Öfgavetur í kjölfar mikillar bráðnunar hafíss á norðurslóðum

Í kjölfar mikillar bráðnunar hafíssins á Norðurskautinu nú í sumar, má búast við röskun í veðrakerfi norðurhvelsins í vetur og þá sérstaklega í Bandaríkjunum og Evrópu. Þetta er mat Jennifer Francis sem er sérfræðingur í lofthjúpi jarðar í háskólanum Rutgers í New Jersey. Aukinn hiti á Norðurskautinu er þannig talinn geta haft áhrif á skotvinda (e. jet stream) sem gæti aukið tíðni öfgaatburða á fyrrnefndum svæðum.

Hin mikla bráðnun sem orðið hefur á þessu ári, svo slegið hefur fyrri met, er að auka hitainnihald Norður-Íshafsins og andrúmsloftsins, að sögn Jennifer og líkt og að bæta við nýrri orkuuppsprettu fyrir lofthjúpinn.

Hafísútbreiðslan þann 3. sept 2012 (mynd: nsidc.org)

Þann 26. ágúst náði útbreiðsla hafíss nýjum lægðum, en fyrra metið var slegið í september 2007 og enn er útbreiðsla hafíssins að minnka þegar þetta er skrifað. Þessi bráðnun veldur magnandi svörun sem þekkt er sem Norðurskautsmögnunin (e. Arctic amplification). Því meira sem bráðnar af hafís, því meiri orku dregur Norðurskautið til sín – því þar sem áður var hafís sem speglar sólarljósinu aftur út í geim, er nú opið og dökkt haf. Þetta eykur hitastig sjávar og lofthjúpsins á Norðurskautinu – sem svo bræðir enn meiri hafís.

Á haustin, þegar sólin sest yfir Norður-Íshafinu og það byrjar að frjósa aftur, þá losnar hitinn aftur út í lofthjúpinn. Þar sem fyrrnefndir skotvindar eru knúðir áfram af hitamismun milli Norðurskautsins og svæða sunnar á hnettinum, þá hafa allar breytingar á þeim hitamismun áhrif á vindana – með tilheyrandi afleiðingum.

Samkvæmt Francis, þá virðist sem sveiflan aukist í skotvindakerfinu þ.e. í stefnu norður-suður – með öðrum orðum þá eykst bylgjulengd skotvindanna á haustin og yfir vetrartímann. Aukin bylgjulengd getur valdið auknum öfgum í veðri, en öfgar í veðri eru oft tengdir veðrakerfum sem eru lengi að breytast. En þó vísbendingar séu um að skotvindar séu að hægja á sér og auka bylgjulengd sína, þá er erfitt að segja til um hvaða áhrif það hefur á komandi vetur.

Staðsetning skotvindanna ræðst af öðrum þáttum, samkvæmt Francis – meðal annars Kyrrahafssveiflunni (ENSO) og Atlantshafssveiflunni (AO) – en líklega megi þó búast við mjög óvenjulegu veðri í vetur. Óvenjulega kaldur og snjóþungur vetur árið 2009-1010 og 2010-2011 á austurströnd Bandaríkjanna og í Norður-Evrópu, er samkvæmt Francis, nátengdur hlýnun Norðurskautsins. Það að veturinn 2011-2012 var ekki eins öfgakenndur veldur því að efasemdir eru uppi um þessi tengsl meðal sumra loftslagsfræðinga. Aðrir hafa bent á, meðal annars Jim Overland hjá NOAA, að ekki sé hægt að útiloka tilgátu Francis út af einum vetri – ekki sé alltaf beint samband á milli orsaka og afleiðinga.

Það verður því áhugavert að fylgjast með þróuninni í haust og fram á vetur.

Heimildir og ítarefni

Þýtt og staðfært úr frétt Climate Central:  ‘Astonishing’ Ice Melt May Lead to More Extreme Winters

Hafísmetið fellur: Arctic sea ice extent breaks 2007 record low

Ástand hafíssins í ágúst: Arctic sea ice falls below 4 million square kilometers

Áhugavert viðtal við Jón Egil Kristjánsson í speglinum um öfgakennt veðurfar

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál