Loftslag.is

Tag: COP21

  • Parísarsamkomulagið

    Parísarsamkomulagið

    COP21_0Þjóðir heims hafa undirritað samkomulag í París um að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan 2°C marksins og jafnvel undir 1,5°C. Þetta er metnaðarfyllra en flestir þorðu að vona, sem er mjög jákvætt og gæti orðið vendipunktur í þeim áformum að taka á loftslagsvandanum að alvöru. Það var því mikill gleðidagur þegar búið var að undirrita samkomulagið, þann  12. desember 2015. Það má væra góð rök fyrir því að þarna hafi orðið sá viðsnúningur sem að við þurfum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Ef málið er skoðað vel, þá má segja að þarna hafi verið tekin endanleg ákvörðun um að það ekki sé hægt að nota allar birgðir jarðefnaeldsneytis sem þekktar eru, heldur verður að skilja meirihluta þess í jörðinni – s.s. endilok olíualdarinnar. Það er mikið meira en nóg til í kolefnisbókhaldi olíufyrirtækja á núverandi tímapunkti til að fara langt yfir markið, þannig að samkomulagið þýðir í raun að þjóðir heims hafna því að nýta allt það jarðefnaeldsneyti sem vitað er um, þ.a.l. má færa fyrir því rök að ekki sé þörf á að finna meira heldur. Hvort að þetta hefur einhver áhrif á fjárfestingar í jarðefnaeldsneytisvinnslu á tíminn eftir að leiða í ljós, en markmið þjóða heims gera ekki ráð fyrir fullri vinnslu allra þekktra jarðefnaeldsneytisbirgða, það virðist skýrt á núverandi tímapunkti, ef marka má aðgerðaloforð þjóðanna. Hvort að þessi samningur komi til með að hafa áhrif á hlutabréfaverð fyrirtækja í vinnslu jarðefnaeldsneytis og á fjárfestingastefnu fyrirtækjanna verður fróðlegt að fylgjast með í náinni framtíð.

    Eftirfylgnihluti samkomulagsins er mikilvægur og það knýr stjórnvöld þjóða heims til að setja fram alvöru aðgerðaáætlanir í kjölfar aðgerðaloforðanna. Það er því brýnt að þessi mál séu til umræðu í stjórnkerfinu, meðal almennings og kjörina fulltrúa. Í kosningabaráttu framtíðarinnar þá verður þetta að vera mál sem flokkar takast á um og koma fram með hugmyndir til að taka á vandanum – það ætti ekki að vera nein leið fram hjá því. Þetta leggur líka þá ábyrgð á almenning að krefjast þess að tekið sé á vandanum og einnig að almenningur sé hluti lausnarinnar – tími afneitunar er liðinn og sú náglun hefur beðið afhroð. Ákvörðunin um að taka á vandanum liggur fyrir – nú þurfum við bara að fylgja þeirri stefnu – annars er lítið varið í samkomulagið.

    Hvað felur samkomulagið í sér?

    Parísarsamkomulagið skyldar þær 195 þjóðir sem skrifuðu undir til að vinna saman að því að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum innan 2°C marksins (miðað við hitastig fyrir iðnvæðingu), með aukamarkmið að reyna að stefna að því að halda því innan 1,5°C. Það inniber líka að það þarf að stoppa aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda eins fljótt og hægt er og ná jafnvægi á milli losunar og bindingar.

    Fyrir loftslagsráðstefnuna í París settu þjóðir heims fram aðgerðaloforð, sem eru þekkt sem Intended Nationally Determined Contribution (INDC), þar sem hver þjóð leggur fram drög að því hversu mikið þau ætla að draga úr losun til 2030, sem getur t.d. verið með aukningu endurnýjanlegrar orku og/eða með því að draga úr eyðingu skóga. Það er mikill munur á aðgerðaloforðum þjóðanna og það eru 2 mikilvæg atriði sem geta leitt til þess að þjóðir telja sig hafa undankomuleið til að vera ekki með. Aðgerðaloforðin eru frjáls og er þjóðum frjálst hvernig þau nálgast lausnina, þannig að það eru engin refsiákvæði fyrir að efna ekki loforðin. Hitt atriðið er að samkvæmt bjartsýnustu spám þá duga forsendur loforðanna ekki til – aðgerðaloforðin eins og þau eru í dag (ef það er staðið við þau eins og þau eru núna – það er ekki sjálfgefið að staðið verði við loforðin) valda væntanlega á bilinu 2,7 til 3,5°C hlýnun, sem er verulega yfir markið. Það er þó gert ráð fyrir þeim möguleika að það verði skerpt á aðgerðaloforðunum á næstu árum til að reyna að ná markmiðum samkomulagsins. Sumir sérfræðingar benda á að samkomulagið gefi okkur tíma til að taka á vandanum af alvöru og markmiðin eru að einhverju leiti skýr, þó framkvæmdin sé enn óskýr. Það er til að mynda mun betra að hafa markmið til að hafa að leiðarljósi, en að keyra í blindni fram af bjargbrúninni, sem virtist vera aðferðafræðin fyrir Parísarsamkomulagið.

    _87071996_climate_change_fallbacks-06

    Góðu fréttirnar eru að samkomulagið inniheldur ferli til eftirfylgni til að styrkja aðgerðaloforðin á næstu árum. Árið 2020 þurfa þjóðir heims að setja fram ný aðgerðaloforð og svo á að halda því ferli áfram á næstu árum á allavega 5 ára fresti. Þjóðir heims gætu sett fram sömu markmið árið 2020, en vonin er að ný markmið verði skarpari og enn skýrari eftir því sem tíminn líður. Þannig að hugsanlega verði gengið enn lengra í framtíðinni en núverandi aðgerðaloforð gefa til kynna.

    Parísarsamkomulagið er að hluta til bindandi samningur, en aðgerðaloforð þjóðanna eru ekki bindandi. Samkomulagið inniheldur einhver bindandi atriði, t.d. þurfa lönd að taka þátt í kerfi til að mæla framvinduna við að ná markmiðum sínum og fara í gegnum eftirfylgni.

    Hvað er með í samkomulaginu og hvað ekki?

    Hér verður farið stuttlega yfir hvað er með og hvað ekki.

    Lykilatriðin:

    • hámarks losun gróðurhúsalofttegund verð náð eins fljótt og auðið er og að náð verði jafnvægi í losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda á seinnihluta aldarinnar
    • halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum vel fyrir innan 2°C og stefna að aðgerðum til að ná jafnvel að halda hlýnun innan 1,5°C
    • Endurskoðun og eftirfylgni á 5 ára fresti
    • 100 milljarða dollara loftslags fjármögnun til þróunarlanda á ári hverju frá 2020 til þróunarlanda með skuldbindingu um enn frekari fjármögnun í framtíðinni.

    Það er mikilvægt að allir eru með. Fyrri samningar hafa sett ábyrgðina fyrir minnkandi losun á ríkari þjóðir. Í Parísarsamkomulaginu hafa allar 195 þjóðirnar sem standa að samkomulaginu samþykkt að grípa til aðgerða. Ríkari þjóðir viðurkenna að þær eigi að stefna að því að byrjað strax (eins fljótt og hægt er) að draga úr losun og draga hraðar úr henni en aðrar þjóðir.

    Kerfi fyrir eftirfylgni (e. ratchet mechanism). Þetta er tæknilegt hugtak fyrir þann hluta samkomulagsins sem gerir ráð fyrir nýjum loforðum og eftirfylgni fyrir árið 2020. Þetta er mjög mikilvægur þáttur samkomulagsins, þar sem að sum stærri þróunarlönd hafa verið treg til að samþykkja kerfi sem myndi krefjast þess að þau myndu skerpa á loforðunum á næsta áratug. Flest aðgerðaloforðin eru markmið sem ná til 2030, en ef þau markmið eru ekki bætt, þá lítur út fyrir að það verði ómögulegt að ná 1,5°C markmiðinu og nánast ómögulegt að ná 2°C markinu. Þetta kerfi á að fá þjóðir heims að borðinu aftur árið 2020 þar sem þau þurfa að setja sér markmið fyrir árin 2025 – 2030 (ný markmið eða þau sömu).

    Það er enn stefnt að 100 milljarða dollara fjármagni á ári hverju til að taka á vandanum fyrir árið 2020. En það eru líka skuldbindingar um að reyna að auka það eftir 2020. Það var ljóst frá fyrsta degi að mörg þróunarlönd, sem sum munu finna mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, að aukin fjárhagsaðstoð var ein af forsendum fyrir þeirra aðgerðaáætlunum. Það hefur þó ekki leitt til mikilla breytinga, ríkari þjóðir virðast hingað til ekki hafa staðið við markmið Kaupmannahafnarsamkomulagsins frá 2009 um að ná 100 milljarða dollara fjárhagsaðstoð á ári fyrir árið 2020. Ríkari þjóðir ættu að geta gert betur þar og samkomulagið er í rétta átt, en sumir telja að ríkari þjóðir sem eru að lang mestu leiti með sögulega mestu losun gróðurhúsalofttegunda ættu að gera enn betur og skuldi í raun fyrir sína losun í gegnum tíðina.

    Hvað er ekki með?

    Það má sjálfsagt finna til margt sem ekki er með, en hér verða bara nefnd 2 atriði sem dæmi.

    Flugsamgöngur og skipaflutningar eru fyrir utan samkomulagið og hefur það verið gagnrýnt – enda um 5% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.

    Sú hugmynd að “halda  því í jörðinni“, er hugmynd sem fjallar um að stoppa vinnslu með lögum og reglugerðum til að koma í veg fyrir óhefta vinnslu jarðefnaeldsneytis – s.s. að stjórnvöld á einhvern hátt stjórni vinnslunni í gegnum regluverk. Þessi náglun er ekki með í Parísarsamkomulaginu. Sameinuðu Þjóðirnar hafa viljað fá þjóðir til að leggja til minnkun á losun sjálfviljug og eftir eigin hugmyndafræði, t.d. með aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku, betri orkunýtingu og notkun kolefnisforðabúra, en hefur aldrei lagt til höft á notkun jarðefnaeldsneytis sem slíka. Það má þó gera ráð fyrir að þessi samningur hafi gert að engu vinnslu á mörgum nýjum svæðum, enda meira en nóg til að brenna og samt enda verulega fyrir ofan markið eins og áður hefur komið fram.

    James Hansen

    Það hafa ýmsir sagt sína skoðun á  Parísarsamkomulaginu, meðal annars James Hansen fyrrverandi yfirmaður og vísindamaður hjá NASA, sem stundum hefur verið talin faðir heimsvitundar um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Hann fann sig knúinn til að orða hlutina á eftirfarandi hátt þegar samkomulagið var í höfn:

    Þetta er svindl, falsanir. Það er bara kjaftæði hjá þeim að segja: “Við höfum markmið upp á að halda hlýnun innan 2°C og svo ætlum við að gera aðeins betur á 5 ára fresti.” Þetta eru bara merkingarlaus orð. Það eru engar aðgerðir, bara loforð. Svo lengi sem jarðefnaeldsneyti virðist vera ódýrasta eldsneytið á markaðnum, þá mun það verða brennt áfram.”

    Endum þetta með þessum pælingum James Hansen – hann hefur þó vonandi ekki rétt fyrir sér, en það verður einhver að taka að sér að segja að kálið sé ekki sopið þó í ausuna sé komið (ef það er þá komið í ausuna) – jafnvel þó það sé orðað á þann hátt að það sé ekki endilega það orðalag sem flestir vilja heyra, en hann er greinilega skúffaður með niðurstöðuna.

    Helstu heimildir:

    Tengt efni á loftslag.is:

  • COP21 og grasrót vafans

    COP21 og grasrót vafans

    Í tilefni hverrar einustu COP ráðstefnu hefur farið í gang maskína afneitunar um loftslagsfræðin og er eitt frægasta dæmið uppspuninn um hið svokallaða “Climategate” frá 2009. COP21 er engin undantekning, þó að það megi nú með sanni segja að afneitunin sé lágværari og mun minna áberandi en áður.  Afneitunin fær samt pláss á síðum Morgunblaðsins þann 1. desember 2015 og hafa þau skrif fengið pláss sem fréttaskýring!

    Kristján Jónsson skrifar grein sem kallast – Stefnt að ramma um “sjálfviljug markmið” – og undir millifyrirsögninni “Umdeild vísindi” kemur eftirfarandi fram:

    Mikið af pólitísku kapítali hefur verið fjárfest í ákveðnum fullyrðingum. Deilt er um túlkun á rannsóknum, spálíkön, hvort fiktað hafi verið við tölur. Geysilegur hiti er í deilunum og menn saka hver annan um að gæta peningahagsmuna olíufyrirtækjanna eða reyna að tryggja sér rannsóknastyrki og stöður, t.d. með því halda á lofti skoðunum sem nái eyrum ráðamanna. Þekktir vísindamenn, nefna má eðlisfræðinginn og Nóbelshafann Ivar Giaever, hafa gagnrýnt harkalega þá sem neiti að ræða lengur forsendurnar, segi allt klappað og klárt. Þannig séu vísindin aldrei, segir Giaever. Hann hefur sagt að kenningar um hlýnun af mannavöldum séu „rugl“.

    Óhjákvæmilegt er að fara yfir gamlar mælingatölur um hitafar, lagfæra gallaðar tölur og samræma. Fikta. En mörgum brá í brún þegar í ljós kom að heimsþekktir vísindamenn NASA í Bandaríkjunum höfðu „leiðrétt“ tölur frá Íslendingum um mikinn hitamun milli Reykjavíkur og Akureyrar á hafísárunum á sjöunda áratug 20. aldar.

    Þarna er verið að sá vafa í huga fólks með vægast sagt vafasömum fullyrðingum sem standast ekki skoðun. Hér verður farið yfir nokkrar þessara fullyrðinga.

    Greinin, sem er dulbúin fréttaskýring um hin mikilvægu loftslagsmál, er sett upp þannig að gefið er í skyn að einhverjar deilur séu um kenninguna um hnattræna hlýna af mannavöldum – að þar séu andstæðir pólar og fær lesandinn á tilfinninguna að þar sé jafn skipt. Deilurnar eru þó ekki jafnari en svo að það eru yfirgnæfandi meiri hluti loftslagsvísindamanna (um 97-98 %) sammála því að jörðin sé að hlýna vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.

    Eitt af því sem rýrir enn meira þessa grein er að hann ætlast til þess að einn maður, öldungurinn og eðlisfræðingurinn Ivar Giaever (86 ára), nóbelsverðlaunahafi frá árinu 1973 hafi nógu mikla vigt í umræðum um loftslagsmál að verjandi sé að vitna í hann. Reyndar er til tilvitnun í hann, þar sem hann segir:

    “I am not really terribly interested in global warming.  Like most physicists I don’t think much about it.  But in 2008 I was in a panel here about global warming and I had to learn something about it.  And I spent a day or so – half a day maybe on Google, and I was horrified by what I learned.  And I’m going to try to explain to you why that was the case.” Ivar Giaever, Nobel Winning Physicist and Climate Pseudoscientist
    Þetta sýnir kannski hvað hann hefur sett sig vel inn í hlutina og hversu vel ígrundað það er að nota hann sem heimild í umfjöllun um loftslagsmál. Þessi vafans aðferð er nokkuð algeng, það er reynt að gera lítið úr vísindunum, ýjað að því að um falsanir og svik sé að ræða og vísað í ósérhæfða sérfræðinga – þarna fer Kristján því í gegnum mjög þekkta aðferðafræði afneitunar, sem hefur virkað vel til þess að hafa áhrif á fólk á síðustu árum og áratugum, en nú láta færri gabba sig svona og þessi aðferðafræði er vonandi að verða úrelt.

    Þess má geta að aðferðafræði Kristjáns minnir hressilega á afneitunarblogg númer 1 á Íslandi, þar sem þeir þættir sem Kristján nefnir hafa verið til umfjöllunar á bloggsíðu sem Ágúst H. Bjarnason (verkfræðingur) stendur fyrir – sú síða hefur í gegnum árin verið ein stærsta heimild þeirra sem vilja nálgast efnivið í afneitun á þessum fræðum og virðist Kristján hafa sótt efni það, sjá t.d. þetta og þetta.

    Varðandi meintar falsanir NASA sem Ágúst H. Bjarnason hefur haldið á lofti, þá hefur Halldór Björnsson sérsfræðingur hjá Veðurstofu Íslands svarað þessu og við birtum meðal annars hér á loftslag.is (sjá Athugasemd varðandi meintar falsanir NASA). Þar kemur meðal annars fram:

    Leiðréttingar GHCN eru hinsvegar af og frá, eins og þú bendir réttilega á. Hinsvegar er það að hengja bakara fyrir smið að halda því fram að þetta sé villa hjá NASA. Þeir erfa þessa villu frá NOAA og lagfæra hana að nokkru. Að lokum er rétt að taka fram að lagfæringar VÍ á mæliröðinni fyrir Reykjavík eru á engan hátt endanlegur sannleikur um þróun meðalhita þar. Hinsvegar er ljóst að staðsetning mælisins upp á þaki Landsímahússins var óheppileg, þar mældist kerfisbundið meiri hiti en á nálægum stöðvum. Vegna þessa er full ástæða til að til að leiðrétta mæliröðina, en vel er hugsanlegt að leiðréttingin (um 0.4°C) sé full mikil. Þessi leiðrétting kann að verða endurskoðuð síðar. Slíkt hefði þó óveruleg áhrif á langtímaleitni lofthita í Reykjavík (og engin á hnattrænt meðaltal).

    Það getur vel verið að einhverjir lesi þessa “fréttaskýringu” Morgunblaðsins gagnrýnislaust, en ef vel er skoðað og staðreyndir málsins teknar fyrir, þá sést að engar deilur eru um að losun gróðurhúsaloftegunda af mannavöldum veldur hnattrænni hlýnun og þarf engar falsanir á gögnum til að sýna fram á að hnattræn hlýnun á sér stað.

    Þó notuð sé aðferð vafans og reynt að draga úr vilja almennings til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þá er enginn vafi að jörðin er að hlýna af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Töfratalan

    Töfratalan

    Stóra málið sem liggur fyrir COP21 loftslagsráðstefnunni í París er að ríki heims vilja reyna að ná samkomulagi um að taka á loftslagsvandanum og reyna að halda hlýnun jarðar innan 2°C markinu. Það virðist þó vera eitt stórt atriði varðandi það sem gæti hugsanlega valdið töluverðum vanda við lausnina, en það er einfaldlega þegar allir þættir eru lagðir saman, þá virðist sem dæmið gangi ekki alveg upp.

    Eins metnaðarfullt og COP21 ráðstefnan er, þá eru ákveðnir þættir sem vinna á móti og gera verkefnið flóknara. T.d. er tímaþátturinn erfiður og flækjustig verksins sem framundan er líka flókið. Sumir vísindamenn og sérfræðingar telja að 2°C markmiðið sé nú þegar utan seilingar vegna þess að biðin sé nú þegar orðin of löng og of lítið hafi verið gert hingað til. Verkefnið sé þannig vaxið að erfitt sé að ná markmiðinu án þess að það hafi mikil áhrif á efnahag heimsins eða að sumar forsendur fyrir árangri séu tækni sem ekki sé enn búið að finna upp.

    Kevin Anderson, aðstoðarframkvæmdastjóri Tyndal Center for Climate Research í háskólanum í Manchester (hann kom nýlega til Íslands og hélt fyrirlestur) hefur m.a. hrært upp í umræðunni um 2°C markið nýlega þar sem hann sakar starfsfélaga sína á sviði loftslagsrannsókna um að velja að ritskoða eigin rannsóknir. Anderson gerir sérstaklega athugasemdir við að mörg módel treysti á “neikvæða losun” með ókominni tækni sem á að fjarlægja koltvísýring úr loftinu. Þessi tækni, tiltekur hann að sé enn aðeins huglæg og ekki í hendi. Aðrir hafa einnig tekið undir með Anderson og telja að tíminn til að ná 2°C markinu sé hugsanlega nú þegar runninn úr greipum okkar.

    Markmiðin eru einnig hlaðin óvissu, t.d. varðandi það hversu mikil kolefnislosun sé í raun örugg og hvernig aðrir ófyrirséðir þættir geti haft áhrif á útkomuna (hversu viðkvæmt er loftslagið?). 2°C markið er mögulega ekki öruggt til að byrja með, kannski þyrfti í raun að setja markið enn neðar (sem myndi gera verkefnið enn flóknara).

    WP_grein

    Á myndinni hér að ofan má sjá að árið 2014 voru losuð um 52,7 gígatonn af gróðurhúsalofttegundum – mælt í svokölluð CO2 jafngildseiningum (CO2 equivalents). Miðað við núverandi þróun í losun gróðurhúsaslofttegunda þá stefnum við um eða yfir 4°C hækkun (þó nokkur óvissa) á hitastigi jarðar (miðað við 1880). Miðað við útgefin vilyrði þjóða heims um losun á næstu árum og áratugum (fram til 2030) þá erum við enn yfir markinu. Bláa línan sýnir svo mögulega þróun í losun gróðurhúsalofttegunda til að halda okkur innan 2°C markinu (það er töluvert gap á milli hennar og núverandi vilyrða þjóða heims). Það er fátt sem bendir til þess á núverandi tímapunkti að síðasta leiðin verði valin í París. Að sjálfsögðu er hægt að skerpa á markmiðunum í framtíðinni og reyna að draga enn meira úr losun þegar fram líða stundir. Tíminn virðist ekki ætla að vinna með okkur í þessu risavaxna verkefni, en það verður þó fróðlegt að fylgjast með árangrinum á COP21 í París og að sjá fram á hvaða væntingar verður hægt að hafa til þess sem þar gerist fyrir framtíðina – þeim mun afgerandi skref sem eru tekin þar, því minna flækjustig í framtíðinni.

    Heimildir og ýtarefni:

    Þessi færsla byggist lauslega á eftirfarandi grein af vef The Washington Post:

    • The magic number eftir Chris Mooney – sem við getum mælt með að lesendur okkar glöggvi sig á, enda enn ýtarlegri en hér.

    Tengt efni á loftslag.is: