Fyrr í vikunni fjölluðum við um skýrslu NOAA um stöðu loftslags 2009, sem er góð samantekt á hinum fjölmörgu vísbendingum um að hnattræn hlýnun sé raunveruleg (sjá 10 vísar hnattrænnar hlýnunar). Þegar komið er á hreint að Jörðin sé að hlýna, þá leiðir það af sér mikilvæga spurningu: Hvað er að valda þessari hnattrænu hlýnun?
Hér fyrir neðan er samantekt á mælanlegum vísbendingum sem svara þeirri spurningu. Margar mismunandi mælingar finna greinileg ummerki um þátt manna í loftslagsbreytingum:
Til að skoða þetta nánar, þá eru hér fyrir neðan frekari upplýsingar um hvern vísir (ásamt tenglum í upprunalegu gögnin eða ritrýndar greinar):
- Menn eru að losa um 30 milljarða tonna af CO2 út í andrúmsloftið (CDIAC). Til að athuga hvort það sé tilviljun að á sama tíma sé styrkur CO2 að aukast í andrúmsloftinu, þá er rétt að skoða gögn sem sýna að styrkaukningin sé af völdum manna.
- Þegar mælt er hvaða samsætur kolefnis eru að safnast fyrir í andrúmsloftinu, þá sést að kolefni frá bruna jarðefnaeldsneytis er að aukast (Manning 2006).
- Að auki þá sýna mælingar á súrefni í andrúmsloftinu að styrkur þess er að falla, sem er í takt við það sem búast má við af bruna jarðefnaeldsneytis (Manning 2006).
- Önnur óhað gögn sem sýna að styrkaukning CO2 í andrúmsloftinu sé af völdum bruna jarðefnaeldsneytis má finna í mælingum á kolefni í kóröllum nokkra áratugi aftur í tíman. Þau gögn sýna snögga aukningu í kolefni sem kemur frá bruna jarðefnaeldsneytis (Pelejero 2005).
- Við vitum þar með að styrkaukning CO2 í andrúmsloftinu er af völdum manna. En hver eru áhrifin? Gervihnettir mæla minni varmageislun út í geim, á þeirri bylgjulengd sem CO2 gleypir hita. Þar með fást beinar rannsóknarniðurstöður sem sýna fram á aukningu á gróðurhúsaáhrifum á Jörðu (Harries 2001, Griggs 2004, Chen 2007).
- Ef minni hiti sleppur út í geim, hvert fer hann? Aftur að yfirborði Jarðar. Mælingar við yfirborð Jarðar staðfesta það, en þær mæla aukningu í innrauðri geislun úr lofthjúpnum (Philipona 2004, Wang 2009). Nánari skoðun á þeirri geislun staðfestir meiri varmageislun á bylgjulengdum CO2, sem ætti í raun að eyða rökum efasemdamanna sem segja að ekki séu til mælingarniðurstöður sem sýna greinileg tengsl milli aukningu gróðurhúsalofttegunda og hnattrænnar hlýnunar (Evans 2006).
- Ef aukning gróðurhúsalofttegunda er að valda hnattrænni hlýnun, þá ættum við að sjá ákveðið munstur í hlýnuninni. T.d. þá ætti Jörðin að hlýna hraðar að nóttu en á daginn. Þau áhrif eru greinileg (Braganza 2004, Alexander 2006).
- Annað mynstur sem búast má við, við hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda er kólnun í heiðhvolfinu. Það mynstur er einnig greinilegt (Jones 2003).
- Þegar veðraholfið hlýnar og heiðhvolfið kólnar, þá ættu mörk þeirra (veðrahvörf) að rísa sem afleiðing af hlýnun vegna gróðurhúsalofttegunda. Það hefur verið staðfest (Santer 2003).
- Hærra upp í lofthjúpnum er hitahvolfið. Búist er við að það muni kólna og þynnast sem afleiðing af auknum gróðurhúsaáhrifa. Það hefur verið staðfest með gervihnöttum (Lastoviska 2006).
Vísindi eru ekki spilaborg, sem geta hrunið við minnsta rask sönnunargagna. Þau eru frekar eins og púsluspil. Því fleiri púsl sem bætast í safnið, því betri mynd fáum við af þeim þáttum sem hafa áhrif á loftslagið. Nú þegar vísa gögnin á eitt ákveðið svar – aðaldrifkraftur hlýnunar jarðar er aukning í styrk CO2 í andrúmsloftinu sem er af völdum losunar manna, að mestu við bruna jarðefnaeldsneytis.
Ítarefni og tengdar færslur
Þetta er að hluta til þýðing á færslu af Skeptical Science 10 Indicators of a Human Fingerprint on Climate Change, sjá einnig íslenska þýðingu
Tengdar færslur á loftslag.is
- 10 vísar hnattrænnar hlýnunar
- Mælingar staðfesta kenninguna
- Loftslagsbreytingar og áhrif manna
- Fingrafar mannkynsins á hnattrænu hlýnunina
Leave a Reply