Andrés Ingi Jónsson alþingismaður birti nýlega á Twitter síðunni sinni mynd af útsaumi sem hann gerði. Útsaumurinn vakti athygli loftslag.is og báðum við hann um að senda okkur myndina og útskýra hugmyndina. Hér má sjá útsauminn.
Mynd: Andrés Ingi Jónsson, útsaumur af árlegu fráviki meðalhita Jarðar síðustu 140 árin
Aðspurður þá sagðist hann hafa langað til að föndra eitthvað í páskafríinu og datt honum þá í hug að sauma út þetta frábæra súlurit frá NOAA, sem sem sýnir árleg frávik frá meðalhita Jarðar síðustu 140 árin. Enda er þetta ótrúlega skýr framsetning á áhrifum loftslagsbreytinga af mannavöldum. Svo fannst honum handavinnan enn skemmtilegri en hann bjóst við og sagan sem súlurnar sýna svo spennandi að hann kláraði stykkið löngu fyrir páska! Hann þarf því að finna sér eitthvað annað til að dunda sér við yfir páskana.
Okkur á loftslag.is finnst þetta mjög áhugavert og værum alveg til í að heyra ef fleiri frambjóðendur fyrir næstu alþingiskosningar vilja deila með okkur einhverjum hugleiðingum, listaverkum eða hverju öðru því sem tengist loftslagsmálunum, það gæti verið gaman að því.
Samkvæmt gögnum NASA GISS þá var s.l. nóvember sá hlýjasti í sögu mælinga. Nóvember mældist 1,13°C yfir viðmiðunarárin, 1951-1980. Ef hitafrávikið fyrir desember verður um 0,7°C eða hærra (samkvæmt lauslegum útreikningum okkar á loftslag.is) þá fellur hitametið fyrir árið, en hitametið er frá 2016 og var hitafrávikið fyrir árið þá 1,01°C. Síðast þegar hitafrávikið fyrir desember fór undir 0,7°C var árið 2013 þegar það var 0,69°C.
Það bendir því ýmislegt til að hitafrávik ársins 2020 verði með allra hæsta móti og jafnvel gæti það mælst hlýjasta ár frá upphafi mælinga. Yfirleitt eru hitamet slegin þegar El Nino ástand er í Kyrrahafinu, en það er ekki svo núna, þannig að það yrðu tiltölulega óvænt tíðindi að hitamet fyrir árið sé slegið þegar ekki er El Nino.
Samkvæmt gögnum NOAA þá er árið í járnum og gæti endað á hvorn vegin sem er, sjá mynd.
Í þessu myndbandi þá ræða nokkrir vísindamenn um bráðnun jökulhvelsins á Suðurskautinu. Með því að takmarka hækkun hitastigs þá má hugsanlega halda aftur af sjávarstöðubreytingum, eða hvað? Fróðlegt myndband þar sem nokkrir vísindamenn velta fyrir sér sviðsmyndum framtíðarinnar varðandi sjávarstöðubreytingar og tengingu við bráðnun á jökla á Suðurskautinu.
Þetta myndband er úr smiðju Peter Sinclair sem hefur gert myndbönd undir heitinu Greenman3610 á YouTube og hefur oft verið vísað í þau hér á Loftslag.is.
Fróðlegt myndband frá Potholer54, þar sem hann, enn og aftur, kryfur loftslagsmýtur til mergjar. Hann gerði þetta myndband til að draga saman 10 helstu mýtur sem hann hefur skoðað í fyrri myndböndum á síðustu 10 árum.
Potholer54 heitir raunverulega Peter Hadfield og er jarðfræðingur og vísindablaðamaður. Hann hefur í mörg ár haldið úti Potholer54 rásinni á Youtube þar sem hann hefur m.a. tekið upp allskyns mýtur og fjallað um þær á málefnalegan hátt.
Það er vetur hér á Norðurhveli og þá gerist það stundum að einhver svæði upplifa kuldaköst. Í eftirfarandi myndbandi er farið örstutt yfir hvaða mögulegu áhrif eru af hækkandi hita og minnkandi hafís á Norðurskautinu á hitastigið sunnar. Í myndbandinu útskýra vísindamenn hvernig hækkandi hitastig á Norðurskautinu getur valdið kuldaköstum í tempruðu beltunum.
Þetta myndband er úr smiðju YaleClimateConnections og er Peter Sinclair framleiðandi. Peter hefur einnig gert myndbönd undir heitinu Greenman3610 á YouTube og hefur oft verið vísað í þau hér á Loftslag.is.
Þeir sem fylgjast með breytingum á loftslagi vita að árið 2014 var það heitasta frá upphafi mælinga og að árið 2015 sló það met all rækilega. Nýjustu fréttir af hitastiginu það sem af er árinu 2016 eru sláandi.
Janúar 2016 var sá heitasti frá upphafi mælinga samkvæmt gögnum frá NASA, eða 1,14°C yfir meðalhitastigi áranna 1951-180. Það var þó aðeins forsmekkurinn af því sem febrúar bauð okkur upp á.
Febrúar 2016 var með mesta hitafrávik allra mánaða frá upphafi mælinga eða 1,35°C yfir meðalhita 1951-1980.
Mánaðargildi hnattræns hitafráviks samkvæmt NASA frá árinu 1880 til febrúar 2016. Sýnt sem frávik frá meðalhitastigi áranna 1951-1980. Rauða línan sýnir 12 mánaða hlaupandi meðaltal. Mynd: Stephan Okhuijsen, datagraver.com.
Vissulega er El Nino í gangi í Kyrrahafinu og er hann megin ástæða þess að met eru að falla núna. Sveiflur á milli El Nino (heitt) og La Nina (kalt) í kyrrahafinu eru almennt stærstu sveiflurnar sem hafa áhrif ofan á hina undirliggjandi hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda. Þessi El Nino sem er nú í gangi er svipað öflugur og sá sem sló öll met árið 1998. Sá toppur er ekki eins merkilegur að sjá núna og fyrir nokkrum árum sem sýnir hversu mikil hin undirliggjandi hnattræna hlýnun er í raun og veru.
Hin undirliggjandi hlýnun sést hvað best ef skoðuð er leitni gagnanna.
Leitni hnattræns hitafráviks samkvæmt NASA. Mynd Tamino – tamino.wordpress.com.
Eins og sést vel þá eru miklar sveiflur, en ef eingöngu væru sveiflur en ekki undirliggjandi hnattræn hlýnun, þá myndu metin ekki falla svona ár eftir ár, jafnvel þó El Nino væri í gangi.
Einhverjir vilja reyndar mæla hitastigið í neðri lögum lofthjúpsins með gervihnattamælingum, en jafnvel gervihnattamælingar sýna hnattrænt hitastig í hæstu hæðum:
Hnattrænt hitafrávik samkvæmt RSS. Mynd Tamino – tamino.wordpress.com.
Ef einhver telur að það sé búið að vera óvenjulega kalt hér á landi miðað við þessi miklu met, þá er ástæða fyrir því. Þótt vissulega sé ekki jafn kalt og var í köldum árum tuttugustu aldar, þá er enn kuldafrávik í kringum landið og þá sérstaklega suður af landinu. Miðað við heita loftið sem er um mest allt norðurhvel jarðar, þá verður að teljast líklegt að hér hitni aftur á næstu misserum, þó ómögulegt sé að spá fyrir um það.
Yfirborðsgildi hnattræns hitafráviks fyrir febrúar 2016 samkvæmt NASA sýnt sem frávik frá meðalhitastigi áranna 1951-1980. Mynd: NASA/GISS
Eins og sést þá var Norðurskautssvæðið óvenju heitt í febrúar. Það endurspeglast nokkuð vel í hafísútbreiðslu fyrir febrúar:
Hafísútbreiðsla noðurskautsins í febrúar 2016 samanborið við fyrri ár. Mynd NSIDC.org
Við endum á góðu myndbandi eftir Peter Sinclair þar sem fjallað er um muninn á mælingum á hnattrænu hitastigi:
Það kemur líklega fæstum á óvart sem fylgjast með loftslagsmálum að árið í fyrra var hnattrænt mjög heitt. Það hefur fengist staðfest hjá öllum stærstu aðilunum sem halda úti mælingum á hnattrænum hita jarðar (GISTEMP, NOAA, HadCRUT4, Cowtan&Way, JMA + Berkeley Earth).
Hér fyrir neðan er mynd af yfirborðshita jarðar frá GISTEMP, hér sem frávik frá reiknuðu meðaltali 19. aldar. Greinilegt er að þetta ár sker sig úr í hita frá upphafi mælinga.
Hins vegar eru vissulega til þeir sem einblína mjög staðbundið á veður hér á Íslandi og álykta út frá því.
Stóra málið sem liggur fyrir COP21 loftslagsráðstefnunni í París er að ríki heims vilja reyna að ná samkomulagi um að taka á loftslagsvandanum og reyna að halda hlýnun jarðar innan 2°C markinu. Það virðist þó vera eitt stórt atriði varðandi það sem gæti hugsanlega valdið töluverðum vanda við lausnina, en það er einfaldlega þegar allir þættir eru lagðir saman, þá virðist sem dæmið gangi ekki alveg upp.
Eins metnaðarfullt og COP21 ráðstefnan er, þá eru ákveðnir þættir sem vinna á móti og gera verkefnið flóknara. T.d. er tímaþátturinn erfiður og flækjustig verksins sem framundan er líka flókið. Sumir vísindamenn og sérfræðingar telja að 2°C markmiðið sé nú þegar utan seilingar vegna þess að biðin sé nú þegar orðin of löng og of lítið hafi verið gert hingað til. Verkefnið sé þannig vaxið að erfitt sé að ná markmiðinu án þess að það hafi mikil áhrif á efnahag heimsins eða að sumar forsendur fyrir árangri séu tækni sem ekki sé enn búið að finna upp.
Kevin Anderson, aðstoðarframkvæmdastjóri Tyndal Center for Climate Research í háskólanum í Manchester (hann kom nýlega til Íslands og hélt fyrirlestur) hefur m.a. hrært upp í umræðunni um 2°C markið nýlega þar sem hann sakar starfsfélaga sína á sviði loftslagsrannsókna um að velja að ritskoða eigin rannsóknir. Anderson gerir sérstaklega athugasemdir við að mörg módel treysti á “neikvæða losun” með ókominni tækni sem á að fjarlægja koltvísýring úr loftinu. Þessi tækni, tiltekur hann að sé enn aðeins huglæg og ekki í hendi. Aðrir hafa einnig tekið undir með Anderson og telja að tíminn til að ná 2°C markinu sé hugsanlega nú þegar runninn úr greipum okkar.
Markmiðin eru einnig hlaðin óvissu, t.d. varðandi það hversu mikil kolefnislosun sé í raun örugg og hvernig aðrir ófyrirséðir þættir geti haft áhrif á útkomuna (hversu viðkvæmt er loftslagið?). 2°C markið er mögulega ekki öruggt til að byrja með, kannski þyrfti í raun að setja markið enn neðar (sem myndi gera verkefnið enn flóknara).
Á myndinni hér að ofan má sjá að árið 2014 voru losuð um 52,7 gígatonn af gróðurhúsalofttegundum – mælt í svokölluð CO2 jafngildseiningum (CO2 equivalents). Miðað við núverandi þróun í losun gróðurhúsaslofttegunda þá stefnum við um eða yfir 4°C hækkun (þó nokkur óvissa) á hitastigi jarðar (miðað við 1880). Miðað við útgefin vilyrði þjóða heims um losun á næstu árum og áratugum (fram til 2030) þá erum við enn yfir markinu. Bláa línan sýnir svo mögulega þróun í losun gróðurhúsalofttegunda til að halda okkur innan 2°C markinu (það er töluvert gap á milli hennar og núverandi vilyrða þjóða heims). Það er fátt sem bendir til þess á núverandi tímapunkti að síðasta leiðin verði valin í París. Að sjálfsögðu er hægt að skerpa á markmiðunum í framtíðinni og reyna að draga enn meira úr losun þegar fram líða stundir. Tíminn virðist ekki ætla að vinna með okkur í þessu risavaxna verkefni, en það verður þó fróðlegt að fylgjast með árangrinum á COP21 í París og að sjá fram á hvaða væntingar verður hægt að hafa til þess sem þar gerist fyrir framtíðina – þeim mun afgerandi skref sem eru tekin þar, því minna flækjustig í framtíðinni.
Heimildir og ýtarefni:
Þessi færsla byggist lauslega á eftirfarandi grein af vef The Washington Post:
The magic number eftir Chris Mooney – sem við getum mælt með að lesendur okkar glöggvi sig á, enda enn ýtarlegri en hér.
Hnattrænt hitafrávik á þessu ári gæti farið 1°C yfir meðalhitastig þess sem var fyrir iðnbyltingu, samkvæmt Met Office (bresku veðurstofunni). Það yrði langhæsti hiti sem mælst hefur frá upphafi mælinga og markar ákveðin tímamót í loftslagssögu jarðar, sem nú stýrist í grófum dráttum af losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.
Árin 2015 og 2016
Ef skoðuð eru gögn frá janúar til september, þá sýna gögn frá HadCRUT að hitafrávik það sem af er þessa árs er um 1,02 °C (±0.11 °C) ofan við hitastig fyrir iðnbyltingu.
Eins og við fyrri hitamet jarðar er það El Nino sem keyrir hitastigið upp, ofan á hinni undirliggjandi hnattrænu hlýnun af mannavöldum. Þróunin minnir um margt á undanfara metársins 1998, en það ár var um skeið lang heitasta árið frá upphafi mælinga eða fram til 2005. Árin 2012 og 2014 hafa samkvæmt flestum mælingum verið heitari og það án sterkra áhrifa El Nino. Ef þróunin heldur fram sem horfir, þá verður 2015 heitasta árið frá upphafi mælinga – en þar með er ekki öll sagan sögð, því áhrifa El Nino gæti gætt meira árið 2016 og það því slegið það met sem 2015 slær eða að minnsta kosti verið nálægt því.
Þó svo fari að árin 2015 og 2016 verði þau heitustu frá upphafi, þá er búist við því að ofanáliggjandi náttúrulegar sveiflur haldi áfram að hafa áhrif á hnattrænan hita og því mun hlýnunin ekki halda stanslaust áfram á næstu árum – þó undirliggjandi hnattræn hlýnun haldi áfram.
Áhrifin seinvirk
Hitastigið eftir þetta ár, verður þá langt komið með að vera hálfnað upp í tveggja gráðu markið (2°C) sem er það hitastig sem oft er notað núorðið í alþjóðasamskiptum sem mörk ásættanlegrar hækkunar hitastigs. Þótt flestir telji það ásættanlegt, þá eru ýmsir sem telja þá hækkun hitastigs óásættanlega m.a. vegna hækkunar sjávarstöðu, auk þess sem hliðarafurð losunar CO2 út í andrúmsloftið, súrnun sjávar, getur verið orðið vandamál fyrr.
Magn heildarlosunar á CO2 út í andrúmsloftsins verður lykillinn að því hversu mikil hin hnattræna hlýnun af mannavöldum verður. Það er talið að ef losað verði að mesta lagi 2.900 gígatonnum af CO2 út í andrúmsloftið, þá muni vera yfir 66% líkur á því að hægt verði að takmarka hlýnunina við 2°C. Í lok árs 2014 var búið að losa yfir 2.000 gígatonnum af CO2, sem þýðir að mannkynið hefur lítið borð fyrir báru og að nú þegar sé töluverð hlýnun í viðbót í kortunum. Þó það taki langan tíma fyrir jörðina að hitna, þá tekur enn lengri tíma fyrir sjávarstöðu að ná jafnvægi miðað við ákveðið hitastig þ.e. jafnvægi þarf að komast á vegna þenslu sjávar vegna aukins sjávarhita og vegna bráðnunar jökla.
Það er því þannig að um 2/3 hefur verið losað af því CO2 sem mun mögulega valda um 2°C hækkun eftir iðnbyltingu og á sama tíma hefur hitastigið aukist um helming af því – en á sama tíma hefur sjávarstaða eingöngu hækkað um 20 sm frá því fyrir iðnbyltingu eða 1/3 af því sem talið er að geti orðið ef hitastigið nær stöðugu 2°C hitafráviki um aldamótin 2100.
Er mögulegt að koma í veg fyrir að hitinn fari yfir 2°C markið?
Rannsóknir benda til að enn sé hægt hægt að koma í veg fyrir að hitinn fari yfir 2°C markið, hins vegar er það svo að því seinna sem dregið verður úr losun, því hraðar verður mannkynið að draga úr losun til að svo verði.
Í dag eru 6 ár liðin frá því að loftslagsvefurinn loftslag.is fór í loftið. Margt hefur gerst á þessum 6 árum og mörg loftslagstengd met fallið, ís bráðnað, bæði á láði og legi o.s.frv. Hlýnunin heldur sínu striki, en þar fyrir utan hefur umræðan farið bæði fyrir ofan garð og neðan og lítið þokast í rétta átt (þó auðvitað megi sjá einhver batamerki ef vel er að gáð). Loftslagsfundir hafa verið haldnir á ári hverju, sá fyrsti sem við fylgdumst með á þessum vettvangi var Kaupmannahafnarráðstefnan sem varð meiriháttar flopp – kannski vegna þess að afneitunarsinnar komust upp með að búa til plathneyksli sem kallað var climategate rétt áður en fundurinn hófst og má færa rök fyrir því að þeir hafi orðið valdir að miklum skemmdarverkum sem töfðu alvöru niðurstöður viðræðna í mörg ár (íslenski bloggarar og fleiri dreifðu meðal annars ósómanum). Stjórnmálamenn virðast ekki vera mjög atkvæðamiklir þegar á brattann sækir og skortir dug og þor og því fór sem fór og ekkert raunverulegt var ákveðið þá til að stemma stigu við hlýnun jarðar og einnig hefur heldur lítið gerst eftir það. Flestir COP fundirnir síðan hafa verið frekar atkvæðalitlir, en nú er enn og aftur stefnt að því að ná einhverju raunverulegu samkomulagi. Það á að gerast í París í desember og eru margir fullir vonar og eftirvæntingar um hvað gerist þá…eftir 6 ára tafir (ef miðað er við Kaupmannahafnarfloppið) – en enn meiri tafir ef litið er til lengri tíma og ef við rýnum í öll þau ár sem vísindin hafa verið ljós um orsakir og afleiðingar óheftrar losunar gróðurhúsalofttegunda útí andrúmsloftið. Það virðist jákvæð stemning fyrir fundinum í desember, en með fullri virðingu fyrir stemningunni, þá er eigi enn sopið kálið þó að í ausuna sé komið. Á meðan stemningin mallar fyrir loftslagsfundinn í París þá er á sama tíma, hér á landi, verið að leggja drög að miklum olíufundum á Drekasvæðinu – og það virðast því ekki allir vera búnir að tengja í þessum efnum og margir sjá fyrir sér olíugróða með betri tíð og blóm í haga, en ekki er allt sem sýnist í þeim efnum.
Mynd af kettlingi að fagna einvherju og þar sem kettlingar eru eitt vinsælasta myndefnið á netinu, þá var ekki úr vegi að skella inn einni smellinni kattarmynd
Árið 2014 var hlýjasta ár frá upphafi mælinga og árið í ár stefnir í að verða hlýrra (eins og staðan er í dag) og því verður árið í ár hugsanlega hlýjasta ár frá upphafi mælinga (og slá þar með met síðasta árs). Hafísinn hefur sjaldan verið minni á norðurslóðum, sem er einn af þáttunum sem fylgst er með varðandi breytingar í loftslagi. Það virðist vera orðin regla að hvert ár sem líður fer á listann yfir allavega 10 heitustu árin frá upphafi mælinga (það á við um öll 6 árin sem loftslagsvefurinn hefur verið í loftinu) og svo eru metin líka slegin inn á milli. Hafísmetið var t.d. slegið árið 2012, þar á undan var það met slegið árið 2007. Eftir 2007 metið, þá var talað um að hafísinn væri að jafna sig árin á eftir – jafnvel töldu einhverjir sig sjá vöxt hafíssins – en svo skall árið 2012 á með nýju meti. Eftir 2012 metið eru menn aftur farnir að tala um að hafísinn sé að jafna sig og/eða jafnvel vaxa…sem virðist enn og aftur vera óskhyggja sem ekki byggir á raunverulegum athugunum. Alveg sama hversu mörg met eru slegin varðandi hitastig á heimsvísu, þá virðast þeir alltaf vera til sem tala um að ekkert hafi hlýnað í X mörg ár eða jafnvel kólnað, með tilvísun í einhverjar misgáfulegar samsæriskenningar og/eða bara helbera afneitun. Afneitunin virðist þó á undanhaldi – sem er jákvætt og vonandi hverfur hún eins og dögg fyrir sólu í hlýnandi heimi. Það virðist þurfa róttækar ráðstafanir til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar hlýnunar jarðar og það er vonandi að Parísarfundurinn verði ekki enn eitt floppið í boði afneitunarinnar og misvitra stjórnmálamanna sem ekki sjá í gegnum lygavef afneitunarinnar. Og við höfum ekki einu sinni minnst á illa tvíbura hlýnunar Jarðar, sem er súrnun sjávar…en það eitt og sér ætti að fá allt hugsandi fólk til að gefa óheftri losun gróðurhúsalofttegunda mikin gaum og krefjast tafarlausra aðgerða.
Hvað sem líður afneitun, ákvarðanafælni og dugleysi ráðamanna í gegnum árin, þá fögnum við félagarnir áfanganum – 6 ár er engin aldur og margt á eftir að gerast á næstu árum og við hljótum að vonast til að upplifa alvöru ákvarðanir varðandi það hvernig ber að taka á loftslagsvandanum innan vonandi fárra ára – allavega ef meiningin er að gera eitthvað raunverulegt við vandanum (sem er ekki sjálfgefið ef horft er í baksýnisspegilinn). Við stöndum allavega vaktina áfram – takk fyrir okkur, við höldum okkar striki, enda næg verkefni fyrir höndum í framtíðinni.