Loftslag.is

Tag: Suðurskautið

  • Með aðgerðum þá má halda aftur af sjávarstöðubreytingum

    Með aðgerðum þá má halda aftur af sjávarstöðubreytingum

    Í þessu myndbandi þá ræða nokkrir vísindamenn um bráðnun jökulhvelsins á Suðurskautinu. Með því að takmarka hækkun hitastigs þá má hugsanlega halda aftur af sjávarstöðubreytingum, eða hvað? Fróðlegt myndband þar sem nokkrir vísindamenn velta fyrir sér sviðsmyndum framtíðarinnar varðandi sjávarstöðubreytingar og tengingu við bráðnun á jökla á Suðurskautinu.

    Þetta myndband er úr smiðju Peter Sinclair sem hefur gert myndbönd undir heitinu Greenman3610 á YouTube og hefur oft verið vísað í þau hér á Loftslag.is.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hver er staðan á jöklum Suðurskautsins?

    Hver er staðan á jöklum Suðurskautsins?

    Í síðustu viku birtist grein í tímaritinu Journal of Glaciology um rannsókn á hraða bráðnunar á Suðurskautinu (Zwally o.fl. 2015). Niðurstaða þeirra þykir áhugaverð, en samkvæmt rannsókn þeirra þá virðast jöklar Suðurskautsins vera að aukast þ.e. massajafnvægið virðist jákvætt. Það þýðir að mikil bráðnun jökla á Vestur Suðurskautinu nær ekki að yfirskyggja þykktaraukningu jökla á Austur Suðurskautinu.

    Þar kemur fram að samkvæmt greiningum á gervihnattagögnum ICESat þá hafi jöklar Suðurskautsins aukist um 112 gígatonn á ári frá árinu 1992 til 2001. Sú aukning minnkaði niður í 82 gígatonn á ári milli áranna 2003 og 2008.

    Kort sem sýnir massabreytingar með gervihnettinum ICESat frá 2003-2008 á Suðurskautinu. Mynd: Jay Zwally o.fl./ Journal of Glaciology
    Kort sem sýnir massabreytingar með gervihnettinum ICESat frá 2003-2008 á Suðurskautinu. Mynd: Jay Zwally o.fl./ Journal of Glaciology

     

    Til samanburðar þá birtist grein frá því fyrr á árinu í tímaritinu Earth and Planetary Science Letters, þar sem notuð eru gögn frá Crace gervitunglinu (Harig og Simons 2015). Niðurstaða þeirra er sú að þegar massajafnvægi jökla Suðurskautsins væri skoðuð, kæmi í ljós að hún væri neikvæð um 92 gígatonn frá árinu 2003.

    Massajafnvægi Suðurskautsins samkvæmt Harig og Simons 2015.
    Massajafnvægi Suðurskautsins samkvæmt Harig og Simons 2015.

    Hér virðist vera um  frekar ósamrýmanlegar niðurstöður að ræða, en ef rýnt er í gögnin þá greinir þeim ekki mikið á – þ.e. ef tekið er tillit til þess hvaða tímabil þessar rannsóknir spanna. Í Zwally o.fl. (2015) er ekki unnið úr gögnum lengra en til ársins 2008, en fyrir þann tíma þá mætti álykta að massajafnvægið væri einnig jákvætt samkvætt Harig og Simons (2015), þ.e. ef skoðuð er leitni gagnanna.

    Þessi nýja grein Zwally o.fl. er því í raun ekki í mótsögn við fyrri rannsóknir, þó þeir notist ekki við nýjustu gögn um massajafnvægi Suðurskautsins – en fróðlegt væri að sjá þá vinna úr gögnum fram til dagsins í dag.  Eitt er víst að ekki er hægt að fullyrða út frá grein Zwally o.fl. að jökull Suðurskautsins sé að stækka núna, þó svo virðist vera að hann hafi verið að stækka fram til ársins 2008.

    Heimildir og ítarefni

    Zwally o.fl. 2015: Mass gains of the Antarctic ice sheet exceed losses

    Harig og Simons 2015: Accelerated West Antarctic ice mass loss continues to outpace East Antarctic gains

     

    Ágætis umjöllun má einnig lesa hér:  Antarctic ice – growing or shrinking? NASA vs Princeton and Leeds etc

  • Enn af afneitun – þáttur Sölva Jónssonar

    Enn af afneitun – þáttur Sölva Jónssonar

    Nýlega skrifaði Sölvi Jónsson grein á visir.is, sem hann nefnir “Um loftslagsbreytingar“, þar sem hann fer í gegnum stöðuna í loftslagsmálunum út frá sínu persónulega sjónarhorni. Hann vísar í heimildalista, þar sem hann virðist nota þekktar afneitunarsíður og rökfræði þá sem þar finnst sem helstu heimildir og efnistök – ég þakka honum fyrir það, þar sem það einfaldar verulega að hrekja skrif hans. Á meðan það eru enn einhverjir sem skrifa á þennan hátt um loftslagsvísindin og vísa í svona einhæfar og óáreiðanlegar heimildir þá er þörf á að svara þeim – þó svo um sé að ræða endurtekið efni, sem oft hefur sést áður í umræðunni.

    japanese_climate_skepticsVið höfum áður skoðað aðferðafræði þeirra sem hafa “efasemdir” um loftslagsvísindi hér á loftslag.is og kannski ágætt að byrja á örlítilli upprifjun áður en grein Sölva er tekin fyrir. Efnistök þeirra sem afneita loftslagsvísindum eru frekar einhæf og aðferðafræðin fyrirséð. Útúrsnúningar á alvöru rannsóknum eru t.a.m. stundum notaðar sem rökfærslur – þar sem að t.d. einstakir þættir eru teknir úr samhengi og reynt að spinna út frá þeim. Stundum eru rannsóknir sem ekki fjalla um loftslagsbreytingar einnig yfirfærðar á þau fræði, með eftirfarandi spuna og útúrsnúningum (Sölvi gerir þetta hvoru tveggja óbeint,  t.d. með því að vísa í afneitunarsíður sem heimildir). Endurteknar rökvillur eru líka algengar í umræðunni og það er líka meðal þess sem Sölvi gerist sekur um.

    Það virðist vera algeng aðferðafræði þeirra sem afneita loftslagsvísindum, að beita nokkrum vel þekktum aðferðum sem er hægt að lesa nánar um á loftslag.is. Til að mynda er að finna eftirfarandi fróðleik í færslu sem nefnist “Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun”, sem er um nálgun þeirra sem afneita vísindum, þar sem þetta er orðað á eftirfarandi hátt:

    Það má vel færa rök fyrir því að efasemdarmenn nái ekki nógu vel að skilgreina þá sem hafa þá nálgun við vísindin sem eru útskýrð hér að ofan, þar sem nýjar röksemdir og mótsagnir virðast ráð ferðinni eftir því hvernig vindar blása þann daginn. Afneitunarsinnar er hugsanlega betri skilgreining á sumum þeirra sem þetta stunda, enda nota þeir vel þekktar aðferðir við nálgun sína. Nokkrar helstu aðferðir afneitunar eru:

    1. Samsæriskenningar
    2. Sérvalin gögn (e. cherry-picking)
    3. Fals sérfræðingar
    4. Ómögulegar eftirvæntingar (einnig þekkt sem færanleg markmið)
    5. Almennar rökleysur

    Sumir vilja einnig bæta við 6. liðnum, sem er endurtekning á rökum sem þegar er búið að hrekja og eftir þessar pælingar hér að ofan, þá líka 7. liðnum sem eru mótsagnirnar. Þetta eru atriði sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar umræðan um loftslagsmál er skoðuð.

    Þessi aðferðafræði virðist vera kjarninn í “rökfærslu” Sölva, það sem hann endurnýtir margar gamlar mýtur og vísar í þekktar afneitunarsíður (fals sérfræðinga) máli sínu til stuðnings, ásamt almennum rökleysum. En nú er ráð að greina grein Sölva. Það má skipta efnistökum hans í nokkra þætti og munum við skoða það í svipaðir röð og hann nefnir það í grein sinni – það er ágætt að hafa aðferðafræðina hér að ofan í huga við lesturinn þar sem efnistök hans falla nánast að flestu leiti inn í flokkunina sem nefnd er.

    Sölvi leggur út með að ræða um að ísinn á Suðurpólnum hafi ekki mælst meiri í 30 ár – sem er rétt ef hann er að ræða um hafísinn (dáldið villandi hjá honum að nefna ekki að hann sé að ræða hafísinn, ef það er tilfellið). Ísinn á íshvelinu á Suðurskautinu er að minnka, enda bráðna jöklar þar eins og á mörgum öðrum stöðum á Jörðinni í hlýnandi heimi. Hafísinn á Suðurskautinu aftur á móti er að aukast, sem getur átt sér ýmsar útskýringar og er þekkt staðreynd og engin sem mótmælir því. Það hafa verið nefndar einhverjar útskýringar á aukinni útbreiðslu hafíss þar, m.a. hefur breytt selta í sjónum (vegna bráðnunar jökulhvelfsins) verið nefnt ásamt breytingum í vindakerfum, svo einhverjar líklegar útskýringar séu dregnar fram. Þetta virðist gerast þrátt fyrir hlýnun, en þetta afsannar í sjálfu sér ekki eðlisfræðina á bak við hlýnun af völdum aukina gróðurhúsaáhrifa af manna völdum. Svo nefnir hann norðurskautið og virðist telja að sveiflur (sem hafa alltaf átt sér stað – líka þegar augljós bráðnun á sér stað) í hafísútbreiðslu á milli ára afsanni þá staðreynd að bráðnun sé í gangi. Svo klikkir hann út með að vísindamenn hafi spáð því fyrir 6 árum að hafís “myndi vera orðin íslaus með öllu sumarið 2013” – heimildin fyrir þessu er grein úr DailyMail eftir þekktan afneitunarsinna að nafni David Rose. Reyndar segir í grein David Rose að “the BBC reported that the Arctic would be ice-free in summer by 2013, citing a scientist in the US who claimed this was a ‘conservative’ forecast.” – sem virðist ekki vera alveg í takt við fullyrðingu Sölva um að “vísindamenn” hafi spáð þessu og reyndar er heldur ekki hægt að finna heimild David Rose fyrir þessari fullyrðingu í grein hans, eða hvaða vísindamann er átt við.

    Hið næsta sem hann ræðst á er stærð ísbjarnarstofnins. Hann telur að ísbirnir hafi verið um 5-10 þúsund á “fimmta og sjötta áratugnum” og svo fullyrðir hann að ísbirnir hafi lifað af tímabil þar sem ísinn á norðurhveli jarðar hafi horfið með öllu. Saga ísbjarna er ca. 110 – 130 þúsund ár og þetta er fullyrðing sem erfitt er að standa við og heimild Sölva fyrir þessu virðist vera skoðun Amrutha Gayathri sem hún birtir á skoðanasíðum International Business Time (það voru nú öll “vísindin” hjá honum). Þess má geta að tala ísbjarna áður en til friðunar kom (s.s. á fimmta og sjötta áratugnum) er nokkuð á huldu, en gæti hafa verið yfir 20 þúsund (sjá Hvað er vitað um ísbirni?). En eftir að þeir voru friðaðir þá fjölgaði þeim eitthvað. Samkvæmt núverandi mati IUCN sérfræðingahóps um ísbirni, þá eru 19 þekktir undirstofnar ísbjarna, fjöldi í einum þeirra er að aukast, þrír eru stöðugir og átta eru að hnigna (ekki eru til nægilega góð gögn til að meta hina undirstofnana).

    Sölvi lætur ekki hér við sitja, næst er það fullyrðing um að vísindamenn hafi gert ráð fyrir einhverri ákveðinni hlýnun sem hann endar með að færa rök á móti af því að það hafi farið kólnandi á síðustu árum (reyndar bara staðbundið, samkvæmt hans persónulega áliti). Fullyrðingin er að “[s]pár vísindamanna IPCC” hafi gert ráð fyrir 0,25°C hækkun hitastigs á áratug. Allar náttúrulegar sveiflur (til að mynda á milli ára) virðast í huga hans afsanna þessa spá sem hann fullyrðir að vísindamenn IPCC hafi gert. Þess má geta að vísindamenn er afskaplega varfærnir í spám og gera ráð fyrir allskyns náttúrulegum sveiflum sem geta haft áhrif til skemmri tíma. Svo er það spurningin hvað hægt er að segja um sérval hans á gögnum, þar sem hann velur ákveðið eitt ár (eins og t.d. 1998) og gera það að einhverju viðmiði sem um það sem kom á undan og eftir. Sérval gagna eins og ársins 1998 er mjög algeng rökvilla afneitunarsinna, sjá t.d. graf hér undir:


    Næst er það þáttur hinnar óviðjafnanlegu Oregon Petition, þar sem Sölvi segir að “meira en 30 þúsund vísindamenn [hafi] sett nafn sitt undir yfirlýsingu þar sem kenningunni um hlýnun jarðar af mannavöldum er hafnað” – ætla nú ekki að hafa mörg orð um það, en eftirfarandi myndband lýsir þessu ágætlega, þarna er þetta m.a. orðað sem svo:

    Hann skoðar meðal annars hina alræmdu Oregon Petition, þar sem talað er um undirskriftir 32.000 vísindamanna. Eru allir vísindamenn á þeim lista og þá við hvaða fræðigreinar? Myndir þú leita til veðurfræðings vegna húðvandamáls? (sjá Ósérhæfðir sérfræðingar).

    Fyrir þá sem ekki vita, þá er þessi alræmda oregon petition ekki nokkurs virði í vísindalegu samhengi, hvað þá annað, nánar á SkepticalScience síðunni – Over 31,000 scientists signed the OISM Petition Project – þar sem þetta er m.a. orðað á eftirfarandi hátt:

    “The 30,000 scientists and science graduates listed on the OISM petition represent a tiny fraction (0.3%) of all science graduates. More importantly, the OISM list only contains 39 scientists who specialise in climate science.”

    Þegar hér er komið við sögu þá kemur að þætti Al Gore hjá Sölva (Al Gore virðist vera í miklu uppáhaldi hjá ýmsum afneitunarsinnum). Hann virðist líta svo á að ef það má finna einhverjar villur í mynd Al Gore “An Inconvenient Truth” þá hljóti það að afsanna loftslagsvísindin í heild sinni. En höfum það á hreinu að Al Gore er ekki vísindamaður, hann er stjórnmálamaður. Ekki það að stjórnmálamenn geti ekki haft rétt fyrir sér um þessi mál svo sem önnur (það er ekki hægt að útiloka það), eins og við flest (þeir eru væntanlega misjafnir eins og fólk er flest). Margir afneitunarsinnar virðast þó laðast að Al Gore og telja að hann sé talsmaður vísinda og jafnvel vísindamaður (sem hann er ekki). Almennt, þá gefur mynd Al Gore nokkuð rétta mynd af því hvað vísindin segja, þó að það hafi slæðst einhverjar villur inn, en það er svo sem ekkert sem haggar sjálfum vísindunum í sjálfu sér. Á SkepticalScience hefur þetta verið skoðað lítillega, sjá t.d. Is Al Gore’s An Inconvenient Truth accurate? – þar sem eftirfarandi kemur fram:

    While there are minor errors in An Inconvenient Truth, the main truths presented – evidence to show mankind is causing global warming and its various impacts is consistent with peer reviewed science.

    Í raun er Al Gore bara hluti af umræðumenginu – svona svipað og ég er hluti af því. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að vísindin myndu breytast mikið þó að ég myndi halda fram einhverri vitleysu eða gera villu einhvers staðar í umræðunni – enda eru loftslagsvísindin byggð á tugþúsundum rannsókna sem gerðar eru með vísindalegum aðferðum (sem stundum uppfærast við nýjar upplýsingar – eins og gengur og gerist), hvorki ég né Al Gore getum breytt því, en okkar viðhorf eru þó í samræmi við almenna niðurstöðu vísindanna um þessi mál. Í þessari málsgrein heldur Sölvi einnig fram endurteknum ruglingi afneitunarsinna um að þar sem að CO2 styrkur hefur hækkað eftir að hitastig byrjar að hækka, á SkepticalScience (sjá CO2 lags temperature – what does it mean?) orða þeir þetta sem svo:

    When the Earth comes out of an ice age, the warming is not initiated by CO2 but by changes in the Earth’s orbit. The warming causes the oceans to release CO2. The CO2amplifies the warming and mixes through the atmosphere, spreading warming throughout the planet. So CO2 causes warming AND rising temperature causes CO2rise.  Overall, about 90% of the global warming occurs after the CO2 increase.

    Áður en Sölvi fer í niðurlag greinar sinnar, þá rifjar hann upp nokkrar algengar mýtur sem hafa oft sést í umræðunni hér og eru hér undir tenglar á umfjöllun um þau efni og tengd í nokkrum tenglum – það er of langt mál að fara út í allar villur hans hér í þessari færslu:

    Í niðurlagi greinarinnar nefnir Sölvi þá augljósu staðreynd að hann er ekki sérfræðingur um loftslagsbreytingar og að hann sé ekki að afsanna kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum, en svo heldur hann áfram að spá í lækkun hitastigs og að það hljóti að vera verra en ef hitastig hækkar (sem hann virðist einungis byggja á sinni persónulegu skoðun á málinu). Sölvi ræðir svo um sjálfan sig sem einlægan umhverfisverndarsinna – hann virðist bara ekki vilja taka mark á vísindamönnum sem vinna við ákveðið svið vísinda (sem er synd fyrir hann).

    Fróðlegt þykir mér reyndar að sjá að hann endar með því að segjast ekki vilja láta “skattleggja [sig] og komandi kynslóðir vegna koltvísýringslosunar á fölskum forsendum” – þarna liggur hundurinn sjálfsagt grafinn, þetta virðist snúast um pólitíska sýn á skattamálum, sem virðist stundum þurfa að endurspeglast í afneitun loftslagsvísinda hjá ákveðnum hópi – sem er einkennilegt í mínum huga. Fólk getur haft ýmsar skoðanir á skattstigi landsmanna og skiptingu opinbers fjárs, en að afneita vísindum vegna pólitískra og/eða persónulegra skoðana sem stundum virðist endurspeglast í einhverri heimsmynd sem virðist ekki vera samrýmanleg við eðlisfræði gróðurhúsalofttegunda finnst mér undarleg nálgun.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Hafísinn ekki að jafna sig

    Hafísinn ekki að jafna sig

    Ef einhver heldur því fram að hafísinn sé að jafna sig og bendir á að hann hafi aukist um 50% frá því á sama tíma í fyrra – þá er rétt að geta þess að slíkar viðmiðanir eru villandi. Það er enn langt í að hægt sé að segja að hafísinn sé að jafna sig, eins og sést á eftirtöldu myndbandi (uppfært miðað við nýjustu tölur).

    Það er líka gott að hafa í huga að þrátt fyrir sveiflur milli ára í útbreiðslu hafíss, þá er hafísinn í sögulegu lágmarki – ekki bara sögulegu síðustu áratugina heldur einnig í sögulegu lágmarki síðastliðin 1450 ár hið minnsta.

     

    kinnard_2011_sea_ice

    Það eru ekki bara þannig að tímabundnar sveiflur í hafís norðurskautsins séu notaðar sem rök gegn hlýnandi veröld – sveiflur á suðurskautinu eru afneitunarsinnum hugleiknar, enda auðvelt að taka gögn þar úr samhengi. Hér er gott myndband sem útskýrir samhengið og hvort hægt er að fullyrða um loftslagsbreytingar út frá sveiflum á suðurskautinu.

     

     

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • Vængjasniglar í vanda

    Vængjasniglar í vanda

    Nú þegar er skel sumra sjávarsnigla í Suðurhöfum byrjuð að eyðast upp vegna súrnunar sjávar, samkvæmt nýrri rannsókn.

    Í  greiningu á vængjasniglum sem tekin voru í grennd við Suðurskautið árið 2008,  kom í ljós óvenjuleg rýrnun á skeljum dýranna, sem vísindamenn telja að séu mögulega vísbendingar um að súrnun sjávar af völdum aukins styrks CO2, sé nú þegar farin að hafa áhrif á viðkvæmustu sjávardýrin.

    Greiningar á rannsóknastofum hafa sýnt að súr sjór ógni tilveru margra sjávarhryggleysingja, líkt og skeldýra og kóraldýra – því geta þeirra til að mynda skel og utanáliggjandi beinagrind minnkar. Viðkvæmust eru dýr sem, líkt og vængjasniglar, byggja skeljar sínar úr aragóníti, en það er kalsíum karbónat sem er einstaklega viðkvæmt fyrir aukinni súrnun.

    Samkvæmt vísindamönnum, þá er pH stig úthafanna að lækka hraðar nú en nokkurn tíman síðastliðin 300 milljón ár.

    Heimildir og ýtarefni

    Greinin er eftir Bednaršek o.fl. 2012 og birtist í Nature Geoscience: Extensive dissolution of live pteropods in the Southern Ocean

    Umfjöllun um greinina má lesa á heimasíðu NewScientist: Animals are already dissolving in Southern Ocean

    Tengt efni á loftslag.is

  • Fyrirlestur um sjávarstöðubreytingar

    Fyrirlestur um sjávarstöðubreytingar

    Hér fyrir neðan má horfa á myndband þar sem Jerry Mitrovica prófessor við Harvard háskóla fjallar á aðgengilegan hátt um ýmislegt sem skiptir máli þegar fjallað er um sjávarstöðubreytingar.

    Þessi fyrirlestur var haldinn í Washington árið 2011, en þar fer hannn sérstaklega í saumana á nokkrum punkta sem efasemdamenn um hnattræna hlýnun halda oft á lofti þegar fjallað er um sjávarstöðubreytingar og hrekur þau rök á einfaldan og auðskiljanlegan hátt.

    Það er vel þess virði að horfa á þennan fyrirlestur, en hann er um hálftíma langur.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Mikil styrkaukning CO2 er talin hafa kynnt undir endalok síðasta kuldaskeiðs ísaldar

    Mikil styrkaukning CO2 er talin hafa kynnt undir endalok síðasta kuldaskeiðs ísaldar

    Styrkur CO2 samanborin við hita á Suðurskautinu og hnattrænan hita við lok síðasta kuldaskeiðs ísaldar.

    Mikil styrkaukning á CO2, þá aðallega úr úthöfum á Suðurhveli Jarðar, er talin hafa kynnt undir endalok  síðasta kuldaskeiðs ísaldar, samkvæmt nýrri rannsókn sem birtist í Nature. Þetta er enn ein staðfestingin á því hversu ráðandi styrkur CO2 er í hitabúskap jarðarinnar.

    Vísindamenn frá Harvard og Oregon háskólanum söfnuðu 80 borkjarnasýnum úr ís og sjávarseti til að setja saman þróun CO2 styrks í andrúmsloftinu og hitastigs í lok síðasta kuldaskeiðs ísaldar. Áður höfðu borkjarnar úr jökli Suðurskautsins bent til þess að hlýnunin þar hafi byrjað áður en CO2 styrkurinn jókst. Hin nýja rannsókn hefur sýnt fram á að aðstæður á Suðurskautinu voru aðrar en hnattrænt og að það var styrkur CO2 sem jókst fyrst.

    Það hefur þó lengi verið vitað að frumástæður þess að ísöldin sveiflaðist frá kuldaskeiði og yfir í hlýskeið er vegna breytinga í möndulhalla sem varð til þess að landmassar Norðurhvels jarðar hitnuðu og jöklar bráðnuðu. Sú hlýnun varð smám saman hnattræn – er mikið magn CO2 fór að auka styrk í andrúmsloftinu.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin birtist í Nature og er eftir Shakun o.fl. 2012 (ágrip): Global warming preceded by increasing carbon dioxide concentrations during the last deglaciation

    Umfjöllun um greinina má lesa í Nature News and Comment: How carbon dioxide melted the World

    Climate Central fjallaði um greinina, sjá Climate and Carbon: The link just got stronger.

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hreyfingar jökulbreiðunnar á Suðurskautinu kortlagðar í fyrsta skipti

    Hreyfingar jökulbreiðunnar á Suðurskautinu kortlagðar í fyrsta skipti

    Vísindamenn frá Kalíforníu hafa í fyrsta skipti kortlagt hreyfingar jökulbreiðunnar á Suðurskautinu og jökulstrauma þess, en þar eru um 90 % af öllum ís sem finnst á jörðinni.  Þeir notuðu gögn frá gervihnöttum sem Evrópuþjóðir, Kanada og Japan höfðu aflað.

    Hér fyrir neðan er hreyfimynd sem sýnir hvernig jöklarnir flæða frá suðupólnum og í Suðurhöfin, þar sem sumir straumarnir fara allt að 250 m á ári.  Einn af þeim sem stóðu að þessari rannsókn segði að ljóst væri að jökulstraumarnir flæddu meðfram botninum.  Höfundar telja að þetta kort verði mikilvægt til að skilja hvernig jökulbreiður og jöklar muni bregðast við hækkun á hnattrænu hitastig og þar með að bæta spár um hækkun sjávarstöðu. Ef jöklar og jökulbreiður við sjávarsíðu Suðurskautsins fara að bráðna hraðar vegna hækkun loft- og sjávarhita, þá er líklegt að sú bráðnun muni auka hraða jökulstraumanna sem kortlagðir hafa verið.

     

    Heimildir og ítarefni

    Á heimasíðu European Space Agency má finna ítarlega umfjöllun um kortið:  Revealed: an ice sheet on the move

    Aðra umfjöllun má finna á heimasíðu Earth Observatory:  First Map of Antartica’s Moving Ice: Image of the Day

    Tengt efni á loftslag.is

  • Jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins bráðna hraðar

    Jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins bráðna hraðar

    Endurbirting á færslu frá því í vor.
    Samkvæmt nýlegum gögnum þá eru jökulbreiður Grænlands og Suðurskautsins að bráðna sífellt hraðar með hverju árinu.

    Margt bendir til þess – samkvæmt greiningu á fjölbreyttum gögnum (Rignot o.fl. 2011) – að bráðnun frá jökulbreiðum heimsskautanna sé að taka við af fjallajöklum og hveljöklum sem stærsti þátturinn í sjávarstöðuhækkun úthafanna. Það er mun fyrr en loftslagslíkön hafa bent til.

    Hraði bráðnunarinnar hefur verið að aukast töluvert. Á hverju ári, á því tímabili sem skoðað var, bráðnaði að meðaltali um 36,3 gígatonn meira en á árinu áður.

    Heildar massajafnvægi jökulbreiðanna milli áranna 1992 og 2009. Efsta myndin sýnir bráðnun á Grænlandi, miðmyndin sýnir Suðurskautið og neðsta myndin sýnir samtölu beggja jökulbreiðanna í gígatonnum á ári. Notaðar eru tvær aðferðir: Massamælingar samkvæmt aðferð A (svartir punktar) og þyngdarmælingar frá NASA GRACE gervihnettinum aðferð B (rauðir þríhyrningar). Mynd: NASA/JPL-UC Irvine-Utrecht University-National Center for Atmospheric Research

    Það að jökulbreiður verði ráðandi þáttur í sjávarstöðubreytingum er nokkuð sem búist hefur verið við – en hingað til hefur verið talið að aukningin myndi gerast hægar. Þessi rannsókn styður nýlegar rannsóknir sem benda til þess að IPCC frá árinu 2007, hafi vanmetið komandi sjávarstöðubreytingar.

    Höfundar tóku saman gögn fyrir næstum tvo áratugi, af mánaðarlegum gervihnattamælingum bornum saman við gögn úr loftslagslíkönum til að kanna breytingar og leitni í bráðnun jökulbreiðanna.

    Notaðar voru tvenns konar mæliaðferðir. Sú fyrri (aðferð A) bar saman annars vegar gögn um yfirborðsbreytingar með InSAR tækninni,  auk þykktarmælinga þar sem notaðar eru bylgjumælingar (RES) til að áætla hversu mikið jökulbreiðurnar voru að missa og hins vegar staðbundið loftslagslíkan sem notað var til að áætla hversu mikið safnaðist saman á ákomusvæði jökulbreiðanna. Seinni aðferðin (aðferð B) notaði átta ár af gögnum við þyngdarmælingar með GRACE gervihnetti NASA.

    Gögn frá þessum tveimur mismunandi aðferðum sýndu gott samræmi þegar þau voru borin saman, bæði hvað varðar heildarmagn massatapsins og hraða þess – þ.e. þau átta ár sem báðar mælingarnar voru í gangi. Þannig er hægt að álykta að gögnin sýni samfellda niðurstöðu frá árinu 1992.

    Á hverju ári, þau 18 ár sem gögnin ná yfir, þá bráðnaði Grænlandsjökull um 21,9 gígatonnum meira heldur en árið áður. Á Suðurskautinu var það um 14,5 gígatonn meira á ári.

    Það eykur gildi rannsóknarinnar að notaðar voru tvær óháðar aðferðir sem svona mikið samræmi var á milli og sýnir hversu mikið þekking á bráðnun jökulbreiðanna hefur aukist undanfarin ár og hversu mikið betri gögnin eru.

    Ef áfram heldur sem horfir, samkvæmt höfundum, þá munu jökulbreiðurnar tvær auka sjávarstöðu um 15 sentimetra fyrir árið 205o – sem þýðir um 32 sentimetrar ef aðrir þættir eru teknir með í reikninginn. Óvissan er þó enn mikil, en þetta er töluvert meira en t.d. spár IPCC frá 2007.

    Heimildir og ítarefni

    Sjá grein í Geophysical Research letters, Rignot o.fl. 2011 (ágrip):  Acceleration of the contribution of the Greenland and Antarctic ice sheets to sea level rise

    Umfjöllun um greinina má finna á heimasíðu NASA, Jet Propulsion Laboratory: NASA Finds Polar Ice Adding More to Rising Seas

    Tengt efni á loftslag.is