Yfirlýsing ritstjórnar

Ritstjórn loftslag.is reynir að vinna þau gögn sem hér birtast út frá því sem þykir mikilvægt til að miðla upplýsingum um loftslagsmál til lesenda. Almennt er þess gætt að vitna í loftslagsvísindin eða þá að efnið sé á einhvern hátt tengt hinni vísindalegu nálgun. Nálgunin getur þó einnig verið út frá annarri umræðu um loftslagsmál, eins og t.d. er tekið fyrir í mýtunum eða umræðu um þá afneitun á loftslagsvísindum sem stundum einkennir umræðuna.

Pólistísk afstaða er ekki ofarlega í huga ritstjórnar og ekki er ætlunin að koma fram með pólitískar lausnir á loftslagsvandanum, þó svo við höfum innséð að umræðan er í sjálfu sér pólitískt viðkvæm. Það þýðir þó ekki að við höfum ekki okkar persónulegu skoðanir hver fyrir sig. Við tökum okkur það bessaleyfi að fjalla um ýmsar leiðir, án þess vonandi, að taka persónulega afstöðu til hverrar fyrir sig.

Eftir persónuleg kynni af hinum mörgu hliðum loftslagsumræðunnar og nána skoðun á mörgum af þeim rökum sem nefnd eru til sögunnar í umræðunni, þá er það okkar mat að hin vísindalega nálgun sé sú lang besta sem völ er á. Við höfum persónulega skoðað fjöldan allan af hinum svokölluðu “efasemdarrökum” með gagnrýnum huga og okkar mat er, að þau standist yfirleitt ekki nánari skoðun og engin rök höfum við séð sem beinlínis fella vísindin hvorki í mikilvægum hlutum né í heild sinni. Vöntun á mælingum og gögnum sem styðja rök “efasemdarmanna” er í hróplegu ósamræmi við það pláss sem fjölmiðlar hafa stundum gefið þeim skoðunum. Hin vísindalega nálgun með þeim varfærnislegu staðhæfingum sem þar koma fram er sú nálgun sem við viljum koma á framfæri. Ef það kemur síðar í ljós að hin vísindalega nálgun hafi verið röng, þá munum við fagna því ákaft, þó við sjáum ekki á núverandi tímapunkti hvernig það ætti að koma til.

Við teljum ekki að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu sannaðar, heldur lítum við til alls þess fjölda vísbendinga úr mörgum ólíkum áttum, í formi m.a. vísindalegra rannsókna sem til eru varðandi málið. Við höfum engar sérstakar “skoðanir” á því hvernig eða hvort allar þær rannsóknir sem við vitnum í séu alréttar, heldur séu einhver blæbrigði í því hvernig náttúran muni haga sér. En eins og vitað er, þá er ekki hægt að sanna vísindi, heldur byggjast þau á því að reyna að minnka óvissuna sem alltaf er til staðar. Þrátt fyrir einhverja óvissu um einstök atriði þá er það okkar mat að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu veruleiki sem við þurfum í sameiningu að finna lausn á. Okkar aðalmarkmið með síðunni er að upplýsa um rannsóknir og umræðu tengda loftslagsmálum til að sem flestir geti haft og tekið upplýsta afstöðu til málefnisins. Við teljum að það séu til lausnir, bæði þær sem vitað er um með núverandi þekkingu og þá sem kemur með framtíðar tækniframþróun, sem hugsanlega mun verða til þess að draga úr afleiðingum loftslagsbreytinga. Sú leið sem við teljum vera nærtækasta er að huga að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með nýrri tækni og breyttum hugsanagangi.

Við eigum börn og viljum geta sagt við þau síðar að við höfum allavega reynt okkar besta til að benda á hvað loftslagsvísindin hafa um loftslagsvandann að segja og reynt að benda á lausnir. Hvorugur okkar hefur akademískan bakgrunn sem tengist loftslagsfræðunum beint, heldur höfum við með áhugann að vopni reynt að skoða þessi mál með opnum huga. Von okkar er að við getum haft áhrif á umræðuna varðandi loftslagsmál á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. En það mun þó ekki koma í veg fyrir að við svörum ákveðið, með sterkum rökum og á málefnalegan hátt ef við teljum okkur við þurfa að svara fyrirspurnum og öðrum nálgunum við fræðin á þann hátt.

Athugasemdir

ummæli

Tags:

About Ritstjórn Loftslag.is

Ritstjórn Loftslag.is