Loftslag.is

Category: Fréttir

Fréttir úr heimi loftslagsvísindanna

  • Hið nýja loftslagsstríð

    Hið nýja loftslagsstríð

    Út er komin ný bók eftir loftslagsvísindamanninn Micheal Mann, sem heitir The New Climate War. Það gæti útlagst sem Hið nýja loftslagsstríð. Þessi bók var auðvitað strax útgefin sem hljóðbók og stafræn bók, til að minnka kolefnisfótspor við lestur hennar (eða hlustun), fyrir þau sem vilja. Sá sem þetta skrifar hlustaði á bókina af athygli og ætlar að lesa eða hlusta á hana aftur síðar.

    the new climate war
    Micheal Mann, höfundur The New Climate War

    Í þessari bók rekur Micheal Mann hvernig orystuplan olíuiðnaðarins hefur þróast í gegnum tíðina, fyrst undir áhrifum t.d. tóbaksiðnaðarins og þeirra aðferða, sem fólst meðal annars í því að draga úr trúnaði almennings við niðurstöður vísindamanna. Hann fer einnig yfir hvernig planið hefur breyst úr því að hreinlega afneita loftslagsbreytingum og yfir í að blekkja, afvegaleiða og tefja umræðuna (e. deception, distraction and delay).

    Mann hefur staðið vaktina í nokkra áratugi og hefur fengið að finna fyrir aðferðum talsmanna olíuiðnararins, en lengi vel var gert mikið úr því að draga í efa vísindaleg heilindi hans. Eftir að hann birti hið þekkta línurit hokkíkylfuna (e. hockey stick) varð hann sjálfkrafa skotmark þeirra sem afneituðu loftslagsbreytingum, enda varla hægt að fá skýrari mynd af þeim loftslagsbreytingum sem eru í gangi af mannavöldum.

    Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum.

    Þessi öfl, sem áður stóðu fyrir hreinni afneitun sem fólst í því að halda því fram að það væru engar loftslagsbreytingar í gangi (þvert á niðurstöður vísindamanna) eða að þessar loftslagsbreytingar væru ekki af mannavöldum (þvert á niðurstöður vísindamanna) eru nú meira í að telja fólki trú um að það sé orðið of seint eða of dýrt að gera nokkuð. Einnig eru notaðar aðferðir eins og að etja þá sem vilja draga úr loftslagsbreytingum upp á móti hvorum öðrum (t.d. með því að fólk rífist endalaust um hvað mengi mest og hvaða lausn sé best) eða að best sé kannski að bíða bara og sjá, betri og ódýrari lausnir verði til í framtíðinni og að efnahagslífið geti ekki tekist á við að minnka losun jarðefnaeldsneytis.

    Það er ekki hægt að segja nákvæmlega frá því í nokkrum setningum hvað sagt er í bókinni, en eitt af því sem kemur skýrt fram í bókinni er að olíuiðnaðurinn, eins og annar mengandi iðnaður, hefur varpað ábyrgðinni yfir á hendur einstaklinga að leysa vandamálið í stað þess að ábyrgðin sé þar sem vandamálið er, losun jarðefnaeldsneytis. Áhugavert er að heyra hvernig hægt er að tengja saman öfl sem hafa engan áhuga á slíkum lausnum og hvernig það tengist bandarískum stjórnmálum, rússneskum og yfir í miðausturlöndin.

    Micheal Mann lætur jafnvel þá sem ættu í raun að vera samherjar hans heyra það, líkt og þá sem telja að ástandið sé orðið það slæmt að ekki sé hægt að afstýra hörmungum – þær raddir séu akkúrat það sem þeir vilja heyra, þeir sem eru í því að blekkja, afvegaleiða og tefja umræðuna í stað þess að takast á við losun jarðefnaeldsneytis. Það á einnig við um þá sem vilja leysa vandamálið með jarðverkfræðilegum lausnum (e. geoengineering). Í raun væri langbesta lausnin sú að þrýsta á löggjöf sem myndi keyra orkunotkun frá jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

    Bókin vekur mann til umhugsunar og styðst við góð rök, sem byggð eru á innsæi vísindamanns sem fylgst hefur með umræðunni og séð hana breytast á undanförnum áratugum.

    Bókina má finna til dæmis á Amazon, sjá The New Climate War

    Tengt efni á loftslag.is

  • Hlýjasti nóvember í sögu mælinga

    Hlýjasti nóvember í sögu mælinga

    Samkvæmt gögnum NASA GISS þá var s.l. nóvember sá hlýjasti í sögu mælinga. Nóvember mældist 1,13°C yfir viðmiðunarárin, 1951-1980. Ef hitafrávikið fyrir desember verður um 0,7°C eða hærra (samkvæmt lauslegum útreikningum okkar á loftslag.is) þá fellur hitametið fyrir árið, en hitametið er frá 2016 og var hitafrávikið fyrir árið þá 1,01°C. Síðast þegar hitafrávikið fyrir desember fór undir 0,7°C var árið 2013 þegar það var 0,69°C.

    Það bendir því ýmislegt til að hitafrávik ársins 2020 verði með allra hæsta móti og jafnvel gæti það mælst hlýjasta ár frá upphafi mælinga. Yfirleitt eru hitamet slegin þegar El Nino ástand er í Kyrrahafinu, en það er ekki svo núna, þannig að það yrðu tiltölulega óvænt tíðindi að hitamet fyrir árið sé slegið þegar ekki er El Nino.

    Samkvæmt gögnum NOAA þá er árið í járnum og gæti endað á hvorn vegin sem er, sjá mynd.

    Heimildir:

    NASA – https://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v4/GLB.Ts+dSST.txt
    NOAA – https://www.ncdc.noaa.gov/sotc/global/202011

    Tengt efni á loftslag.is:

  • Um tímann og vatnið

    Um tímann og vatnið

    Við hér á loftslag.is viljum gjarnan mæla heilshugar með sýningunni Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason. Andri segir sögu sem rammar hvað við stöndum frammi fyrir á næstu áratugum og tengir það bæði fortíð og framtíð. Eftirfarandi lýsing er tekin af vef Borgarleikhússins:

    Andri Snær Magnason

    “Á næstu 100 árum mun jörðin okkar fara í gegnum breytingar sem eru stærri en tungumál okkar og myndhverfingar geta höndlað. Þessar yfirvofandi ummyndanir sprengja í raun skynjun okkar svo við heyrum bara eitthvað hvítt suð. Andri Snær Magnason ætlar að hjálpa okkur að sjá gegnum suðið og skilja stærðirnar með því að blanda saman persónulegum sögum, vísindum, minningum og hugmyndum um framtíðina. Þannig vefur hann fyrir okkur söguþráð sem er í senn ævintýralegur, alvarlegur og kannski með vonarglætu í lokin. Búðu þig undir ferðalag upp á Vatnajökul, þar sem við hittum Robert Oppenheimer, höfund kjarnorkusprengjunnar, leitum að uppruna lífsins og heyrum um frændann sem endurholdgaðist sem forsögulegur krókódíll áður en við förum á fund hjá heilögum manni sem lumar á svarinu við spurningunni um tilgang lífsins.”

    Fram koma Andri Snær Magnason, Högni Egilsson og skólakór Kársnesskóla. Það má nálgast miða á vef Borgarleikhússins og næstu sýningar í Borgarleikhúsinu verða þann 12. og 26. nóvember.

  • 10 ára afmæli

    10 ára afmæli

    Í tilefni af 10 ára afmælis loftslag.is ákváðum við ritstjórarnir að líta yfir farinn veg, jafnvel uppfæra síðuna og skrifa nýja pistla um loftslagsmál og hið stigmagnandi vandamál loftslagsbreytinga eða eins og það er skilgreint í dag, hamfarahlýnun.

    Tíminn virðist samt lúta öðrum lögmálum nú en fyrir 10 árum, því tími til að skrifa pistla og fréttir fyrir loftslag.is virðist hafa horfið eins og dögg fyrir sólu frá ritstjórninni. Líklega er það samt ekki tíminn sjálfur sem er að breytast heldur umhverfið allt, hvort heldur við horfum á hið náttúrulega umhverfi sem við höfum verið að skrifa um eða umhverfið sem skrifar um hið náttúrulega umhverfi. Skoðum aðeins hvað við er átt.

    Umræðan

    Fyrir 10 árum voru fáir fjölmiðlar að skrifa um loftslagsmál á Íslandi og þegar þeir skrifuðu eitthvað var það happa og glappa hvort þeir færu með rétt mál eða ekki. Skýrslur IPCC höfðu vissulega komið út, en nokkuð algengt var að gera minna úr loftslagsbreytingum af mannavöldum en rétt var miðað við þekkinguna sem var til staðar í vísindasamfélaginu. Mikið af mýtum voru í gangi, oft eitthvað sem auðvelt var að henda fram í rökræðum ef einhver vildi virkilega afneita því sem fræðimenn voru að segja. Þetta umhverfi þar sem afneitun virtist átakalína í umfjöllun um loftslagsmál var m.a. hvetjandi fyrir ritstjórnina á sínum tíma, enda vildi ritstjórnin hvetja til upplýstrar málefnalega umræðu um loftslagsmál byggða á staðreyndum málsins og hinum vísindalega grunni.

    Það var í þeim farvegi sem loftslag.is varð til, nauðsynlegt var að halda til haga þeim sífjölgandi mýtum sem voru í gangi um loftslagsmál og vísindin þar á bakvið. Við stofnum loftslag.is skrifuðum við þetta:

    Þessi síða er tilkomin að undirlagi síðustjórnenda, sem eru Höskuldur Búi Jónsson og Sveinn Atli Gunnarsson. Síðan er hugsuð sem upplýsingasíða um loftslagsmál. Hér verður tekið á ýmsum málum tengdum loftslagsmálum, til að mynda fréttatengdu efni, ýmsum skoðunum varðandi efnið og fræðilegu ívafi. Hinn vísindalegi grunnur, tenglar á hægri hluta síðunnar, er ætlað til upplýsingar um hvernig fræðin eru uppbyggð, hvaða afleiðingar eru taldar geta orðið vegna loftslagsbreytinga, hvers konar lausnir eru nefndar til sögunnar ásamt ýmsum spurningum og svörum sem við reynum að leita svara við. Einnig munum við fá gesti til að skrifa gestapistla þar sem velt verður upp ýmsum málefnum tengt loftslagsmálum.

    Fyrstu 4-5 árin voru síðan mjög virk hjá okkur og smám saman varð til banki hugmynda og upplýsinga sem hægt var að vísa í, sérstaklega ef svara þurfti mýtum um loftslagsmál. Fréttir utan úr heimi og innlendir pistlahöfundar sköpuðu góðan vettvang til að auka þekkingu landsmanna á loftslagsbreytingum, og jú loftslag var og er svo sannarlega að breytast vegna aukins bruna jarðefnaeldsneytis og breyttrar landnotkunar, þ.e. aukins CO2 í andrúmsloftinu af mannavöldum.

    Gestapistlar, umfjallanir fjölmiðla, heimsóknir og viðurkenningar

    Eitt það skemmtilegasta sem loftslag.is hefur gert er að hafa samband við hina ýmsu vísindamenn og áhugamenn um loftslag á Íslandi og fá hjá þeim gestapistla um hin ýmsu málefni tengd loftslagsmálum frá ýmsum sjónarhornum. Gestapistlahöfundar eiga miklar þakkir skyldar.

    Öll árin höfum við líka verið í óbeinu samstarfi við síðu eins og Skeptical Science, þar sem við höfum m.a. þýtt mýtur og annað efni frá þeim. Höskuldur hefur einnig skrifað eina athyglisverða grein fyrir Skeptical Science þar sem hann rannsakaði miðaldaverkefni frá CO2 Science, sem er síða sem afbakar umræðuna með útúrsnúningum sem ekki standast skoðun, eins og Höskuldur sýnir fram á í færslunni sem finna má á loftslag.is líka.

    Bill_McKibben_hoski_sveinnÁrið 2013 kom hér til landsins Bill McKibben, en hann er höfundur fjölda bóka um umhverfismál og einn stofnenda hinnar alþjóðlegu grasrótarhreyfingar 350.org, sem berst fyrir því að verja Jörðina fyrir hlýnun andrúmslofts. Af því tilefni hittu ritstjórar loftlag.is Bill ásamt stjórnmálamönnum á áhugaverðum súpufundi.

    Loftslag.is hefur einnig fjallað um skýrslur IPCC um loftslagsmál, sem og loftslagsráðstefnur (frá vonbrigðanna í COP15 í Kaupmannahöfn til vonarinnar í COP21 í París) og allskyns vísindagreinar og skild málefni.

    viðurkenningLoftslag.is í samvinnu við París 1,5 tók þátt í að rýna loftslagsstefnu stjórnmálaflokkanna í tvennum kosningum, árið 2016 og 2017. Þar gáfum við flokkunum einkun eftir áherslum þeirra við að koma loftslagsmálum aukið vægi í stefnu þeirra fyrir kosningar og þrýstum þar með á stjórnmálaflokkana að taka afstöðu, þannig að fólk gæti kosið flokka eftir því hvar þeir stæðu í loftslagsmálum. Líklega að hluta út af því fékk loftslag.is Fræðslu- og upplýsingaviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum árið 2017. Við teljum að einkunagjöfin hafi verið með í að gera loftslagsmálin aðeins sýnilegri í þessum tveimur kosningum.

    Undanfarin ár hefur loftslag.is verið minna virk, en síðuhöfundar hafa samt haldið áfram umræðu um loftslagsmál þar sem svara hefur þurft mýtum, bæði á loftslag.is og einnig í athugasemdakerfum og á samfélagsmiðlum í netheimum, sem eiga það til að loga öðru hvoru og það veitir ekki af málefnalegri nálgun þar.

    Núna, 10 árum eftir að loftslag.is fór í loftið, þá hafa tímarnir breyst nokkuð. Loftslagið heldur þó því miður áfram að breytast og menn halda áfram að brenna jarðefnaeldsneyti í miklum mæli. Hins vegar eru loftslagsmálin orðið það gildandi umræðuefni í samfélaginu að stórar innlendar fréttaveitur eru farnar að fjalla um loftslagsmálin mjög reglulega. Má þar til dæmis nefna Stundina, sem gaf út tölublað í vor sem var sérstaklega tileinkað loftslagsmálum. Einstakir blaðamenn hafa líka verið ötulir í umfjöllun um loftslagsmál, má þar meðal annars sérstaklega nefna, að öðrum ólöstuðum, Kjartan Kjartansson sem hefur bæði verið á mbl.is og núna á visir.is þar sem hann skrifar reglulega um loftslagsmál. Umfjöllun ýmissa fjölmiðla um Gretu Thunberg, öflugan sextán ára ungling sem hefur mótmælt aðgerðarleysi fyrri kynslóða í loftslagsmálum, hefur verið mikil undanfarna mánuði og breytingar í náttúrunni fara ekki framhjá nokkrum manni sem fylgjast með fréttum almennt. Þess má geta að Greta Thunberg er samkvæmt einhverjum heimildum skyld Svante Arrhenius (faðir Gretu er skírður í höfuðið á Svante Arrhenius), en opnunardagur loftslag.is þann 19. september 2009 var einmitt valin vegna tengingar við fæðingardag hans:

    “19. september var valin vegna þess að þá eru liðnir 55.000 dagar frá fæðingu Svante Arrhenius. Hann var einn af þeim fyrstu sem gerði tilraun til að reikna út hugsanleg áhrif á aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu. Hann fæddist þann 19. febrúar árið 1859 og dó 2. október 1927.”

    Vegna breytinga í almennri fjölmiðlaumfjöllun um loftslagsmál á síðustu árum, þá má kannski segja að mikilvægi loftslag.is, sem upplýsingasíða um loftslagsmál og fréttasíða hafi minnkað töluvert og er það vel, því mikilvægt er að sem flestir séu upplýstir um loftslagsmálin sem er mikilvægasta mál samtíðarinnar og framtíðarinnar. Það er þó enn langt í land, en almenningur er þó betur upplýstur en fyrir 10 árum og fólk er almennt jákvæðara gagnvart því að taka á vandanum, jafnvel þó það geti haft persónulega breytingar í för með sér fyrir almenning.

    HvadhofumvidgertÞátturinn “Hvað höfum við gert?” hefur einnig orðið til þess að opna hug almennings varðandi loftslagsvandann og var það gríðarlega gott efni sem vafalítið breytti viðhorfi fólks til loftslagsmála. Fólkið á bak við “Hvað höfum við gert?” fékk einmitt Fjölmiðlaverðlaun um­hverf­is- og auðlindaráðuneyt­is­ins á degi Íslenskrar Náttúru núna um daginn.

    Fyrir nokkrum árum þýddum við svo leiðarvísi varðandi efahyggju og loftslagsvísindi sem nefnist “Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hin vísindalegi leiðarvísir“, það er um að gera að minna á hann vegna afmælisins, því þó að afneitun hafi minnkað, þá virðast þetta samt alltaf vera sömu punktarnir sem dúkka upp og því getur leiðarvísirinn komið sér vel fyrir þá sem vilja vera tilbúnir í umræður við gamla frændann sem alltaf kemur með sömu “efasemdirnar” á reiðum höndum í afmælisboðum og mannfögnuðum, um að gera að opna PDF skjalið, prenta það út og lesa yfir.

    Hvað hefur gerst á þessum á 10 árum?

    Loftslag hefur haldið áfram að breytast í hröðum takti sem er viðhaldið með áframhaldandi losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Í dag notum við orðið hamfarahlýnun frekar um loftslagsbreytingar svo fólk átti sig betur á hvað við er að eiga, þetta er ekki eðlileg þróun, þetta er hamfarahlýnun sem er afleiðing af gjörðum mannkyns, s.s. bein aukin losun vegna bruna jarðefnaeldsneytis og breyttrar landnotkunar sem valda auknum gróðurhúsaáhrifum.

    Breytingar á síðustu 10 árum

    Á einungis 10 árum, þá má merkja verulegan mun í ýmsum þáttum sem notaðir eru til að mæla breytingar í loftslaginu. Hér munum við skoða 2 mikilvæga þætti í stuttu máli og myndum og nefna svo nokkra til í kjölfarið.

    Hitastig

    hitastig_taminoÁ síðustu 10 árum hefur hitastig hækkað um u.þ.b. 0,2°C og það er ekkert sem bendir til þess að sú þróun stöðvist á næstunni, heldur að það verði frekar aukin hraði í hækkun hitastigs. Síðustu 4 ár eru hlýjustu ár frá því mælingar hófust og 2019 mun blanda sér í þá baráttu líka. Hitastig gæti hækkað um 3-4°C (jafnvel meira) fyrir næstu aldamót ef ekkert er að gert. Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir að reyna að halda hitastigshækkun innan 2°C, helst 1,5°C. Miðað við núverandi losun gróðurhúsalofttegunda þá verður að teljast mjög ólíklegt að markmið Parísarsamkomulagsins náist, en auðvitað er verið að vinna í málinu og ný markmið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda líta vonandi dagsins ljós. Það er mikils virði að halda hitastigshækkun innan 2°C og við verðum að reyna allt sem hægt er til þess, en það þýðir að þjóðir heims verða að setja enn betri markmið varðandi losun og draga enn meira úr losun en núverandi markmið gera ráð fyrir.

    Hafís í Norðurhöfum

    Samfara auknu hitastigi hefur hafísinn minnkað á norðurheimskautinu. Minnkunin hefur verið rykkjótt, en leitnin sýnir stöðuga minnkun hafíssins. Árið 2012 var metár og var lágmarkið það ár það lægsta sem mælst hefur. En það er einnig athyglisvert að skoða lágmarks útbreiðslu við hámarkið og svo að meðaltali, sjá myndir hér undir.

    arctic_annavearctic_annminarctic_annmax

    Hafís er fingrafar á hitastigs hækkunina, við hækkandi hitastig þá bráðnar hafísinn enn meira og það hefur í raun sýnt sig á síðustu 10 árum eins og áratugina á undan að bráðnun hafíss er staðreynd. Árið 2009 þegar við hófum störf hér á loftslag.is þá jókst útbreiðsla hafíss frá árinu á undan (2008 hafði þá verið með minnstu útbreiðsluna frá upphafi mælinga) og afneitunarsinnar á Íslandi og víðar túlkuðu þessa aukningu 2009 sem ljóst merki um að hafísinn væri að ná sér! Það er þó alveg ljóst þegar við skoðum gögnin fyrir árlegt lágmark, hámark og svo meðaltal (sjá myndir hér að ofan) að áframhaldandi bráðnun hafíss er staðreynd.

    Aðrar breytingar

    Það er því alveg ljóst, eins og verið hefur í tugi ára, að loftslag er að breytast og hefur breyst á síðastliðnum áratug af manna völdum. Þær breytingar aðrar sem nærtækast að nefna eru t.d. sjávarstöðubreytingar, sem virðast hafa verið vanmetnar meðal vísindamanna í gegnum tíðina, bráðnun jökla sem er auðvitað eitthvað sem við Íslendingar fylgjumst með af fyrsta bekk. Bráðnun Grænlandsjökuls og jökulbreiðunnar á Suðurskautslandinu eru líka mikilvæg, enda það sem getur haft einna mest áhrif á hækkun sjávar á næstu áratugum. Súrnun sjávar er einnig mjög mikilvægt atriði sem ætti að vera okkur Íslendingum ofarlegar í huga enda getur það (ásamt hlýnun sjávar) haft veruleg áhrif á vistkerfi hafsins. Og svo er það náttúrulega áhrifavaldurinn sjálfur, magn CO2 og annarra gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu sem aukast jafnt og þétt.

    Afneitun loftslagsvísinda meðal almennings hefur sem betur fer minnkað á síðustu 10 árum, en betur má ef duga skal. Í dag eru t.d. stjórnvöld í BNA og fleiri löndum að taka mjög vafasama stefnu í loftslagsmálum, þannig að það er um að gera að vera á varðbergi.

     

    Tengt efni á loftslag.is

     

  • Alþjóðlegt verkfall fyrir loftslagið!

    Alþjóðlegt verkfall fyrir loftslagið!

    Á föstudaginn verður viðburður á vegum Ungra Umhverfissinna, SÍF (Samband íslenskra framhaldsskólanema), LÍS (Landssamtök íslenskra stúdenta) og SHÍ (Stúdentaráð HÍ) sem nefnist Alþjóðlegt Loftslagsverkfall. Eftirfarandi er lýsing viðburðarins af Facebook.

    Samstillt alþjóðlegt verkfall fyrir loftslagið!

    loftslagsverkfallSöfnumst saman næsta föstudag, 24. maí, klukkan 12:00, fyrir framan Hallgrímskirkju og göngum niður á Austurvöll! 📢

    Sýnum í verki að okkur er umhugað um framtíð okkar, barna okkar og komandi kynslóða. Krefjum fram róttækar og metnaðarfullar aðgerðir gegn loftslagsvánni því það ríkir neyðarástand vegna þeirra loftslagshamfara sem eru að eiga sér stað! Tíminn er á þrotum og við þurfum aðgerðir núna strax! ⌛

    Verkfallið er innblásið af hinni sænsku Gretu Thunberg, en skólaverkfall hennar hefur vakið mikla athygli. Á síðasta alþjóðlega samstillta loftslagsverkfalli 24. mars mótmæltu 1.6 milljón manns aðgerðaleysi í loftslagsmálum í yfir 2000 borgum og bæjum í fleiri en 125 löndum í öllum sjö heimsálfum. Þar af voru yfir 2000 manns sem mótmæltu hér á Íslandi. Nú fer Greta í sitt fertugasta loftslagsverkfall og því er blásið til samstillts verkfall um allan heim til að kalla á raunverulegar aðgerðir gegn loftslagsvánni. ✊

    Stjórnvöld hafa sett sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og stefna á kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 en árleg losun jókst síðast um 2,2% á milli ára! Betur má ef duga skal! Núverandi aðgerðaáætlun er ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5°C á heimsvísu og við krefjumst róttækra aðgerða til að ná því markmiði. 🌡️

    Ljóst er að stórauka þarf fjárframlög til loftslagsaðgerða. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) metur að það þurfi 2,5% af vergri landsframleiðslu allra þjóða til loftslagsmála á ári, allt til ársins 2035, ef halda á hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C. Núverandi áætlun er upp á 0,05% af landsframleiðslu á ári næstu fimm árin. ☁️

    Við krefjumst þess að Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5% af landsframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. Þar verður atvinnulífið einnig að axla ábyrgð.

    Við viljum afdráttarlausar aðgerðir. Núna. Fyrir komandi kynslóðir. Fyrir loftslagið.

    Sjá viðburðinn á Facebook. Við á Loftslag.is hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta.

  • Hvað höfum við gert?

    Hvað höfum við gert?

    Hvað höfum við gertÁ næsta sunnudag, þann 10. mars byrjar þáttaröðin Hvað höfum við gert? á RÚV. Hvað höfum við gert? er ný og Í þessari nýju íslensku heimildaþáttaröð verður fjallað um loftslagsmál á mannamáli.

    Þetta eru 10 þættir og hafa verið í vinnslu í 2 og hálft ár. Umsjónarmaður er Sævar Helgi Bragason, Hugmynd að þáttagerð Elín Hirst og Þórhallur Gunnarsson og þau ritstýra einnig þáttaröðinni ásamt Tinnu Jóhannsdóttur og Karólínu Stefánsdóttur. Leikstjóri er Óskar Jónasson.

    Hér má sjá stiklu um þáttinn (munið að kveikja á hljóðinu).

     

    Við á ritstjórn loftslag.is hlökkum mikið til að sjá þættina og hvetjum alla til að fylgjast með.

  • Ræða á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar 2018

    Ræða á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar 2018

    Loftslagsfundur_2017

    Vegna þess að loftslag.is fékk Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar 2017, þá var okkur boðið að halda ræðu við afhendingu Loftslagsviðurkenningarinnar 2018, sem var afhent á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar þann 29. nóvember 2018. Sveinn hélt ræðuna og hana má lesa hér:

    Fundarstjóri, góðir fundargestir

    Mig langar að byrja á því að þakka fyrir að fá að ræða loftslagsmálin hér, þau eru sannarlega eitt mikilvægasta málefni samtímans. Ég held hér tölu fyrir hönd loftslag.is sem fékk Loftslagsviðurkenningu Festu og Reykjavíkurborgar á síðasta ári.

    Síðan við félagarnir byrjuðum með loftslag.is fyrir 9 árum þá hefur sitthvað breyst og t.a.m. ýmislegt jákvætt gerst í umfjöllunum fjölmiðla um loftslagsbreytingar svo eitthvað sé nefnt. Það er t.d. mun sjaldgæfara í dag að sjá fréttir um loftslagsmálin sem byggja á afneitun og/eða útúrsnúningum sem ekki standast skoðun, en það var tiltölulega algengt þegar við byrjuðum með loftslag.is. Ég ætla svo sem ekki að fullyrða um okkar rullu í því að breyta þessu, en allavega virðist hafa orðið einhver viðhorfsbreyting og fólk flest orðið tiltölulega meðvitað um loftslagsvandann, sem er jákvæð þróun.

    Nú er rætt um loftslagsmál í aðdraganda kosninga, og ekki nóg með það, heldur í kjölfar þeirra líka! Aðgerðaráætlanir eru gerðar, nefndir settar á fót og málin jafnvel rædd í fermingarveislum og öðrum mannamótum. Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að langflestir telji að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu staðreynd, en hin hliðin á málinu er þó að meirihlutinn telur samt að þau persónulega beri ekki ábyrgð, s.s. að lífsstíll þeirra sé einhvern vegin undanskilin ábyrgð!

    Auðvitað er ábyrgð sterkt orð, en það er þó merkilegt að flestir telji sig stikkfrí þegar kemur að loftslagsvandanum, þar sem samfélagið í heild ber ábyrgð á einhvern hátt. Ég myndi t.d. ekki telja að minn lífsstíll geri mig stikkfrían á nokkurn hátt og tek ég gjarnan minn hluta af ábyrgðinni og skorast ekki undan henni, en vissulega er skömmin stærri en það sem ég persónulega get gert í málinu upp á mitt einsdæmi. Þetta er sameiginlegt átak samfélagsins og helmingur samfélagsins ætti ekki að neita þeirri ábyrgð. En allavega hefur skilningur þjóðarinnar á vandanum tekið stakkaskiptum, sem er kannski það mikilvægasta til að hafa áhrif á samtakamátt þjóðarinnar til framtíðar.

    Eins og staðan er núna í losun heimsins á gróðurhúsalofttegundum, þ.e. miðað við loforð ríkja, þ.e. sjálfviljugar skuldbingar um samdrátt í losun á næstu áratugum í anda Parísarsamkomulagsins, þá stefnum við á u.þ.b. þriggja gráðu hækkun hitastigs og ef ekki er staðið við loforðin þá gæti fimm gráðu hækkun hitastigs fyrir næstu aldamót orðið staðreynd. Markmið Parísarsamkomulagsins er að komast vel undir 2°C hækkun hitastigs, helst að takmarka hlýnunina við 1,5°C fram að aldamótum. Auðvitað á eftir að fara yfir stöðuna, endurmeta loforð þjóða um minnkun í losun gróðurhúsalofttegunda og halda áfram að búa til aðgerðaráætlanir og setja á stofn enn fleiri nefndir og halda röð funda á næstu árum og áratugum til að komast nær og vonandi ná markmiðum samkomulagsins, en eins og staðan er núna þá eigum við verulega langt í land. Núverandi markmið um að minnka losun Íslands um 40% fyrir 2030 er t.a.m. ekki nægjanlegt ( þar fyrir utan þá hef ég enn ekki séð sannfærandi áætlun um hvernig á að ná þeim markmiðum ), það þarf s.s. að gera enn betur. Þess má geta að þessi loforð þjóða eru eitt af mörgum skrefum sem er verið að taka um þessar mundir og skrefin eiga eftir að verða fleiri, en það þarf líka að standa við þau loforð og framkvæma, t.d. með nýsköpun í loftslagsmálum.

    Nú eru viðsjárverðir tímar í alþjóðlegri pólitík og það eru pólitísk öfl víða um heim sem telja að loftslagsvísindi séu gabb og vilja því hlaupa frá gerðum samningum. Þ.a.l. er raunverulegt að hafa áhyggjur af stöðu mála og hvort staðið verður við gefin loforð í anda Parísarsamkomulagsins. Við þurfum að vera á tánnum og með einbeittum vilja eigum við að krefjast lausna til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hratt og örugglega. Það má ekki leggja árar í bát í þeim efnum. Fyrir utan tækninýjungar, betri orkunýtingu samgöngutækja og allskyns aðra nauðsynlega nýsköpun (eins og t.d. hefur verið rætt um í dag), þá þarf einnig að notast við aðrar tiltækar lausnir, t.d. skógrækt og landgræðslu til að binda CO2 í jarðvegi og gróðri, svo og að koma í veg fyrir losun frá framræstum mýrum með endurheimt votlendis, sem og að minnka aðra losun vegna landnotkunar. Svo er líka hægt að ná verulegum árangri með bættri matarmenningu (bæði val á fæðu og nýtingu matar almennt), svo fátt eitt sé nefnt. Það þarf að ráðast á vandann frá öllum hliðum og það þarf að ganga hratt fyrir sig, tíminn er að hlaupa frá okkur.

    Einhverjir kynnu að spyrja sig hvort það sé kannski of seint að gera eitthvað í málunum, hvort að það sé of langt milli loforða þjóða og markmiðanna? Þetta er gild spurning, enda erfitt að koma auga á framkvæmdina á þessum tímapunkti, en ég tel að tíminn sé enn nægur til að taka á málum, þó vissulega hefði verið betra að byrja fyrr, enda hefur loftslagsvandinn legið fyrir áratugum saman. Ég hef þó trú á því að við getum náð árangri, en við erum að falla á tíma og aðgerðir þurfa að verða enn sjáanlegri og fyrirferðarmeiri. Við getum ekki sagt “þetta reddast”, það virkar ekki á loftslagsvandann, það þarf nýsköpun, skipulag og einbeittan vilja til að ná árangri til framtíðar. Ef við tökum vandann ekki alvarlega þá er líklegast að niðurstaðan verði slæm, en með skipulagi og einbeittum vilja, allt frá einstaklingum til þjóðfélagsins í heild, þá verður þetta mögulegt. Það er það sem ég óska eftir, flestir geta vonandi tekið undir það.

    Takk fyrir.

  • Loftslagsrýni flokkanna 2017

    Loftslagsrýni flokkanna 2017

    paris_1_5Hópurinn París 1,5 gerði eftirfarandi úttekt á stefnu stjórnmálaflokkanna í loftslagsmálum fyrir kosningarnar sem verða þann 28. október 2017.

    Hér verður aðferðafræðin rakin, þ.e. farið yfir þá þætti sem voru notaðir við loftslagsrýni flokkanna, fjallað um einkunnagjöfina og það hvernig við völdum stjórnmálaflokkana sem eru í úttektinni. Neðst er svo niðurstaða þessa mats og umræða.

    Aðferðafræðin

    Öllum flokkum sem eru með lista í kjöri fyrir kosningarnar 2017 var sendur tölvupóstur með spurningum í 6 liðum sem við báðum flokkana um að svara. Einkunnir eru gefnar á forsendum stefnu flokkanna til framtíðar, út frá þeim svörum sem bárust. Í síðasta kosningarýni takmörkuðum við okkur við þá flokka sem höfðu möguleika (samkvæmt könnunum) til að komast á þing, en núna fengu allir flokkar jafna möguleika á að svara. Flokkarnir fengu s.s. möguleika á að svara þessum 6 liðum, þar sem þeir túlka sína stefnu út frá loftslagsmálunum. Við lítum svo á að þessi svör séu í takt við opinberar stefnur flokkanna. Loftslagsstefnur eftirfarandi flokka voru rýndar:

    • Björt Framtíð
    • Framsókn
    • Píratar
    • Samfylkingin
    • Sjálfstæðisflokkurinn
    • Viðreisn
    • Vinstri Græn
    • Alþýðufylkingin
    • Dögun

    Miðflokkurinn og Flokkur Fólksins svöruðu ekki og hljóta því einkunina 0 í rýninu.

    Hér má lesa öll svör flokkanna (í einni belg og biðu og óreglulegri röð).

    Til að gefa flokkunum einkunn þá notuðum við kerfi þar sem við mátum þessa 6 mismunandi þætti og gáfum þeim einkunn á bilinu 0-10, en misjafnt vægi er á milli þátta. Tveir þættir fá einfalt vægi (mest 10 stig hver þáttur) og fjórir þættir fá tvöfalt vægi (mest 20 stig hver þáttur) – 100 stig í allt. Í fyrra höfðum við einn þáttinn mögulega sem mínus, en við slepptum því núna – sem mögulega hækkar einkunnagjöfina um 2 fyrir þá flokka sem fengu mínus síðast (Sjálfstæðisflokkur og Framsókn). Nánar er fjallað  um hvern þátt hér á eftir.

    Þegar svörin lágu fyrir lögðum við svo okkar mat á hvern þátt og hvað kom fram hjá hverjum flokki og gáfum einkunnir út frá því – sem endaði svo í þeirri einkunn sem hver flokkur fékk varðandi loftslagsmálin í einkunnagjöfinni hér fyrir neðan. Það var mjög ánægjulegt að flestir flokkar svöruðu og lögðu greinilega hugsun og vinnu í svörin. Auðvitað verður matið að einhverju leyti huglægt, en við teljum að þessi nálgun gefi nokkuð gott viðmið varðandi loftslagsstefnur flokkanna og hvernig þeir standa innbyrðis, þó kannski sé lítill munur á flokkunum í efstu sætunum almennt og flestir flokkar þurfa ekki að gera mikið til að skora hærra. Að okkar mati hafa flestir flokkarnir tekið málið fastari tökum fyrir þessar kosningar en áður og við munum fylgjast vel með efndum í framtíðinni, í takt við þau svör sem okkur bárust.

    Þættirnir 6 eru eftirfarandi:

    1. Er flokkurinn með eða á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
      • Þeir flokkar sem taka einarða stefnu með olíuvinnslu fá núll stig – þeir sem ekkert nefna um málið fá 0 og þeir sem taka einarða afstöðu gegn olíuvinnslu fá mest 10 í einkunn og svo allt þar á milli (það var hægt að fá mínus í þessum flokki í rýninu fyrir kosningarnar 2016)
      • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
    2. Eru tölu- og/eða tímasett markmið varðandi samdrátt í losun CO2
      • Því nánari markmið, því betra
      • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
    3. Er gert ráð fyrir kolefnisgjaldi eða hagrænum hvötum á losun gróðurhúsalofttegunda
      • Því nánari útfærsla því betra
      • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
    4. Tillögur um breytingu innviða til að taka á vandanum
      • Til að mynda er hér verið að skoða tillögur til að flýta rafbílavæðingu og öðrum breytingum innviða til að taka fyrr á vandanum
      • Einfalt vægi – mest 10 stig
    5. Tillögur varðandi endurheimt votlendis og skógrækt
      • Almennar tillögur varðandi þessa þætti
      • Tvöfalt vægi – mest 20 stig
    6. Annað almennt um loftslagsmál
      • Skoðuðum aðra þætti sem flokkarnir töldu vert að nefna varðandi loftslagsmálin og reyndum að meta það á hlutlægan hátt
      • Einfalt vægi – mest 10 stig

    Niðurstaða

    Loftslagsstefnur flokkanna voru rýndar og einkunnir gefnar samkvæmt fyrrgreindum forsendum. Flokkarnir fengur eftirfarandi einkunnir (einkunn innan sviga):

    • Alþýðufylkingin (5,9)
    • Björt Framtíð (8,1)
    • Dögun (6,4)
    • Framsókn (5,5)
    • Píratar (8,5)
    • Samfylkingin (7,8)
    • Sjálfstæðisflokkurinn (4,7)
    • Viðreisn (6,3)
    • Vinstri Græn (7,6)
    • Miðflokkurinn (0,0)
    • Flokkur Fólksins (0,0)

    Mat_loftslagsryni

     

    Átta flokkar standast prófið eins og staðan er í dag og eru Píratar með metnaðarfyllstu stefnuna miðað við þetta rýni. Lítið vantar uppá að Sjálfstæðisflokkurinn standist matið og virðist bara lítillega vanta uppá metnaðinn við að setja skýrari markmið og aðeins ítarlegri stefnu, en það þarf ekki mikið til og það virðist vera áhugi fyrir hendi þannig að þau geta vonandi gert enn betur í framtíðinni. Alþýðufylkingin, Dögun, Framsókn og Viðreisn ná öll rétt rúmlega lágmarkseinkunn, en það má segja að þeirra stefnur séu ekki nægjanlega góðar til að teljast í toppflokknum. Í toppi rýnisins eru svo VG, Samfylkingin, Björt Framtíð og Píratar sem teljast sigurvegarar rýnisins. Á milli þessara fjögurra efstu flokka er vart hægt að tala um marktækan mun út frá aðferðafræðinni og eru þeir á svipuðum nótum en með misjafnlega útfærð svör og stefnur sem veldur muninum á flokkunum. Píratar teljast sigurvegarar rýnisins, en hinir flokkarnir þrír fylgja fast á eftir.

    Miðflokkurinn og Flokkur Fólksins sendu ekki svör og fá því falleinkunina núll.

    Umræður

    13412890_549635985216164_2118920633963755112_nVið í París 1,5 hópnum viljum gjarnan hvetja stjórnmálaflokka og frambjóðendur til að taka þetta mikilvæga mál á dagskrá og ekki bara sem atriði í stefnuskrám flokkanna, heldur sem eitt af aðalatriðum hjá öllum flokkunum þegar unnið er að pólitískum markmiðum frá degi til dags, enda skipta loftslagsmálin miklu máli. Ef við göngum ekki vel til verks í þessum efnum í dag, þá skipta öll hin málin miklu minna máli (þó svo vissulega geti önnur mál fyllt mikið til skemmri tíma). Við erum hluti af borgurum jarðarinnar og við þurfum öll að gera okkar til að minnka kolefnisfótspor af mannavöldum, því fyrr sem við byrjum þá mikilvægu vinnu, því betra.

    Loftslagsstefnur flokkanna miðað við þau svör og stefnur sem flokkarnir leggja fram fyrir kosningarnar 2017 virðast betri en var fyrir ári síðan, sem er mjög jákvætt. Við í París 1,5 munum fylgjast vel með framvindu mála og halda flokkunum við efnið á næstu misserum, eitt er að setja fram stefnur og svara spurningum, annað mál er að fara eftir þeim.

  • Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir Ísland – París 1,5

    Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir Ísland – París 1,5

    paris_1_5_hvad_tharf_ad_geraParís 1,5 vill að Ísland setji sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Eftirfarandi punktar voru að leiðarljósi við gerð aðgerðaáætlunarinnar.

    • Við viljum sýna metnað og ábyrgð með því að ganga lengra en skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamningnum segja til um.
    • Við viljum að losun CO2 ígilda á hvern íbúa Íslands verði minni en meðallosun hvers íbúa í ESB. Við viljum að losun á hvern íbúa á Íslandi verði að hámarki 4 tonn CO2 ígilda árið 20301.
    • Sett verði lög um loftslagsmál þar sem stefnt er að 40% samdrætti á losun árið 2030 og árið 2045 verði losun að minnsta kosti 85% lægri en árið 1990. Með lögunum yrði stuðlað að stöðugu upplýsingaflæði um stöðu landsins í að ná þessum markmiðum. Líta skal til Svíþjóðar og Noregs sem fyrirmyndar í gerð laganna.
    • Við fjárlagagerð og aðra opinbera áætlanagerð skuli taka mið af loftslagsmarkmiðum Íslands.

    Aðgerðaáætluninni er skipt í 8 liði, Landbúnaður, Landnotkun, Samgöngur, Orka og orkuframleiðsla, Iðnaðarferlar og efnanotkun, Sjávarútvegur – flutningar á sjó, Úrgangur og Annað. Málstofa þar sem aðgerðaáætlunin var kynnt var haldin á Kex Hostel þann 14. október kl. 14. Aðgerðaáætlunin er hugsuð sem hjálpartæki fyrir stjórnvöld til að setja skýr markmið í loftslagsmálum til framtíðar.

    Í eftirfarandi tengli má finna áætlunina í heild.

    Hvað þarf að gera í loftslagsmálum [PDF]

    Tengt efni:

  • Sigríður Á. Andersen – enn við sama heygarðshornið

    Sigríður Á. Andersen – enn við sama heygarðshornið

    sigridurÞað er yfirleitt ánægjulegt þegar stjórnmálamenn taka upp umræðu um loftslagsmál. Á síðasta ári, rétt fyrir kosningar, sendi Sigríður Á. Andersen okkur í París 1,5 hópnum skilaboð á FB. Undirritaður, með hjálp nokkurra úr París 1,5, svaraði þeim skilaboðum hér á loftslag.is, sjá Svar til Sigríðar Á. Andersen. Hún virðist enn eiga eitthvað ósagt um algjört fall Sjálfstæðisflokksins í loftslagsrýni stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu kosningar. Hún hefur því valið enn og aftur að segja skoðun sína á “óvandaðri” umfjöllun okkar á vefsíðu sinni hér ári síðar, sjá Ánægjulegur snúningur í loftslagsmálum. Best að byrja bara á smá endurtekningu frá síðasta ári þar sem að þessi einfalda skilgreining virðist þvælast fyrir henni:

    Því má halda til haga að eini tilgangur hópsins Paris 1,5 er að ýta undir umræðu og aðgerðir í loftslagsmálum á Íslandi. Við ítrekum að hópurinn starfar EKKI í pólitískum tilgangi. Rýnin er á byggð á samþykktum stefnum flokkanna í loftslagsmálum ásamt því hvernig flokkarnir hafa dregið málið inn í aðdragandi kosninga. Afar ósanngjarnt væri að leggja mat fyrri aðgerðir sem yrði að byggja á huglægu mati á aðgerðum flokka sem hafa setið í ríkisstjórn síðustu árum og jafnvel áratugum.

    S.s. við gerðum rýni á loftslagsstefnur flokkanna út frá samþykktum stefnum flokkanna og því sem hægt var að finna á vefsíðum þeirra um þær stefnur, ásamt því hvernig flokkarnir drógu málið inn í umræðuna í aðdraganda kosninganna. Stefna Sjálfstæðisflokksins, eða kannski það ætti að kalla það stefnuleysi í þessum málum olli því að flokkurinn varð neðstur í rýninu. Eitthvað virðist þetta hafa farið fyrir brjóstið á Sigríði sem er enn að velta sér uppúr niðurstöðunni. Það er reyndar bara mjög gott mál, enda viljum við umræðu og vonandi enn frekari og betri loftslagsstefnur flokkanna. Nú hefur Sigríður s.s. svarað aftur ári síðar í aðdraganda kosninga. Það væri náttúrulega frábært ef það hefði komið eitthvað nýtt fram, t.d. augljós stefna eða einhver stefnubreyting (í stað stefnuleysis), en það er nú ekki það sem er uppá teningunum.

    Hún er enn í einhverju stríði við hópinn sem hún sakar um “óvandaða[n] málflutning” og segir einkunngjöfina “fjarstæðukennd[a]”. Út frá þeim forsendum sem við gáfum okkur um það sem fram þyrfti að koma í opinberum stefnum flokkanna, þá varð niðurstaðan fall Sjálfstæðisflokksins. Þetta var ekki eitthvað pólitískt plott (sem virðist henni ofarlega í huga), heldur einfaldlega niðurstaða okkar eftir að hafa grannskoðað loftslagsstefnur flokkanna, eftir að hafa sett okkur leikreglurnar fyrir einkunnagjöfina fyrirfram. Aðalvandamál Sjálfstæðisflokksins að okkar mati var að hann vildi (og vill sennilega enn) fara í olíuvinnslu og svo var mjög fátt á vefsíðu flokksins um loftslagsmál sem gat dregið þau upp í einkunnagjöfinni. Meira að segja fannst ekkert í stefnu flokksins um hjartansmál Sigríðar um votlendið! Eins sendum við út tölvupósta á stjórnmálaflokkana, en fengum ekki svar frá Sjálfstæðisflokknum, sem þá hefði kannski getað bent okkur á áhuga Sigríðar á endurheimt votlendis, sem hefði kannski dregið flokkinn upp um 2-3 stig, eins og nefnt er í svarinu til hennar.

    Það var því fróðlegt að lesa svar Sigríðar, nú ári seinna, og vonast til að sjá eitthvað nýtt um loftslagsmálin. Persónulega var ég fullur eftirvæntingar þegar ég las pistilinn, en varð því miður fyrir miklum vonbrigðum. Ekkert nýtt kemur þar fram, en hún heldur áfram flokkpólitískum skotgrafarhernaði um vinstri á móti hægri, sem við höfðum svarað fyrir í svarinu til hennar. Í þessum nýja pistli Sigríðar lætur hún eins og að við í París 1,5 hópnum höfum ekki haft nokkurn áhuga á endurheimt votlendis af því að við svöruðum henni svona:

    “Þessi einhliða nálgun [Sigríðar] varðandi votlendið er í raun bara útúrsnúningur sem á lítið skylt við lausnir til framtíðar – það þarf að taka á þessu máli frá mörgum hliðum og vissulega líka framræstingu mýra sem átti sér stað fyrir 1990.” (áherslu bætt við – SAG)

    Hún tekur þessari setningu í svarinu til hennar á síðasta ári sem tákn um að við höfum ekki haft áhuga á endurheimt votlendis sem lausnar, sem var þó einn af þáttunum í einkunagjöfinni! Mann grunar að þetta sé viljandi útúrsnúningur, enda þarf að taka setninguna úr samhengi við það sem verið var að svara til að geta mögulega skilið það eins og hún velur að gera. Hér var verið að benda á að frekar einhliða nálgun Sigríðar á endurheimt votlendis sem lausn hafi lítið með alsherjar lausnir til framtíðar að gera. Það þarf s.s. að skoða málin frá fleiri hliðum, vissulega líka endurheimt framræstra mýra (sem að mestu átti sér stað fyrir 1990). París 1,5 vill að allar lausnir komi fram og hefur endurheimt votlendis alltaf verið hluti af þeirri umræðu, samanber einkunagjöfina. Það mætti meira að segja færa rök fyrir því að endurheimt votlendis mætti hafa meira vægi hjá okkur, rýnið er alveg opið fyrir sanngjarnri gagnrýni á þáttunum, kannski breytum við því fyrir komandi rýni.

    “Það sem upp úr stendur er hins vegar þetta: Umhverfissamtökin París 1,5 sem fyrir ári reyndu að gera lítið úr endurheimt votlendis og kölluðu hana „bara útúrsnúning“ og eiga „lítið skylt við lausnir til framtíðar“ segja nú að „áróður hagsmunaaðila um gagnsleysi endurheimtar“ hafi þvælst fyrir málinu.”

    Svona orðaði hún m.a. svar sitt til okkar núna. Þarna fullyrðir hún að París 1,5 höfum talað um endurheimt votlendis sem einhvern útúrsnúning sem ekki væri lausn til framtíðar, en eins og fram hefur komið, þá var verið að svara fyrir nálgun Sigríðar á málinu, en ekki þætti endurheimt votlendis sem hluta af lausninni.

    Annars bara fínt að Sigríður vill umræðu um málin, þó að mér persónulega finnist þetta frekar einhliða nálgun hjá henni sem ber keim af gömlum pólitískum skotgrafarhernaði sem á ekkert skylt við lausnir til framtíðar. En kannski þessi áhugi hennar á málinu og umræða hækki Sjálfstæðisflokkinn um einhver stig fyrir kosningarnar núna, það er ekki nema sanngjarnt að hafa alla umræðu um málefnið með.