Þjóðir heims hafa undirritað samkomulag í París um að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan 2°C marksins og jafnvel undir 1,5°C. Þetta er metnaðarfyllra en flestir þorðu að vona, sem er mjög jákvætt og gæti orðið vendipunktur í þeim áformum að taka á loftslagsvandanum að alvöru. Það var því mikill gleðidagur þegar búið var að undirrita samkomulagið, þann 12. desember 2015. Það má væra góð rök fyrir því að þarna hafi orðið sá viðsnúningur sem að við þurfum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Ef málið er skoðað vel, þá má segja að þarna hafi verið tekin endanleg ákvörðun um að það ekki sé hægt að nota allar birgðir jarðefnaeldsneytis sem þekktar eru, heldur verður að skilja meirihluta þess í jörðinni – s.s. endilok olíualdarinnar. Það er mikið meira en nóg til í kolefnisbókhaldi olíufyrirtækja á núverandi tímapunkti til að fara langt yfir markið, þannig að samkomulagið þýðir í raun að þjóðir heims hafna því að nýta allt það jarðefnaeldsneyti sem vitað er um, þ.a.l. má færa fyrir því rök að ekki sé þörf á að finna meira heldur. Hvort að þetta hefur einhver áhrif á fjárfestingar í jarðefnaeldsneytisvinnslu á tíminn eftir að leiða í ljós, en markmið þjóða heims gera ekki ráð fyrir fullri vinnslu allra þekktra jarðefnaeldsneytisbirgða, það virðist skýrt á núverandi tímapunkti, ef marka má aðgerðaloforð þjóðanna. Hvort að þessi samningur komi til með að hafa áhrif á hlutabréfaverð fyrirtækja í vinnslu jarðefnaeldsneytis og á fjárfestingastefnu fyrirtækjanna verður fróðlegt að fylgjast með í náinni framtíð.
Eftirfylgnihluti samkomulagsins er mikilvægur og það knýr stjórnvöld þjóða heims til að setja fram alvöru aðgerðaáætlanir í kjölfar aðgerðaloforðanna. Það er því brýnt að þessi mál séu til umræðu í stjórnkerfinu, meðal almennings og kjörina fulltrúa. Í kosningabaráttu framtíðarinnar þá verður þetta að vera mál sem flokkar takast á um og koma fram með hugmyndir til að taka á vandanum – það ætti ekki að vera nein leið fram hjá því. Þetta leggur líka þá ábyrgð á almenning að krefjast þess að tekið sé á vandanum og einnig að almenningur sé hluti lausnarinnar – tími afneitunar er liðinn og sú náglun hefur beðið afhroð. Ákvörðunin um að taka á vandanum liggur fyrir – nú þurfum við bara að fylgja þeirri stefnu – annars er lítið varið í samkomulagið.
Hvað felur samkomulagið í sér?
Parísarsamkomulagið skyldar þær 195 þjóðir sem skrifuðu undir til að vinna saman að því að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum innan 2°C marksins (miðað við hitastig fyrir iðnvæðingu), með aukamarkmið að reyna að stefna að því að halda því innan 1,5°C. Það inniber líka að það þarf að stoppa aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda eins fljótt og hægt er og ná jafnvægi á milli losunar og bindingar.
Fyrir loftslagsráðstefnuna í París settu þjóðir heims fram aðgerðaloforð, sem eru þekkt sem Intended Nationally Determined Contribution (INDC), þar sem hver þjóð leggur fram drög að því hversu mikið þau ætla að draga úr losun til 2030, sem getur t.d. verið með aukningu endurnýjanlegrar orku og/eða með því að draga úr eyðingu skóga. Það er mikill munur á aðgerðaloforðum þjóðanna og það eru 2 mikilvæg atriði sem geta leitt til þess að þjóðir telja sig hafa undankomuleið til að vera ekki með. Aðgerðaloforðin eru frjáls og er þjóðum frjálst hvernig þau nálgast lausnina, þannig að það eru engin refsiákvæði fyrir að efna ekki loforðin. Hitt atriðið er að samkvæmt bjartsýnustu spám þá duga forsendur loforðanna ekki til – aðgerðaloforðin eins og þau eru í dag (ef það er staðið við þau eins og þau eru núna – það er ekki sjálfgefið að staðið verði við loforðin) valda væntanlega á bilinu 2,7 til 3,5°C hlýnun, sem er verulega yfir markið. Það er þó gert ráð fyrir þeim möguleika að það verði skerpt á aðgerðaloforðunum á næstu árum til að reyna að ná markmiðum samkomulagsins. Sumir sérfræðingar benda á að samkomulagið gefi okkur tíma til að taka á vandanum af alvöru og markmiðin eru að einhverju leiti skýr, þó framkvæmdin sé enn óskýr. Það er til að mynda mun betra að hafa markmið til að hafa að leiðarljósi, en að keyra í blindni fram af bjargbrúninni, sem virtist vera aðferðafræðin fyrir Parísarsamkomulagið.
Góðu fréttirnar eru að samkomulagið inniheldur ferli til eftirfylgni til að styrkja aðgerðaloforðin á næstu árum. Árið 2020 þurfa þjóðir heims að setja fram ný aðgerðaloforð og svo á að halda því ferli áfram á næstu árum á allavega 5 ára fresti. Þjóðir heims gætu sett fram sömu markmið árið 2020, en vonin er að ný markmið verði skarpari og enn skýrari eftir því sem tíminn líður. Þannig að hugsanlega verði gengið enn lengra í framtíðinni en núverandi aðgerðaloforð gefa til kynna.
Parísarsamkomulagið er að hluta til bindandi samningur, en aðgerðaloforð þjóðanna eru ekki bindandi. Samkomulagið inniheldur einhver bindandi atriði, t.d. þurfa lönd að taka þátt í kerfi til að mæla framvinduna við að ná markmiðum sínum og fara í gegnum eftirfylgni.
Hvað er með í samkomulaginu og hvað ekki?
Hér verður farið stuttlega yfir hvað er með og hvað ekki.
Lykilatriðin:
- Að hámarks losun gróðurhúsalofttegund verð náð eins fljótt og auðið er og að náð verði jafnvægi í losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda á seinnihluta aldarinnar
- Að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum vel fyrir innan 2°C og stefna að aðgerðum til að ná jafnvel að halda hlýnun innan 1,5°C
- Endurskoðun og eftirfylgni á 5 ára fresti
- 100 milljarða dollara loftslags fjármögnun til þróunarlanda á ári hverju frá 2020 til þróunarlanda með skuldbindingu um enn frekari fjármögnun í framtíðinni.
Það er mikilvægt að allir eru með. Fyrri samningar hafa sett ábyrgðina fyrir minnkandi losun á ríkari þjóðir. Í Parísarsamkomulaginu hafa allar 195 þjóðirnar sem standa að samkomulaginu samþykkt að grípa til aðgerða. Ríkari þjóðir viðurkenna að þær eigi að stefna að því að byrjað strax (eins fljótt og hægt er) að draga úr losun og draga hraðar úr henni en aðrar þjóðir.
Kerfi fyrir eftirfylgni (e. ratchet mechanism). Þetta er tæknilegt hugtak fyrir þann hluta samkomulagsins sem gerir ráð fyrir nýjum loforðum og eftirfylgni fyrir árið 2020. Þetta er mjög mikilvægur þáttur samkomulagsins, þar sem að sum stærri þróunarlönd hafa verið treg til að samþykkja kerfi sem myndi krefjast þess að þau myndu skerpa á loforðunum á næsta áratug. Flest aðgerðaloforðin eru markmið sem ná til 2030, en ef þau markmið eru ekki bætt, þá lítur út fyrir að það verði ómögulegt að ná 1,5°C markmiðinu og nánast ómögulegt að ná 2°C markinu. Þetta kerfi á að fá þjóðir heims að borðinu aftur árið 2020 þar sem þau þurfa að setja sér markmið fyrir árin 2025 – 2030 (ný markmið eða þau sömu).
Það er enn stefnt að 100 milljarða dollara fjármagni á ári hverju til að taka á vandanum fyrir árið 2020. En það eru líka skuldbindingar um að reyna að auka það eftir 2020. Það var ljóst frá fyrsta degi að mörg þróunarlönd, sem sum munu finna mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, að aukin fjárhagsaðstoð var ein af forsendum fyrir þeirra aðgerðaáætlunum. Það hefur þó ekki leitt til mikilla breytinga, ríkari þjóðir virðast hingað til ekki hafa staðið við markmið Kaupmannahafnarsamkomulagsins frá 2009 um að ná 100 milljarða dollara fjárhagsaðstoð á ári fyrir árið 2020. Ríkari þjóðir ættu að geta gert betur þar og samkomulagið er í rétta átt, en sumir telja að ríkari þjóðir sem eru að lang mestu leiti með sögulega mestu losun gróðurhúsalofttegunda ættu að gera enn betur og skuldi í raun fyrir sína losun í gegnum tíðina.
Hvað er ekki með?
Það má sjálfsagt finna til margt sem ekki er með, en hér verða bara nefnd 2 atriði sem dæmi.
Flugsamgöngur og skipaflutningar eru fyrir utan samkomulagið og hefur það verið gagnrýnt – enda um 5% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.
Sú hugmynd að “halda því í jörðinni“, er hugmynd sem fjallar um að stoppa vinnslu með lögum og reglugerðum til að koma í veg fyrir óhefta vinnslu jarðefnaeldsneytis – s.s. að stjórnvöld á einhvern hátt stjórni vinnslunni í gegnum regluverk. Þessi náglun er ekki með í Parísarsamkomulaginu. Sameinuðu Þjóðirnar hafa viljað fá þjóðir til að leggja til minnkun á losun sjálfviljug og eftir eigin hugmyndafræði, t.d. með aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku, betri orkunýtingu og notkun kolefnisforðabúra, en hefur aldrei lagt til höft á notkun jarðefnaeldsneytis sem slíka. Það má þó gera ráð fyrir að þessi samningur hafi gert að engu vinnslu á mörgum nýjum svæðum, enda meira en nóg til að brenna og samt enda verulega fyrir ofan markið eins og áður hefur komið fram.
James Hansen
Það hafa ýmsir sagt sína skoðun á Parísarsamkomulaginu, meðal annars James Hansen fyrrverandi yfirmaður og vísindamaður hjá NASA, sem stundum hefur verið talin faðir heimsvitundar um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Hann fann sig knúinn til að orða hlutina á eftirfarandi hátt þegar samkomulagið var í höfn:
“Þetta er svindl, falsanir. Það er bara kjaftæði hjá þeim að segja: “Við höfum markmið upp á að halda hlýnun innan 2°C og svo ætlum við að gera aðeins betur á 5 ára fresti.” Þetta eru bara merkingarlaus orð. Það eru engar aðgerðir, bara loforð. Svo lengi sem jarðefnaeldsneyti virðist vera ódýrasta eldsneytið á markaðnum, þá mun það verða brennt áfram.”
Endum þetta með þessum pælingum James Hansen – hann hefur þó vonandi ekki rétt fyrir sér, en það verður einhver að taka að sér að segja að kálið sé ekki sopið þó í ausuna sé komið (ef það er þá komið í ausuna) – jafnvel þó það sé orðað á þann hátt að það sé ekki endilega það orðalag sem flestir vilja heyra, en hann er greinilega skúffaður með niðurstöðuna.
Helstu heimildir:
- Here’s what you need to know about the new Paris climate agreement
- COP21: Paris climate deal is ‘best chance to save planet’
- James Hansen, father of climate change awareness, calls Paris talks ‘a fraud’
Tengt efni á loftslag.is:
Leave a Reply