Mikið hefur verið rætt undanfarna viku um pistil á síðu BBC sem birtist þann 9. október. Paul Hudson ræðir þar um töf á hlýnun jarðar sem sjá má ef rýnt er í hitastig síðustu 11 ára. Hann ræðir þar ýmsar nálganir og útskýringar á því að hlýnunin hefur hægt á sér síðustu áratugi og að loftslagslíkön hafi ekki spáð fyrir um það.
Eins og lesendur hér hafa eflaust tekið eftir, þá birtist hér á loftslag.is pistill um sams konar málefni fyrir stuttu – Er jörðin að hlýna? Þá má benda á nýlegan pistil í Guardian um pistilinn í BBC.
Hnattrænt hitastig samkvæmt GISS gögnum frá árinu 1980. Rauða línan sýnir árleg gögn, stóri rauði kassinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009 úr frá hitastigi frá janúar-ágúst. Græna línan sýnir 25 ára leitnilínu (0,19°C á áratug). Bláa línurnar sýna síðustu tvær tíu-ára leitnilínur (0,18°C á áratug fyrir 1998-2007, 0,19°C fyrir 1999-2008).
Við á loftslag.is fengum áhugaverðar spurningar frá Guðlaugi Ævari Hilmarssyni, sem ég ætla að reyna að svara.
Er hætta á, vegna hlýnunar á norðurslóð: Á stóru íshruni eða berghruni á austurströnd Grænlands? Hrunið gæti valdið ofuröldu (Tsunami) og hugsanlega valdið tjóni hér á Íslandi? Hefur sá möguleiki verið rannsakaður?
Ég ætla að endurraða spurningunum aðeins og endurorða, auk þess sem ég bæti við spurningum, til að auðvelda mér að svara þeim. Ég tek upp heitið hafnarbylgja fyrir tsunami. Spurningarnar verða þá eftirfarandi:
Eru til einhverjar heimildir um hafnarbylgjuhættu frá Austur-Grænlandi.
Getur hlýnun á Austur-Grænlandi valdið hruni massa í sjó fram og myndað hafnarbylgju?
Hversu stór þarf massinn að vera sem hrynur til að mynda hafnarbylgju sem getur valdið tjóni á Íslandi?
Geta hafnarbylgjur frá Austur Grænlandi valdið tjóni á Íslandi?
Eru til einhverjar heimildir um hafnarbylgjuhættu frá Austur-Grænlandi?
Til að byrja með ætla ég að fullyrða, eftir nokkra heimildaleit, að litlar upplýsingar eru til um þennan möguleika – útiloka það þó ekki. Líklega væri best að ræða við danska jarðfræðinga sem líklegastir eru til að hafa gert slíka könnun. Samt sem áður þá er til nokkuð af heimildum bæði um hafnarbylgjur annars staðar frá (t.d. Vestur Grænlandi) og um hættu á hafnarbylgju yfir höfuð. Oftast eru þó heimildirnar bundnar við annars konar ástæður fyrir hafnarbylgjunni.
Hafnarbylgja (e. tsunami):
Flóðbylgjur verða einkum til í tengslum við lóðréttar hreyfingar á hafsbotninum eða tilfærslur á massa sem leiða til þess að vatn kemst á hreyfingu. Alþjóðaorðið tsunami er japanskt að uppruna og merkir hafnarbylgja á frummálinu. Jarðskjálftar eru algengasta orsök flóðbylgna en eldgos og skriðuföll geta líka valdið umtalsverðum flóðbylgjum, jafnvel stærri en skjálftar gera (Páll Einarsson – Vísindavefurinn).
Hafnarbylgjur verða oftast vegna atburða sem verða neðansjávar. Á myndinni má sjá jarðskjálfta, neðansjávarskriðu og neðansjávareldgos.
Yfir 90% af öllum hafnarbylgjum, verða vegna jarðskjálfta, en margt verið skrifað um möguleikana á neðansjávarskriðum sem gætu valdið hafnarbylgjum, líkt og Storegga skriðan sem varð fyrir sirka 8000 árum. Sú hafnarbylgja er talin hafa verið að minnsta kosti 3 m há (jafnvel 5-6 m há) þegar hún náði Íslandi, en ekki hafa fundist setlög og ummerki um hana hér á landi, að því er kemur fram í greininni sem ég skoðaði (Bondevik o.fl. 2005):
Storegga neðansjávarskriðan. Vinstra megin sýna bláir punktar hvar setlög eftir hafnarbylgjuna hafa fundist og í hvaða hæð. Hægra megin sýnir hvar útreikningar benda til að bylgjan hafi verið eftir 2 klukkutíma (Bondevik o.fl. 2005).
Einnig geta hafnarbylgjur myndast við fall massa niður í sjó fram. Mikið hefur t.d. verið rætt um möguleikann á risa-hafnarbylgju ef eldfjöll á Kanaríeyjum eða Hawaii myndu skyndilega hrynja, vegna samblands af eldgosi og hruni landmassa í sjó fram (Pararas 2002).
En við erum að spá í hafnarbylgjur sem verða vegna hruns í sjó fram, þá tengt hörfun jökla af völdum hlýnunar jarðar. Því skulum við skoða hvað vitað er um slíkt.
Getur hlýnun á Austur-Grænlandi valdið hruni massa í sjó fram og myndað hafnarbylgju?
Kelfing jökla
Við vitum að jöklar kelfa í sjó fram víða á Grænlandi (þ.e. það brotnar framan af skriðjöklum sem ná í sjó fram). Hafnarbylgjur myndast oft á tíðum við kelfingu jökla og geta valdið tjóni í nærliggjandi byggðum, en oftast eru þær þó ekki nógu stórar til að ná mannabyggðum. Þó gerist það stundum á Grænlandi eins og þetta myndband sýnir (frá 1995 – ekki með nákvæma staðsetningu):
Ég hugsa að það sé þó hægt að fullyrða að hafnarbylgjur af völdum íshruns úr jöklum og kelfingu, verði aldrei það stórar að þær nái að hafa áhrif á Íslandi.
Berghlaup – bergflóð (e. rock fall/rock slide/rock avalanche)
Það er óumdeilt að við núverandi loftslagsbreytingar þá eru jöklar Grænlands að hörfa. Í gegnum tíðina hafa jöklar Grænlands grafið djúpa og bratta dali í fjallgarða Grænlands og því má áætla að við hörfun jökla þá verði hlíðar fjallanna óstöðugar, líkt og gerðist víða hér á Íslandi í lok síðasta jökulskeiðs ísaldar og snemma á nútíma:
Flest berghlaup á Íslandi eru talin hafa fallið á nútíma, skömmu eftir lok ísaldar. Einfaldasta skýringin á orsökum þeirra er að á meðan skriðjöklar fylltu dali hafi þeir sorfið hlíðar þeirra en jafnframt haldið að þeim og komið í veg fyrir að stöðugt brattari hlíðar þeirra hryndu niður. Þegar jöklarnir hurfu úr dölunum hvarf stuðningur þeirra við óstöðugar hlíðarnar, sem við það hrundu ofan í og jafnvel um þvera dalina (Höskuldur Búi Jónsson, Hreggviður Norðdahl og Halldór G. Pétursson – Náttúrufræðingurinn 72, 2004).
Berghlaup úr Svarfaðardal. Talið er að þetta berghlaup eins og flest önnur berghlaup á Íslandi, hafi fallið stuttu eftir að jökla leysti, þegar hlíðar fjallsins voru í ójafnvægi eftir undangröft ísaldarjökuls.
Hér fyrir ofan er minnst á berghlaup, en það er ein tegund skriðufalla:
Sem dæmi um mismunandi gerðir skriðufalla hérlendis má nefna grjóthrun, aurskriður úr giljum og urð utan á fjallahlíðum, ýmiss konar jarðföll eða jarðvegsskriður, aurblandin krapahlaup, berghlaup og jarðsig af ýmsum gerðum. Sem dæmi um helstu orsakir skriðufalla má nefna miklar rigningar og skyndileg úrhelli, asahláku og miklar leysingar, aukið grunnvatnsrennsli, undangröft jarðlaga og jarðskjálfta (Halldór G. Pétursson – Náttúrufræðistofnun Íslands).
Hér á Íslandi er það nú þegar farið að gerast að við núverandi hlýnun eru berghlaup byrjuð að gerast. T.d. er Berghlaupið í Morsárjökli sem varð árið 2007 dæmi um berghlaup sem líklega er að hluta til afleiðing hörfunar jökla. Þorsteinn Sæmundsson og fleiri hafa rannsakað það ítarlega.
Það er frekar líklegt að þær aðstæður geti skapast við hörfun jökla á Austur-Grænlandi að þá verði hlíðar fjallanna óstöðugar. Einnig er líklegt að misfellur myndist í berglagastaflanum eftir að jöklar hörfa. Þá er einnig algengt að aukning verði í jarðskjálftum við að jökulfargið minnkar, sem hleypt geti af stað stórum skriðuföllum. Til að staðfesta þetta allt saman þurfa að fara fram jarðfræðileg könnun, því það er mismunandi eftir bergtegundum hversu mikinn bratta hlíðarnar þola.
Mynd sem sýnir hvar jöklar Grænlands eru að þynnast og hörfa hvað hraðast (gul og rauð svæði).
Hversu stór þarf massinn að vera sem hrynur til að mynda hafnarbylgju sem getur valdið tjóni á Íslandi?
Sú skriðufallategund sem líklegust er talin vera nógu stór til að geta valdið stórri hafnarbylgju eru svokölluð berghlaup og bergflóð, en um þau segir:
Á íslensku nefnist það berghlaup þegar heilar fjallshlíðar hafa hlaupið eða skriðið fram í einu vetfangi og myndað hauga úr bergmulningi á láglendinu neðan við. Samkvæmt erlendum skilgreiningum á berghlaupi (e. rock slide) þá er það hreyfing bergmassa sem rennur á undirlagi eða skerfleti, sem er sem næst samsíða halla fjallshlíðar. Misgengi, sprungur og lagskipting, auk veikbyggðra millilaga, auka því líkur á berghlaupum. Í hlíðinni myndast brotsár þar sem bergmassinn var áður og er það oft áberandi en fer þó eftir stærð berghlaupsins og því hvort síðari atburðir hafa afmáð þau ummerki eða ekki. Hraði við myndun berghlaupa er á bilinu nokkrir millimetrar á dag og upp í tugi metra á sekúndu. Stundum gerist það að berghlaup breytist í bergflóð (e. rock avalanche), líklega sökum mikillar fallhæðar og mikils rúmmáls þess bergmassa er fer af stað í einu. Í hlaupinu molnar bergmassinn og nær umtalsverðum hraða, eða allt að 175 km/klst. (um 50 m/sek.), og getur flust svo kílómetrum skiptir út frá hrunstað (Höskuldur Búi Jónsson, Hreggviður Norðdahl og Halldór G. Pétursson – Náttúrufræðingurinn 72, 2004).
Rétt er að minnast á hafnarbylgjur sem gætu hafa orðið hér við land, en Árni Hjartarson skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 2006, en þar segir meðal annars að ekki hafi orðið slík skriðuföll á sögulegum tíma. Hann getur þess þó að um 10% berghlaupa sem fallið hafa eftir jökulskeið ísaldar hafi mögulega fallið í sjó fram og þá hugsanlega myndað hafnarbylgjur (Árni Hjartarson 2006).
Stór skriðuföll hafa í gegnum tíðina myndað hafnarbylgjur á sögulegum tíma, t.d. í Alaska 1958, auk þess sem búið er að kortleggja nokkra staði líklega til að mynda hafnarbylgjur, t.d. við strönd Alaska (Wieczorek o.fl 2007).
Paatuut, Vestur Grænlandi, 21. nóvember 2000
Stórt berghlaup eða bergflóð féll í sjó fram við Paatuut í Vaigat sundi sem er sundið sem aðskilur Disko-eyju og Nuussuaq á Vestur Grænlandi.
Kort sem sýnir helstu staðsetningar, jarðfræði og skriðuhættu við Disko eyju og nágrenni (Dahl-Jensen o.fl 2004).
Seinnipart dags þann 21. nóvember 2000 þá urðu íbúar lítils fiskiþorps á vesturströnd Grænlands varir við skrítnar öldur sem komu upp að ströndinni og veltu og brutu báta í mél innan um ísjakana. Daginn eftir varð ljóst að stór skriða hefði fallið við Paatuut, sem er í 40 km fjarlægð frá þorpinu. Skriðan féll úr bröttum hlíðum fjalls, þar sem basaltberglög liggja ofan á veikari sandsteinslögum. Seinna þegar rýnt var í jarðskjálftagögn kom í ljós að skriðan stóð yfir í sirka 80 sekúndur og miðað við fjarlægðina sem hún ferðaðist niður að sjó þá var um að ræða bergflóð (meðalhraði skriðunnar var um 144 km/klst). Heildarmassinn var 90 milljónir rúmmetra en talið er að um 30 milljónir rúmmetra hafi farið í sjó fram og myndað flóðbylgjuna.
Örið og ummerki eftir bergflóðið (efri myndir). Yfirgefna fiskiþorpið Quillissat fyrir og eftir flóðbylgjuna (neðri myndir). Dahl-Jensen o.fl 2004.
Flóðbylgjan hafði víðtæk áhrif á þau mannvirki sem voru næst upptökunum, en mikill hluti bygginga sem voru neðan við 30 m yfir sjó eyðilöggðust í yfirgefnu þorpi – Quillissat – sem er í 20 km fjarlægð frá upptökunum. Næst upptökunum náði flóðbylgjan 50 m hæð. Í 30 kílómetra fjarlægð var yfir 500 ára gamall grafreitur í 8-14 m hæð skemmdist nokkuð (sem bendir til að svona atburður hafi ekki orðið í allavega 500 ár. Við áðurnefnt fiskiþorp, sem heitir Saqqaq þá skall fyrsta bylgjan af mörgum sirka 11 mínútur eftir að skriðan féll, margar bylgjur fylgdu í kjölfarið næstu 2 og hálfan tíma, vegna endurkasts – en Saqqaq er ekki í beinni línu frá upptökunum. Þær bylgjur voru tæplega 2 m háar og skemmdu 10 báta, en engin mannvirki. Það skal tekið fram að við endurkast þá missa bylgjurnar hluta orkunnar, auk þess sem fjarlægðin er orðin meiri
Geta hafnarbylgjur frá Austur Grænlandi valdið tjóni á Íslandi?
Til að það geti gerst, þá þurfa margir samhangandi þættir að vera til staðar.
Í fyrsta lagi þá þurfa jöklar að hörfa – sem er að gerast.
Í öðru lagi þá þarf hlíð að verða óstöðug og hlaupa fram – líklegt að geti gerst, en fer eftir berglagastaflanum og öðrum þáttum.
Í þriðja lagi þá þarf massinn að vera mjög mikill sem að fellur fram – frekar ólíklegt.
Í fjórða lagi þá þarf massinn að falla í sjó fram.
Í fimmta lagi þá þarf hann að falla þar sem bylgjurnar hafa möguleika á að dreifast óhindrað frá landi – sem sagt ekki inn í þröngum fjörðum sem dempa bylgjuna.
Nú er stysta fjarlægð á milli Íslands og Grænlands tæpir 300 kílómetrar og miðað við þær þekktu hafnarbylgjur sem gerðust bæði á Vestur Grænlandi og Alaska, þá hafa þau yfirleitt mikil staðbundin áhrif. Líklega þarf gríðarlega stórt bergflóð að falla í sjó fram, svo að áhrif þess muni geta hér á landi, auk þess sem það þarf að verða fyrir opnu hafi.
Austurströnd Grænlands og Ísland.
Án ábyrgðar þá myndi ég áætla af ofangreindu að ekki séu miklar líkur á að hafnarbylgjur frá Austur Grænlandi geti valdið tjóni á Íslandi. Þær geta þó líklega valdið staðbundnu tjóni á Austur-Grænlandi – en þar er byggðin mjög dreifð. Það er þó margt sem spilar inn í sem veldur óvissu og líklega þarf að fara fram almennileg könnun á þessum möguleika til að hægt sé að svara þessu með einhverri vissu.
Ég hef verið að velta því fyrir mér að undanförnu hvort umræðan um loftslagsvandann sé tabú. Á þessari síðu höfum við í ritstjórninni haft þá stefnu að skrifa um það sem vísindin hafa að segja um loftslagsmálin. Þ.e. að koma inn á rökin, rannsóknirnar og fræðin. Viðtökurnar hafa almennt verið góðar. Efninu er raðað í ákveðna flokka, í hliðarstikunni til hægri eru fastar síður þar sem reynt að koma inn á vísindin á bak við fræðin og svo eru fréttir, blogg, gestapistlar og svokallað heitt efni í tenglunum hér að ofan.
Mitt persónulega mat er það, að það séu verulegar líkur á því að gróðurhúsalofttegundir og magn þeirra í lofthjúpnum hafi bein áhrif á hitastig jarðar, það er það sem vísindin segja okkur í dag. Hversu mikið, er ákveðinni óvissu háð, þ.a.l. eru t.d. ekki allar spár um hækkun hitastigs eins. Einnig koma þarna inn náttúrulegar sveiflur jarðar sem hafa áhrif á hitastig jarðar nú eins og alltaf. Þessar náttúrulegu sveiflur hafa þau áhrif að bæði getur hitastig hækkað meira en spár gerðu ráð fyrir eða jafnvel lækkað tímabundið.
