Eitt af áhrifaríkustu línuritunum sem loftslagssíðan Skeptical Science hefur gert er kallað rúllustiginn (e. escalator). Rúllustiginn sýnir breytileika frávika á hnattrænu hitastigi og sýnir hvernig afneitunarsinnar sérvelja stutt tímabil í sinni viðleitni til að líta fram hjá hnattrænni hlýnun. Hins vegar er það nokkuð ljóst að þó alltaf megi búast við skammtíma breytileika í hitastigi, þá heldur hnattræn hlýnun af mannavöldum áfram þegar langtíma leitnin er skoðuð.
Reglulega koma fram háværar raddir sem segja að hlýnunin sé hætt, oft í kjölfar óvenju heitra ára (líkt og 1998, en þá var El Nino óvenjulega sterkur), en þá er líkt og hlýnunin hætti tímabundið í nokkur ár. Það kemur svo að því að hlýnunin heldur ótrauð áfram eins og kenningin um hnattræna hlýnun af mannavöldum segir að muni gerast.
Nú er búið að uppfæra þetta snilldar línurit út árið 2022, eins og sést hér að neðan.
Gögnin sem notuð eru í þessu línuriti kemur frá Berkely Earth og sýnir frávik frá meðalhita 1850-1900.
Út er komin ný bók eftir loftslagsvísindamanninn Micheal Mann, sem heitir The New Climate War. Það gæti útlagst sem Hið nýja loftslagsstríð. Þessi bók var auðvitað strax útgefin sem hljóðbók og stafræn bók, til að minnka kolefnisfótspor við lestur hennar (eða hlustun), fyrir þau sem vilja. Sá sem þetta skrifar hlustaði á bókina af athygli og ætlar að lesa eða hlusta á hana aftur síðar.
Micheal Mann, höfundur The New Climate War
Í þessari bók rekur Micheal Mann hvernig orystuplan olíuiðnaðarins hefur þróast í gegnum tíðina, fyrst undir áhrifum t.d. tóbaksiðnaðarins og þeirra aðferða, sem fólst meðal annars í því að draga úr trúnaði almennings við niðurstöður vísindamanna. Hann fer einnig yfir hvernig planið hefur breyst úr því að hreinlega afneita loftslagsbreytingum og yfir í að blekkja, afvegaleiða og tefja umræðuna (e. deception, distraction and delay).
Mann hefur staðið vaktina í nokkra áratugi og hefur fengið að finna fyrir aðferðum talsmanna olíuiðnararins, en lengi vel var gert mikið úr því að draga í efa vísindaleg heilindi hans. Eftir að hann birti hið þekkta línurit hokkíkylfuna (e. hockey stick) varð hann sjálfkrafa skotmark þeirra sem afneituðu loftslagsbreytingum, enda varla hægt að fá skýrari mynd af þeim loftslagsbreytingum sem eru í gangi af mannavöldum.
Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum.
Þessi öfl, sem áður stóðu fyrir hreinni afneitun sem fólst í því að halda því fram að það væru engar loftslagsbreytingar í gangi (þvert á niðurstöður vísindamanna) eða að þessar loftslagsbreytingar væru ekki af mannavöldum (þvert á niðurstöður vísindamanna) eru nú meira í að telja fólki trú um að það sé orðið of seint eða of dýrt að gera nokkuð. Einnig eru notaðar aðferðir eins og að etja þá sem vilja draga úr loftslagsbreytingum upp á móti hvorum öðrum (t.d. með því að fólk rífist endalaust um hvað mengi mest og hvaða lausn sé best) eða að best sé kannski að bíða bara og sjá, betri og ódýrari lausnir verði til í framtíðinni og að efnahagslífið geti ekki tekist á við að minnka losun jarðefnaeldsneytis.
Það er ekki hægt að segja nákvæmlega frá því í nokkrum setningum hvað sagt er í bókinni, en eitt af því sem kemur skýrt fram í bókinni er að olíuiðnaðurinn, eins og annar mengandi iðnaður, hefur varpað ábyrgðinni yfir á hendur einstaklinga að leysa vandamálið í stað þess að ábyrgðin sé þar sem vandamálið er, losun jarðefnaeldsneytis. Áhugavert er að heyra hvernig hægt er að tengja saman öfl sem hafa engan áhuga á slíkum lausnum og hvernig það tengist bandarískum stjórnmálum, rússneskum og yfir í miðausturlöndin.
Micheal Mann lætur jafnvel þá sem ættu í raun að vera samherjar hans heyra það, líkt og þá sem telja að ástandið sé orðið það slæmt að ekki sé hægt að afstýra hörmungum – þær raddir séu akkúrat það sem þeir vilja heyra, þeir sem eru í því að blekkja, afvegaleiða og tefja umræðuna í stað þess að takast á við losun jarðefnaeldsneytis. Það á einnig við um þá sem vilja leysa vandamálið með jarðverkfræðilegum lausnum (e. geoengineering). Í raun væri langbesta lausnin sú að þrýsta á löggjöf sem myndi keyra orkunotkun frá jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa.
Bókin vekur mann til umhugsunar og styðst við góð rök, sem byggð eru á innsæi vísindamanns sem fylgst hefur með umræðunni og séð hana breytast á undanförnum áratugum.
Þekktur er íslenskur rafmagnsverkfræðingur sem heitir Ágúst H. Bjarnason er telur sig vera efasemdamann um hnattræna hlýnun af mannavöldum. Ágúst hefur í gegnum tíðina notað ýmis línurit til að mistúlka gögn og mælingar vísindamanna og hefur gert í áratugi. Bent hefur verið á að þeir sem mistúlka vísvitandi gögn og mælingar vísindamanna og telja sig vera þannig að efast um hnattræna hlýnun, eru í raun að afneita vísindagögnum og hafa í daglegu tali fengið á sig heitið loftslagsafneitarar (e. climate denialists).
Myndband sem útskýrir helstu einkenni vísindaafneitunar (e. science denial).
Nú nýlega birti Ágúst línuritasúpu í dreifiriti sem heitir Sámur fóstri (bls. 16-17), sjá einnig heimasíðu Ágústar sem virðist vera orðin að upplýsingaveitu fyrir loftslagsafneitara. Þar má sjá gömul og klassísk línurit sem notuð eru til að slá ryki í augu lesenda, í þeim tilgangi að þeir “efist” um loftslagsvandann sem við stöndum frammi fyrir. Með þessu ýtir Ágúst undir og hvetur til loftslagsafneitunar. Hér er fyrri hluti yfirferðar um línuritin sem hann birtir í sinni blaðagrein (seinni hluti birtist vonandi síðar ef tími gefst), texti undir myndum hans birtist hér eins og þær birtust hjá Ágústi.
Hitafrávik jarðar frá 1880 til dagsins í dag
Hér notar hann hnattrænt hitafrávik frá NASA-GISS gagnasafninu og telur að þar sé hitastigið ýkt.
Mynd 1: Lóðrétti ásinn á líuritinu er þaninn gríðarlega mikið út. Um það bil einn millímetri á hitamælinum er stækkaður næstum 100 falt í 100 mm eða 10 cm. Allur lóðrétti skalinn kæmist á milli tveggja 1° strika á venjulegum útihitamæli.
Hér er í grunninn mynd sem sýnir meðalhitafrávik til ársins 2014 (meðalhiti hnattrænn og sýnir ágætlega breytingar milli ára). Hann teiknar síðan skýringar inn á myndina til að villa um fyrir lesendum. Þar gefur hann til dæmis í skyn að þetta sé lítil sem engin breyting á hitastigi, af því að hitafrávikið kemst fyrir milli strika á venjulegum hitamæli. Þetta gæti verið dæmi um svokallaða Red herring rökvillu, en mælikvarði meðalhitans skiptir ekki máli og tekur athyglina frá mælingunum sjálfum. Hann gerir lítið úr þessari breytingu, en það sést vel hversu alvarlegar breytingar þetta eru, þegar á það er horft að það þurfti bara um 4°C hækkun hitastigs til að koma jörðinni úr ísköldu jökulskeiði ísaldar og yfir í hlýjasta skeið nútíma (e. climatic optimum).
