Niðurdæling CO2 í jarðlög – til framtíðar?

Þegar menn hugsa um afleiðingar losunar CO2 út í andrúmsloftið, þá er sjaldnast hugsað lengra fram í tíman en nokkrar aldir og flestir hugsa í raun aðeins um afleiðingar sem það hefur á þessari öld. Það sama á við þegar verið er að meta kosti og galla þess að dæla CO2 niður í jarðlög til að koma í veg fyrir frekari losun og þeim möguleika að minnka styrk CO2 í andrúmsloftinu með þeim hætti.

Sá tímaskali er þó aðeins lítið brot af því sem að Gary Shaffer skoðar, en hann er prófessor við háskólann í Kaupmannahöfn. Í grein sem kom út á sunnudaginn í tímaritinu Nature Geoscience þá skoðar hann þau áhrif sem ófullkomin geymsla á CO2 (kolefnisbinding) muni hafa, þúsundir ára fram í tímann.

Ýmsar hugmyndir eru uppi um bindingu CO2 við vinnslu jarðefnaeldsneytis og bruna þess. Myndin tengist ekki greininni sem hér er fjallað um.

Til að skoða það, þá bjó hann sér til ímyndaða sviðsmynd – þar sem mannkynið ákveður að brenna allt jarðefnaeldsneyti jarðar þar til auðlindir eru þrotnar og þá í kringum árið 2200. En til að draga úr styrk CO2 í andrúmsloftinu þá er það geymt neðanjarðar – þannig að heildaráhrifin verði þau sömu og að draga úr losun CO2 til að draga úr hlýnun jarðar.

Það er vitað að slíkt er ekki raunhæft með núverandi tækni – allavega ekki 100%, en samkvæmt þessari hugmynd þá er það rétt að ef geymsla CO2 í jarðlögum neðanjarðar er fullkomin, þá er komið í veg fyrir mikla hlýnun jarðar.

Útreikningar Shaffer benda þó til þess að ef leki úr jarðlögum, samsvari um 1% á 10 árum – þá verði hitastig árið 5 þúsun það sama og ef ekki hefði verið reynt að binda CO2 í jarðlögin. Ef lekinn er aftur á móti 1% fyrir hver 100 ár, þá verður hitastig árið 20 þúsund það sama og engar tilraunir til bindingu hefðu skilað.

Það sem þetta segir okkur er í raun að ef við ákveðum að halda áfram sem frá er horfið að auka styrk CO2 í andrúmsloftinu – með bruna jarðefnaeldsneytis (kol og olíu), þá muni það duga skammt að ætla að binda það í jarðlög, þó það muni vissulega tefja atburðarásina – en fyrir rest þá heldur hitastig áfram að aukast, súrnun sjávar einnig – auk annarra vandamála. Aðeins ef lekinn er minni en 1% á 100 árum verði hægt að koma í veg fyrir þá byrði sem brennsla jarðefnaeldsneytis myndi hafa á komandi kynslóðir.

Auðvitað er þetta gríðarlega langt fram í tíman og eflaust er eina leiðin til að koma í veg fyrir alvarlegustu afleiðingar hlýnunar næstu hundrað ár eða svo, að binda CO2 í jarðlög auk annarra möguleika – svona á meðan verið er að vinna í því að draga úr losun CO2 – og til að koma í veg fyrir að að ferlar magnandi svörunar nái sér á strik og að loftslagskerfin fari yfir svokallaða vendipunkta.

Þessar vangaveltur eiga þó rétt á sér og rétt að vanda verður til verka við að binda CO2 í jarðlög – svo það virki til framtíðar.

Heimildir og ítarefni

Gary Shaffer 2010 (ágrip) – Long-term effectiveness and consequences of carbon dioxide sequestration

Umfjöllun um greinina má lesa á bloggsíðunni The Great Beyond: Carbon storage – what will the great-great-(…)-great-great grandchildren think?

Tengdar færslur á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál