Samkvæmt gögnum af Wikipedia.org og International Energy Agency, þá er heildarlosun koldíoxíðs af mannavöldum um 28 miljarðar tonna á ári. Hérundir má sjá graf yfir þróun losunar koldíoxíðs í heiminum frá 1971-2007 (IEA), þessi færsla er hluti fastrar síðu undir Spurningar og svör, á þeirri síðu er einnig ítarlegur listi yfir öll lönd og losun hvers þeirra, sjá hér.
Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef
-
Frétt: Færri Bandaríkjamenn telja traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun
Tafla 1 (smellið á myndina til að fá hana í fullri stærð) Þrátt fyrir sífellt fleiri vísindaleg rök, þá eru færri Bandaríkjamenn sem telja að traustar sannanir séu fyrir hnattrænni hlýnun undanfarna áratugi. Ný könnun sem gerð var nú október, á vegum Pew Research Center for the People & the Press, gefur til kynna að nú telji 57% Bandaríkjamanna að traustar sannanir séu fyrir hnattrænni hlýnun, á móti 71% í apríl 2008. Aftur á móti eru 33% sem telja hana ekki til staðar á móti 21% í apríl 2008. Í töflu 1 má lesa betur út úr tölunum. Úrtakið var 1500 manns.
Séu þessar tölur skoðaðar eftir stjórnmálaskoðunum, þá er einnig hægt að greina nánar hvernig breytingarnar hafa orðið allt frá 2006. Hjá Demókrötum er línan ekki eins brött niður á við eins og hjá bæði óháðum og Repúplíkönum. En þó er hægt að greina að almenningur telur sig ekki hafa fullnægjandi skýringar og sannanir fyrir því að hnattræn hlýnun eigi sér stað. Sjá graf 1. Einnig er hægt að sjá þar að mesta breytingin hefur orðið undanfarið ár.
Graf 1 (smellið á myndina til að fá hana í fullri stærð) Þetta þykir ekki síst athyglisvert í ljósi þess að á síðustu misserum hafa komið fram sterkari vísindaleg rök sem styrkja kenningar um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Þess má geta að núna er til umfjöllunar stórt frumvarp á Bandaríkjaþingi, þar sem leitast er við að koma til móts við loftslagsvandann.
Andrew Weaver, prófessor við Háskólann í Victoria í bresku Kolumbíu, segir að stjórnmál séu að slöra vitund almennings fyrir vandanum. “Þetta er samsetning lélegrar boðmiðlunar af hálfu vísindamanna, lélegs sumars í austur hluta Bandaríkjanna, þar sem fólk ruglar saman veðri og loftslagi og (mjög stór þáttur) almannatengsla fyrirtæki og þrýstihópar sem reyna að sá efasemdum í huga almennings,” segir prófessor Weaver.
Þrátt fyrir minna traust á vísindin, þá segist helmingur þátttakenda í könnuninni styðja aðgerðir til að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda. Þrátt fyrir að það geti leitt til hærra orkuverðs. Meirihlutinn, 56%, taldi einnig að Bandaríkinn ættu að taka þátt í aðgerðum með öðrum þjóðum um aðgerðir til að takast á við hnattrænar loftslagsbreytingar.
Samkvæmt öðrum könnunum þá eru flestar þjóðir á því að loftslagsvandinn sé til staðar og að taka þurfi hann alvarlega og að setja þurfi loftslagsmál í hærri forgang. Sjá t.d. World Public Opinion.
Ítarefni:
Umfjöllun á vef The Pew Research Center for the People & the Press
Frétt á vef COP15
Könnun World Public Opinion
Frétt á fréttavef Yahoo -
Myndband: Bráðnun jökla í Bhutan
Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Nature gerði. Þar er fjallað um bráðnun jökla í Bhutan af völdum hlýnunar jarðar og vandamálin sem eru að skapast og mun skapast af þeirra völdum.
-
Tengill: Gagnvirkt kort
Hér fyrir neðan má sjá gagnvirkt kort þar sem farið er yfir helstu afleiðingar þess ef meðalhiti jarðar fer yfir 4°C eins og spáð er að muni mögulega gerast ef ekki verður gert almennilegt átak í minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda.
Hægt er að skoða þetta kort í fullri stærð Hér
Nánari upplýsingar um hvaða rannsóknir liggja til grundvallar þessu korti má finna á heimasíðunni Act On Copenhagen – Evidence
-
Gestapistill: Fuglar og loftslagsbreytingar
Almennt
Rannsóknir á tengslum loftslagsbreytinga við vistkerfi og tegundir hafa stóraukist á síðustu árum. Flest bendir til að viðbrögð dýra og plantna við þeim breytingum séu yfirstandandi (t.d. Huntley o.fl. 2007, Thuiller o.fl. 2005). Þó getur reynst erfitt að aðgreina áhrif loftslagsbreytinga frá öðrum atburðum sem verka á smærri mælikvörðum í tíma og rúmi en eru ríkjandi í stjórnun vistfræðilegra ferla (t.d. Parmesan & Yohe 2003).
Rannsóknir á fuglum hafa verið fyrirferðarmiklar í þessum geira, enda eru fuglar sýnilegir og áberandi. Áhrif á fugla eru einkum mæld í tveimur flokkum, annars vegar áhrif á útbreiðslu og hins vegar áhrif á tímasetningar atburða yfir árið (Wormworth & Mallon 2006). Atburðir í þessum tveimur flokkum tengjast og geta haft mikil áhrif á eintaklinga og stofna. Fuglar bregðast við loftslagsbreytingum með tvennu móti. Annars vegar með innbyggðum sveigjanleika í atferli og lífeðlisfræði (phenotypic flexibility) og hins vegar með náttúrulegu vali fyrir eiginleikum sem aðlögun að hinum breyttu aðstæðum. Það síðarnefnda tekur lengri tíma og áhrif loftslagsbreytinga á fuglastofna eru líkleg til að ráðast, í mörgum tilfellum, af því hversu hratt þróun gengur á vistfræðilegum tímakvörðum. Hér verður greint stuttlega frá helstu áhrifum sem loftslagsbreytingar virðast hafa á fuglastofna og mælingum á slíkum ferlum.
Útbreiðslubreytingar
Ljóst er að loftslagsbreytingar geta haft mikil áhrif á útbreiðslu tegunda og stofna fugla. Útbreiðsla fugla ræðst einkum af ýmsum nærtækum þáttum eins og fæðuframboði, afráni og eðli búsvæða en slíkir þættir eru undir áhrifum af loftslagi. Hlýnandi loftslag er almennt talið muni hafa þau áhrif að færa útbreiðslusvæði á norðurhveli norðar en samspil veðurfars við umhverfi fugla er þó flókið og ólíklegt að slík tilfærsla gangi alltaf greiðlega fyrir sig.
Á síðustu árum hefur færst í vöxt að rannsakendur reyni að skýra útbreiðslubreytingar fugla eða spá fyrir um áhrif loftslagsbreytinga út frá svokölluðum rammalíkönum (climate envelope models). Þá er útbreiðsla tiltekinna tegunda og/eða stofna borin saman við það loftslag sem ríkir á útbreiðslusvæði þeirra. Því næst er sá rammi sem loftslagið setur (t.d. uppsafnað hitastig yfir árið) færður í takt við spár um loftslagsbreytingar (nær alltaf norður á norðurhveli) og útbreiðsla fuglanna með (t.d. Huntley o.fl. 2007). Þó það sé eðli líkana að einfalda raunveruleikann þá er þessi nálgun þó helst til mikil einföldun. Enda tekur hún ekki til fjölbreyttra og nærtækari þátta sem miðla áhrifum loftslags á fugla eins og fæðuframboðs og dreifingarhæfileika einstakra tegunda. Fuglar hafa oft víðara þolsvið gagnvart loftslagi og veðurfari en útbreiðsla segir til um og menn, rándýr og aðrir fuglar hafa einnig mikil áhrif á útbreiðslu. Gagnrýni á rammalíkön hefur enda orðið æ háværari. Raunar hefur samanburður sem skýrir skráðar útbreiðslubreytingar 100 evrópskra fuglategunda út frá tilviljanakenndum þáttum hliðstætt forspárgildi og rammalíkön (Beale o.fl. 2008).
Þó að reynst hafi erfitt að einangra loftslagsbreytingar sem drifkraft útbreiðslubreytinga fuglastofna á stórum landfræðilegum mælikvörðum er ýmislegt sem bendir til að slík áhrif séu raunveruleg, a.m.k. á smærri mælikvörðum. Ýmsar fuglategundir hafa verið að færa sig norðar, t.d. á Bretlandseyjum, að meðaltali um 18.9 km á tveimur síðustu áratugum (Thomas & Lennon 1999), en það er einkum talið tengjast lægri tíðni harðra vetra sem halda lífslíkum ýmissa viðkvæmari fugla niðri. Þá hefur verið leitt að því líkum að ýmsir fuglar opinna svæða á norrænum slóðum eigi eftir að hörfa er hávöxnum gróðri fer fram við hlýnandi loftslag (Meltofte o.fl. 2008). Sömu áhrif eiga sér stað með hæð yfir sjávarmáli. Ef við höfnum rammalíkönum sem fullnægjandi tæki til að sýna fram á að loftslagsbreytingar drífi útbreiðslubreytingar fugla þá er enn fátt sem bendir til að loftslagsbreytingar séu farnar að hafa stórfelld áhrif á útbreiðslu fugla á stórum mælikvörðum. Af sömu ástæðu skortir enn tæki til að spá fyrir um framtíðina. Ef hins vegar loftslag heldur áfram að hlýna hratt næstu árin er líklegt að einhverjar tegundir sýni breytingar að því marki að gagnasett verði nothæf til að byggja á spár fyrir framtíðina. Fuglar eru erfiðir að þessu leiti þar sem að þeir þola verulegar sveiflur í hitastigi ef fæðuframboð er nægt. Hjá lífverum sem sýna sterkari lífeðlisfræðilega svörun við sjálfum hitanum eru mynstrin skýrari. Til dæmis fer ekki milli mála að fjölmargar fiskitegundir hafa færst norðar á síðustu árum og þær sem eru smærri og hafa styttri lífsferil hafa oftar færst meira (t.d. Perry o.fl. 2005).
Breytingar á tímasetningum í ársferli fugla
Þó að upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga á útbreiðslu fuglastofna séu enn tvíræðar eru miklar upplýsingar til af norðurhveli um breytingar á tímasetningum atburða í ársferli fugla. Sérlega áberandi er hve fartími hefur færst framar en slík mynstur eru ríkjandi hjá fjölda fuglategunda bæði í Evrópu og í N-Ameríku (t.d. Walther o.fl. 2002, Butler 2003 Murphy-Klaasen & Heather 2005). Misjafnt er hversu miklar breytingarnar eru en meðalkomutími einstaklinga hefur gjarnan færst fram 2-5 daga á áratug. Það sem gerir kleyft að skoða breytingar á komutíma eru langtíma mælingar á komutíma farfugla en varla er fýsilegt að tengja breytingar á komutíma langlífra fugla við loftslagsbreytingar nema hafa nokkra áratugi af mælingum undir.
1. Mynd. Þó að karlfuglar og kvenfuglar jaðrakana sem hafa verið paraðir á ári n séu aðskildir á vetrum koma þeir aftur á varpóðul sín á ári n+1 með ótrúlega samhæfðum hætti (Tómas Grétar Gunnarsson o.fl. 2004). Sjá skýringar í texta. Í ofangreindum rannsóknum og mörgum fleiri á sama sviði er áberandi hversu mikill munur er á breytingum hjá langdrægum farfuglum (gjarnan þeir sem ferðast 3000 km eða meira milli varp- og vetrarstöðva) og þeim sem ferðast styttra. Langdrægu farfuglarnir hafa yfirleitt breytt fartíma sínum mjög lítið eða ekkert á síðustu árum þrátt fyrir hlýnun meðan þeir skammdrægari hafa flýtt sér mikið. Ástæðan fyrir því er almennt talin vera að skammdrægir fuglar hafa meiri möguleika á að meta aðstæður á varpstöðvum áður en lagt er í farflugið, t.d. með því að hafa veður af sömu veðrakerfum og þeim sem ákvarða aðstæður á áfangastað. Sterkt val er gegn því að koma það snemma að enn séu verulegar líkur á lífshættulegum vorhretum. Þannig eru skammdrægir fuglar færir um að uppfæra ferðaáætlun og stilla fartíma sinn og komutíma eftir aðstæðum. Gott dæmi má sjá hjá íslenskum jaðrakönum (Limosa limosa islandica) sem hafa vetursetu í V-Evrópu frá Bretlandseyjum til Portúgals. Jaðrakanar eru átthagatryggir og pör halda yfirleitt saman ár frá ári ef bæði láta sjá sig á varpstöðvum. Þó að karlfuglarnir og kvenfuglarnir séu aðskildir á vetrum (oft þúsundir km á milli) þá koma pöruðu fuglarnir á ótrúlega samhæfðan hátt aftur á varpóðul sín að vori (Tómas Grétar Gunnarsson o.fl. 2004) (1. mynd). Fýsilegasta skýringin á þessu fyrirbæri er að fuglarnir uppfæri ferðaáætlun sína á svipaðan hátt eftir ytri aðstæðum, hvor um sig.
Ágætt dæmi um mun á langdrægum og skammdrægum farfuglum hvað varðar breytingar á komutíma, má sjá hjá jaðrakan og spóa (Numenius phaeopus) sem verpa á Íslandi. Þessar tegundir eru náskyldar og verpa nánast á sama tíma (toppur í byrjun álegu hjá báðum tegundum í lok maí). Algengt er að fæðuframboð fyrir unga stjórni tímasetningu varps hjá fuglum og gera má ráð fyrir að það komi við sögu hér. Andstætt jaðrakan kemur spóinn langt að, frá V-Afríku. Komutími þessara tegunda (og fleiri) hefur verið mældur árlega í Laugarási í Biskupstungum frá 1988 (2. mynd). Á þessu tímabili hafa jaðrakanar sýnt sterkt línulegt mynstur og hafa að jafnaði flýtt sér um 0,55 daga á ári. Á sama tíma hefur spóinn ekki sýnt neitt marktækt mynstur (2. mynd). Meðalhiti á svæðinu að vori hefur hækkað mikið(allt að 4 gráður) á þessu, fremur stutta, tímabili sem skýrist að miklu leiti af nokkrum köldum árum um 1990. Þó að jaðrakan hafi flýtt komutíma sínum verulega verpur hann enn á sama tíma og spói. Samkeppni um góð óðul er mikil í báðum stofnum og sennilegt er að jaðrakanar nýti sér hlýrri vor til að tryggja sér óðul eins fljótt og hægt er (Tómas Grétar Gunnarsson, sent til birtingar). Allar líkur eru á að innbyggður sveigjanleiki í atferli valdi þessum hröðu viðbrögðum jaðrakans. Um spóann sannast það fornkveðna að úti er vetrarþraut þegar spóinn vellir graut. Spói hefur væntanlega litla möguleika á að meta aðstæður á Íslandi að vori þegar hann leggur í hann frá Afríku og kemur ávallt á svipuðum tíma, þegar líkur á vorhretum eru orðnar hverfandi. Spói getur einkum brugðist við loftslagsbreytingum að þessu leiti með náttúrulegu vali en slíkt er hægara ferli en sá sveigjanleiki í atferli sem jaðrakan sýnir ár frá ári.
2. Mynd. Fyrstu komudagar ættingjanna jaðrakans og spóa í Laugarás (og nágrenni) í Biskupstungum frá 1988 (Tómas Grétar Gunnarsson og Gunnar Tómasson óbirt gögn). Jaðrakan er skammdrægur farfugl sem hefur vetursetu í V-Evrópu en spóinn kemur langt að frá V-Afríku. Jaðrakan hefur að jafnaði flýtt sér um 0,55 daga á ári á þessu tímabili en spói sýnir ekkert marktækt mynstur. Sjá skýringar í texta. Nátengdar breytingum á komutíma fugla eru breytingar á varptíma. Fuglar hafa víða fært varptíma sinn fram á síðustu áratugum í takt við hlýnun. Rannsóknir á Bretlandseyjum (Crick o.fl. 1997, Crick & Sparks 1999) á meginlandi Evrópu (t.d. Both o.fl. 2004) og í N-Ameríku (t.d. Dunn & Winkler 1999) sýna sömu mynstur. Slíkt er í sjálfu sér ekki áhyggjuefni ef aðrir þættir umhverfisins breytast á sama hraða. Nokkuð hefur þó borið á afkomubresti af þessum sökum einmitt vegna þess að tímasetning mesta fæðuframboðs hefur ekki breyst í takt við breytingar á fartíma. Gott dæmi má finna hjá flekkugrípum (Ficedula hypoleuca) í Hollandi þar
sem skordýralirfur (aðalfæða unga) sýna hámark í fjölda talsvert áður en
ungar skríða úr eggjum. Þetta hefur áhrif á stofna þar sem færri ungar
komast á legg. Á síðustu tveimur áratugum hafa níu hollenskir stofnar
flekkugrípa að meðaltali minnkað um 90% af þessum sökum (Both o.fl. 2006).
Lítil merki virðast um að gríparnir séu að nálgast það að verpa nógu
snemma til að bregðast við þessu misræmi milli tímasetningar varps og
fæðuframboðs en þeir eru langdrægir farfuglar. Talið er að hliðstæð mynstur séu algeng hjá fuglum (Both o.fl. 2006) en skortur er á ítarlegum langtímarannsóknum sem duga til að kanna slík ferli.Áhrif loftslagsbreytinga á stofna á stórum mælikvörðum
Athygli hefur vakið að síðustu ár og áratugi hefur fækkað verulega í nokkrum íslenskum sjófuglastofnum (Arnþór Garðarsson 2006). Fækkunin er líklega afleiðing breytinga á fæðuskilyrðum á stórum mælikvörðum í hafinu og hefur verið tengdar við loftslagsbreytingar (Reid o.fl. 1998, Arnþór Garðarsson 2006). Hliðstæðum breytingum á sjófuglastofnum hefur verið lýst víða annars staðar og eru taldar til afleiðinga loftslagsbreytinga (t.d. Reid o.fl. 1998, Gaston o.fl. 2005).
Margt bendir til að áhrif loftslagsbreytingar verði hvað mest nyrst og syðst á hnettinum (Serreze o.fl. 2000, IPCC 2001). Fuglar á heimskautasvæðum, sem oft lifa þegar við ýtrustu þolmörk lífeðlisfræði sinnar eru í sérstakri hættu ef spár um aukna öfga í veðurfari rætast (IPCC 2001). Sumarið er t.d. stutt á háum breiddargráðum og því lítið sem ekkert svigrúm til að verpa aftur ef varp misferst. Því skiptir miklu máli að fuglar geti hafið varp tímanlega að vori og að þeir séu í góðu líkamsástandi. Spáð er að tíðni storma muni víða aukast og öfgar í hitastigi og úrkomu einnig. Slík áhrif geta haft áhrif á varpárangur og lífslíkur fullorðinna fugla og einnig á langdræga farfugla sem treysta á vindakerfi, sem stöðug eru í tíma, til að komast milli fjarlægra staða (Stokke o.fl. 2005). Vetrarveður hefur talsverð áhrif á stofna margra norrænna fugla og einkum á fullorðnu fuglana (Jón Einar Jónsson o.fl. 2009). En almennt má segja að stofnar langlífra fugla, t.d. sjófugla og vaðfugla, bregðast meira við breytingum á lífslíkum fullorðinna fugla en við breytingum á afkomu unga sem oftast er stopul. Rysjóttara veður (einkum sveiflur í hitastigi og úrkomu) hefur almennt neikvæð áhrif sem verka í gegnum breytingar á fæðuframboði eða aðgengi að fæðu. Breytingar á ísalögum munu hafa áhrif á fugla. Þekkt er hjá æðaröndum (æðarfugl og skyldar tegundir) að ef ísa leysir fyrr að vori gengur varp betur (Lehikoinen o.fl. 2006, Petersen & Douglas 2004). Tíðni hafísára á eflaust eftir að minnka á næstu áratugum svo mildara tíðafar getur eflaust haft jákvæð áhrif á stofna að þessu leiti. Þó er erfitt að spá fyrir um heildaráhrif á stofna því samspil þátta eins og tíðafars, fæðu og afráns við stofnbreytingar á eflaust eftir að verða flókið og staðbundin áhrif gera rannsakendum erfitt fyrir um að greina heildaráhrif loftslagsbreytinga.