Það skal bent á að mynd Ágústar nær ekki nema til ársins 2014 en næstu fjögur ár þar á eftir hafa öll verið mun heitari en öll árin fyrir árið 2014 (sjá mynd hér neðar).
Hnattrænn hiti frá 1880-2018 (NASA-GISS). Svarta línan sýnir árlegt meðalhitafrávik og rauða línan fimm ára meðaltal. Sjá upplýsingar um gagnasafnið í Lenssen et al. (2019).
Eins og sést ef skoðað er nýtt línurit, án mistúlkana þá hefur hitastig haldið áfram að aukast og nú hafa menn þurft að teygja lóðrétta ásinn meir til að koma meiri gögnum fyrir. Fjögur síðustu árin ná ekki inn á mynd Ágústar – þrátt fyrir að þau gögn séu til og ber það vott um að notuð séu sérvalin gögn (e. cherry picking), enda munar alveg um fjögur heitustu ár síðan mælingar hófust (þannig að lóðrétti ásinn sem sýnir bara um 1,0°C mun er allt í einu kominn með lóðréttan ás sem sýnir 1,5°C).
Hitafrávik á nútíma (e. holocene)
Hægt er að áætla fornhitastig á yfirborði Grænlandsjökuls með því að skoða samsætur (e. isotopes) í ískjörnum jökulsins og hefur þannig fengist góðar vísbendingar um sveiflur í hitastigi við yfirborð jökulsins – sem dæmi eru stöðvarnar GISP (Greenland ice sheet project) og GRIP (Greenland ice core project). Ágúst notar GISP kjarna og niðurstöður vísindamanna sem rannsaka þá, en varar um leið við að hér sé um að ræða hitastig á Grænlandsjökli en ekki meðalhiti jarðar. Samt telur hann sig geta fullyrt að það sé “... ámóta hlýtt í dag og fyrir 1000 árum (Medieval Warm Period), allnokkuð hlýrra fyrir 2000 árum (Roman Warm Period) og töluvert hlýrra fyrir um 3000 árum (Minoan Warm Period)“.
Mynd 2: Niðurstöður mælinga á ískjörnum fengnum úr rúmlega 3000 metra djúpri holu sem boruð var í Grænlandsjökul. Skammvinn hlýskeið á sögulegum tíma eru sýnd með grænu. Takið eftir að lóðrétti skalinn vinstra meginn sýnir lofthitann á Grænlandsjökli, en lóðrétti skalinn hægra meginn sýnir áætluð frávik í hnattrænum meðal lofthita, sem er talinn helmingur af hitabreytingunni á jöklinum.
Fyrst skal ítreka viðvörunarorð Ágústar um að þarna er alls ekki um að ræða hnattrænt hitastig, heldur mjög staðbundið hitastig og því ekki hægt að setja sama sem merki milli þessa línurits og hitasveifla hnattrænt.
Því næst er rétt að benda á að þarna er að auki beitt sama bragð og við fyrstu myndina, þ.e. að sýna ekki nýjustu gögnin og gefa í skyn að búið sé að uppfæra gögnin til nútímans (sjá einnig: Að fela núverandi hlýnun). Hvernig annars ætti hann að geta fullyrt að hitinn í dag sé jafn mikill eða lægri en þessi fyrri tímabil (fyrir 1000, 2000 og 3000 árum)? Þegar gögnin eru skoðuð betur, þá kemur í ljós að þau ná eingöngu fram til ársins 1855, töluvert áður en hin hnattræna hlýnun byrjaði.
En hvernig hefur hitastigið breyst upp á Grænlandsjökli síðastliðin 160 ár eða svo? Í grein sem kom út árið 2009 (Jason E. Box 2009) og var fjallað um á Skeptical Science (Confusing Greenland warming vs global warming), var kannað meðal annars hvernig hitastig hefði breyst á Grænlandi frá árinu 1840-2007. Einn af stöðunum sem kannaður var, er þar sem GRIP ískjarnarnir voru boraðir, en það er eingöngu í um 28 km fjarlægð frá þeim stað sem GISP kjarnarnir voru boraðir og fyrrnefnt línurit sem Ágúst birtir er byggt á.
Hitastig á GRIP staðnum. meðalhitinn á GRIP staðnum frá 1850-1859 (blá lína) og 2000-2009 (rauð lína). Einnig má sjá hitastig fyrir 1847 og 1855 fyrir GISP (rauðir krossar).
Á GRIP hækkaði hitastig um 1,44°C frá miðri 19. öld og fram til fyrsta áratugs 21. aldar. Í ljós kemur að hitastigið á Grænlandsjökli í byrjun þessarar aldar var orðið sambærilegt við hitastigið fyrir um 2000 árum. Síðan þá hefur hert á hlýnuninni á Grænlandi (samanber frétt á RÚV frá því í sumar – Grænlandsjökull bráðnar mjög hratt). Það er því ljóst að þetta línurit sem Ágúst birtir, sýnir alls ekki það sem hann vill sýna – að það hafi verið hlýrra fyrir 1000, 2000 og 3000 árum heldur en í dag.
Til eru fjölmargar rannsóknir þar sem tekið hefur verið saman hnattrænt hitafrávik undanfarin nokkur þúsund ár (sjá t.d. Hokkíkylfa eða hokkídeild?). Sem dæmi má nefna Marcott o.fl. 2013, en þegar búið er að taka saman áætlað hitastig síðustu 11.300 ár og leggja nútímahitamælingar saman við, þá er nokkuð augljóst að núverandi hlýnun er geysilega hröð og nú þegar er hitinn orðinn meiri en nokkurn tíma áður á nútíma (e. holocene).
Alkul á Kelvin
Að gamni þá fylgir með næsta línurit Ágústar, þó honum geti ekki verið alvara:
Mynd 3: Sé teiknaður hitaferill sem sýnir hlýnun jarðar frá alkuli í Kelvín-gráðum, þá sést ekki nein breyting. Svo lítil er hún.
En að öllu gamni slepptu, þá segir hann um hitamælingar að “… rétta aðferðin er að miða við Kelvin gráður og þá fæst 0,3% hækkun á síðastliðnum 150 árum“.
Miðaldir og Loehle
Um næsta línurit höfum við á loftslag.is áður fjallað um (sjá Miðaldir og Loehle). Á því línuriti ætlast Ágúst til að lesendur sjái glöggt að hlýnunin nú sé ekki búin að ná þeim hæðum sem að miðaldarhlýnunin náði. Þannig hefur hann náð að sannfæra ansi marga um að hlýnunin nú sé minni en á miðöldum.
Mynd 5: Hnattrænar breytingar í meðalhita lofthjúps jarðar síðastliðin 2000 ár.
Þess ber að geta að línuritið sem Ágúst notar er að öllum líkindum teiknað eftir óleiðréttu gögnum Loehle (Sjá leiðrétt gögn Loehle 2007).
En er þetta réttmæt mynd af hitastigi síðastliðinna tvö þúsunda ára ef miðað er við gögn Loehle? Áhugamaður um loftslagsbreytingar að nafni Rob Honeycutt, hafði samband við Loehle sjálfan og eftir töluverð samskipti þá afhenti Loehle honum hitagögn með sambærilegu vegnu meðaltali frá HadCRU (29 ára meðaltal) – til að framlengja línurit Loehle fram til loka síðustu aldar. Hann teiknaði það upp og fékk eftirfarandi mynd:
Svo virðist vera, að þrátt fyrir allt þá sé hlýnunin undanfarna áratugi einstök síðastliðin 2000 ár. Ef við síðan berum rannsókn Loehle saman við önnur línurit þar sem metið hefur verið hitastig síðastliðin 2000 ár (Mann o.fl., Crowley og Lowery, Jones o.fl., Moberg og Shaolin o.fl.), þá sést að þrátt fyrir allt, þá er enginn vafi á því að hlýnunin nú er óvenjuleg – einungis er spurningin sú, hversu mikið meiri er hlýnunin nú en á miðöldum:
Þannig að þó notuð séu gögn Loehle (sem þykja byggð á of fáum gagnasöfnum), þá er ljóst að niðurstaðan er sú að hlýnunin nú er meiri en á miðöldum, sem er allt önnur mynd en Ágúst vill teikna upp af hitabreytingum síðustu 2000 ár.
Eitt af því sem vísindamenn nota til að sýna fram á að hnattrænt hitastig er að hækka, er hafísútbreiðsla Norðurskautsins. Árið 2017 birtist í Nature áhugaverð grein um breytileika í hafísútbreiðslu Norður-Atlantshafsins og birtist þar línurit sem sýnir breytileika í hafís norður af Íslandi síðastliðin 3000 ár (sjá North Atlantic variability and its links to European climate over the last 3000 years).
Mynd 6: Útbreiðsla hafíss norðan Íslands síðastliðin 3000 ár. Grein Paola Moffa-Sánchez & Ian R. Hall í Nature Communications 2017. Við erum stödd á ferlinum lengst til vinstri. Hafísinn hefur lengst af undanfarin 3000 ár verið mun minni en undanfarið. Litla ísöldin svokallaða sker sig þó úr.
Þetta línurit sýnir einungis breytileika á litlu svæði Norður-Atlantshafsins og því frekar vel útilátið að segja: “Að undanskilinni Litlu ísöldinni hefur hafís yfirleitt verið minni en í dag unanfarinn 3000 ár hið minnsta”.
Nákvæm gögn hafa verið söfnuð um útbreiðslu hafíss í um 40 ár byggð á gervihnattagögnum. Hægt er að sjá lengra aftur í tíman með svokölluðum vísum (e. proxy) sem sýna óbeint hvernig hafísútbreiðslan hefur verið í fortíðinni (samanber línuritið hér að ofan). Árið 2011 kom út grein þar sem rýnt var í vísa um fornútbreiðslu hafíssins á Norðurskautinu og nær það til hafíssútbreiðslu síðastliðna 1450 ára (sjá Kinnard o.fl. 2011 og umfjöllun loftslag.is um greinina Hafís Norðurskautsins síðastliðin 1450 ár).
Áhugavert er að skoða útlit línuritsins, en glöggir lesendur loftslag.is kannast kannski við útlitið – en það minnir mjög á hokkíkylfur sem orðnar eru fjölmargar (sjá Hokkíkylfa eða hokkídeild?).
Meiri óvissa er eftir því sem farið er lengra aftur í tíman – þá aðallega vegna þess að þau gögn sem nothæf eru fækkar. Engu að síður er augljóst að í lok tuttugustu aldar er niðursveiflan fordæmalaus – allavega síðastliðin 1450 ár – bæði hvað varðar magn og lengd tímabils.
Niðurstaða
Í þessari yfirferð hefur verið farið yfir fyrri hluta þeirra línurita sem fylgja nýlegri blaðagrein Ágústar H. Bjarnasonar um breytingu á meðalhita jarðar. Þar kemur glögglega fram mistúlkun og sérval gagna (e. cherry picking) sem eiga að hans mati að sýna hvernig núverandi hlýnun sé hverfandi í stóra samhenginu. Þannig sérvelur hann gögn sem sýna ekki hlýnunina undanfarin ár eða áratugi. En einnig birtir hann línurit sem sýna eingöngu mjög lítinn hluta hnattarins og þar með staðbundnar sveiflur í loftslagi sem segja ekkert til um hvernig loftslag er að breytast hnattrænt sem einnig er angi af því að sérvelja gögn sem passa rökunum. Mögulega má finna fleiri rökleysur, en greinilegt að sérvalin gögn eru í uppáhaldi hjá Ágústi.
Miðvikudaginn 29. október var viðtal við mig (Svein Atla Gunnarsson) um loftslagsumræðuna á Harmageddon, sem er á X-inu, FM 977. Ernu Ýri Öldudóttur blaðamanni á Viljanum var einnig boðið í þáttinn sem fulltrúi þeirra sem ekki taka mark á loftslagsvísindum, sem einnig er kallað að vera í afneitun á loftslagsvísindum. Uppleggið í þættinum hjá þeim Frosta og Mána var að fá fram átök sem væru gott útvarpsefni og var ég meðvitaður um það frá upphafi. Áður en viðtalið hófst gaf ég þáttarstjórnendum og Ernu leiðarvísinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir, sem við hér á loftslag.is þýddum fyrir nokkrum árum og er ágætt lesning fyrir alla sem vilja fá innsýn í fræðin og afneitunina.
Eins og svo oft áður þá fullyrti Erna Ýr um allskyns hluti sem mest minna á samsæriskenningar, en eitt aðalatriðið hjá henni virtist vera að stilla hlutunum upp á einhvern hátt þannig að viðmælendur hennar þurfi að svara fullyrðingum sem ekki eru svaraverðar, að fá aðra til neita staðhæfingum sem hún setur fram og/eða setja fram hluti sem hafa á stundum litla sem enga rót í sjálf loftslagsvísindin eða í besta falli mistúlkanir á fræðunum. Eins og oft vill verða þá eru rangfærslur afneitunarinnar þannig að það er tímafrekt að hrekja þær (þó vissulega sé búið að marg hrekja flest allt oft áður) og verður því ekki gert efnislega í stuttu útvarpsviðtali þar sem tíminn er af skornum skammti. En hvað um það, í byrjun rifjaði ég upp hvernig ýmsar af fyrri fullyrðingum Ernu Ýrar svipaði til samsæriskenninga, m.a. um fullyrðingar hennar um að loftslagsvísindi væru svindl þar sem vísindamenn væru samkvæmt Ernu að fela gögn til að græða á vandanum, ásamt fullyrðingum um að Al Gore hefði fundið loftslagsvandann upp til að græða pening! Svona staðhæfingar eru auðvitað tómar samsæriskenningar (sjá meira t.d. hér og hér).
Sveinn Atli og Erna Ýr eftir viðtalið
Iðnaður, gróði, dýrtíð og ríkisstyrkir
Frosti nefndi að það væri kannski hægt að segja að umhverfisvernd væri orðin iðnaður sem væri bara að græða á tá og fingri. Jú, jú einhverja peninga (jafnvel líka strit, svita og tár) þarf til að taka á vandanum og kannski ná einhverjir aðilar að græða á því eða hafa sitt viðurværi í því að finna lausnir, það er ekki útilokað. Ég er þó afskaplega efins um að það séu margir í þessum geira að stórgræða á því að taka á loftslagsvandanum og allra síst harðduglegir vísindamenn sem þurfa nánast að betla hverja krónu til rannsókna og það er geysileg samkeppni um þá aura. En það er nú samt bara eins og það er og það er varla bannað að vera séður í viðskiptum eða hugsanlega stofna fyrirtæki utan um lausnir til að taka á vandanum eða á annan hátt skapa störf og arð eða er það kannski bannað? Svo var aðeins farið yfir það að það væri svo rosalega dýrt að taka á vandanum og það myndi bitna á þeim fátækustu (sem virtist vera Ernu mikið kappsmál að koma að). Það má alveg færa rök fyrir því að það sé sjálfsagt að ræða hvernig þeir sem menga greiða fyrir mengunina eða hvernig er á annan hátt hægt að reyna að draga úr eftirspurninni eftir jarðefnaeldsneyti. Það má ræða hvernig og hvort það má minnka eftirspurnina með gjöldum og sköttum (og auðvitað ef fólk hefur aðrar hugmyndir þá eru þær vel þegnar og um að gera að ræða þær). En það er einföldun að taka það eitt og sér út fyrir sviga og gera að einhverju aðalatriði. En vissulega má endilega ræða það bara vel og ítarlega hvernig við viljum standa að því að minnka losun, með eða án skatta eða bara hvað getur minnkað eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti almennt. Eftirspurn er einn þátturinn og þar hefur verðið áhrif, þannig að skattar og gjöld eru sjálfsagt hluti af vopnabúrinu til að finna lausnir, og um að gera að ræða það nánar, en þá auðvitað án þess að einstakir viðmælendur kategórískt afneiti vandanum. Svo er heimurinn auðvitað að breytast og við stefnum á að nota enn meira af grænni orku í framtíðinni. Græn orka eins og vind- og sólarorka er líka að verða ódýrari með hverju árinu sem líður. Heimurinn stefnir því í átt að meiri sjálfbærni og þeim breytingum getum við tekið fagnandi. Þeim breytingum fylgir auðvitað atvinna og vonandi arðsemi, þannig að eitt tekur við af öðru (einu sinni var jú hvalafita notuð til að lýsa upp híbýli manna, en það breyttist sem betur fer og eftirspurnin eftir hvalafitu hvarf og þróunin hélt áfram). Þess ber einnig að geta að olíuiðnaðurinn fær ríkisstyrki (e. subsidies) sem gætu verið um 4,7 trilljónir dollara á ári, sem er jú upphæð sem er alvega fáránlega há og sem mætti vel endurskoða. Tilfæring styrkja gæti einnig komið sér vel til að taka á loftslagsvandanum, enda er þessi upphæð margfalt hærri en það sem loftslagsmálin fá til málaflokksins og þar að auki miklu hærri upphæð en ég nefndi í viðtalinu (sem voru 300 – 600 milljarðar dollara sem ég hafði séð einhversstaðar áður). Svona upphæðir eru einmitt hreyfiafl í umræðunni eins og Frosti nefndi og ef Erna eða aðrir vilja “follow the money” þá er þetta auðvitað upplögð byrjun.
Innantómar fullyrðingar
Erna fullyrti svo að Kína og Indland hefðu frítt spil innan Parísarsamkomulagsins og myndu/gætu aukið losun tvöfalt til 2030 (eða í raun eins og þjóðirnar sjálfar vildu samkvæmt Ernu). Það er efnislega rangt, það eru viðmið í Parísarsamkomulaginu varðandi losun og öll ríki hafa sín viðmið. Samkvæmt eigin viðmiðum Kína í takt við Parísarsamkomulagið þá stefnir Kína að því að losað ca. 10-20% meira um 2030 miðað við í dag (og það er ekki útilokað að gera betur), sjá nánar hér, Indland fær að auka losunina meira, en samt er Indland að standa betur við samkomulagið en margar aðrar þjóðir, miðað við hvernig samkomulagið er sett upp, betur en t.d. Kína og ýmis vesturlönd, sjá hér. En það er kannski ekki aðalmálið, enda er innan Parísarsamkomulagsins settir rammar fyrir öll lönd sem taka þátt í samkomulaginu (líka BNA sem er enn innan samkomulagsins), og losun á að byrja að dragast saman í heild bæði til 2030 og svo eftir þann tíma. Sum þróunarlönd fá að auka losun til 2030, enda er það hluti af því að viðurkenna að vesturlönd bera ábyrgð á langmestri losun, bæði uppsafnaðri losun og á mann og því er það einhverskonar verkfæri til að minnka aðstöðumuninn á milli landa. Losun á mann á vesturlöndum er almennt miklu meiri en í þróunarlöndum bæði á ársgrundvelli en ekki síður uppsafnað frá iðnbyltingu, sjá meira um losun og uppsafnað losun hér.
Mistúlkanir, rangfærslur og moðreykur
Erna fullyrti svo einnig að Goldman Sachs sé að kaupa kvóta á markaði og ætli að græða verulega á því í framtíðinni. Það er auðvitað ekki beinn partur af loftslagsvandanum þó einhver hugsanlega græði á því að kaupa kvóta á markaði (þó að það séu nú ekki endilega sterkar vísbendingar um að það standist heldur), en hér má lesa grein sem fjallar eitthvað um aðkomu Goldman Sachs að verðmati á kolefnislosun. Erna gat heldur ekki nefnt dæmi um hvernig almannafé komi inní svona viðskipti í viðtalinu, þrátt fyrir að ég spyrði að því. Ég mæli með að þeir sem telji að losunarkvótar hækki verulega á næstu árum og áratugum kaupi sér einfaldlega kvóta og græði síðar (reyndar veit ég ekki hvernig það fer fram að einhverjir kaupi og hangi á kvóta í skúffu til þess að græða síðar, en það er svo önnur saga).
Eðlisfræði sem skilur ekki pólitík
Hvað sem líður einhverjum fullyrðingum um að einhverjir séu að ljúga, græða og fela vandann, þá er vandinn jú bara að það er aukning gróðurhúsalofttegunda sem er af mannavöldum sem hækkar hitastigið. Eðlisfræðinni er jú nokk sama um pólitískt þref, enda eru gróðurhúsaáhrifin staðreynd og þau eru að aukast af mannavöldum, sjá t.d. hér, hér, hér og hér.
Að sá vafa
Frosti nefndi næst til sögunnar þessa 500 “vísindamenn” sem sendu skjal til Sameinuðu þjóðanna þar sem þeir efuðust um fræðin, en því hefur auðvitað verið margsvarað víða, enda lítið nýtt í því, sjá t.d. þessa grein þar sem farið er ítarlega yfir villur þessara 500 vísindamanna (sem eru jú fæstir með gráður tengdar loftslagsvísindum, eins og ég nefni í viðtalinu). Það að það séu til 500 sjálfskipaðir fræðingar á allskyns sviðum (flest ótengt loftslagsvísindum) sem vilja setja nafn sitt við afneitun kemur mér ekki á óvart. Þessi aðferð hefur verið við lýði í tugi ára og var í raun fullkomnuð af sígarettuframleiðendum uppúr miðri 20. öld þegar “sérfræðingar” lögðu nafn sitt við að reykingar væru nánast skaðlausar. Þess má geta að einhverjir sérfræðingar vafans varðandi loftslagsmálin komu einmitt upprunalega frá sígaretturframleiðendum þegar byrjað var að sá vafa um loftslagsvísindin, þannig að loftslagsafneitunin byrjaði með veganesti mjög þróaðrar aðferðafræði beint úr ranni sígarettuframleiðanda. Frosti virtist sjá ljósið þegar hann áttaði sig á því að til eru verkfræðingar sem aðhyllast 9/11 samsærið og leggja nafn sitt við það í hundraða tali, þannig að það er kannski ekki svo erfitt að fá 500 ósérhæfða “sérfræðinga” til að leggja nafn sitt við svona plagg.
Gífuryrði og barnaskólastærðfræði
Erna tók það illa upp að það væri búið að nefna samsæriskenningar í loftslagsumræðunni frá afneituninni (ég hafði þó mest nefnt það almennt, en auðvitað líka út frá hennar fyrri staðhæfingum) og fór svo að viðhafa stór orð um að það séu aðeins til 102 loftslagsspálíkön innan allra loftslagsvísindanna sem öll væru röng (nema eitt, sem er rússneskt) og að heimurinn í spálíkönunum sé miðaður út frá því að jörðin sé flöt! Hér, hérhér og hér svo má lesa aðeins nánar um spálíkönin (auðvitað ekki tæmandi listi), þar sem kemur vel fram að spálíkön hafa verið góð í að líkja eftir bæði fortíð og framtíð (s.s. við getum núna séð að spár sem voru gerðar fyrir 20-30 árum hafa gengið tiltölulega vel eftir). Þar á eftir fer Erna að ræða um að það væri rangt að 97% loftslagsvísndamenn væru sammála um að jörðin væri að hlýna af mannavöldum og jafnvel að þetta séu bara örfáir vísindamenn sem séu sammála um þetta, en restin hlýtur þá að þegja þunnu hljóði og taka þátt í “þögguninni” (ætli það sé ekki skilgreining á samsæri). Það er búið að marg hrekja þann málatilbúnað, sjá t.d. nýlega grein á loftslag.is sem nefnist “Eru vísindamenn ekki sammála?” og svo enn meira t.d. hér og hér. Erna var svo sek um undarlega reiknivillu þegar hún sagði að rúmlega 3000 vísindagreinar af ca. 11000 vísindagreinum væru 3,2%! Hún sagðist meira að segja hafa reiknað það í huganum, en hún var þó með allar tölurnar á blaði fyrir framan sig og hefur væntanlega þurft að hafa fyrir því að reikna þetta áður en hún kom á staðinn. Hugarreikningurinn var þó ekki betri en svo að hún átti erfitt með að viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér í þessu, þó það sé nú augljóst hverjum sem það vill sjá og getur reiknað barnaskólastærðfræðina skammlaust.