Umræða um þessi mál er frekar undarleg á köflum. Umræðan virðist stundum fara út í skotgrafahernað tveggja öfgasjónarmiða, þ.e. þeirra sem telja að heimurinn sé að farast og þeirra sem ekkert vilja gera. Þarna á milli eru svo mörg litbrigði skoðana. Nú vil ég gjarnan taka það fram að ég tilheyri hvorugum öfgahópnum, en tel vandann vera til staðar og tel að við honum verði að bregðast. Persónulega tel ég að hægt sé, með hjálp tækni og með breyttum viðhorfum, að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef meira þarf til, þá þarf að fara fram pólítísk umræða um hvernig skuli ná þeim markmiðum, sú umræða fer m.a. fram í Kaupmannahöfn í desember, þar sem fulltrúar 192 landa koma saman og ræða málin.
Nú langar mig að fara í smá þankatilraun, þar sem ég bið lesendur um að hugsa sem svo, “Loftslagsvandi af mannavöldum er raunverulegur”. Þessi tilraun gengur út á að hugsa sem svo, hvað ef vísindamenn þeir sem rannsaka þessi mál mest hafa rétt fyrir sér? Við þessa tilraun verða til nokkrar spurningar sem vert er að skoða nánar.
Eigum við að hafa áhrif á framtíðina og ræða loftslagsmálin opinskátt?
Er það skylda okkar að finna lausnir?
Hvar viljum við setja markið fyrir því að þetta sé í raunverulegur vandi, er það við 0,5°C eða 2°C hækkun hitastigs, eða einhver önnur tala?
Ef hitastig hækkar lítillega, miðað við einhverjar forsendur, stendur okkur þá á sama?
Hvenær verður vandinn raunverulegur samkvæmt því (3. og 4. spurning)?
Hvað ef það kemur í ljós eftir 50 ár að þetta hafi verið minni vandi en hugsanlega er talið líklegt í dag, ætti sá möguleiki að hafa áhrif á umræðuna í dag, sem ætti að vera út frá bestu fáanlegum upplýsingum dagsins í dag?
Eigum við að ræða hugsanlegar óþægilegar afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum?
Á loftslagsumræða á pólítískum nótum rétt á sér?
Hvernig munu lífskilyrði þróast um allan heim ef við tökum á vandanum?
Ef vandinn er raunverulegur, hversu langt á þá að ganga í því að gera athugasemdir við umfjöllun sem gerir annaðhvort lítið úr vandanum eða telur hann ekki fyrir hendi?
Þetta eru spurningar sem mig langar að biðja ykkur kæru lesendur, að velta fyrir ykkur. Persónulega hef ég ekki ákveðin svör við öllum atriðunum. Röð spurninga er ekki vegna vægis heldur að handahófi. Fróðlegt væri ef lesendur vildu taka þátt í þessari þankatilraun, með því að svara einni eða fleiri spurningum. Þessi mál mega að mínu viti ekki verða að tabú.
Nýliðinn september var næst heitasti september frá því mælingar hófust fyrir sameiginlegar hitatölur fyrir bæði haf og land, aðeins september 2005 var heitari. September 2009 var 0,62°C yfir meðaltali 20. aldarinnar, sem er 15,0°C. Einnig var mánuðurinn sá 33. í samfelldri röð septembermánaða til að vera yfir því meðaltali. Síðast þegar september var undir meðaltali 20. aldarinnar var árið 1976. Sé aðeins litið til hitastigsins yfir landi, þá er mánuðurinn einnig sá næst heitasti september frá því mælingar hófust, september 2005 var einnig heitastur á þennan mælikvarða. Hitastig við yfirborð sjávar var 0,50°C yfir meðaltalinu og er mánuðurinn því í 5. sæti ásamt september 2004. Hitastig hærra en meðaltal var mjög víða að finna, sjá myndina hérundir. En það eru svæði eins og t.d. við Suðuskautið sem er kaldara en í meðallagi. Fyrir það sem liðið er af árinu, þá er hitastig fyrir bæði haf og land 0,55°C hærra en meðaltal 20. aldar. Meðalhitastig ársins er því 14,7°C og er því 6. heitasta janúar til enda september tímabilið frá því 1880. Kraftlítill El Nino hefur verið í Kyrrahafinu í september. Sjávarhitastig í Kyrrahafinu við miðbaug var hærra en meðaltalið. Samkvæmt NOAA, þá mun El Nino styrkjast og vara út norðlægan vetur 2009-2010.
Hitafrávik fyrir september 2009 – Hér er viðmiðunartímabilið 1961-1990
Hér er stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Einnig er yfirlit yfir fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar, en gerðum ekki sérstakar færslur um. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint.
Yfirlit – fréttir og pistlar vikunnar:
Nokkrar bloggfærslur litu dagsins ljós í þessari viku og voru spurningar fyrirferðarmiklar. Færsla um loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn (COP15) birtist og var þar í stuttu máli farið yfir helstu atriði ráðstefnunnar sem er á tímabilinu 7. – 18. desember. Þrjár færslur, sem fjalla um 3 mikilvægar spurningar er varða loftslagsmál birtust í vikunni. Spurningarnar eru;
Þessum spurningum er velt upp og komið er með svör við þeim, sem m.a. er sótt í heim vísinda og mælinga. Gestapistill vikunnar var að þessu sinni eftir Stefán Gíslason framkvæmdastjóra umhverfisráðgjafarfyrirtækisins UMÍS ehf. Environice í Borgarnesi, pistill hans nefnist “Er almenningi sama um loftslagsmál?” og kunnum við honum þakkir fyrir góðan pistil.
Tvær myndbandafærslur birtust í vikunni, efnið í báðum var sótt til NASA. Á YouTube er rás á snærum NASA, sem nefnist NASAexplorer og þangað sóttum við efni vikunnar. Fyrst ber að nefna myndband um bráðnandi ís og hækkandi sjávarstöðu, sem er stutt myndband, þar sem m.a. eru tekin viðtöl við vísindamenn NASA. Seinni myndbandafærslan er röð myndbanda sem birtust sem hluti Jarðvísindaviku NASA. Þetta eru 6 myndbönd sem að mestu fjalla um mikilvægi hafsins varðandi loftslagsbreytingar.
Stuttar fréttir
Nýjar rannsóknir á magni CO2 í andrúmsloftinu síðastliðin 20 milljón ár, bendir til þess að núverandi takmörk varðandi losun CO2 séu of skammsýn. Vísindamennirnir notuðu sjávarsetlög til að endurskapa CO2 magn síðustu 20 milljón ár. Það kom í ljós að þegar magn CO2 var svipað og talið er að sé ásættanlegt í dag til að tækla loftslagsbreytingar, þá var sjávarstaða um 25-40 m hærri en er í dag. Greinin, sem mun birtast í Science, eykur vitneskju um tengsl milli CO2 og loftslag. Síðustu 800 þúsund ár eru nokkuð vel þekkt út frá ískjörnum, en hingað til hefur verið erfiðara að nálgast nákvæm gögn fyrir síðustu 20 milljónir ára. Sjá umfjöllun á heimasíðu BBC.
Nýjar rannsóknir á setlögum í stöðuvatni í Svissnesku Ölpunum bendir til þess að mengun fortíðar sé að læðast aftan að okkur. Mengunarefni sem hafa verið föst í ís jöklanna í yfir 30 ár eru að koma í ljós núna vegna bráðnunar af völdum hlýnunar jarðar. Efni eins og PCB, Díoxín og mörg klórín efnasambönd með DDT hafa aukist frá tíunda áratugnum eftir að hafa minnkað á þeim níunda vegna banns og stjórnunar á notkun þeirra. Vísindamennirnir hafa áhyggjur af því sem muni gerast ef jöklar Grænlands og Suðurskautsins fara að bráðna í einhverju magni. Sjá umfjöllun á heimasíðu Discovery.
Hlýnun sjávar undanfarna áratugi hefur valdið því að risastórir flákar af slímkenndu efni hafa myndast oftar og hafa enst lengur, í Miðjarðarhafinu. Þessir slímkenndu flákar, sem eru allt að 200 kílómetra langir myndast á náttúrulegan hátt, venjulega á sumrin. Undanfarin ár hafa þeir þó einnig myndast á veturna. Vísindamenn hafa fundið út að þeir eru ekki eingöngu óþægilegir fyrir baðgesti Miðjarðarhafsins og veiðimenn, heldur mynda þeir einnig góðar aðstæður fyrir bakteríur og veirur, þar á meðal E.coli veiruna. Sjá umfjöllun á heimasíðu National Geographic.
Jöklarnir í Kashmír Indlands eru að bráðna hratt vegna hækkandi hitastigs og talið er að það geti haft slæmar afleiðingar fyrir milljónir manna á Himalaya svæðinu. Jarð- og jarðeðlisfræðingar við Háskólann í Kashmír segja að bráðnunin muni hafa áhrif á tvo þriðju íbúa svæðisins, vegna breytinga sem verði í landbúnaði, garðyrkju, hirðingjalífi og skógum. Stærsti jökullinn Indlandsmegin í Kashmír, sem heitir Kolahoi, hefur minnkað úr 13 ferkílómetrum niður í 11,5 ferkílómetra síðustu 40 ár eða um 18%. Aðrir jöklar á svæðinu hafa minnkað svipað eða um 16%. Sjá nánari umfjöllun á heimasíðu Discovery.
Hitastig yfirborðsjávar við miðbaug Kyrrahafs í september heldur áfram að viðhalda El Nino aðstæðum sem sköpuðust í sumar. Þriggja mánaða frávik hitastigs var enn yfir 0,5°C sem er viðmiðið sem notað er við að skilgreina El Nino, þriðja mánuðinn í röð. Samt sem áður þá eru önnur fyrirbæri sem eru einkennandi í tengslum við El Nino ekki í takt við það sem vanalegt er. Kyrrahafssveifluvísirinn (Southern Oscillation Index – SOI) er tvíræður miðað við hvað menn eru vanir í tenslum við El NIno. Allt í allt þá bendir margt til þess að El Nino í vetur verði veikur eða miðlungs. Sjá nánari umfjöllun á heimasíðu NOAA.
Til skamms tíma hafa loftslagsmál verið næsta lítið í almennri umræðu á Íslandi. Sú umræða sem þó hefur átt sér stað, hefur lengst af einkennst annars vegar af fáum en vönduðum greinum sérfræðinga sem hafa útskýrt áhrif mannlegra athafna á loftslag á jörðinni og hvatt til markvissra aðgerða til að sporna gegn hættulegri hlýnun og hins vegar af fyrirferðarmiklum svörum svonefndra efasemdarmanna, sem telja sig vita betur en 90-100% vísindamanna þessa heims og halda því enn fram að allt tal um loftslagsbreytingar af mannavöldum sé kjaftæði, hræðsluáróður og samsæri.
Nú bendir hins vegar flest til að umræðan sé að breytast, eða öllu heldur að verða að almenningseign. Almenningur er með öðrum orðum að vakna til vitundar um að framtíð þeirra sjálfra og afkomenda þeirra sé í hættu vegna loftslagsbreytinga ef ekkert verður að gert, og að loftslagsmál séu eitthvað annað og meira en flókinn og kerfislægur málaflokkur sem embættismenn þrefa um á alþjóðlegum fundum og leiðindaskarfar skrifa um í leiðinleg blöð. Fólk er sem sagt að átta sig á því að loftslagsmál varða það sjálft, og að það sjálft sé bæði mikilvægur hluti af vandamálinu og lausninni.
