Loftslag.is

Category: Blogg ritstjórnar

Blogg ritstjórnar

  • Loftslagsútsaumur alþingismannsins

    Loftslagsútsaumur alþingismannsins

    Andrés Ingi Jónsson alþingismaður birti nýlega á Twitter síðunni sinni mynd af útsaumi sem hann gerði. Útsaumurinn vakti athygli loftslag.is og báðum við hann um að senda okkur myndina og útskýra hugmyndina. Hér má sjá útsauminn.

    Mynd: Andrés Ingi Jónsson, útsaumur af árlegu fráviki meðalhita Jarðar síðustu 140 árin

    Aðspurður þá sagðist hann hafa langað til að föndra eitthvað í páskafríinu og datt honum þá í hug að sauma út þetta frábæra súlurit frá NOAA, sem sem sýnir árleg frávik frá meðalhita Jarðar síðustu 140 árin. Enda er þetta ótrúlega skýr framsetning á áhrifum loftslagsbreytinga af mannavöldum. Svo fannst honum handavinnan enn skemmtilegri en hann bjóst við og sagan sem súlurnar sýna svo spennandi að hann kláraði stykkið löngu fyrir páska! Hann þarf því að finna sér eitthvað annað til að dunda sér við yfir páskana.

    Okkur á loftslag.is finnst þetta mjög áhugavert og værum alveg til í að heyra ef fleiri frambjóðendur fyrir næstu alþingiskosningar vilja deila með okkur einhverjum hugleiðingum, listaverkum eða hverju öðru því sem tengist loftslagsmálunum, það gæti verið gaman að því.

    Færsla Andrésar Inga á Twitter.

  • Hið nýja loftslagsstríð

    Hið nýja loftslagsstríð

    Út er komin ný bók eftir loftslagsvísindamanninn Micheal Mann, sem heitir The New Climate War. Það gæti útlagst sem Hið nýja loftslagsstríð. Þessi bók var auðvitað strax útgefin sem hljóðbók og stafræn bók, til að minnka kolefnisfótspor við lestur hennar (eða hlustun), fyrir þau sem vilja. Sá sem þetta skrifar hlustaði á bókina af athygli og ætlar að lesa eða hlusta á hana aftur síðar.

    the new climate war
    Micheal Mann, höfundur The New Climate War

    Í þessari bók rekur Micheal Mann hvernig orystuplan olíuiðnaðarins hefur þróast í gegnum tíðina, fyrst undir áhrifum t.d. tóbaksiðnaðarins og þeirra aðferða, sem fólst meðal annars í því að draga úr trúnaði almennings við niðurstöður vísindamanna. Hann fer einnig yfir hvernig planið hefur breyst úr því að hreinlega afneita loftslagsbreytingum og yfir í að blekkja, afvegaleiða og tefja umræðuna (e. deception, distraction and delay).

    Mann hefur staðið vaktina í nokkra áratugi og hefur fengið að finna fyrir aðferðum talsmanna olíuiðnararins, en lengi vel var gert mikið úr því að draga í efa vísindaleg heilindi hans. Eftir að hann birti hið þekkta línurit hokkíkylfuna (e. hockey stick) varð hann sjálfkrafa skotmark þeirra sem afneituðu loftslagsbreytingum, enda varla hægt að fá skýrari mynd af þeim loftslagsbreytingum sem eru í gangi af mannavöldum.

    Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum.

    Þessi öfl, sem áður stóðu fyrir hreinni afneitun sem fólst í því að halda því fram að það væru engar loftslagsbreytingar í gangi (þvert á niðurstöður vísindamanna) eða að þessar loftslagsbreytingar væru ekki af mannavöldum (þvert á niðurstöður vísindamanna) eru nú meira í að telja fólki trú um að það sé orðið of seint eða of dýrt að gera nokkuð. Einnig eru notaðar aðferðir eins og að etja þá sem vilja draga úr loftslagsbreytingum upp á móti hvorum öðrum (t.d. með því að fólk rífist endalaust um hvað mengi mest og hvaða lausn sé best) eða að best sé kannski að bíða bara og sjá, betri og ódýrari lausnir verði til í framtíðinni og að efnahagslífið geti ekki tekist á við að minnka losun jarðefnaeldsneytis.

    Það er ekki hægt að segja nákvæmlega frá því í nokkrum setningum hvað sagt er í bókinni, en eitt af því sem kemur skýrt fram í bókinni er að olíuiðnaðurinn, eins og annar mengandi iðnaður, hefur varpað ábyrgðinni yfir á hendur einstaklinga að leysa vandamálið í stað þess að ábyrgðin sé þar sem vandamálið er, losun jarðefnaeldsneytis. Áhugavert er að heyra hvernig hægt er að tengja saman öfl sem hafa engan áhuga á slíkum lausnum og hvernig það tengist bandarískum stjórnmálum, rússneskum og yfir í miðausturlöndin.

    Micheal Mann lætur jafnvel þá sem ættu í raun að vera samherjar hans heyra það, líkt og þá sem telja að ástandið sé orðið það slæmt að ekki sé hægt að afstýra hörmungum – þær raddir séu akkúrat það sem þeir vilja heyra, þeir sem eru í því að blekkja, afvegaleiða og tefja umræðuna í stað þess að takast á við losun jarðefnaeldsneytis. Það á einnig við um þá sem vilja leysa vandamálið með jarðverkfræðilegum lausnum (e. geoengineering). Í raun væri langbesta lausnin sú að þrýsta á löggjöf sem myndi keyra orkunotkun frá jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

    Bókin vekur mann til umhugsunar og styðst við góð rök, sem byggð eru á innsæi vísindamanns sem fylgst hefur með umræðunni og séð hana breytast á undanförnum áratugum.

    Bókina má finna til dæmis á Amazon, sjá The New Climate War

    Tengt efni á loftslag.is

  • Loftslagsafneitun með hjálp línurita, fyrri hluti.

    Loftslagsafneitun með hjálp línurita, fyrri hluti.

    Þekktur er íslenskur rafmagnsverkfræðingur sem heitir Ágúst H. Bjarnason er telur sig vera efasemdamann um hnattræna hlýnun af mannavöldum. Ágúst hefur í gegnum tíðina notað ýmis línurit til að mistúlka gögn og mælingar vísindamanna og hefur gert í áratugi. Bent hefur verið á að þeir sem mistúlka vísvitandi gögn og mælingar vísindamanna og telja sig vera þannig að efast um hnattræna hlýnun, eru í raun að afneita vísindagögnum og hafa í daglegu tali fengið á sig heitið loftslagsafneitarar (e. climate denialists).

    Myndband sem útskýrir helstu einkenni vísindaafneitunar (e. science denial).

    Nú nýlega birti Ágúst línuritasúpu í dreifiriti sem heitir Sámur fóstri (bls. 16-17), sjá einnig heimasíðu Ágústar sem virðist vera orðin að upplýsingaveitu fyrir loftslagsafneitara. Þar má sjá gömul og klassísk línurit sem notuð eru til að slá ryki í augu lesenda, í þeim tilgangi að þeir “efist” um loftslagsvandann sem við stöndum frammi fyrir. Með þessu ýtir Ágúst undir og hvetur til loftslagsafneitunar. Hér er fyrri hluti yfirferðar um línuritin sem hann birtir í sinni blaðagrein (seinni hluti birtist vonandi síðar ef tími gefst), texti undir myndum hans birtist hér eins og þær birtust hjá Ágústi.

    Hitafrávik jarðar frá 1880 til dagsins í dag

    Hér notar hann hnattrænt hitafrávik frá NASA-GISS gagnasafninu og telur að þar sé hitastigið ýkt.

    Mynd 1:   Lóðrétti ásinn á líuritinu er þaninn gríðarlega mikið út. Um það bil einn millímetri á hitamælinum er stækkaður næstum 100 falt í 100 mm eða 10 cm.  Allur lóðrétti skalinn kæmist á milli tveggja 1° strika á venjulegum útihitamæli.

    Hér er í grunninn mynd sem sýnir meðalhitafrávik til ársins 2014 (meðalhiti hnattrænn og sýnir ágætlega breytingar milli ára). Hann teiknar síðan skýringar inn á myndina til að villa um fyrir lesendum. Þar gefur hann til dæmis í skyn að þetta sé lítil sem engin breyting á hitastigi, af því að hitafrávikið kemst fyrir milli strika á venjulegum hitamæli. Þetta gæti verið dæmi um svokallaða Red herring rökvillu, en mælikvarði meðalhitans skiptir ekki máli og tekur athyglina frá mælingunum sjálfum. Hann gerir lítið úr þessari breytingu, en það sést vel hversu alvarlegar breytingar þetta eru, þegar á það er horft að það þurfti bara um 4°C hækkun hitastigs til að koma jörðinni úr ísköldu jökulskeiði ísaldar og yfir í hlýjasta skeið nútíma (e. climatic optimum).

    Það skal bent á að mynd Ágústar nær ekki nema til ársins 2014 en næstu fjögur ár þar á eftir hafa öll verið mun heitari en öll árin fyrir árið 2014 (sjá mynd hér neðar).

    Hnattrænn hiti frá 1880-2018 (NASA-GISS). Svarta línan sýnir árlegt meðalhitafrávik og rauða línan fimm ára meðaltal. Sjá upplýsingar um gagnasafnið í  Lenssen et al. (2019).

    Eins og sést ef skoðað er nýtt línurit, án mistúlkana þá hefur hitastig haldið áfram að aukast og nú hafa menn þurft að teygja lóðrétta ásinn meir til að koma meiri gögnum fyrir. Fjögur síðustu árin ná ekki inn á mynd Ágústar – þrátt fyrir að þau gögn séu til og ber það vott um að notuð séu sérvalin gögn (e. cherry picking), enda munar alveg um fjögur heitustu ár síðan mælingar hófust (þannig að lóðrétti ásinn sem sýnir bara um 1,0°C mun er allt í einu kominn með lóðréttan ás sem sýnir 1,5°C).

    Hitafrávik á nútíma (e. holocene)

    Hægt er að áætla fornhitastig á yfirborði Grænlandsjökuls með því að skoða samsætur (e. isotopes) í ískjörnum jökulsins og hefur þannig fengist góðar vísbendingar um sveiflur í hitastigi við yfirborð jökulsins – sem dæmi eru stöðvarnar GISP (Greenland ice sheet project) og GRIP (Greenland ice core project). Ágúst notar GISP kjarna og niðurstöður vísindamanna sem rannsaka þá, en varar um leið við að hér sé um að ræða hitastig á Grænlandsjökli en ekki meðalhiti jarðar. Samt telur hann sig geta fullyrt að það sé “... ámóta hlýtt í dag og fyrir 1000 árum (Medieval Warm Period), allnokkuð hlýrra fyrir 2000 árum (Roman Warm Period) og töluvert hlýrra fyrir um 3000 árum (Minoan Warm Period)“.

    Mynd 2:   Niðurstöður mælinga á ískjörnum fengnum úr rúmlega 3000 metra djúpri holu sem boruð var í Grænlandsjökul. Skammvinn hlýskeið á sögulegum tíma eru sýnd með grænu.  Takið eftir að lóðrétti skalinn vinstra meginn sýnir lofthitann á Grænlandsjökli, en lóðrétti skalinn hægra meginn sýnir áætluð frávik í hnattrænum meðal lofthita, sem er talinn helmingur af hitabreytingunni á jöklinum.

    Fyrst skal ítreka viðvörunarorð Ágústar um að þarna er alls ekki um að ræða hnattrænt hitastig, heldur mjög staðbundið hitastig og því ekki hægt að setja sama sem merki milli þessa línurits og hitasveifla hnattrænt.

    Því næst er rétt að benda á að þarna er að auki beitt sama bragð og við fyrstu myndina, þ.e. að sýna ekki nýjustu gögnin og gefa í skyn að búið sé að uppfæra gögnin til nútímans (sjá einnig: Að fela núverandi hlýnun). Hvernig annars ætti hann að geta fullyrt að hitinn í dag sé jafn mikill eða lægri en þessi fyrri tímabil (fyrir 1000, 2000 og 3000 árum)? Þegar gögnin eru skoðuð betur, þá kemur í ljós að þau ná eingöngu fram til ársins 1855, töluvert áður en hin hnattræna hlýnun byrjaði.

    En hvernig hefur hitastigið breyst upp á Grænlandsjökli síðastliðin 160 ár eða svo? Í grein sem kom út árið 2009 (Jason E. Box 2009) og var fjallað um á Skeptical Science (Confusing Greenland warming vs global warming), var kannað meðal annars hvernig hitastig hefði breyst á Grænlandi frá árinu 1840-2007. Einn af stöðunum sem kannaður var, er þar sem GRIP ískjarnarnir voru boraðir, en það er eingöngu í um 28 km fjarlægð frá þeim stað sem GISP kjarnarnir voru boraðir og fyrrnefnt línurit sem Ágúst birtir er byggt á.

    Hitastig á GRIP staðnum. meðalhitinn á GRIP staðnum frá 1850-1859 (blá lína) og 2000-2009 (rauð lína). Einnig má sjá hitastig fyrir 1847 og 1855 fyrir GISP (rauðir krossar).

    Á GRIP hækkaði hitastig um 1,44°C frá miðri 19. öld og fram til fyrsta áratugs 21. aldar. Í ljós kemur að hitastigið á Grænlandsjökli í byrjun þessarar aldar var orðið sambærilegt við hitastigið fyrir um 2000 árum. Síðan þá hefur hert á hlýnuninni á Grænlandi (samanber frétt á RÚV frá því í sumar – Grænlandsjökull bráðnar mjög hratt). Það er því ljóst að þetta línurit sem Ágúst birtir, sýnir alls ekki það sem hann vill sýna – að það hafi verið hlýrra fyrir 1000, 2000 og 3000 árum heldur en í dag.

    Til eru fjölmargar rannsóknir þar sem tekið hefur verið saman hnattrænt hitafrávik undanfarin nokkur þúsund ár (sjá t.d. Hokkíkylfa eða hokkídeild?). Sem dæmi má nefna Marcott o.fl. 2013, en þegar búið er að taka saman áætlað hitastig síðustu 11.300 ár og leggja nútímahitamælingar saman við, þá er nokkuð augljóst að núverandi hlýnun er geysilega hröð og nú þegar er hitinn orðinn meiri en nokkurn tíma áður á nútíma (e. holocene).

    Alkul á Kelvin

    Að gamni þá fylgir með næsta línurit Ágústar, þó honum geti ekki verið alvara:

    Mynd 3:   Sé teiknaður hitaferill sem sýnir hlýnun jarðar frá alkuli í Kelvín-gráðum, þá sést ekki nein breyting. Svo lítil er hún.

    En að öllu gamni slepptu, þá segir hann um hitamælingar að “… rétta aðferðin er að miða við Kelvin gráður og þá fæst 0,3% hækkun á síðastliðnum 150 árum“.

    Miðaldir og Loehle

    Um næsta línurit höfum við á loftslag.is áður fjallað um (sjá Miðaldir og Loehle). Á því línuriti ætlast Ágúst til að lesendur sjái glöggt að hlýnunin nú sé ekki búin að ná þeim hæðum sem að miðaldarhlýnunin náði. Þannig hefur hann náð að sannfæra ansi marga um að hlýnunin nú sé minni en á miðöldum.

    Mynd 5:      Hnattrænar breytingar í meðalhita lofthjúps jarðar síðastliðin 2000 ár. 

    Þess ber að geta að línuritið sem Ágúst notar er að öllum líkindum teiknað eftir óleiðréttu gögnum Loehle (Sjá leiðrétt gögn Loehle 2007).

    En er þetta réttmæt mynd af hitastigi síðastliðinna tvö þúsunda ára ef miðað er við gögn Loehle? Áhugamaður um loftslagsbreytingar að nafni Rob Honeycutt, hafði samband við Loehle sjálfan og eftir töluverð samskipti þá afhenti Loehle honum hitagögn með sambærilegu vegnu meðaltali frá HadCRU (29 ára meðaltal) – til að framlengja línurit Loehle fram til loka síðustu aldar. Hann teiknaði það upp og fékk eftirfarandi mynd:

    Svo virðist vera, að þrátt fyrir allt þá sé hlýnunin undanfarna áratugi einstök síðastliðin 2000 ár. Ef við síðan berum rannsókn Loehle  saman við önnur línurit þar sem metið hefur verið hitastig síðastliðin 2000 ár (Mann o.fl., Crowley og Lowery, Jones o.fl., Moberg og Shaolin o.fl.), þá sést að þrátt fyrir allt, þá er enginn vafi á því að hlýnunin nú er óvenjuleg – einungis er spurningin sú, hversu mikið meiri er hlýnunin nú en á miðöldum:

    Þannig að þó notuð séu gögn Loehle (sem þykja byggð á of fáum gagnasöfnum), þá er ljóst að niðurstaðan er sú að hlýnunin nú er meiri en á miðöldum, sem er allt önnur mynd en Ágúst vill teikna upp af hitabreytingum síðustu 2000 ár.

    Hafísútbreiðsla Norðurskautsins undanfarin árþúsund

    Eitt af því sem vísindamenn nota til að sýna fram á að hnattrænt hitastig er að hækka, er hafísútbreiðsla Norðurskautsins. Árið 2017 birtist í Nature áhugaverð grein um breytileika í hafísútbreiðslu Norður-Atlantshafsins og birtist þar línurit sem sýnir breytileika í hafís norður af Íslandi síðastliðin 3000 ár (sjá North Atlantic variability and its links to European climate over the last 3000 years).

    Mynd 6:  Útbreiðsla hafíss norðan Íslands síðastliðin 3000 ár.   Grein Paola Moffa-Sánchez & Ian R. Hall í Nature Communications 2017. Við erum stödd á ferlinum lengst til vinstri. Hafísinn hefur lengst af undanfarin 3000 ár verið mun minni en undanfarið. Litla ísöldin svokallaða sker sig þó úr.

    Þetta línurit sýnir einungis breytileika á litlu svæði Norður-Atlantshafsins og því frekar vel útilátið að segja: “Að undanskilinni Litlu ísöldinni hefur hafís yfirleitt verið minni en í dag unanfarinn 3000 ár hið minnsta”.

    Nákvæm gögn hafa verið söfnuð um útbreiðslu hafíss í um 40 ár byggð á gervihnattagögnum. Hægt er að sjá lengra aftur í tíman með svokölluðum vísum (e. proxy) sem sýna óbeint hvernig hafísútbreiðslan hefur verið í fortíðinni (samanber línuritið hér að ofan). Árið 2011 kom út grein þar sem rýnt var í vísa um fornútbreiðslu hafíssins á Norðurskautinu og nær það til hafíssútbreiðslu síðastliðna 1450 ára (sjá Kinnard o.fl. 2011 og umfjöllun loftslag.is um greinina Hafís Norðurskautsins síðastliðin 1450 ár).

    Áhugavert er að skoða útlit línuritsins, en glöggir lesendur loftslag.is kannast kannski við útlitið – en það minnir mjög á hokkíkylfur sem orðnar eru fjölmargar (sjá Hokkíkylfa eða hokkídeild?).

    Meiri óvissa er eftir því sem farið er lengra aftur í tíman – þá aðallega vegna þess að þau gögn sem nothæf eru fækkar. Engu að síður er augljóst að í lok tuttugustu aldar er niðursveiflan fordæmalaus – allavega síðastliðin 1450 ár – bæði hvað varðar magn og lengd tímabils.

    Niðurstaða

    Í þessari yfirferð hefur verið farið yfir fyrri hluta þeirra línurita sem fylgja nýlegri blaðagrein Ágústar H. Bjarnasonar um breytingu á meðalhita jarðar. Þar kemur glögglega fram mistúlkun og sérval gagna (e. cherry picking) sem eiga að hans mati að sýna hvernig núverandi hlýnun sé hverfandi í stóra samhenginu. Þannig sérvelur hann gögn sem sýna ekki hlýnunina undanfarin ár eða áratugi. En einnig birtir hann línurit sem sýna eingöngu mjög lítinn hluta hnattarins og þar með staðbundnar sveiflur í loftslagi sem segja ekkert til um hvernig loftslag er að breytast hnattrænt sem einnig er angi af því að sérvelja gögn sem passa rökunum. Mögulega má finna fleiri rökleysur, en greinilegt að sérvalin gögn eru í uppáhaldi hjá Ágústi.

    Tengt efni á loftslag.is

    Fimm einkenni loftslagsafneitunar
    Eru vísindamenn ekki sammála?
    Hafísinn ekki að jafna sig
    10 loftslagsmýtur afhjúpaðar

  • Íslenskir jöklar og loftslagsbreytingar

    Íslenskir jöklar og loftslagsbreytingar

    Jöklar Íslands blandast oft inn í umræðu um loftslagsbreytingar hér á landi, enda eru jöklar taldir góðir vísar um breytingar á loftslagi. Þó er ekki alltaf allt sem sýnist í þeim málum.

    Hvað bræddi jöklana á Vestfjörðum?

    Stundum birtast fullyrðingar um að fyrst loftslag hafi breyst áður, þá sé ólíklegt að losun CO2 af mannavöldum hafi eitthvað með núverandi loftslagsbreytingar að gera.  Ekki er alltaf farið djúpt í vísindin, en stundum hljómar það trúverðugt, þó ekki sé það alltaf raunin ef það er skoðað ofan í kjölinn. Lítum á nýlegt dæmi:

    HVAÐ BRÆDDI VESTFJARÐARJÖKLANA FYRIR 1934?
    … þegar CO2 útblástur hafði aðeins náð 10% af því sem það er í dag.
    Það skyldi þó aldrei vera að CO2 skattarnir væru óþarfir?

    Ef við sleppum því að sannreyna hvort rétt sé farið með, þá má segja að hlýnun loftslags á fyrri helmingi tuttugustu aldarinnar hafi verið vegna samspils aukinnar sólvirkni, minni eldvirkni og aukningar á CO2 af mannavöldum. Ef undanskilið er CO2 af mannavöldum, þá hafa hinir þættirnir spilað litla rullu eftir miðja síðustu öld. Sólvirkni hefur verið nokkuð stöðug á þeim tíma og eldvirkni jókst sem hefur kælandi áhrif á Jörðina – á sama tíma og Jörðin hefur hlýnað mjög mikið af völdum aukningar CO2 af mannavöldum.

    Breytingar í jöklum Íslands fyrri alda voru að miklu leyti af náttúrulegum völdum öfugt við nú. Ef skoðaðir eru hvaða þættir hafa helst áhrif á loftslag nú, þá kemur í ljós að helstu áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunnar er losun CO2 af mannavöldum (sjá færsluna Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar):

    Mynd 1: Heildar hlutur manna og náttúrunnar í hinni hnattrænu hlýnun sem orðið hefur síðastliðin 50-65 ár, samkævmt Tett o.fl. 2000 (T00, dökkblátt), Meehl o.fl. 2004 (M04, rauður), Stone o.fl. 2007 (S07, grænn), Lean og Rind 2008 (LR08, fjólublár), Huber og Knutti 2011 (HK11, ljósblár), og Gillett o.fl. 2012 (G12, appelsínugulur).

    Að gamni má samt benda á að ekki er allt sem sýnist varðandi gögnin sem myndin af jöklum Vestfjarða virðist byggja á:

    1. Glámufannirnar voru líklega aldrei jöklar og hvað þá svona stórt svæði. Í grein eftir Odd Sigurðsson (2004) segir: “Fyrirliggjandi gögn, einkum sú staðreynd að jökullinn var ekki á Glámu árið 1893, við lok eins kaldasta aldarþriðjungs íslandssögunnar þegar flestir eða allir jöklar landsins voru í hámarki, benda eindregið til þess að Glámujökull hafi ekki verið til sem slíkur á sögulegum tíma”.
    2. Drangajökull náði aldrei yfir þetta svæði sem sýnt er þarna. Í Jöklabók Helga Björnssonar (2009) stendur… “Sveinn Pálsson (1794) teiknaði hann [Drangajökul] allt of langt suður og á korti Björns Gunnlaugssonar (1848) nær hann suður á Steingsrímsfjarðarheiði svo að hann er sýndur tvöfallt stærri en hann var í raun og veru”. Þá er til nokkuð skýr mynd af því hvernig jökullinn leit út samkvæmt vísindamönnum, þegar hann var stærstur á Litlu Ísöld (Brynjólfsson o.fl. 2015).
    Drangajökull. Stærð hans á hámarki Litlu Ísaldar má sjá í ljósgráum lit, en þá náðu skriðjöklar um 3–4 km lengra niður dalina en nú (Brynjólfsson o.fl. 2015)

    Þó jöklarnir hefðu verið mikið stærri, þá skiptir það ekki máli – því öfugt við þær náttúrulegu breytingar sem voru í gangi í loftslagi fyrri alda, þá er hin hnattræna hlýnun nú nær eingöngu vegna aukinnar losunar CO2 af mannavöldum.

    Ok og hin táknræna athöfn

    Fyrr í haust var táknræn athöfn til að minnast þess að ekki sé lengur jökull á Ok. Sumum fannst það “…undarleg athöfn… jökullinn væri löngu horfinn”  og að “… jökullinn hefði horfið vegna þess að Jörðin væri að koma út úr Litlu Ísöldinni”.

    Ok árið 2012.

    Reyndar hafa áður komið fram fullyrðingar um að hin hnattræna hlýnun sé vegna þess að Jörðin sé að koma út úr Litlu Ísöldinni og jafnvel hafa menn haldið því fram að yfirvofandi sé nýtt kuldaskeið (sjá Um yfirvofandi Litla Ísöld).

    Það er vissulega ekki langt síðan okkar hluti jarðkringlunnar gekk í gegnum kuldatímabil sem kallað er Litla Ísöldin (hjá okkur má telja að hún hafi staðið frá um 1450-1900). Ekki er alveg eining um hvort þá hafi verið töluverð hnattræn kólnun eða lítilsháttar og að einhverju leiti staðbundin kólnun.

    Það er þó ljóst að hitastig hafði farið hægt lækkandi allavega síðustu 2000 ár, sérstaklega á svæðinu umhverfis Norðurskautið (Kaufman o.fl 2009).

    Myndin sýnir langvarandi kólnun á Norðurskautinu, sem endaði snögglega við upphaf iðnbyltingarinnar og með mikilli hlýnun síðastliðin 50 ár. Bláa línan sýnir mat á hitastig út frá proxýgögnum úr vatnaseti, ískjörnum og trjáhringum. Græna beina línan sýnir að leitnin var í átt til kólnunar. Rauða línan sýnir bein mæligögn á hitastigi. Mynd úr Science, breytt af UCAR.
    Myndin sýnir langvarandi kólnun á Norðurskautinu, sem endaði snögglega við upphaf iðnbyltingarinnar og með mikilli hlýnun síðastliðin 50 ár. Bláa línan sýnir mat á hitastig út frá proxýgögnum úr vatnaseti, ískjörnum og trjáhringum. Græna beina línan sýnir að leitnin var í átt til kólnunar. Rauða línan sýnir bein mæligögn á hitastigi. Mynd úr Science, breytt af UCAR.
     
    Samkvæmt Kaufman o.fl (2008) þá útskýrir ásvelta Jarðar (e. precession) að mestu leiti þessa hægfara niðursveiflu í hitastigi (sjá umfjallanir Einars Sveinbjörnssonar um hjámiðjusveifluna og um grein Kaufmans o.fl).
     
    Hlýnun jarðar af mannavöldum hefur strokað út þá kólnun sem orðið hefur undanfarin nokkur þúsund ár, sem orðið hafa vegna breytinga í sporbaug jarðar (Mynd: National Science Foundation)
    Hlýnun jarðar af mannavöldum hefur strokað út þá kólnun sem orðið hefur undanfarin nokkur þúsund ár, sem orðið hafa vegna ásveltu, þ.e. rek Jarðar innan sporbaugsins (Mynd: National Science Foundation)

    Þessi breyting á ásveltu jarðar, er einn anginn í svokallaðri Milankovitch sveiflu.* Hluti af niðursveiflunni sem varð rétt fyrir iðnbyltinguna má þó hugsanlega einnig rekja til virkni Sólar, mikillar eldvirkni og eflaust líka í tímabundnum breytingum í hafstraumum sérstaklega þá í Evrópu (sjá t.d. Orsakir fyrri loftslagsbreytinga til nánari útskýringa á hlut þessara þátta).

    *Ásveltan (precession) veldur því að jörðina rekur til innan sporbaugsins.  Um tíma er jörð í sólnánd þegar sumar er á norðurhveli, en 10 þús árum síðar er hún í sólfirð þegar sumar er á norðurhveli. Þetta þýðir að hámarks-inngeislun sólar er meiri að sumarlagi í fyrra tilvikinu og mesti sumarhiti einnig meiri.

    Í stuttu máli má því segja að Jörðin hafi verið að kólna smám saman síðustu árþúsundin, sérstaklega á norðurslóðum og Litla Ísöldin er að öllum líkindum hluti af þeirri kólnun. Því er það ekki svo að Jörðin hafi verið að jafna sig eftir Litlu Ísöldina, heldur er hlýnunin til komin af völdum aukinnar losunnar CO2 af mannavöldum.

    Okjökull lét undan vegna þessarar hlýnunar og því eðlilegt að tengja hvarf Okjökuls við hnattræna hlýnun af mannavöldum. Án þeirrar hlýnunar hefði Okjökull að öllum líkindum haldið áfram að vera til og jafnvel stækkað, miðað við hina langdrægu kólnun sem var að eiga sér stað (sérstaklega á norðurslóðum).

    Það að jökullinn hefði verið fyrir löngu horfinn, er hægt að deila um. Það er þó ljóst að vísindamenn töldu jökulinn ekki lengur til jökla árið 2014 (sjá „Jökullinn“ Ok er ekki lengur jökull), en þá segir Oddur Sigurðsson um Okjökul og skilyrði til að teljast vera jökull:

    „Það er í fyrsta lagi að vera nógu þykkir til að hníga undan eigin fargi og til þess þurfa þeir að vera 40 til 50 metra þykkir og því nær þessi jökull alls ekki“.

    Íslenskir jöklar og loftslagsbreytingar

    Íslenskir jöklar breytast í takt við loftslagsbreytingar og þó að hægt sé í sumum tilfellum að telja upp jökla sem voru minni t.d. á Landnámsöld (mögulegt er að Ok hafi ekki einu sinni verið til þá) eða stærri í byrjun síðustu aldar (líkt og flestir jöklar á Íslandi), þá er staðreyndin sú að þær breytingar urðu vegna náttúrulegra orsaka og voru breytingar í Sólinni og sporbraut jarðar mikilvirkastar (auk eldvirkni) síðustu árþúsundin. 

    Það felur samt ekki þá staðreynd að hin hnattræna hlýnun sem nú er, er vegna aukinnar losunnar CO2 út í andrúmsloftið af mannavöldum og við því verður að bregðast með öllum ráðum.

    Heimildir og ítarefni:

    Oddur Sigurðsson 2004: Gláma

    Helgi Björnsson (2009): Jöklar á Íslandi.

    Brynjólfsson o.fl. (2015): A 300-year surge history of the Drangajökull ice cap, northwest Iceland, and its maximum during the ‘Little Ice Age’

    Kaufman o.fl. 2009: Recent Warming Reverses Long-Term Arctic Cooling

    Um áhrifaþætti hnattrænnar hlýnunnar:

    Tengt efni á loftslag.is

    Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar

    Um yfirvofandi Litla Ísöld

    Orsakir fyrri loftslagsbreytinga

    Hjólastóllinn – ný heildarmynd

  • 10 ára afmæli

    10 ára afmæli

    Í tilefni af 10 ára afmælis loftslag.is ákváðum við ritstjórarnir að líta yfir farinn veg, jafnvel uppfæra síðuna og skrifa nýja pistla um loftslagsmál og hið stigmagnandi vandamál loftslagsbreytinga eða eins og það er skilgreint í dag, hamfarahlýnun.

    Tíminn virðist samt lúta öðrum lögmálum nú en fyrir 10 árum, því tími til að skrifa pistla og fréttir fyrir loftslag.is virðist hafa horfið eins og dögg fyrir sólu frá ritstjórninni. Líklega er það samt ekki tíminn sjálfur sem er að breytast heldur umhverfið allt, hvort heldur við horfum á hið náttúrulega umhverfi sem við höfum verið að skrifa um eða umhverfið sem skrifar um hið náttúrulega umhverfi. Skoðum aðeins hvað við er átt.

    Umræðan

    Fyrir 10 árum voru fáir fjölmiðlar að skrifa um loftslagsmál á Íslandi og þegar þeir skrifuðu eitthvað var það happa og glappa hvort þeir færu með rétt mál eða ekki. Skýrslur IPCC höfðu vissulega komið út, en nokkuð algengt var að gera minna úr loftslagsbreytingum af mannavöldum en rétt var miðað við þekkinguna sem var til staðar í vísindasamfélaginu. Mikið af mýtum voru í gangi, oft eitthvað sem auðvelt var að henda fram í rökræðum ef einhver vildi virkilega afneita því sem fræðimenn voru að segja. Þetta umhverfi þar sem afneitun virtist átakalína í umfjöllun um loftslagsmál var m.a. hvetjandi fyrir ritstjórnina á sínum tíma, enda vildi ritstjórnin hvetja til upplýstrar málefnalega umræðu um loftslagsmál byggða á staðreyndum málsins og hinum vísindalega grunni.

    Það var í þeim farvegi sem loftslag.is varð til, nauðsynlegt var að halda til haga þeim sífjölgandi mýtum sem voru í gangi um loftslagsmál og vísindin þar á bakvið. Við stofnum loftslag.is skrifuðum við þetta:

    Þessi síða er tilkomin að undirlagi síðustjórnenda, sem eru Höskuldur Búi Jónsson og Sveinn Atli Gunnarsson. Síðan er hugsuð sem upplýsingasíða um loftslagsmál. Hér verður tekið á ýmsum málum tengdum loftslagsmálum, til að mynda fréttatengdu efni, ýmsum skoðunum varðandi efnið og fræðilegu ívafi. Hinn vísindalegi grunnur, tenglar á hægri hluta síðunnar, er ætlað til upplýsingar um hvernig fræðin eru uppbyggð, hvaða afleiðingar eru taldar geta orðið vegna loftslagsbreytinga, hvers konar lausnir eru nefndar til sögunnar ásamt ýmsum spurningum og svörum sem við reynum að leita svara við. Einnig munum við fá gesti til að skrifa gestapistla þar sem velt verður upp ýmsum málefnum tengt loftslagsmálum.

    Fyrstu 4-5 árin voru síðan mjög virk hjá okkur og smám saman varð til banki hugmynda og upplýsinga sem hægt var að vísa í, sérstaklega ef svara þurfti mýtum um loftslagsmál. Fréttir utan úr heimi og innlendir pistlahöfundar sköpuðu góðan vettvang til að auka þekkingu landsmanna á loftslagsbreytingum, og jú loftslag var og er svo sannarlega að breytast vegna aukins bruna jarðefnaeldsneytis og breyttrar landnotkunar, þ.e. aukins CO2 í andrúmsloftinu af mannavöldum.

    Gestapistlar, umfjallanir fjölmiðla, heimsóknir og viðurkenningar

    Eitt það skemmtilegasta sem loftslag.is hefur gert er að hafa samband við hina ýmsu vísindamenn og áhugamenn um loftslag á Íslandi og fá hjá þeim gestapistla um hin ýmsu málefni tengd loftslagsmálum frá ýmsum sjónarhornum. Gestapistlahöfundar eiga miklar þakkir skyldar.

    Öll árin höfum við líka verið í óbeinu samstarfi við síðu eins og Skeptical Science, þar sem við höfum m.a. þýtt mýtur og annað efni frá þeim. Höskuldur hefur einnig skrifað eina athyglisverða grein fyrir Skeptical Science þar sem hann rannsakaði miðaldaverkefni frá CO2 Science, sem er síða sem afbakar umræðuna með útúrsnúningum sem ekki standast skoðun, eins og Höskuldur sýnir fram á í færslunni sem finna má á loftslag.is líka.

    Bill_McKibben_hoski_sveinnÁrið 2013 kom hér til landsins Bill McKibben, en hann er höfundur fjölda bóka um umhverfismál og einn stofnenda hinnar alþjóðlegu grasrótarhreyfingar 350.org, sem berst fyrir því að verja Jörðina fyrir hlýnun andrúmslofts. Af því tilefni hittu ritstjórar loftlag.is Bill ásamt stjórnmálamönnum á áhugaverðum súpufundi.

    Loftslag.is hefur einnig fjallað um skýrslur IPCC um loftslagsmál, sem og loftslagsráðstefnur (frá vonbrigðanna í COP15 í Kaupmannahöfn til vonarinnar í COP21 í París) og allskyns vísindagreinar og skild málefni.

    viðurkenningLoftslag.is í samvinnu við París 1,5 tók þátt í að rýna loftslagsstefnu stjórnmálaflokkanna í tvennum kosningum, árið 2016 og 2017. Þar gáfum við flokkunum einkun eftir áherslum þeirra við að koma loftslagsmálum aukið vægi í stefnu þeirra fyrir kosningar og þrýstum þar með á stjórnmálaflokkana að taka afstöðu, þannig að fólk gæti kosið flokka eftir því hvar þeir stæðu í loftslagsmálum. Líklega að hluta út af því fékk loftslag.is Fræðslu- og upplýsingaviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum árið 2017. Við teljum að einkunagjöfin hafi verið með í að gera loftslagsmálin aðeins sýnilegri í þessum tveimur kosningum.

    Undanfarin ár hefur loftslag.is verið minna virk, en síðuhöfundar hafa samt haldið áfram umræðu um loftslagsmál þar sem svara hefur þurft mýtum, bæði á loftslag.is og einnig í athugasemdakerfum og á samfélagsmiðlum í netheimum, sem eiga það til að loga öðru hvoru og það veitir ekki af málefnalegri nálgun þar.

    Núna, 10 árum eftir að loftslag.is fór í loftið, þá hafa tímarnir breyst nokkuð. Loftslagið heldur þó því miður áfram að breytast og menn halda áfram að brenna jarðefnaeldsneyti í miklum mæli. Hins vegar eru loftslagsmálin orðið það gildandi umræðuefni í samfélaginu að stórar innlendar fréttaveitur eru farnar að fjalla um loftslagsmálin mjög reglulega. Má þar til dæmis nefna Stundina, sem gaf út tölublað í vor sem var sérstaklega tileinkað loftslagsmálum. Einstakir blaðamenn hafa líka verið ötulir í umfjöllun um loftslagsmál, má þar meðal annars sérstaklega nefna, að öðrum ólöstuðum, Kjartan Kjartansson sem hefur bæði verið á mbl.is og núna á visir.is þar sem hann skrifar reglulega um loftslagsmál. Umfjöllun ýmissa fjölmiðla um Gretu Thunberg, öflugan sextán ára ungling sem hefur mótmælt aðgerðarleysi fyrri kynslóða í loftslagsmálum, hefur verið mikil undanfarna mánuði og breytingar í náttúrunni fara ekki framhjá nokkrum manni sem fylgjast með fréttum almennt. Þess má geta að Greta Thunberg er samkvæmt einhverjum heimildum skyld Svante Arrhenius (faðir Gretu er skírður í höfuðið á Svante Arrhenius), en opnunardagur loftslag.is þann 19. september 2009 var einmitt valin vegna tengingar við fæðingardag hans:

    “19. september var valin vegna þess að þá eru liðnir 55.000 dagar frá fæðingu Svante Arrhenius. Hann var einn af þeim fyrstu sem gerði tilraun til að reikna út hugsanleg áhrif á aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Hann fæddist þann 19. febrúar árið 1859 og dó 2. október 1927.”

    Vegna breytinga í almennri fjölmiðlaumfjöllun um loftslagsmál á síðustu árum, þá má kannski segja að mikilvægi loftslag.is, sem upplýsingasíða um loftslagsmál og fréttasíða hafi minnkað töluvert og er það vel, því mikilvægt er að sem flestir séu upplýstir um loftslagsmálin sem er mikilvægasta mál samtíðarinnar og framtíðarinnar. Það er þó enn langt í land, en almenningur er þó betur upplýstur en fyrir 10 árum og fólk er almennt jákvæðara gagnvart því að taka á vandanum, jafnvel þó það geti haft persónulega breytingar í för með sér fyrir almenning.

    HvadhofumvidgertÞátturinn “Hvað höfum við gert?” hefur einnig orðið til þess að opna hug almennings varðandi loftslagsvandann og var það gríðarlega gott efni sem vafalítið breytti viðhorfi fólks til loftslagsmála. Fólkið á bak við “Hvað höfum við gert?” fékk einmitt Fjölmiðlaverðlaun um­hverf­is- og auðlindaráðuneyt­is­ins á degi Íslenskrar Náttúru núna um daginn.

    Fyrir nokkrum árum þýddum við svo leiðarvísi varðandi efahyggju og loftslagsvísindi sem nefnist “Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hin vísindalegi leiðarvísir“, það er um að gera að minna á hann vegna afmælisins, því þó að afneitun hafi minnkað, þá virðast þetta samt alltaf vera sömu punktarnir sem dúkka upp og því getur leiðarvísirinn komið sér vel fyrir þá sem vilja vera tilbúnir í umræður við gamla frændann sem alltaf kemur með sömu “efasemdirnar” á reiðum höndum í afmælisboðum og mannfögnuðum, um að gera að opna PDF skjalið, prenta það út og lesa yfir.

    Hvað hefur gerst á þessum á 10 árum?

    Loftslag hefur haldið áfram að breytast í hröðum takti sem er viðhaldið með áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Í dag notum við orðið hamfarahlýnun frekar um loftslagsbreytingar svo fólk átti sig betur á hvað við er að eiga, þetta er ekki eðlileg þróun, þetta er hamfarahlýnun sem er afleiðing af gjörðum mannkyns, s.s. bein aukin losun vegna bruna jarðefnaeldsneytis og breyttrar landnotkunar sem valda auknum gróðurhúsaáhrifum.

    Breytingar á síðustu 10 árum

    Á einungis 10 árum, þá má merkja verulegan mun í ýmsum þáttum sem notaðir eru til að mæla breytingar í loftslaginu. Hér munum við skoða 2 mikilvæga þætti í stuttu máli og myndum og nefna svo nokkra til í kjölfarið.

    Hitastig

    hitastig_taminoÁ síðustu 10 árum hefur hitastig hækkað um u.þ.b. 0,2°C og það er ekkert sem bendir til þess að sú þróun stöðvist á næstunni, heldur að það verði frekar aukin hraði í hækkun hitastigs. Síðustu 4 ár eru hlýjustu ár frá því mælingar hófust og 2019 mun blanda sér í þá baráttu líka. Hitastig gæti hækkað um 3-4°C (jafnvel meira) fyrir næstu aldamót ef ekkert er að gert. Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir að reyna að halda hitastigshækkun innan 2°C, helst 1,5°C. Miðað við núverandi losun gróðurhúsalofttegunda þá verður að teljast mjög ólíklegt að markmið Parísarsamkomulagsins náist, en auðvitað er verið að vinna í málinu og ný markmið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda líta vonandi dagsins ljós. Það er mikils virði að halda hitastigshækkun innan 2°C og við verðum að reyna allt sem hægt er til þess, en það þýðir að þjóðir heims verða að setja enn betri markmið varðandi losun og draga enn meira úr losun en núverandi markmið gera ráð fyrir.

    Hafís í Norðurhöfum

    Samfara auknu hitastigi hefur hafísinn minnkað á norðurheimskautinu. Minnkunin hefur verið rykkjótt, en leitnin sýnir stöðuga minnkun hafíssins. Árið 2012 var metár og var lágmarkið það ár það lægsta sem mælst hefur. En það er einnig athyglisvert að skoða lágmarks útbreiðslu við hámarkið og svo að meðaltali, sjá myndir hér undir.

    arctic_annavearctic_annminarctic_annmax

    Hafís er fingrafar á hitastigs hækkunina, við hækkandi hitastig þá bráðnar hafísinn enn meira og það hefur í raun sýnt sig á síðustu 10 árum eins og áratugina á undan að bráðnun hafíss er staðreynd. Árið 2009 þegar við hófum störf hér á loftslag.is þá jókst útbreiðsla hafíss frá árinu á undan (2008 hafði þá verið með minnstu útbreiðsluna frá upphafi mælinga) og afneitunarsinnar á Íslandi og víðar túlkuðu þessa aukningu 2009 sem ljóst merki um að hafísinn væri að ná sér! Það er þó alveg ljóst þegar við skoðum gögnin fyrir árlegt lágmark, hámark og svo meðaltal (sjá myndir hér að ofan) að áframhaldandi bráðnun hafíss er staðreynd.

    Aðrar breytingar

    Það er því alveg ljóst, eins og verið hefur í tugi ára, að loftslag er að breytast og hefur breyst á síðastliðnum áratug af manna völdum. Þær breytingar aðrar sem nærtækast að nefna eru t.d. sjávarstöðubreytingar, sem virðast hafa verið vanmetnar meðal vísindamanna í gegnum tíðina, bráðnun jökla sem er auðvitað eitthvað sem við Íslendingar fylgjumst með af fyrsta bekk. Bráðnun Grænlandsjökuls og jökulbreiðunnar á Suðurskautslandinu eru líka mikilvæg, enda það sem getur haft einna mest áhrif á hækkun sjávar á næstu áratugum. Súrnun sjávar er einnig mjög mikilvægt atriði sem ætti að vera okkur Íslendingum ofarlegar í huga enda getur það (ásamt hlýnun sjávar) haft veruleg áhrif á vistkerfi hafsins. Og svo er það náttúrulega áhrifavaldurinn sjálfur, magn CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu sem aukast jafnt og þétt.

    Afneitun loftslagsvísinda meðal almennings hefur sem betur fer minnkað á síðustu 10 árum, en betur má ef duga skal. Í dag eru t.d. stjórnvöld í BNA og fleiri löndum að taka mjög vafasama stefnu í loftslagsmálum, þannig að það er um að gera að vera á varðbergi.

     

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • Ræða á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar 2018

    Ræða á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar 2018

    Loftslagsfundur_2017

    Vegna þess að loftslag.is fékk Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar 2017, þá var okkur boðið að halda ræðu við afhendingu Loftslagsviðurkenningarinnar 2018, sem var afhent á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar þann 29. nóvember 2018. Sveinn hélt ræðuna og hana má lesa hér:

    Fundarstjóri, góðir fundargestir

    Mig langar að byrja á því að þakka fyrir að fá að ræða loftslagsmálin hér, þau eru sannarlega eitt mikilvægasta málefni samtímans. Ég held hér tölu fyrir hönd loftslag.is sem fékk Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar á síðasta ári.

    Síðan við félagarnir byrjuðum með loftslag.is fyrir 9 árum þá hefur sitthvað breyst og t.a.m. ýmislegt jákvætt gerst í umfjöllunum fjölmiðla um loftslagsbreytingar svo eitthvað sé nefnt. Það er t.d. mun sjaldgæfara í dag að sjá fréttir um loftslagsmálin sem byggja á afneitun og/eða útúrsnúningum sem ekki standast skoðun, en það var tiltölulega algengt þegar við byrjuðum með loftslag.is. Ég ætla svo sem ekki að fullyrða um okkar rullu í því að breyta þessu, en allavega virðist hafa orðið einhver viðhorfsbreyting og fólk flest orðið tiltölulega meðvitað um loftslagsvandann, sem er jákvæð þróun.

    Nú er rætt um loftslagsmál í aðdraganda kosninga, og ekki nóg með það, heldur í kjölfar þeirra líka! Aðgerðaráætlanir eru gerðar, nefndir settar á fót og málin jafnvel rædd í fermingarveislum og öðrum mannamótum. Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að langflestir telji að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu staðreynd, en hin hliðin á málinu er þó að meirihlutinn telur samt að þau persónulega beri ekki ábyrgð, s.s. að lífsstíll þeirra sé einhvern vegin undanskilin ábyrgð!

    Auðvitað er ábyrgð sterkt orð, en það er þó merkilegt að flestir telji sig stikkfrí þegar kemur að loftslagsvandanum, þar sem samfélagið í heild ber ábyrgð á einhvern hátt. Ég myndi t.d. ekki telja að minn lífsstíll geri mig stikkfrían á nokkurn hátt og tek ég gjarnan minn hluta af ábyrgðinni og skorast ekki undan henni, en vissulega er skömmin stærri en það sem ég persónulega get gert í málinu upp á mitt einsdæmi. Þetta er sameiginlegt átak samfélagsins og helmingur samfélagsins ætti ekki að neita þeirri ábyrgð. En allavega hefur skilningur þjóðarinnar á vandanum tekið stakkaskiptum, sem er kannski það mikilvægasta til að hafa áhrif á samtakamátt þjóðarinnar til framtíðar.

    Eins og staðan er núna í losun heimsins á gróðurhúsalofttegundum, þ.e. miðað við loforð ríkja, þ.e. sjálfviljugar skuldbingar um samdrátt í losun á næstu áratugum í anda Parísarsamkomulagsins, þá stefnum við á u.þ.b. þriggja gráðu hækkun hitastigs og ef ekki er staðið við loforðin þá gæti fimm gráðu hækkun hitastigs fyrir næstu aldamót orðið staðreynd. Markmið Parísarsamkomulagsins er að komast vel undir 2°C hækkun hitastigs, helst að takmarka hlýnunina við 1,5°C fram að aldamótum. Auðvitað á eftir að fara yfir stöðuna, endurmeta loforð þjóða um minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda og halda áfram að búa til aðgerðaráætlanir og setja á stofn enn fleiri nefndir og halda röð funda á næstu árum og áratugum til að komast nær og vonandi ná markmiðum samkomulagsins, en eins og staðan er núna þá eigum við verulega langt í land. Núverandi markmið um að minnka losun Íslands um 40% fyrir 2030 er t.a.m. ekki nægjanlegt ( þar fyrir utan þá hef ég enn ekki séð sannfærandi áætlun um hvernig á að ná þeim markmiðum ), það þarf s.s. að gera enn betur. Þess má geta að þessi loforð þjóða eru eitt af mörgum skrefum sem er verið að taka um þessar mundir og skrefin eiga eftir að verða fleiri, en það þarf líka að standa við þau loforð og framkvæma, t.d. með nýsköpun í loftslagsmálum.

    Nú eru viðsjárverðir tímar í alþjóðlegri pólitík og það eru pólitísk öfl víða um heim sem telja að loftslagsvísindi séu gabb og vilja því hlaupa frá gerðum samningum. Þ.a.l. er raunverulegt að hafa áhyggjur af stöðu mála og hvort staðið verður við gefin loforð í anda Parísarsamkomulagsins. Við þurfum að vera á tánnum og með einbeittum vilja eigum við að krefjast lausna til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hratt og örugglega. Það má ekki leggja árar í bát í þeim efnum. Fyrir utan tækninýjungar, betri orkunýtingu samgöngutækja og allskyns aðra nauðsynlega nýsköpun (eins og t.d. hefur verið rætt um í dag), þá þarf einnig að notast við aðrar tiltækar lausnir, t.d. skógrækt og landgræðslu til að binda CO2 í jarðvegi og gróðri, svo og að koma í veg fyrir losun frá framræstum mýrum með endurheimt votlendis, sem og að minnka aðra losun vegna landnotkunar. Svo er líka hægt að ná verulegum árangri með bættri matarmenningu (bæði val á fæðu og nýtingu matar almennt), svo fátt eitt sé nefnt. Það þarf að ráðast á vandann frá öllum hliðum og það þarf að ganga hratt fyrir sig, tíminn er að hlaupa frá okkur.

    Einhverjir kynnu að spyrja sig hvort það sé kannski of seint að gera eitthvað í málunum, hvort að það sé of langt milli loforða þjóða og markmiðanna? Þetta er gild spurning, enda erfitt að koma auga á framkvæmdina á þessum tímapunkti, en ég tel að tíminn sé enn nægur til að taka á málum, þó vissulega hefði verið betra að byrja fyrr, enda hefur loftslagsvandinn legið fyrir áratugum saman. Ég hef þó trú á því að við getum náð árangri, en við erum að falla á tíma og aðgerðir þurfa að verða enn sjáanlegri og fyrirferðarmeiri. Við getum ekki sagt “þetta reddast”, það virkar ekki á loftslagsvandann, það þarf nýsköpun, skipulag og einbeittan vilja til að ná árangri til framtíðar. Ef við tökum vandann ekki alvarlega þá er líklegast að niðurstaðan verði slæm, en með skipulagi og einbeittum vilja, allt frá einstaklingum til þjóðfélagsins í heild, þá verður þetta mögulegt. Það er það sem ég óska eftir, flestir geta vonandi tekið undir það.

    Takk fyrir.

  • COP21 og grasrót vafans

    COP21 og grasrót vafans

    Í tilefni hverrar einustu COP ráðstefnu hefur farið í gang maskína afneitunar um loftslagsfræðin og er eitt frægasta dæmið uppspuninn um hið svokallaða “Climategate” frá 2009. COP21 er engin undantekning, þó að það megi nú með sanni segja að afneitunin sé lágværari og mun minna áberandi en áður.  Afneitunin fær samt pláss á síðum Morgunblaðsins þann 1. desember 2015 og hafa þau skrif fengið pláss sem fréttaskýring!

    Kristján Jónsson skrifar grein sem kallast – Stefnt að ramma um “sjálfviljug markmið” – og undir millifyrirsögninni “Umdeild vísindi” kemur eftirfarandi fram:

    Mikið af pólitísku kapítali hefur verið fjárfest í ákveðnum fullyrðingum. Deilt er um túlkun á rannsóknum, spálíkön, hvort fiktað hafi verið við tölur. Geysilegur hiti er í deilunum og menn saka hver annan um að gæta peningahagsmuna olíufyrirtækjanna eða reyna að tryggja sér rannsóknastyrki og stöður, t.d. með því halda á lofti skoðunum sem nái eyrum ráðamanna. Þekktir vísindamenn, nefna má eðlisfræðinginn og Nóbelshafann Ivar Giaever, hafa gagnrýnt harkalega þá sem neiti að ræða lengur forsendurnar, segi allt klappað og klárt. Þannig séu vísindin aldrei, segir Giaever. Hann hefur sagt að kenningar um hlýnun af mannavöldum séu „rugl“.

    Óhjákvæmilegt er að fara yfir gamlar mælingatölur um hitafar, lagfæra gallaðar tölur og samræma. Fikta. En mörgum brá í brún þegar í ljós kom að heimsþekktir vísindamenn NASA í Bandaríkjunum höfðu „leiðrétt“ tölur frá Íslendingum um mikinn hitamun milli Reykjavíkur og Akureyrar á hafísárunum á sjöunda áratug 20. aldar.

    Þarna er verið að sá vafa í huga fólks með vægast sagt vafasömum fullyrðingum sem standast ekki skoðun. Hér verður farið yfir nokkrar þessara fullyrðinga.

    Greinin, sem er dulbúin fréttaskýring um hin mikilvægu loftslagsmál, er sett upp þannig að gefið er í skyn að einhverjar deilur séu um kenninguna um hnattræna hlýna af mannavöldum – að þar séu andstæðir pólar og fær lesandinn á tilfinninguna að þar sé jafn skipt. Deilurnar eru þó ekki jafnari en svo að það eru yfirgnæfandi meiri hluti loftslagsvísindamanna (um 97-98 %) sammála því að jörðin sé að hlýna vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.