Fórnarlambið og dónaskapurinn
Erna fór því næst að saka mig um dónaskap fyrir það að segja að rangfærslur hennar væru rangar (það er vandlifað í þessum heimi). En það vill nú oft verða þannig að þeir sem halda fram rangfærslum varðandi loftslagsmálin og eru staðnir að verki við það grípa til þess að leika fórnarlömb fyrir það eitt að þurfa að hlusta á að einhver segi að þeirra fullyrðingar séu rangar (ó, hin viðkvæmu blóm afneitunarinnar). En á sama tíma þá er auðvitað fullkomlega eðlilegt í þeirra heimi að fullyrða að tugþúsundir vísindamanna séu að ljúga og séu bara að þessu til að græða persónulega og það sé verið að fela sannleikann bara til að leggja skatta á allan hinn saklausa almenning sem á sér einskis ills von (auðvitað er það góðmennskan ein hjá þeim)! En það er eins og það er, en auðvitað ber okkur að opinbera rangfærslur afneitunarinnar og ekki leyfa þeim að komast upp með mistúlkanir, samsæriskenningar og innantómar fullyrðingar án þess að opinbera vitleysuna. Fullyrðingar afneitunarinnar verða ekki að sannleika þó þær séu endurteknar þúsundum sinnum, sem mig grunar reyndar að þau haldi sjálf. Endurómur bergmálshellis afneitunarinnar er sterkur og hefur staðið yfir í tugi ára. Í lokin fór hún að segja að ég ætti að virða skoðanir annarra (s.s. hennar), en það er eins og að biðja um að allar skoðanir séu jafn réttháar, alveg sama hverjar þær eru. Samkvæmt því þá hafa t.d. 9/11 samsæriskenningar fullkomið vægi af því að einhver hefur þá skoðun, flatjarðarkenningar eru væntanlega líka fullkomlega eðlilegar og við eigum að bera virðingu fyrir þeim þar sem einhver hefur þá skoðun, hugmyndir um falsaðar tunglferðir hljóta líka að vera virðingarverðar enda getum við fundið einhvern með þá skoðun o.s.frv. Ég ber að sjálfsögðu virðingu fyrir því að við búum við skoðanafrelsi, en það þýðir ekki að ég þurfi að bera virðingu fyrir samsæriskenningum og rangfærslum bara af því að einhver hefur þá skoðun og telur hana hafa sama vægi og vísindagreinar, mælingar og rannsóknir.
Gagnrýnin
Það sem ég hef m.a. gagnrýnt varðandi umræðuna er einmitt það þegar samsæriskenningarnar eru settar upp með sama vægi og vísindin, s.s. eins og að þetta sé eitthvað 50:50 dæmi sett upp í einhverskonar morfískeppnisstíl. Þegar ég hafði samband við þá félaga á Harmageddon, þá gagnrýndi ég það að Erna hefði fengi hálfgert drottningarviðtal þar sem hún fékk pláss til að fara með mistúlkanir, rangfærslur og samsæriskenningar óátalið og án sjáanlegrar gagnrýni frá þáttastjórnendum. Þeir svöruðu því sem svo að þeir væru engir sérfræðingar, sem er svo sem gott og blessað og þeir þurfa ekki að vita allt. En það er þó ágætt í okkar nútíma heimi að útvarpsfólk með yfir áratuga reynslu kannist við aðferðafræði afneitunarinnar og vonumst við til þess að þeir félagar taki sig til og lesi leiðarvísinn sem ég gaf þeim og jafnvel þessa grein hér og kynni sér málin þannig að þeir þurfi ekki að spyrja “eins og saklaus börn” sem hafa aldrei heyrt um afneitun loftslagsvísinda áður. Mér fannst eins og að þeir áttuðu sig á líkingu 9/11 samsæriskenningana og aðferðafræði loftslagsafneitunarinnar í viðtalinu og það er þá allavega skref í rétta átt ef það var tilfellið.
Annars var mín nálgun að reyna að hafa áhrif á þá félaga Frosta og Mána, Erna er algjört aukaatriði í þeirri viðleitni minni, og að fá þá til að hugsa gagnrýnið varðandi það að bjóða til sín einhverjum sem einhliða afneitar vísindum og hafnar loftslagsvandanum. Ég hef fulla trú á því að þeir félagar hafi þá gagnrýnu hugsun sem þarf til að sjá í gegnum falskan málatilbúnað afneitunarinnar og þá allavega sýna þá viðleitni að reyna að kynna sér vel afneitun og hafa gagnrýni að leiðarljósi í sambandi við umræðu sem byggir á afneitun. Loftslagsváin er stærsti vandi mannkyns nú um stundir og ég persónulega neita að gefa afneituninni frjálsar hendur til að mistúlka og afvegaleiða umræðuna um loftslagsvandann. Loftslagsvandinn er of stórt mál til að við gefum afneiturum frítt spil. Afneitun hefur núna fengið frítt spil í meira en 3 áratugi, nú er kominn tími til að allir verði mjög gagnrýnir á afneitunina, jafnvel þó að það hafi áhrif á átakalínur í svokölluðu “góðu útvarpi”.
Loftslagsvísindin og grunnur þeirra styrkist dag frá degi, enda bætast sífellt við upplýsingar um yfirvofandi neyðarástand sem er í gangi og væntanlegt. Allt bendir til þess að fólk sé loks að verða nokkuð einhuga um að berjast gegn hinni hnattrænni hlýnun af mannavöldum, enda eru 97 % loftslagsvísindamanna sammála um að jörðin sé að hlýna af völdum aukinna gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.
Í dag birtist samt eins og skrattinn úr sauðaleggnum ritstjórnarpistill í Viljanum (sjá skjáskot hér neðar), þar sem ritstjóri Viljans vildi benda lesendum á að vísindamenn væru alls ekki sammála um að það sé neyðarástand í loftslagsmálum. Þar birtist listi fimmhunduð alþjóðlegra vísindamanna, verkfræðinga og jafnvel stjórnmálamanna sem eru á skjön við viðtekin viðhorf í loftslagsmálum. Þar birtast reyndar mörg af sömu nöfnunum og oft áður í þessari umræðu, en hægt er að tengja mjög marga þeirra sem eru á þessum lista við peninga frá olíuiðnaðinum, aðrir eru komnir á eftirlaun eða eru alls ekki loftslagsvísindamenn. Við höfum fjallað um suma af þeim hérna áður, t.d. Tim Ball, Richard Lindzen og auðvitað Lord Monckton.
En ef horft er framhjá því að hugsanlega sé stór hluti “vísindamannanna” á þessum lista ómarktækur – hversu ósammála eru vísindamenn almennt um loftslagsvísindin?
Hvað er samhljóða álit vísindamanna?
Segja má að komið sé samhljóða álit um eitthvað (e. consensus) þegar vísindamenn hætta að rökræða það frekar. Til að byrja með eru margar tilgátur í gangi, sem eru prófaðar og endurprófaðar og með vísindalegri nálgun komast vísindamenn nær bestu kenningunni. Það er í eðli vísinda að vísindamenn reyna að afsanna tilgátur og kenningar annarra vísindamanna og þeir sem komast næst sannleikanum fá sínar línur skrifaðar í sögubækur framtíðarinnar. Næstum allar tilgátur hverfa í gleymsku, því að lokum er eftir ein kenning sem samhljóða álit er um. Það sem fylgir er oftast einungis fínstilling á kenningum og oftar en ekki bætast við púsluspil sem styrkja kenninguna.
Samhljóða álit í vísindum er alls ekki pólitískt. Það er ekki kosning. Vísindamenn hætta að rökræða efnið af því að yfirgnæfandi vísbendingar benda til þess að kenningin sé rétt og þeir ræða önnur mál, þar til ný gögn benda til þess að gamla kenningin sé ekki að virka lengur.
Samhljóða álit vísindamanna um hnattræna hlýnun
Hvað segja loftslagsvísindamenn um hnattræna hlýnun af mannavöldum? Nokkrar rannsóknir hafa farið fram, þar sem álit þeirra sem eru virkir í faginu hefur verið skoðað. Niðurstaðan er sláandi: yfir 97% loftslagssérfræðinga eru sannfærðir um að mannkynið valdi breytingum á hnattrænu hitastigi jarðar, sjá Doran og Zimmerman 2009 og Anderegg o.fl. 2010.
Þetta hefur einnig verið staðfest í ritrýndum rannsóknum. Skoðaðar voru ritrýndar greinar frá árunum 1993 til 2003 þar sem stikkorðið „global climate change“ (is. hnattrænar loftslagsbreytingar) er notað. Engin þeirra var í mótsögn við hið samhljóða álit, að athafnir manna valdi hnattrænni hlýnun sjá Oreskes 2004.
John Cook o.fl. 2016 skrifuðu svo grein um þetta samhljóða álit. Tvær helstu niðurstöður þeirra eru eftirfarandi:
Það fer eftir hvernig hið samhljóða álit loftslagssérfræðinga er mælt, hvar það lendir. Það er á milli 90-100% loftslagsvísindamanna sem eru sammála því að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum og að meirihluti rannsókna bendir til 97% samhljóða álits meðal loftslagsvísindamanna sem eru virkir í faginu.
Því meiri sem sérfræðiþekking loftslagsvísindamanna var, því hærra var hið samhljóða álit um hnattræna hlýnun af mannavöldum.
Mynd sem sýnir rannsóknir á hinu samhljóða áliti vísindamanna á hinni hnattrænu hlýnun af mannavöldum, þar sem horft er sérstaklega á loftslagsvísindamenn sem hafa gefið út ritrýndar greinar um loftslagsbreytingar.
Mynd sem sýnir tengsl milli sérhæfingar í loftslagsvísindum og samhljóða álits á hnattrænni hlýnun af mannavöldum.
Samhljóða álit vísindamanna er öflugt tól. Enginn einn hefur tíma eða tækifæri til að læra allt, þannig að nauðsynlegt er að reiða sig á niðurstöður margra sérfræðinga. Það er ástæðan fyrir því að við förum til lækna þegar eitthvað bjátar að heilsunni. Mikill meirihluti fólks treystir þannig á samhljóða álit vísindamanna. Það er einmitt ástæðan fyrir því að upp spretta reglulega greinar á netinu þar sem gert er lítið úr hinu samhljóða áliti loftslagsvísindamanna, því minna sem hið samhljóða álit vísindamanna er í hugum almennings, því líklegra er að ekki verði tekist á við vandann, sem virðist takmark miðla eins og Viljans sem enduróma því gamalgrónar aðferðir afneitunarinnar gagnrýnislaust.
Ekki eru allir sem treysta vísindamönnum til að fræða okkur um loftslagsmálin og hver staða okkar er. Þeir eru sumir hverjir í afneitun, vísvitandi eða ómeðvitað. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem útskýrir fimm dæmigerð einkenni loftslagsvísindaafneitunnar (og vísindaafneitunar yfir höfuð):
Gervisérfræðingar (e.Fake experts) – loftslagsafneitarar eru duglegir að vísa í svokallaða gervisérfræðinga. Margir eru til kallaðir, sumir á jaðrinum að flokkast sem loftslagsvísindamenn en sumir bara alls ekki. Sem dæmi má nefna dr. Tim Ball. Hann var upphaflega “vísindamaður” sígarettuiðnaðarins en hefur undanfarna áratugi sérhæft sig í að vera sérfræðingur loftslagsafneitunariðnarins.
Rökvillur (e. Logical fallacies) – Fjölmörg dæmi má nefna. Eitt sem stundum er notað, er að af því að hlutfall CO2 í andrúmsloftinu er lítið (mælt í ppm – part per million), þá hafi það lítil áhrif á loftslag. Það er auðvitað fjarri lagi, enda er það styrkaukningin en ekki magnið sem veldur hlýnuninni.
Ómögulegar væntingar (e. Impossible expectations) – Að hamra á óvissunni, þ.e. að af því að vísindamenn vita ekki nákvæmlega 100% allt um loftslagsbreytingar, þá þurfi ekki að gera neitt í vandanum – allavega ekki fyrr en menn vita þetta 100% (sem verður aldrei).
Sérvalin gögn (e. Cherry picking) – Þetta er líklega algengasta afneitunin núna, þ.e. menn velja sér gögn sem henta hverju sinni. Einn daginn er hafísinn búinn að vaxa í viku, það er því að kólna. Heitt er í neðri lögum lofthjúpsins miðað við sama dag fyrir ári síðan, því er að kólna. Hér skiptir leitni og önnur gögn ekki máli, nema þá sjaldan það styðji afneitunina á einn eða annan hátt (en svo viku síðar er ekkert að marka þau gögn).
Samsæriskenningar (e. Conspiracy Theories) – Nú auðvitað eru vísindamenn bara allir (þ.e. þessi 97% sem eru sammála um að jörðin sé að hlýna af mannavöldum) í einhverju samkrulli með að falsa gögn. Mörg þúsund vísindamenn í öllum löndum jarðarinnar eru semsagt svo skipulagðir og samstíga að þeir ná að falsa gögn til að plata almenning.
Í tilefni hverrar einustu COP ráðstefnu hefur farið í gang maskína afneitunar um loftslagsfræðin og er eitt frægasta dæmið uppspuninn um hið svokallaða “Climategate” frá 2009. COP21 er engin undantekning, þó að það megi nú með sanni segja að afneitunin sé lágværari og mun minna áberandi en áður. Afneitunin fær samt pláss á síðum Morgunblaðsins þann 1. desember 2015 og hafa þau skrif fengið pláss sem fréttaskýring!
Kristján Jónsson skrifar grein sem kallast – Stefnt að ramma um “sjálfviljug markmið” – og undir millifyrirsögninni “Umdeild vísindi” kemur eftirfarandi fram:
Mikið af pólitísku kapítali hefur verið fjárfest í ákveðnum fullyrðingum. Deilt er um túlkun á rannsóknum, spálíkön, hvort fiktað hafi verið við tölur. Geysilegur hiti er í deilunum og menn saka hver annan um að gæta peningahagsmuna olíufyrirtækjanna eða reyna að tryggja sér rannsóknastyrki og stöður, t.d. með því halda á lofti skoðunum sem nái eyrum ráðamanna. Þekktir vísindamenn, nefna má eðlisfræðinginn og Nóbelshafann Ivar Giaever, hafa gagnrýnt harkalega þá sem neiti að ræða lengur forsendurnar, segi allt klappað og klárt. Þannig séu vísindin aldrei, segir Giaever. Hann hefur sagt að kenningar um hlýnun af mannavöldum séu „rugl“.
Óhjákvæmilegt er að fara yfir gamlar mælingatölur um hitafar, lagfæra gallaðar tölur og samræma. Fikta. En mörgum brá í brún þegar í ljós kom að heimsþekktir vísindamenn NASA í Bandaríkjunum höfðu „leiðrétt“ tölur frá Íslendingum um mikinn hitamun milli Reykjavíkur og Akureyrar á hafísárunum á sjöunda áratug 20. aldar.
Þarna er verið að sá vafa í huga fólks með vægast sagt vafasömum fullyrðingum sem standast ekki skoðun. Hér verður farið yfir nokkrar þessara fullyrðinga.
Greinin, sem er dulbúin fréttaskýring um hin mikilvægu loftslagsmál, er sett upp þannig að gefið er í skyn að einhverjar deilur séu um kenninguna um hnattræna hlýna af mannavöldum – að þar séu andstæðir pólar og fær lesandinn á tilfinninguna að þar sé jafn skipt. Deilurnar eru þó ekki jafnari en svo að það eru yfirgnæfandi meiri hluti loftslagsvísindamanna (um 97-98 %) sammála því að jörðin sé að hlýna vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.