Þegar litið er út fyrir landsteinana er augljóst að almenningur í nágrannalöndunum er löngu vaknaður til vitundar um loftslagsvandann. Þessa dagana eru loftslagsmálin reyndar meira til umræðu í grasrótinni en nokkru sinni fyrr, enda stendur nú fyrir dyrum ein mikilvægasta loftslagsráðstefnan til þessa, þ.e.a.s. 15. aðildarþing loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna, COP-15, sem haldið verður í Kaupmannahöfn 7.-18. desember nk. Þar þurfa þjóðir heims að ná saman um skjal sem leysir Kyoto-bókunina af hólmi þegar hún rennur sitt skeið á enda árið 2012.
Víða um heim hefur fólk bundist samtökum um að láta loftslagsmálin virkilega til sín taka og senda leiðtogum þjóða heims skýr skilaboð um vilja grasrótarinnar til að ná fram raunverulegum úrbótum á þessu sviði. Upp úr þessu hafa sprottið þó nokkur verkefni sem íslenskur almenningur gæti sem best kynnt sér og tekið þátt í. Í þessum pistli verður minnst á fáein þeirra.
350.org
Grasrótarhreyfingin 350 er ein þeirra hreyfinga sem orðnar eru áberandi í loftslagsumræðunni. Hreyfingin rekur uppruna sinn til bandaríska rithöfundarins Bill McKibben og hreyfingar sem hann og félagar hans hleyptu af stokkunum árið 2007 undir yfirskriftinni „Step It Up“. Sú hreyfing skipulagði rúmlega 2.000 viðburði í öllum ríkjum Bandaríkjanna til að vekja athygli á loftslagsvandanum og setja hann í samhengi við daglegt líf fólks. Þessi hreyfing mun hafa átt sinn þátt í að sannfæra Barack Obama, núverandi forseta Bandaríkjanna um mikilvægi þess að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Hreyfingin 350 er alþjóðlegt átak sem ætlað er að byggja upp samstöðu um loftslagsmál um víða veröld og stuðla að lausnum sem byggja á vísindalegum grunni og eru jafnframt sanngjarnar fyrir jarðarbúa, hvar sem þeir eru búsettir. Nafnið 350 er engin tilviljun, því að nú er almennt talið að styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu megi ekki fara yfir 350 milljónustuhluta (ppm) ef takast eigi að afstýra verulegum loftslagsbreytingum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Reyndar er styrkurinn þegar kominn hátt í 390 ppm, þannig að viðfangsefnið er að ná honum aftur niður í 350!
Hreyfingin 350 ætlar sér að fylkja almenningi, fjölmiðlum og stjórnmálaforingjum á bak við 350-markmiðið. Í þeim tilgangi verður efnt til alþjóðlegs loftslagsaðgerðadags 24. október nk. Skipulagðar hafa verið uppákomur á fjölmörgum áberandi stöðum um heim allan, þar sem leiðtogar heimsins verða minntir á að lausnir á loftslagsvandanum þoli enga bið. Um miðjan dag 15. október var vitað um samtals 2.496 uppákomur í 157 löndum af þessu tilefni.
Nokkrir heimsþekktir einstaklingar hafa gerst sérstakir sendiherrar 350. Í þeim hópi eru m.a. Desmond Tutu erkibiskup, baráttukonurnar Vandana Shiva og Sheila Watt-Cloutier, Mohamed Naseed forseti Maldíveyja, Bianca Jagger og þáttastjórnandinn David Suzuki.
Önnur grasrótarhreyfing sem er áberandi í loftslagsumræðunni um þessar mundir er Hopenhagen. Eins og sést rímar nafnið við Copenhagen, enda gengur hreyfingin út á að breyta Kaupmannahöfn í Vonmannahöfn, eða með öðrum orðum að stuðla að því að mannkynið eignist nýja von á fundinum í Kaupmannahöfn í desember. Vonin er í raun sú, að í Kaupmannahöfn takist að leggja grunn að betri framtíð með sjálfbærari lífsháttum. Aflið til að koma þessu í kring er heimssamfélag sem leiðir leiðtoga sína inn á braut réttra ákvarðana.
Á heimasíðu Hopenhagen er m.a. hægt að undirrita sérstakt bænaskjal. Þar með gerist maður íbúi í Vonmannahöfn og segir um leið öðrum frá því hvað það er sem fyllir mann von. Um miðjan dag 15. október höfðu 77.388 manns víða um heim gerst íbúar í Vonmannahöfn.
Undirskriftasöfnun Hopenhagen-hreyfingarinnar er hluti af stærra átaki undir forystu Sameinuðu þjóðanna, sem gengur undir nafninu „Seal the Deal“. Samtals höfðu 321.399 manns undirritað skjalið um miðjan dag 15. október, þar af 40 Íslendingar. Þeir sem undirrita skjalið á heimasíðu Hopenhagen (sjá framar) komast sjálfkrafa á þennan lista. Bænaskjalið með undirritunum verður afhent leiðtogum heimsins á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember.
Meiri upplýsingar um „Seal the Deal“ er að finna á www.sealthedeal2009.org. Og að sjálfsögðu hefur einnig verið stofnaður „Seal the Deal“-hópur á Facebook.
Avaaz
Auk þess sem hér hefur verið nefnt hafa Avaaz-samtökin beitt sér mjög í loftslagsmálum á síðustu vikum og mánuðum. Skemmst er að minnast alþjóðlegrar bylgju sem reis hátt 21. september sl., þegar gríðarlegur fjöldi fólks í meira en 130 löndum tók upp símann og hringdi til eigin þjóðarleiðtoga til að hvetja þá til dáða í loftslagsmálum. Átakið, sem nefnt var „Global Wake-up Call“, virðist hafa skilað miklum árangri. Í framhaldinu ákváðu m.a. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Luiz Inácio Lula da Silva, forseti Brasilíu, að mæta sjálfir á Kaupmannahafnarfundinn í desember. Hægt er að fræðast meira um þetta átak á https://secure.avaaz.org/en/sept21_hub. Nú undirbýr Avaaz í samvinnu við tcktcktck (sjá neðar) alþjóðlegan loftslagsdag 12. desember nk., en þar er ætlunin að láta raddir fólksins heyrast þannig að þær fari ekki fram hjá leiðtogunum sem þá sitja á fundi í Kaupmannahöfn.