    Eitt af því sem rýrir enn meira þessa grein er að hann ætlast til þess að einn maður, öldungurinn og eðlisfræðingurinn Ivar Giaever (86 ára), nóbelsverðlaunahafi frá árinu 1973 hafi nógu mikla vigt í umræðum um loftslagsmál að verjandi sé að vitna í hann. Reyndar er til tilvitnun í hann, þar sem hann segir:

    “I am not really terribly interested in global warming.  Like most physicists I don’t think much about it.  But in 2008 I was in a panel here about global warming and I had to learn something about it.  And I spent a day or so – half a day maybe on Google, and I was horrified by what I learned.  And I’m going to try to explain to you why that was the case.” Ivar Giaever, Nobel Winning Physicist and Climate Pseudoscientist
    Þetta sýnir kannski hvað hann hefur sett sig vel inn í hlutina og hversu vel ígrundað það er að nota hann sem heimild í umfjöllun um loftslagsmál. Þessi vafans aðferð er nokkuð algeng, það er reynt að gera lítið úr vísindunum, ýjað að því að um falsanir og svik sé að ræða og vísað í ósérhæfða sérfræðinga – þarna fer Kristján því í gegnum mjög þekkta aðferðafræði afneitunar, sem hefur virkað vel til þess að hafa áhrif á fólk á síðustu árum og áratugum, en nú láta færri gabba sig svona og þessi aðferðafræði er vonandi að verða úrelt.

    Þess má geta að aðferðafræði Kristjáns minnir hressilega á afneitunarblogg númer 1 á Íslandi, þar sem þeir þættir sem Kristján nefnir hafa verið til umfjöllunar á bloggsíðu sem Ágúst H. Bjarnason (verkfræðingur) stendur fyrir – sú síða hefur í gegnum árin verið ein stærsta heimild þeirra sem vilja nálgast efnivið í afneitun á þessum fræðum og virðist Kristján hafa sótt efni það, sjá t.d. þetta og þetta.

    Varðandi meintar falsanir NASA sem Ágúst H. Bjarnason hefur haldið á lofti, þá hefur Halldór Björnsson sérsfræðingur hjá Veðurstofu Íslands svarað þessu og við birtum meðal annars hér á loftslag.is (sjá Athugasemd varðandi meintar falsanir NASA). Þar kemur meðal annars fram:

    Leiðréttingar GHCN eru hinsvegar af og frá, eins og þú bendir réttilega á. Hinsvegar er það að hengja bakara fyrir smið að halda því fram að þetta sé villa hjá NASA. Þeir erfa þessa villu frá NOAA og lagfæra hana að nokkru. Að lokum er rétt að taka fram að lagfæringar VÍ á mæliröðinni fyrir Reykjavík eru á engan hátt endanlegur sannleikur um þróun meðalhita þar. Hinsvegar er ljóst að staðsetning mælisins upp á þaki Landsímahússins var óheppileg, þar mældist kerfisbundið meiri hiti en á nálægum stöðvum. Vegna þessa er full ástæða til að til að leiðrétta mæliröðina, en vel er hugsanlegt að leiðréttingin (um 0.4°C) sé full mikil. Þessi leiðrétting kann að verða endurskoðuð síðar. Slíkt hefði þó óveruleg áhrif á langtímaleitni lofthita í Reykjavík (og engin á hnattrænt meðaltal).

    Það getur vel verið að einhverjir lesi þessa “fréttaskýringu” Morgunblaðsins gagnrýnislaust, en ef vel er skoðað og staðreyndir málsins teknar fyrir, þá sést að engar deilur eru um að losun gróðurhúsaloftegunda af mannavöldum veldur hnattrænni hlýnun og þarf engar falsanir á gögnum til að sýna fram á að hnattræn hlýnun á sér stað.

    Þó notuð sé aðferð vafans og reynt að draga úr vilja almennings til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þá er enginn vafi að jörðin er að hlýna af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Auðlindastríðið

    Auðlindastríðið

    Fyrir næstum sex árum síðan birtum við færslu hér á loftslag.is sem við kölluðum Loftslagsstríðin. Tenglar á þeirri færslu eru margir hættir að virka, en í kjölfar undanfarinnar umræðu um flóttamenn þá rifjaðist upp seinni hluti færslunnar. Við birtum þann hluta hér, með viðbótum auk leiðréttra tengla og tilvísana. Ath: Sumt stenst ekki skoðun í þessum þáttum. Sem dæmi segir einn viðmælandi í fyrsta þættinum að með áframhaldandi bráðnun þá gæti norðurskautið orðið hafíslaust yfir sumartíman árið 2015. Aðrar villur geta leynst í þáttunum en þrátt fyrir það þá eldast þessir þættir prýðilega. 

    The_Climate_WarsHvað gerist ef spár ganga eftir og ýmsar þjóðir verða fyrir umtalsverðum vatnsskorti og matarskorti vegna loftslagsbreytinga. Munu flóttamenn flykkjast að næsta góða landi? Munu þær þjóðir sem eru vel vopnum búnar ráðast á nágranna sína? Um þetta og fleira fjallar Gwynne Dyer, höfundur bókarinnar Climate Wars í útvarpsþáttum sem voru útvarpaðir á CBC Radio, en eru nú til á heimasíðu hans. Þetta eru þrír þættir, hver um sig klukkutíma langur. Grípandi útvarpsefni og verður aldrei langdregið, tilvalið í eina til tvær kvöldstundir.

    Hægt er að hlusta á þættina með því að fara á heimasíðuna CBC Radio -The Best of Ideas – Climate Wars eða hér fyrir neðan (ath örstutt auglýsing á undan):

    Þáttur 1

    Þáttur 2

    Þáttur 3

    Brot úr útvarpsþættinum:

    About 2 years ago I noticed that the military in various countries, and especially in the Pentagon, were beginning to take climate change seriously. Now, it’s the business of the military to find new security threats. It’s also in their own self-interest, since they need a constant supply of threats in order to justify their demands on the taxpayers’ money, so you should always take the new threats that the soldiers discover with a grain of salt. You know, never ask the barber whether you need a haircut.

    But I did start to look into this idea that global warming could lead to wars. It turned into a year-long trek talking to scientists, soldiers and politicians in a dozen different countries. I have come back from that trip seriously worried, and there are four things I learned that I think you ought to know.

    The first is that a lot of the scientists who study climate change are in a state of suppressed panic these days. Things seem to be moving much faster than their models predicted.

    The second thing is that the military strategists are right. Global warming is going to cause wars, because some countries will suffer a lot more than others. That will make dealing with the global problem of climate change a lot harder.

    The third is that we are probably not going to meet the deadlines. The world’s countries will probably not cut their greenhouse gas emissions enough, in time, to keep the warming from going past 2 degrees celsius. That is very serious.

    And the fourth thing is that it may be possible to cheat on the deadlines. I think we will need a way to cheat, at least for a while, in order to avoid a global disaster.

     

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hraðari hnattræn hlýnun og samsæriskenningar

    Hraðari hnattræn hlýnun og samsæriskenningar

    Eftir því sem losun manna á gróðurhúsalofttegundum eykst og styrkur þess vex í lofthjúpnum, því meir hlýnar jörðin. Vissulega eru sveiflur í hlýnuninni sérstaklega staðbundið, en almennt séð þá hlýnar til lengri tíma litið.

    Hlýnunin er mæld með því að mæla hitastig á mælistöðum víða um heim, en nákvæm mæling á hitastigi jarðar er ekki einföld. Hitastig breytist eftir árstíðum, staðsetningu auk náttúrulegs breytileika, bæði tímabundið og staðbundið. Það höfum við á Íslandi til dæmis orðið vitni að undanfarið. Af því leiðir að vísindamenn búast ekki við að hitastig rísi alls staðar jafnt og þétt eða alltaf. Vísindamenn búast samt við því að til lengri tíma litið sé leitnin upp á við og sú er einmitt raunin.

    Þrátt fyrir það, þá virðist umræðan um hina hnattrænu hlýnun snúast að nokkru leyti um pásu eða minnkandi hnattræna hlýnun. Við á loftslag.is höfum ekki tekið undir það, en þó bent á ýmsa þætti í loftslagi jarðar sem geta valdið því að hlýnunin virðist hulin.

    Ný grein í Science

    Nú nýverið kom út grein eftir nokkra vísindamenn innan hinnar virtu stofnunar NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration), Karl o.fl. 2015, þar sem skoðaðar eru mælingar við yfirborð jarðar og spurt hvort hlýnunin hafi hægt á sér.  Í greininni segja vísindamennirnir frá leiðréttingum sínum á yfirborðshita sjávar, en tvenns konar villur hafa komið fram í gegnum tíðina við mælingar skipa á hita – annars vegar vegna hita sem kemur frá skipum sjálfum þegar þau taka inn sjóinn til mælinga og hins vegar breytingar á því hvernig hiti var mældur fyrir og eftir heimsstyrjöldina síðari. Einnig eru notuð ný gögn fyrir landhita, þar sem sameinaðir eru nokkrir gagnagrunnar í einn.

    Niðurstaðan er helst sú að leitni hitastigs, síðastliðin 17 ár eða svo, hefur haldið áfram að aukast og engin sýnileg pása. Í raun hefur leitnin aukist á sama hraða og síðastliðna fimm áratugi. Þeir sem afneita hnattrænni hlýnun af mannavöldum sérvelja (e. cherry pick) oft þau tímabil sem líklegust eru til að sýna litla leitni í hlýnun – með það að leiðarljósi prófuðu höfundar að sérvelja hið heita El Nino ár, 1998  sem upphaf tímabils og árið 2012 sem var kaldara en árin í kring sem enda tímabils. Þrátt fyrir það þá sýndi það tímabil afgerandi hlýnun.

    Vitað er að ýmsir þættir hafa undanfarna 1-2 áratugi haft kælandi áhrif á hnattrænan hita þ.e. aukin eldvirkni, ýmsar sveiflur úthafanna, minnkandi sólvirkni og aukning á kælandi örðum frá iðnaði í Asíu. Það vekur því vissan ugg að þrátt fyrir þessi kælandi áhrif hafi hnattræn hlýnun haldið áfram.

    Líklegt er að árið 2015 verði enn heitara en síðasta ár, 2014, en það var það heitasta í sögu mælinga. Eitt er víst að ein algengasta mýta undanfarinna ára um að hlýnun jarðar sé í pásu og að allt stefni í kólnun á ekki við rök að styðjast.

    Sæmsæriskenningar

    Í kjölfar þess að búið var að afskrifa eina af aðalmýtu þeirra sem afneita hnattrænni hlýnun, þá mátti búast við að þeir myndu reyna að finna nýjan vinkil á afneitunina. Sú hefur strax orðið raunin og ber mest á algengu tóli þeirra sem eiga erfitt með að sætta sig við afgerandi gögn og rannsóknir: samsæriskenningar.  Því hafa strax komið upp samsæriskenningar um að vísindamenn NOAA hafi hér átt við gögnin til að fela pásuna. Það skal tekið fram að allt er upp á borðum: greinin er mjög skýr, ásamt því að gögn og aðferðir eru aðgengilegar með greininni.

    Einn áhugaverður punktur blasir við þeim sem lesa greinina og setur samsæriskenningar þeirra sem afneita hnattrænni hlýnun í nýtt samhengi: Ef hér er um að ræða samsæri vísindamanna til að auka hnattræna hlýnun, þá er einn frekar áberandi galli við þá samsæriskenningu. Í raun þá draga leiðréttingarnar úr hlýnuninni í heild. Þetta sést vel ef skoðuð er mynd úr greininni, sjá neðri myndina:

    Hlynun
    Hnattrænn yfirborðshiti NOAA með nýju aðferðinni og gömlu annars vegar og með og án leiðréttingu hins vegar. (A) Nýja aðferðin (svört lína) ásamt gömlu (rauð lína). (B) Nýja aðferðin (svört lína) samanborin við óleiðrétt gögn (bláleit lína), úr greininni í Science; Karl o.fl. (2015).

    Óleiðrétt gögnin sýna hlýnun um 0,9°C frá 1880-2014 – en samkvæmt nýju greiningunni þá hefur hlýnað um 0,8°C á þeim tíma. Leiðréttingin sýnir því minni hlýnun í heildina, þó vissulega sýni nákvæmari gögn að enn sé hlýnunin hröð. Að leiðrétta gögnin til að gefa sem réttasta mynd af þeim breytingum sem eru í gangi, eru hrein og klár vísindi og hefur það ekkert að gera með samsæri. En samsæriskenningar lúta reyndar ekki lögmálum heilbrigðrar skynsemi.

    Heimildir og ítarefni

    Greinin í Science: Karl o.fl. 2015: Possible artifacts of data biases in the recent global surface warming hiatus

    Tvær góðar umfjallanir í The Guardian: New research suggests global warming is accelerating og What you need to know about the NOAA global warming faux pause paper

    Um samsæriskenningar: Scientific conspiracies are impossible

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hulin hlýnun

    Hulin hlýnun

    Hitafrávik 1880 - 2014 blá lína. Appelsínugul lína er 5 ára hlaupandi meðaltal. [Heimild http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt]
    Hitafrávik 1880 – 2014 blá lína. Appelsínugul lína er 5 ára hlaupandi meðaltal. Gögn NASA
    Undanfarin ár hefur stundum heyrst að það sé að kólna eða a.m.k. að hlýnunin sé lítil sem engin. Þær raddir tala jafnvel um “pásu” í hlýnunni, sem vísindamenn skrifa reyndar fæstir undir – enda sveiflan enn innan marka náttúrulegs breytileika og leitnin enn vel upp á við. Þá er vitað að þó lægðagangur hafi leikið okkur Íslendinga grátt síðustu mánuði og kalt hafi verið á Austurströnd Bandaríkjanna, þá heldur jörðin áfram að hitna, enda var árið 2014 hnattænt hlýjasta ár í sögu mælinga.

    Nú bendir margt til þess að þessi “pása” eða náttúrulega sveifla sé á undanhaldi og að við taki einhver ár með töluverðri hnattrænni hlýnun. Það skal tekið fram að staðbundin pása eða kólnun getur vel átt sér stað tímabundið í hitnandi veröld. Til dæmis er mögulegt að á Íslandi geti orðið bakslag í hitastigi, enda hefur hitinn aukist mun meir hér á landi en hnattrænt og hitastig verið mjög hátt og jafnt undanfarinn rúman áratug eða svo. Enda var síðasta ár eitt hlýjasta á Íslandi frá upphafi mælinga.

    Náttúrulegar sveiflur úthafana

    Fyrir nokkru birtist grein í Science (Steinman o.fl. 2015) þar sem kastljósinu er beint að úthöfunum og hvernig þau hafa veitt okkur einskonar falskt öryggi hvað varðar framtíðarhorfur í loftslagi jarðar. Vísindamennirnir notuðu nýjustu loftslagslíkön og niðurstaðan er áhugaverð.

    Loftslag er sveiflukennt og ofan á hinni undirliggjandi hnattrænu hlýnun eru náttúrulegir ferlar sem hafa tímabundin áhrif á loftslag jarðar – ýmist í átt til kólnunar eða hlýnunar. Slíkir ferlar eða sveiflur (oscillations) eru ráðandi í skammtímasveiflum loftslags. Í þessari grein skoðuðu höfundar sérstaklega áratugasveiflur í Atlantshafinu (Atlantic Multidecadal Oscillation – AMO) og í Kyrrahafinu (Pacific Decadal Oscillation – PDO). AMO er reglubundin sveifla í hitastigi Norður-Atlantshafsins sem tekur um 50-70 ár, á meðan PDO er sveifla í Kyrrahafinu og blanda af styttri sveiflu (16-20 ár) og lengri (50-70 ár). Lengri sveiflan er hér kölluð PMO. Sveiflan í hitastigi á norðurhveli jarðar er kölluð hér NMO og er það sem eftir stendur þegar búið er að draga frá ýmsa þætti í loftslagi, t.d. gróðurhúsaáhrifin (og önnur áhrif á loftslag frá mönnum), sólvirkni og eldvirkni. Talið er að NMO samanstandi af sveiflum AMO og PMO.

    Höfundar skoðuðu þessar löngu sveiflu og spurðu sig hvort núverandi staða í úthöfunum geti útskýrt sveiflur í hitastigi við yfirborð jarðar, þá sérstaklega á norðurhveli. Niðurstaða þeirra er áhugaverð, en PMO er talið skýra stóran hluta af sveiflum í NMO.

    Sveiflur í sögu AMO (blá), PMO (grænn) og NMO (svartur). Óvissa mörkuð með skyggingu.  Greinilegt er að AMO er í grunnu hámarki núna á meðan PMO er í mikilli niðursveiflu. PMO skýrir að miklu leiti neikvæða sveiflu í NMO. - Af RealClimate
    Sveiflur í sögu AMO (blá), PMO (grænn) og NMO (svartur). Óvissa mörkuð með skyggingu.
    Greinilegt er að AMO er í grunnu hámarki núna á meðan PMO er í mikilli niðursveiflu. PMO skýrir að miklu leiti neikvæða sveiflu í NMO. – Af RealClimate

    Eins og sést á myndinni hér fyrir ofan, þá er NMO sem stendur á niðurleið og er PMO helsti sökudólgurinn. PMO tengist köldum fasa í ENSO (El Nino Southern Oscillation), en sú sveifla hefur verið í áberandi köldum fasa undanfarið. AMO virðist aftur á móti hafa haft lítil áhrif á hitastig norðurhvels síðastliðna tvo áratugi, en sveifla þess hefur verið lítil og er hún flöt sem stendur.

    Niðurstaðan bendir til þess að það sé í raun engin pása í hnattrænni hlýnun af mannavöldum, í raun hafa náttúrulegar sveiflur og þá sérstaklega í Kyrrahafinu, náð að hylja hina hnattrænu hlýnun tímabundið og þá sérstaklega á norðuhveli jarðar. Keyrsla gagna í nýjustu loftslagslíkönum benda til þess að hér sé um að ræða tilviljunarkennda innri sveiflu í loftslaginu. Líklegt þykir að þetta muni þó ekki halda lengi því ef skoðað er mynstur breytinga undanfarna rúma öld þá er líklegt að PMO sveiflan muni skipta um gír fljótlega og bæta á núverandi hnattrænu hlýnun næstu áratugi, í stað þess að hylja hana. Því miður er því útlit fyrir því að hin hnattræna hlýnun muni halda áfram og af fullum krafti næstu ár eða áratugi.

    Heimildir og ítarefni

    Steinman o.fl. 2015 (ágrip) í tímaritinu Science: Atlantic and Pacific multidecadal oscillations and Northern Hemisphere temperatures

    Umfjöllun um grein Steinman o.fl. má t.d. finna á heimasíðu Guardian (The oceans may be lulling us into a false sense of climate security) og á RealClimate (Climate Oscillations and the Global Warming Faux Pause)

    Tengt efni á loftslag.is