Í tilefni af 10 ára afmælis loftslag.is ákváðum við ritstjórarnir að líta yfir farinn veg, jafnvel uppfæra síðuna og skrifa nýja pistla um loftslagsmál og hið stigmagnandi vandamál loftslagsbreytinga eða eins og það er skilgreint í dag, hamfarahlýnun.
Tíminn virðist samt lúta öðrum lögmálum nú en fyrir 10 árum, því tími til að skrifa pistla og fréttir fyrir loftslag.is virðist hafa horfið eins og dögg fyrir sólu frá ritstjórninni. Líklega er það samt ekki tíminn sjálfur sem er að breytast heldur umhverfið allt, hvort heldur við horfum á hið náttúrulega umhverfi sem við höfum verið að skrifa um eða umhverfið sem skrifar um hið náttúrulega umhverfi. Skoðum aðeins hvað við er átt.
Umræðan
Fyrir 10 árum voru fáir fjölmiðlar að skrifa um loftslagsmál á Íslandi og þegar þeir skrifuðu eitthvað var það happa og glappa hvort þeir færu með rétt mál eða ekki. Skýrslur IPCC höfðu vissulega komið út, en nokkuð algengt var að gera minna úr loftslagsbreytingum af mannavöldum en rétt var miðað við þekkinguna sem var til staðar í vísindasamfélaginu. Mikið af mýtum voru í gangi, oft eitthvað sem auðvelt var að henda fram í rökræðum ef einhver vildi virkilega afneita því sem fræðimenn voru að segja. Þetta umhverfi þar sem afneitun virtist átakalína í umfjöllun um loftslagsmál var m.a. hvetjandi fyrir ritstjórnina á sínum tíma, enda vildi ritstjórnin hvetja til upplýstrar málefnalega umræðu um loftslagsmál byggða á staðreyndum málsins og hinum vísindalega grunni.
Það var í þeim farvegi sem loftslag.is varð til, nauðsynlegt var að halda til haga þeim sífjölgandi mýtum sem voru í gangi um loftslagsmál og vísindin þar á bakvið. Við stofnum loftslag.is skrifuðum við þetta:
Þessi síða er tilkomin að undirlagi síðustjórnenda, sem eru Höskuldur Búi Jónsson og Sveinn Atli Gunnarsson. Síðan er hugsuð sem upplýsingasíða um loftslagsmál. Hér verður tekið á ýmsum málum tengdum loftslagsmálum, til að mynda fréttatengdu efni, ýmsum skoðunum varðandi efnið og fræðilegu ívafi. Hinn vísindalegi grunnur, tenglar á hægri hluta síðunnar, er ætlað til upplýsingar um hvernig fræðin eru uppbyggð, hvaða afleiðingar eru taldar geta orðið vegna loftslagsbreytinga, hvers konar lausnir eru nefndar til sögunnar ásamt ýmsum spurningum og svörum sem við reynum að leita svara við. Einnig munum við fá gesti til að skrifa gestapistla þar sem velt verður upp ýmsum málefnum tengt loftslagsmálum.
Fyrstu 4-5 árin voru síðan mjög virk hjá okkur og smám saman varð til banki hugmynda og upplýsinga sem hægt var að vísa í, sérstaklega ef svara þurfti mýtum um loftslagsmál. Fréttir utan úr heimi og innlendir pistlahöfundar sköpuðu góðan vettvang til að auka þekkingu landsmanna á loftslagsbreytingum, og jú loftslag var og er svo sannarlega að breytast vegna aukins bruna jarðefnaeldsneytis og breyttrar landnotkunar, þ.e. aukins CO2 í andrúmsloftinu af mannavöldum.
Gestapistlar, umfjallanir fjölmiðla, heimsóknir og viðurkenningar
Eitt það skemmtilegasta sem loftslag.is hefur gert er að hafa samband við hina ýmsu vísindamenn og áhugamenn um loftslag á Íslandi og fá hjá þeim gestapistla um hin ýmsu málefni tengd loftslagsmálum frá ýmsum sjónarhornum. Gestapistlahöfundar eiga miklar þakkir skyldar.
Öll árin höfum við líka verið í óbeinu samstarfi við síðu eins og Skeptical Science, þar sem við höfum m.a. þýtt mýtur og annað efni frá þeim. Höskuldur hefur einnig skrifað eina athyglisverða grein fyrir Skeptical Science þar sem hann rannsakaði miðaldaverkefni frá CO2 Science, sem er síða sem afbakar umræðuna með útúrsnúningum sem ekki standast skoðun, eins og Höskuldur sýnir fram á í færslunni sem finna má á loftslag.is líka.
Árið 2013 kom hér til landsins Bill McKibben, en hann er höfundur fjölda bóka um umhverfismál og einn stofnenda hinnar alþjóðlegu grasrótarhreyfingar 350.org, sem berst fyrir því að verja Jörðina fyrir hlýnun andrúmslofts. Af því tilefni hittu ritstjórar loftlag.is Bill ásamt stjórnmálamönnum á áhugaverðum súpufundi.