Tcktcktck
Enn má nefna hreyfinguna tcktcktck, en þar er um að ræða gríðarstóra alþjóðlega fjöldahreyfingu einstaklinga og samtaka. Tcktcktck hefur í aðalatriðum sömu markmið og hreyfingarnar sem nefndar eru hér að framan. Þessar hreyfingar eiga ekki í innbyrðis samkeppni, heldur tengjast þær og styðja hver við aðra. Um miðjan dag 15. október höfðu rúmlega 2,2 milljónir einstaklinga og samtaka gerst aðilar að tcktcktck. Nánari upplýsingar um hreyfinguna er að finna á www.tcktcktck.org.
Lokaorð
Hér hefur aðeins fátt eitt verið nefnt. Ljóst er að nú er vaxin úr grasi alþjóðleg fjöldahreyfing, hvaða nafni sem hún nefnist, sem gerir ákveðið og einlægt tilkall til leiðtoga heimsins um að þeir nái samkomulagi um aðgerðir í loftslagsmálum, sem nægja til að þess að börnin okkar, barnabörnin og börnin þeirra geti lifað góðu lífi á jörðinni, rétt eins og við. Einstaklingarnir geta vissulega haft áhrif, og verkefnin sem nefnd hafa verið í þessum pistli bjóða einmitt upp á tækifæri til þess.
Í fyrirsögn þessa pistils var spurt hvort almenningi væri sama um loftslagsmál. Svarið er augljóslega NEI. Sameiginlegt átak nógu margra getur leitt til breytinga sem gerast miklu hraðar en nokkurn órar fyrir. Þetta er bara spurning um í hvaða liði maður vill vera.
Eftirmáli
Það vill svo skemmtilega til að í dag, 15. október 2009, er alþjóðlegur aðgerðadagur bloggara, sem er að þessu sinni helgaður loftslagsbloggum, (sjá nánar á www.blogactionday.org).
Það eru þrjár góðar spurningar sem gott er að hafa í huga þegar rætt er um loftslagsbreytingar og þá hnattrænu hlýnun jarðar sem vísindamenn telja að séu af mannavöldum:
Er jörðin að hlýna?
Veldur CO2 hlýnuninni?
Er aukning á CO2 af völdum manna?
Ef hægt er að svara þessum spurningum játandi með sannfærandi vísindalegum hætti, þá hlýtur hver sá sem er vísindalega þenkjandi að komast að sömu niðurstöðu og mikill meirihluti vísindamanna: þ.e. að jörðin sé að hlýna vegna aukningar CO2 í andrúmsloftið af mannavöldum. Í síðustu tveimur bloggfærslum þá var sýnt fram á að við getum ekki annað en svarað fyrstu tveimur spurningunum játandi þ.e. jörðin er að hlýna af völdum aukningar CO2 í andrúmsloftinu. Í þessari bloggfærslu lítum við á spurningu 3.
Er aukning á CO2 af völdum manna?
Fyrstu mælingar á magni CO2 í andrúmsloftinu voru gerðar af Charles Keeling árið 1958 á Hawaii. Sú mælistöð hefur lengstu samfellu í beinum mælingum á CO2 í andrúmsloftinu. Nú eru starfræktar mælistöðvar út um allan heim sem mæla CO2 í andrúmsloftinu, meðal annars er ein á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Til að áætla magn CO2 í andrúmsloftinu fyrir árið 1958 hafa menn efnagreint loftbólur í ískjörnum. Síðastliðin 10 þúsund ár hefur magn CO2 í andrúmsloftinu verið frekar stöðugt eða um 275-285 ppm, en undanfarin 250 ár hefur það aukist um sirka 100 ppm. Nú eykst magn CO2 í andrúmsloftinu um 15 gígatonn á hverju ári.
CO2 magn í andrúmsloftinu síðastliðin 10.000 ár. Bláa línan sýnir magn fengið úr ískjarnanum Taylor Dome, Suðurskautinu (NOAA). Græna línan sýnir magn fengið úr ískjarnanum Law Dome, Austur Suðurskautinu (CDIAC). Rauða línan sýnir beinar mælingar frá Mauna Loa, Hawaii (NOAA).
Hnattræn losun manna á CO2 er reiknuð út frá alþjóðlegum orkugögnum, þ.e. notkun á kolum, olíu o.sv.frv. frá öllum þjóðum heims á hverju ári. Þetta þýðir að hægt er að reikna hversu mikið við losum, ekki aðeins undanfarin ár heldur einnig aftur til ársins 1751 – en svo langt aftur ná gögnin. Nú er það svo að losun CO2 af mannavöldum er um 29 gígatonn á ári.
Áætluð heildarlosun manna á kolefni frá 1750 til 2006
Með öðrum orðum, menn eru að losa næstum tvisvar sinnum meira CO2 heldur en að verður eftir í andrúmsloftinu. Náttúran hefur hingað til náð að binda stóran hluta af CO2 og er þar sjórinn hvað mikilvirkastur í því, með tilheyrandi súrnun sjávar.
Það sem staðfestir síðan að aukning á CO2 í andrúmsloftinu er vegna losunar manna, er efnagreining á CO2 úr andrúmsloftinu. Kolefnisatómið er gert úr mismunandi samsætum (e. isotopes), sem þýðir að það hefur mismunandi fjölda nifteinda. Kolefni 12 hefur 6 nifteindir, kolefni 13 hefur 7 nifteindir. Plöntur hafa lægra hlutfall á milli C13/C12 en andrúmsloftið. Ef aukið CO2 í andrúmsloftinu kemur frá jarðefnaeldsneyti þá ætti hlutfall C13/C12 að vera að lækka. Það er akkúrat það sem menn hafa verið að sjá og fellur það ágætlega saman við losun manna á CO2:
Árleg losun CO2 (svört lína) og árlegt meðaltal hlutfalls 13C/12C mælt á Mauna Loa Hawai frá 1981-2002.