Eitt af því sem rýrir enn meira þessa grein er að hann ætlast til þess að einn maður, öldungurinn og eðlisfræðingurinn Ivar Giaever (86 ára), nóbelsverðlaunahafi frá árinu 1973 hafi nógu mikla vigt í umræðum um loftslagsmál að verjandi sé að vitna í hann. Reyndar er til tilvitnun í hann, þar sem hann segir:
“I am not really terribly interested in global warming. Like most physicists I don’t think much about it. But in 2008 I was in a panel here about global warming and I had to learn something about it. And I spent a day or so – half a day maybe on Google, and I was horrified by what I learned. And I’m going to try to explain to you why that was the case.” Ivar Giaever, Nobel Winning Physicist and Climate Pseudoscientist
Þetta sýnir kannski hvað hann hefur sett sig vel inn í hlutina og hversu vel ígrundað það er að nota hann sem heimild í umfjöllun um loftslagsmál. Þessi vafans aðferð er nokkuð algeng, það er reynt að gera lítið úr vísindunum, ýjað að því að um falsanir og svik sé að ræða og vísað í ósérhæfða sérfræðinga – þarna fer Kristján því í gegnum mjög þekkta aðferðafræði afneitunar, sem hefur virkað vel til þess að hafa áhrif á fólk á síðustu árum og áratugum, en nú láta færri gabba sig svona og þessi aðferðafræði er vonandi að verða úrelt.
Þess má geta að aðferðafræði Kristjáns minnir hressilega á afneitunarblogg númer 1 á Íslandi, þar sem þeir þættir sem Kristján nefnir hafa verið til umfjöllunar á bloggsíðu sem Ágúst H. Bjarnason (verkfræðingur) stendur fyrir – sú síða hefur í gegnum árin verið ein stærsta heimild þeirra sem vilja nálgast efnivið í afneitun á þessum fræðum og virðist Kristján hafa sótt efni það, sjá t.d. þetta og þetta.
Varðandi meintar falsanir NASA sem Ágúst H. Bjarnason hefur haldið á lofti, þá hefur Halldór Björnsson sérsfræðingur hjá Veðurstofu Íslands svarað þessu og við birtum meðal annars hér á loftslag.is (sjá Athugasemd varðandi meintar falsanir NASA). Þar kemur meðal annars fram:
Leiðréttingar GHCN eru hinsvegar af og frá, eins og þú bendir réttilega á. Hinsvegar er það að hengja bakara fyrir smið að halda því fram að þetta sé villa hjá NASA. Þeir erfa þessa villu frá NOAA og lagfæra hana að nokkru. Að lokum er rétt að taka fram að lagfæringar VÍ á mæliröðinni fyrir Reykjavík eru á engan hátt endanlegur sannleikur um þróun meðalhita þar. Hinsvegar er ljóst að staðsetning mælisins upp á þaki Landsímahússins var óheppileg, þar mældist kerfisbundið meiri hiti en á nálægum stöðvum. Vegna þessa er full ástæða til að til að leiðrétta mæliröðina, en vel er hugsanlegt að leiðréttingin (um 0.4°C) sé full mikil. Þessi leiðrétting kann að verða endurskoðuð síðar. Slíkt hefði þó óveruleg áhrif á langtímaleitni lofthita í Reykjavík (og engin á hnattrænt meðaltal).
Það getur vel verið að einhverjir lesi þessa “fréttaskýringu” Morgunblaðsins gagnrýnislaust, en ef vel er skoðað og staðreyndir málsins teknar fyrir, þá sést að engar deilur eru um að losun gróðurhúsaloftegunda af mannavöldum veldur hnattrænni hlýnun og þarf engar falsanir á gögnum til að sýna fram á að hnattræn hlýnun á sér stað.
Þó notuð sé aðferð vafans og reynt að draga úr vilja almennings til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þá er enginn vafi að jörðin er að hlýna af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.
Í dag eru 6 ár liðin frá því að loftslagsvefurinn loftslag.is fór í loftið. Margt hefur gerst á þessum 6 árum og mörg loftslagstengd met fallið, ís bráðnað, bæði á láði og legi o.s.frv. Hlýnunin heldur sínu striki, en þar fyrir utan hefur umræðan farið bæði fyrir ofan garð og neðan og lítið þokast í rétta átt (þó auðvitað megi sjá einhver batamerki ef vel er að gáð). Loftslagsfundir hafa verið haldnir á ári hverju, sá fyrsti sem við fylgdumst með á þessum vettvangi var Kaupmannahafnarráðstefnan sem varð meiriháttar flopp – kannski vegna þess að afneitunarsinnar komust upp með að búa til plathneyksli sem kallað var climategate rétt áður en fundurinn hófst og má færa rök fyrir því að þeir hafi orðið valdir að miklum skemmdarverkum sem töfðu alvöru niðurstöður viðræðna í mörg ár (íslenski bloggarar og fleiri dreifðu meðal annars ósómanum). Stjórnmálamenn virðast ekki vera mjög atkvæðamiklir þegar á brattann sækir og skortir dug og þor og því fór sem fór og ekkert raunverulegt var ákveðið þá til að stemma stigu við hlýnun jarðar og einnig hefur heldur lítið gerst eftir það. Flestir COP fundirnir síðan hafa verið frekar atkvæðalitlir, en nú er enn og aftur stefnt að því að ná einhverju raunverulegu samkomulagi. Það á að gerast í París í desember og eru margir fullir vonar og eftirvæntingar um hvað gerist þá…eftir 6 ára tafir (ef miðað er við Kaupmannahafnarfloppið) – en enn meiri tafir ef litið er til lengri tíma og ef við rýnum í öll þau ár sem vísindin hafa verið ljós um orsakir og afleiðingar óheftrar losunar gróðurhúsalofttegunda útí andrúmsloftið. Það virðist jákvæð stemning fyrir fundinum í desember, en með fullri virðingu fyrir stemningunni, þá er eigi enn sopið kálið þó að í ausuna sé komið. Á meðan stemningin mallar fyrir loftslagsfundinn í París þá er á sama tíma, hér á landi, verið að leggja drög að miklum olíufundum á Drekasvæðinu – og það virðast því ekki allir vera búnir að tengja í þessum efnum og margir sjá fyrir sér olíugróða með betri tíð og blóm í haga, en ekki er allt sem sýnist í þeim efnum.
Mynd af kettlingi að fagna einvherju og þar sem kettlingar eru eitt vinsælasta myndefnið á netinu, þá var ekki úr vegi að skella inn einni smellinni kattarmynd
Árið 2014 var hlýjasta ár frá upphafi mælinga og árið í ár stefnir í að verða hlýrra (eins og staðan er í dag) og því verður árið í ár hugsanlega hlýjasta ár frá upphafi mælinga (og slá þar með met síðasta árs). Hafísinn hefur sjaldan verið minni á norðurslóðum, sem er einn af þáttunum sem fylgst er með varðandi breytingar í loftslagi. Það virðist vera orðin regla að hvert ár sem líður fer á listann yfir allavega 10 heitustu árin frá upphafi mælinga (það á við um öll 6 árin sem loftslagsvefurinn hefur verið í loftinu) og svo eru metin líka slegin inn á milli. Hafísmetið var t.d. slegið árið 2012, þar á undan var það met slegið árið 2007. Eftir 2007 metið, þá var talað um að hafísinn væri að jafna sig árin á eftir – jafnvel töldu einhverjir sig sjá vöxt hafíssins – en svo skall árið 2012 á með nýju meti. Eftir 2012 metið eru menn aftur farnir að tala um að hafísinn sé að jafna sig og/eða jafnvel vaxa…sem virðist enn og aftur vera óskhyggja sem ekki byggir á raunverulegum athugunum. Alveg sama hversu mörg met eru slegin varðandi hitastig á heimsvísu, þá virðast þeir alltaf vera til sem tala um að ekkert hafi hlýnað í X mörg ár eða jafnvel kólnað, með tilvísun í einhverjar misgáfulegar samsæriskenningar og/eða bara helbera afneitun. Afneitunin virðist þó á undanhaldi – sem er jákvætt og vonandi hverfur hún eins og dögg fyrir sólu í hlýnandi heimi. Það virðist þurfa róttækar ráðstafanir til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar hlýnunar jarðar og það er vonandi að Parísarfundurinn verði ekki enn eitt floppið í boði afneitunarinnar og misvitra stjórnmálamanna sem ekki sjá í gegnum lygavef afneitunarinnar. Og við höfum ekki einu sinni minnst á illa tvíbura hlýnunar Jarðar, sem er súrnun sjávar…en það eitt og sér ætti að fá allt hugsandi fólk til að gefa óheftri losun gróðurhúsalofttegunda mikin gaum og krefjast tafarlausra aðgerða.
Hvað sem líður afneitun, ákvarðanafælni og dugleysi ráðamanna í gegnum árin, þá fögnum við félagarnir áfanganum – 6 ár er engin aldur og margt á eftir að gerast á næstu árum og við hljótum að vonast til að upplifa alvöru ákvarðanir varðandi það hvernig ber að taka á loftslagsvandanum innan vonandi fárra ára – allavega ef meiningin er að gera eitthvað raunverulegt við vandanum (sem er ekki sjálfgefið ef horft er í baksýnisspegilinn). Við stöndum allavega vaktina áfram – takk fyrir okkur, við höldum okkar striki, enda næg verkefni fyrir höndum í framtíðinni.
Eftir því sem losun manna á gróðurhúsalofttegundum eykst og styrkur þess vex í lofthjúpnum, því meir hlýnar jörðin. Vissulega eru sveiflur í hlýnuninni sérstaklega staðbundið, en almennt séð þá hlýnar til lengri tíma litið.
Hlýnunin er mæld með því að mæla hitastig á mælistöðum víða um heim, en nákvæm mæling á hitastigi jarðar er ekki einföld. Hitastig breytist eftir árstíðum, staðsetningu auk náttúrulegs breytileika, bæði tímabundið og staðbundið. Það höfum við á Íslandi til dæmis orðið vitni að undanfarið. Af því leiðir að vísindamenn búast ekki við að hitastig rísi alls staðar jafnt og þétt eða alltaf. Vísindamenn búast samt við því að til lengri tíma litið sé leitnin upp á við og sú er einmitt raunin.
Þrátt fyrir það, þá virðist umræðan um hina hnattrænu hlýnun snúast að nokkru leyti um pásu eða minnkandi hnattræna hlýnun. Við á loftslag.is höfum ekki tekið undir það, en þó bent á ýmsa þætti í loftslagi jarðar sem geta valdið því að hlýnunin virðist hulin.
Ný grein í Science
Nú nýverið kom út grein eftir nokkra vísindamenn innan hinnar virtu stofnunar NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration), Karl o.fl. 2015, þar sem skoðaðar eru mælingar við yfirborð jarðar og spurt hvort hlýnunin hafi hægt á sér. Í greininni segja vísindamennirnir frá leiðréttingum sínum á yfirborðshita sjávar, en tvenns konar villur hafa komið fram í gegnum tíðina við mælingar skipa á hita – annars vegar vegna hita sem kemur frá skipum sjálfum þegar þau taka inn sjóinn til mælinga og hins vegar breytingar á því hvernig hiti var mældur fyrir og eftir heimsstyrjöldina síðari. Einnig eru notuð ný gögn fyrir landhita, þar sem sameinaðir eru nokkrir gagnagrunnar í einn.
Niðurstaðan er helst sú að leitni hitastigs, síðastliðin 17 ár eða svo, hefur haldið áfram að aukast og engin sýnileg pása. Í raun hefur leitnin aukist á sama hraða og síðastliðna fimm áratugi. Þeir sem afneita hnattrænni hlýnun af mannavöldum sérvelja (e. cherry pick) oft þau tímabil sem líklegust eru til að sýna litla leitni í hlýnun – með það að leiðarljósi prófuðu höfundar að sérvelja hið heita El Nino ár, 1998 sem upphaf tímabils og árið 2012 sem var kaldara en árin í kring sem enda tímabils. Þrátt fyrir það þá sýndi það tímabil afgerandi hlýnun.
Vitað er að ýmsir þættir hafa undanfarna 1-2 áratugi haft kælandi áhrif á hnattrænan hita þ.e. aukin eldvirkni, ýmsar sveiflur úthafanna, minnkandi sólvirkni og aukning á kælandi örðum frá iðnaði í Asíu. Það vekur því vissan ugg að þrátt fyrir þessi kælandi áhrif hafi hnattræn hlýnun haldið áfram.
Líklegt er að árið 2015 verði enn heitara en síðasta ár, 2014, en það var það heitasta í sögu mælinga. Eitt er víst að ein algengasta mýta undanfarinna ára um að hlýnun jarðar sé í pásu og að allt stefni í kólnun á ekki við rök að styðjast.
Sæmsæriskenningar
Í kjölfar þess að búið var að afskrifa eina af aðalmýtu þeirra sem afneita hnattrænni hlýnun, þá mátti búast við að þeir myndu reyna að finna nýjan vinkil á afneitunina. Sú hefur strax orðið raunin og ber mest á algengu tóli þeirra sem eiga erfitt með að sætta sig við afgerandi gögn og rannsóknir: samsæriskenningar. Því hafa strax komið upp samsæriskenningar um að vísindamenn NOAA hafi hér átt við gögnin til að fela pásuna. Það skal tekið fram að allt er upp á borðum: greinin er mjög skýr, ásamt því að gögn og aðferðir eru aðgengilegar með greininni.
Einn áhugaverður punktur blasir við þeim sem lesa greinina og setur samsæriskenningar þeirra sem afneita hnattrænni hlýnun í nýtt samhengi: Ef hér er um að ræða samsæri vísindamanna til að auka hnattræna hlýnun, þá er einn frekar áberandi galli við þá samsæriskenningu. Í raun þá draga leiðréttingarnar úr hlýnuninni í heild. Þetta sést vel ef skoðuð er mynd úr greininni, sjá neðri myndina:
Hnattrænn yfirborðshiti NOAA með nýju aðferðinni og gömlu annars vegar og með og án leiðréttingu hins vegar. (A) Nýja aðferðin (svört lína) ásamt gömlu (rauð lína). (B) Nýja aðferðin (svört lína) samanborin við óleiðrétt gögn (bláleit lína), úr greininni í Science; Karl o.fl. (2015).
Óleiðrétt gögnin sýna hlýnun um 0,9°C frá 1880-2014 – en samkvæmt nýju greiningunni þá hefur hlýnað um 0,8°C á þeim tíma. Leiðréttingin sýnir því minni hlýnun í heildina, þó vissulega sýni nákvæmari gögn að enn sé hlýnunin hröð. Að leiðrétta gögnin til að gefa sem réttasta mynd af þeim breytingum sem eru í gangi, eru hrein og klár vísindi og hefur það ekkert að gera með samsæri. En samsæriskenningar lúta reyndar ekki lögmálum heilbrigðrar skynsemi.
Einn af þeim vísindamönnum sem var nokkuð hávær í umræðunni um loftslagsvísindi fyrir nokkrum árum og kalla mátti á þeim tíma efasemdamann um hnattræna hlýnun, er prófessor í háskólanum í Berkeley í Bandaríkjunum og heitir Richard Muller. Hann og samstarfsmenn hans skoðuðu gögn um yfirborðshita og ætlunin var að kanna hvort um raunverulega hlýnun væri að ræða eða hvort eitthvað væri til í því sem efasemdamenn segja að um sé að ræða kerfisbundna bjögun, í mælingum og leiðréttingum sem myndi falska hlýnun. Á tímabili var honum hampað sem hetju og eftir að í ljós kom að olíumilljarðamæringarnir Charles og David Koch voru að styrkja rannsóknina og að þekktir efasemdamenn voru að vinna í nánu samstarfi við Muller og félaga, þá vöknuðu vonir þeirra sem afneita hnattrænni hlýnun að hér myndi kenningin bíða afhroð.
Því kom það á óvart þegar Muller staðfesti eiðsvarinn fyrir framan þingnefnd Bandaríkjaþings að bráðabirgðaniðurstöður rannsókna hans bentu til þess að leitni hitastigs sé nánast sú sama og hjá öðrum stofnunum. Eftir því sem leið á verkefnið varð þetta skýrara, hnattræn hlýnun er raunveruleg. Fróðlegt var að fylgjast með því þegar hetja þeirra sem afneita loftslagsbreytingum varð að skúrki (sjá t.d. tengt efni á loftslag.is hér neðar).
Hér er áhugavert viðtal við hann, þar sem hann útskýrir hvað það var sem fékk hann til að skipta um skoðun og hvað það er sem sannfærði hann um að CO2 væri sökudólgurinn.