Loftslag.is

Tag: Öfgar

  • Hvað er El Nino?

    Þeir sem fylgjast með fréttum af veðurfars- og loftslagsbreytingum hafa eflaust tekið eftir auknum fréttum af því að fyrirbærið El Nino sé væntanlegt – en það hefur áhrif á veður um alla jörð.

    Hvað er El Niño

    Á nokkurra ára fresti, á að meðaltali fimm ára fresti, verða breytingar á staðvindum í Kyrrahafinu sem veldur óvenju háum sjávarhita við miðbaug – en það er kallað El Nino. Ef aftur á móti sjávarhitinn verður óvenju kaldur, þá er það kallað La Nina. Þessi sveifla er kölluð á ensku ENSO (El Nino Southern Oscillation) og ber mikla ábyrgð á hnattrænum sveiflum í veðri frá ári til árs.

    mynd 1
    Yfirborðshiti sjávar við El NIno (vinstri) og La Nina (hægri). Rauðir litaskalar sýna heitt og bláir kalt. [Mynd: Steve Albers, NOAA]

    Hvað gerist við El Nino

    Í hvert skipti sem breytingar verða á ENSO þá hafa þær áhrif á hnattrænan hita (Trenberth o.fl. 2002) og dreifingu úrkomu hnattrænt.

    Við El Nino ár, þá minnkar úrkoman í Indónesíu og Ástralínu, á sama tíma og úrkoma eykst í Suður Ameríku og hluta Bandaríkjanna.

    Kyrrahafið losar hita út í andrúmsloftið við El Nino ár. Þegar það bætist síðan við þá undirliggjand hlýnun af völdum styrkaukningar gróðurhúsalofttegunda, þá verða El Nino ár meðal þeirra heitustu frá upphafi mælinga. Ef skoðað er myndin hér fyrir neðan, þá sést að fimm af tíu heitustu árunum hafa verið El Nino ár (rauðgulir stöplar).

    mynd2
    Hnattrænt frávik í hitastigi jarðar frá 1950-2013. Þessi mynd sýnir glögglega hvernig hitinn sveiflast milli El nino og La nina ofan á undirliggjandi hnattræna hlýnun af mannavöldum (mynd: NASA/GSFC/Earth Observatory, NASA/GISS)

    Á La Nina árum er staðan öndverð. Þá draga straumar heitan yfirborðsjó, niður í neðri lög Kyrrahafsins, sem veldur því að það kólnar hnattrænt.

    Vísindamenn telja að meiri tíðni La Nina síðastliðin 15 ár (bláir stöplar hér fyrir ofan) skýri að hluta hvers vegna hið hnattræna hitastig hefur ekki aukist eins hratt undanfarið og áratugina á undan (Balmaseda o.fl. 2013). Til samanburðar, þá var minna um La Nina atburði frá 1980-2000.

    Líklegt er talið að um séu að ræða áratugasveiflur á milli þess að El Nino er algengur annars vegar og La Nina hins vegar, svokallaðar IPO (Interdecadal Pacific Oscillation)(Meehl o.fl. 2013).

    Hér fyrir neðan má sjá sveiflur í hinni hnattrænu hlýnun (efri myndin). Þrátt fyrir minni hitaaukningu undanfarinn áratug eða svo, þá er síðasti áratugur sá heitasti frá upphafi mælinga (neðri myndin).

    mynd3
    Hnatrænt hitafrávik milli áranna 1850 og 2012, samanborið við viðmiðunarárin 961-1990. Mynd: IPCC AR5 WG1 Summary for Policymakers.

     

    Hvenær verður næsti El Nino

    Síðasti El Nino var árið 2009/2010, en síðan þá hefur Kyrrahafið verið í hlutlausu eða í La Nina fasa. Núverandi hlutlausi fasi er búinn að vera viðvarandi frá 2012. Það gæti bent til þess að kominn sé tími á El Nino – og vísindamenn telja reyndar að hann sé væntanlegur.

    Ástralska Veðurstofan telur að það séu allavega 70% líkur á El Nino í ár (samkvæmt spá í byrjun maí). Helstu einkenni þeirrar hlýnunar sem er undanfari El Nino er í gangi og margt bendir til þess að það haldi áfram næstu mánuði.

    Screenshot 2014-05-07 14.32.45
    Loftslagslíkön spá því hvenær hiti í Kyrrahafinu kemst í El Niño fasa (rauður). Meðaltal líkana er sýnt með grænu. Mynd: Australian Bureau of Meteorology

    Upp úr miðjum síðasta mánuði, þá setti rannsóknastofnun um loftslag í Columbíu (International Research Institute (IRI) for Climate and Society at Columbia University) líkurnar á El Nino í haust upp í 75-80%.

    Hversu sterkur verður næsti El Nino

    Það er enn of snemmt að segja til um hversu stór næsti El Nino verður – en miklar breytingar geta orðið næstu vikur sem hafa áhrif í hvora áttina sem er.

    Tony Barston útskýrir það betur hér:

    April Climate Briefing Highlights, with Tony Barnston from IRI on Vimeo.

    Er heitasta ár frá upphafi mælinga í pípunum?

    Margt bendir til að við næsta El Nino, sem bætist þá ofan á undirliggjandi hnattræna hlýnun af mannavöldum, muni hnattrænn hiti verða sá hæsti frá upphafi mælinga. Aðstæður nú eru svipaðar og þær voru þegar síðasti stóri El Nino var (1997/8), en óvíst er hvort næsti verði þó eins stór.

    Þó margt bendi til El Nino, þá er ólíklegt að hann nái hámarki fyrir lok þessa árs og þar með er frekar búist við, ef af verður, að árið 2015 muni verða met í hnattrænum hita.

    Stóra myndin

    Náttúrulegur breytileiki í loftslagi veldur skammtíma hlýnun og kólnun, ofan á langtímaleitni hnattrænnar hlýnunnar – og ENSO sveiflan lætur ekki sitt eftir liggja í þeim bænum. Því er búist við sveiflum í loftslagi á sama tíma og hitinn eykst smám saman.

    Næsti El Nino gæti orðið sá heitasti frá upphafi mælinga, samkvæmt vísindamönnum. Ef það gerist, þá má búast við óvenju miklu öfgaveðri því samfara – auk þess sem hitaaukningin mun að öllum líkindum sækja í sig veðrið. Hvað sem gerist þá verða næstu mánuðir áhugaverðir og um leið spennandi að fylgjast með framhaldinu.

    Heimildir og ítarefni

    Unnið upp úr færslu af heimasíðu The Carbon Brief: Q & A: What’s El Niño – and why does it matter that scientists say one is on the way? Sjá einnig áhugaverða færslu af Skeptical Science: Is a Powerful El Niño Brewing in the Pacific Ocean?

    Trausti Jónsson skrifaði um El Nino fyrir vísindavefinn: Hvað er El Niño?

    Trenberth o.fl. 2002: Evolution of El Niño–Southern Oscillation and global atmospheric surface temperatures

    Balmaseda o.fl. 2013: Distinctive climate signals in reanalysis of global ocean heat content

    Meehl o.fl. 2013: Externally Forced and Internally Generated Decadal Climate Variability Associated with the Interdecadal Pacific Oscillation

    Tengt efni af loftslag.is

  • Frumskógar í suðurhluta Amazon að þorna

    Frumskógar í suðurhluta Amazon að þorna

    Samkvæmt nýrri rannsókn (Fu o.fl. 2013) þá er að lengjast tímabil þurrka í suðurhluta Amazon frumskógarins. Þurrkatímabilið stendur nú yfir í um þrjár vikur lengur en það gerði fyrir 30 árum síðan – sem eykur hættu á skógareldum og skógardauða.

    Þegar þurrkarnir miklu voru árin 2005 og 2010, þá mátti sjá með gervihnöttum minnkandi gróður á stórum landsvæðum í suður Amazon (appelsínugul og rauð svæði).Mynd frá Ranga Myneni, Jian Bi and NASA.
    Þegar þurrkarnir miklu voru árin 2005 og 2010, þá mátti sjá með gervihnöttum minnkandi gróður á stórum landsvæðum í suður Amazon (appelsínugul og rauð svæði).Mynd frá Ranga Myneni, Jian Bi and NASA.

    Niðurstöður þessarar rannsóknar eru á skjön við þá niðurstöðu sem nýlega kom frá IPCC, en þar er reiknað með að þurrkatímabilið muni lengjast um aðeins 10 daga eða minna fram til ársins 2100.  Líklegasta skýringin, fyrir þessum lengri tíma þurrka, telja höfundar vera hin hnattræna hlýnun.

    Samkvæmt skýrslu IPCC er því spáð ennfremur að vætutíð framtíðar verði blautari. Það er þó ekki talið gagnast frumskógum því frumskógarjarðvegur nær eingöngu ákveðnu rakastigi, þrátt fyrir mikla úrkomu, sem þornar þegar tímabil þurrka skellur á. Því er mikilvægt fyrir frumskóginn að vatn bætist sífellt við, því annars minnkar vöxtur og hættan á skógareldum eykst.

    Árið 2005, þegar miklir þurrkar voru á Amazon svæðinu, þá gaf frumskógurinn frá sér mikið magn af CO2 í stað þess að binda það, eins og skógum er von og vísa. Ef slíkt endurtekur sig trekk í trekk, þá má segja að farið sé yfir ákveðinn vendipunkt og að magnandi svörun sé komin af stað.

    Heimildir og ítarefni

    Sjá nánar á heimasíðu háskólans í Texas: Risk of Amazon Rainforest Dieback is Higher Than IPCC Projects

    Greinina má lesa á heimasíðu PNAS, Fu o.fl. 2013: Increased dry-season length over southern Amazonia in recent decades and its implication for future climate projection

    Tengt efni á loftslag.is

  • Árið 2012 skv NASA GISS, öfgahitar og hnatthitaspá meistaranna

    Árið 2012 skv NASA GISS, öfgahitar og hnatthitaspá meistaranna

    Árið 2012 var ár öfga, en  öfgar aukast með hækkandi hitastigi. Árið í ár var það níunda heitasta frá upphafi mælinga samkvæmt NASA GISS, en öll þau ár hafa orðið eftir 1998 (það ár meðtalið). Hnattrænt hitafrávik árið 2012 var +0,56°C miðað við viðmiðunartímabilið 1951-1980 – þrátt fyrir sterk La Nina áhrif.

    Hnattrænt hitafrávik samkvæmt NASA GISS. Á myndinni má sjá helstu áhrifavalda náttúrulegra sveifla í hitastigi, þ.e. eldgos (grænt) og ENSO (blár og kaldur La Nina fasi og appelsínugulur og hlýr El Nino fasi).

    Ein helsta ástæða þess að ekki var sett hitamet á síðasta ári er sú að Kyrrahafssveiflan (ENSO) var í La Nina fasa, en sú sveifla hefur kælandi áhrif á hnattrænan hita. Því er talið víst að við næstu El Nino sveiflu þá verði sett hitamet, því nokkur hitaaukning er í pípunum, sem náttúrulegar sveiflur hafa deyft undanfarin ár.

    Öfgahitar

    Þessi áframhaldandi hái hiti hefur orðið til að auka tíðni öfgaveðurs og þá sérstaklega óvenjumikinn hita víða um heim, eins og sjá má á þessari fróðlegu hreyfimynd sem sýnir í lokin hitafrávik 2012:

    Fyrir nokkrum dögum kom út grein sem virðist staðfesta áhrif hækkunar hnattræns hita af mannavöldum á öfgahita, en vísindamenn frá Potsdam stofnuninni komust að þeirri niðurstöðu að það hafi orðið fimmföld meiri aukning í metmánuðum hnattrænt, en væri ef engin áhrif væru af mannavöldum (Coumou o.fl.2013). Sú niðurstaða er byggð á 131 ári mánaðarmeðaltala á yfir 12 þúsund mælistöðum víðs vegar um heim. Gögnin sýna einnig náttúrulegar sveiflur, líkt og hitamet El Nino ára, en niðurstaðan er sú að náttúrulegar sveiflur hafi ekki úrslitaáhrif á heildarfjölda meta.

    Breytingar á fjölda meta eftir tímaás (þunn rauð lína sýnir fjölda meta, þykka rauða línan fimm ára meðaltal). Spágildi líkansins sem þeir nota er sýnt með bláu (ljósblár skuggi er frávik). (Mynd PODSDAM)

    Samkvæmt rannsókninni þá má búast við að eftir 30 ár, þá verði mánaðarleg hitamet um 12 sinnum algengari en án aukningar í hnattrænum hita af mannavöldum.

    Hnatthitaspámeistarinn 2012

    Undanfarin ár höfum við notað áramótin til að spá fyrir um komandi hitafrávik og höfum við notað NASA GISS sem viðmiðun. Í fyrra voru bara þrír sem treystu sér í að spá fyrir um 2012. Árið 2011 hafði endað í +0,51 og einn spáði lítilsháttar kólnun árið 2012, einn lítilsháttar hlýnun og einn aðeins meiri hlýnun.

    Spáin fyrir 2012:

    Höskuldur Búi: +0,61°C +/- 0,02
    Sveinn Atli: +0,53°C +/- 0,02
    Emil Hannes: +0,48°C +/- 0,02

    Niðurstaðan árið 2012 var síðan hitafrávik upp á +0,56°C. Því er ljóst að enginn er með nákvæma tölu en einn er þó lygilega nálægt endanlegri niðurstöðu. Í þriðja sæti er Emil Hannes, en hann var -0,08°C fjarri lagi, í öðru sæti er Höskuldur Búi sem var +0,05°C frá endanlegri niðurstöðu en Sveinn Atli er engöngu -0,03°C frá hitafráviki ársins 2012.

    Sveinn Atli er því hér með krýndur sem hnatthitaspámeistari ársins 2012.

    Þess ber að geta að enginn af þeim sem spá mikilli hnattrænni kólnun (þvert á það sem vísindamenn segja) treysti sér til að taka þátt í spánni – en líklega hefði þannig spá ekki verið vænleg til árangurs.

    Horfur 2013?

    Sá sem þetta skrifar endar þessar áramótayfirlitsgreinar á því að fabúlera sjálfur um næsta ár og hvetja aðra til að taka þátt, enda er þetta einungis til skemmtunar og umræðu. Við munum áfram notast við NASA GISS hitaröðina.

    Nú hafa komið tvö ár í röð með köldum fingraförum La Nina á sér (þ.e. köld sveifla) en samt hefur hitastig haldist nokkuð hátt – því tel ég líklegt að á næsta ári verði hitastig hærra en undanfarin tvö ár. Í fyrra reiknaði ég með því að náttúrulega sveiflan í ENSO myndi færast yfir í hlutlausan fasa og því reiknaði ég með að sú sveifla myndi skila +0,05°C hærra fráviki. Ég held mig við það miðað við þetta ár.

    Mér finnst líklegt að sveiflur í sólinni verði litlar og skili sér í hvorki hlýnun né kólnun.

    Eins er með eldvirkni eins og í fyrra og hitteðfyrra:

    Óvíst er um eldvirkni, en líklega er best að reikna með því að áhrif eldgosa verði hverfandi á árinu, þá sérstaklega á hitaröð NASA GISS – en til þess að hafa teljandi áhrif, þá þyrfti á næstu vikum (eða mánuðum) að verða stórt sprengigos nálægt miðbaug Jarðar. Það verður að teljast ólíklegt en getur þó alveg gerst.

    Ég ætla áfram að veðja á að hlýnunin af völdum gróðurhúsalofttegunda sé um +0,03°C.

    Ef lagt er saman hitafrávik ársins 2012 (0,56°C), hlýnun jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda (um það bil +0,03°C), sólvirkni (enigin hlýnun nú) og ENSO  (mögulega +0,05°C að þessu sinni), þá fæst um +0,64°C, en það yrði þriðja heitasta árið samkvæmt NASA GISS frá upphafi mælinga – en einungis árið 2005 (+0,65°C) og 2010 (+0,66°C) hafa hærri frávik. Það skal tekið fram eins og í fyrra að ef ENSO sveiflan fer á árinu upp í sterkan El Nino fasa, þá má búast við heitasta árinu frá upphafi mælinga – en hér er því samt ekki spáð.

    Við hvetjum hér með lesendur loftslag.is að spreyta sig í þessari skemmtilegu keppni – hver verður Hnatthitaspámeistari árið 2013?

    Heimildir og ítarefni

    Greinagerð NASA GISS um síðasta ár (Hansen o.fl. 2013): Global Temperature Update Through 2012

    Grein Potsdam sofnunarinnar um aukningu í öfgahita (Coumou o.fl. 2013):  Global increase in record-breaking monthly-mean temperatures

    Hitagögn NASA GISS má finna hér:  GISTemp

    Tengt efni á loftslag.is

  • Öfgavetur í kjölfar mikillar bráðnunar hafíss á norðurslóðum

    Öfgavetur í kjölfar mikillar bráðnunar hafíss á norðurslóðum

    Í kjölfar mikillar bráðnunar hafíssins á Norðurskautinu nú í sumar, má búast við röskun í veðrakerfi norðurhvelsins í vetur og þá sérstaklega í Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta er mat Jennifer Francis sem er sérfræðingur í lofthjúpi jarðar í háskólanum Rutgers í New Jersey. Aukinn hiti á Norðurskautinu er þannig talinn geta haft áhrif á skotvinda (e. jet stream) sem gæti aukið tíðni öfgaatburða á fyrrnefndum svæðum.

