Tvær gráður of mikið

Nýlega kom út grein (Turney og Jones 2010) um rannsókn á setlögum sem varðveita smáatriði frá síðasta hlýskeiði ísaldar (fyrir um 130–116 þúsund árum). Rannsóknin bendir til þess að tveggja gráðu hækkun hitastigs frá því fyrir iðnbyltingu geti haft óæskilegar afleiðingar.

Við rannsóknina, þar sem skoðaðar voru setlagamyndanir frá síðasta hlýskeiði ísaldar, þá tókst höfundum að endurgera hnattrænan hitaferil á síðasta hlýskeiði ísaldar. Til að bera hann saman við aðstæður í dag, þá drógu þeir meðalhitastig frá 1961-1990 frá þeim ferli.

Tveggja gráðu markið. Efri myndin sýnir útblástur CO2 með takmörkunum á útblæstri (blátt) og án takmarkana (rautt). Þar neðan við er líkan sem sýnir hvaða áhrif þessar tvær sviðsmyndir myndu mögulega hafa á hitastig jarðar (mynd af ScienceDayly.com).

Niðurstaðan sýnir að hitastigið virðist hafa verið meira en 5°C hærra á hærri breiddargráðum, á meðan hitastig hitabeltisins jókst lítillega – sem er mjög svipað og núverandi leitni hitastigs stefnir í. Að auki, þegar skoðað er hnattrænt hitastig hlýskeiðisins, þá var Jörðin um 1,9 °C heitari – samanborið við hitastig fyrir iðnbyltinguna. Þetta hitastig er talið hafa hækkað sjávarstöðu í um 6,6-9,4 m hærri sjávarstöðu en er í dag. Hraði þessarar hækkunar sjávarstöðu er samkvæmt þessari rannsókn talin hafa verið um tvöfalt hraðari en fyrri rannsóknir hafa bent til (Kopp o.fl. 2009).

Ástæður þessarar hlýnunar er í grunninn vegna breytinga í sporbaug Jarðar og meiri sólgeislunar á norðurhveli Jarðar yfir sumartíman en er í dag. Sú staða virðist hafa valdið magnandi svörun sem keyrði hitastig Jarðar upp í fyrrnefnt ástand. Aukið hitastig virðist hafa breytt samspili hafstrauma í Indlandshafi og Atlantshafi, sem hafi aukið á kraft hita/seltu hringrásar sjávar og þar með magnað upp hlýnunina.

Þetta háa hitastig sem sást á síðasta hlýskeiði ísaldar er sambærilegt við það sem talið er að geti orðið við lok þessarar aldar, við sviðsmynd sem gerir ráð fyrir minnkandi losun CO2 út öldina. Samkvæmt þessu þá er ljóst að taka verður tillit til þess í samningaviðræðum þjóða heims – en hingað til hefur talan 2°C hækkun hnattræns hita (frá því fyrir iðnbyltingu) oft verið nefnd sem ásættanlegt markmið og reynt hefur verið að semja um minnkandi losun CO2 til að fara ekki yfir það markmið.

Heimildir og ítarefni

Greinin birtist í Journal of Quaternary Science, Turney og Jones 2010 (ágrip): Does the Agulhas Current amplify global temperatures during super-interglacials?

Kopp o.fl. 2009 (ágrip): Probabilistic assessment of sea level during the last interglacial stage

Á heimasíðu celsias er pistill eftir annan höfunda Chris Turney: A Lesson From Past Global Warming

Umfjöllun Science Daily um greinina: Climate Change Target ‘Not Safe’, Researchers Say

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál