Nýlega kom út grein (Turney og Jones 2010) um rannsókn á setlögum sem varðveita smáatriði frá síðasta hlýskeiði ísaldar (fyrir um 130–116 þúsund árum). Rannsóknin bendir til þess að tveggja gráðu hækkun hitastigs frá því fyrir iðnbyltingu geti haft óæskilegar afleiðingar.
Við rannsóknina, þar sem skoðaðar voru setlagamyndanir frá síðasta hlýskeiði ísaldar, þá tókst höfundum að endurgera hnattrænan hitaferil á síðasta hlýskeiði ísaldar. Til að bera hann saman við aðstæður í dag, þá drógu þeir meðalhitastig frá 1961-1990 frá þeim ferli.
Niðurstaðan sýnir að hitastigið virðist hafa verið meira en 5°C hærra á hærri breiddargráðum, á meðan hitastig hitabeltisins jókst lítillega – sem er mjög svipað og núverandi leitni hitastigs stefnir í. Að auki, þegar skoðað er hnattrænt hitastig hlýskeiðisins, þá var Jörðin um 1,9 °C heitari – samanborið við hitastig fyrir iðnbyltinguna. Þetta hitastig er talið hafa hækkað sjávarstöðu í um 6,6-9,4 m hærri sjávarstöðu en er í dag. Hraði þessarar hækkunar sjávarstöðu er samkvæmt þessari rannsókn talin hafa verið um tvöfalt hraðari en fyrri rannsóknir hafa bent til (Kopp o.fl. 2009).
Ástæður þessarar hlýnunar er í grunninn vegna breytinga í sporbaug Jarðar og meiri sólgeislunar á norðurhveli Jarðar yfir sumartíman en er í dag. Sú staða virðist hafa valdið magnandi svörun sem keyrði hitastig Jarðar upp í fyrrnefnt ástand. Aukið hitastig virðist hafa breytt samspili hafstrauma í Indlandshafi og Atlantshafi, sem hafi aukið á kraft hita/seltu hringrásar sjávar og þar með magnað upp hlýnunina.
Þetta háa hitastig sem sást á síðasta hlýskeiði ísaldar er sambærilegt við það sem talið er að geti orðið við lok þessarar aldar, við sviðsmynd sem gerir ráð fyrir minnkandi losun CO2 út öldina. Samkvæmt þessu þá er ljóst að taka verður tillit til þess í samningaviðræðum þjóða heims – en hingað til hefur talan 2°C hækkun hnattræns hita (frá því fyrir iðnbyltingu) oft verið nefnd sem ásættanlegt markmið og reynt hefur verið að semja um minnkandi losun CO2 til að fara ekki yfir það markmið.
Heimildir og ítarefni
Greinin birtist í Journal of Quaternary Science, Turney og Jones 2010 (ágrip): Does the Agulhas Current amplify global temperatures during super-interglacials?
Kopp o.fl. 2009 (ágrip): Probabilistic assessment of sea level during the last interglacial stage
Á heimasíðu celsias er pistill eftir annan höfunda Chris Turney: A Lesson From Past Global Warming
Umfjöllun Science Daily um greinina: Climate Change Target ‘Not Safe’, Researchers Say
Tengt efni á loftslag.is
- Tveggja gráðu markið
- Jafnvægissvörun loftslags
- Norðurskautsmögnunin
- COP15 – Kaupmannahöfn nokkur lykilatriði
- Orsakir fyrri loftslagsbreytinga
Hvað er rétt?
Einar veðurfræðingur segir að veturinn verði mildur. En rússneskur veðurfræðingur boðar mikla kulda út af hversu golfstraumurinn hefur hægt á sér.
Það er erfitt að reikna út skammtímasveiflur nokkra mánuði fram í tíman, sérstaklega staðbundið hvað varðar veðurfar. Aftur á móti eru menn sífellt að bæta líkön sín, sjá t.d. pistil eftir Einar: Trúverðug 10 ára veðurfarsspá?
En í samhengi við helsta umfjöllunar efni loftslag.is – þá er rétt að passa sig á að rugla ekki saman veðri og loftslagi, sjá t.d. Geta vísindamenn spáð fyrir um loftslag?
Hvaðan færð þú þessar upplýsingar um golfstrauminn Albert, ég man ekki eftir að hafa rekist á þetta á mínum frétta- og bloggrúnti?
Hérna er annars ágætis myndband varðandi fregnir af ísöld vegna minnkandi golfstraums sem voru á kreiki fyrir nokkru síðan, fróðleg flétta þarna á ferð:
Fregnir af yfirvofandi ísöld hraktar
þetta með golfstraumin kom held ég á mbl í vikunni. Þar var fjallað um rússneskan veðurfræðing.
Ég fann nú ekkert, en það gæti verið fróðlegt að fá tengil á þetta. En hvað um það, hér eru tvær greinar þar sem er rætt um að golfstraumurinn sé nú bara nokkuð hraustur:
http://www.ruv.is/frett/ekkert-lat-golfstraumi
http://www.mbl.is/mm/frettir/taekni/2010/03/29/golfstraumurinn_ekki_ad_haegja_a_ser/
Það virðist vera komin einhver smá skýring á fréttinni sem Albert vitnar til á mbl.is og ég gat ekki fundið. Samkvæmt bloggfærslu eftir Emil Valgeir, þá kom frétt varðandi golfstrauminn á mbl.is sem hvarf svo af netinu stuttu síðar, hugsanlega vegna þess að fréttin taldist haldlítil. En allavega hér má lesa um það.