Niðurstaða
Það er því nokkuð ljóst að búið er að staðfesta að aukning CO2 í andrúmsloftinu er af völdum manna.
Það sem við vitum þá eftir spurningu 1-3 er að jörðin er að hlýna af völdum aukningar CO2 í andrúmsloftinu af völdum manna.
Hérundir eru 6 ný myndbönd sem eru hluti af því sem NASAexplorer rásin á YouTube kallar Jarðvísindavikuna (e. Earth Science Week) sem stendur nú yfir. Jarðvísindavikan setur jörðina og hafið í fókus og myndböndin eru m.a. hugsuð sem efni fyrir nemendur og kennara. Þessi sex þátta röð, framleidd af NASA, skoðar mikilvægi hafsins varðandi loftslagsbreytingar. Þarna eru viðtöl við vísindamenn NASA og allskonar útskýringarmyndir. Hvert myndband er í kringum 5-6 mínútur, þannig að þetta er rúmlega hálftími af fróðleik. Njótið þess góðir lesendur.
Það eru þrjár góðar spurningar sem gott er að hafa í huga þegar rætt er um loftslagsbreytingar og þá hnattrænu hlýnun jarðar sem vísindamenn telja að séu af mannavöldum:
Er jörðin að hlýna?
Veldur CO2 hlýnuninni?
Er aukning á CO2 af völdum manna?
Ef hægt er að svara þessum spurningum játandi með sannfærandi vísindalegum hætti, þá hlýtur hver sá sem er vísindalega þenkjandi að komast að sömu niðurstöðu og mikill meirihluti vísindamanna: þ.e. að jörðin sé að hlýna vegna aukningar CO2 í andrúmsloftið af mannavöldum. Í síðustu bloggfærslu þá var sýnt fram á að við getum ekki annað en svarað fyrstu spurningunni játandi þ.e. jörðin er að hlýna. Í þessari bloggfærslu lítum við á spurningu tvö.
Veldur CO2 hlýnuninni?
Til að byrja með, þá gengur kenningin um gróðurhúsaáhrifin í stuttu máli út frá því að inn í lofthjúpinn koma geislar frá sólu og hafa þeir stutta bylgjulengd. Jörðin geislar frá sér hita á lengri bylgjulengd, sem gróðurhúsalofttegundirnar gleypa í sig, hitna við það og geisla bæði út í geiminn og aftur til jarðar. Við aukið magn CO2 þá geislast meira af langbylgjugeislum til jarðarinnar – jörðin hlýnar.
Gróðurhúsaáhrif CO2 hafa verið þekkt í yfir öld og hafa menn mælt þau samviskusamlega og skráð á rannsóknastofum. Eðlis- og efnafræði þeirra er því vel þekkt og viðurkennd. Samkvæmt kenningunni ættum við að búast við því, að við aukið magn CO2 í lofthjúpnum þá ætti hann að gleypa meira af langbylgjumgeislun frá jörðinni, þegar þeir kastast aftur út í geim. Sem sagt ef minna sleppur út í geim, þá kemur ekkert annað til greina en aukin gróðurhúsaáhrif.
Mæld hefur verið breyting á útgeislun langbylgja frá jörðinni á milli áranna 1970 og 1997. Gervihnöttur frá NASA (IRIS) mældi úgeislun árið 1970 og japanska geimferðastofnunin sendi annan gervihnött árið 1996 sem mældi meðal annars það sama. Við samanburð á útgeislun milli þessara ára fékkst eftirfarandi mynd:
Breytingar í útgeislun á mismunandi bylgjulengdum milli árana 1970 og 1996, vegna gróðurhúsalofttegunda (Harries o.fl 2001 – tekið af Skeptical Science).
Það kom því í ljós að útgeislun á vissum bylgjulengdum minnkaði á þessu 26 ára tímabili, á þeim bylgjulengdum sem að gróðurhúsalofttegundir, líkt og CO2 og metan (CH4) draga í sig orku. Breytingarnar voru í samræmi við kenningar um gróðurhúsaáhrif CO2. Það er því greinilegt að það eru til beinar mælingar á því að gróðurhúsaáhrif jarðar hafa aukist undanfarna áratugi.
Þær niðurstöður hafa fengist staðfestar með samanburðarrannsóknum annarra vísindamanna á þeim gögnum og gögnum frá öðrum gervihnöttum.
En gróðurhúsalofttegundirnar hitna við að gleypa langbylgjugeislana frá jörðinni og geisla einnig langbylgjugeislum. Því ættum við einnig að búast við aukinni langbylgjugeislun niður til jarðar við aukningu gróðurhúsalofttegunda. Það hefur einnig verið staðfest, langbylgjugeislar niður til jarðar hafa aukist og ekki nóg með það, heldur er búið að staðfesta hvaða gróðurhúsalofttegundir hafa mestu áhrifin.
Niðurstaða
Það er því nokkuð ljóst að búið er að staðfesta gróðurhúsaáhrifin með beinum mælingum. Það sem við vitum þá eftir spurningu 1 og 2 er að jörðin er að hlýna af völdum aukningar CO2 í andrúmsloftinu.
Hérundir er fróðlegt myndband frá NASAexplorer, þar sem rætt er um hækkandi hitastig, bráðnandi jökla og hækkandi sjávarstöðu. Tekið er viðtal við sérfræðinga frá NASA um þessi mál, þau ræða m.a. hversu erfitt er að reikna út hversu mikið sjávarborð hækki í framtíðinni, enda margir óvissuþættir sem reikna þarf með. Þetta myndband er hluti af myndbandaröð sem kölluð er Earth Science Week (Jarðvísinda vika) hjá NASAexplorer.