Hér er stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Einnig er yfirlit yfir fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar, en gerðum ekki sérstakar færslur um. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint.
Yfirlit – fréttir og pistlar vikunnar:
Ýmsar fréttir og blogg hafa birst í vikunni. Fyrst má nefna 2 nýjar fastar síður, undir mýtunum. Þetta eru mýturnar “Aukning CO2 í andrúmsloftinu er góð” og “Aðrar reikistjörnur í sólkerfinu eru að hlýna“. Samhliða seinna efninu var einnig gerð bloggfærsla, þar er hægt að gera athugasemdir og setja umræðu í gang um efnið. Helstu fréttir vikunnar eru m.a. um nýja skýrslu frá umhverfisráðuneytinu, um nýtt verkefni NASA þar sem gerðar eru mælingar á ísnum á Suður- og Norðurskautinu, frétt um sumarbráðnun hafíssins á Norðurpólnum og ekki má gleyma frétt um viðtalið sem við félagarnir fórum í, á Útvarp Sögu, í Vísindaþættinum. Í stað gestapistils vikunnar, sem ekki gat orðið af, þá gerðum við bloggfærslu um það sem við megum eiga í vændum komandi vikur. Ýmis myndbönd og einnig léttmeti komu á vefinn í vikunni, helst ber að nefna 2 fróðleg myndbönd, í fyrsta lagi ber að nefna fræðslumyndband NASA um hafísinn og svo myndband um loftslagssamsærið – hvað er nú það? Síðast en ekki síst má nefna léttmeti vikunnar, dæmi er myndband með Bill Maher, þar sem hann veltir fyrir sér spurningum um efasemdarfólk og svo færsluna um torfþök á öll hús – ætli það geri nú eitthvert gagn?
Stuttar fréttir
Það er margt gert til að draga úr losun koldíoxíðs. Japanska flugfélagið All Nippon Airways hefur t.d. hafið tilraun sem gengur út á að flugfarþegum er boðið að pissa áður en gengið er um borð í flugvélar félagsins. Þetta er enn á tilraunastigi hjá flugfélaginu, en gert er ráð fyrir að hægt sé að draga úr heildarþyngd flugvélanna með þessari ráðstöfun. Þetta gengur þannig fyrir sig að sérstakir “klósett verðir” eru til staðar sem minna fólk á að létta á sér áður en gengið er um borð. Flugiðnaðurinn hefur nýlega samþykkt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem svarar 50% frá 2005 losuninni fyrir árið 2050. Bæði á að nota ýmiskonar stefnubreytingar (eins og þessi tilraun er hluti af) og með notkun skilvirkari tækni. Sjá nánar hér.
Ný rannsókn bendir til þess að frá árinu 1850 þá megi rekja um helming sjávarstöðubreytinga til mannlegra athafna. Einnig fundu vísindamennirnir að einungis fjórir sentimetrar af þeim 18 sentimertum af hækkandi sjávarstöðu væri af náttúrulegum ástæðum. Fyrir 1800 þá er hægt að útskýra allar sjávarstöðubreytingar með náttúrulegum breytingum – t.d. vegna breytinga í hita sem nær til jarðar frá sólinni (sveiflur í virkni sólar eða vegna eldgosa). Sjá nánar hér.
Greining á kínverskum annálum sem spanna yfir tvö þúsund ár, sýna að engisprettufaraldar eru líklegri í heitu og þurru veðri, sérstaklega í norðurhluta Kína. Vistfræðingar hafa deilt um það hvað hefur áhrif mest áhrif á stofnstærð dýrategunda á löngum tíma – sumir halda því fram að loftslag hafi mest áhrif á meðan aðrir halda því fram að t.d. samkeppni og afrán séu meira ráðandi. Sjá nánar hér.
Veðurfarsskýrslur James Cook, sem hann skráði skipulega á hádegi dag hvern á ferð sinni um hið óþekkta, eru taldar geta hjálpað vísindamönnum að spá fyrir um loftslagsbreytingar. Skrár Cooks og fleiri landkönnuða er nú verið að endurrita og setja á stafrænt form og er talið geta hjálpað loftslagsfræðingum að greina breytingar í veðrakerfum. Gögnin sem geymd eru í Kew, innihalda einstök og nákvæm gögn með hitastigi, hafís, loftsþrýstingi og vindstyrk og átt, víða að úr heiminum. Sjá nánar hér.
Leave a Reply