Loftslag.is hefur einnig fjallað um skýrslur IPCC um loftslagsmál, sem og loftslagsráðstefnur (frá vonbrigðanna í COP15 í Kaupmannahöfn til vonarinnar í COP21 í París) og allskyns vísindagreinar og skild málefni.
Loftslag.is í samvinnu við París 1,5 tók þátt í að rýna loftslagsstefnu stjórnmálaflokkanna í tvennum kosningum, árið 2016 og 2017. Þar gáfum við flokkunum einkun eftir áherslum þeirra við að koma loftslagsmálum aukið vægi í stefnu þeirra fyrir kosningar og þrýstum þar með á stjórnmálaflokkana að taka afstöðu, þannig að fólk gæti kosið flokka eftir því hvar þeir stæðu í loftslagsmálum. Líklega að hluta út af því fékk loftslag.is Fræðslu- og upplýsingaviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum árið 2017. Við teljum að einkunagjöfin hafi verið með í að gera loftslagsmálin aðeins sýnilegri í þessum tveimur kosningum.
Undanfarin ár hefur loftslag.is verið minna virk, en síðuhöfundar hafa samt haldið áfram umræðu um loftslagsmál þar sem svara hefur þurft mýtum, bæði á loftslag.is og einnig í athugasemdakerfum og á samfélagsmiðlum í netheimum, sem eiga það til að loga öðru hvoru og það veitir ekki af málefnalegri nálgun þar.
Núna, 10 árum eftir að loftslag.is fór í loftið, þá hafa tímarnir breyst nokkuð. Loftslagið heldur þó því miður áfram að breytast og menn halda áfram að brenna jarðefnaeldsneyti í miklum mæli. Hins vegar eru loftslagsmálin orðið það gildandi umræðuefni í samfélaginu að stórar innlendar fréttaveitur eru farnar að fjalla um loftslagsmálin mjög reglulega. Má þar til dæmis nefna Stundina, sem gaf út tölublað í vor sem var sérstaklega tileinkað loftslagsmálum. Einstakir blaðamenn hafa líka verið ötulir í umfjöllun um loftslagsmál, má þar meðal annars sérstaklega nefna, að öðrum ólöstuðum, Kjartan Kjartansson sem hefur bæði verið á mbl.is og núna á visir.is þar sem hann skrifar reglulega um loftslagsmál. Umfjöllun ýmissa fjölmiðla um Gretu Thunberg, öflugan sextán ára ungling sem hefur mótmælt aðgerðarleysi fyrri kynslóða í loftslagsmálum, hefur verið mikil undanfarna mánuði og breytingar í náttúrunni fara ekki framhjá nokkrum manni sem fylgjast með fréttum almennt. Þess má geta að Greta Thunberg er samkvæmt einhverjum heimildum skyld Svante Arrhenius (faðir Gretu er skírður í höfuðið á Svante Arrhenius), en opnunardagur loftslag.is þann 19. september 2009 var einmitt valin vegna tengingar við fæðingardag hans:
“19. september var valin vegna þess að þá eru liðnir 55.000 dagar frá fæðingu Svante Arrhenius. Hann var einn af þeim fyrstu sem gerði tilraun til að reikna út hugsanleg áhrif á aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Hann fæddist þann 19. febrúar árið 1859 og dó 2. október 1927.”
Vegna breytinga í almennri fjölmiðlaumfjöllun um loftslagsmál á síðustu árum, þá má kannski segja að mikilvægi loftslag.is, sem upplýsingasíða um loftslagsmál og fréttasíða hafi minnkað töluvert og er það vel, því mikilvægt er að sem flestir séu upplýstir um loftslagsmálin sem er mikilvægasta mál samtíðarinnar og framtíðarinnar. Það er þó enn langt í land, en almenningur er þó betur upplýstur en fyrir 10 árum og fólk er almennt jákvæðara gagnvart því að taka á vandanum, jafnvel þó það geti haft persónulega breytingar í för með sér fyrir almenning.
Þátturinn “Hvað höfum við gert?” hefur einnig orðið til þess að opna hug almennings varðandi loftslagsvandann og var það gríðarlega gott efni sem vafalítið breytti viðhorfi fólks til loftslagsmála. Fólkið á bak við “Hvað höfum við gert?” fékk einmitt Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á degi Íslenskrar Náttúru núna um daginn.
Fyrir nokkrum árum þýddum við svo leiðarvísi varðandi efahyggju og loftslagsvísindi sem nefnist “Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hin vísindalegi leiðarvísir“, það er um að gera að minna á hann vegna afmælisins, því þó að afneitun hafi minnkað, þá virðast þetta samt alltaf vera sömu punktarnir sem dúkka upp og því getur leiðarvísirinn komið sér vel fyrir þá sem vilja vera tilbúnir í umræður við gamla frændann sem alltaf kemur með sömu “efasemdirnar” á reiðum höndum í afmælisboðum og mannfögnuðum, um að gera að opna PDF skjalið, prenta það út og lesa yfir.
Hvað hefur gerst á þessum á 10 árum?
Loftslag hefur haldið áfram að breytast í hröðum takti sem er viðhaldið með áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Í dag notum við orðið hamfarahlýnun frekar um loftslagsbreytingar svo fólk átti sig betur á hvað við er að eiga, þetta er ekki eðlileg þróun, þetta er hamfarahlýnun sem er afleiðing af gjörðum mannkyns, s.s. bein aukin losun vegna bruna jarðefnaeldsneytis og breyttrar landnotkunar sem valda auknum gróðurhúsaáhrifum.
Breytingar á síðustu 10 árum
Á einungis 10 árum, þá má merkja verulegan mun í ýmsum þáttum sem notaðir eru til að mæla breytingar í loftslaginu. Hér munum við skoða 2 mikilvæga þætti í stuttu máli og myndum og nefna svo nokkra til í kjölfarið.
Hitastig
Á síðustu 10 árum hefur hitastig hækkað um u.þ.b. 0,2°C og það er ekkert sem bendir til þess að sú þróun stöðvist á næstunni, heldur að það verði frekar aukin hraði í hækkun hitastigs. Síðustu 4 ár eru hlýjustu ár frá því mælingar hófust og 2019 mun blanda sér í þá baráttu líka. Hitastig gæti hækkað um 3-4°C (jafnvel meira) fyrir næstu aldamót ef ekkert er að gert. Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir að reyna að halda hitastigshækkun innan 2°C, helst 1,5°C. Miðað við núverandi losun gróðurhúsalofttegunda þá verður að teljast mjög ólíklegt að markmið Parísarsamkomulagsins náist, en auðvitað er verið að vinna í málinu og ný markmið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda líta vonandi dagsins ljós. Það er mikils virði að halda hitastigshækkun innan 2°C og við verðum að reyna allt sem hægt er til þess, en það þýðir að þjóðir heims verða að setja enn betri markmið varðandi losun og draga enn meira úr losun en núverandi markmið gera ráð fyrir.
Hafís í Norðurhöfum
Samfara auknu hitastigi hefur hafísinn minnkað á norðurheimskautinu. Minnkunin hefur verið rykkjótt, en leitnin sýnir stöðuga minnkun hafíssins. Árið 2012 var metár og var lágmarkið það ár það lægsta sem mælst hefur. En það er einnig athyglisvert að skoða lágmarks útbreiðslu við hámarkið og svo að meðaltali, sjá myndir hér undir.
Hafís er fingrafar á hitastigs hækkunina, við hækkandi hitastig þá bráðnar hafísinn enn meira og það hefur í raun sýnt sig á síðustu 10 árum eins og áratugina á undan að bráðnun hafíss er staðreynd. Árið 2009 þegar við hófum störf hér á loftslag.is þá jókst útbreiðsla hafíss frá árinu á undan (2008 hafði þá verið með minnstu útbreiðsluna frá upphafi mælinga) og afneitunarsinnar á Íslandi og víðar túlkuðu þessa aukningu 2009 sem ljóst merki um að hafísinn væri að ná sér! Það er þó alveg ljóst þegar við skoðum gögnin fyrir árlegt lágmark, hámark og svo meðaltal (sjá myndir hér að ofan) að áframhaldandi bráðnun hafíss er staðreynd.
Aðrar breytingar
Það er því alveg ljóst, eins og verið hefur í tugi ára, að loftslag er að breytast og hefur breyst á síðastliðnum áratug af manna völdum. Þær breytingar aðrar sem nærtækast að nefna eru t.d. sjávarstöðubreytingar, sem virðast hafa verið vanmetnar meðal vísindamanna í gegnum tíðina, bráðnun jökla sem er auðvitað eitthvað sem við Íslendingar fylgjumst með af fyrsta bekk. Bráðnun Grænlandsjökuls og jökulbreiðunnar á Suðurskautslandinu eru líka mikilvæg, enda það sem getur haft einna mest áhrif á hækkun sjávar á næstu áratugum. Súrnun sjávar er einnig mjög mikilvægt atriði sem ætti að vera okkur Íslendingum ofarlegar í huga enda getur það (ásamt hlýnun sjávar) haft veruleg áhrif á vistkerfi hafsins. Og svo er það náttúrulega áhrifavaldurinn sjálfur, magn CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu sem aukast jafnt og þétt.
Afneitun loftslagsvísinda meðal almennings hefur sem betur fer minnkað á síðustu 10 árum, en betur má ef duga skal. Í dag eru t.d. stjórnvöld í BNA og fleiri löndum að taka mjög vafasama stefnu í loftslagsmálum, þannig að það er um að gera að vera á varðbergi.
Tengt efni á loftslag.is
- Loftslag.is á afmæli í dag
- Loftslag.is er tveggja ára
- Loftslag.is á afmæli – eitt ár liðið
- Leiðakerfi síðunnar
Leave a Reply