Eru vísindamenn ekki sammála?

Loftslagsvísindin og grunnur þeirra styrkist dag frá degi, enda bætast sífellt við upplýsingar um yfirvofandi neyðarástand  sem er í gangi og væntanlegt. Allt bendir til þess að fólk sé loks að verða nokkuð einhuga um að berjast gegn hinni hnattrænni hlýnun af mannavöldum, enda eru 97 % loftslagsvísindamanna sammála um að jörðin sé að hlýna af völdum aukinna gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.

Í dag birtist samt eins og skrattinn úr sauðaleggnum ritstjórnarpistill í Viljanum (sjá skjáskot hér neðar), þar sem ritstjóri Viljans vildi benda lesendum á að vísindamenn væru alls ekki sammála um að það sé neyðarástand í loftslagsmálum. Þar birtist listi fimmhunduð alþjóðlegra vísindamanna, verkfræðinga og jafnvel stjórnmálamanna sem eru á skjön við viðtekin viðhorf í loftslagsmálum. Þar birtast reyndar mörg af sömu nöfnunum og oft áður í þessari umræðu, en hægt er að tengja mjög marga þeirra sem eru á þessum lista við peninga frá olíuiðnaðinum, aðrir eru komnir á eftirlaun eða eru alls ekki loftslagsvísindamenn. Við höfum fjallað um suma af þeim hérna áður, t.d. Tim Ball, Richard Lindzen og auðvitað Lord Monckton.
Screenshot 2019-09-30 22.29.32

 

En ef horft er framhjá því að hugsanlega sé stór hluti “vísindamannanna” á þessum lista ómarktækur – hversu ósammála eru vísindamenn almennt um loftslagsvísindin?

Hvað er samhljóða álit vísindamanna?

Segja má að komið sé samhljóða álit um eitthvað (e. consensus) þegar vísindamenn hætta að rökræða það frekar. Til að byrja með eru margar tilgátur í gangi, sem eru prófaðar og endurprófaðar og með vísindalegri nálgun komast vísindamenn nær bestu kenningunni. Það er í eðli vísinda að vísindamenn reyna að afsanna tilgátur og kenningar annarra vísindamanna og þeir sem komast næst sannleikanum fá sínar línur skrifaðar í sögubækur framtíðarinnar. Næstum allar tilgátur hverfa í gleymsku, því að lokum er eftir ein kenning sem samhljóða álit er um. Það sem fylgir er oftast einungis fínstilling á kenningum og oftar en ekki bætast við púsluspil sem styrkja kenninguna.

25 yfir 97 prosent af mannavoldumSamhljóða álit í vísindum er alls ekki pólitískt. Það er ekki kosning. Vísindamenn hætta að rökræða efnið af því að yfirgnæfandi vísbendingar benda til þess að kenningin sé rétt og þeir ræða önnur mál, þar til ný gögn benda til þess að gamla kenningin sé ekki að virka lengur.

Samhljóða álit vísindamanna um hnattræna hlýnun

Hvað segja loftslagsvísindamenn um hnattræna hlýnun af mannavöldum? Nokkrar rannsóknir hafa farið fram, þar sem álit þeirra sem eru virkir í faginu hefur verið skoðað. Niðurstaðan er sláandi: yfir 97% loftslagssérfræðinga eru sannfærðir um að mannkynið valdi breytingum á hnattrænu hitastigi jarðar, sjá Doran og Zimmerman 2009 og Anderegg o.fl. 2010.

Þetta hefur einnig verið staðfest í ritrýndum rannsóknum. Skoðaðar voru ritrýndar greinar frá árunum 1993 til 2003 þar sem stikkorðið „global climate change“ (is. hnattrænar loftslagsbreytingar) er notað. Engin þeirra var í mótsögn við hið samhljóða álit, að athafnir manna valdi hnattrænni hlýnun sjá Oreskes 2004.

John Cook o.fl. 2016 skrifuðu svo grein um þetta samhljóða álit. Tvær helstu niðurstöður þeirra eru eftirfarandi:

  1. Það fer eftir hvernig hið samhljóða álit loftslagssérfræðinga er mælt, hvar það lendir. Það er á milli 90-100% loftslagsvísindamanna sem eru sammála því að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum og að meirihluti rannsókna bendir til 97% samhljóða álits meðal loftslagsvísindamanna sem eru virkir í faginu.
  2.  Því meiri sem sérfræðiþekking loftslagsvísindamanna var, því hærra var hið samhljóða álit um hnattræna hlýnun af mannavöldum.
Þessi mynd sýnir rannsóknir á hinu samhljóða áliti vísindamanna á hinni hnattrænu hlýnun af mannavöldum, þar sem horft er sérstaklega á loftslagsvísindamenn sem hafa gefið út ritrýndar greinar um loftslagsbreytingar.

Mynd sem sýnir rannsóknir á hinu samhljóða áliti vísindamanna á hinni hnattrænu hlýnun af mannavöldum, þar sem horft er sérstaklega á loftslagsvísindamenn sem hafa gefið út ritrýndar greinar um loftslagsbreytingar.

 

Mynd sem sýnir tengsl milli sérhæfingar í loftslagsvísindum og samhljóða álits á hnattrænni hlýnun af mannavöldum.

Mynd sem sýnir tengsl milli sérhæfingar í loftslagsvísindum og samhljóða álits á hnattrænni hlýnun af mannavöldum.

Samhljóða álit vísindamanna er öflugt tól. Enginn einn hefur tíma eða tækifæri til að læra allt, þannig að nauðsynlegt er að reiða sig á niðurstöður margra sérfræðinga. Það er ástæðan fyrir því að við förum til lækna þegar eitthvað bjátar að heilsunni. Mikill meirihluti fólks treystir þannig á samhljóða álit vísindamanna. Það er einmitt ástæðan fyrir því að upp spretta reglulega greinar á netinu þar sem gert er lítið úr hinu samhljóða áliti loftslagsvísindamanna, því minna sem hið samhljóða álit vísindamanna er í hugum almennings, því líklegra er að ekki verði tekist á við vandann, sem virðist takmark miðla eins og Viljans sem enduróma því gamalgrónar aðferðir afneitunarinnar gagnrýnislaust.

Heimildir og ítarefni

Byggt á grein á Skeptical Science: The 97% consensus on global warming

Doran og Zimmerman 2009 (ágrip): Examining the Scientific Consensus on Climate Change.

Anderegg o.fl. 2010: Expert credibility in climate change.

Oreskes 2004: Beyond the ivory tower: the scientific consensus on climate change.

John Cook o.fl. 2016: Consensus on consensus

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál