Mjög jákvætt er að í Durban varð samkomulag um að þau ríki sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum hefji á ný samningaviðræður um lagalega bindandi sáttmála.* Eftir loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn fyrir tveimur árum virtust öll sund lokuð. Samningaviðræðum skal lokið fyrir 2015 en munu ekki hafa áhrif fyrr en eftir 2020, sem er of seint.
Einnig náðist samkomulag um framlengingu Kyoto-bókunarinnar en hvað það felur í sér fyrir þau ríki sem enn eiga aðild og hyggjast taka á sig skuldbindingar samkvæmt bókuninni er óljóst, Japan, Kanada og Rússland hafa nú sagt sig frá bókunni. Eftir eru Evrópa og Ástralía, Nýja Sjáland, auk þróunarríkja sem ekki taka á sig skuldbindingar líkt og bókunin kveður á um. Það er meginatriði að Kyoto-bókunin verður áfram grunnur að frekari samningagerð. Kyoto-bókunin eru einu alþjóðalögin sem í gildi eru um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.
Þessi tvö atriði eru stór plús og umfram væntingar. Evrópusambandið hrósar sigri yfir að samkomulag náðist um að gera skuli lagalega bindandi samning innan fjögurra ára. Á hinn bóginn veit enginn hvernig sá samningur mun líta út og aftur unnu Bandaríkin því ákvæði fyrirhugaðs samnings um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda munu ekki taka gildi fyrr en eftir 2020.
Bandaríkin hafa frá upphafi hafnað Kyoto-bókuninni. Vissulega undirritaði Al Gore bókunina í Kyoto árið 1997 en frá sama tíma var ljóst að Öldungadeild þingsins myndi ekki fullgilda hana. Í besta falli var bandaríska stjórnkerfið klofið á þeim tíma. Frá því að Bush tók við völdum hafa Bandaríkin alfarið hafnað þeirri nálgun, sem felst í bókuninni, að iðnríkin beri sögulega langmesta ábyrgð á losun gróðurhúsalofttegunda og þeim beri því fyrst að draga úr losun og að engar slíkar kröfur verði gerðar til þróunarríkja fyrst um sinn. Þessi nálgun er í samræmi við 2. grein Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna frá 1992 („Sameiginleg en mismunandi ábyrgð ríkja“) og varð ein meginniðurstaða 1. aðildarþings samningsaaðila í Berlín þremur árum síðar. Séð frá þessu sjónarhorni má segja að fulltrúar Bandaríkjanna hafi náð fram markmiðum sínum í Durban.
Á fyrsta fundi aðildarríkja Loftslagssamningsins eftir að Barack Obama settist að í Hvíta húsinu vakti fulltrúi Bandaríkjanna, Todd Stern mikla lukku þegar hann sagði: “We’re back.” Engu að síður hafa Bandaríkin fylgt mjög svipaðri stefnu og Bush forseti mótaði. Helsti munurinn er e.t.v. sá að Hvíta húsið reynir ekki að draga í efa niðurstöður vísindamanna um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga. Í Durban fóru fulltrúar Bandaríkjanna sér hægt en þæfðu mál og töfðu fyrir til að koma í veg fyrir nauðsynlegar aðgerðir. Hvort Obama forseti bætir ráð sitt nái hann kjöri á ný skal ósagt látið en innan umhverfisverndarhreyfingarinnar eru fáir sem meta hann mikils.
Þróunarríkin fagna sigri yfir að Kyoto-bókunin er enn í gildi, sú meginregla að iðnríkjunum beri skylda til að taka forustu um samdrátt í losun, skipti yfir í endurnýjanlega orku og að þau skuli veita fjármagn og tækniaðstoð til þróunarríkja.
Að óbreyttu stefnir í að hitastig andrúmsloftsins muni hækka um og yfir 3 gráður á Celcíus miðað við fyrir iðnbyltingu. Í Kaupmannahöfn náðist samkomulag um að halda skyldi meðalhitnun andrúmslofts jarðar innan við 2°C. Öll smá láglend eyríki telja 1,5°C hækkun vera hámark. Ella munu þau hverfa í sæ í fyrirsjáanlegri framtíð. Segja má að 2°C hækkun séu efri mörk þess sem vísindamenn telja að vistkerfi jarðar þoli með von um að ná jafnvægi á ný – eftir margar aldir. Skaðinn verður gífurlegur og nýlega kom út skýrsla Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem sýnir skýr tengsl milli hækkandi hitastigs og öfga í veðurfari.
Enn er stórt bil á milli annars vegar þess samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda sem ríki hafa þegar skuldbundið sig til að koma í verk og hins vegar þess samdráttar sem er nauðsynlegur til að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 1,5 – 2°C. Þetta bil stækkar óðum og því verður að grípa aðgerða sem allra fyrst. Sjá skematískt yfirlit hér að neðan, en þar kemur þó ekki fram hvernig súrnunun sjávar eykst í hlutfalli við hækkandi hitastig þótt fram komi að kóralrif muni deyja út í Indlandshafi við 2°C hlýnun. Eftir Durban vitum við að stefnt er að lausn málsins með lagalega bindandi samningi þar sem öll ríki verða að taka á sig skuldbindingar. Slíkt samkomulag náðist fyrst í Kyoto fyrir 14 árum síðan, það er enn í gildi en kolefnisiðnaðinum í Bandaríkjunum hefur tekist að koma í veg fyrir að nái til alls heimsins. Nú er önnur tilraun og við vitum ekki hvort tekst að ná samkomulagi í tæka tíð.
Árni Finnsson.
Smellið tvisvar á myndina til að fá hana stærri – Heimild – www.climateactiontracker.org
*Indland hafnaði reyndar hugtakinu ‘legally binding’ en féllst á málamiðlun þess efnis að nýr samningur hefði ‘legal force’.
Gestapistill eftir Emil Hannes Valgeirsson – birtist fyrst á bloggsíðu hans, Er heimurinn að hlýna eða kólna? en er hér í smávægilega uppfærðri útgáfu.
Það eru væntanlega fáir sem efast um að hlýnað hafi á jörðinni síðustu 100 ár enda sýna mælingar það svo ekki verði um villst. Þessar 0,7° gráður eða svo sem hlýnað hefur um í heiminum frá aldamótunum 1900 teljast varla vera nein katastrófa en haldi hlýnunin áfram á þessari öld með auknum hraða, gæti gamanið farið að kárna eins og margoft hefur verið varað við.
En hér eru ekki allir á sama máli, því inn á milli heyrast raddir um að loftslag á jörðinni stjórnast lítið sem ekkert af athöfnum manna – það hafi alls ekkert hlýnað undanfarin ár og framundan sé áratugalangt kuldaskeið af náttúrulegum orsökum en aðallega þá vegna minnkandi sólvirkni. Sumir hafa undanfarið jafnvel talið að kuldaskeiðið mikla væri í þann veginn að hefjast eins og þessar tilvitnanir segja til um:
„Global temperatures have suddenly returned to the same level they were in 1980 and are expected to drop much further. Given the momentum of the solar hibernation, it is now unlikely that our generation or the next one will return to the level of global warming that we have just passed through. Again, global warming has ended. It was always caused by the Sun and not mankind. The global cooling era has begun.“Space and Science Research Center, February 4, 2011
Þessi síðari tilvitnun er frá því í febrúar nú í ár eftir að hitinn hafði fallið í byrjun árs. Ekki reyndist sú kólnun langvinn. Þeir sem kallast efasemdamenn um hnatthlýnun hafa reyndar lengi bent á að mikið hitafall sé yfirvofandi eða í þann veginn að skella á. Slíkt hefur hingað til látið á sér standa eða frestast, því eftir hvert bakslag hefur hitinn náð sér á strik svo um munar. Myndir hér að neðan sýnir hitaþróun jarðar frá 1979 samkvæmt gervitunglagögnum UAH:
Sá þáttur sem hefur einna mest skammtímaáhrif á hitafar jarðar en ENSO sveiflan í Kyrrahafi, sem segir til um hvort hinn hlýji El Nino eða hin kalda La Nina ráði ríkjum hverju sinni en mestu áhrifin eru af völdum sterks El Nino árið 1998 enda var það ár það hlýjasta samkvæmt þessum gögnum. Frá 1950 hefur þróunin verið þannig (rautt = El Nino / blátt = La Nina):
Ef við setjum þessar tvær myndir saman fyrir árin 1979-2011 þannig að ártölin stemmi, þá sést vel hvað átt er við. Hitaþróunin eltir ENSO sveiflurnar en er þó oftast nokkrum mánuðum á eftir. Eina tímabilið sem passar illa er 1992-1993 en það er vegna kælingar af völdum stóra eldgossins í Pinatupo á Filippseyjum:
Í þessum samanburði kemur það í ljós að hitaferill hefur smám saman verið að lyfta sér upp fyrir ENSO sveiflurnar eins og ég stilli þessu upp. Með öðrum orðum: Það er undirliggjandi hlýnun í gangi sem ekki verður skýrð með tíðni El Nino og La Nina. Á síðasta ári var uppi kalt La Nina ástand (lengst til hægri) sem dugði þó ekki nema til þess að lækka hitann rétt niður fyrir meðallag en stóð stutt. Nú þegar hlutlaust ENSO-ástand er komið á á ný hefur hitinn rokið aftur upp (+0,37°) og það langt yfir meðallag. Til að ná slíkri hæð á árunum fyrir 1995 hefði hinsvegar þurft eindregið El Nino ástand.
