar. Ef við skoðum Grænlandsjökul nánar, hvað segja mælingar okkur þá að sé að gerast á Grænlandi? Þyngdarmælingar frá gervihnöttum sem mæla massajafnvægi hafa sýnt að Grænlandsjökull er að missa massa hraðar og hraðar (Velicogna 2009).
Mynd 1: Breytingar í jökulmassa Grænlandsjökuls áætlað út frá þyngdarmælingum úr gervihnettinum GRACE.Ósíuð gögn eru með bláa krossa og rauðir krossar þegar búið er að sía frá árstíðabundinn breytileika. Besta annars stigs leitnilína er sýnd sem græn lína (Velicogna 2009).
En hvernig vitum við hvernig Grænlandsjökull muni bregðast við hlýnun til lengri tíma litið? Hægt er að skoða hvernig jökullinn hefur brugðist við á fyrri tímabilum jarðsögunnar. Ein af bjartsýnni spám IPCC hljóðar upp á hnattræna hlýnun upp á 1-2°C við lok þessarar aldar. Síðast þegar það gerðist var fyrir um 125 þúsund árum. Á þeim tíma var sjávarstaða um 6 m hærri en hún er í dag (Kopp 2009). Það segir okkur að jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins eru mjög viðkvæmar fyrir stöðugu hærra hitastigi en nú er og að búast megi við því að á næstu öldum hækki sjávarstaða um metra frekar en sentimetra.
Eins og minnst er á hér ofar í formála, þá er komin út grein um stöðugleika Grænlandsjökuls og heitir hún The effect of more realistic forcings and boundary conditions on the modelled geometry and sensitivity of the Greenland ice-sheet (Stone 2010). Við rannsóknina voru notuð gögn sem sýna undirliggjandi landslag á Grænlandi og þykkt jökulsins og þau notuð til að smíða nákvæmt líkan af hreyfingum Grænlandsjökuls. Við gerð líkansins var líkt eftir hegðun jökulsins ef styrkur CO2 í andrúmsloftinu væri stöðugur við 400, 560 og 1120 ppm. Líkanið var síðan keyrt sem samsvarar 400 ár við það ástand.
Niðurstaðan við þær keyrslur er að þótt jökulbreiðan bráðni ekki að fullu við 400 ppm þá missir Grænlandsjökull töluverðan massa eða á milli 20-41%. Hafa ber það í huga að þetta gerist ekki á augnabliki við að styrkur fer yfir 400 ppm – heldur tekur það nokkrar aldir. Við styrkaukningu upp í 560 ppm, missir Grænlandsjökull á milli 52-87% af massa sínum. Ef CO2 fer upp í 1120 ppm, þá verður lítið eftir af jökulbreiðunni eða rýrnun um 85-92%. Mikilvægasta niðurstaða greinarinnar er sú að Grænlandsjökull verður mjög óstöðugur við styrk CO2 í andrúmsloftinu á bilinu 400-560 ppm.
Þetta er töluverð óvissa og líklegt að á næstu árum þá muni menn reyna að festa það betur niður hvar mörkin eru. Þetta bil á milli 400 og 560 ppm er þó hægt að setja í samhengi við spár IPCC um losun CO2 út öldina. Ef ekkert er gert til að draga úr losun á CO2, þá er búist við að styrkur CO2 fari upp í 1000 ppm árið 2100. Jákvæðustu spárnar gera ráð fyrir að styrkur CO2 fari yfir 500 ppm árið 2100.
Mynd 3: Styrkur CO2 mældur á Mauna Loa frá 1958-2008 (svört brotalína) og mismunandi sviðsmyndir IPCC (litaðar línur) (IPCC Data Distribution Centre).
Mynd 3 sýnir vissulega bara spár. En hvernig ætli þetta sé búið að vera að þróast undanfarna áratugi? Losun á CO2 síðustu ár hefur í raun og veru fylgt nokkurn vegin verstu sviðsmyndinni.
Mynd 4: Losun CO2 við bruna jarðefnaeldsneytis og framleiðslu sements, borið saman við IPCC spár um losun.Litaða svæðið sýnir sviðsmyndir IPCC (Copenhagen Diagnosis).
Gervihnattamælingar, gögn um fornloftslag og líkön sem líkja eftir jökulbreiðum sýna öll sambærilega mynd. Hlýnun jarðar hefur gert Grænlandsjökulinn óstöðugan, en sýnt hefur verið fram á að hann er viðkvæmur fyrir stöðugu og hærra hitastigi en nú er. Með áframhaldandi losun CO2 þá er líklegt að á næstu öldum muni Grænlandsjökull valda sjávarstöðuhækkun um nokkra metra. Þá er jökulbreiðan á Suðurskautinu ekki tekin með í myndina, en Suðurskautið er einnig að missa massa á auknum hraða.
Nýjar rannsóknir á bráðnun Grænlandsjökuls benda til þess að fjarðarbráðnun gegni lykilhlutverki í minnkun Grænlandsjökuls. Tvær greinar um málið birtust fyrir stuttu í Nature Geoscience. Mælingar á hitastigi sjávar í nokkrum fjörðum Grænlands, sýna óyggjandi hversu mikil áhrif hlýnandi sjávarstraumar hafa á jökulinn.
Austur Grænland
Fiammetta Straneo o.fl, gerðu ýmsar mælingar á sjónum þar sem Helheimajökull, einn af stærstu jökulstraumunum á Austur Grænlandi gengur í sjó fram í Sermilik firði. Þeir benda á mjög mikla blöndun á hlýrri sjó af landgrunninu og sjó í lokuðum firðinum og telja líklegt að núverandi hröðun í bráðnun jökulsins hafi farið af stað við miklar breytingar í straumum sjávar og lofthjúps.
Sjór frá hlýrri breiddargráðum nær nú að Grænlandsjökli og hefur sett af stað hraðari bráðnun og massaminnkun hans. Þessi hlýji sjór fer um firði Austur Grænlands nokkuð hratt og nær hann því að flytja hita og bræða jökulsporðana nokkuð örugglega.
Massabreeytingar í Grænlandsjökli (Velicogna 2009)
Jökulbreiða Grænlands hefur misst massa hraðar og hraðar undanfarin áratug og hefur átt meiri þátt í hækkun sjávarstöðu en spáð var. Bráðnun vegna hærri lofthita er nokkuð sem hefur verið þekkt – en nú fyrst eru vísindamenn að átta sig á þætti hlýrra sjávarstrauma á bráðnun jökla.
Grunur vísindamanna beindist að nýlegum breytingum í sjávarstraumum á Norður Atlantshafi, sem veitir nú hlýjum sjó á hærri breiddargráður en áður. Það sem hefur skort á til að sannreyna þær tilgátur hefur verið skortur á áreiðanlegum mælingar á ástandi sjávar, sérstaklega áður en þessi hröðun byrjaði.
Í júlí og september 2008 fóru fram umfangsmiklar mælingar á ástandi sjávar í Sermilik firði á Austur Grænlandi. Sermilik fjörður er 100 kílómetra langur og tengir Heilheimajökul við Irmingerhafið.
Djúpt inn í firðinum fundu vísindamennirnir sjó sem var allt að 4°C. Vísindamennirnir notuðu einnig hitamælingar út frá hitamælum sem festir höfðu verið við 19 blöðruseli og tengdir við gervihnetti – er mældu dýpi og hita á þeim slóðum sem selirnir voru. Þær mælingar sýndu að hitinn jókst milli júlí og desember, en að tiltölulega heitt var þó allt árið í kring.
Þetta er fyrsti rannsóknarleiðangurinn í þessa firði sem sýnir hversu öflugir hafstraumar við Austur Grænland er við varmaflutning og að stórar breytingar í sjávarstraumum Norður Atlantshafsins eru að hafa töluverð áhrif á bráðnun jökla á því svæði.
Vestur Grænland
Sjávarhitabreytingar við Vestur Grænland frá 1991-2006 – úr grein Holland o.fl. (smella á til að stækka).
Eric Rignot o.fl. rannsökuðu þrjá jökulfirði á Vestur Grænlandi og fundu að bráðnun jökuls frá heitum sjó væri svipað að mælikvarða og massalosun vegna borgarísjakamyndana – en það var þó mismunandi milli jökla.
Með nákvæmum mælingum á sjávarstraumum, hita og seltu fundu vísindamennirnir út að samtals væru jöklarnir að missa massa mun hraðar við mörk sjávar og jökuls undir yfirborði sjávar, en á yfirborði sjálfs jökulsins. Þetta bendir til þess að heitari sjór sé mikilvægur ef ekki mikilvægasti þátturinn í hinni auknu hopun jökla á Vestur Grænlandi – en hingað til hefur mest verið horft til yfirborðsbráðnunar, en einnig á aukinn skriðhraða og kelfingu í sjó fram, vegna meira vatns við botn jöklanna.
Þetta passar vel við niðurstöður rannsókna Fiammetta Straneo o.fl sem minnst var á hér ofar, á Helheimajökli, en einnig passar þetta vel við niðurstöður rannsókna á sjávarhita sem birt var í Nature Geoscience árið 2008 (Holland o.fl).
Á síðustu árum hafa vísindamenn mælt aukinn hraða bráðnunar Grænlandsjökuls, en aukinn lofthiti hefur aukið á massaminnkun á yfirborði – á meðan snjókoma hefur aukist lítillega. Þetta ásamt fyrrnefndri bráðun við jökulsporðinn hefur þrefaldað massalosun Grænlandsjökuls milli áranna 1996 og 2007.
Bráðnun jökla undir yfirborði sjávar býr til iðustrauma kalds ferskvatns frá jöklinum og hlýs sjávar úr neðri lögum sjávar, þannig að það verður meiri blöndun, sjórinn við jökulinn hlýnar og bræðir meira. Sjór sem er 3°C heitur, getur brætt nokkra metra á dag – eða hundruðir metra yfir heilt sumar.
Rignot segir að þessi rannsókn bendi til þess að þetta samspil hlýrra sjávarstrauma og jökla verði að bæta við í loftslagslíkön – eigi þau að spá fyrir um afdrif Grænlandsjökuls við hlýnandi loftslag. Hingað til hafa loftslagslíkön átt erfitt með að gera grein fyrir þeirri hröðu atburðarrás sem hefur verið í gangi varðandi bráðnun Grænlandsjökuls og mögulega vanmetið áhrif hans til sjávarstöðubreytinga framtíðar.
Mælingar með gervihnöttum (GRACE) og nákvæm líkön sem líkja eftir svæðabundnum breytum í lofthjúpnum, staðfesta að Grænlandsjökull er að tapa massa og að það massatap sé að aukast samkvæmt nýlegri grein í Science sem kom út fyrir um mánuði síðan (minnst var á þessa grein í gestapistli Tómasar Jóhannessonar – Jöklabreytingar og hækkun sjávarborðs heimshafanna).
Dreifing massabreytingunnar milli áranna 2003 og 2008.Reiknuð massabreyting Grænlandsjökuls.
Þetta massatap er bæði vegna aukningu á borgarísjakamyndunum vegna hröðunar jökulstrauma út í sjó og vegna aukinnar bráðnunar við yfirborðið. Undanfarin sumur hafa verið óvenju hlý og því hefur massatapið aukist síðastliðin ár, en á tímabilinu 2006-2008 tapaðist um 273 gígatonn á ári – sem jafngildir 0,75 mm hækkun sjávarstöðu á ári.
Einn höfunda, Jonathan Bamber segir að það sé greinilegt af þessum niðurstöðum að massatap Grænlandsjökuls hefur aukist hratt síðan rétt fyrir aldamót og að undirliggjandi ástæður bendi til þess að það muni aukast næstu ár.
Massabreytingar. Gul lína sínir afrennsli, rauð lína úrkomu, græn lína uppgufun og bláa línan samtals massabreytingu.
Grænlandsjökull inniheldur nóg af vatni til að valda hækkun sjávarstöðu um 6-7 m og þó vitað sé að það gerist ekki á næstu áratugum þá velta menn því fyrir sér hvað muni gerast með áframhaldandi hlýnun jarðar en það veltur einnig á því hversu miklar úrkomubreytingar verða (sjá t.d. áhugaverðan pistil hjá Einari Sveinbjörnssyni um Innlán á jöklum).
Á sama tíma og afrennsli jókst upp úr 1996 þá jókst úrkoma á sama hraða, þannig að það varð nánast engin massabreyting í næstum áratug.
Það ræðst því af hversu hratt hlýnunin vex á Grænlandi og í hafinu við Grænland og um leið hversu mikil úrkoma verður á sömu slóðum, hversu mikið Grænlandsjökull bráðnar.
Alla síðustu viku þá var umræðan sterk í ýmsum bloggmiðlum og fréttamiðlum, bæði hér heima og erlendis, um að vísindamenn við Háskólann í East Anglia (CRU) hefðu stundað falsanir á loftslagsgögnum og hefðu fleira misjafnt í pokahorninu (sjá Blogg: Að stela bíl og nota fyrir sjónvarp).
Svo virðist sem þetta mál sé þannig að vexti að sumir telja að hægt sé að afneita heilli öld loftslagsrannsókna og afgreiða hlýnun jarðar af mannavöldum sem eitt risastórt samsæri. Því miður er það mikill misskilningur á því hvernig vísindin virka.
Þótt við þyrftum að henda öllu því sem þau hjá CRU hafa gert (sem ekkert bendir til) þá hefði það lítil sem engin áhrif á stöðu málanna í dag. Það eru aðrar stofnanir sem stunda loftslagsrannsóknir, t.d. má finna óháðar hitastigsmælingar á heimasíðu NASA, NOAA og JMA – sem sýna svipaða sögu og gögnin frá CRU.
Þetta eru ekki einu gögnin sem sýna að hitastig fer hækkandi, sem dæmi má nefna gögn um hörfun jökla, sjávarstöðubreytingar, úr ískjörnum, snjóalög, sjávarhita og hafísmælingar, svo við nefnum nokkur af þeim gögnum sem vísindamenn nota til að staðfesta hlýnun jarðar. Út frá þessum gögnum hafa þúsundir vísindamanna skrifað tugþúsundir greina um vandamálið: Hlýnun jarðar af mannavöldum.
Það verður að teljast ansi langsótt að vísindamenn séu búnir að fikta við öll þessi gögn og séu allir í einhverju stórkostlegu samsæri. Ef það kemur svo í ljós að vísindamenn CRU hafi átt við gögnin, þá er það vissulega ámælisvert fyrir þá vísindamenn – en það segir ekkert um alla hina.
Hér hefur verið safnað saman tenglum á öll helstu loftslagsgagnasöfn sem í boði eru: Data Sources
Í því samhengi er gott að rifja upp frétt frá því í síðustu viku, en þá kom út áhugaverð skýrsla um stöðu þekkingar á loftslagsbreytingum sem orðið hefur frá því að IPCC skýrslurnar árið 2007 komu út. Þessi skýrsla er unnin upp úr ritrýndum greinum og mikið af þeim gögnum sem vísað er í hér fyrir ofan voru notuð við gerð greinanna sem að skýrslan byggir á.
Hér eru nokkrar myndir úr skýrslunni, en þær tala sínu máli (ásamt texta).
Efri myndin sýnir meðal hitastigsbreytinguna fyrir 2001-2007 samanborið við meðaltal áranna 1951-1980. Neðri myndin sýnir meðalhitastig jarðar frá 1850-2009. Síðasti punkturinn eru bráðabirgðaniðurstöður fyrir árið 2009 (rauður kassi).Hnattrænn hiti jarðar samkvæmt gögnum frá NASA GISS frá 1980 og til dagsins í dag. Rauða línan sínir gögn á ársgrundvelli, rauði ferningurinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009. Græna línan sýnir 25 ára línulega leitni gagnanna (0,19°C á áratug). Bláa línan sýnir tíu ára leitnilínur fyrir árin 1998-2007 (0,18°C á áratug) og fyrir árin 1999-2008 (0,19°C á áratug). Þetta sýnir mikið samræmi við það sem kom fram í spám loftslagslíkana sem IPCC notaði. Heildarsvæði Grænlandsjökuls þar sem afkoma jökulsins er neikvæð hefur aukist um 30% milli 1979 og 2008. Mest varð bráðnunin árið 2007. Um 33-55% af massaminnkun Grænlandsjökuls er vegna bráðnunar og afrennslis. Septemberútbreiðsla hafíss á Norðurskautinu í milljónum ferkílómetra. Rauða línan sýnir beinar mælingar, en svarta línan spár loftslagslíkana IPCC ásamt óvissu. Eins og sést þá hefur bráðnun hafíss farið fram úr svörtustu spám IPCC. 2009 gildið var ekki teiknað inn, en það var hærra en 2008 gildið – eða um 5,1 milljón ferkílómetrar sem er töluvert neðan við spá IPCC.Sjávarstöðubreytingar síðastliðin 40 ár. Rauða línan sýnir mælingar sjávarfalla og útreikninga á sjávarstöðubreytingum frá þeim og bláa línan er fengin út frá gervihnöttum. Gráa svæðið sýnir að spár IPCC hafa vanmetið sjávarstöðubreytingarnar.
Heimildir:
Skýrslan þaðan sem myndirnar voru fengnar má finna á heimasíðunni www.copenhagendiagnosis.com en hún er troðfull af fróðleik um loftslagsvísindin.