Hversu viðkvæmt er loftslagið?

Fyrir nokkru kom út leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir. Hér er einn kafli hans. 

Mismunandi mat á jafnvægissvörun loftslags (41).

Hversu viðkvæmt er loftslagið?

Jafnvægissvörun loftslags segir til um hversu mikið hnattrænn hiti geti aukist við tvöföldun á CO2 í lofthjúpnum. Vel þekkt er að bein áhrif tvöföldunar á CO2 (þ.e. án dempandi eða magnandi svörunar) er um 1,2°C. Stóra spurningin er því sú, hver svörunin verður við þeirri hlýnun. Mun magnandi svörun magna upphaflegu hlýnunina? Er dempandi svörun nægileg til að halda hlýnuninni niðri?

Jafnvægissvörun loftslags hefur verið ákvörðuð með mismunandi aðferðum. Mælingar á hnattrænum hita, gervihnattamælingar, varmi sjávar, eldvirkni, fornloftslag og keyrsla loftslagslíkana eru allt nálganir sem notaðar hafa verið til að reikna út viðbrögð við auknum varma loftslags. Margar óháðar rannsóknir hafa verið gerðar, þar sem stuðst er við mismunandi tímabil og mismunandi þætti loftslags með mismunandi úrvinnsluaðferðum [41].

Þessar margvíslegu aðferðir veita samkvæma mynd af jafnvægissvörun á bilinu 2 – 4.5°C og með líklegasta gildi um 3°C. Það þýðir að magnandi svörun magnar upp hlýnunina sem verður við aukinn styrk CO2.

Sumir telja að jafnvægissvörun loftslags sé lægri og benda á rannsókn Lindzen og Choi [44]. Sú rannsókn notar gervihnattamælingar á innrauðri útgeislun frá jörðinni og benda þau gögn til sterkrar dempandi svörunar. Þau gögn skoða þó aðeins hitabeltið. Hitabeltið er þó ekki lokað kerfi því mikil orka dreifist frá hitabeltinu og að heittempruðu beltunum [45]. Til að reikna út hnattræna jafnvægissvörun loftslags þarf að nota hnattræn gögn. Flestar rannsóknir sem nota hnattræn gögn sýna magnandi svörun [46,47].

Skilningur á jafnvægissvörun loftslags fæst með því að skoða gögnin í heild. Að segja að hún sé lág út frá einni rannsókn, er sama og að hundsa öll hin fjölmörgu gögn sem benda til magnandi svörunar og hárrar jafnvægissvörunar loftslags.

Við kíkjum á næsta kafla af Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir  síðar.

Heimildir og ítarefni

41. Knutti og Hegerl 2008: The equilibrium sensitivity of the earth’s temperature to radiation changes.

44. Lindzen og Choi 2009: On the determination of climate feedbacks from ERBE data.

45. Trenberth o.fl. 2010: Relationships between tropical sea surface temperature and top-of-atmosphere radiation.

46. Murphy 2010 (ágrip): Constraining climate sensitivity with linear fits to outgoing radiation.

47. Chung o.fl. 2010 (ágrip): Revisiting the determination of climate sensitivity from relationships between surface temperature and radiative fluxes.

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál