50 years ago humans made it to the moon and back. This was a historical project fueled by enthusiasm, courage, willingness, science and other good human trades. It influenced people of many generations all over the world to see that humans are capable of making historical achievements over short period of time. Of course it wasn’t an easy task, as JFK said in his Moon speech, “We choose to go to the moon in this decade and do the other things, not because they are easy, but because they are hard, because that goal will serve to organize and measure the best of our energies and skills, because that challenge is one that we are willing to accept, one we are unwilling to postpone, and one which we intend to win”. This decision made it possible to send humans to the moon and back within a decade and it was a historical decision of courage.
One small step
Today we have an even bigger challenge, which is a challenge for humanity to endure the climate crisis and we have to make a decision to fight back and have the willingness to be on the winning team once more. We are not going to make this decision because it’s easy, but because it’s necessary for human kind and because the goal will serve the best of humanity and because that goal will serve to organize and measure the best of our human trades. It’s a challenge that we humans need to be willing to accept, a challenge that we are not going to postpone, and one which we intend to win. It’s a challenge and we have to make a decision to face the challenge.
This decision would be one small step for humanity, one giant leap of courage for humankind. So let’s do it, let’s make the decision and show our willingness to save ourselves by making the right choice, it’s the only way towards more certain and sustainable future for humankind.
Við hér á loftslag.is viljum gjarnan mæla heilshugar með sýningunni Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason. Andri segir sögu sem rammar hvað við stöndum frammi fyrir á næstu áratugum og tengir það bæði fortíð og framtíð. Eftirfarandi lýsing er tekin af vef Borgarleikhússins:
Andri Snær Magnason
“Á næstu 100 árum mun jörðin okkar fara í gegnum breytingar sem eru stærri en tungumál okkar og myndhverfingar geta höndlað. Þessar yfirvofandi ummyndanir sprengja í raun skynjun okkar svo við heyrum bara eitthvað hvítt suð. Andri Snær Magnason ætlar að hjálpa okkur að sjá gegnum suðið og skilja stærðirnar með því að blanda saman persónulegum sögum, vísindum, minningum og hugmyndum um framtíðina. Þannig vefur hann fyrir okkur söguþráð sem er í senn ævintýralegur, alvarlegur og kannski með vonarglætu í lokin. Búðu þig undir ferðalag upp á Vatnajökul, þar sem við hittum Robert Oppenheimer, höfund kjarnorkusprengjunnar, leitum að uppruna lífsins og heyrum um frændann sem endurholdgaðist sem forsögulegur krókódíll áður en við förum á fund hjá heilögum manni sem lumar á svarinu við spurningunni um tilgang lífsins.”
Fram koma Andri Snær Magnason, Högni Egilsson og skólakór Kársnesskóla. Það má nálgast miða á vef Borgarleikhússins og næstu sýningar í Borgarleikhúsinu verða þann 12. og 26. nóvember.
Þessi pistill er skrifaður í tilefni kosninga og sem hluti af því sem er að gerast í París 1,5 hópnum. París 1,5 er baráttuhópur um að Ísland geri sitt til að stöðva hlýnun jarðar við 1,5°C, m.a. með því að koma loftslagsmálunum að í komandi kosningum. Það munu koma fleiri pistlar á loftlsagsvefinn sem varða París 1,5 og baráttuna fyrir því að taka á loftslagsvandanum í framtíðinni. Á loftslagsvefnum er undirsíða sem nefnist París 1,5 þar sem pistlar sem tengjast hópnum eða tengdum málefnum verða birtir.
Það virðast ekki miklir möguleikar á því að loftslagsvandinn leysist af sjálfu sér. Þátttaka og átak almennings og stjórnvalda verður að koma til. Stjórnvöld geta t.d. haft áhrif á kauphegðun almennings með stjórnvaldsaðgerðum og almenningur getur haft áhrif á stjórnvöld með persónulegum aðgerðum t.d. með því að taka þátt í umræðu um vandann og ýta við aðgerðum á öllum sviðum. Stjórnvöld eru einskonar snið af almenningi hvers tíma og almenningsáliti (sem vissulega má hafa áhrif á) og því munu þau leggja áherslu á þau mál sem er almenningi ofarlega í huga (allavega í teóríunni). Stjórnmálamenn tala með þeim hætti að lofa því sem almenningur virðist vilja heyra á hverjum tíma (það er svo annað mál með efndir). Til að eitthvað gerist tel ég að það þurfi að hafa áhrif á stjórnmálamenn og aðra áhrifamenn – en hvernig er best að ná eyrum stjórnmálamanna og hafa áhrif á stefnu og getu þeirra til að framfylgja ákveðnum málum?
Það er augljóst hverjum sem vill sjá að það eru litlar sem engar alvöru aðgerðir stjórnvalda hér á landi (og þó víðar væri leitað) gegn loftslagsvandanum. Þrátt fyrir fagurt orðskrúð á tyllidögum þá eru aðgerðir nánast ósýnilegar og í þeim fáu tilfellum þar sem eitthvað er gert er það of lítið og of seint og virðist bara vera til að sýnast út á við. En það eru kannski til ráð til að ýta umræðu og almenningsáliti í rétta átt? Sem einstaklingar höfum við þá möguleika að segja skoðun okkar opinberlega, m.a. í ræðu og riti. Ef það eru nógu margir sem að skrifa bréf (já það er gamaldags), senda tölvupósta, standa upp og segja skoðun sína, taka upp símann og ræða við þá sem eru í framboði ásamt því að skrifa pistla í blöð og tímarit um loftslagsvandann þá hef ég þá trú að það muni virka. Segjum eins og rétt er, að það sé ekki of seint að taka á vandanum enn þá og þá verður hlustað (það gæti orðið of seint síðar). Þetta mun væntanlega á endanum verða þannig að flestir verða meðvitaðir um að það er ekki nóg að viðurkenna vandann, heldur þarf líka að taka á honum af alvöru og með því að lýsa því yfir við t.d. stjórnvöld, þar á meðal stjórnmálamenn og aðra sem geta haft áhrif – þannig höfum við áhrif og getum jafnvel flýtt fyrir málum.
Sem sagt – látum í okkur heyra og þá munum við hafa áhrif. Skrifum pistla í blöð og tímarit. Sendum tölvupósta, bréf og hringjum í frambjóðendur flokka og spyrjum þá útí skoðanir þeirra á loftslagsvandanum – mætum á framboðsfundi og spyrjum spurninga. Kjósum ekki þá sem að telja þetta ekki vandamál – kjósum þá sem vilja setja málið á oddinn, sama hvar í flokki fólk stendur. Ef “þinn flokkur” býður ekki uppá einstaklinga sem að hafa vilja til að taka á vandanum, færðu þá atkvæði þitt annað – en það má líka byrja á því að ýta sínu fólki í rétta átt fyrst og vonast eftir breytingum og hafa þannig áhrif á grasrótina. Öll framboð byrja með fólki með skoðanir og það má hafa áhrif á fólk með málefnalegri umræðu og staðreyndum. Allar stjórnmálastefnur þurfa að koma að málinu með sínar nálganir. Það er ekki hægt að taka þá afstöðu miðað við þær upplýsingar sem liggja frami að vandinn sé ekki til staðar af því að einhverjum líkar ekki við lausnir þær sem eru lagðar fram. Ef einhverjum líkar ekki lausnirnar þá er bara um að gera að setja fram lausnir sem viðkomandi hugnast og samræmast lífsviðhorfum og/eða pólitískum skoðunum viðkomandi – afneitun er ekki rétta svarið, enda erum við öll á sama báti þegar að því kemur að taka á vandanum.
Við fólkið erum grasrótin – látum í okkur heyra og hópumst upp á dekk til að hafa áhrif á að móta framtíðina, það er ekki of seint!
Stóra málið sem liggur fyrir COP21 loftslagsráðstefnunni í París er að ríki heims vilja reyna að ná samkomulagi um að taka á loftslagsvandanum og reyna að halda hlýnun jarðar innan 2°C markinu. Það virðist þó vera eitt stórt atriði varðandi það sem gæti hugsanlega valdið töluverðum vanda við lausnina, en það er einfaldlega þegar allir þættir eru lagðir saman, þá virðist sem dæmið gangi ekki alveg upp.
Eins metnaðarfullt og COP21 ráðstefnan er, þá eru ákveðnir þættir sem vinna á móti og gera verkefnið flóknara. T.d. er tímaþátturinn erfiður og flækjustig verksins sem framundan er líka flókið. Sumir vísindamenn og sérfræðingar telja að 2°C markmiðið sé nú þegar utan seilingar vegna þess að biðin sé nú þegar orðin of löng og of lítið hafi verið gert hingað til. Verkefnið sé þannig vaxið að erfitt sé að ná markmiðinu án þess að það hafi mikil áhrif á efnahag heimsins eða að sumar forsendur fyrir árangri séu tækni sem ekki sé enn búið að finna upp.
Kevin Anderson, aðstoðarframkvæmdastjóri Tyndal Center for Climate Research í háskólanum í Manchester (hann kom nýlega til Íslands og hélt fyrirlestur) hefur m.a. hrært upp í umræðunni um 2°C markið nýlega þar sem hann sakar starfsfélaga sína á sviði loftslagsrannsókna um að velja að ritskoða eigin rannsóknir. Anderson gerir sérstaklega athugasemdir við að mörg módel treysti á “neikvæða losun” með ókominni tækni sem á að fjarlægja koltvísýring úr loftinu. Þessi tækni, tiltekur hann að sé enn aðeins huglæg og ekki í hendi. Aðrir hafa einnig tekið undir með Anderson og telja að tíminn til að ná 2°C markinu sé hugsanlega nú þegar runninn úr greipum okkar.
Markmiðin eru einnig hlaðin óvissu, t.d. varðandi það hversu mikil kolefnislosun sé í raun örugg og hvernig aðrir ófyrirséðir þættir geti haft áhrif á útkomuna (hversu viðkvæmt er loftslagið?). 2°C markið er mögulega ekki öruggt til að byrja með, kannski þyrfti í raun að setja markið enn neðar (sem myndi gera verkefnið enn flóknara).
Á myndinni hér að ofan má sjá að árið 2014 voru losuð um 52,7 gígatonn af gróðurhúsalofttegundum – mælt í svokölluð CO2 jafngildseiningum (CO2 equivalents). Miðað við núverandi þróun í losun gróðurhúsaslofttegunda þá stefnum við um eða yfir 4°C hækkun (þó nokkur óvissa) á hitastigi jarðar (miðað við 1880). Miðað við útgefin vilyrði þjóða heims um losun á næstu árum og áratugum (fram til 2030) þá erum við enn yfir markinu. Bláa línan sýnir svo mögulega þróun í losun gróðurhúsalofttegunda til að halda okkur innan 2°C markinu (það er töluvert gap á milli hennar og núverandi vilyrða þjóða heims). Það er fátt sem bendir til þess á núverandi tímapunkti að síðasta leiðin verði valin í París. Að sjálfsögðu er hægt að skerpa á markmiðunum í framtíðinni og reyna að draga enn meira úr losun þegar fram líða stundir. Tíminn virðist ekki ætla að vinna með okkur í þessu risavaxna verkefni, en það verður þó fróðlegt að fylgjast með árangrinum á COP21 í París og að sjá fram á hvaða væntingar verður hægt að hafa til þess sem þar gerist fyrir framtíðina – þeim mun afgerandi skref sem eru tekin þar, því minna flækjustig í framtíðinni.
Heimildir og ýtarefni:
Þessi færsla byggist lauslega á eftirfarandi grein af vef The Washington Post:
The magic number eftir Chris Mooney – sem við getum mælt með að lesendur okkar glöggvi sig á, enda enn ýtarlegri en hér.
Einn áhrifamesti fyrirlesari um loftslagsbreytingar, Bill McKibben heldur opinn fyrirlestur í boði Landverndar, Norræna hússins og námsbrautar í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ. Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni “Frá vitund til verka” um hugarfarsbreytingu í umhverfismálum og fer fram í Háskólabíó, SAL 1, sunnudaginn 5. maí kl. 12:30. Ef þið hafið möguleika, vinsamlega skráið ykkur á Facebook viðburð sem hefur verið stofnaður um fyrirlesturinn – en annars bara mæta, þetta er opinn viðburður.
Bill McKibben er höfundur fjölda bóka um umhverfismál og einn stofnenda hinnar alþjóðlegu grasrótarhreyfingar 350.org, sem berst fyrir því að verja Jörðina fyrir hlýnun andrúmslofts. Samtökin hafa samhæft um 15 þúsund fjöldafundi í 189 löndum síðan 2009.
Bill McKibben er höfundur bókarinnar „The End of Nature“ sem var ein fyrsta bók fyrir almenning um loftslagsbreytingar. McKibben skrifar í fjölmörg tímarit, m.a. The New York Times, The Atlantic Monthly, Rolling Stone og Outside. Hann kemur fram út um allan heim og er afar vinsæll og áhrifamikill fyrirlesari. Time Magazine hefur útnefnt hann sem „The planet’s best green journalist“ og árið 2010 skrifaði Boston Globe að hann væri „probably the country’s [US] most important environmentalist“.
Hér að neðan eru linkar á upplýsingar um McKibben og um 350.org.
Það er áætlað að undir hafsbotni á norðurslóðum megi finna allt að fjórðung allra óupgötvaðra olíu- og gasbirgða í heiminum. Hratt hop eldri og þykkari hafíss ásamt meiri eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti hefur dregið athygli að Norðurskautinu sem aldrei fyrr. Jafnvel á sama tíma og heimurinn ræðir um nauðsyn þess að skipta í loftslagsvænni orku, þá eru öflugir efnahagshvatar fyrirtækja og stjórnvalda til að hrinda af stað könnun Norðurslóða, til að mynda könnun staða eins og í Alaska, Vestur Kanada, Grænlands- og Barentshafi ásamt Norður-Rússlandi.
Málþinginu er ætlað til að auka þekkingu og byggja upp getu meðal frjálsra félagasamtaka (NGOs) á sviði olíu- og gas notkunar og bjóða upp á tækifæri fyrir viðkomandi samtök til stefnumótunar um málefnið.
Ráðstefnudögunum tveimur verður skipt í þrjá þematengda fundi/efni, þar sem eftirfarandi efni verða höfð að leiðarljósi.
Olía og gas á norðurslóðum í hnattrænu samhengi – umfangið í dag og þróun til framtíðar, ásamt umræðu um þá hvata sem að baki liggja
Tekist á við áskoranir – dæmi um núverandi stefnu og frumkvæði
Horft fram á við – hlutverk frjálsra félagasamtaka og hvernig hægt er að hafa áhrif á umræðuna
Málþingið verður haldið dagana 12.-13. nóvember og mun ég skrifa um upplifun mína hér á loftslag.is undir liðnum Haparanda. Þetta er einstakt tækifæri fyrir mig (og vonandi fyrir lesendur líka) til að setja mig inn í hvernig umræðan um þetta málefni er að þróast. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi núverandi umræðu hér á landi um hugsanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Ég kem að þessu sem óbundinn einstaklingur og vona að ég geti komið boðskapi fundarins á framfæri hér á loftslag.is. Ég fer á fundinn í boði UNEP GRID-Arendal, en milliliður og aðal hvatamaður að þátttöku minni á málþinginu er Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Á málþinginu verða aðilar frá frjálsum félagasamtökum, iðnaðinum, stjórnvöldum, háskólum, sjóðum og öðrum áhugasömum einstaklingum. Þátttökulistinn inniheldur m.a. fólk frá Shell, Greenpeace, Háskólum frá m.a. Laplandi og Danmörku og opinberum stofnunum frá ýmsum löndum.
Nýjung, núna er einnig hægt að bæta við ummælum á loftslag.is í gegnum Facebook, sjá hér undir.
Nú um daga er vinsælt að skella sér í 3D bíó. En 3D (alla vega hugtakið 3D) er einnig komið á kort vísindamanna varðandi sólarorku. Vísindamenn við MIT (Massachusetts Institute of Technology) telja að með því að skipta út flötum sólarpanilum fyrir þrívíða uppbyggingu panilanna, þá sé hægt að ná allt að 20 sinnum meiri skilvirkni í sólarsellunum. Í tilraunum rannsakenda kom í ljós að einskonar þrívíð uppbygging á sólarsellum varð til þess að jafnvel sólarljós sem barst við minni vinkil nýttist betur og að endurspeglun í kerfinu hjálpaði til við að fanga sólarljósið. Uppbyggingin getur einnig tvöfaldað þann tíma sem hámarks afköst nást. Vísindamennirnir segja að smávægilega endurbætt kerfi með kassalaga sellum sem standa upp úr panilunum (ekki alveg 3D) geti aukið afkastagetuna um allt að 3,8 sinnum, miðað við flata panila. Þrátt fyrir að flóknari bygging leiði til dýrari panila, þá segir Marco Bernardi, einn rannsakenda, að aukin afkastageta vinni upp á móti þeim kostnaði.
Mjög jákvætt er að í Durban varð samkomulag um að þau ríki sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum hefji á ný samningaviðræður um lagalega bindandi sáttmála.* Eftir loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn fyrir tveimur árum virtust öll sund lokuð. Samningaviðræðum skal lokið fyrir 2015 en munu ekki hafa áhrif fyrr en eftir 2020, sem er of seint.
Einnig náðist samkomulag um framlengingu Kyoto-bókunarinnar en hvað það felur í sér fyrir þau ríki sem enn eiga aðild og hyggjast taka á sig skuldbindingar samkvæmt bókuninni er óljóst, Japan, Kanada og Rússland hafa nú sagt sig frá bókunni. Eftir eru Evrópa og Ástralía, Nýja Sjáland, auk þróunarríkja sem ekki taka á sig skuldbindingar líkt og bókunin kveður á um. Það er meginatriði að Kyoto-bókunin verður áfram grunnur að frekari samningagerð. Kyoto-bókunin eru einu alþjóðalögin sem í gildi eru um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.
Þessi tvö atriði eru stór plús og umfram væntingar. Evrópusambandið hrósar sigri yfir að samkomulag náðist um að gera skuli lagalega bindandi samning innan fjögurra ára. Á hinn bóginn veit enginn hvernig sá samningur mun líta út og aftur unnu Bandaríkin því ákvæði fyrirhugaðs samnings um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda munu ekki taka gildi fyrr en eftir 2020.
Bandaríkin hafa frá upphafi hafnað Kyoto-bókuninni. Vissulega undirritaði Al Gore bókunina í Kyoto árið 1997 en frá sama tíma var ljóst að Öldungadeild þingsins myndi ekki fullgilda hana. Í besta falli var bandaríska stjórnkerfið klofið á þeim tíma. Frá því að Bush tók við völdum hafa Bandaríkin alfarið hafnað þeirri nálgun, sem felst í bókuninni, að iðnríkin beri sögulega langmesta ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda og þeim beri því fyrst að draga úr losun og að engar slíkar kröfur verði gerðar til þróunarríkja fyrst um sinn. Þessi nálgun er í samræmi við 2. grein Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1992 („Sameiginleg en mismunandi ábyrgð ríkja“) og varð ein meginniðurstaða 1. aðildarþings samningsaaðila í Berlín þremur árum síðar. Séð frá þessu sjónarhorni má segja að fulltrúar Bandaríkjanna hafi náð fram markmiðum sínum í Durban.
Á fyrsta fundi aðildarríkja Loftslagssamningsins eftir að Barack Obama settist að í Hvíta húsinu vakti fulltrúi Bandaríkjanna, Todd Stern mikla lukku þegar hann sagði: “We’re back.” Engu að síður hafa Bandaríkin fylgt mjög svipaðri stefnu og Bush forseti mótaði. Helsti munurinn er e.t.v. sá að Hvíta húsið reynir ekki að draga í efa niðurstöður vísindamanna um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga. Í Durban fóru fulltrúar Bandaríkjanna sér hægt en þæfðu mál og töfðu fyrir til að koma í veg fyrir nauðsynlegar aðgerðir. Hvort Obama forseti bætir ráð sitt nái hann kjöri á ný skal ósagt látið en innan umhverfisverndarhreyfingarinnar eru fáir sem meta hann mikils.
Þróunarríkin fagna sigri yfir að Kyoto-bókunin er enn í gildi, sú meginregla að iðnríkjunum beri skylda til að taka forustu um samdrátt í losun, skipti yfir í endurnýjanlega orku og að þau skuli veita fjármagn og tækniaðstoð til þróunarríkja.
Að óbreyttu stefnir í að hitastig andrúmsloftsins muni hækka um og yfir 3 gráður á Celcíus miðað við fyrir iðnbyltingu. Í Kaupmannahöfn náðist samkomulag um að halda skyldi meðalhitnun andrúmslofts jarðar innan við 2°C. Öll smá láglend eyríki telja 1,5°C hækkun vera hámark. Ella munu þau hverfa í sæ í fyrirsjáanlegri framtíð. Segja má að 2°C hækkun séu efri mörk þess sem vísindamenn telja að vistkerfi jarðar þoli með von um að ná jafnvægi á ný – eftir margar aldir. Skaðinn verður gífurlegur og nýlega kom út skýrsla Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem sýnir skýr tengsl milli hækkandi hitastigs og öfga í veðurfari.
Enn er stórt bil á milli annars vegar þess samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda sem ríki hafa þegar skuldbundið sig til að koma í verk og hins vegar þess samdráttar sem er nauðsynlegur til að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 1,5 – 2°C. Þetta bil stækkar óðum og því verður að grípa aðgerða sem allra fyrst. Sjá skematískt yfirlit hér að neðan, en þar kemur þó ekki fram hvernig súrnunun sjávar eykst í hlutfalli við hækkandi hitastig þótt fram komi að kóralrif muni deyja út í Indlandshafi við 2°C hlýnun. Eftir Durban vitum við að stefnt er að lausn málsins með lagalega bindandi samningi þar sem öll ríki verða að taka á sig skuldbindingar. Slíkt samkomulag náðist fyrst í Kyoto fyrir 14 árum síðan, það er enn í gildi en kolefnisiðnaðinum í Bandaríkjunum hefur tekist að koma í veg fyrir að nái til alls heimsins. Nú er önnur tilraun og við vitum ekki hvort tekst að ná samkomulagi í tæka tíð.
Árni Finnsson.
Smellið tvisvar á myndina til að fá hana stærri – Heimild – www.climateactiontracker.org
*Indland hafnaði reyndar hugtakinu ‘legally binding’ en féllst á málamiðlun þess efnis að nýr samningur hefði ‘legal force’.
Eftirspurn eftir tvíhjóla rafknúnum farartækjum (þá mest rafvespum og rafmótorhjólum) á eftir að aukast gríðarlega á næstu árum, ef marka má nýja skýrslu um málið. Í henni er talið líklegt að fjöldi slíkra farartækja eigi eftir að fjölga úr 17 milljónum á þessu ári og upp í 138 milljónir fyrir árið 2017.
Tvíhjóla rafmagnsfarartæki, sem eru nú þegar mjög vinsæl í Asíu, munu fjölga við hækkandi verðs á olíu og bensíni, auk hvatningar frá yfirvöldum samkvæmt skýrslu Pike Research.
Kostir slíkra farartækja eru miklir fyrir marga notendur, þ.e. þau eru fyrirferðalítil auk lítils viðhalds og því óneitanlega hagkvæmur kostur fyrir borgarbúa. Markaður fyrir vespur er talin verða um sex sinnum stærri en rafmótorhjóla – en það verður þó misjafnt eftir heimshlutum. T.d. er talið að mótorhjól verði vinsælli í Bandaríkjunum og eflaust verður það svipað hjá okkur Íslendingum – en þau munu komast lengra og fara hraðar yfir.
Við þekkjum öll hefðbundnar vindmyllur. Þær hafa reynst ágætlega víða um heim til raforkuframleiðslu, en eitt vandamál hefur oft verið nefnt til sögu þegar rætt er um þær og það er að þær eru að margra mati ljótar ásýndar. Til að reyna að finna ráð við þessu, þá hefur hópur hönnuða gert nýja tegund vindorkuvera, þar sem þeir fengu lánaðar nokkrar hugmyndir frá sjálfri náttúrunni.
Þessi nýja hönnun var gerð með það fyrir augum að verða hluti raforkulausnar við uppbyggingu bæjarins Masdar í Abu Dhabi. Vindstilkunum, eins og þeir eru kallaðir, á að svipa til kornakurs, en í staðin fyrir stilka kornsins, þá inniheldur akurinn 1.203, 55 metra háa stólpa sem eru kolefnistrefja styrktir. Hver fyrir sig eru þeir pakkaðir með þrýstirafs keramikdiskum og rafskautum. Þegar vindur blæs á stólpana framleiða rafskautin rafstraum, sem er svo geymdur á einhverju sem líkist batteríum og er staðsett undir akrinum. Á hverjum stólpa er ljósdíóða á toppnum, sem lýsir eftir því hvort stólpinn hreyfist eða ekki.
Hönnuðurnir segja að vindstilkaakrarnir ættu að geta framleitt álíka mikið af orku og sambærileg stærð af hefðbundnum vindmyllu svæðum. Jafnvel þó að hver hefðbundin vindtúrbína framleiði meira en hver stólpi fyrir sig, þá er hægt að hafa vindstilkana þéttar en hefðbundnar vindmyllur sem vegur á móti og gerir það að verkum að raforkuframleiðslan ætti að vera svipuð.
Það er spurning hvort að vindstilkar verði hluti lausnarinnar í endurnýjanlegri orku í framtíðinni og verður forvitnilegt að fylgjast með framþróun þeirra. Hönnuðirnir segja; “Þetta er unnið á kerfum sem nú þegar eru til og virka“, en hvað sem framtíðin ber í skauti sér fyrir þessa tilteknu hugmynd, verður að telja það jákvætt að unnið sé að framþróun lausna sem hugsanlega geta nýst í framtíðinni.