Árið 2012 var ár öfga, en öfgar aukast með hækkandi hitastigi. Árið í ár var það níunda heitasta frá upphafi mælinga samkvæmt NASA GISS, en öll þau ár hafa orðið eftir 1998 (það ár meðtalið). Hnattrænt hitafrávik árið 2012 var +0,56°C miðað við viðmiðunartímabilið 1951-1980 – þrátt fyrir sterk La Nina áhrif.
Ein helsta ástæða þess að ekki var sett hitamet á síðasta ári er sú að Kyrrahafssveiflan (ENSO) var í La Nina fasa, en sú sveifla hefur kælandi áhrif á hnattrænan hita. Því er talið víst að við næstu El Nino sveiflu þá verði sett hitamet, því nokkur hitaaukning er í pípunum, sem náttúrulegar sveiflur hafa deyft undanfarin ár.
Öfgahitar
Þessi áframhaldandi hái hiti hefur orðið til að auka tíðni öfgaveðurs og þá sérstaklega óvenjumikinn hita víða um heim, eins og sjá má á þessari fróðlegu hreyfimynd sem sýnir í lokin hitafrávik 2012:
Fyrir nokkrum dögum kom út grein sem virðist staðfesta áhrif hækkunar hnattræns hita af mannavöldum á öfgahita, en vísindamenn frá Potsdam stofnuninni komust að þeirri niðurstöðu að það hafi orðið fimmföld meiri aukning í metmánuðum hnattrænt, en væri ef engin áhrif væru af mannavöldum (Coumou o.fl.2013). Sú niðurstaða er byggð á 131 ári mánaðarmeðaltala á yfir 12 þúsund mælistöðum víðs vegar um heim. Gögnin sýna einnig náttúrulegar sveiflur, líkt og hitamet El Nino ára, en niðurstaðan er sú að náttúrulegar sveiflur hafi ekki úrslitaáhrif á heildarfjölda meta.
Samkvæmt rannsókninni þá má búast við að eftir 30 ár, þá verði mánaðarleg hitamet um 12 sinnum algengari en án aukningar í hnattrænum hita af mannavöldum.
Hnatthitaspámeistarinn 2012
Undanfarin ár höfum við notað áramótin til að spá fyrir um komandi hitafrávik og höfum við notað NASA GISS sem viðmiðun. Í fyrra voru bara þrír sem treystu sér í að spá fyrir um 2012. Árið 2011 hafði endað í +0,51 og einn spáði lítilsháttar kólnun árið 2012, einn lítilsháttar hlýnun og einn aðeins meiri hlýnun.
Spáin fyrir 2012:
Höskuldur Búi: +0,61°C +/- 0,02
Sveinn Atli: +0,53°C +/- 0,02
Emil Hannes: +0,48°C +/- 0,02
Niðurstaðan árið 2012 var síðan hitafrávik upp á +0,56°C. Því er ljóst að enginn er með nákvæma tölu en einn er þó lygilega nálægt endanlegri niðurstöðu. Í þriðja sæti er Emil Hannes, en hann var -0,08°C fjarri lagi, í öðru sæti er Höskuldur Búi sem var +0,05°C frá endanlegri niðurstöðu en Sveinn Atli er engöngu -0,03°C frá hitafráviki ársins 2012.
Sveinn Atli er því hér með krýndur sem hnatthitaspámeistari ársins 2012.
Þess ber að geta að enginn af þeim sem spá mikilli hnattrænni kólnun (þvert á það sem vísindamenn segja) treysti sér til að taka þátt í spánni – en líklega hefði þannig spá ekki verið vænleg til árangurs.
Horfur 2013?
Sá sem þetta skrifar endar þessar áramótayfirlitsgreinar á því að fabúlera sjálfur um næsta ár og hvetja aðra til að taka þátt, enda er þetta einungis til skemmtunar og umræðu. Við munum áfram notast við NASA GISS hitaröðina.
Nú hafa komið tvö ár í röð með köldum fingraförum La Nina á sér (þ.e. köld sveifla) en samt hefur hitastig haldist nokkuð hátt – því tel ég líklegt að á næsta ári verði hitastig hærra en undanfarin tvö ár. Í fyrra reiknaði ég með því að náttúrulega sveiflan í ENSO myndi færast yfir í hlutlausan fasa og því reiknaði ég með að sú sveifla myndi skila +0,05°C hærra fráviki. Ég held mig við það miðað við þetta ár.
Mér finnst líklegt að sveiflur í sólinni verði litlar og skili sér í hvorki hlýnun né kólnun.
Eins er með eldvirkni eins og í fyrra og hitteðfyrra:
Óvíst er um eldvirkni, en líklega er best að reikna með því að áhrif eldgosa verði hverfandi á árinu, þá sérstaklega á hitaröð NASA GISS – en til þess að hafa teljandi áhrif, þá þyrfti á næstu vikum (eða mánuðum) að verða stórt sprengigos nálægt miðbaug Jarðar. Það verður að teljast ólíklegt en getur þó alveg gerst.
Ég ætla áfram að veðja á að hlýnunin af völdum gróðurhúsalofttegunda sé um +0,03°C.
Ef lagt er saman hitafrávik ársins 2012 (0,56°C), hlýnun jarðar vegna gróðurhúsalofttegunda (um það bil +0,03°C), sólvirkni (enigin hlýnun nú) og ENSO (mögulega +0,05°C að þessu sinni), þá fæst um +0,64°C, en það yrði þriðja heitasta árið samkvæmt NASA GISS frá upphafi mælinga – en einungis árið 2005 (+0,65°C) og 2010 (+0,66°C) hafa hærri frávik. Það skal tekið fram eins og í fyrra að ef ENSO sveiflan fer á árinu upp í sterkan El Nino fasa, þá má búast við heitasta árinu frá upphafi mælinga – en hér er því samt ekki spáð.
Við hvetjum hér með lesendur loftslag.is að spreyta sig í þessari skemmtilegu keppni – hver verður Hnatthitaspámeistari árið 2013?
Heimildir og ítarefni
Greinagerð NASA GISS um síðasta ár (Hansen o.fl. 2013): Global Temperature Update Through 2012
Grein Potsdam sofnunarinnar um aukningu í öfgahita (Coumou o.fl. 2013): Global increase in record-breaking monthly-mean temperatures
Hitagögn NASA GISS má finna hér: GISTemp
Tengt efni á loftslag.is
- Árið 2011 skv NASA GISS og hnatthitaspámeistarinn
- Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar
- Líkur á öfgum í hita hafa aukist með hnattrænni hlýnun
- Öfgavetur í kjölfar mikillar bráðnunar hafíss á norðurslóðum
Ég óska Sveini Atla að sjálfsögðu til hamingju með spámeistaratitilinn.
Árshitinn í heiminum samkvæmt NASA GISS var vissulega dálítið hærri en ég gerði ráð fyrir en ég nefndi það þó fyrir ári að mér kæmi ekki á óvart að hitinn yrði hærri en ég spáði. Þetta var reyndar ekki sterkt La Nina ár. Á miðju ári var ENSO t.d. í hlýjum fasa sem bætti fyrir kalda byrjun. Ég held líka að Norður-Íshafið hafi haft sín áhrif undir haustið vegna þeirrar miklu bráðnunar sem þar var og skildi eftir opið haf sem vann gegn kólnun á þeim slóðum frá ágúst til október. Norðurslóðirnar sýnast mér reyndar leggja mest til hnattrænnar hlýnunar undanfarin ár eins og sést á hreyfimyndinni hér að ofan.
Á þessu ári er spáð frekar hlutlausum ENSO í Kyrrahafinu, sólvirknin er í lélegu hámarki en spennan liggur helst í því hvað gerist með Norðurpólsísinn. Líklegt er að sama þróun haldi þar áfram þannig að þegar allt er tekið með spái ég heldur hlýrra ári en síðast. Ég ætla þó að halda mig áfram fyrir neðan Höska og spá því að hitafrávik NASA GISS 2013 endi í +0,60°C.
Emil, ég sagði “sterk La Nina áhrif, en það er talið taka um 3-5 mánuði fyrir ENSO sveifluna að hafa hnattræn áhrif á NASA GISS samkvæmt tölfræðilegum úttektum. Sú áhrif voru nokkuð sterk á síðasta ári.
OK, en í heildina var árið ekki undir sterkum La Nina áhrifum þótt það hafi byrjað þannig. http://iri.columbia.edu/climate/ENSO/currentinfo/figure2.html
Annað atriði sem ég minntist ekki á áðan er að NASA GISS gagnaröðin hefur verið uppfærð núna mjög nýlega (og ekki í fyrsta skipti). Þannig er búið að hækka hitatölur síðustu ára og mánaða um 0,03°C.
2010 var áður í +0,63°C en er núna +0,66°C
2011 var áður í +0,51°C en er núna +0,54°C
http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt
Þetta hefur líka áhrif á 2012 þannig að samkvæmt eldri útgáfunni sem við spáðum útfrá hefði árið 2012 endað í 0,53°C (sem er reyndar akkúrat það sem Svatli spáði). Þessi breyting átti sér stað núna í lok síðasta árs enda kom það mér á óvart hvað lokahitinn reyndist þetta hærri en stefndi í.
Ég veit að það er ekki vinsælt hér að vísa í WUWT en ég sá þetta þó upphaflega þar.
Hansen’s NASA GISS – cooling the past, warming the present
Fyrstu tveir linkarnir eru eitthvað brenglaðir hjá mér. En það má kópera slóðirnar.
Ég tók mér það bessaleyfi að laga tenglana hjá þér Emil – þannig að það er í lagi núna.
PS. Annar ligg ég undir feld að huga að næstu hnatthitaspá – mikil pressa á núverandi hnatthitaspámeistara!
Ég óska hnatthitaspámeistara ársins 2012, Sveini Atla, til hamingj,u með glæstan sigur. Ég ætla að vera með að þessu sinni og treð mér inn á milli Höska og Emils með spá um 0.62 gráða frávik.
Forsendur
1: ENSO:2012 var La Nina ár (ef maður reiknar frá 09 2011 til 08 2012 sbr. athugasemd Höska hér að ofan). Geri ráð fyrir að 2013 verði í hlutlausari gír og það valdi fjögurra hundraðshluta hitastigshækkun milli þessarra tveggja ára. Ástandið í Kyrrahafi getur haft miklu stærri áhrif en þetta, því Kyrrahafið er svo stór flötur. Ef maður skoðar mynd nr. 2 i þessum pistli hér:
http://skepticalscience.com/foster-and-rahmstorf-measure-global-warming-signal.html
þá virðist að ENSO geti breytt hnatthita um +- 20 hundraðshluta úr gráðu, ef stór sveifla í aðra hvora áttina hittir rétt á almanaksárið. Ég sem sagt geri ekki ráð fyrir að það gerist, heldur verði eilítið minna La Nina ástand en í fyrra.
2. Eldvirkni: Stórgos á borð við það sem varð í Pinatubo 1991 getur lækkað hnattrænan hita um 20-30 hundraðshluta úr gráðu í 2-3 ár eftir gosið. Þar sem einungis verða nokkur svoleiðis gos á hverri öld að jafnaði, og engin veit hvenær þau koma eða hvar, þá er best að gera ráð fyrir að það eigi sér ekki stað á yfirstandandi ári.
3. Breytingar á sólarvirkni: hafa einhver áhrif á hnattrænt hitastig en ekki mikil.
4. Aukin gróðurhúsaáhrif: + 2 hundraðshlutar frá fyrra ári.
Já Emil, ég var ekki búinn að átta mig á þessum leiðréttingum – þá dettur þú uppfyrir mig með -0,05°C frávik og ég fer upp í +0,08°C frávik… og Sveinn lendir akkúrat á rétta spá. Góður 🙂
Jæja, best að setja sig í spámanns stellinguna. Reyndar hafið þið félagar (að mínu mati) sett ykkur á tiltölulega líklegar spár og því erfitt að stilla sig vel af án þess að vera ofaní ykkar spám. Mínar vangaveltur hafa verið hvort að ég ætti að stilla mig af hærra eða lægra en þessar þrjár vel rökstuddu spár. Við erum því annað hvort að tala um spá frá mér um metár eða ár sem ekki nær á lista yfir 10 heitustu árin.
Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að spá því að El Nino muni ekki ná sér á strik og þetta verði í “kaldara” lagi – miðað við spár sem settar hafa verið fram hér að ofan. Ég spái því 0,54°C fráviki frá meðaltalinu – s.s. spá sem er 0,01°C yfir minni síðustu spá og þar með aðeins undir meðalhita 2012. Ef þetta verður niðurstaðan, þá yrði árið 2013 á pari við 2011, samkvæmt uppfærðum tölum þess árs.
Fróðleg umfjöllun á Climate Abyss – þar sem viðkomandi færir rök fyrir því að hitafrávikið samkvæmt GISTEMP verði +0.70 +/- .09 C fyrir árið 2013. Samkvæmt þessu eru möguleikar Höska á að verða Hnatthitaspámeistari 2013 einna mestir. Allavega athyglisverðar vangaveltur.