Á föstudaginn verður viðburður á vegum Ungra Umhverfissinna, SÍF (Samband íslenskra framhaldsskólanema), LÍS (Landssamtök íslenskra stúdenta) og SHÍ (Stúdentaráð HÍ) sem nefnist Alþjóðlegt Loftslagsverkfall. Eftirfarandi er lýsing viðburðarins af Facebook.
—
Samstillt alþjóðlegt verkfall fyrir loftslagið!
Söfnumst saman næsta föstudag, 24. maí, klukkan 12:00, fyrir framan Hallgrímskirkju og göngum niður á Austurvöll! ?
Sýnum í verki að okkur er umhugað um framtíð okkar, barna okkar og komandi kynslóða. Krefjum fram róttækar og metnaðarfullar aðgerðir gegn loftslagsvánni því það ríkir neyðarástand vegna þeirra loftslagshamfara sem eru að eiga sér stað! Tíminn er á þrotum og við þurfum aðgerðir núna strax! ⌛
Verkfallið er innblásið af hinni sænsku Gretu Thunberg, en skólaverkfall hennar hefur vakið mikla athygli. Á síðasta alþjóðlega samstillta loftslagsverkfalli 24. mars mótmæltu 1.6 milljón manns aðgerðaleysi í loftslagsmálum í yfir 2000 borgum og bæjum í fleiri en 125 löndum í öllum sjö heimsálfum. Þar af voru yfir 2000 manns sem mótmæltu hér á Íslandi. Nú fer Greta í sitt fertugasta loftslagsverkfall og því er blásið til samstillts verkfall um allan heim til að kalla á raunverulegar aðgerðir gegn loftslagsvánni. ✊
Stjórnvöld hafa sett sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og stefna á kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 en árleg losun jókst síðast um 2,2% á milli ára! Betur má ef duga skal! Núverandi aðgerðaáætlun er ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5°C á heimsvísu og við krefjumst róttækra aðgerða til að ná því markmiði. ?️
Ljóst er að stórauka þarf fjárframlög til loftslagsaðgerða. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) metur að það þurfi 2,5% af vergri landsframleiðslu allra þjóða til loftslagsmála á ári, allt til ársins 2035, ef halda á hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C. Núverandi áætlun er upp á 0,05% af landsframleiðslu á ári næstu fimm árin. ☁️
Við krefjumst þess að Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5% af landsframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. Þar verður atvinnulífið einnig að axla ábyrgð.
Við viljum afdráttarlausar aðgerðir. Núna. Fyrir komandi kynslóðir. Fyrir loftslagið.
—
Sjá viðburðinn á Facebook. Við á Loftslag.is hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta.
Leave a Reply