Eins og oft er bent á, þá er sitthvað veður og loftslag. Það geta alltaf komið öfgar í veðrum og hafa alltaf gert. Undanfarin nokkur ár hafa raddir gerst háværari um að öfgar í veðri séu bein afleiðing af hlýnun jarðar – en sjaldnast hefur verið hægt að færa sönnur fyrir því.
Nú hefur bandaríski veðurfræðingurinn og fyrrum efasemdarmaður um hlýnun jarðar af mannavöldum bent á tengsl á milli öfga í veðri og hlýnun loftslags. Tengslin eru þessi í stuttu máli að hans mati (ég vona að veðurfræðingar fari ekki á límingunum á þessari einföldun minni):
Hæð á 500 hektapaskala loftþrýstingi hefur aukist víða á norðurhveli jarðar vegna hlýnunar jarðar, en 1000 hektapaskala loftþrýstingurinn hefur haldist í svipaðri hæð. Þetta hefur breytt hæðar- og lægðakerfum sem valdið hafa óvenjulegri úrkomu og hitafrávikum – sem tengjast þessum 500 hektapaskala loftþrýstingsbólum.
Ein slík bóla sást yfir Evrópu og Asíu um svipað leiti og rigningin mikla varð í Tyrklandi í byrjun september. Svipuð bóla var yfir Bandaríkjunum fram yfir miðjan september í tvær vikur sirka og allan þann tíma var óvenjulegt veður í suðurríkjunum – sem endaði síðan í flóðunum í Atlanta í Georgíufylki – sem er óvenjulegt þegar það er ótengt fellibyljum eða hitabeltisstormum. Hann nefnir önnur dæmi um óvenjulegt veðurfar tengt þessum loftþrýstingsbólum. Hann endar færsluna síðan á þessum orðum:
Nevertheless, there’s a straightforward connection in the way the changing climate “set the table” for what happened this September in Atlanta and elsewhere. It behooves us to understand not only theoretical expected increases in heavy precipitation (via relatively slow/linear changes in temperatures, evaporation, and atmospheric moisture) but also how changing circulation patterns are already squeezing out that moisture in extreme doses and affecting weather in other ways.
Það verða eflaust deilur um þetta á næstunni og verður fróðlegt að fylgjast með því.
Sjá bloggfærslu hans, en þar eru fullt af skýringarmyndum og farið tæknilega yfir þetta fyrir áhugamenn um veðurfar: Off the chain without a ‘cane
Hér fyrir neðan er myndband með Bill Maher, sem er grínari og þáttastjórnandi af góðu gerðinni. Umfjöllunarefni hans í þessu broti er að hluta til um umræðuna um loftslagsmál vestan hafs.
Um miðjan október mun verkefni á vegum NASA verða framhaldið. Þá mun DC8 flugvél NASA verða útbúin með nýjustu leysir- og radartækni og send í könnunarleiðangra yfir Suðurskautið til gagnaöflunnar. NASA hefur ráðlagt 17 flugferðir frá Punta Arenas í Chile. Þessar flugferðir eru liður í því að safna frekari gögnum um ástand íssins á Suðurskautinu. Gögn þau sem safnast í þessum ferðum munu ásamt þeim gögnum sem fást með gervihnöttum gagnast enn frekar við að áætla hreyfingu íssins. Þessi nýja tækni mun gera vísindamönnum kleyft að fylgja þróun jökulíssins og að sjá bergið sem liggur undir, með háþróaðri leysir- og radartækni. Þessi leiðangur fer s.s. í gang um miðjan október og er hluti frekari rannsókna sem á frummálinu nefnast “Operation Ice Bridge” að amerískri fyrirmynd eða Aðgerð Ísbrú ef því er snarað yfir á íslensku. Aðger Ísbrú er vísindaherferð sem standa mun yfir næstu sex árin, með árlegum flugferðum yfir bæði Norður- og Suðurskautið. Fyrstu ferðirnar voru farnar í mars og apríl s.l. yfir Grænland og Norðurskautið.
Ætlunin með þessum flugferðum er að byggja upp enn betri þekkingu á flæði íssins og hvar og hvernig bráðnun á sér stað. Þessar rannsóknir miða m.a. að því að rannsaka afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. Suðurskautið hefur að geyma u.þ.b. 90% af öllum ferskvatnsbirgðum jarðar í frosnu formi. Þar af leiðandi myndi það hafa miklar afleiðingar ef jökulísinn bráðnar að einhverju ráði.
DC-8 flugvél NASA verður fyllt með útbúnaði til þess að rannsaka svæðið með nýjustu tækni. Búnaður til að gera mælingar með leysigeislum mun verða notaður til að skanna yfirborð íssins og þar með verður möguleiki á því að gera nákvæm hæðarkort af yfirborðinu. Hin búnaðurinn sem notaður verður er radar búnaður sem notaður verður til að mæla þykkt íssins á svæðinu. Þessi vöktun verður til þess að hægt er að bera saman hæðarkortin og þykkt jökulíssins ár frá ári. Þetta eru m.a. mikilvægar rannsóknir til að hægt sé að gera tölvumódel og þar með gera sér grein fyrir mögulegri framtíðarþróun íssins. Svona rannsóknir eru því mikilvægar til að átta sig á þróun íssins núna og í framtíðinni.
Mars, Júpiter, Neptúnus, Plútó auk Jarðarinnar eru taldar vera að hlýna. Úranus er að kólna og ekki hefur verið staðfest að Merkúríus, Venus eða Satúrnus séu að hlýna. Af þeim tunglum sem vitað er um í sólkerfinu hefur hlýnun aðeins verið staðfest á einu tungli, þ.e. Tríton sem er eitt af tunglum Neptúnus.
Virkni sólar hefur verið að minnka, en jörðin heldur áfram að hlýna. Ef það er ekki sólin sem er að hita upp þessar reikistjörnur, hver er þá ástæðan?
Það eru til aðrar skýringar á hlýnun reikistjarna
Jörðin. Rannsóknir á jörðinni, eina staðnum sem áreiðanlegar mælingar eru til, sýna að sólin hefur haft lítið að gera með þá hlýnun. Það er talið að 90-95% líkur séu á því að aukning gróðurhúsalofttegunda vegna athafna mannkyns valdi megninu af þeirri hnattrænu hlýnun sem átt hefur sér stað síðan um miðja síðustu öld. Án kælandi áhrifa loftarða er líklegt að gróðurhúsalofttegundirnar einar sér hefðu valdið enn meiri hlýnun. Einnig er talið að 1-5% líkur séu á því að þessa hnattrænu hlýnun megi útskýra með nátturulegum þáttum. Náttúrlegir þættir hefðu átt að leiða til kólnunar frá því um miðja síðustu öld samkvæmt gögnum vísindamanna, meðal annars vegna minnkandi virkni sólar.
Mars. Það er óljóst með Mars þ.e. hvort það er að hlýna eða ekki. Fátt bendir til þess og þá er helst talað um að sandstormar geti haft áhrif til hlýnunar (þ.e. dökkur sandur dreyfir sig yfir ljósara svæði og dregur í sig meiri hita). Á stjörnufræðivefnum segir ennfremur:
Að undanförnu hafa efasemdarmenn um hlýnun jarðar bent á að á Mars virðist vera hlýna af völdum gróðurhúsaáhrifa líkt og jörðin. Á Mars eru gróðurhúsaáhrif sem hækka hitastigið um tæplega 5°C en nýleg hlýnun á lítið skylt við hlýnun jarðar. Á Mars virðist nýleg hlýnun vera staðbundin en ekki hnattræn eins og á jörðinni og á líklegast rætur að rekja til stórra svartra basalthraunbreiða á yfirborðinu sem draga í sig meiri varma á daginn heldur en ljósari svæðin og einnig miklu magni ryks í lofthjúpnum sem dregur líka í sig varma.
Mikilvægt er að hafa í huga að við vitum einfaldlega of lítið um lofthjúp Mars til að draga ályktanir um mögulega hlýnun hans. Um þessar mundir er loftslagsmælitæki um borð í Mars Reconnaissance Orbiter sem kanna á sérstaklega loftslag Mars en það er einnig hlutverk komandi leiðangra á borð við Phoenix.
Júpiter. Hitabreytingar á Júpiter eru taldar vera vegna breytinga í hitakerfi Júpiters sjálfs. Júpiter býr til tvöfallt meira af orku en það fær frá sólinni. Að auki er það ekki hnattræn hlýnun, þar sem miðbaugur Júpiters er að hlýna en pólarnir að kólna. Á stjörnufræðivefnum segir:
Varmaburðurinn í innviðum Júpíters ber hlýrra loft frá heitari stað að kaldari. Hitinn flæðir þar af leiðandi upp í gegnum lofthjúpinn og út í geiminn. Það þýðir að neðri lög lofthjúpsins eru hlýrri en þau efri. Innrauðar mælingar staðfesta að svo sé og sýna hvernig hitastigið eykst eftir því sem innar dregur.
Varmaburður í lofthjúpi Júpíters ber loft og vinda upp á við en auk þeirra blása láréttir svæðisvindar í austur- eða vesturátt. Þegar Galíleó lofthjúpskanninn féll í gegnum lofthjúp Júpíters mældist vindhraðinn nokkuð stöðugur um 180 m/s sem rennir stoðum undir þá kenningu að vindarnir séu drifnir áfram af innri hita Júpíters. Væri sólarhitun aðaldrifkraftur vindanna, líkt og á jörðinni, hefði smám saman dregið úr vindhraðanum með aukinni dýpt.
Neptúnus. Á stjörnufræðivefnum segir:
Vegna mikillar fjarlægðar frá sól nýtur Neptúnus helmingi minni sólarorku en Úranus. Engu að síður er lofthjúpurinn óvenju virkur, mun virkari en lofthjúpur Úranusar. Það þýðir að einhver innri orka er til staðar í Neptúnusi. Margt bendir til þess að Neptúnus geisli frá sé meiri orku en hann fær frá sólinni, líkt og Júpíter. Líklega er Neptúnus enn að dragast saman en við það breytist þyngdarorkan í varmaorku sem veldur því að kjarninn hitnar. Þessi samblanda hlýrra innviða og kalds ytri lofthjúps veldur iðustraumum í Neptúnusi sem færir gas upp og niður innan reikistjörnunnar og við það verður skýja og stormamyndun.
Enn fremur eru gögnin sem notuð hafa verið til að tengja á milli virkni sólar og hita á Neptúnus eru röng, þ.e. virkni sólar helst ekki í hendur við hita á Neptúnus:
Svart þýðir gögnin sem miðað var við í greininni sem oftast er vísað til, rautt þýðir leiðrétt og uppfærð gögn. Þegar rétt gögn eru skoðuð þá er ljóst að ekki er mikil fylgni þarna á milli.
– Tríton. Þetta tungl Neptúnus fær að fylgja með, þar sem oft er minnst á það í tengslum við umræðu um hlýnun jarðar, en það er að hlýna að því er talið er vegna þess að tunglið er að nálgast suðurskautssumar, sem gerist á nokkur hundrað ára fresti.
Plútó. Á Plútó er um tvær mælingar að ræða, með fjórtán ára millibili, sem mælidu þykkt lofthjúpsins og gefur það í skyn að Plútó hafi hlýnað í millitíðinni. Ástæða þess er talin vera vegna skekkju í sporbaug Plútós, en seinni mælingin var tekin meðan áhrifin af sólnánd eru talin hafa varað enn. Á stjörnufræðivefnum má ennfremur lesa þessa lýsingu á Plútó, sem skýrir þetta nokkuð vel:
Braut Plútós um sólina hefur meiri miðskekkju og brautarhalla en brautir reikistjarnanna í sólkerfinu. Miðskekkjan er svo mikil að stundum er Plútó nær sólu en Neptúnus, þá um 20 ára skeið. Seinast fór Plútó inn fyrir braut Neptúnusar 21. janúar 1979 og var næst sólu 5. september 1989. Tæplega tíu árum síðar eða 11. febrúar 1999 fór Plútó aftur út fyrir braut Neptúnusar og verður fjær sólu en Neptúnus þar til í september 2226.
Þegar Plútó nálgast sólnánd hitnar hrímlagið og gufar að einhverju leyti upp. Þá myndast örþunnur lofthjúpur sem frýs síðan aftur eftir því sem Plútó færist fjær sólu, og þá snjóar lofthjúpurinn á yfirborðið. Þannig er lofthjúpurinn mestmegnis frosinn þegar Plútó er hvað fjærst sólu.
Heimildir og frekari upplýsingar
Á stjörnufræðivefnum eru töluverðar upplýsingar til um sólkerfið okkar og meðal annars um loftslag ýmissa reikistjarna (myndskreytingar í þessari færslu eru flestar af stjörnufræðivefnum). Um áhrif sólarinnar á hlýnun hér á jörðinni má lesa hér: Hlýnunin nú er af völdum Sólarinnar
Ákveðið var að byggja skýrsluna aðallega upp í kringum töflur og gröf og myndræna framsetningu á ástandi og þróun þeirra mála sem um er fjallað og draga fram lykilstaðreyndir á eins greinargóðan hátt og hægt er. Í texta er sums staðar reynt að leggja mat á ástand mála og hvernig miði í átt að settu marki. Slíkt mat á ástandi og þróun mála er alltaf að einhverju leyti huglægt og getur verið umdeilanlegt, en megináhersla er lögð á að draga fram helstu staðreyndir þannig að lesandinn geti sjálfur dæmt um hvort réttar ályktanir séu dregnar af þeim.
Í skýrslunni eru kaflar sem heita; Náttúra, landnotkun og umhverfisvernd; Verndun náttúru Íslands; Sjálfbær nýting auðlinda; Sjálfbær neysla og framleiðsla; Heilnæmt og öruggt umhverfi; Verndun hafsins og loks kaflinn Loftslagsbreytingar. Hér verður fjallað lítillega um kaflann Loftslagsbreytingar – en fróðleiksfúsum er bent á að skoða skýrsluna sjálf.
Í byrjun kaflans um loftslagsbreytingar er fjallað um þá vissu sem hefur verið að aukast um að hlýnun lofthjúpsins sé af mannavöldum, þar segir meðal annars:
Fjórða úttekt Milliríkjanefndar S.þ. um loftslagsbreytingar árið 2007 tók í raun af öll tvímæli um það og sagði allar spár benda til aukinnar hlýnunar það sem eftir er 21. aldarinnar. Hlýnunin er talin verða meiri og hraðari en þekkst hefur frá upphafi siðmenningar og hætta á mikilli röskun á vistkerfum, fæðuframleiðslu og lífsskilyrðum manna.
Fjallað er um hlýnun jarðar og á Íslandi, í nútíð og fortíð og þar er meðal annars þessi lýsandi mynd sem sýnir að hlýnunin hefur verið að aukast undanfarna áratugi:
Mynd úr skýrslunni (Umhverfisráðuneytið 2009)
Vitnað er í skýrslu Vísindanefndar um loftslagsbreytingar frá árinu 2008 (sjáHnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi) en þar kemur fram að áhrifa loftslagsbreytinga gæti nú þegar hér á Íslandi – þá sérstaklega hvað varðar jökla, en allir jöklar landsins sem ekki eru framhlaupsjöklar hafa hopað. Talið er líklegt að í lok þessarar aldar verði aðeins um 15% eftir af Langjökli og 40% eftir af Hofsjökli og sunnanverðum Vatnajökli:
Mynd úr skýrslunni (Umhverfirsráðuneytið 2009).
Við það að jöklarnir hörfa þá verður landris, en á myndinni hér fyrir neðan má sjá landris sem orðið hefur vegna léttingu fargs á jöklum. Það getur valdið aukinni tíðni eldgosa, sérstaklega undir Vatnajökli.
Mynd úr skýrslunni (Umhverfisráðuneytið 2009).
Jafnframt er minnst á hlýnun hafsins og að breytinga hafi orðið vart í lífríki sjávar. Við hlýnun er talið líklegt að framleiðni lífríkis aukist og að breytingar verði á tegundum við landið. Líklegt er talið að kolmunni og makríll auki útbreiðslu sína á kostnað rækju, loðnu og grálúðu. Þá er minnst á súrnun sjávar:
Þegar koldíoxíð (CO2) leysist upp í sjó myndast kolsýra sem leiðir til súrnunar sjávar. Rannsóknir í Íslandshafi norður af landinu, sem staðið hafa síðan 1985, sýna að sýrustig (pH) yfirborðssjávar lækkaði á 23 ára tímabili úr 8.13 í 8.08 sem jafngildir því að styrkur vetnisjóna [H+] jókst um 14%. Til lengri tíma litið er súrnun sjávar vegna aukinnar upptöku CO2 úr andrúmsloftinu áhyggjuefni því hún getur haft áhrif á kísilþörunga o.fl. lífverur og dregið úr framleiðni lífríkisins.
Að lokum er fjallað um hvernig þróun á losun CO2 hefur verið hjá Íslendingum og hvernig draga á saman losun á næstu áratugum. Losun Íslands jókst um 32% frá 1990 til 2007. Íslendingar losa meira á mann en meðaltal þróaðra ríkja, en þó meðal því lægsta meðal þróaðra ríkja ef miðað er við þjóðarframleiðslu. Vísað er í skýrslu sem kom út í júní á þessu ári (sjá Möguleikar til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi), en þar eru teknar saman möguleikar Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau hyggist draga úr losun um 50-75% fyrir árið 2050 (miðað við 1990) og allt að 15% til ársins 2020.
Það er víst ekki sama torfbær og torfbær, samkvæmt nýrri rannsókn á því hversu mikið hús með torfþaki binda mikið kolefni. Þau sem stóðu að rannsókninni skoðuðu 12 torfþök og byggðu að auki sitt eigið hús með torfþaki.
Það kom í ljós að þessi torfþök náðu að binda allt að 375 grömm á fermetra, þau tvö ár sem rannsóknin stóð yfir.
Það hljómar ekki mikið, en ef milljón manna borg myndi taka upp á því að skipta um þak fyrir allar sínar byggingar, þá myndi það binda jafn mikið CO2 og tíuþúsund jeppar losa á ári.
Sá hængur er á að það tekur allt að sjö ár fyrir þakið að byrja að binda kolefnið í nægilega miklu magni til að vinna upp allt kolefnið sem fer í að gera það.
27. júní sl. var nýjum gervihnött komið á sporbaug um jörðu. Eitt af verkefnum hans er að vakta fellibylji. Hérundir er myndband þar sem tekið er viðtal við vísindamann hjá NOAA varðandi þennan nýja gervihnött.
Hér eru tenglar á nokkrar mikilvægar skýrslur um loftslagsmál – í tímaröð eftir útgáfutíma. Tenglar vísa oftast í pdf skjöl með skýrslunum eða eins og í tilfellum stóru IPCC-skýrslanna yfir á heimasíðu þar sem hægt er að ná í hvern kafla skýrslanna. Allar skýrslurnar eru á ensku utan við tvær íslenskar.
IPCC skýrslurnar frá árinu 2007 eru fjórar: The Physical Science Basis (WG1), Impacts, Adaptation and Vulnerability(WG2) og Mitigation of Climate Change (WG3) – en einnig er Synthesis Report, sem er einskonar samantekt úr öllum hinum skýrslunum(AR4). Auk þess er hver skýrsla með Summary for Policymakers (WG1, WG2, WG3 og AR4) en það er samantekt fyrir yfirvöld.
Í júní í fyrra kom út ein skýrsla frá IPCC, þar sem aðaláherslan er lögð á áhrif loftslagsbreytinga á ferskvatn. Í skýrslunni er að finna upplýsingar um úrkomubreytingar, vatnsforðabúr, vatnsorku og ýmsa þætti sem geta haft áhrif á aðgengi manna að ferskvatni, en skýrslan heitirClimate Change and Water.
Í júlí í fyrra kom út skýrsla fyrir Umhverfisráðuneytið um Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi, en eins og nafnið bendir til þá er áhersla lögð á hvernig hnattrænar loftslagsbreytingar eiga eftir að hafa áhrif hér á landi. Skýrslan er að einhverju leiti unnin upp úr IPCC en töluvert þó bætt við af íslenskum rannsóknum.
Í vor var haldin ráðstefna um loftslagsbreytingar í Kaupmannahöfn og var megin tilgangur hennar að brúa bilið frá IPCC skýrslunum frá árinu 2007 og uppfæra þá þekkingu sem bæst hefði við síðan þá. Í sumar kom svo út skýrsla, sem unnin var upp úr efni ráðstefnunarinnar, en hún heitir CLIMATE CHANGE – Global Risks, Challenges & Decisions
Í haust kom síðan skýrsla sem bandarískir vísindamenn voru fengnir til að gera fyrir þingnefnd þar í landi. Skýrslan heitir Global Climate Change, Impacts in the United States og er hún um ástandið og horfur í loftslagsmálum út frá bandarískum hagsmunum, en einnig er rætt um hnattræn áhrif.
Fyrir stuttu kom síðan út á vegum umhverfisverkefna Sameinuðu þjóðanna (The United Nations Environment Program – UNEP) skýrslan eða samantekt sem heitir Climate Change Science Compendium. Hún er byggð á um 400 nýjum rannsóknum á kerfum jarðar og loftslagi þess, sem hafa birst í ritrýndum greinum síðastliðin þrjú ár – eða frá því fjórða skýrsla IPCC kom út. Þessi skýrsla er ekki sambærileg við IPCC-skýrslurnar þar sem mikill fjöldi vísindamanna og embættismanna urðu að vera sammála um hvað stóð í þeirri skýrslu og ekki eiginlegt framhald þeirra skýrsla. Þess í stað er hún samantekt margra áhugaverðra uppgötvana, túlkana, hugmynda og niðurstaðna sem hafa komið fram síðustu þrjú ár.
Hérundir má sjá 2 myndbönd sem fjalla um störf NASA og fæðuöryggi í heiminum. Hvernig er hægt að nota gervihnetti NASA til að vakta ræktun í heiminum? Það er komið inná þetta í eftirfarandi myndböndum. Markmið NASA er að þær upplýsingar sem verða til við þessa vöktun verði öllum aðgengileg án endurgjalds.
Hér er yfirlit yfir ýmsar fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun vikunnar. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint. Einnig er hér stutt yfirlit yfir færslur vikunnar af Loftslag.is. Þess má einnig geta að á næsta þriðjudag verður viðtal við okkur í Vísindaþættinum á Útvarp Sögu. Þátturinn er á dagskrá klukkan 17-18 á þriðjudag.
Stuttar fréttir
Fæðuöryggi í vanþróuðum löndum heims minnkar töluvert og allt að 25 milljónir fleiri börn verða hungri að bráð árið 2050 ef ekkert er gert til að sporna við loftslagsbreytingum samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn. Hér er á ferðinni umfangsmikil rannsókn á tengslum milli loftslagsbreytinga og fæðuöryggis. Stærstu áhrifin verða á uppskeru hveitis og hrísgrjóna. Talið er að uppskera hveitis geti dregist saman um 20-35% árið 2050 miðað við óbreyttar áherslur í losun gróðurhúsalofttegunda. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.
Óvenjuhátt hitastig norðurskautsins og miklar rigningar í hitabeltinu er talið líklegur orsakavaldur fyrir hinni hnattrænu aukningu í metani í andrúmsloftinu frá árinu 2007 og 2008, samkvæmt NOAA. Áratuginn þar á undan hafði lítil sem engin aukning verið, en metan er önnur mikilvirkasta gróðurhúsalofttegundin – á eftir CO2 (koldíoxíð). Sjá nánar frétt af vef NOAA.
Votlendi sem verður til þegar lónstæði stórrar stíflu í Kína þornar að hluta á sumrin er hugsanlega stór uppspretta metans sem er áhrifarík gróðurhúsalofttegund. Vísindamenn hafa haft vaxandi áhyggjur af gróðurhúsalofttegundum frá gróðurlendi sem fer undir vatn við stíflugerð. Þegar slík lífræn efni rotna, þá losnar metan og CO2 sem bæta á þá hlýnun jarðar sem nú þegar í gangi. Aukning í metani er sérstakt áhyggjuefni þar sem áhrif þess er tuttugu sinnum áhrifameira en áhrif CO2. Sjá nánari umfjöllun á vef Nature.
Yfirlit – fréttir og pistlar vikunnar:
Síðastliðinn laugardag þá birtum við 2 færslur sem fjölluðu beint og óbeint um jökulísinn og hækkun sjávarborðs. Fyrst má nefna myndband um sjávarstöðubreytingar og síðan frétt um nýjar rannsóknir sem skoðuðu þynningu jökulíssins á Grænlandi og Suðurskautinu. Önnur merkileg frétt úr vikunni sem leið var fréttin um fjórar gráðurnar, sem er ný frétt um rannsóknir á vegum Met Office (bresku veðurstofunnar), þar sem því er haldið fram að óheft losun koldíoxíðs geti leitt til allt að 4°C hækkun hitastigs fyrir næstu aldamót. Myndbönd vikunnar voru nokkur, má þar helst nefna myndband af sýn Carl Sagan á bláa punktinn sem við lifum á, hversu agnarsmár hann er í samanburði við alheiminn, auglýsing frá Bandaríkjunum sem hefur vakið furðu og svo heimildamynd um súrnun sjávar. Einnig skrifuðum við um Sea Level Explorer, þar sem hægt er að skoða áhrif sjávarstöðubreytinga á hina ýmsu staði í heiminum. Síðast en ekki síst þá skrifaði Einar Sveinbjörnsson gestapistil vikunnar, sem fjallar um “Veðurfar Norðurheimskautsins frá upphafi okkar tímatals” og kunnum við honum þakkir fyrir.