Hjólastóllinn – ný heildarmynd

Margir kannast við hokkíkylfuna klassísku, en nýjasta heildarmyndin er nokkuð umfangsmeiri en sú mynd og hefur fengið viðurnefnið hjólastóllinn.

Sú mynd sýnir áætlað hitastig frá því á síðasta kuldaskeiði ísaldar, fyrir um 22 þúsund árum, allan nútíma og fram til loka þessarar aldar sem nú er hafin (til 2100).

Shakun_Marcott_HadCRUT4_A1B_500

Mynd 1: Áætlað hnattrænt hitafrávik á síðasta kuldaskeiði ísaldar Shakun o.fl. 2012 (græn lína), hitastig á nútíma Marcott o.fl. 2013 (blá lína), ásamt hnattrænum hita síðastliðna rúma öld samkvæmt HadCRUT4 (rauð lína) og áætlað hitastig samkvæmt IPCC sviðsmynd  A1B fram til ársins 2100 (appelsínugul lína).

Helsta nýjungin í þessu línuriti er bláa línan, en fyrr í þessum mánuði kom út grein í Science eftir Marcott o.fl. (2013) þar sem höfundar taka saman gögn frá 73 svæðum sem dreifð eru um jörðina og þykja saman gefa góða vísbendingu um breytingu á hitastigi síðastliðin 11 þúsund ára. Þar er um að ræða fyrstu almennilegu tilraunina til að taka saman hitagögn fyrir allan nútíma (e. holocene). Það línurit er því besta nálgun sem við höfum nú um þróun hitastigs á jörðunni, á nútíma. Línuritið endar um miðja síðustu öld og sýnir því glögglega hvernig hitastigið hækkar eftir 1850:

Hockeystick-Marcott_Mann2008

Mynd 2: Hitafrávik samkvæmt Marcott o.fl. 2013 (síðastliðin 11 þúsund ár) og ýmsar rannsóknir teknar saman af Mann o.fl. 2008 (síðastliðin 1800 ár), sjá einnig hér.

Þessi mynd ætti ekki að koma áhugafólki um loftslagsmál á óvart, því til hefur verið mynd sem sýnir samskonar þróun í hitastigi og oft er vísað til.  Hér má sjá þá ágætu mynd sem sýnir samanburð milli þessara tveggja línurita:

Holocene_Temperature_Variations_Marcott_500

Mynd 3: Hnattrænt hitastig frá Global Warming Art, með meðalhitafrávik í svörtu, ásamt Marcott o.fl. 2013 í rauðu.

Samkvæmt rannsókn Marcott og félaga þá er jörðin að hlýna hratt, jarðsögulega séð – hins vegar vara höfundar við að upplausn gagnanna grípi ekki vel fyrri sveiflur, sérstaklega ekki ef þær hafa varað stutt, þannig að ekki er hægt að útiloka að yfir önnur tímabil hafi hitastig breyst jafn hratt og nú. Samkvæmt línuriti þeirra þá reis hitastig upp í hæstu hæðir fyrir um 7 þúsund árum síðan, en eftir það lækkaði það smám saman. Þessi breyting er í takti við breytingar í sveiflum í möndulhalla halla og fjarlægð jarðarinnar frá sólu – svokallaðrar Milankowitch sveiflu (sjá t.d. hér).

Eftir 1850 eru áhrif losunar manna á gróðurhúsalofttegundum orðin greinileg á mynd Marcott og félaga.

Jarðsöguleg tímabil hafa upphaf og endi. Ef skoðað er fyrrnefnt línurit, þá má segja að hafið sé nýtt tímabil í jarðsögunni og að það hafi byrjað um 1850. Áður hafa komið fram tillögur um að kalla slíkt tímabil Anthropocene (mannskepnuskeiðið samkvæmt tillögu Trausta Jónsonar Veðurfræðings).

Ef við lítum aftur á mynd 1 í byrjun þessarar færslu, þá má sjá að mannkynið er að búa til nýjan heim, heim með loftslagi sem samfélög manna hafa ekki þurft að glíma við áður. Miðað við stöðuna í dag, þá lítur ekki út fyrir að þjóðir heims ætli, né vilji taka á þeim vanda sem við blasir. Til þess þarf festu, en einnig hugrekki til að standast þær freistingar sem skammtímagróði vekur og skynsemi til að sjá kostnaðinn sem þessar athafnir manna munu valda til framtíðar.

Heimildir og ítarefni

Byggt á færslu á Skeptical Science, sjá The two epochs of Marcott and the Wheelchair

Shakun o.fl. 2012: Global warming preceded by increasing carbon dioxide concentrations during the last deglaciation

Marcott o.fl. 2013: A Reconstruction of Regional and Global Temperature for the Past 11,300 Years

Mann o.fl. 2008: Proxy-based reconstructions of hemispheric and global surface temperature variations over the past two millennia.

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál