Loftslag.is

Tag: Sjávarhiti

  • Hinn týndi hiti

    Svo virðist sem mælitæki séu bara að mæla um helming af þeim hita sem búist er við að hafi verið að magnast upp á Jörðinni síðustu ár, samkvæmt nýrri sjónarmiðsgrein (perspective) sem birtist í Science.

    Vísindamennirnir benda á að það geti þurft að bæta næmni gervihnetta, auka umfang sjávarhitamælinga og annarra mælitækja, til að mæla hinn týnda hita sem ætti að vera að byggjast upp á Jörðinni, sérstaklega í djúpsjónum. Vísindamennirnir telja að þessi hiti eigi eftir að koma í bakið á okkur síðar.

    “Sú minnkandi hlýnun sem hefur orðið síðustu ár mun ekki halda áfram. Því er nauðsynlegt að geta fylgst með því hvernig orkan hleðst upp í loftslagskerfi jarðar, svo við getum skilið hvað er að gerast og spá fyrir um loftslag framtíðar” segir Kevin Trenberth annar höfunda greinarinnar.

    Ójafnvægi er í orkubúskap Jarðarinnar: Meiri hiti kemur inn í loftshjúpinn en yfirgefur hann, vegna gróðurhúsaáhrifanna. Mynd frá NASA.

    Þrátt fyrir að gervihnattagögn sýni að gróðurhúsalofttegundir hafa haldið áfram að festa sólarorku (hita) í lofthjúp jarðar, þá hefur vísindamönnum ekki tekist að sýna fram á hvert allur hitinn er að fara. Það eru tveir möguleikar sem höfundar sjá. Annars vegar að gervihnattamælingarnar séu rangar eða hins vegar að hitinn sé að byggjast upp á svæðum sem erfitt er að mæla, líkt og í djúpsjónum. Höfundar hallast að síðari möguleikanum.

    Hluti af vandamálinu er það að hnattrænt yfirborðshitastig hefur ekki verið að aukast eins hratt undanfarin ár og búist var við – en á sama tíma hefur bráðnun jökla og hafís haldið áfram, auk hækkandi sjávarstöðu – sem bendir til þess að hitinn sé að byggjast upp á Jörðinni, þótt hann mælist ekki eins hraður og áður. Því sé nauðsynlegt að bæta mælitæknina til að ná yfir þann hita sem er að byggjast upp á Jörðinni og sérstaklega í sjónum.

    Aukin þekking á orkuinnihaldi lofthjúpsins og sjávar myndi enn frekar hjálpa til við að skilja veðrakerfi, líkt og ollu óvenjulegum staðbundnum kulda í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu – á sama tíma og hnattrænn hiti eykst.

    Við aukningu gróðurhúsalofttegunda, þá sýna gervihnattagögn aukið orkuójafnvægi milli þeirrar orku sem kemur inn í lofthjúpinn og þess sem yfirgefur hann. Þetta ójafnvægi er ástæða hinnar langtíma hnattrænu hlýnunar sem er í gangi.

    Sjórinn gleypir um 90% af sólarorkunni sem að gróðurhúsaáhrifin festa í loftslagskerfum Jarðar. Auk þess fer hluti af orkunni í að bræða jökla og hafís, auk þess sem lítill hluti orkunnar fer í að hita upp lofthjúp Jarðar og yfirborð.

    Á meðan orkuójafnvægið hefur aukist samkvæmt gervihnattagögnum síðustu ár, þá hefur hitaaukningin hægt á sér í efsta kílómetra sjávar. Orkan er talin samsvara um 1 watti á fermetra (eða meira) á sama tíma og mæligögn sem mæla sjóinn benda til að orkan sem sé að byggjast upp í sjónum sé um 0,5 wött á fermetra. Það þýðir að töluverður hluti af hitanum hefur týnst eða kemur ekki fram á mælum. Hluti af því getur verið villa í mæligögnum eða nemum gervihnattanna segja höfundar. Annar hluti hitans geti verið að fara í hina auknu bráðnun á Grænlandi og Suðurskautinu sem nýlegar rannsóknir benda til að hafi farið vaxandi.

    Áætlað hitamagn sjávar, sýnir hvernig orka hleðst upp í loftslagskerfum Jarðar. Mynd NCAR/Science

    En mikill hluti hins týnda hita, virðist vera í sjónum. Mæligögn í sjónum eru dreifð og ná einungis niður á einn kílómetra í þokkalegri upplausn, en auk þess eru dreifðari mælar sem mæla niður á tveggja kílómetra dýpi – en neðar ná mælar ekki. Höfundar vilja fá auknar mælingar niður á meira dýpi – auk meiri upplausnar.

    Það skal tekið fram, að þrátt fyrir að hitastigsaukningin sé minni en búist er við, þá er það nú svo að síðustu 12 mánuðir eru heitustu 12 mánuðir frá upphafi mælinga hnattrænt séð, samkvæmt tölum frá NASA – sem að hluta til má útskýra vegna El Nino, en er þó í mótsögn við þá minnkandi inngeislun sólar sem verið hefur undanfarna áratugi.

    Að lokum er hér stutt myndband þar sem Kevin Trenberth útskýrir þetta í stuttu máli:

    Heimildir og ítarefni

    Sjónarmiðsgreinina má finna hér: Kevin E. Trenberth and John T. Fasullo 2010 – Tracking Earth’s Energy

    Góð umfjöllun er um greinina á heimasíðu National Science Foundation: “Missing” Heat May Affect Future Climate Change

    Tengdar færslur af loftslag.is

  • Hitastig mars 2010 á heimsvísu

    Helstu atriðið varðandi hitastig marsmánaðar á heimsvísu

    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir mars 2010 var það heitasta samkvæmt skráningum, með hitafráviki upp á 0,77°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar. Þetta var 34. marsmánuðurinn í röð sem var yfir meðaltal 20. aldarinnar.
    • Hitastig á landi á heimsvísu var 1,36°C yfir meðaltali 20. aldarinnar, og var sá 4. heitasti samkvæmt skráningum.
    • Hitastig hafsins á heimsvísu í mars 2010, var það heitasta fyrir mánuðinn samkvæmt skráningu, með hitafrávik upp á 0,56°C yfir 20. aldar meðaltalið.
    • Fyrir tímabilið janúar – mars var sameinað hitastig fyrir bæði land og haf, með hitafrávik upp á 0,66°C yfir meðaltalið, 4. heitasta fyrir það tímabil.

    Mars 2010

    Helstu atriði sýnd á myndum og gröfum, bæði fyrir mánuðinn og tímabilið janúar – mars.

    Hitafrávik fyrir mars 2010 - Viðmiðunartímabil 1971-2000

    Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastig fyrir marsmánuð 2010.

    Mars Frávik Röð
    (af 131 ári)
    Heitasti/næst heitasti mars
    samkv. skrám
    Á heimsvísu
    Land +1,36°C 4. heitasti 2008 (+1,83°C)
    Haf +0,56°C Heitasti 1998 (+0,55°C)
    Land og haf +0,77°C Heitasti 2002 (+0,74°C)
    Norðuhvel jarðar
    Land +1,52°C 4. heitasti 2008 (+2,34°C)
    Haf +0,54°C Heitasti 2004 (+0,49°C)
    Land og Haf +0,92°C 3. heitasti 2008 (+1,07°C)
    Suðurhvel jarðar
    Land +0,95°C Heitasti 1998 (+0,92°C)
    Haf +0,59°C 2. heitasti 1998 (+0,61°C)
    Land og Haf +0,64°C 2. heitasti 1998 (+0,65°C)

    Í grafinu hérundir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:

    Og svo að lokum hitafrávikin fyrir tímabilið janúar – mars 2010.

    Heimildir og annað efni:

  • Hitastig febrúar 2010 á heimsvísu

    Helstu atriðið varðandi hitastig febrúarmánaðar á heimsvísu

    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir fegrúar 2010, með hitafráviki upp á 0,60°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar, var 6. heitasti febrúar samkvæmt skráningum
    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir tímabilið desember 2009 – febrúar 2010, með hitafráviki upp á 0,57°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar og var 5. heitasta skráning fyrir tímabilið samkvæmt skráningum
    • Hitastig hafsins á heimsvísu í febrúar 2010, var það næst heitasta, samkvæmt skráningu, með hitafrávik upp á 0,54°C yfir 20. aldar meðaltalið.
    • Hitastig hafsins á heimsvísu fyrir tímabilið desember 2009 – febrúar 2010, var það næst heitasta, samkvæmt skráningu, með hitafrávik upp á 0,54°C yfir 20. aldar meðaltalið.
    • Á Suðurhvelinu var hitastigið í febrúar með hæsta meðalgildi sem mælst hefur fyrir bæði land og einnig land og haf saman. Hitastig hafsins á Suðurhvelinu var það næst heitasta samkvæmt skráningu, jafnt hitastiginu árið 1998.
    Hitafrávik fyrir febrúar 2010 – Viðmiðunartímabil 1971-2000

    Febrúar 2010

    Sameinað hitafrávik fyrir land og haf í febrúar 2010 var það 6. heitasta fyrir febrúar mánuð síðan 1880 og var frávikið 0,60°C yfir meðaltal 20. aldarinnar. Hitastig sjávar í liðnum febrúar 2010, var heitara en meðallag á flestum stöðum, þó kaldara en meðaltal í Mexíkóflóa, með fram vesturströnd Suður Ameríku, hluta af hærri breiddargráðum Suður hafanna, í Norður Atlantshafi og norðaustanverðu Kyrrahafi. Sjávarhiti fyrir febrúar 2010 mældist sá næst heitasti fyrir mánuðinn síðan mælingar hófust, með hitafrávík upp á 0,54°C yfir meðaltali 20. aldarinnar. Hitastig sjávar á heimsvísu í liðnum febrúar var það heitasta síðan 1998.

    Í Kyrrahafinu við miðbaug hefur meðalsterkur El Nino ráðið ferðinni í febrúar 2010. Sjávarhiti á þeim slóðum var meira en 1,5°C yfir meðaltali í mánuðinum. El Nino er talin halda áfram á vormánuðum Norðurhvels 2010, samkvæmt NOAA – Climate Prediction Center (CPC).

    Á sama tíma er hitastig yfir landi jafnt febrúar 1992, sem sá 14. heitasti febrúar samkvæmt skráningu, með hitafrávik upp á 0,75°C yfir meðaltali. Í febrúar 2010 var hitastig yfir meðaltali yfir stórum hluta landsvæða heims, með hæstu hitafrávikum í Kanada, Alaska, hluta Vestur Afríku, Mið-Austurlöndum og suðaustur Asíu. Hitafrávikin á þessum stöðum voru á bilinu 3°-6°C yfir meðaltali. Samt sem áður, þá var kaldara en meðaltal á landsvæðum í Vestur- og Norður Evrópu, Mið Asíu, Suður Argentínu, Suður Chíle, Norðaustur Ástralíu og mestum hluta mið og austur hluta Bandaríkjanna. Á norðurhvelinu var febrúar 2010, samkvæmt sameinuðu hitastigi fyrir land og haf jafn febrúar 2009, sá 10. heitasti samkvæmt skráningu. Þegar þetta er skoðað hvert fyrir sig, þá voru landssvæði á Norðurhvelinu 26. heitasti fyrir land, á meðan hitastig hafsins var 2. heitasta frá upphafi, á eftir 1998.

    Aftur á móti, þá var hitafrávik febrúar 2010, fyrir Suðurhvelið í heild (sameinað land og haf) 0,63°C yfir meðaltali 20. aldar, heitasti febrúar samkvæmt skráningu. Hitafrávik fyrir landsvæði á Suðurhvelinu var það heitasta fyrir mánuðinn, með hitafrávik upp á 0,97°C yfir meðaltali 20. aldarinnar. Fyrir hafsvæðin var febrúar 2010 jafn 1998, sem sá heitasti á Suðurhvelinu.

    Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastig fyrir febrúar mánuð 2010.

    Febrúar Frávik Röð
    (af 131 ári)
    Heitasti feb.
    samkv. skrám
    Á heimsvísu
    Land +0,75°C 14. heitasti 2002 (+1,60°C)
    Haf +0,54°C 2. heitasti 1998 (+0,56°C)
    Land og haf +0.60°C 6. heitasti 1998 (+0,83°C)
    Norðuhvel jarðar
    Land +0,67°C 26. heitasti 2002 (+2,12°C)
    Haf +0,51°C 2. heitasti 1998 (+0,55°C)
    Land og Haf +0,57°C 10. heitasti 2002 (+1,06°C)
    Suðurhvel jarðar
    Land +0,97°C Heitasti 1983 (+0,89°C)
    Haf +0,58°C Heitasti 2003 (+0,54°C)
    Land og Haf +0,63°C Heitasti 1998 (+0,62°C)

    Í grafinu hérundir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:

    Heimildir og annað efni:

  • Fornhitastig sjávar við Íslandsstrendur

    Halloka (Macoma Calceria).

    Nýlega birtist í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences (PNAS) fróðleg grein sem áhugasamir um fornhitastig sjávar við Íslandstrendur og tengsl við atburði úr íslensku fornannálunum, ættu ekki að láta framhjá sér fara. 

    Í greininni er sagt frá rannsóknum á skeljum úr sjávarseti við Íslandsstrendur, en með mælingum á samsætuhlutfalli súrefnis 18 (δ18O) í skeljunum er hægt að búa til sjávarhitaferil fyrir þann tíma sem skeljarnar lifðu, sem er á milli 2-9 ár.

    Staðsetningu borkjarnanna sem notaðir voru við rannsóknina má sjá á þessari mynd (Patterson o.fl. – PNAS). Vekjum sérstaka athygli á kjarnanum MD99-2266, út af Ísafjarðardjúpi sem mest var notaður við þessa rannsókn.

    Hver skel gefur ákveðna skyndimynd af því hvernig sjávarhiti var á því svæði, á þeim tíma þegar skeljarnar lifðu og sýna auk þess árstíðabundnar breytingar í sjávarhita – nokkuð sem ekki hefur verið áður hægt á jafn nákvæman hátt við rannsóknir á fornhitastigi. Hitastig sjávar gefur nokkuð góðar vísbendingar um það hvernig hitastig var almennt á landinu á sama tíma, sérstaklega út við ströndina.

    Með skoðun á rituðum heimildum fornannálanna þá kom í ljós að það sem var skrifað um veðurfar frá tímum landafundanna og fram að sautjándu öld (hungursneyðar og hafís t.d.), sýndi nokkuð góða samsvörun við sjávarhita út frá skeljunum.  Því er ein af niðurstöðum greinarinnar að þessar tvær aðferðir við að meta hitastig styðji hvora aðra.

    Mynd sem sýnir sjávarhita frá sirka 360 fyrir krist og fram til 1660. Fylltu táknin sýna hæsta hita hvers árs og ófylltu táknin lægsta hita hvers árs. Línurnar sýna hvar tengd eru saman gögn úr borkjarnanum MD99-2266 (Patterson o.fl. – PNAS) Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.

    Það má ljóst vera að hér er komin fram aðferð sem á örugglega eftir að gefa góða raun við að meta fornan sjávarhita og líklegt að ef hægt er að endurtaka þessa rannsókn fyrir fleiri staði, þannig að úr fáist hnattræn dreifing – þá verði hægt að meta loftslagsbreytingar langt aftur í tímann með meiri nákvæmni en áður. Upplausnin á þessum gögnum er meiri en í öðrum gögnum, sem sýnt hafa frekar árlegan breytileika en ekki breytileika innan hvers árs eins og þessi sýnir (hægt er að fá sjávarhita á vikufresti, jafnvel daglega fyrir stærri skeljar).  Meðalárshiti eru vissulega góðar upplýsingar, en fyrir gróður og dýr – hvað þá menn, þá skiptir mestu máli hvernig hitastig breytist á árstíðarfresti – sérstaklega er nauðsynlegt fyrir okkur á norðlægum breiddargráðum að fá hlýtt sumar.

    Það skal þó tekið fram að rannsaka þarf töluverðan fjölda af skeljum til viðbóart til að fá samfellda mynd af breytingunum – eins og áður segir, þá sýnir hver skel einungis breytingu í hitastigi fyrir 2-9 ár og hingað til er einungis búið að mæla 26 skeljar.

    Talið er líklegt að auðveldara verði að kortleggja staðbundnar veðurfarssveiflur, t.d. sveiflur í Norðuratlantshafssveiflunni (NAO) með þessari aðferð, en þær sveiflur hafa t.d. mikil áhrif á veðurfar hér við Íslandsstrendur og víðar í Norður Evrópu. Höfundar segjast ætla að halda áfram með þessa rannsókn og stefna að því að ná fram upplýsingum um hitastig við Íslandsstrendur allt aftur til loka síðasta jökulskeiðs fyrir um 10-11 þúsund árum.

    Heimildir og ítarefni

    Greinina sjálfa má lesa á heimasíðu PNAS: Two millennia of North Atlantic seasonality and implications for Norse colonies

    Fréttasíða tímaritsins Nature – Nature News hefur fjallað um málið: Shellfish could supplant tree-ring climate data

    Áhugavert yfirlit yfir veðurfarssögu út frá Fornannálum, eftir Sigurð Þór Guðjónsson má finna hér: Veðurannálar – Uppskrift Sigurðar Þórs Guðjónssonar  og hér: Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum

    Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar Íslands má nálgast upplýsingar um mældan sjávarhita síðustu áratugi: Sjávarhitamælingar við strendur Íslands

  • Loftslagsbreytingar og áhrif manna

    Ný yfirlitsgrein frá Bresku Veðurstofunnni um loftslagsrannsóknir, staðfestir að Jörðin er að breytast hratt og að losun gróðurhúsalofttegunda frá mönnum sé mjög líklega ástæða þeirra breytinga. Langtíma breytingar í loftslagskerfum hafa fundist um allan hnöttinn, frá færslu í úrkomumunstri og í minnkandi hafís Norðurskautsins. Breytingarnar fylgja munstri sem búist var við af loftslagsbreytingum af mannavöldum – sem styrkir enn frekar að athafnir manna séu að hafa áhrif á loftslag.

    Í yfirlitsgreininni var farið yfir stöðu og framgang loftslagsvísinda frá síðustu IPCC skýrslu (AR4) sem gefin var úr árið 2007.  Háþróuðum mælingar- og eiginleikaaðferðum (e. detection and attribution’ methods) voru notaðar til að bera kennsl á langtíma breytingar í loftslagi og síðan athugað:

    Hvort þessar breytingar væru vegna náttúrulegs breytileika – t.d. vegna breytinga í orku frá Sólinni, vegna eldvirkni eða vegna náttúrulegra hringrása eins og El Nino? Ef ekki, hvort það væru vísbendingar fyrir því að athafnir manna væri orsökin? 

    Niðurstöðurnar sýna að loftslagskerfið er að breytast á margan hátt og fylgir því munstri sem spáð hefur verið með loftslagslíkönum. Eina sennilega útskýringin er sú að breytingarnar séu vegna athafna manna, þar á meðal vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.

    Peter Stott, hjá Bresku Veðurstofunni segir: “Nýlegar framfarir í mæligögnum og hvernig þau hafa verið greind, gefa okkur betri yfirsýn yfir loftslagskerfin en nokkurn tíma áður. Það hefur gefið okkur tækifæri til að bera kennsl á breytingum í loftslaginu og að greiða flækju náttúrulegs breytileika frá heildarmyndinni. Vísindin sýna samkvæma mynd af hnattrænum breytingum sem hafa greinileg fingraför losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Einnig sýna gögnin að loftslagsbreytingar eru komin fram úr breytingum í hitastigi – þær breytingar eru nú sýnileg um allt loftslagskerfið og í öllum krókum og kimum Jarðarinnar. Loftslagið er að breytast og það er mjög líklegt að athafnir manna séu orsökin.”

    Það eru einnig vísbendingar um að breytingar í úrkomu séu að gerast hraðar en búist var við. Þetta þarf að skoða betur, til að skilja ástæður þess og hvort þetta bendi til að breytingar í framtíðinni gætu orðið meiri en loftslagslíkön spá fyrir.

    Nokkrar breytingar

    • Hiastig eykst – hnattrænt hitastig jarðar hefur aukist um 0,75 °C á síðustu 100 árum og áratugurinn 2000-2009 var sá heitasti í sögu mælinga. Áhrif manna finnst á öllum meginlöndunum.
    • Breytingar í úrkomumunstri – á blautari svæðum Jarðar (þ.e. á svæðum á mið og háum breiddargráðum Norðuhvels og hitabeltinu) er úrkoma almennt að aukast á meðan þurrari svæði fá minni úrkomu.
    • Raki – yfirborðs- og gervihnattamælingar sýna að raki í lofthjúpnum hefur aukist síðastliðin 20-30 ár. Þessi aukning eykur vatnsmagn sem getur fallið við úrhellisrigningar, sem skapar flóðahættu.
    •  Hiti sjávar – mæld hefur verið aukning í hitastigi sjávar síðast liðin 50 ár í Altantshafinu, Kyrrahafin og Indlandshafi. Þessi aukning er ekki hægt að tengja við breytingar í sólvirkni, eldvirkni eða breytingum í sjávarstraumum, líkt og El Nino.
    • Selta – Atlantshafið er saltara á heittempruðum breiddargáðum. Það er vegna aukinnar uppgufunar úr hafinu vegna aukins hita. Til langs tíma þá er búist við að hafssvæði á hærri breiddargráðum verði minna sölt vegna bráðnuna jökla og jökulbreiða og meiri úrkomu.
    • Hafís – útbreiðsla hafíss við sumarlágmark á Norðurskautinu er að minnka um 600 þúsund ferkílómetra á áratug, sem er svæði svipað að flatarmáli og Madagaskar [6 sinnum flatarmál Íslands]. Þó það sé breytileiki frá ári til árs, þá er langtímaleitnin í þá átt að ekki er hægt að útskýra það án athafna manna.
    • Suðurskautið – það hefur orðið smávægileg aukning í hafís Suðurskautsins frá því gervihnattamælingar hófust árið 1978. Þessi breyting er í samræmi við sameiginleg áhrif af aukningu í gróðurhúsalofttegundum og minnkandi ósonlags. Þau áhrif valda því að hafís eykst á sumum svæðum, t.d. Rosshafi og minnkar á öðrum svæðum, t.d. Amundsen-Bellingshausenhafi.

    Heimildir og ítarefni

    Greinina má finna í tímaritinu Wiley Interdisciplinary Reviews: Climate Change (áskrift): Detection and attribution of climate change: a regional perspective

    Fréttatilkynning Bresku Veðurstofunnar – Met Office, má finna hér: Climate change and human influence

  • Hver er jafnvægissvörun loftslags?

    Bloggfærslan er þýðing á mýtu af Skeptical Science um rannsóknir sem gerðar hafa verið á jafnvægissvörun loftslags. Verður sett á mýtu síðuna okkar innan skamms.

    Röksemdir efasemdamanna…

    Í nýlegri rannsókn Stephen Schwartz frá Brookhaven National Lab kemur fram að jafnvægissvörun loftslags jarðar við koldíoxíði sé einungis u.þ.b. einn-þriðji af því sem IPCC gerir ráð fyrir. Samkvæmt niðurstöðu Schwartz, þá hefur tvöföldun á styrk CO2 í andrúmsloftinu þau áhrif að hitastig hækkar að meðaltali um 1,1°C (Planet Gore)

    Það sem vísindin segja…

    Jafnvægissvörun loftslags hefur verið reiknað út frá beinum mælingum, með því að bera saman fyrri hitastigsbreytingar við náttúrulegt geislunarálag loftslags þess tíma. Mörg tímabil í jarðsögunni hafa verið rannsökuð á þennan hátt og það er almenn sátt um að jafnvægissvörun loftslags sé um 3°C

    Jafnvægissvörun er sýnd sem hnattræn breyting á hitastigi fyrir gefið geislunarálag (þ.e. °C breytingu fyrir ákveðið geislunarálag upp á W á fermetra). Almennt er þetta gefið upp sem sú hitastigshækkun sem tvöföldun styrks CO2 hefur í för með sér (það er frá 280 ppm til 560 ppm).

    Jafnvægissvörun loftslags út frá líkönum

    Fyrst var mat á jafnvægissvörun loftslags skoðað út frá loftslagslíkönum.

    • 1979 Charney skýrsla, tvö líkön frá Suki Manabe og Jim Hansen mátu jafnvægissvörunina vera á bilinu 1,5 til 4,5°C.
    • Forest 2002 notaði svokallað fingrafara nálgun á hitastig nútímans og kemur með niðurstöðu á bilinu 1,4 til 7,7°C.
    • Knutti 2005 notaði líkön (sett er inn mismunandi svörun sem svo er borin saman við árstíða svörun) til að finna jafnvægissvörun sem talið er vera á bilinu 1,6 til 6,5°C – með líklegasta bilið 3 til 3,5°C.
    • Hegerl 2006 skoðaði gögn úr steingervingafræði frá síðustu 6 öldum og reiknar út bilið 1,5 til 6,2°C.
    • Annan 2006 bar saman niðurstöður frá mörgum mismunandi aðferðum og þrengir jafnvægissvörunina á bilið 2,5 til 3,5°C.
    • Royer 2007 rannsakaði hitastigs svörun vegna CO2 á síðustu 420 milljón árum og ákvarðar að jafnvægissvörun loftslags geti ekki verið lægri en 1,5°C (besta samsvörun við 2,8°C).

    Jafnvægissvörun loftslags út frá beinum mælingum

    Það hafa verið gerðar nokkrar rannsóknar þar sem reynt er að reikna jafnvægissvörunina út frá beinum mælingum, óháð líkönum.

    • Lorius 1990 rannsakaði Vostok ískjarna gögn og reiknaði jafnvægissvörunina til að vera 3 til 4°C.
    • Hoffert 1992 endurgerði tvær fornloftslags gagnaskrár (eina kaldari, eina heitari) sem leiddi til niðurstöðu á bilinu 1,4 til 3,2°C.
    • Hansen 1993 skoðaði síðustu 20.000 ár þegar síðasta ísöld endaði og reiknaði með beinum mælingum að jafnvægissvörun loftslags væri 3 ± 1°C.
    • Gregory 2002 notaði athuganir á hitaupptöku sjávar til að reikna út jafnvægissvörun loftslags til að vera að minnsta kosti 1,5°C
    • Chylek 2007 rannsakaði tímabilið frá hámarki síðasta jökulskeiðs (e. Last Glacial Maximum) fram að byrjun nútíma (e. holocene). Jafnvægissvörunin er reiknuð út að vera á bilinu 1,3°C og 2,3°C.
    • Tung 2007 framkvæmdi tölfræðilega greiningu á svörun hitastigs á 20. öldinni vegna sveifla í sólinni og reiknar út bilið 2,3 til 4,1°C.

    Stephen Schwartz – Jafnvægissvörun loftslags upp á 1,1°C,

    Í nýlegri grein (e. Heat capacity, time constant and sensitivity of Earth’s climate system) er jafnvægissvörun loftslags ákvörðuð til að vera 1,1 ± 0,5°C (Schwartz 2007). Jafnvægissvörunin er reiknuð sem hlutfall af “tímafasta” loftslags og hnattrænni hitarýmd. “Tímafastinn”, sá tími sem loftslagskerfið er að ná jafnvægi eftir röskun, er lykilatriðið í þessari grein. Schwartz rannsakar niðurstöðurnar út frá greiningu á ólíkum tímaröðum og áætlar að tímafastinn sé 5 ár.

    Samt sem áður, eins og Schwartz bendir á í grein sinni, þá nær loftslagið jafnvægi á ólíkum hraða, eftir náttúru þess geislunarálags sem veldur röskuninni. Skammtíma breyting, eins og í eldgosi, hefur áhrif í stuttan tíma með fasta sem er fá ár. Langtíma aukning á styrk CO2 veldur því að jafnvægissvörun tekur áratugi. Eins og Schwartz bendir réttilega á “þar sem tímalengd af geislunarálagi eldgosa er stutt, þá getur verið að svörunartíminn sé ekki lýsandi fyrir það sem myndi einkenna endurnýjanlegt álag, eins og því sem kemur frá aukningu gróðurhúsalofttegunda vegna skorts á hitamerki vegna gegnumflæðis djúpsjávar”.

    Engu að síður síar Schwartz burt langtíma breytingar með því að taka leitnilínur tímaraðar gagnanna í burtu, sem hefur þau áhrif að frávik verða í áttina að tímafasta sem er styttri. Tímafastinn fyrir gögn þar sem ekki er búið að taka leitnilínuna í burtu gefur af sér tímafasta sem er 15 til 17 ár. Þar af leiðandi er mat tímafastans upp á 5 ár umdeilanlegur, sem er það gildi sem niðurstaðan byggir á.

    Nýjar upplýsingar 11. febrúar 2010: Vegna andsvara við grein (Schwartz 2008) Schwartz hefur hann uppfært mat sitt á jafnvægissvörun. Hann notar núna tímafastann 8,5 ár, sem leiðir til þess að jafnvægissvörun loftslagsins hjá honum verður 1,9 ± 1,0°C.

  • Hlýir sjávarstraumar hraða bráðnun Grænlandsjökuls

    Nýjar rannsóknir á bráðnun Grænlandsjökuls benda til þess að fjarðarbráðnun gegni lykilhlutverki í minnkun Grænlandsjökuls. Tvær greinar um málið birtust fyrir stuttu í Nature Geoscience. Mælingar á hitastigi sjávar í nokkrum fjörðum Grænlands, sýna óyggjandi hversu mikil áhrif hlýnandi sjávarstraumar hafa á jökulinn.

    Austur Grænland

    Fiammetta Straneo o.fl, gerðu ýmsar mælingar á sjónum þar sem Helheimajökull, einn af stærstu jökulstraumunum á Austur Grænlandi gengur í sjó fram í Sermilik firði. Þeir benda á mjög mikla blöndun á hlýrri sjó af landgrunninu og sjó í lokuðum firðinum og telja líklegt að núverandi hröðun í bráðnun jökulsins hafi farið af stað við miklar breytingar í straumum sjávar og lofthjúps.

    Sjór frá hlýrri breiddargráðum nær nú að Grænlandsjökli og hefur sett af stað hraðari bráðnun og massaminnkun hans. Þessi hlýji sjór fer um firði Austur Grænlands nokkuð hratt og nær hann því að flytja hita og bræða jökulsporðana nokkuð örugglega.

    Massabreeytingar í Grænlandsjökli (Velicogna 2009)

    Jökulbreiða Grænlands hefur misst massa hraðar og hraðar undanfarin áratug og hefur átt meiri þátt í hækkun sjávarstöðu en spáð var. Bráðnun vegna hærri lofthita er nokkuð sem hefur verið þekkt – en nú fyrst eru vísindamenn að átta sig á þætti hlýrra sjávarstrauma á bráðnun jökla.

    Grunur vísindamanna beindist að nýlegum breytingum í sjávarstraumum á Norður Atlantshafi, sem veitir nú hlýjum sjó á hærri breiddargráður en áður. Það sem hefur skort á til að sannreyna þær tilgátur hefur verið skortur á áreiðanlegum mælingar á ástandi sjávar, sérstaklega áður en þessi hröðun byrjaði. 

    Í júlí og september 2008 fóru fram umfangsmiklar mælingar á ástandi sjávar í Sermilik firði á Austur Grænlandi. Sermilik fjörður er 100 kílómetra langur og tengir Heilheimajökul við Irmingerhafið.

    Djúpt inn í firðinum fundu vísindamennirnir sjó sem var allt að 4°C. Vísindamennirnir notuðu einnig hitamælingar út frá hitamælum sem festir höfðu verið við 19 blöðruseli og tengdir við gervihnetti – er mældu dýpi og hita á þeim slóðum sem selirnir voru. Þær mælingar sýndu að hitinn jókst milli júlí og desember, en að tiltölulega heitt var þó allt árið í kring. 

    Þetta er fyrsti rannsóknarleiðangurinn í þessa firði sem sýnir hversu öflugir hafstraumar við Austur Grænland er við varmaflutning og að stórar breytingar í sjávarstraumum Norður Atlantshafsins eru að hafa töluverð áhrif á bráðnun jökla á því svæði.

    Vestur Grænland

    Sjávarhitabreytingar við Vestur Grænland frá 1991-2006 – úr grein Holland o.fl. (smella á til að stækka).

    Eric Rignot o.fl. rannsökuðu þrjá jökulfirði á Vestur Grænlandi og fundu að bráðnun jökuls  frá heitum sjó væri svipað að mælikvarða og massalosun vegna borgarísjakamyndana – en það var þó mismunandi milli jökla.

    Með nákvæmum mælingum á sjávarstraumum, hita og seltu fundu vísindamennirnir út að samtals væru jöklarnir að missa massa mun hraðar við mörk sjávar og jökuls undir yfirborði sjávar, en á yfirborði sjálfs jökulsins. Þetta bendir til þess að heitari sjór sé mikilvægur ef ekki mikilvægasti þátturinn í hinni auknu hopun jökla á Vestur Grænlandi – en hingað til hefur mest verið horft til yfirborðsbráðnunar, en einnig á aukinn skriðhraða og kelfingu í sjó fram, vegna meira vatns við botn jöklanna.

    Þetta passar vel við niðurstöður rannsókna  Fiammetta Straneo o.fl sem minnst var á hér ofar, á Helheimajökli, en einnig passar þetta vel við niðurstöður rannsókna á sjávarhita sem birt var í Nature Geoscience árið 2008 (Holland o.fl).

    Á síðustu árum hafa vísindamenn mælt aukinn hraða bráðnunar Grænlandsjökuls, en aukinn lofthiti hefur aukið á massaminnkun á yfirborði – á meðan snjókoma hefur aukist lítillega. Þetta ásamt fyrrnefndri bráðun við jökulsporðinn hefur þrefaldað massalosun Grænlandsjökuls milli áranna 1996 og 2007.

    Bráðnun jökla undir yfirborði sjávar býr til iðustrauma kalds ferskvatns frá jöklinum og hlýs sjávar úr neðri lögum sjávar, þannig að það verður meiri blöndun, sjórinn við jökulinn hlýnar og bræðir meira. Sjór sem er 3°C heitur, getur brætt nokkra metra á dag – eða hundruðir metra yfir heilt sumar.

    Rignot segir að þessi rannsókn bendi til þess að þetta samspil hlýrra sjávarstrauma og jökla verði að bæta við í loftslagslíkön – eigi þau að spá fyrir um afdrif Grænlandsjökuls við hlýnandi loftslag. Hingað til hafa loftslagslíkön átt erfitt með að gera grein fyrir þeirri hröðu atburðarrás sem hefur verið í gangi varðandi bráðnun Grænlandsjökuls og mögulega vanmetið áhrif hans til sjávarstöðubreytinga framtíðar.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin um Helheimajökul á Austur Grænlandi (áskrift): Straneo o.fl. 2010 – Rapid circulation of warm subtropical waters in a major glacial fjord in East Greenland

    Umfjöllun um grein Straneo o.fl: Team finds subtropical waters flushing through Greenland fjord

    Greinin um jökulfirðina á Vestur Grænlandi (áskrift): Rignot o.fl. 2010 – Rapid submarine melting of the calving faces of West Greenland glaciers

    Umfjöllun um grein Rignot o.fl: NASA Finds Warmer Ocean Speeding Greenland Glacier Melt

    Greinin eftir David Holland o.fl (2008): Acceleration of Jakobshavn Isbræ triggered by warm subsurface ocean waters

    Aðrar umfjallanir tengdar Grænlandi á loftslag.is má finna hér: Grænland

  • Hitastig janúar 2010 á heimsvísu

    Helstu atriðið varðandi hitastig janúarmánaðar á heimsvísu

    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir janúar 2010, með hitafráviki upp á 0,60°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar og var sá 4. heitasti janúar samkvæmt skráningum
    • Hitastig mánaðarins fyrir land var 0,83°C yfir meðaltali 20. aldar, og var því sá 12. heitasti samkvæmt skráningu. Landsvæði á suðurhvelinu voru með heitustu gildi fyrir janúarmánuði. Á norðurhvelinu, sem hefur hlutfallslega meira landsvæði, var hitastig yfir landi 18. heitasta samkvæmt skráningu.
    • Hitastig hafsins á heimsvísu í janúar 2010, var það næst heitasta, á eftir 1998, samkvæmt skráningu, með hitafrávik upp á 0,52°C yfir 20. aldar meðaltalið. Þetta er að hluta til  hægt að útskýra með virkni El Nino í Kyrrahafinu. Samkvæmt spám Loftslags spá miðstöðvar NOAA, þá mun El Nino standa yfir fram á vor (norðlægt) 2010.
    Jan_2010_NOAA
    Hitafrávik fyrir janúar 2010 – Viðmiðunartímabil 1971-2000

    Janúar 2010

    Sameinað hitafrávik fyrir land og haf í janúar 2010, var 0,60° C yfir meðaltali 20. aldar, sem leiðir til þess að mánuðurinn var sá 4. heitasti síðan mælingar hófust árið 1880. Meðalhitastig yfir landi á heimsvísu er það 12. heitasta fyrir janúar mánuði samkvæmt skráningu, með hitafrávik upp á 0,83°C yfir meðaltali 20. aldarinnar. Á myndinni hér að ofan, má sjá að hitastig var ofan við meðaltal yfir stærsta hluta landsvæða heimsins, punktarnir sýna hitafrávikin (rauðir punktar hærra hitafrávik, bláir punktar lægra hitafrávik, stærð punkta gefur til kynna stærð fráviksins). Mestu hitafrávikin mældust á háum breiddargráðum á norðurhveli jarðar, sérstaklega í Kanada, part af vesturhluta Bandaríkjanna og hluta af norðurhluta Rússlands. Kaldast var í vesturhluta Alaska, suðausturhluta BNA, norður Ástralíu og stærstum hluta Evrópu og Rússlands.

    Í Bretland upplifðu íbúar hitastig undir meðallagi í janúar 2010. Samkvæmt Met Office í Bretlandi, þá upplifðu íbúar Bretlands í heild kaldasta janúar síðan 1987 og 8. kaldasta janúar samkvæmt skráning síðan árið 1914. Skotar upplifðu kaldasta janúar síðan 1979. Á fyrstu tveimur vikum janúar, upplifðu Írar mjög kalt veður sem byrjaði í miðjum desember, sem endaði með kaldasta kuldakasti fyrir Írland síðan 1963, samkvæmt írsku Veðurstofunni. Flestir staðir á Írlandi upplifðu kaldasta janúar síðan 1985 og sá kaldasti síðan 1963 varð í Dublin og nágrenni.

    Samkvæmt Loftslagsmiðstöðinni í Peking (Beijing Climate Center), varð hluti Kína fyrir tveimur kuldaköstum. Fyrsta kuldakastið kom í fyrstu vikunni í janúar. Þann 6. janúar, fór hitastigið í Peking niður í -16,7°C, sem er það lægsta fyrir fyrstu 10 dagana í janúar frá því 1971. Annað kuldakastið kom á tímabilinu 17.-23. janúar, þegar hitastig féll um 10°C-25°C á tímabilinu á svæðum í norður Kína. Þrátt fyrir að hlutar Kína hafi upplifað svona lágt hitastig, þá varð meðalhitastig í Kína sem heild -4,5°C, sem er 1,4°C yfir 1971-2000 meðaltalinu. Samkvæmt skráningu í Sichuan, Yunnan og Gansu héruðunum, þá var þar heitasti janúar samkvæmt skráningu síðan árið 1951, á meðan Ghongqing, Guizhou, Shaanxi og Qinghai héruðin upplifðu næst heitasta janúar, samkvæmt skráningu.

    Í janúar 2010 var meðalhitastig fyrir Suðurhvelið sem heild (land og haf sameinað), 0,58°C yfir 20. aldar meðaltalið, sem er næst heitasti janúar síðan skráning hófst, á eftir 1998 sem var heitastur. Samt sem áður var hitastig yfir landi á Suðurhvelinu, sá heitasti samkvæmt skrám, sló eldra met um 0,02°C.

    Sjávarhitastig í janúar 2010 var hærra en meðaltalið á flestum hafsvæðum, með undantekningu af nokkrum svæðum, eins og Alaskaflóa, á háum breiddargráðum suður hafsins og upp með vesturströnd Suður-Ameríku. Sjávarhiti á heimsvísu var sá næst heitasti fyrir janúarmánuð síðan skráning hófst, með hitafrávik upp á 0,52°C yfir meðaltali 20. aldarinnar, aðeins 1998 var heitari. El Nino var í gangi í Kyrrahafinu í mánðuðinum. El Nino hefur aðeins misst styrkin en er þó talin munu standa fram á vor 2010 á Norðurhvelinu, samkvæmt Loftslagsspámiðstöð NOAA.

    Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastig fyrir október mánuð 2009.

    Janúar Frávik Röð
    (af 131 ári)
    Heitasti jan.
    samkv. skrám
    Á heimsvísu
    Land +0.83°C 12. heitasti 2007 (+1.74°C)
    Haf +0.52°C 2. heitasti 1998 (+0.56°C)
    Land og haf +0.60°C 4. heitasti 2007 (+0.81°C)
    Norðuhvel jarðar
    Land +0.85°C 18. heitasti 2007(+2,17°C)
    Haf +0.50°C 2. heitasti 1998 (+0,55°C)
    Land og Haf +0.63°C 6. heitasti 2007 (+1,15°C)
    Suðurhvel jarðar
    Land +0.77°C Heitasti 2006 (+0,75°C)
    Haf +0.55°C 2. heitasti 1998 (+0.58°C)
    Land og Haf +0.58°C 2. heitasti 1998 (+0.60°C)

    Í grafinu hérundir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:

    jan_2010_global_mean

    Heimildir og annað efni:

    Hitastig árið 2009
    NOAA – janúar 2010

  • Frétt: Hitastig ársins 2009

    Nú er komið árlegt yfirlit NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration) yfir helstu veðurfarsleg gögn ársins 2009 og hvernig þau eru í samanburði við önnur ár. Hér er það helsta sem kemur fram í greiningu NOAA varðandi hitastig, auk þess sem birt er áhugavert kort sem sýnir veðurfrávik ársins. Við munum væntanlega fjalla eitthvað um önnur gögn, t.d. frá NASA, í bloggfærslum eða fréttum á næstunni.

    Helstu atriði varðandi hitastig 2009 á heimsvísu

    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir 2009 var jafnt árinu 2006 í fimmta sæti samkvæmt skráningu NOAA, 0,56°C yfir meðaltali 20. aldarinnar.
    • Áratugurinn 2000-2009 eru þau heitustu síðan mælingar hófust, með meðalhitastig á heimsvísu upp á 0,54°C yfir meðaltali 20. aldarinnar. Þar með er met 10. áratugs síðustu aldar slegið nokkuð örugglega, en það var 0,36°C.
    • Hitastig hafsins á heimsvísu var það fjórða heitasta síðan mælingar hófust (jafnt 2002 og 2004) með hitastig upp á 0,48°C yfir meðaltal 20. aldarinnar
    • Hitastig yfir landi á árinu varð jafnt 2003, sem 7. heitasta árið síðan mælingar hófust, með gildið 0,77°C yfir meðaltal 20. aldarinnar.

    Hitastig á heimsvísu

    Öll árin á tímabilinu 2001 til 2008 voru á listanum yfir heitustu ár síðustu 130 árin, eða síðan skráning hófst (1880) og 2009 er engin undantekning þar á. Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir 2009 var 0,56°C yfir meðaltali 20. aldarinnar, jafnt 2006 sem 5. heitasta ár síðan 1880. Hitastig yfir landi var 0,77°C yfir meðaltal, sem þýðir að það er jafnt 2003 sem 7. heitasta árið samkvæmt skráningu. Hitastig hafsins var 0,48°C yfir meðaltali, jafnt 2002 og 2004 sem 4. heitasta síðan skráningar hófust. Áratugurinn 2000-2009 er sá heitasti síðan mælingar hófust á heimsvísu, með hitastig 0,54°C yfir meðalhitastig 20. aldar. Sem fyrr sagði sló þessi nýliðni áratugur met síðasta áratugar 20. aldar nokkuð örugglega.

    10 Heitustu árin (Jan-Des) Hitafrávik °C
    2005 0.62
    1998 0.60
    2003 0.58
    2002 0.57
    2009 0.56
    2006 0.56
    2007 0.55
    2004 0.54
    2001 0.52
    2008 0.48

    El-Nino-Southern Oscilation (ENSO) var í byrjun árs 2009 í köldum (La Nina) fasa, en í apríl byrjuðu fráviksmælingar að sína að hlýnun átti sér stað í hitastigi yfirborðs sjávar (SST) á öllum Nino svæðum í Kyrrahafinu. Svoleiðis ástand bendir til þess að La Nina ástandinu sé að ljúka og sé að skipta yfir í hlutlausan fasa. Í júní 2009 náði heiti fasinn (El Nino) yfirhöndinni og stóð yfir allt árið. El Nino ástand hefur að jafnaði áhrif til hækkunar á hitastig jarðar, svo dæmi sé tekið var 1998 mjög sterkur El Nino í gangi. Núverandi El Nino er talin munu standa fram á vormánuði.

    Leitni hitastigs

    Á síðustu öld hækkað hitastig á heimsvísu um nærri 0,06°C/áratug, en þessi leitni hefur hækkað í u.þ.b. 0,16°C/áratug á síðustu 30 árum. Það hafa verið 2 tímabil þar sem hitastig hefur hækkað. Fyrsta tímabilið byrjaði 1910 og endaði um 1945 og hitt byrjaði um 1976. Leitni hitastigsins á seinna tímabilinu hefur hækkað í samræmi við þær spár sem spáð var vegna aukningar styrks gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Mælingar hitastigs hefur einnig farið fram ofan við yfirborð jarðar síðastliðin 52 ár, með notkun loftbelgja og síðar (síðustu 30 ár) með gervihnöttum. Þessar mælingar styðja greiningar á leitni hitastigs, bæði í veðrahvolfinu (frá yfirborði upp í 10-16 km) og í heiðhvolfinu (10-50 km yfir yfirborði jarðar). Sjá mynd hérundi.

    global_in_situ_temp_anomal-and-trends
    Mynd af heimasíðu NOAA

    Ein bestu gögnin varðandi mælingar hitastigs í efri hvolfum andrúmsloftsins eru hjá Radiosonde Atmospheric Temperature Products for Assessing Climate (RATPAC) dataset. Gögn úr 850-300 mb benda til að leitni hitastigs á tímabilinu 1958-2009 í miðju veðrahvolfsins sé svipuð leitni hitastigs við yfirborð jarðar; 0,12°C/áratug fyrir yfirborð og 0,15°C/áratug fyrir miðju veðrahvolfsins. Síðan 1976 hefur miðja veðraholfsins hitnað um 0,17°C/áratug. Árið 2009 var hitastig mið-veðrahvolfsins 0,40°C yfir 1971-2000 meðaltalið og var þar með það 7. heitasta.

    Þróun hitastigs frá 1880

    global-jan-dec-error-bar-pg
    Þróun hitastigs frá árinu 1880 ásamt skekkjumörkum. Mynd af heimasíðu NOAA

    Svæðisbundið hitastig

    Hitastig var hærra en meðaltal fyrir árið 2009 í stærstum hluta jarðar. Hæsta hitastigið mældist á háum breiddargráðum á norðuhveli jarðar og einnig var heitt í stærstum hluta Evrópu og Asíu, einnig í Mexíkó, Afríku og Ástralíu. Hitastig mældist undir meðallagi í Suðurhöfunum, hlua af norð-austur hluta Kyrrahafsins, mið Rússlandi og á svæði sem nær yfir suður Kanada og norðurhluta Bandaríkjanna.

    Hitafrávik fyrir árið 2009, viðmiðunartímabil 1971-2000
    Hitafrávik fyrir árið 2009 – Viðmiðunartímabil 1971-2000 (Mynd af vefsíðu NOAA)

    Veðurfrávik

    Ýmis eftirtektarverð veðurfrávik voru árið 2009, t.d. hitamet í Ástralíu á sumarmánuðum þar. Í janúar voru mörg hitamet slegin á svæðinu, suður hluta Ástralíu og stór hluti Victoria fengu hæsta háa dagshitastig síðan 1939. Að sama skapi upplifðu nokkur svæði í norður Ástralíu met kulda. Önnur hitabylgja gekk svo yfir í Ástralíu í febrúar, í þetta skiptið var einnig mjög þurrt á sama tíma sem orsakaði meðal annars skógarelda. Í Evrópu voru aftur á móti kuldar í norður og austurhluta svæðisins í byrjun janúar. Hitastig á Bretlandi hafði ekki mælst svo lágt þar í fjölda ára. Meðalhitastig í Bretlandi fyrir veturinn 2008-2009 var 3,2°C.

    Nánar er hægt að skoða ýmis veðurfrávik á myndinni hérundir (vinsamlega smellið á myndina til að fá hana í fullri stærð – myndin er með enskum texta).

    significant_climate_anomalies_and_events_2009
    Marktæk veðurfrávik og atburðir fyrir árið 2009 – Mynd af heimasíðu NOAA – Á ensku – Vinsamlega smellið á myndina til að fá hana í fullri stærð

    Heimildir:

    Heimasíða NOAA greining á hitastigi ársins 2009

  • Frétt: Hitastig októbermánaðar á heimsvísu

    Helstu atriðið varðandi hitastig októbermánaðar á heimsvísu

    • Sameinað hitastig fyrir bæði land og haf fyrir október 2009, mánuðurinn var sá 6. heitasti samkvæmt skráningum, með hitafráviki upp á 0,57°C yfir meðalhitastigi 20. aldarinnar, sem er 14,0°C.
    • Hitastig fyrir land var 0,82°C yfir meðaltali 20. aldar, og var því sá 6. heitasti samkvæmt skráningu.
    • Hitastig hafsins á heimsvísu í október gerði mánuðinn þann 5. heitasta samkvæmt skráningu, með hitafrávik upp á 0,50°C yfir 20. aldar meðaltalið, sem er 15,9°C.
    • Fyrir árið, frá janúar til loka október, er sameinað hitastig fyrir bæði land og haf 14,7°C. Tímabilið er jafnheitt og tímabilið fyrir 2007, í 5. sæti með hitafrávik upp á 0,56°C.
    hitafravik_okt
    Hitafrávik október 2009 – Viðmiðunartímabil 1971-2000

    Athugasemd: Tölurnar eru birtar með fyrirvara og eru bráðabirgðatölur. Röð og hitafrávik geta breyst eftir því sem fleiri gögn berast. M.a. vantar gögn frá Kanada.

    Október 2009

    Sameinað hitafrávik fyrir land og haf í október 2009, var 0,57°C yfir meðaltali 20. aldar, sem verður til þess að mánuðurinn er 6. heitasti október frá því mælingar hófust árið 1880. Svipað er með land hitastigið sem á heimsvísu er 6. heitasta október samkvæmt skráningu. Á myndinni hér fyrir ofan má lesa út helstu upplýsingar um hitafrávik eftir svæðum, punktarnir sýna hitafrávikin (rauðir punktar hærra hitafrávik, bláir punktar lægra hitafrávik, stærð punkta gefur til kynna stærð fráviksins). Í stærstum hluta Bandaríkjana mældist mánuðurinn almennt mjög kaldur miðað við meðaltalið, einnig var kaldara í Skandinavíu. Á móti kemur svo að svæði eins og t.d. í Alaska og stórum hluta Rússlands voru mun heitari en meðaltal mánaðarins.

    Á stórum svæðum í Bandaríkjunum (utan Alaska) var hitastig almennt mikið undir meðaltali mánaðarins fyrir svæðið. Á þessu svæði mældist hitafrávikið meðal þeirra 5 köldustu síðan mælingar hófust. Hitastig var undir meðallagi á 8 af 9 loftslagssvæðum Bandaríkjanna, þar af voru fimm svæði sem voru verulega undir meðallaginu.

    Á Nýja Sjálandi var hitastig undir meðallagi, svo mikið að mánuðurinn varð kaldasti október síðan 1945 þar. Hitastigið á landsvísu var aðeins 10,6°C, sem er 1,4°C undir meðaltalinu fyrir október. Á mörgum svæðum á Nýja-Sjálandi mældist hitastig 2,0°C undir meðallaginu.

    Aftur á móti mældist hitastigið í Darwin, Ástralíu, hærra en venjulega í október 2009. Meðal hámarkshitastig í borginni mældist 34,8°C í október 2009, sem er það hæsta fyrir alla mánuði á því svæði.

    Sjávarhitastig í október 2009 var hærra en meðaltal á flestum hafsvæðum. Á heimsvísu mældist hitastig hafsins það 5. heitasta samkvæmt skráningum, með hitafrávik upp á 0,50°C yfir 20. aldar meðaltalið. El Nino hefur haldið áfram ótrauður í október. Sjávarhiti á stórum svæðum við miðbaug í Kyrrahafi var 1,0°C yfir meðaltalinu. El Nino er talin munu styrkjast og verða áfram til staðar veturinn (á norðurhveli) 2009-2010, samkvæmt NOAA.

    Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastig fyrir október mánuð 2009.

    Október Frávik Röð
    (af 130 árum)
    Heitasti okt.
    samkv. skrám
    Á heimsvísu
    Land +0.82°C (+1.48°F) 6. heitasti 2005 (+1.07°C/1.93°F)
    Haf +0.50°C (+0.90°F) 5. heitasti 2003 (+0.58°C/1.04°F)
    Land og haf +0.57°C (+1.03°F) 6. heitasti 2003 (+0.71°C/1.28°F)
    Norðuhvel jarðar
    Land +0.83°C (+1.49°F) 6. heitasti 2003 (+1.20°C/2.16°F)
    Haf +0.53°C (+0.95°F) 6. heitasti 2006 (+0.65°C/1.17°F)
    Land og Haf +0.64°C (+1.15°F) 5. heitasti 2003 (+0.85°C/1.53°F)
    Suðurhvel jarðar
    Land +0.78°C (+1.40°F) 6. heitasti 2002 (+1.09°C/1.96°F)
    Haf +0.49°C (+0.88°F) 3. heitasti 1997 (+0.59°C/1.06°F)
    Land og Haf +0.53°C (+0.95°F) 5. heitasti 1997 (+0.61°C/1.10°F)

    Í grafinu hérundir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:

    hitafravik_okt_sulurit

    Heimildir og annað efni:

    Hitafrávik september 2009
    NOAA – október 2009