Annað mikilvægt er að hitaþróun síðustu ára virðist ekki vera í samræmi við þá minnkandi sólvirkni sem verið hefur síðustu ár – allavega ekki enn sem komið er. Vísbendingar eru um langvararandi sólardeyfð á næstu áratugum en hvaða áhrif það mun hafa hafa veit ég ekkert um. Allavega virðumst við ennþá vera í ferli hlýnunnar sem erfitt er að útskýra án þess að íhuga þann möguleika að eitthvað gæti kannski komið við sögu sem ef til vill hefur eitthvað með mannkynið að gera.
Það er oft beðið með dálítilli eftirvæntingu eftir uppgjörum frá NASA-GISS stofnuninni sem er einn þeirra aðila sem meta hnattrænt hitafar. Nú hafa þeir reiknað út að meðalhitinn á jörðinni á liðnu ári hafi verið örlítið fyrir ofan hitann árið 2005 en munurinn það lítill að árin úrskurðast jafnhlý og eru þetta því tvö hlýjustu árin sem mælst hafa á jörðinni samkvæmt þeirra aðferðarfræði. Það þarf ekki að skoða myndina lengi til að sjá að ekkert lát er á hlýnun jarðar og ekki bólar mikið á þeirri stöðnun sem stundum er sögð vera á hlýnuninni.
Eins og önnur metár í gegnum tíðina fékk árið 2010 hjálp frá Kyrrahafsfyrirbærinu El Ninjo sem nú hefur snúist upp í andhverfu sína La Niña og því verður 2011 væntanlega heldur kaldara en nýliðið ár og ekkert óeðlilegt við það. Verst er þó með flóðin í Ástralíu sem núverandi ástand veldur.
Það þykir oft í tísku að efast stórlega um aðferðafræði NASA-GASA (Goddard Institute for Space Studies) en þeir hafa á síðari árum fengið út aðeins meiri hitaaukningu á jörðinni en aðrir rannsóknarhópar í sama bransa. Það sem veldur þessu lítilsháttar misræmi er sennilega það að NASA-GISS beitir þeirri aðferð að fylla inní eyður þar sem veðurathuganir eru af skornum skammti með því að notfæra sér gögn frá nálægustu stöðum. Þannig taka þeir t.d. með í dæmið nyrstu pólasvæðin sem hreinlega er sleppt í öðrum gagnaröðum eftir því sem ég kemst næst. Vegna hlýnunar og rýrnunar hafíssins á Norður-Íshafinu er niðurstaða NASA-GISS því ekki óeðlileg. Allar svona mælingar og mat er þó auðvitað háð einhverri óvissu en ætti þó ekki að breyta heildardæminu að ráði.
Þannig lítur hitadreifing ársins annars út. Eins og sést þá var mesta hitafrávikið á norðurslóðum þar sem fáir búa og því fáir til frásagnar.
Myndir eru frá NASA-GISS en fréttatilkynningu frá þeim má sjá hér:
Þessi pistill, eftir Mikael Lind, birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 2. desember.
