Loftslag.is

Blog – Loftslag.is er í vinnslu – verið er að uppfæra vef

  • Blogg: Er jörðin að hlýna?

    Það eru þrjár góðar spurningar sem gott er að hafa í huga þegar rætt er um loftslagsbreytingar og þá hnattrænu hlýnun jarðar sem vísindamenn telja að séu af mannavöldum:

    • Er jörðin að hlýna?
    • Veldur CO2 hlýnuninni?
    • Er aukning á CO2 af völdum manna?

    Ef hægt er að svara þessum spurningum játandi með sannfærandi vísindalegum hætti, þá hlýtur hver sá sem er vísindalega þenkjandi að komast að sömu niðurstöðu og mikill meirihluti vísindamanna: þ.e. að jörðin sé að hlýna vegna aukningar CO2 í andrúmsloftið af mannavöldum. Í þessari bloggfærslu lítum við á fyrstu spurninguna.

    Er jörðin að hlýna?

    Það virðist augljóst ef skoðað er línurit með hitastigi frá því fyrir aldamótin 1900 að jörðin er að hlýna:

    Hitastig jarðar frá því mælingar hófust (Gögn frá GISS).
    Hitastig jarðar frá því mælingar hófust (gögn frá GISS).

    Undanfarin tvö til þrjú ár hafa heyrst raddir um það að jörðin sé ekki að hlýna, heldur sé hún að kólna (þær raddir hafa nú þagnað að mestu en heyrast þó einstöku sinnum). Þar er á ferðinni óvenjuleg tölfræði sem snýst um það að velja heitasta árið sem kostur er á sem viðmiðun. Oftast er þá notað árið 1998 sem var heitasta árið samkvæmt flestum gögnum og einkenndist af óvenju sterkum El Nino sem magnaði upp hnattrænt hitastig það ár. Síðan er dregin bein línu frá þeim toppi og að stöðunni eins og hún var í fyrra, en þá var hitastig lægra en næstu ár þar á undan, vegna La Nina veðurfyrirbærisins í Kyrrahafinu.

    Er ad hlyna 1
    Nokkur hitastigslínurit síðustu 30 ára, ásamt leitnilínum. Auk þess var dregin ein bein lína frá toppnum 1998 og sirka til dagsins í dag (ath: það er ekki leitnilína – trend line).

    Það er ýmislegt sem gerir þessa aðferðafræði vitlausa við að meta hvort jörðin er að hlýna hnattrænt. Í fyrsta lagi er beinlínis rangt tölfræðilega séð að draga einfaldlega beina línu frá tveimur punktum línurits til að meta leitni gagnanna á því tímabili en rétt reiknuð leitnilína (e. trend line) sýnir alls ekki leitni eins og teiknuð er hér fyrir ofan. Fyrir ofangreind gögn þá er rétt reiknuð leitnilína nánast flöt ef tekin er tímabilið frá árinu 1998 til dagsins í dag, sem eins og næsti punktur bendir til er vitlaus aðferðafræði.

    Í öðru lagi, þá er þetta of stuttur tími til að meta breytingar í loftslagi. Náttúrulegar sveiflur einkenna endapunktana og þær sveiflur eru meiri en sem nemur hlýnun af mannavöldum (sem er tæplega 0,2°C á áratug). Náttúrulegar sveiflur eiga því auðvelt með að yfirgnæfa undirliggjandi hlýnun á svona stuttum tíma. En hlýnunin heldur áfram og fyrr en varir verður vart við uppsveiflu aftur eins og við erum að sjá núna – með vaxandi El Nino. Með því að leiðrétta fyrir náttúrulegum sveiflum í ENSO (El Nino/La Nina), þá fer ekki milli mála að enn er hlýnun í gangi:

    Hér eru sýndir hitastigsferlar frá tveimur mismunandi rannsóknum og þykku línurnar sýna leiðréttingu fyrir suðurhafssveiflunni (frá realclimate.org).
    Hér eru sýndir hitastigsferlar frá Hadley Center og GISS (brotalínur). Þykku línurnar sýna leiðréttingu fyrir ENSO (frá realclimate.org).

     Það er reyndar spurning hvort nokkur pása sé í hlýnuninni, þótt ekki sé leiðrétt fyrir ENSO. Ef skoðað er hnattrænt hitastig frá GISS stofnuninni (Goddard Institute for Space Studies) þá er ekki hægt að sjá að nokkur pása hafi orðið. Kosturinn við GISS gögnin eru að þau mæla hitastig yfir allan hnöttinn og þar með Norðurskautið, sem undanfarin nokkur ár hefur verið óvenju heitt – fyrir vikið færist metárið yfir á 2005:

    Hnattrænt hitastig samkvæmt GISS gögnum frá árinu 1980. Rauða línan sýnir árleg gögn, stóri rauði kassinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009 úr frá hitastigi frá janúar-ágúst. Græna línan sýnir 25 ára leitnilínu (0,19°C á áratug). Bláa línurnar sýna síðustu tvær tíu-ára leitnilínur (0,18°C á áratug fyrir 1998-2007, 0,19°C fyrir 1999-2008).
    Hnattrænt hitastig samkvæmt GISS gögnum frá árinu 1980. Rauða línan sýnir árleg gögn, stóri rauði kassinn sýnir bráðabirgðagögn fyrir árið 2009 út frá hitastigi frá janúar-ágúst. Græna línan sýnir 25 ára leitnilínu (0,19°C á áratug). Bláa línurnar sýna síðustu tvær tíu-ára leitnilínur (0,18°C á áratug fyrir 1998-2007, 0,19°C fyrir 1999-2008).

     Með því að greina tíu ára leitnilínur fyrir öll árin (þ.e. 1990-1999, 1991-2000 o.sv.frv), þá hafa þær allar verið á milli 0,17 og 0,34°C hlýnun á áratug – sem er svipað og búist er við að sé vegna hlýnunar af mannavöldum.

    Það er því nánast sama hvernig litið er á þessi gögn ef notaðar eru viðurkenndar aðferðir, að augljóst er að það er að hlýna. En ekki nóg með það – mikill hluti hitans verðum við ekki var við í þessum hitamælingum sem eru gerðar við yfirborð jarðar.

    Hafið er að gleypa orku

    Hnattræn hlýnun er – hnattræn. Öll jörðin er að gleypa í sig hita vegna orkuójafnvægis. Lofthjúpurinn er að hitna og hafið er að gleypa orku, sem og landið undir fótum okkar. Einnig er ís að taka til sín hita til bráðnunar. ‘Til að skilja heildarmyndina hvað varðar hnattræna hlýnun, þá verðum við að skoða þá varmaorku sem jörðin í heild er að taka til sín.

    Skoðað hefur verið orkujafnvægi jarðarinnar frá 1950-2003, þar sem lögð eru saman hitainnihald hafsins, lofthjúpsins, lands og íss. Hafið sem er langstærsti hitageymirinn var mældur í efstu 700 metrunum, að auki var tekið með gögn niður á 3000 metra dýpi. Hitainnihald lofthjúpsins var reiknaður út frá yfirborðsmælingum og hitainnihaldi veðrahvolfsins. Hitainnihald lands og íss (þ.e. orkan sem þarf að bræða ís) var einnig tekið með:

    Hitainnihald jarðar frá 1950-2003 (mynd frá Skeptical Science).
    Hitainnihald jarðar frá 1950-2003 (mynd frá Skeptical Science).

    Það er nokkuð greinilegt á þessari mynd að hlýnun jarðar hefur verið töluverð frá 1950 til allavega 2003 – samt má sjá nokkuð af náttúrulegum sveiflum. Þessi gögn ná þó ekki lengra en til ársins 2003, en eins og sést á myndinni þá er hafið langstærsti hitageymirinn og því rétt að skoða hvað er búið að vera að gerast í hafinu síðan 2003.

    Frá 2003 hafa farið fram hitamælingar með Argos-baujunum, sem er kerfi bauja sem að mæla hitastig sjávar (ásamt seltu og fleira), niður á 2000 metra dýpi. Upphaflega héldu menn að þessar baujur væru að sýna kólnun. Það rekja menn nú til skekkju vegna þrýstings, en þessar baujur sökkva niður á ákveðið dýpi með vissu millibili og fljóta til yfirborðs og mæla gögn í leiðinni – senda þau síðan til gervihnatta sem skrásetja gögnin. Fyrir þessari skekkju er nú leiðrétt og því sýnir úrvinnsla gagnanna greinilega hlýnun.

    Hvernig vitum við að sú úrvinnsla, sem sýnir hlýnun, er réttari? Gervihnettir sem mæla þyngdarafl, styðja þetta auk þess sem sjávarstaða hefur hækkað töluvert frá árinu 2003 en stór hluti sjávarstöðuhækkana er vegna varmaþennslu sjávar. Einnig sýna mælingar á inngeislum (til jarðar) og útgeislun (frá jörðinni) ójafnvægi sem ekki verður túlkað öðruvísi en sem hlýnun.  

    Eitt af þeim teymum vísindamanna, sem mælt hefur hitainnihald sjávar frá 2003-2008 út frá gögnum Argo-baujanna hafa kortlagt hitadreifingu niður á 2000 metra síðustu ár. Þeir hafa gert eftirfarandi línurit sem sýnir hnattrænan hita sjávar:

    Línurit sem sýnir þann hita
    Línurit sem sýnir hnattræna hitageymslu sjávar frá árinu 2003-2008.

    Samkvæmt þessari mynd þá hefur hafið haldið áfram að safna í sig hita fram til loka ársins 2008. Ef þetta er síðan sett í samhengi við gögnin í næstu mynd þar fyrir ofan þá hefur hlýnunin verið stöðug frá árinu 1970 og fram til síðustu áramót allavega.

    Niðurstaða

    Aðalpunkturinn sem hafa þarf í huga þegar menn tala um skammtímakólnun í yfirborðshita jarðar, er að þar ráða náttúrulegir ferlar sem geta náð að yfirgnæfa hlýnun jarðar af mannavöldum, yfir svo stuttan tíma. Aðal hlýnunin er samt að mestu falin í hafinu  – en þar hefur hlýnunin haldið áfram óhindruð í næstum 40 ár.

    Beinar mælingar sýna því að jörðin er enn að taka til sín hita í auknu magni, hún sankar að sér meiri orku en hún geislar aftur út í geiminn.

    Hlýnun jarðar heldur því áfram – því miður.

    Næst verður fjallað um spurningu 2: Veldur CO2 hlýnuninni?

    Heimildarlisti og ítarefni

    Þessi færsla er að miklu leiti unnin upp úr nýlegum færslum frá RealClimate (A warming pause?) og Skeptical Science (How we know global warming is still happening og How we know global warming is happening, Part 2). Þessar síður fara nánar í saumana á þessu og þar er einnig að finna tengla í frekari upplýsingar. Einnig styðst ég töluvert við áður skrifað efni hér á loftslag.is.

  • Blogg: COP15 – Kaupmannahöfn í stuttu máli

    Kaupmannahöfn; Lykilatriði loftslagsráðstefnunnar

    Hér verður farið í stuttu máli yfir helstu atriði loftslagsráðstefnunnar í Kaupmannahöfn ásamt ýmsum vangaveltum henni tengdar.

    Hvenær fer loftslagsráðstefnan COP15 fram?

    7. – 18. desember 2009.

    Hver er nákvæm staðsetning?

    Ráðstefnusalur Bella Center, Eyrarstað, Kaupmannahöfn, Danmörk.

    Metro Kaupmannahöfn - Bella Center er merkt á kortið

    Hversu margir sækja ráðstefnuna heim?

    Það hafa verið nokkur þúsund á fyrri COP/CMP atburðum. Gert er ráð fyrir að núna muni þátttakendur verða að minnsta kosti 10.000. Inn í þessari tölu eru þátttakendur; frá stjórnvöldum þeirra þjóða sem taka þátt ásamt ýmsum öðrum aðilum og samtökum.

    Frá hversu mörgum löndum?

    Búist er við því að embættisfólk og ráðherrar frá 192 löndum verði þátttakendur í ár.

    Hversu margir verða frá fjölmiðlunum?

    Á fyrri COP ráðstefnum hafa verið aðilar frá næstum 1.500 fjölmiðlum. Það verða haldnir fjöldinn allur af blaðamannafundum á meðan á COP15 stendur. UNFCCC mun halda utan um allt sem viðkemur fjölmiðlum og dagsskrá verður ávalt tiltæk á meðan á ráðstefnunni stendur.

    Hvað er á dagsskránni?

    Samkomulag þjóðanna um loftslagsmál, á tímabilinu frá 2012 og áfram; sérstaklega á að reyna að ná samkomulagi sem sameinar virðingu fyrir umhverfinu (minnkuð losun gróðurhúsalofttegunda, af völdum manna, sem hafa neikvæð áhrif á loftslagið), lífsgæði og langtíma öryggi í orkumálum á bestan mögulegan hátt. Raunhæfar tillögur um hvernig best sé að standa að því verða lagðar fram af alþjóða samfélaginu.

    thoughts_327

    Hvaða mögulegu niðurstöður eru af ráðstefnunni?

    Eftirfarandi sex niðurstöður eru taldar líklegar, samkvæmt vangaveltum Björn Stigson (frá World Business Council for Sustainable Development).

    1. “Raunverulegur samningur”: Bandaríkjamenn og Kínverjar munu veita drifkraftinn fyrir nýtt, metnaðargjarnt og alhliða samkomulag.
    2. Viðskipti eins og venjulega: Allmörg lönd munu vilja fylgja núverandi stefnu sinni.
    3. Takmarkaður samningur: Þar sem t.d. G8 löndin taka eigin stefnu fyrir utan ramma UNFCCC.
    4. Framlenging af núverandi samning, þ.e. Kyoto samkomulaginu.
    5. Ráðstefnan í Kaupmannahöfn “framlengist” fram á árið 2010.
    6. “Sýndarmennska”: Miklar yfirlýsingar um vilja, en engin raunverulegur samningur.

    Hver eru lykil umræðuefnin?

    • Hvaða viðmiðunarár á að miða við sem útgangspunkt fyrir losunartakmörk, hversu lengi á næsta tímabil að vera, þ.e. frá 2012 til hvaða árs?
    • Hvaða tillögur á að koma með fyrir losunartakmörkin sjálf, bæði fyrir næsta tímabil og þar á eftir.
    • Hvort að samkomulagið eigi einnig að ná til losunar gróðurhúsalofttegunda frá geirum sem ekki voru hluti af Kyoto samkomulaginu, t.d. flugiðnaðurinn og skipaflotinn.
    • Hvort reglur CDM (Clean Development Mechanism) verði hertar til að tryggja heilsteypta umhverfisstefnu til að forðast losun gróðurhúsalofttegunda eða hvort farin verði vægari leið.
    • Hvort að CDM vilji að tækni er varðar CCS (Carbon Capture and Storage), verði með í samningunum um aðferðir sem sótt geti um styrki. Þetta er talið myndu geta gert starfsumhverfi t.d. kolaorkuvera betra og áframhaldandi, þar sem jafnvel yrðu byggð ný.
    • Samkomulag um að samningar innihaldi hömlur á áframhaldandi eyðingu skóga á sama hraða og nú er. Sérstaklega er þar talað um hitabeltisskóga í þróunarlöndunum, einnig kallað e. Reducing Emissions from Deforestation and Degradation (REDD).
    • Umræða um þann ramma sem á að hjálpa löndum til að aðlagast óhjákvæmilegum loftslagsbreytingum. Allar þjóðir ættu að þurfa að hafa yfirgripsmikla áætlun um hvernig bregðast skuli við. Fjárhagsleg og tæknileg aðstoð ætti að standa þeim þróunarlöndum sem eru viðkvæmust fyrir breytingunum.
    • Efling rannsókna, þróunar og tilrauna með lág-kolefnistækni og tækni sem hjálpar til við aðlögunina.

    Heimildir: sourcewatch.org og europa.eu

    overcoming_obstacle

    Hverjar verða líklegustu hindranirnar í umræðunni?

    Sérstaklega hafa Bandaríkjamenn, hingað til neitað að vera með í losunar markmiðum, nema allar helstu þróunnarþjóðir, eins og t.d. Kína, séu með í samningnum. Þróunarlöndin, mest með framsetningu G-77 hópsins, hafa látið í ljós vilja til að minnka losun, en aðeins ef þróuðu löndin taka forystuna í þeim efnum.

    Þróunarlönd eru treg til að samþykkja harðar kröfur um minnkandi losun koldíoxíðs, þar sem þau eru einnig að reyna að ná efnahagslegum vexti. Ríkari þjóðir vilja ekki samþykkja harðar kröfur eða að vera ábyrg fyrir að leggja út fyrir mótvægisaðgerðunum, nema þróunarlöndin samþykki einnig sömu kröfur.

    Það má því segja að allir bíði eftir því að aðrir taki af skarið um það hversu langt er hægt að ganga í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum. Ekkert land vill standa út úr í þessum efnum.

    Hvaða lykilatriði munu sumar þjóðir væntanleg koma fram með, sem tillögur eða andmæli?

    Bandaríkin hafa hingað til neitað að vera með í losunar markmiðum, nema allar helstu þróunnarþjóðir, eins og t.d. Kína, séu með í samningnum.

    Suður Afríka mun ekki álíta þessa umferð umræðna um loftslagsbreytingar vera árangursríka, nema ríkari þjóðir setji fjármuni til að hjálpa þeim að tækla hnattræna hlýnun. Suður Afríka er því að kalla eftir fjárhagslegri og tæknilegri aðstoð.

    Mexíkó hefur sett tillögur á borðið um hvernig eigi að standa að fjárhagslegum stuðningi til fátækari landa í baráttunni við loftslagsbreytingar.

    Bretland leggur til að allar G-20 þjóðirnar finni leiðir til að fjármagna þeirra eigin viðleitni til að koma stjórn á loftslagsbreytingar. Þessari afstöðu eru þjóðir eins og Indland, Kína, Suður Afríka og Brasilía á móti. Bretar leggja einnig til að öll plön hjá þjóðum, eins og t.d. fimm ára plön Indlands, ættu að taka fyrir á alþjóðlegum grundvelli. Aftur, þá eru Indverjar á móti þeirri hugmynd.

    Noregur leggur til að nota eigi sjóð frá iðnvæddu löndunum til að búa til tekjur fyrir alþjóðlega samvinnu.

    Meðlimir Samtaka lítilla Eyríkja (e. Alliance for Small Island Developing States (AOSIS)) hafa lagt til aukna áhættu greiningu og að minnka áhættu með áætlunum, eins og áhættu skiptingar og flutnings áhættu, samanber t.d. tryggingar.

    Hvaða losunartakmörk á gróðurhúsalofttegundum verða talin góður árangur?

    NGO samtök í mörgum iðnvæddum löndum eru að kalla eftir í það minnsta 40% minnkun losunar fyrir 2020, sem er á sömu nótum og vísindaleg rök hníga að, til að halda hnattrænni hækkun hitastigs undir 2°C.

    Ítarefni:

  • Frétt: Fréttaaukinn í Sjónvarpinu sunnudaginn 11. október

    Í Fréttaaukanum í Sjónvarpinu sunnudaginn 11. október verður m.a. rætt við Tómas Jóhannesson jarðeðlisfræðing um bráðnun Grænlandsjökuls. Talið er að Grænlandsjökull sé að bráðna hraðar en áður var talið og yfirborð sjávar hækki fyrir vikið, ástæður og áhrif eru hins vega óljós segir í kynningu þáttarins. Umsjónarmenn þáttarins eru þau Elín Hirst og Bogi Ágústsson. Hérundir má sjá stutta kynningu þáttarins. Einnig er við hæfi að benda á frétt af Loftslag.is um þynningu jökla á Grænlandi og Suðurskautinu.

  • Myndband: Hvernig verða mýtur til?

    Í eftirfarandi myndbandi sjáum við mýtu verða til. Sérfræðingur segir frá athugunum sínum og aðrir aðilar ákveða að túlka orð hans á annan hátt og mýtan er þar með fædd. Þetta myndband er af YouTube og er úr fórum Greenman3610, en myndbönd hans eru með hans persónulega stíl og verða að teljast nokkuð kaldhæðin á köflum. En það felast alloft, nokkuð góðir punktar í hans sýn á þessi mál.

  • Fréttir liðinnar viku

    Hér er stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Einnig er yfirlit yfir fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar, en gerðum ekki sérstakar færslur um. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint.

    Yfirlit – fréttir og pistlar vikunnar:

    Ýmsar fréttir og blogg hafa birst í vikunni. Fyrst má nefna 2 nýjar fastar síður, undir mýtunum. Þetta eru mýturnar “Aukning CO2 í andrúmsloftinu er góð” og “Aðrar reikistjörnur í sólkerfinu eru að hlýna“. Samhliða seinna efninu var einnig gerð bloggfærsla, þar er hægt að gera athugasemdir og setja umræðu í gang um efnið. Helstu fréttir vikunnar eru m.a. um nýja skýrslu frá umhverfisráðuneytinu, um nýtt verkefni NASA þar sem gerðar eru mælingar á ísnum á Suður- og Norðurskautinu, frétt um sumarbráðnun hafíssins á Norðurpólnum og ekki má gleyma frétt um viðtalið sem við félagarnir fórum í, á Útvarp Sögu, í Vísindaþættinum. Í stað gestapistils vikunnar, sem ekki gat orðið af, þá gerðum við bloggfærslu um það sem við megum eiga í vændum komandi vikur. Ýmis myndbönd og einnig léttmeti komu á vefinn í vikunni, helst ber að nefna 2 fróðleg myndbönd, í fyrsta lagi ber að nefna fræðslumyndband NASA um hafísinn og svo myndband um loftslagssamsærið – hvað er nú það? Síðast en ekki síst má nefna léttmeti vikunnar, dæmi er myndband með Bill Maher, þar sem hann veltir fyrir sér spurningum um efasemdarfólk og svo færsluna um torfþök á öll hús – ætli það geri nú eitthvert gagn?

    Stuttar fréttir

    s-BATHROOM-largeÞað er margt gert til að draga úr losun koldíoxíðs. Japanska flugfélagið All Nippon Airways hefur t.d. hafið tilraun sem gengur út á að flugfarþegum er boðið að pissa áður en gengið er um borð í flugvélar félagsins. Þetta er enn á tilraunastigi hjá flugfélaginu, en gert er ráð fyrir að hægt sé að draga úr heildarþyngd flugvélanna með þessari ráðstöfun. Þetta gengur þannig fyrir sig að sérstakir “klósett verðir” eru til staðar sem minna fólk á að létta á sér áður en gengið er um borð. Flugiðnaðurinn hefur nýlega samþykkt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem svarar 50% frá 2005 losuninni fyrir árið 2050. Bæði á að nota ýmiskonar stefnubreytingar (eins og þessi tilraun er hluti af) og með notkun skilvirkari tækni. Sjá nánar hér.

    storm-mNý rannsókn bendir til þess að frá árinu 1850 þá megi rekja um helming sjávarstöðubreytinga til mannlegra athafna. Einnig fundu vísindamennirnir að einungis fjórir sentimetrar af þeim 18 sentimertum af hækkandi sjávarstöðu væri af náttúrulegum ástæðum. Fyrir 1800 þá er hægt að útskýra allar sjávarstöðubreytingar með náttúrulegum breytingum – t.d. vegna breytinga í hita sem nær til jarðar frá sólinni (sveiflur í virkni sólar eða vegna eldgosa). Sjá nánar hér.

    locusts

    Greining á kínverskum annálum sem spanna yfir tvö þúsund ár, sýna að engisprettufaraldar eru líklegri í heitu og þurru veðri, sérstaklega í norðurhluta Kína.  Vistfræðingar hafa deilt um það hvað hefur áhrif mest áhrif á stofnstærð dýrategunda á löngum tíma – sumir halda því fram að loftslag hafi mest áhrif á meðan aðrir halda því fram að t.d. samkeppni og afrán séu meira ráðandi. Sjá nánar hér.

    Endeavour-460_785396c

    Veðurfarsskýrslur James Cook, sem hann skráði skipulega á hádegi dag hvern á ferð sinni um hið óþekkta, eru taldar geta hjálpað vísindamönnum að spá fyrir um loftslagsbreytingar. Skrár Cooks og fleiri landkönnuða er nú verið að endurrita og setja á stafrænt form og er talið geta hjálpað loftslagsfræðingum að greina breytingar í veðrakerfum. Gögnin sem geymd eru í Kew, innihalda einstök og nákvæm gögn með hitastigi, hafís, loftsþrýstingi og vindstyrk og átt, víða að úr heiminum. Sjá nánar hér.

  • Blogg: Gestapistlar komandi vikna

    IMG_4140-1Þrátt fyrir góðar tilraunir til að fá gestapistil þessa vikuna, þá hefur það ekki gengið sem skyldi, því þótt allflest af þeim sem við höfðum samband við, hafi tekið vel í þetta, höfðu þau ekki tíma til þess í þetta sinn.

    Þetta þýðir einfaldlega að við fáum ekki gestapistil í þessari viku, en við getum látið okkur hlakka til ýmissa pistla á komandi vikum. Við látum þeim sem skrifa gestapistla alfarið um efnistök, en við viljum þó koma inn á þau efni sem við teljum líklegt að tekin verði fyrir á næstu vikum. Við teljum líklegt að inn komi pistlar sem tengjast m.a. umhverfisþönkum, farfuglum, orkunotkun, kolefnisbindingu og sólkerfinu svo eitthvað sé nefnt til sögunnar. Það eru bæði sérfræðingar og áhugamenn sem koma til með að rita pistlana, svo gaman verður að fylgjast með á komandi vikum.

    Við viljum líka nota tækifærið og þakka þann áhuga sem þeir aðilar sem við höfum haft samband við hafa sýnt þessu verkefni okkar. Í þessum rituðu orðum erum við einnig að senda út tölvupósta á aðila sem okkur þykja hafa eitthvað fram að færa í þessari umræðu. Okkur þætti einnig vænt um að fá ábendingar um aðila sem lesendur telja að séu líklegir til að hafa skemmtilegt og fróðlegt innlegg í loftslagsumræðuna. Ef þið munið eftir einhverjum, þá er hægt að senda okkur tölvupóst eða einfaldlega gera athugasemd hér fyrir neðan.

  • Myndband: Loftslagssamsærið !

    Í þessu myndbandi er viðtal við James Hoggan, höfund bókarinnar Climate Cover-Up – The Crusade to Deny Global Warming. Þarna ræðir hann um það hvernig, samkvæmt hans athugunum, reynt er að leggja þránd í götu vísindanna af ýmsum “hugmyndabönkum” (e. think tanks). Hér er smá umfjöllun um bókina hans.

  • Frétt: Sumarbráðnun hafíss á Norðurskautinu

    Meiri ís varð eftir við lok sumarbráðnunar en síðustu tvö ár á undan, þrátt fyrir það hefur hafísinn ekki jafnað sig – en þetta ár var lágmarksútbreiðsla sú þriðja minnsta frá því mælingar hófust árið 1979. Síðustu fimm ár eru þau ár sem hafa minnstu útbreiðslu.

    Meðalútbreiðsla fyrir septembermánuð var 5,36 miljón ferkílómetrar, sem er 1,06 milljón ferkílómetrum meira en metárið 2007 og 690.000 ferkílómetrum meira en árið 2008. Samt sem áður var útbreiðslan 1,68 milljón ferkílómetrum minni en meðaltal áranna 1979-2000 í september:

    Sumarútbreiðslan, plottuð upp í samhendi við önnur ár. Heila ljósbláa línan er 2009; brotna græna línan sýnir 2007; dökkbláa línan 2008 og ljósgræna línan 2005; heila gráa línan sýnir meðaltalsútbreiðslu frá 1979-2000 og gráa svæðið tvö meðalfrávik frá meðaltalinu (mynd National Snow and Ice Data Center - NSIDC).
    Sumarútbreiðslan, plottuð upp í samhengi við önnur ár. Heila ljósbláa línan er 2009; brotna græna línan sýnir 2007; dökkbláa línan 2008 og ljósgræna línan 2005; heila gráa línan sýnir meðaltalsútbreiðslu frá 1979-2000 og gráa svæðið tvö meðalfrávik frá meðaltalinu (mynd National Snow and Ice Data Center – NSIDC).
    Hafís Norðurskautsins er nú að minnka um 11,2 % á áratug, miðað við meðaltal 1979-2000:
    Hafísútbreiðsla í september frá 1979-2009 sýnir stöðuga hnignun (mynd National Snow and Ice Data Center - NSIDC).
    Hafísútbreiðsla í september frá 1979-2009 sýnir stöðuga hnignun (mynd National Snow and Ice Data Center – NSIDC).

    Sjávarhitastig Norðurskautsins þetta tímabil hefur áfram verið hærra en meðaltal, en samt verið lítilsháttar kaldara en síðustu tvö ár. Ástæða þessa  má rekja til þess að skýjahula síðsumars hægði á bráðnun miðað við árin tvö þar á undan. Að auki dreifðist ísinn meira vegna vinda og jókst útbreiðslan við það.

    Hafísinn var áfram þunnur og verður hann því áfram viðkvæmur fyrir bráðnun næsta sumars – en þó var 32% af 2ja ára hafís sem er mun meira en í fyrra, sem var algjört met – en þá var 2ja ára hafís eingöngu 9%:

    Þessar myndir sýna aldur hafíss, sem er góður mælikvarði fyrir hafísþykkt, fyrir árin 2007, 2008, 2009 og meðaltal áranna 1981-2000. Þetta ár var auknin í tveggja ára ís (blár) miðað við 2008. Í lok sumars 2009 var 32% þekjunnar tveggja ára ís. Þriggja ára og eldri ís var 19%, það lægsta síðan mælingar hófust (mynd National Snow and Ice Data Center - NSIDC)
    Þessar myndir sýna aldur hafíss, sem er góður mælikvarði fyrir hafísþykkt, fyrir árin 2007, 2008, 2009 og meðaltal áranna 1981-2000. Þetta ár var auknin í tveggja ára ís (blár) miðað við 2008. Í lok sumars 2009 var 32% þekjunnar tveggja ára ís. Þriggja ára og eldri ís var 19%, það lægsta síðan mælingar hófust (mynd National Snow and Ice Data Center – NSIDC)

    Walt Meier hjá NSIDC segir (lauslega þýtt): “Töluvert af fyrsta árs og annars árs ís hefur varðveist í sumar miðað við síðustu tvö ár. Ef þessi ís verður kjur á Norðurskautinu yfir veturinn, þá mun hann þykkna, sem gefur okkur von um að hafísþekjan verði stöðugri næstu ár. Hinsvegar er ísinn enn mun yngri og þynnri en hann var á níunda áratugnum og því mjög viðkvæmur fyrir sumarbráðnun.”

    Hafís Norðurskautsins sveiflast á ársgrundvelli, bráðnar á sumrin og frýs á veturna. Hafís endurkastar sólarljósi og heldur Norðurskautinu köldu og dempar þar með hnattrænt loftslag. Hafísútbreiðsla Norðurskautsins er breytileg vegna breytinga í skilyrðum lofthjúpsins, en undanfarin 30 ár hefur hnignunin verið töluverð, eða um 11,2% á áratug í september (miðað við meðaltal 1979-2000) og um 3% hningun á áratug yfir vetrarmánuðina.

    Ítarefni

    Nánar er farið í greininguna á heimasíðu NSIDC:  Arctic sea ice extent remains low; 2009 sees third-lowest mark.

    Einnig má lesa ýtarlega greiningu í tímaritinu Geophysical  Research Letters: Decline in Arctic sea ice thickness from submarine and ICESat records: 1958–2008

    Mjög góð greining frá því skömmu eftir hafíslágmarkið sem Emil Hannes Valgeirsson gerði má sjá hér: Gestapistill: Er hafísinn á hverfanda hveli?

    Gott myndband frá NASA um hafís Norðurskautsins má sjá hér á loftslag.is: Myndband: Hafís 101

  • Frétt: Viðtal í Vísindaþættinum á Útvarp Sögu

    utvarp_sagaRitstjórar Loftslag.is fóru í viðtal í Vísindaþáttinn á Útvarp Sögu þriðjudaginn, 6. október. Fyrstu ca. 15 mínúturnar af þættinum eru viðtal við umsjónarmenn visindin.is, þar eftir byrjar viðtalið við okkur. Björn Berg Gunnarsson og Sævar Helgi Bragason frá Stjörnufræðivefnum eru umsjónarmenn Vísindaþáttarins og tóku viðtalið.

  • Myndband: Hafís 101

    Hér er stutt myndband frá NASAexplorer, sem er YouTube rás sem NASA stendur á bakvið. Það má líta á þetta sem stutta kennslustund í því hvað hafís er.