Enn og aftur er komið að því að skoða árið sem var að líða með fókus á hitastig í heiminum. Það virðist vera orðið venja að það ár sem er nýliðið í hvert og eitt skiptið sé meðal 10 heitustu ára frá upphafi og á því varð engin breyting í ár, árið 2013 kemst á listann þrátt fyrir staðbundin kuldaköst og vetrar hörkur hér og þar, eins og vill gerast ár hvert. Hitafrávikið árið 2013 endaði í +0,60°C hjá NASA GISS * og er það 7. heitasta árið frá upphafi mælinga samkvæmt þeirra skráningum. Hjá NOAA endaði árið í +0,58°C miðað við sama viðmiðunartímabil (1951-1980) og er það 4. heitasta árið samkvæmt þeirra skráningum. Á eftirfarandi grafi má sjá samanburð á hitafrávikunum eins og þau eru samkvæmt NASA og NOAA í einni mynd (sjá samanburðar skjal hér [PDF]):
Munurinn á gagnasettunum liggur mest í breytilegri aðferðafræði varðandi hvernig svæði með fáum veðurstöðvum, eins og t.d. Suður- og Norðurskautið, eru tekin inn í gögnin. Eins og sjá má er nokkuð gott samræmi í þessum tveimur gröfum. Árið 2013 er örlítið hlýrra en árið 2012, sem endaði í hitafrávikinu +0,56°C, sjá Árið 2012 skv NASA GISS, öfgahitar og hnatthitaspá meistaranna. Það lítur ekki út fyrir að það sé nokkur viðsnúningur í hnattrænni hlýnun þetta árið, frekar en á síðustu árum og áratugum.
Hnatthitaspámeistarinn 2013
Undanfarin ár höfum við eftir áramót spáð fyrir um komandi ár og hitafrávikið og höfum við notað NASA GISS sem viðmið. Á síðasta ári voru fjórir sem treystu sér í að spá fyrir um 2013. Árið 2012 endað, eins og áður sagði, í +0,56°C hitafráviki, en spár fóru þannig að allir nema einn spáðu lítilsháttar hlýnun frá fyrra ári, en hinn síðasti (undirritaður) spáði lítilsháttar kólnun. En áður en lengra er haldið, þá þarf að halda því til að haga að síðan í janúar á síðasta ári, þá hefur 0,56°C talan verið leiðrétt í 0,58°C. Það virðast alltaf verða einhverjar smávægilegar leiðréttingar þegar líða tekur á (fleiri gögn og bætt gagnvinnsla gætu útskýrt það) og það er svo sem ekkert óeðlilegt við það. En þar sem 0,56°C var okkar grunnur í spám okkar á síðasta ári, þá þarf að leiðrétta spárnar um 0,02°C upp á við. Það hefur engin áhrif á hver er sigraði, en smávægilega breytingu á hinum sætunum.
Spáin fyrir 2013, ásamt leiðréttingum:
Spá 2013 | Upprunaleg spá | Leiðrétt spá | Frávik frá niðurstöðu |
---|---|---|---|
Höskuldur Búi | +0,64°C | +0,66°C | +0,06 |
Sveinn Atli | +0,54°C | +0,56°C | -0,04 |
Emil Hannes | +0,60°C | +0,62°C | +0,02 |
Jón Erlingur | +0,62°C | +0,64°C | +0,04 |
Niðurstaðan fyrir árið 2013 er síðan hitafrávik upp á +0,60°C. Samkvæmt þessu hitti Emil Hannes næst niðurstöðunni og er því hér með krýndur Hnatthitaspámeistari 2013. Þar á eftir koma þeir Jón Erlingur og Sveinn Atli fast á hæla hans og að lokum rekur Höskuldur lestina. Þessi spá verður að teljast þokkaleg af okkar hálfu og þess má geta að meðaltalið af spánnum (miðað við leiðrétta spá) er 0,62°C. Það væri gaman að fá enn fleiri hnatthitaspámenn þetta árið, líka þeir sem telja að kólnun sé í nánd og jafnvel byrjuð – það væri spennandi að sjá þeirra spár til samanburðar.
Árið 2014 – vangaveltur og spá
Því næst er tími til komin að setja sig í spámanns stellingar á ný eins og undanfarin ár. Þar sem það er langt síðan að El Nino ástand í Kyrrahafinu hefur verið marktækt, það hefur yfirleitt þau áhrif að hitastig á heimsvísu hækkar, þá ætla ég að spá því að það ástand fari í gang í ár og að það muni hafa áhrif til hækkunar frá árinu 2013. Það er svo spurning hversu langan tíma af árinu það ástand gæti varað. Til að gera langa sögu stutta, þá ætla ég að spá lítilsháttar hækkun hitastigs árið 2014, frá því sem var 2013, eða um +0,04°C hærra en 2013 endaði í, sem er þá hitafrávik upp á +0,64°C fyrir árið 2014 (miðað við núverandi forsendur). Sem yrði þá 3ja heitasta ár frá upphafi mælinga árið 1880 ef litið er á gögn NASA GISS.
Við hvetjum hér með lesendur loftslag.is að spreyta sig í þessari skemmtilegu keppni – hver verður Hnatthitaspámeistari árið 2014? Spár má setja inn í athugasemdir við færsluna og mun það gilda sem skráning.
Heimildir:
NASA – NASA Finds 2013 Sustained Long-Term Climate Warming Trend
NOAA – Global Analysis – Annual 2013
Sameiginlegt skjal NASA og NOAA – 2013 Global Temperatures [PDF]
Tengt efni á loftslag.is:
- Árið 2012 skv NASA GISS, öfgahitar og hnatthitaspá meistaranna
- Árið 2011 skv NASA GISS og hnatthitaspámeistarinn
- Áhrifaþættir hinnar hnattrænu hlýnunar
- Fingrafar mannkynsins á hnattrænu hlýnunina
- Engin pása í hnattrænni hlýnun!
* Á gagnasíðu NASA GISS kemur fram hitafrávikið +0,61°C fyrir 2013- en þeir tala um +0,60°C í fréttatilkynningunni um árið, við notum það sem kemur fram í fréttatilkynningunni og í samanburðarskjalinu [PDF]. Munurinn liggur væntanlega í einhverjum tugabrotum og hugsanlegri námundun.
Þá er best að kasta fram spá fyrir 2014. Ég geri ráð fyrir því eins og aðrir að ENSO-sveiflan þróist í átt að El Nino-ástandi þegar líður á árið og því býst ég við að árið verði eitthvað hlýrra en 2013, sérstaklega seinni hluti árs. En til að fá smá spennu í þetta þá spái ég því að árið 2014 endi í +0,68°C sem yrði þá hlýjasta árið frá upphafi á NASA-GISS listanum eða 0,01° fyrir ofan metárið 2010.
Ég óska Emil til hamingju með góða spá. Ég sé að spátölur virðast hnappast í kringum metárið 2010 og mig grunar að svo muni verða – því þrátt fyrir ýmsar undarlegar fréttir þá virðist hlýnun jarðar ekki hafa hætt. Ég ætla þó að vera aðeins íhaldssamari en venjulega og reikna með að allar aðstæður verði svipaðar í ár og síðast – nema að hnattræn hlýnun um + 0,02 þokar tölunni upp. Ég miða við töluna 0,61+0,02 og þá er niðurstaða mín +0,63°C
Getið þið frætt mig um hvenær El nino var síðast í gangi? Er reiknað með að hann fari í gang á þessu ári?
Hér er síða sem virðist gefa notadrjúgar upplýsingar: http://iri.columbia.edu/climate/ENSO/currentinfo/QuickLook.html
Síðast var El Nino í kringum 2010 – fáar spár benda til að El Nino verði sterkur í ár, það er þó ekki útilokað.
Spá þessa árs:
Höski Búi: +0,63°C
Sveinn Atli: +0,64°C
Jón Erlingur: +0,66°C
Emil Hannes: +0,68°C
Að meðaltali spáum við +0,655°C frá fráviki – spennandi… en eigum við ekki að halda þessu opnu í einhvern tíma í viðbót ef einhver vill taka þátt í þessari spá?
Er t.d. enginn sem spáir hnattrænni kólnun 😉
ef vindarnir í kyrrahafinu breytast samkvæmt þessari grein, þá gæti ansi margt breyst.
http://www.newscientist.com/article/dn25015-climate-slowdown-just-wait-until-the-wind-changes.html?cmpid=RSS|NSNS|2012-GLOBAL|climate-change
Þetta er athyglisverð grein Albert – takk fyrir að benda á hana. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu árum varðandi þetta.
En það má ekki bjóða þér að taka þátt í að spá í hitastig ársins? Um að gera að fá sem flesta af okkar föstu lesendum til að taka þátt.
takk sveinn
En ég hef ekkert vit þessu. er meira hérna til að fygjast með
Ekki málið Albert – mjög gott að fylgjast með, enda um mikilvægt málefni að ræða.