Mikael Lind
Sendimenn frá fleiri en 190 löndum hafa komið saman í Cancun í Mexíkó til að ræða leiðir til að draga úr áhrifum frá hlýnun jarðar og er góð ástæða til. Árið 2010 er hið heitasta á plánetu okkar síðan mælingar hófust og í fréttunum getum við fylgst með afleiðingunum; skógareldar í Rússlandi sem kæfa íbúa Moskvu og flóð í Pakistan sem setja einn fjórða af landinu í kaf.
Eins og blaðamaðurinn Johann Hari á The Independent bendir á þá er meiri ástæða að hræðast náttúruhamfarir en þær hagfræðihamfarir sem tröllriðið hafa heiminum undanfarið því það er tvennt ólíkt að bjarga bönkunum frá gjaldþroti og að bjarga náttúrunni frá eyðileggingu.
Virtustu loftslagssérfræðingar heims hafa bent á að vatnsyfirborð jarðar gæti hækkað um u.þ.b. einn til einn og hálfan metra á þessari öld. Ef þessar spár reynast réttar mundi hafið kaffæra London, Bangkok, Feneyjar, Sjanghæ og Kairó. Rannsókn á plöntusvifum sýndi nýlega fram á að 40% þeirra hafa drepist síðan 1950 vegna hlýnunar hafsins. Þessi svif framleiða helminginn af súrefni jarðar og drekka í sig koltvísýringa sem hafa annars hlýnandi áhrif á jörðina.
Eins og Noam Chomsky benti á í myndfyrirlestri sínum í Háskólabíói fyrir stuttu er það þannig að þrátt fyrir framsetningu margra fjölmiðla er meginmál umræðunnar um hlýnun jarðar varla eitthvert rifrildi á milli þeirra fræðimanna sem trúa að útblástur gróðurhúsagasa hafi hlýnandi áhrif á jörðina og þeirra sem trúa því ekki. Mjög fáir vísindamenn afneita að hlýnun jarðar er af manna völdum og sums staðar virðist lobbýismi olíufyrirtækja vera partur af spilinu hjá þeim sem þverneita að viðurkenna vandann. Alvöru umræðan í vísindaheiminum á sér stað á milli loftslagsfræðimanna um hversu slæmar afleiðingarnar verða. Það að það verði afleiðingar er þegar álitið sem staðreynd.
Þrátt fyrir að vera lítið land ber Ísland ábyrgð ásamt öllum öðrum löndum í heiminum. Það er stundum talað um þá sem vilja lifa “grænum lífsstíl” og þá sem vilja það ekki. En ég tel það líklegt að ef ástandið fari að versna samkvæmt spám fræðimanna þá mun varla vera um frjálst val að ræða miklu lengur. Er ekki það að passa vel upp á umhverfið frekar skylda gagnvart heiminum og sérstaklega börnum okkar sem erfa hann? Þynnkuna eftir náttúruhamfarir sem rekja má til kæruleysis í loftslagsmálum verður mun erfiðara að koma lagi á en bankakreppuna vegna kæruleysis stjórnmálamanna.
Það er margt sem mátti betur fara á Íslandi og til að verða fyrirmyndarland verður að stefna hærra og ekki slaka á markmiðinu. Þar sem Ísland er mikil bílaþjóð verður að vera auðveldara fyrir Íslendinga að keyra á grænu eldsneyti eða rafmagni. Það verður einnig að auðvelda aðgengi fjölgandi hóps hjólafólks með því að byggja fleiri hjólabrautir. Í Reykjavík og stærri borgum vil ég sjá fleiri vistgötur og það þarf að hvetja fólk til þess að nota bílinn sjaldnar í miðborginni. (Strikið í Kaupmannahöfn er vel heppnuð göngugata; getum við ekki reynt að fylgja þessu dæmi eftir?) Æskilegt væri að framleiða eins mikið hér á landi og hægt er til að koma í veg fyrir mengandi innflutning. Fyrirtækin verða að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum í þróun græns hagkerfis.
Ef horft er til framtíðar verður að skoða möguleika eins og að byggja lest frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar. Þannig mætti draga verulega úr mengun og einnig einfalda fyrir bæði Íslendinga og ferðamenn að ferðast á milli þessara staða á þægilegan hátt. Þetta og annað hefur verið rætt og tek ég því fagnandi, sem og frumlegum hugmyndum um notkun jarðvarma í stór gróðurhús varpað fram af Björk Guðmundsdóttur, John Perkins og fleiri. Þessi umræða verður að halda áfram og breiða úr sér. Setjum Ísland í fremstu röð grænna samfélaga!
Lengi vel stóð maður í þeirri meiningu að hvert ísaldarskeið væri samfelld kuldaskeið með sínum ógurlegu jökulskjöldum og freðinni jörð langt suðureftir löndum. Fyrstu hugmyndir vísindamanna á sínum tíma hafa sjálfsagt verið eitthvað svipaðar uns mönnum lærðist að innan hvers jökulskeiðs væru vísbendingar um hlýrri tímabil með mun minni jökulþekju. Það var svo ekki fyrr en eftir borkjarnarannsóknir á Grænlandsísnum að það kom almennilega í ljós hversu óstöðugt loftslag mun í raun hafa verið á síðustu ísöld og hvernig jöklar fóru ýmist hraðminnkandi eða stækkandi með tilheyrandi áhrifum á hæð sjávarborð auk annarra áhrifa á náttúrufar almennt. Sérstaklega hér við Norður-Atlantshaf. Þetta er ólíkt hlýskeiðinu síðustu 10 þúsund árin þar sem loftslag hefur verið mjög stöðugt, en það hefur örugglega haft sitt að segja um velgengni þeirrar dýrategundar sem við teljumst til.
Loftslag síðustu 100.000 ár samkvæmt borkjarnarannsóknum á Grænlandsjökli. (Rauðu punktarnir tengjast ekki efni færslunnar)
Þessi óstöðugleiki og loftslagssveiflur innan síðasta jökulskeiðs virðast í fyrstu hafa verið nokkur ráðgáta meðal vísindamanna því þær eiga ekki samsvörun í sveiflum í inngeislun sólar vegna breytilegs möndulhalla jarðar og fleiri atriða sem oftast eru kallaðar Milankovich-sveiflur, sem þó eru í stærra samhengi taldar höfuðorsök lengri jökulskeiða og hlýskeiða.
Vitað hefur verið að sjávarstraumar við Norður-Atlantshaf geta verið óstöðugir og er þá Golfstraumurinn gjarnan nefndur því án hans væri varla byggilegt á okkar slóðum. Seltujafnvægi sjávar spilar þarna inní og talið að mikil aukning af ferskvatni í norðurhöfin geti stöðvað streymi hlýsjávar hingað norður eins og sumir hafa óttast að gæti gerst með aukinni jökulbráðnun í náinni framtíð. Slík aukning af ferskvatni er þó lítil og hægfara miðað við þá atburði sem áttu sér gjarnan stað þegar jöklar voru að hörfa og risastór jökulvötn ruddu sér leið til út í Atlantshafið ýmist frá Evrópu eða Norður-Ameríku. Þetta atriði þykir geta skýrt ýmislegt og þá sérstaklega það mikla bakslag sem skyndilega varð undir lok síðasta jökulskeiðs fyrir 12.800 árum (Yngra-Dryas) sem tók við af stuttu tímabili sem var nálega eins og hlýtt og hefur verið á nútíma.
Kenningin um áhrif Beringssundsins
Í upphafi þessa árs sá ég athyglisverða kenningu um að stóri örlagavaldurinn í ógnarjafnvægi Norður-Atlantshafsins á síðasta jökulskeiði væri fólgin í hinu þrönga Beringssundi á milli Alaska og Síberíu og ef sú kenning er rétt þykir það vera gott dæmi um hvað lítilvæg atriði geta haft mikið að segja. Þessi kenning er annars fengin útfrá fjölþjóðlegri rannsókn á vegum National Center for Atmospheric Research (NCAR) og gengur út á eftirfarandi atriði:
Þegar loftslag kólnar vegna sveiflna á sporbaug jarðar um sólu, vaxa jöklar á norðurhveli og þar með lækkar sjávarborð nógu mikið til að landbrú myndast við Beringssund milli Asíu og Norður-Ameríku. Kyrrahafssjór sem er í eðli sínu seltulítill streymir þá ekki lengur inn Beringssund og áfram inn í Atlantshafið úr norðri eins og venjan er þegar Beringssund er opið. Við þetta eykst seltustig Norður-Atlantshafs þannig að þungur selturíkur sjór sekkur í ríkara mæli hér í norðurhöfum og eykur á kraft þeirra sjávarhringrása sem dæla suðlægum hlýsjónum norður. Með aukningu á hlýsjó í Norður-Atlantshafi, hlýnar loftslag nógu mikið til að jökulbreiður taka að bráðna á ný. Þótt Kyrrahafið kólni á móti skiptir það ekki máli því jökulbreiður eru ekki þar umhverfis.
Með bráðnandi jökulhvelum hækkar sjávarborð nægilega til að sjór streymir á ný gegnum Beringssund. Seltuminni sjór berst á ný inn Atlantshafið úr norðri og veikir gangverk hlýsjávarstrauma þannig að kólnun tekur við á ný. Jöklarnir taka því að vaxa aftur og að sama skapi lækkar sjávarborð sem endar á því að Beringssundið lokast og ferlið endurtekur sig á ný.
Eftir því sem brautarganga jarðar um sólu varð óhagstæðari mögnuðust harðind síðasta ísaldarskeiðs smám saman og fyrir 34 þúsund árum skipti ekki lengur máli þótt Beringssundið væri lokað, jöklarnir höfðu að lokum náð yfirhöndinni og urðu stærstir fyrir um 25-15 þúsund árum. Eftir mikla hlýnun í framhaldi af því og stóra Dryas-bakslagið hefur hlýskeið ríkt hér á jörð. Það hlýskeið á að öllum líkindum tilveru sína að þakka hagstæðri brautargöngu jarðar um sól með aukinni sólgeislun á norðurhveli að sumarlagi og skapar þær aðstæður að ekki skiptir lengur máli þótt Beringssundið sé opið því sá Kyrrahafs-ættaði og seltusnauði sjór sem nú berst til Atlantshafsins úr norðri, nægir ekki til þess að koma á ísaldarástandi.
– – – – –
Þannig hljóma þessar kenningar samkvæmt því sem ég skil best og með þeim fyrirvara að rétt sé eftir haft af frétt á ScienceDaily-vefnum sem fjallaði um þetta Beringssundsmál þann 11. janúar á þessu ári.
Sjá hér: http://www.sciencedaily.com/releases/2010/01/100110151325.htm
Þegar líður að árslokum er áhugavert að velta fyrir sér hvort árið sem er að líða var heitt í hnattrænu tilliti, og hvar það raðist á listann um hlýjustu ár. Frá aldamótum hafa flest árin verið á top-tíu listanum, og reyndar er eina árið á listanum sem er frá síðustu öld árið 1998. – Eins og lesendum Loftslag.is er kunnugt eru til nokkrar ólíkar samantektir á meðalhita (t.d. NCDC, GISS, CRU) og þeim ber ekki alveg saman um röðina. Rætt er um mismun gagnasafna í greininni „Hætti hlýnun jarðar eftir 1998?“, og verður sú umfjöllun ekki endurtekin hér. Hér verður einfaldlega notast við NCDC gagnasafnið eins gert var í pistlinum “Að sannreyna staðhæfingar” ásamt tölfræðiforritinu R til þess að spá í hvar árið 2010 lendi í röðinni. Það er ólíklegt að það muni mörgum sætum ef notuð eru önnur gagnasöfn.
Pistillinn er skrifaður fyrir þá sem vilja prófa sjálfir að greina þessi gögn og því er farið nokkuð ýtarlega yfir notkun tölfræðiforritsins við greininguna. Þeir sem minni áhuga hafa á notkun R ættu hins vegar að geta lesið pistilinn sér til gagns með því að hlaupa yfir R-skipanirnar en skoða myndina og skýringar sem henni fylgja.
Í upphafi hvers árs eru oft vangaveltur um það hvort árið verði hlýtt. Árið 2007 spáðu t.d. loftslagsvísindamenn í Bretlandi því að árið yrði metár, (sjá 2007 to be ‘warmest on record’) enda töldu þeir að öflugur El Nino (víðtæk yfirborðshlýnun í Kyrrahafi) myndi bæta við þá hlýnun sem þegar er orðin vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. En umræddur El Nino entist stutt, og hafði snúist í andhverfu sýna síðsumars. Fyrir vikið varð 2007 ekkert metár, það 6. hlýjasta fram að því ef miðað er við tölur NCDC. Andhverfa litla drengsins (El Nino) er auðvita litla stúlkan (La Nina) en þá er víðtæk yfirborðskólnun í Kyrrahafi. Áhrif El Nino og La Nina á hnattrænan meðalhita eru lesendum loftslag.is einnig kunnug, um þau fjallað um þau snemma árs þegar velt var vöngum yfir því hvort árið í ár yrði hlýjasta árið til þessa (Hitahorfur fyrir árið 2010).
Sem fyrr hefjum við skoðunina með því að nota R til að ná í gögn frá NCDC. (Sjá leiðbeiningar um notkun R hér, og upplýsingar um gögnin í FAQ NCDC). Þetta er gert með skipuninni:
Þessi skipun les inn hnattræn mánaðarhitafrávik frá 1881 (hita hvers mánaðar frá meðaltali viðkomandi mánaðar á 20. öldinni). Mynd af hitaröðinni fylgdi í fyrri pistli, en nú skulum við skoða 30 ára tímabil sem byrjar í október 1980 og lýkur í september 2010. Það er engin sérstök ástæða þess að velja 30 ára tímabil (nema að veðurfarsfræðin notar oft 30 ár sem viðmið), en þegar þetta er skrifað er september 2010 síðasti mánuðurinn í NCDC gagnasafninu. Til að einfalda okkur vinnuna skulum við teikna hvern mánuð fyrir sig, ásamt meðaltali 12 síðustu mánaða, og merkja sérstaklega 12 mánaða meðaltalið fyrir hvern desember (sem er ársmeðaltalið).
Við byrjum á því að reikna “hlaupandi” meðaltal 12 síðustu mánaða. Það er gert með R skipuninni filter
r12fil=filter(ncdc$hiti,rep(1,12)/12,sides=1)
Fyrsti desember sem við höfum áhuga á er árið 1980. Það er 15. mánuðurinn í ncdc röðinni. Eftir það höfum við áhuga á 12 hverjum mánuði. Við búum til breytu sem vísar á þá desember mánuði sem við höfum áhuga á
iAr=seq(15,length(ncdc$hiti),by=12)
Áður en við teiknum gögnin er gott að gera tímaás til að nota á myndinni. Það má gera með skipuninni
tax=ISOdate(ncdc$ar, ncdc$man, 15)
Við teiknum nú upp hitagögnin, 12 mánaða meðaltölin og ársmeðaltölin
Niðurstöðuna má sjá á mynd 1. Opnu hringirnir sýna hvern mánuð. Eins og við er að búast sýnir myndin sveiflukennda hlýnun síðustu þrjá áratugi. Hlýjasti mánuðurinn (að sjálfsögðu þegar miðað er við meðalhita viðkomandi mánaðar á viðmiðunartímabili á 20. öld) er janúar árið 1998 og næst hlýjastur var febrúar 2007. El Nino á sinn þátt í því hversu hlýir þeir voru.
Mynd 1.
Grænu punktarnir sýna árs meðaltölin, og er árið 2005 hlýjast, en árið 1998 er næst hlýjast. Nánari athugun leiðir í ljós að munurinn á milli þessara tveggja ára er einungis 0.02°C sem er vel innan við eðlileg óvissumörk ársmeðaltala. Í NCDC gögnunum má því segja að munurinn milli þeirra sé ekki tölfræðilega marktækur.
Rauði ferillinn sýnir hinsvegar 12 mánaða hitameðaltölin, og þau sýna að hlýjustu 12 mánaða tímabilin eru frá september 1997 til ágúst 1998, og frá ágúst 2009 til júlí 2010 (munur þessara tveggja er 0.001°). Eins og áður sagði er smávægilegur munur milli gagnasafna og þannig er 08/2009 – 07/2010 hlýjasta tólf mánaða tímabilið í gagnasafnin NASA/GISS (sjá Heitustu 12 mánuðir síðan mælingar hófust).
Hlýindin framan af árinu skýrast af hluta til af El Nino sem lauk á vordögum. Það er merkilegt að hlýindin 1998 eru samfara öflugasta El Nino sögunnar, meðan nýliðin hlýindi eru samfara tiltölulega veikum El Nino. Þetta ætti að vera umhugsunarefni fyrir þá sem héldu því fram að hlýnun jarðar hefði stöðvast 1998.
Nú, spurningin sem þessi pistill átti að ræða er hvar í röðinni lendir árið 2010 ?