Hér að ofan hefur verið gerð, mjög stuttleg, grein fyrir nokkrum helstu málaflokkum er varða tengsl fugla við loftslagsbreytingar. Áhrif loftslagsbreytinga eru víða farin að koma fram, stundum jákvæð (sjá t.d. dæmi um hafís) en mun oftar neikvæð. Þó að rannsakendur geri sér vel ljóst á hvaða sviðum neikvæð áhrif eru líklegust til að koma fram (sjá t.d. yfirlit í Wormworth & Mallon 2006) skortir enn talsvert á að hægt sé að smíða góð spálíkön um líkleg áhrif loftslagsbreytinga á fugla. Þar veldur einkum tvennt. Annars vegar skortir ítarlegar langtímarannsóknir á fuglastofnum og hins vegar eru flestir fuglar svo hreyfanlegir að stofntakmörkun þeirra fer fram á mjög stórum landfræðilegum mælikvörðum. Hvort tveggja magnar upp óvissu. Ljóst er að margir, ef ekki flestir, fuglastofnar munu þurfa að aðlaga sig hratt að breyttum aðstæðum ef þeir eiga að tóra. Stundum munu breytingar á umhverfi fugla verða það litlar að innbyggður sveigjanleiki í atferli og lífeðlisfræði mun vel duga til að halda í við loftslagsbreytingar. En að öllum líkindum mun oft þurfa náttúrulegt val sem gerir fuglum kleyft að lifa við aðstæður sem stofnar þeirra gætu ekki í dag. Hraði hlýnunar og tengdra atburða mun augljóslega hafa mikil áhrif á hvernig fuglastofnum gengur að aðlagast breyttum aðstæðum (van Vliet & Leemans 2006). En jafnvel þó að aðeins hógværari spár um hraða breytinga rætist þá virðist yfirvofandi að fuglastofnum stafar meiri hætta af loftslagsbreytingum en flestum öðrum umhverfisógnum, m.a. vegna þess að þær hafa áhrif á afskekktustu svæðum jarðarinnar þar sem fátt annað ógnar náttúrufari (Malcolm o.fl. 2006).
Áhugasömum er bent á að kynna sér skýrslu Wormworth og Mallon (2006) sem er á netinu og í heimildaskrá hér að neðan.
Heimildir
Arnþór Garðarsson 2006. Nýlegar breytingar á fjölda íslenskra bjargfugla. Bliki 27: 13-22.
Beale, C.M., Lennon, J.J. & Gimona, A. 2008. Opening the climate envelope reveals no macroscale associations with climate in European birds. Proc. Natl. Acad. Sci. USA 105: 14908-14912.
Both, C., Artemyev, A.V., Blaauw, B., Cowie, R.J. o.fl. 2004. Large-scale geographic variation confirms that climate change causes birds to lay earlier. Proc. Roy. Soc. B. 271: 1657-1667.
Both, C., Bouwhuis, S., Lessels, C.M. & Visser, M.E. 2006. Climate change and population declines in a long-distance migratory bird. Nature 441: 81-83.
Butler, C.J. 2003. The disproportionate effect of global warming on the arrival dates of short-distance migratory birds in North America. Ibis 145: 484-495.
Crick, H.Q.P. & Sparks, T.H. 1999. Climate change related to egg laying trends. Nature 399: 423-454.
Crick, H.Q.P., Dudly, P.D., Glue, D.E. & Thomson, D.L. 1997. UK birds are laying eggs earlier. Nature 388: 526.
Dunn, P.O. & Winkler, D.W. 1999. Climate change has affected the breeding date of tree swallows throughout North America. Nature 266: 2487-2490.
Gaston, A.J., Gilchrist, H.G. & Hipfner, J.M. 2005. Climate change, ice condidions and reproducion in an Arctic nesting marine bird: Brunnich’s guillemot (Uria lomvia L.). Journal of Animal Ecology 74: 832.
Huntley. B, Green, R., Collingham, Y & Willis, S.G. 2007. A Climatic Atlas of European Breeding Birds. Lynx Editions.
IPCC 2001. Climate Change 2001. Synthesis Report. A contribution of working groups I, II and III to the Third Assessment Report of the Intergovernmental Panel on Climate Change (Watson, R.T. og kjarnateymi sérfræðinga (ritstj.)). Cambridge University Press, Cambridge & New York. 398. bls.
Jón Einar Jónsson, Gill, J.A., Arnþór Garðarsson, Ævar Petersen og Tómas Grétar Gunnarsson 2009. Weather effects on breeding parameters in a sub-arctic, capital breeding resident: long-term data from Iceland. Climate Research 38: 237-248.
Lehikoinen, A., Kilpi, M. & Öst, M. 2006. Winter climate affects subsequent breeding success of common eiders. Global Change Biology 12: 1355-1365.
Malcolm, J.R., Liu, C., Nelson, R.P., Hansen, L. & Hannah, L. 2006. Global warming and extincitions of endemic species from biodiversity hotspots. Conservation Biology 20: 538.
Meltofte, H., Hoye, T.T. & Scmidt, N.M. 2008. Effects of food availability, snow and predation on breeding performance of waders at Zackenberg. Advances in Ecological Research 40: 325-343.
Murphy-Klaasen, H.M. & Heather, M. 2005. Long-term trends in spring arrival dates of migrant birds at Delta Marsh, manitobe in relation to climate chnage. Auk 122: 1130.
Parmesan, C. & Yohe. G. 2003. A globally coherent fingerprint of climate change impacts across natural systems. Nature 421: 37-42.
Perry, A.L., Low, P.J., Ellis, R.J. & Reynolds, J.D. 2005. Climate change and distribution shifts in marine fishes. Science 308: 1912-1915.
Petersen, M.R. & Douglas, D.C. 2004. Winter ecology of spectacled eiders. Environmental characteristics and population change. Condor 106: 79-94.
Reid, P.C., Planque, B. & Edwards, M. 1998. Is observed variability in the long-term results of the Continuous Plankton Recorder survey a response to climate change? Fish. Oceanogr. 7: 282-288.
Serreze, M.C., Walsh, J.E., Chapin, o.fl. 2000. Observational evidence of recent change in the northern high-latitude environment. Climatic Change 46: 159-207.
Stokke, B.G., Moller, A.P., Sæther, B.E., Goetz, R. & Gutscher, H. 2005. Weather in the breeding area and during migration affects the demography of a small long-distance passerine migrant. The Auk 122: 637.
Thomas, C.D. & Lennon, J.J. 1999. Birds extend their ranges northward. Nature 399: 213.
Thuiller, W., Lavorel, S., Araujo, M.B., Sykes, M.T., & Prentice, I.C. 2005. Climate change threats to plant diversity in Europe. Proc. Natl. Acad. Sci. USA 102: 8245-8250.
Tómas Grétar Gunnarsson, Gill, J.A., Þorlákur Sigurbjörnsson & Sutherland, W.J. 2004. Arrival synchrony in migratory birds. Nature 431: 646.
Tómas Grétar Gunnarsson (sent til birtingar). Contrasting the flexibility of schedules in related species with different migration strategies: Black-tailed Godwits and Whimbrels breeding in Iceland.
Van Vliet, A. & Leemans, R. 2006. Rapid species’ responses to changes in climate require stringent climate protection targets. Í Schellenhuber, H.J., Cramer, W., Nakicénovic, N., Wigley, T. & Yohe G. (ritstj.). Avoiding Dangerous Climate Change, pp. 135. Cambridge University Press, Cambridge.
Walther, G.E., Post, E., Convey, P., Mentzel, A., Parmesan, P., Beebe, T.J.C., Fromentin, J., Guldberg, O.H. & Bairlein, F. 2002. Ecolocical responses to recent climate change. Nature 416: 389-395.
Wormworth, J. & Mallon, K. 2006. Bird species and climate change. The Global Status Report: A syntehsis of current scientific understanding of anthropogenic climate change impacts on global bird species now, and projected future effects. Climate Risk Pty Limited for World Wildlife Fund (Australia). 75 pp. Lesa skýrslu – pdf
-
Blogg: Er búið að strauja hokkíkylfuna?
Þeir sem fylgst hafa með umræðu um loftslagsmál í einhvern tíma, kannast eflaust við hokkíkylfuna – sem gengur almennt undir nafninu hokkístafurinn í íslenskri umræðu (en það er eflaust bara misskilningur á hokkí-íþróttinni). Á loftslag.is er ein síða þar sem farið er lauslega yfir mýtuna um að hokkíkylfan sé röng. Sífellt bætast þó við nýjar og nýjar ásakanir um að eitthvað sé “bogið” við hana. Smá upprifjun fyrst:
Hokkíkylfan hin fyrri
Hokkístafurinn sem gerður var 1999 og birtist í skýrslu IPCC 2001. Hokkíkylfan er viðurnefni sem línurit nokkuð hefur fengið og fékkst út úr viðamiklum rannsóknum sem Micheal Mann og fleiri gerðu, oft eingöngu kennt við Micheal Mann sem er sérfræðingur í fornloftlagsfræðum (paleoclimatology). Línuritið sýnir fornhitastig síðustu 1000 árin og er gert með samanburði á ýmsum ferlum sem voru í gangi til forna og hvernig þessi ferli eru nú – og þannig fengið svokallað proxý hitastig (nálgunarhitastig – óbeinar hitamælingar). Í þessu tilfelli voru notuð trjáhringagögn, vöxtur kórala og borkjarnar úr jöklum og það borið saman við hitastigsferil samkvæmt beinum mælingum.
Hokkíkylfan hin nýrri
Í september í fyrra kom síðan út grein þar sem Mann og fleiri endurskoðuðu línuritið og notuðu til þess tvær nýjar tölfræðiaðferðir (aðrar en í upphafi) og bættu með viðbótar gögnum (setlögum o.fl). Þessi grein styðst því minna við árhringjarannsóknir en fyrri rannsóknir hans.
Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum. Micheal Mann og félagar endurgerðu semsagt línuritið og bættu um betur og lengdu það, svo nú sýnir það áætlað hitastig síðustu 1800 árin á norðurhveli jarðar.
Nýjar deilur og nýjar rannsóknir
Háværustu mótmælin gegn hokkíkylfunni nú virðast miða að því að gera hluta af gögnunum ómerk (sjá Er hokkíkylfan ónýt?). Það snýst í fyrsta lagi um trjáhringjagögn frá Yamal skaga í Síberíu (sem er eitt af mörgum nálgunarhitastigunum sem notuð eru í hokkíkylfunni). Komið hefur í ljós að gögnin sem Yamal nálgunarhitastigið er byggt á frekar tölfræðilega litlu sýni (12 sýni) og að töluverður hluti af öðrum sýnum, fyrir þetta tiltekna svæði, voru ekki notuð vegna þess að þau kvörðuðu ekki vel við mælt hitastig í nágrenninu. Það er vissulega eðlilegt að nota ekki gögn sem sýna ekki samsvarandi hitastigsbreytingar og þekkt mæld gögn, en eflaust er þetta full lítið af gögnum til að byggja á – tölfræðilega séð.
Nú er nýútkomin grein sem eflaust fær marga til að halda að nú sé búið að strauja hokkíkylfuna endanlega. En trjáhringjagögn á Skotlandi benda til þess að tengsl trjáhringja við geimgeisla sé mun sterkari en tengsl við hitastig – og þar af leiðandi er komin vafi um það hvort nálgunarhitastig gert með trjáhringjarannsóknum séu ómerk (sjá Vöxtur trjáa í takti við munstur geimgeisla). Það á reyndar eftir að koma í ljós hvort þetta sé einstakt fyrir þetta gagnasafn og hvort eitthvað sé að aðferðafræðinni.
En hvað gerist ef við dæmum trjáhringjagögn, við gerð nálgunarhitastigs fyrir fornloftslag, úr sögunni? Hvaða áhrif hefur það á hokkíkylfuna?
Trjáhringjagögn skipta ekki öllu máli
Staðsetning sýnatökustaða. Mismunandi tákn fyrir mismunandi tegund gagna og mismunandi litur eftir hvenær þau byrja (Mann o.fl. 2008) Það sem hefur vantað í umræðuna allavega hér á Íslandi er það að Mann sá fyrir að einhverjir myndu gagnrýna notkun hans á trjáhringjagögnum og því prófaði hann að plotta fornhitastigið án trjáhringjagagna:
Hokkíkylfan. Öll gögnin (græn lína), án trjáhringjagagna (blá lína) og hiti með beinum mælingum (rauð lína). Mann o.fl. 2008. Eins og sést á myndinni hér fyrir ofan þá er ekki mikill munur á gögnunum með og án trjáhringjagagna – en ástæða þess að Mann o.fl. ákváðu þó að nota þau – var að án trjáhringjanna varð skekkjan, fyrir árin 700 og fyrr, mun meiri.
Það er því langt í frá komin ástæða til að afskrifa hokkíkylfuna, þrátt fyrir einhvern vafa um trjáhringjagögn – hvort heldur vafinn um þau eigi eftir að reynast réttur eða ekki.
Hokkíkylfan er því enn óstraujuð.
Heimildir
Greinin frá því í fyrra um hokkíkylfuna. Mann o.fl. – Proxy-based reconstructions of hemispheric and global surface temperature variations over the past two millennia
Viðbótargögn sem fylgdu greininni: Supplementary material.
-
Myndband: Tveggja gráðu markið
Áhugavert myndband frá Nature um hvernig nálgast eigi það markmið að hlýnun verði ekki meiri en sem nemur tvær gráður (miðað við árið 1990). Rætt er við unga vísindamenn, sérfræðinga og nóbelsverðlaunahafa.
-
Frétt: Vöxtur trjáa í takti við munstur geimgeisla
Vísindamenn við háskólann í Edinborg, Skotlandi hafa fundið áhugaverða tengingu á milli vöxt trjáa og geimgeisla síðastliðna hálfa öld. Enn sem komið er hafa þeir ekki getað útskýrt þetta samband, en breytingar í geimgeislum hafði mun meiri áhrif á vöxt trjánna heldur en hitastig eða úrkoma. Þeir koma þó með sennilega tilgátu. Grein um málið birtist nýlega í tímaritinu New Phytologist og er þessi frétt að mestu byggð á þeirri grein – auk þess sem stuðst er við frétt BBC.
Vísindamennirnir rannsökuðu mánaðarlegan breytileika í vexti sitkagrenitrjáa frá Skotlandi sem uxu á tímabilinu 1953-2005. Eftir að venjubundin úrvinnsla var búin að fara fram (eyða eðlilegum vaxtahraðabreytingum trjánna – þau vaxa hægar með aldri), þá báru þeir saman vaxtarhraðann við ýmis veðurfarsgögn, þ.e. sólvirkni, hitastig, dreifða geislun (e. diffuse radiation), úrkomu, rakaþéttleika (VPD), skýjahulu og geimgeisla (e. cosmic ray flux):
Fylgni milli loftslagstengdra breytistærða og mánaðarlegs vaxtar sitkagrenis á Skotlandi (Dengel o.fl. 2009). Eins og sjá má er fylgnin langmest milli vaxtar sitkagrenis og geimgeisla fyrir alla mánuðina, fylgnin er það mikil að líkurnar á að slík fylgni sé tilviljun ein er einungis 0,008.
Geimgeislar eru í raun orkueindir, mest róteindir, en einnig rafeindir og kjarni frumeindarinnar helíum, sem streyma um geimin og koma inn í lofthjúp jarðar. Magn geimgeisla sem ná jörðinni sveiflast upp og niður í öfugu hlutfalli við virkni sólar (sólbletta), 11 ára sveifla.
Geimgeislasveiflur (þykk lína) og vaxtarfrávik (þunn lína). Merkt er inn óvenjuleg veðrafrávik sem höfðu áhrif á vöxt trjánna (I-IV). Dengel o.fl. 2009 Höfundar ræða hvað geti valdið þessari fylgni, en þar sem sýnt hefur verið fram á að fylgni milli geimgeisla og skýjahulu eru lítil, auk þess sem ekki getur verið um venjulega örðumyndun (e. aerosols) að ræða af völdum geimgeisla (þá hefðu önnur náttúruleg fyrirbæri yfirskyggt það, t.d. við eldgos), þá bjuggu þeir til nýja tilgátu, sem þeir kalla radiation-scattering effect – sem hægt er að þýða sem dreifgeislunaráhrif.
Í því felst sú hugmynd að trén nemi geislunaráhrif sem séu dreifð vegna arða sem geimgeislar myndi og að þessi geislunaráhrif verði ekki numin með venjulegum bylgjulengdarmælum sem nema einnig hávaða frá veðrakerfum og litrófsdreifingu ljóss úr lofthjúpnum. Samkvæmt þessari kenningu þá styrkja þessi dreifgeislunaráhrif ljóstillífun – þ.e.að dreifðari geislar vegna móðu auki ljóstillífun. Þeir segjast þó ekki geta útilokað bein áhrif geimgeisla á vöxt planta eins og sumar rannsóknir benda til.
Það má áætla að upp muni spretta einhverjar deilur um þessa grein, sérstaklega frá þeim sem stundað hafa trjáhringjarannsóknir í sambandi við fornloftslag – en það verður áhugavert að sjá. Einnig er spurning hvort þetta hafi einhver áhrif á kenningar Svensmark, enda margt sem bendir til að ekki séu mikil tengsl milli geimgeisla og loftslags.
Heimildir
Dengel o.fl 2009 – A relationship between galactic cosmic radiation and tree rings
-
Frétt: Haustþing Veðurfræðifélagsins
Mynd / Ingibjörg Jónsdóttir Veðurfræðifélagið minnir á haustþing sitt sem verður haldið næstkomandi miðvikudag, 21. október. Fundur verður settur kl. 13 í Víðgelmi í Orkugarði að Grensásvegi 9 og honum slitið kl. 16. Þingið er opið öllum sem hafa áhuga á veðri og veðurfari. Að þessu sinni er stór hluti þingsins helgaður fjarkönnun og mælingum á veðri. Hér fyrir neðan er dagskrá þingsins.
============ Dagskrá haustþings:——————-
13:00 Inngangur – Stjórn Veðurfræðifélagsins
13:15 Fjarkönnun og rauntímaeftirlit með hafís – Ingibjörg Jónsdóttir
13:30 Greining á gosösku og sandstormum með gervitunglagögnum -Hróbjartur Þorsteinsson
13:45 Fjarkönnun og veðurfarstengd náttúruvá: Gróðureldar – ÞrösturÞorsteinsson
14:00 Athuganir á upptökum moldviðris á Austurlandi – Victor Kr. HelgasonKaffihlé
14:45 Meðalvindhraði á landinu. Eru sjálfvirkar og mannaðar stöðvarsambærilegar? – Trausti Jónsson
15:00 Rok og rigning: áhrif vinds á úrkomumælingar – Þórður Arason
15:15 Leitni í hitastigi á Íslandi á árunum 1961 til 2006 – BirgirHrafnkelsson
15:30 MOSO: Veðurmælingar með fjarstýrðri flugvél sumarið 2009 -Haraldur Ólafsson
15:45 SUMO-glíma við Esjuna: Túlkun vindmælinga frá MOSO – Hálfdán ÁgústssonSjá nánar dagskrá og útdrátt erinda hér: Haustþing Veðurfræðifélagsins