    Hin mikla bráðnun sem orðið hefur á þessu ári, svo slegið hefur fyrri met, er að auka hitainnihald Norður-Íshafsins og andrúmsloftsins, að sögn Jennifer og líkt og að bæta við nýrri orkuuppsprettu fyrir lofthjúpinn.

    Hafísútbreiðslan þann 3. sept 2012 (mynd: nsidc.org)

    Þann 26. ágúst náði útbreiðsla hafíss nýjum lægðum, en fyrra metið var slegið í september 2007 og enn er útbreiðsla hafíssins að minnka þegar þetta er skrifað. Þessi bráðnun veldur magnandi svörun sem þekkt er sem Norðurskautsmögnunin (e. Arctic amplification). Því meira sem bráðnar af hafís, því meiri orku dregur Norðurskautið til sín – því þar sem áður var hafís sem speglar sólarljósinu aftur út í geim, er nú opið og dökkt haf. Þetta eykur hitastig sjávar og lofthjúpsins á Norðurskautinu – sem svo bræðir enn meiri hafís.

    Á haustin, þegar sólin sest yfir Norður-Íshafinu og það byrjar að frjósa aftur, þá losnar hitinn aftur út í lofthjúpinn. Þar sem fyrrnefndir skotvindar eru knúðir áfram af hitamismun milli Norðurskautsins og svæða sunnar á hnettinum, þá hafa allar breytingar á þeim hitamismun áhrif á vindana – með tilheyrandi afleiðingum.

    Samkvæmt Francis, þá virðist sem sveiflan aukist í skotvindakerfinu þ.e. í stefnu norður-suður – með öðrum orðum þá eykst bylgjulengd skotvindanna á haustin og yfir vetrartímann. Aukin bylgjulengd getur valdið auknum öfgum í veðri, en öfgar í veðri eru oft tengdir veðrakerfum sem eru lengi að breytast. En þó vísbendingar séu um að skotvindar séu að hægja á sér og auka bylgjulengd sína, þá er erfitt að segja til um hvaða áhrif það hefur á komandi vetur.

    Staðsetning skotvindanna ræðst af öðrum þáttum, samkvæmt Francis – meðal annars Kyrrahafssveiflunni (ENSO) og Atlantshafssveiflunni (AO) – en líklega megi þó búast við mjög óvenjulegu veðri í vetur. Óvenjulega kaldur og snjóþungur vetur árið 2009-1010 og 2010-2011 á austurströnd Bandaríkjanna og í Norður-Evrópu, er samkvæmt Francis, nátengdur hlýnun Norðurskautsins. Það að veturinn 2011-2012 var ekki eins öfgakenndur veldur því að efasemdir eru uppi um þessi tengsl meðal sumra loftslagsfræðinga. Aðrir hafa bent á, meðal annars Jim Overland hjá NOAA, að ekki sé hægt að útiloka tilgátu Francis út af einum vetri – ekki sé alltaf beint samband á milli orsaka og afleiðinga.

    Það verður því áhugavert að fylgjast með þróuninni í haust og fram á vetur.

    Heimildir og ítarefni

    Þýtt og staðfært úr frétt Climate Central:  ‘Astonishing’ Ice Melt May Lead to More Extreme Winters

    Hafísmetið fellur: Arctic sea ice extent breaks 2007 record low

    Ástand hafíssins í ágúst: Arctic sea ice falls below 4 million square kilometers

    Áhugavert viðtal við Jón Egil Kristjánsson í speglinum um öfgakennt veðurfar

    Tengt efni á loftslag.is

  • Líkur á öfgum í hita hafa aukist með hnattrænni hlýnun

    Líkur á öfgum í hita hafa aukist með hnattrænni hlýnun

    Ný rannsókn sem gerð var af vísindamönnum NASA sýnir að líkur á öfgum í hita eru mun meiri en fyrir hálfri öld síðan, en vísindamenn telja ljóst að þessar auknu líkur séu vegna loftslagsbreytinga.

    Við greiningu á langtíma leitnilínum hitastigs, þá lýstu höfundar því hvernig öfgaheit sumur höfðu einungis áhrif 1% yfirborð jarðar milli áranna 1951 og 1980 – en hafa stækkað áhrifasvæði sitt undanfarna þrjá áratugi. Samkvæmt greiningu þeirra, þá hefur um 10% landmassa norðurhvels jarðar orðið fyrir öfgaheitum sumrum frá árinu 2006 og til dagsins í dag.  Líkurnar á slíkum sumrum voru 1:300 milli 1951 og 1980 – en nú eru líkurnar 1:10.

    Öfgar í veðri – í þessu tilfelli mjög heitt eða kalt veður – eru sjaldgæfir. En lítil hækkun í meðalhita jarðar vegna gróðurhúsaáhrifa getur aukið tíðni öfga í hitastigi.

     

    Heimildir og ítarefni

    Greinina má lesa á heimasíðu PNAS:  Hansen o.fl. 2012: Perception of climate change

    Umfjallanir um greinina má lesa á heimasíðu Tamino (Hansen Et.al.2012) og á Climate Central (Hansen Study: Extreme Weather Tied to Climate Change).

    Tengt efni á loftslag.is

  • Auknir veðuröfgar breyta almenningsáliti í Bandaríkjunum

    Auknir veðuröfgar breyta almenningsáliti í Bandaríkjunum

    Samkvæmt nýrri skoðunarkönnun þá eru 70 % bandaríkjamanna sammála fullyrðingum um að hnattræn hlýnun sé að hafa áhrif á veður í Bandaríkjunum. Í kjölfarið hefur stuðningur á mótvægisaðgerðum gegn loftslagsbreytingum aukist til muna.

    Samkvæmt könnuninni þá eru 60 % Bandaríkjamanna líklegri til að kjósa frambjóðendur sem eru meðfylgjandi breytingum á skattakerfinu sem myndi auka skatta á jarðefnaeldsneyti.  Við könnunina voru Bandaríkjamönnum skipt niður í sex flokka, frá þeim sem höfðu verulegar áhyggjur og yfir í þá sem höfðu engar áhyggjur af hnattrænni hlýnun jarðar. Þeir þrír hópar sem höfðu áhyggjur töldu líklegt að með hópþrýstingi væri hægt að hafa áhrif á þingmenn varðandi viðbrögð við loftslagsbreytingum.

    Óhætt er að segja að um töluverða viðhorfsbreytingu sé að ræða – hvort hún sé komin til að vera á eftir að koma í ljós.

    Heimildir og ítarefni

    Yale Project on Climate Change Communication: Global Warming’s Six Americas in March 2012 and November 2011

    RÚV: Hitinn í Bandaríkjunum drepur

    Tengt efni á loftslag.is

  • Öfgar í veðri – líkurnar aukast

    Öfgar í veðri – líkurnar aukast

    Undanfarinn áratugur hefur þótt óvenjulegur hvað varðar öfga í veðri. Vísindamenn við Potsdam stofnunina í loftslagsrannsóknum, sem staðsett er í Þýskalandi, telja að þessi háa tíðni öfga í veðri sé ekki tilviljun – sérstaklega hvað varðar úrkomu og hitabylgjur (sjá Coumou og  Rahmstorf 2012). Tengslin milli hlýnunar og vindstyrks er ekki eins augljós – þó ákveðið munstur hafi sést í aukningu á styrk fellibylja.
    Ef tekið er eingöngu árið 2011 í Bandaríkjunum, þá ollu 14  veður tjóni sem var meira en milljarður dollara hvert (yfir 120 milljarðar íslenskra króna). Óvenjumikil úrkoma var í Japan á sama tíma og vatnasvið Yangtze fljótsins í Kína varð fyrir áhrifum óvenjulegs þurrkatímabils. 2010 var öfgafyllra ef eitthvað er, en margir muna eftir hitabylgjunni í Rússlandi og úrhellinu í Pakistan og Ástralíu.

    Spurning um líkur

    Samkvæmt höfundum þá snýst spurningin um hvort þessir öfgar tengjast loftslagsbreytingum meira um það hvort þær auki líkurnar frekar en að hægt sé að segja til um að þær valdi beinlínis öfgaatburði. Því fleiri slíkir atburðir sem verða, því auðveldara er að sjá hvernig loftslagsbreytingar auka líkurnar. Höfundar telja enn fremur að nú þegar sé fjöldi öfgaveðra kominn fram úr því sem telst eðlilegt.

    Annar höfunda líkir þessu við teninga sem búið er að breyta (lauslega þýtt):

    Sexan getur komið hvenær sem er og þú veist ekki hvenær hún kemur. Eftir breytinguna mun hún aftur á móti koma oftar en áður.

    Undanfarin vika sýnir þetta greinilega, en þá féllu hitamet á yfir þúsund stöðum í Bandaríkjunum.

    Þrjár stoðir: Eðlisfræði, tölfræði og líkön

    Vísindamennirnir notuðu þrjár grunnstoðir við að greina áhrif loftslagbreytinga á öfgaveður: Hefðbundna eðlisfræði, tölfræðigreiningu og keyrslur tölvulíkana.

    Hefðbundin eðlisfræði segir okkur að aukinn hiti lofthjúpsins muni valda meiri öfgum. Sem dæmi þá inniheldur heitt loft mun meiri raka og lengur áður en það byrjar að rigna – þar með má búast við meiri öfgum í úrkomu. Hefðbundnar tölfræðilegar leitnilínur sýna síðan greinilega aukningu, sérstaklega í hita og úrkomu. Keyrslur tölvulíkana staðfesta síðan tengsl aukins hita og setningu hita- og úrkomumeta.

    Öfgar í veðri – í þessu tilfelli mjög heitt eða kalt veður – eru sjaldgæfir. En lítil hækkun í meðalhita jarðar vegna gróðurhúsaáhrifa getur aukið tíðni öfga í hitastigi.

    Samkvæmt nýjustu rannsóknum, þá ættu fellibylir að aukast í styrk en ekki fjölda, þegar úthöfin hlýna. Nokkrir fellibylir hafa slegið met undanfarin ár en ástæður þess er ekki að fullu ljósar, en einnig gæti þar verið um að ræða ónákvæmni í gögnum um fyrri storma. Öfgaköldum atburðum mun, samkvæmt rannsókninni, fækka við áframhaldandi hnattræna hlýnun – en þó ekki jafnhratt og öfgaheitum atburðum fjölgar.

    Öfgaveður tengist oft staðbundnum aðstæðum, líkt og fyrirstöðuhæðum eða náttúrulegum sveiflum líkt og El Nino. Nú bætist við undirliggjandi hnattræn hlýnun sem breytir óvenjulegu veðri í öfgaveður.

    Heimildir og ítarefni

    Coumou og  Rahmstorf (2012): A Decade of Weather Extremes. Nature Climate Change [DOI: 10.1038/NCLIMATE1452]

    Fréttatilkynningin á ensku: Weather records due to climate change: a game with loaded dice

    Umfjöllun á RealClimate: Extreme Climate

    Tengt efni á loftslag.is

  • Áhrif loftslagsbreytinga á tjón vegna hitabeltislægða

    Áhrif loftslagsbreytinga á tjón vegna hitabeltislægða

    Ein afleiðing aukinnar losunnar gróðurhúsalofttegunda er aukið tjón vegna öfga í veðri.  Í nýlegri grein er reynt að meta áhrif loftslagsbreytinga á tjón af völdum hitabeltislægða/fellibylja (e. tropical cyclone).

    Slóð hitabeltislægða og lágmarksþrýstingur fyrir ákveðið sýnishorn úr loftslagslíkönum.

    Í ljós kom að jafnvel án loftslagsbreytinga myndi tjón aukast af völdum hitabeltislægða, þá vegna aukinna verðmæta á þeim svæðum þar sem hitabeltislægðir fara jafnan yfir . Spár benda einnig til að sterkir stormar muni aukast á mörgum hafssvæðum í framtíðinni – loftslagslíkönum ber þó ekki saman um hversu mikið og hvar. Þó eru loftslagsbreytingar taldar munu tvöfalda efnahagslegt tjón. Megnið af tjóninu yrði staðsett við strendur Norður Ameríku, Austur Asíu og við Karabíuhafið.

    Enn er margt ólært samkvæmt höfundum, t.d. voru sjávarstöðubreytingar og aðlögun ekki tekin með í reikninginn, en hið fyrrnefnda gæti aukið tjónið á meðan það seinna myndi draga úr tjóni.

    Heimildir og ítarefni

    Færslan er unnin upp úr grein sem birtist í Nature Climate Change og er eftir Mendelsohn o.fl. 2012 (ágrip): The impact of climate change on global tropical cyclone damage

    Hægt er að nálgast afrit af greininni hér, allavega tímabundið: The impact of climate change on global tropical cyclone damage

    Tengt efni á loftslag.is

  • IPCC telur að aukin tilfelli öfga í veðri sé tengt hækkandi hitastigi

    IPCC telur að aukin tilfelli öfga í veðri sé tengt hækkandi hitastigi

    Flóð í Bangkok

    Í drögum að skýrslu sem Loftslagsnefnd Sameinuðu Þjóðanna (IPCC) hefur birt, kemur fram að líkurnar séu 2 á móti 3 að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu nú þegar farnar að hafa afleiðingar í átt að auknum öfgum í veðri. Í samantekt skýrslunnar, sem Associated Press hefur komist yfir, kemur fram að aukning illviðra, eins og til að mynda úrhellisins sem hefur valdið miklum flóðum í Tælandi, muni leiða til fleiri dauðsfalla og skemmdum á eignum sem og gera sum svæði að auknum jaðarbúsvæðum í framtíðinni. Í skýrslunni kemur fram að vísindamenn telji sig “því sem næst sannfærða” um að áframhaldandi hlýnunin muni valda, ekki einungis aukningu öfgakenndra hitabylgja og þurrka á sumum svæðum, en muni líka vera ástæða úrhellisrigninga sem muni geta valdið alvarlegum flóðum. Skýrslan sem fer m.a. í það umdeilda efni hvort loftslagsbreytingar hafi nú þegar valdið meiri öfgum í veðri, kemur út eftir nokkrar vikur, fyrir loftslagsráðstefnuna sem haldin verður í Durban í Suður Afríku í desember. “Ég tel að fólk geri sér ljóst að öfgarnir sé það sem við munum sjá varðandi afleiðingar loftslagsbreytinga,” sagði Jerry Meehl, vísindamaður hjá bandarísku lofthjúps rannsóknarmiðstöðinni.

    Heimild:

    YALE Environment360 – EXTREME WEATHER EVENTS LIKELY LINKED TO WARMING, IPCC SAYS

    Tengt efni á loftslag.is:

  • El Nino og loftslagsbreytingar út þessa öld

    El Nino og loftslagsbreytingar út þessa öld

    Ekki er búist við að loftslagsbreytingar hafi áhrif á tíðni eða umfang El Nino/La Nina sveifluna – ENSO ( El Niño/Southern Oscillation) út þessa öld, en afleiðingar sveiflunnar gætu þó versnað. Þetta er niðurstaða nýlegrar rannsóknar sem birtist í Journal of Climate (Stevenson o.fl. 2011).

    Sterk ENSO sveifla verður á 4-12 ára fresti, þegar yfirborðhiti sjávar við miðbaug Kyrrahas verður óvenjulega hár – vestur af strönd suður Ameríku. Fyrirbærið hefur áhrif víða um heim – með óvenjulegu veðurfari sem veldur gríðarlegu tjóni, sérstaklega af völdum flóða og þurrka. Því er mikilvægt að vita hvernig ENSO sveiflan getur breyst við þær loftslagsbreytingar sem nú eru í gangi og væntanlegar eru út þessa öld.

    Vísindamennirnir notuðu loftslagslíkön NCAR (Community Climate System Model -CCSM) og líktu eftir loftslagsbreytingum og mögulegum áhrifum sem það myndi hafa á ENSO út öldina. Í stuttu máli þá fundu þeir engar breytingar á umfang eða tíðni ENSO sveiflunnar.

    Aftur á móti er búist við, að heitara og blautara andrúmsloft framtíðar, geti gert ENSO atburðina öfgafyllri. Sem dæmi spáir líkanið því að fyrirstöðuhæð suður af Alaska, sem myndast við La Nina vetur (kaldari hluti sveiflunnar), muni styrkjast í framtíðinni sem þýðir að kalt loft norðurskautsins á greiðari leið að norður Ameríku í framtíðinni.

    Heimildir og ítaerefni

    Umfjöllun á heimasíðu UCAR/NCAR: El Niño and climate change in the coming century

    Greinin sem birtist í Journal of Climate, Stevenson o.fl. 2011: Will there be a Significant Change to El Nino in the 21st Century?

    Tengt efni á loftlsag.is