Hið nýja loftslagsstríð

Út er komin ný bók eftir loftslagsvísindamanninn Micheal Mann, sem heitir The New Climate War. Það gæti útlagst sem Hið nýja loftslagsstríð. Þessi bók var auðvitað strax útgefin sem hljóðbók og stafræn bók, til að minnka kolefnisfótspor við lestur hennar (eða hlustun), fyrir þau sem vilja. Sá sem þetta skrifar hlustaði á bókina af athygli og ætlar að lesa eða hlusta á hana aftur síðar.

the new climate war
Micheal Mann, höfundur The New Climate War

Í þessari bók rekur Micheal Mann hvernig orystuplan olíuiðnaðarins hefur þróast í gegnum tíðina, fyrst undir áhrifum t.d. tóbaksiðnaðarins og þeirra aðferða, sem fólst meðal annars í því að draga úr trúnaði almennings við niðurstöður vísindamanna. Hann fer einnig yfir hvernig planið hefur breyst úr því að hreinlega afneita loftslagsbreytingum og yfir í að blekkja, afvegaleiða og tefja umræðuna (e. deception, distraction and delay).

Mann hefur staðið vaktina í nokkra áratugi og hefur fengið að finna fyrir aðferðum talsmanna olíuiðnararins, en lengi vel var gert mikið úr því að draga í efa vísindaleg heilindi hans. Eftir að hann birti hið þekkta línurit hokkíkylfuna (e. hockey stick) varð hann sjálfkrafa skotmark þeirra sem afneituðu loftslagsbreytingum, enda varla hægt að fá skýrari mynd af þeim loftslagsbreytingum sem eru í gangi af mannavöldum.

Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum.

Þessi öfl, sem áður stóðu fyrir hreinni afneitun sem fólst í því að halda því fram að það væru engar loftslagsbreytingar í gangi (þvert á niðurstöður vísindamanna) eða að þessar loftslagsbreytingar væru ekki af mannavöldum (þvert á niðurstöður vísindamanna) eru nú meira í að telja fólki trú um að það sé orðið of seint eða of dýrt að gera nokkuð. Einnig eru notaðar aðferðir eins og að etja þá sem vilja draga úr loftslagsbreytingum upp á móti hvorum öðrum (t.d. með því að fólk rífist endalaust um hvað mengi mest og hvaða lausn sé best) eða að best sé kannski að bíða bara og sjá, betri og ódýrari lausnir verði til í framtíðinni og að efnahagslífið geti ekki tekist á við að minnka losun jarðefnaeldsneytis.

Það er ekki hægt að segja nákvæmlega frá því í nokkrum setningum hvað sagt er í bókinni, en eitt af því sem kemur skýrt fram í bókinni er að olíuiðnaðurinn, eins og annar mengandi iðnaður, hefur varpað ábyrgðinni yfir á hendur einstaklinga að leysa vandamálið í stað þess að ábyrgðin sé þar sem vandamálið er, losun jarðefnaeldsneytis. Áhugavert er að heyra hvernig hægt er að tengja saman öfl sem hafa engan áhuga á slíkum lausnum og hvernig það tengist bandarískum stjórnmálum, rússneskum og yfir í miðausturlöndin.

Micheal Mann lætur jafnvel þá sem ættu í raun að vera samherjar hans heyra það, líkt og þá sem telja að ástandið sé orðið það slæmt að ekki sé hægt að afstýra hörmungum – þær raddir séu akkúrat það sem þeir vilja heyra, þeir sem eru í því að blekkja, afvegaleiða og tefja umræðuna í stað þess að takast á við losun jarðefnaeldsneytis. Það á einnig við um þá sem vilja leysa vandamálið með jarðverkfræðilegum lausnum (e. geoengineering). Í raun væri langbesta lausnin sú að þrýsta á löggjöf sem myndi keyra orkunotkun frá jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

Bókin vekur mann til umhugsunar og styðst við góð rök, sem byggð eru á innsæi vísindamanns sem fylgst hefur með umræðunni og séð hana breytast á undanförnum áratugum.

Bókina má finna til dæmis á Amazon, sjá The New Climate War

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál