Í nýlegri grein í Nature birtist önnur mynd af bráðnun Grænlandsjökuls en áður hefur verið talið, en hann er talinn hafa bráðnað mjög hratt þegar hitinn var sem hæstur á nútíma (e. Holocene climatic optimum – fyrir 6000-9000 árum síðan). Þeir telja þetta vera vísbendingu um að hlýnunin geti haft dramatískari afleiðingar en áður hefur verið talið.
Um er að ræða ískjarnarannsókn og ætlunin var að finna út hvernig fornloftslagsbreytingar gengu fyrir sig á Grænlandi. Á fyrrnefndu hlýindatímabili (e. holocene climatic optimum – oft kennt við birkiskeiðið fyrr hér á Íslandi) var óvenju hlýtt á jörðinni, sérstaklega á norðurhveli jarðar. Hingað til hafa ískjarnagögn bent til þess að þetta hlýindatímabil finnist ekki á Grænlandi og niðurstaðan hefur því almennt verið sú að Grænlandsjökull bregðist ekki hratt við aukningu hitastigs og að hann hafi jafnframt verið nokkuð stöðugur síðastliðin 12.000 ár.
Höfundar greinarinnar rannsökuðu og efnagreindu ískjarna á sex mismunandi stöðum á Grænlandsjökli og komust að því að þetta hlýindatímabil hafði einnig áhrif á Grænlandsjökul – hitinn á Grænlandi var þá um 2-3°C hærri en nú – en þá missti hann um 150 m af þykkt sinni og hopaði um allt að 200 kílómetra við jaðrana.
Höfundar benda á að ef slík hlýnun verður í framtíðinni, þá sé líklegt að Grænlandsjökull muni missa jökulísmassa sinn hraðar en áður hefur verið talið – með tilheyrandi hækkunar sjávarstöðu, sem gæti orðið meiri og hraðari en áður hefur verið spáð.
Ný rannsókn á einum stærsta jökulstraumi heims (e. ice stream – þetta eru eins konar skriðjöklar, jökulstraumar úr jökulskjöldum) bendir til þess að bráðnunin á suðurskautinu sé dramatískari en áður hefur komið fram (sjá frétt).
Um er að ræða gervihnattamælingar á Pine island jökli sem er á vestur Antartíku, sem sýna að yfirborð jökulsins er að lækka um allt að 16 m á ári. Frá 1994 hefur jökullinn þynnst um 90 m.
Íshellan
Útreikningar á bráðnun jökulstraumsins sem gerðir voru fyrir 15 árum síðan bentu til þess að jökullinn myndi duga 600 ár í viðbót, en samkvæmt þessum nýju gögnum þá gæti hann verið horfinn eftir aðeins 100 ár. Bráðnunin er hröðust um miðbik straumsins, en það sem vekur mestar áhyggjur er ef það fer að hafa áhrif á jökulskjöldinn lengra inn á landi.
Bráðnun jökulstraumsins sjálfs hefur ekki mikil áhrif á sjávarstöðubreytingar (sjá pælingar um Hækkun sjávarstöðu). Talið er að sú bráðnun skili sér í um 3ja sm hækkun sjávarstöðu. Jökulskjöldurinn sem liggur þar á bakvið gæti aftur á móti valdið 20-30 sm sjávarstöðuhækkun ef hann myndi einnig bráðna.
Loftslag.is er verkefni sem við í ritstjórninni höfum unnið að síðustu vikurnar af miklu atgervi. Við vonumst til þess að Loftslag.is muni verða mikilvæg uppspretta upplýsinga fyrir almenning, sem vill kynna sér ýmislegt varðandi loftslagmál. Á síðunum verða sagðar fréttir úr heimi loftslagsvísindanna, einnig mun blogg ritstjórnar verða áberandi. Við höfum verið og erum að setja okkur í samband við fólk sem hefur til að bera þekkingu á þessum málum, bæði sérfræðinga og áhugafólk um efnið. Gestapistlar verða því reglulegir hér á síðunum, u.þ.b. einn pistill í viku. Heiti reiturinn er hugsaður sem vettvangur fyrir málefni sem ekki heyra til sem fréttir, hér geta komið innskot um fróðlegar umræður og tenglar á myndbönd sem okkur þykja fróðleg svo dæmi séu tekin. Heiti reiturinn verður opin fyrir allskyns efni sem ritstjórn þykir fróðlegt í umræðunni sem og léttmeti af ýmsum toga.
Hornsteinn þessarar síðu eru Vísindin á bakvið fræðin. Þar verður komið inn á sögu loftslagsvísindanna, grunnkenningarnar, afleiðingar, lausnir o.fl. sem viðkemur fræðunum. Skoðanaskipti í athugasemdakerfinu munu ef að líkum lætur gera vefinn lifandi, þar sem fólk getur varpað fram skoðunum á málefnalegan hátt.
19. september var valinn sem opnunardagur vefsins, þar sem útreikningar ritstjórnar sýndu að þá væru 55.000 dagar síðan Svante Arrhenius fæddis. Arrhenius var sænskur vísindamaður, sem var einn sá fyrsti til að gera útreikninga á því hvað aukin styrkur koldíoxíðs í andrúmsloftinu hefði mikil áhrif á hitastig. Samkvæmt hans útreikningum áætlaði hann að við tvöföldun koldíoxíðs í andrúmsloftinu myndi hitastig hækka um 5-6°C, síðar lækkaði hann mat sitt, sama tala hjá IPCC er á bilinu 2-4,5°C. Hann fæddist þann 19. febrúar árið 1859 og dó 2. október 1927.
Horace-Bénédict de Saussure mældi hita hlutar í glerhylki, bæði á fjallstindi og við rætur fjallsins. Hitinn inn í glerhylkinu breyttist lítið þó lofthitinn væri allt annar á fjallinu. Af þessu dró hann þá ályktun að glerið tefði fyrir varmageislun frá hlutnum. Hann taldi einnig að lofthjúpurinn hefði sömu áhrif, og þess vegna væri kaldara á fjöllum. Þessi stytta í Chamonix sýnir de Saussure ásamt Jacques Balmat en sá síðarnefndi var fyrstur til að klífa Mont Blanc svo vitað sé. (Mynd: Wikipedia)
Árið 1824 birti franski vísindamaðurinn Joseph Fourier grein þar sem hann reyndi að leggja mat á þá þætti sem hita yfirborð jarðarinnar. Fourier ræðir m.a. varmajafnvægi jarðar, þ.e. þegar sólin hitar jörðina verður jörðin að geisla þeim varma frá sér svo hitastig hennar haldist í jafnvægi. Geislun jarðarinnar er ósýnileg, svo hann talaði um “hulinn varma” til að lýsa fyrirbæri því sem nú á dögum er kallað innrautt ljós.
Í greininni fer hann nokkrum orðum um tilraun sem eðlisfræðingurinn og fjallaklifrarinn Horace de Saussure framkvæmdi. Horace þessi lagði það í vana sinn að klífa fjöll vopnaður hitamæli, rakamæli og loftvog, – og er frægur í sögu fjallaklifurs í Ölpunum. Horace var umhugað um áhrif lofthjúpsins og hæðar yfir sjávarmál á lofthita, og í tilrauninni sem Fourier lýsir mældi hann hvernig sólin hitaði svartann hlut meira ef hlutnum var komið fyrir í glerhylki. Útskýring Fourier á niðurstöðunni er sú að tilvist glerhjúpsins breyti varmajafnvægi hlutarins, það hindri flæði hulda varmans frá honum. Þó verið sé að lýsa tilraun í glerhylki, þá gæti niðurstaðan allt eins átt við gróðurhús.
Fourier segir svo að sama gildi um lofthjúpinn, varmi eigi greiða leið niður að yfirborði sem sýnilegir geislar sólar, en huldi varminn eigi ekki jafn greiða leið til baka út úr andrúmsloftinu og af þessum sökum sé yfirborðið hlýrra en ella.
Þetta er fyrsta lýsingin sem vitað eru um á þeim áhrifum sem nú eru kölluð gróðurhúsaáhrif, en lýsing Fourier var þó ófullnægjandi á margan hátt. Meðal annars mátti draga þá ályktun af skrifum hans að þykkt lofthjúpsins skipti meginmáli.
Á dögum Fourier var stærð jarðar vel þekkt og einnig var til mörg hundruð ára gamalt mat á þykkt lofthjúpsins. Fyrsta vísindalega tilraunin til að meta hana var gerð af Abū ʿAlī al-Ḥasan ibn al-Ḥasan ibn al-Haytham, írönskum vísindamanni sem starfaði í Egyptalandi um árið 1000, – á þeim tíma þegar forfeður okkar voru loks búnir að leggja skjaldrendur af sem fæðutegund. Í latneskri þýðingu verka hans var nafnið stytt í Alazen, en hann er talinn einn höfunda ljósfræðinnar. Alhazen reyndi að nota ljósbrot sólarljóss í lofthjúpnum til að meta þykkt hans og niðurstaðan (um 80 km) er merkilega nærri réttu lagi.
Fourier má því hafa verið ljóst að í samanburði við stærð jarðar væri lofthjúpurinn næfurþunnur, í reynd sambærilegur við hýði á epli, og því mætti það teljast stórmerkilegt að hann hefði einhver áhrif á yfirborðshita jarðar. En það sem Fourier vissi ekki var að í raun skipti þykkt lofthjúpsins ekki máli, heldur samsetningin. Upp úr miðbiki 19. aldarinnar sýndi írski vísindamaðurinn John Tyndall fram á að stærstum hluta andrúmsloftsins fylgja ekki gróðurhúsaárhif, heldur eru það örfáar lofttegundir sem valda þeim. Tyndall skoðaði bæði áhrif koldíoxíðs (CO2) og vatnsgufu (H2O) en báðar eru stórvirkar gróðurhúsalofttegundir.
Það var svo ekki fyrr en undir lok 19. aldarinnar sem reynt var að reikna út hversu mikið gróðurhúsaáhrif hituðu yfirborð jarðar. Sá sem reyndi það var sænski vísindamaðurinn Svante Arrhenius, sem var prófessor í Stokkhólmi. Einn kollega hans, maður að nafni Arvid Högbom taldi að kolabruni (sem var fylgifiskur iðnbyltingarinnar) væri að auka magn CO2 í lofthjúpnum. Arrhenius athugaði hvaða áhrif þetta hefði á hitafar á jörðinni. Niðurstaða hans var sú að ef styrkur CO2 tvöfaldaðist myndi hlýna á jörðinni um 5 – 6 gráður. Þó þessi tala sé um tvöfalt hærri en það gildi sem nú er talið líklegast, er eigi að síður merkilegt að fyrir rúmlega einni öld voru vísindin að baki gróðurhúsaáhrifum nægilega vel skilin til að hægt væri að leggja tiltölulega gott tölulegt mat á áhrif iðnbyltingarinnar á loftslag jarðar.
Styrkur CO2 hefur aukist um rúmlega þriðjung frá iðnbyltinu, og um helmingur viðbótarinnar kom á síðustu 50 árum. Hugmynd Arrheniusar og Högbom um að aukning í styrk CO2 myndi leiða til hnattrænnar hlýnunar hefur gengið eftir. Rannsóknir síðustu áratuga hafa skotið frekari stoðum undir þessa hugmynd og ef styrkur gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum heldur áfram að aukast mun hlýnunin að öðru óbreyttu halda áfram.
Þrátt fyrir þessar framfarir er mörgum stórum spurningum enn ósvarað og þau líkön sem notuð eru til að spá fyrir um loftslagsbreytingar á komandi áratugum eru enn of ófullkomin. Þetta skilar sér í ríflegum óvissumörkum í spám og takmörkuðum skilningi á því hvernig ýmiss náttúruleg ferli breytast með hlýnandi loftslagi. Svo dæmi sé tekið þá er ekki víst hvernig veðurfar næstu ára og áratuga mun þróast, þó jafnaðarhlýnun verði um 0.2°C á áratug. En ofan á þá hlýnun leggst náttúrulegur breytileiki sem getur tímabundið aukið við hana eða dregið úr henni. Spár fyrir næstu ár og áratug eru enn sem komið er á tilraunastigi.
Samantekt á framreiknuðu áhættumati vegna hnattrænnar hlýnunnar. Rauða línan sýnir hitaþróun á 20. öldinni, en gráu línurnar sýna dæmi um mikla og vægari hlýnun. Gráu línurnar byggja á tveimur ólíkum sviðsmyndum frá IPCC. Eftir því sem liturinn er rauðari, er áhættan meiri. (Heimild: IPCC (2007), Working Group II, Technical Summary; Mynd 6)
Óvissa er eðlilegur hluti vísinda, og það ætti ekki að koma á óvart að í jafn flóknu kerfi og því sem loftslagsvísindi fást við sé margt illa skilið. Óvissan er þó léleg afsökun fyrir því að gera ekkert til að bregðast við hugsanlegum loftslagsbreytingum, – t.d. með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Óvissan er nefnilega sem tvíeggjað sverð, raunveruleg þróun getur orðið vandræðaminni en spár segja, en hún getur allt eins orðið skaðlegri.
Í skýrslu breska hagfræðingsins Nicholas Stern er bennt á að stjórnmálamenn og aðrir stefnumótendur geti ekki bara notast við spár um líklegustu hlýnun og miðað viðbrögð við þær, heldur þurfi líka að taka tillit til óvissunnar og þess að mögulega verið afleiðingarnar skaðlegri.
Sem dæmi þessar skaðlegri afleiðingar má nefna hvernig loftslagsbreytingar valda álagi á ýmiss vistkerfi, á þjóðir og þjóðfélagshópa. Þetta álag leggst misþungt á heimsbyggðina, ekki bara vegna þess að loftslagsbreytingar eru mismunandi stað frá stað. Einnig eru möguleikar fátækra samfélaga til aðlögunar gjarnan takmarkaðri en þeirra vel stæðu, auk þess sem fátæk samfélög eru mörg háð staðbundnum matar- og vatnsforða.
Afleiðingar loftslagsbreytingar leggjast oft saman við annað álag á náttúruleg kerfi, t.d. vegna breytinga á landnýtingu, mengun eða ofnýtingu auðlinda. Ef ekkert verður að gert leiðir þetta til þess að álag á mörg vistkerfi verður meira en þau ráða við og hætta á stórfelldum tegundadauða eykst. Af því að við samverkandi þætti er að glíma er tilgangslítið að ræða hvort mikilvægara sé að bregðast við loftslagsbreytingum eða staðbundnara álagi, t.d. mengun, – slíkt gefur ranglega til kynna að val sé til staðar.
Margir álagsþættir í Afríku geta valdið umhverfisbreytingum í Afríku, og loftslagsbreytingar auka á vandann. Myndin sýnir álagsþætti og skaðlegar afleiðingar fyrir mismunandi svæði í Afríku. Meðal afleiðinga má nefna stækkun eyðimarka, sjávaryfirborðshækkun, ferskvatnsskort, óveður, strandrof, hnignun skóglendis, kóraleyðingu, útbreiðslu malaríu og minna fæðuöryggi. (Heimild: UNEP/GRID-Arendal, 2002)
Það eru hinsvegar ákveðin tækifæri í að nýta samverkandi álagsþætti til að ná sem mestum árangri. Oft er nefnilega hægt að vinna gegn staðbundu álagi og bregðast við loftslagsbreytingum samtímis. Dæmi um þetta er skógareyðing í hitabeltinu, en henni fylgir stórfellt álag á vistkerfi og aukinn tegundadauði. Rúmlega 17% af allri losun gróðurhúsalofttegunda má rekja til skógareyðingar. Endurheimt skóglendis, sérstaklega í hitabeltinu getur því bæði dregið úr losun og bætt vistkerfi samtímis. Þarna er tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi.
Það má nefna mörg dæmi af þessu tagi, bæði sem snúa að lífríkinu og einnig sem snúa að samfélagi manna. Dæmi um hið síðarnefnda er má finna í húshitun og matseld. Stór hluti mannkyns notar ofna sem brenna taði, viðarkolum eða brúnkolum til húshitunar og matseldar. Þessir ofnar eru oft mengandi og eyðslufrekir. Betri ofnar og aðrir orkugjafar geta dregið úr mengun, aukið lífsgæði milljarða manna og dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda samtímis. Samdráttur í losun þarf ekki að bitna á þeim sem minna mega sín.
Ef til vill er augljósasta dæmið um tvær flugur í einu höggi samt notkun iðnríkja á jarðefnaeldsneyti til orkuframleiðslu. Olía og gas eru sannkölluð undraefni sem hafa ótal not, t.d. í efnaiðnaði, áburðarframleiðslu og víðar. Fjölliður sem unnar eru úr jarðefnaeldsneyti er mjög erfitt og kostnaðarsamt að gera með öðrum aðferðum, ef það er þá hægt. Jarðefnaeldsneyti er takmörkuð auðlind, sem ganga mun til þurrðar að lokum. Við þurfum því að venja okkur af þessari orkulind fyrr en síðar. Því fyrr sem við gerum það, því minni verður loftslagsvandinn og þeim mun lengur getum við og afkomendur okkar haft afganginn til þarfari nota. Það er ekki eftir neinu að bíða.
Ég tók upp á því fyrir nokkrum mánuðum, að skipta mér af umræðu um loftslagsbreytingar og þá sérstaklega hlýnun jarðar af mannavöldum, ekki af því að ég hafði svo mikið vit á því heldur meira af því að ég tók eftir svo mörgum rangfærslum þegar ég var að skoða ýmislegt sem skrifað var um loftslagsbreytingar – bæði í fréttum og bloggum.
Því tók ég mig til og opnaði blogg um málið (sem er dálítið 2007 eitthvað). Ég dundaði mig við það að skrifa svör við ýmsum rökum og fór yfir það, af hverju þessi rök voru röng. Einhver afrakstur af þeim skrifum má sjá á síðunni Mýtur.
Það var því ekki spurning þegar Sveinn Atli hafði samband við mig, um að við ættum að gera heimasíðu tileinkaða loftslagsmálum og undanfarnar vikur hafa öll kvöld og helgar verið undirlögð í að skrifa og endurskrifa hitt og þetta um loftslagsmál, það má eiginlega segja að við séum sífellt að læra eitthvað nýtt – bæði í vefsíðugerð og varðandi loftslagsmál og við viljum endilega að síðan verði sem best og forvitnilegust fyrir lesendur. Því er um að gera að koma með athugasemdir þar sem það á við, um hvað megi betur fara og sérstaklega ef að staðreyndir og ályktanir okkar stangast á við ykkar skilning.
Mér persónulega finnst þetta málefni langmikilvægast allra þeirra málefna sem maðurinn hefur staðið frammi fyrir (eða allt frá því forverar mannsins ákváðu að nú væri ráð að stökkva niður úr trénu). Loftslagsbreytingar hafa og munu alla tíð skipta manninn gríðarlega miklu máli, sem og aðrar dýrategundir – því er það ljóst að ef spár ganga eftir um þær gríðarlegu loftslagsbreytingar sem eru í farvatninu og áhrif sem verða af þeim, að allflest sem við þekkjum í dag mun umbyltast. Það er varla hægt að sjá fyrir hversu slæmt það getur orðið fyrir mannkynið og sérstaklega næstu kynslóðir sem koma á eftir okkar.
Hugmyndin að þessum vettvangi fyrir umræður um loftslagsmál kviknaði eitthvert skiptið þegar ég var að skoða ýmsar bloggsíður hér á landi sem oft fjalla um loftslagsmál. Það eru ýmsar upplýsingar til staðar hér og þar á íslensku er varða loftslagsmál, bæði á blogginu og á vefsíðum eins og t.d. hjá Veðurstofunni, á vef Kolviðarverkefnisins og hjá Umhverfisstofnun svo einhver dæmi séu nefnd til sögunnar. Vefsvæðin sem taka þessi mál fyrir eru þó ekki mjög lifandi vefsvæði um það er varðar loftslagsmál, heldur er um að ræða upplýsingar sem liggja á undirsíðum þeirra. Mér fannst vanta meira lifandi vef varðandi þessi mál, einhverskonar síða sem samtvinna kosti bloggsins og heimasíðunnar. Ég áttaði mig á að þeir sérfræðingar sem vinna á opinberum stofnunum geta ekki, nema að litlu leiti, staðið í því að standa í opinberum umræðum á vefsíðum og annars staðar. Þar af leiðandi datt mér í hug að það færi betur á því að áhugamenn um efnið tækju sig saman um að standa í þessari vinnu og þeirri umræðu sem því fylgir. Ég vil samt sem áður hvetja sérfræðinga sem og aðra til að leggja orð í belg hér á þessum síðum.
Í gegnum skrif mín og með því að fylgjast með umræðu um loftslagsmál á Moggablogginu, tók ég eftir því að einn aðili var ansi duglegur að skoða ýmsar mýtur varðandi loftslagsmál. Hann skrifaði af þekkingu og af miklum áhuga um efnið. Einnig tók hann líkt og ég sjálfur þátt í ýmiskonar umræðu á ýmsum bloggsíðum og reyndumst við vera sammála um margt í þessum efnum. Þ.a.l. þegar hugmyndinni skaut niður í kollinum á mér, um einhverskonar umræðu- og upplýsingavettvang fyrir loftslagsmál, þá setti ég mig í samband við þann aðila. Hann er nú með mér í ritstjórn á þessu ágæta vefsetri og heitir Höskuldur Búi Jónsson. Höskuldur er áhugamaður um málefnið eins og ég sjálfur, en býr þó að jarðfræðimenntun sem gerir hann ágætlega hæfan til að setja fram ýmis hugtök og skoða kenninguna með augum þess sem þekkir til. Mín eigin þekking er aðeins takmarkaðari, en ég hef lagt á mig að skoða ýmislegt varðandi loftslagsmál á undanförnum árum. Tel ég nú að þekking mín sé orðin ágæt, sérstaklega eftir því sem ég hef kynnt mér málin betur.
Um leið og ég hafði samband við Höskuld, sýndi hann þessu mikinn áhuga. Við ákváðum því að hittast og sjá hvort að við hefðum möguleika á því að vinna saman. Það reyndist okkur tiltölulega auðvelt að taka ákvörðunina um að leggjast í þessa vinnu og hefur samstarfið gengið með miklum ágætum. Hugmyndir hafa flogið á milli, 29. júlí til opnunarinnar eru tölvupóstarnir okkar á milli orðnir á 3ja hundrað og nú er síðan svo orðin að veruleika. Vonast ég til að við getum unnið farsællega að uppbyggingu og þróun þessarar vefsíðu í framtíðinni. Ég vil þakka Höskuldi sérstaklega fyrir þægileg viðkynni og einnig þeim sem hafa lagt hönd á plóginn ásamt þeim gestapistlahöfundum þeim sem hafa samþykkt að skrifa pistla á þessar síður, það munu vafalaust bætast aðeins fleiri við í framtíðinni.
Ég sé það fyrir mér að þessi vefur getið orðið miðpunktur upplýsinga um loftslagsmál, þar sem umræður fara fram. Þetta á að vera vettvangur þar sem lesendur þvert á fagsvið geta tekið þátt í umræðum um þessi mál á opin og málefnalegan hátt.
Meðal sjávarhiti ágúst mánaðar var sá hæsti af öllum ágúst mánuðum síðan mælingar hófust samkvæmt NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration). Meðal sjávarhitastig mánaðarins mældist 16,4°C sem er 0,57°C yfir viðmiðunartímabilinu. Á tímabilinu júní – ágúst var meðalhitastig sjávar einnig það hæsta sem mælts hefur á því tímabili síðan mælingar hófust. Sameinaðar hitatölur fyrir land og haf sýna að meðalhitastig ágúst mánaðar var næst hæsta gildi Ágúst mánaðar síðan mælingar hófust, aðeins 1998 var heitari. Þess má geta að síðasti ágúst mánuður þar sem meðalhitastigið mældist undir viðmiðunartímabilinu var 1978. NOAA fylgist með þróun hitastigs í heiminum og gögnin sem þeir nota ná aftur til ársins 1880.
Hitafrávik fyrir tímabilið júní – ágúst 2009 – Hér er viðmiðunartímabilið er 1961-1990
Þrátt fyrir að sólblettasveiflan sé í lágmarki þessi misserin, þá eru heimshöfin mjög heit. El Nino fyrirbærið er í uppsveiflu, en styrkur þess er enn ekki mikill. Talið er að El Nino styrkist áfram og muni standa yfir fram á næsta ár. El Nino hefur áhrif á meðalhitastig sjávar þegar það er í gangi. Meðalhitastig fyrir bæði land og haf fyrir janúar til loka ágúst er 5. heitasta fyrir tímabilið frá upphafi (jafn 2003), meðalhitastigið var 14,5°C sem er 0,55°C yfir viðmiðunartímabilinu. Á myndinni hérundir má sjá þá þróun frá 1880.
Hitafrávik fyrir land og haf – janúar – ágúst
Stutt vídeó byggt á gögnum NOAA, er varðar frávik í hitastigi jarðar 2009 miðað við viðmiðunartímabilið 1961-1990, má sjá hérundir.
Á þriðjudagin, 22. september, verður sýnd hér á Íslandi, mynd sem við mælum með, þrátt fyrir og kannski vegna þess hversu dramatísk hún virðist vera. Hún heitir The Age of Stupid.
Hér er sýnishorn úr myndinni:
Hægt er að skrá sig á forsýninguna á Facebook, en þar eru einnig upplýsingar um sýningartíma og fleira.
Umfjöllun um myndina má finna víða í erlendum fjölmiðlum, hér er frétt úr The Guardian.
Í nýlegri grein sem birtist í Geophysical Research Letters segir, að frá árinu 2002-2008 hafi minni útgeislun í sólinni haft áhrif til kólnunar á móti hlýnun jarðar af mannavöldum. Höfundar greinararinnar skoða fjóra meginþætti sem stjórna loftslagsbreytingum: Sólvirkni, Eldvirkni, ENSO (El Nino/La Nina) og aukningu í gróðurhúsalofttegundum. Eftirfarandi línurit sýnir hversu mikið hver þessara þátta hefur haft áhrif á hitastig jarðar frá 1980 (auk mögulegra áhrifa á næstu tveimur áratugum):
a) Mælt mánaðarlegt hnattrænt hitastig (svört lína), niðurstaða loftslagslíka (appelsínugul). b) mismunandi þættir sem hafa áhrif á hitastig jarðar, Enso – El Nino/La Nina (fjólublá), örður (e. aerosols) vegna eldvirkni (blá), útgeislun sólar (græn) og hlýnun af mannavöldum (rauð). Samtals útskýra þessir þættir 72% af breytileika í mældum hnattrænum hita. Framtíðarsviðsmyndir eru sýndar með brotinni línu.
Örður frá eldvirkni hafa aðallega áhrif til kólnunar, ENSO hefur áhrif til hlýnunar (El Nino) og kólnunar (La Nina), sólin hefur áhrif til kólnunar og hlýnunar, á meðan gróðurhúsalofttegundir hafa áhrif til hlýnunar. Þegar allir þessir þættir eru teknir saman, þá ráða þeir 76% af hitastigi jarðar síðastliðin 30 ár, samkvæmt greininni.
Fátt kemur á óvart í líkaninu þeirra, t.d. er árið 1998 sem var lengi vel opinbert hitamet á jörðinni á sama tíma og sterkur El Nino atburður var – en ENSO hefur töluverð áhrif á tímabundnar sveiflur í hitastigi. Þar kemur einnig í ljós að frá árinu 2002-2008 hefur virkni sólar minnkað töluvert og náði það að vega upp á móti áhrif hlýnunar af völdum gróðurhúsalofttegunda, það vel að lítil sem engin hlýnun varð á því tímabili.
Höfundar settu einnig fram hugsanlegar sviðsmyndir sem sýna mögulegar sveiflur í hitastigi næstu tvo áratugi, miðað við áframhaldandi aukningu gróðurhúsalofttegunda og líklega sveiflu í virkni sólarinnar. Einnig settu höfundar inn öflugt eldgos og sveiflu í ENSO til að sýna fram á hvaða áhrif slíkir atburðir myndu hafa – en það er þó ómögulegt að spá fyrir um hvenær slíkir atburðir verða.
Það má sjá af þessu að líklegast er að hlýnunin haldi áfram af völdum gróðurhúsalofttegunda, en aðalóvissuþátturinn eru hvernig þessir náttúrulegu þættir munu haga sér og hvernig þeir munu ná að hafa áhrif tímabundið til kólnunar og hlýnunar.
Að vísu er greinilegt að höfundar eru ekki að reikna með að niðursveiflan í sólinni haldi áfram, en virkni sólar síðustu tvö ár er minni nú en hún hefur verið í næstum öld. Það á eflaust eftir að vega enn meira upp á móti hlýnuninni sem er af völdum gróðurhúsalofttegunda, jafnvel það mikið að það kólni tímabundið – um það er þó erfitt að spá.
Afleiðingar hlýnunar jarðar tekur á sig margar myndir. Nú bendir margt til þess að hlýnun jarðar geti átt eftir að hafa slæm áhrif á svokallað Saaz humla sem er ein af afurðunum sem þykir hvað mikilvægust til að brugga hinn frábæra tékkneska bjór (svokallaðan Pilsner).
Vísindamenn frá Tékklandi og Bretlandi notuðu veðurfarsgögn með hárri upplausn, uppskeru og gæði humlana til að áætla afleiðingar loftslagsbreytinga á Saaz humlana í Tékklandi milli 1954 og 2006. Humlarnir sem taldir eru bestir innihalda um 5% af svokallaðri alfa sýru, sem þykir nauðsynleg til að búa til hið fína, bitra bragð af hinum tékkneska bjór.
Rannsóknir vísindamanna bendir til að magn alfa sýrunnar hafi minnkað um 0,06% síðan 1954 og að úlit sé fyrir að með hlýnun jarðar þá muni gæði humlana minnka enn frekar.
Þetta kemur heim og saman við niðurstöður rannsókna annars staðar frá, en talið er að humlaræktun í Austur Þýskalandi og Slóvakíu sé í svipað vondum málum.