Þó við séum búin að reikna ársmeðaltölin með 12 mánaða meðaltölunum, er hentugt að gera það aftur með tapply skipuninni, sem flokkar gögn í töflu, og notar eitthvað fall á þau. Við viljum flokka hitann eftir ári, og beita meðaltalsfalli á það. Skipunin sem við notum er því
tapply(ncdc$hiti,ncdc$ar,mean)
En í raun höfum við ekki áhuga á þessum 30 ársmeðaltölum, heldur einungis10 hlýjustu árunum. Við röðum því niðurstöðu tapply í minnkandi röð og hirðum 11 fyrstu gildin.
Efst á listanum er 2010, en það árið er ekki liðið svo við lítum framhjá toppsætinu. Næst eru 2005, 1998, 2003 o.s.frv. Það er athyglisvert að munur hlýjasta ársins og næstu 8 á listanum er innan við 0.1°C.
Við getum nú lagt mat á það hversu hlýir október til desember 2010 þurfa að vera svo árið verði hlýrra en árið 2005. Hitafrávik frá janúar til og með september 2010 eru
Ef þetta yrði raunin yrði árið í 2. sæti hjá NCDC, á milli 2005 og 1998. (Það nægir auðvitað að hitafrávikin séu að meðaltali jöfn 0.49°C þau þurfa ekki öll að vera það nákvæmlega)
En er það líklegt að þetta verði raunin? Kólnunin frá því í vor stafar af stórum hluta af La Nina sem verið hefur að þróast síðustu mánuði. Á vefsíðu CPC má finna upplýsingar um þróun El Nino/La Nina hverju sinni. Í nýjustu greiningu þeirra kemur fram að LaNina skilyrði séu nú í Kyrrahafi, og gert er ráð fyrir að þau haldist amk. fram á vor 2011. Frekar en að hitafrávikin haldist að meðaltali jöfn fráviki september 2010 er vel hugsanlegt að kólnun síðustu mánaða haldi áfram. Sú kólnun hefur að jafnaði verið um einn tuttugasti úr gráðu á mánuði (síðan í mars) og haldi svo áfram verður ársmeðaltalið:
Ef þetta gengur eftir verður árið 2010 það 4. hlýjasta, á milli 2002 og 2003.
En hvað þarf að vera hlýtt síðustu þrjá mánuði 2010 til að árið í ár verði metár? Ekki mikið. Það nægir að meðalhitafrávik þeirra verði 0.53°C til að þetta verði hlýjasta árið.
mean(c(ncdc$hiti[352:360],rep(0.53,3)))
0.616525
En hversu líklegt er að síðustu þrír mánuðir ársins verði þetta hlýir?
Þrátt fyrir áframhaldandi LaNina er það ekki útilokað. Það þarf nefnilega ekki mikla hlýnun, því næstu þrír mánuðir þurfa að meðaltali einugis að vera 0.04°C hlýrri en september til að 2010 nái toppsætinu. Þróun síðustu mánaða þýðir samt að er líklegra að næstu mánuðir verði kaldir .
Hitaröðin hefur nefnilega nokkurt “minni” í þeim skilningi að ef einn mánuður er óvenjuhlýr, þá er líklegra að sá næsti sé líka hlýr. Og sama gildir fyrir óvenju kalda mánuði. Þetta minni má meta með því að reikna s.k. sjálfylgni hitaraðarinnar (að teknu tilliti til stöðugrar hlýnunnar) og það er ekki erfitt gera það í R. Það er hinsvegar of langt mál að útskýra hvernig túlka eigi slíka útreikninga til þess að rekja þá hér. Áhugasömum er bennt á að skoða tímaraðapakkann í R (sérstaklega auto.arima og forecast föllin).
Við getum hinsvegar komist áleiðis með að svara spurningunni hvort líklegt sé að þrír síðustu mánuðir ársins séu meira en 0.04° C hlýrri en september með því að skoða hitabreytingar á milli mánaða. Þær eru gefnar með
breytingar=diff(ncdc$hiti)
Við getum nú valið af handahófi eina tölu úr þessari röð og notað hana sem ágiskun okkar fyrir hitabreytinguna frá september til október. Svo veljum við aðra tölu fyrir breytinguna frá október til nóvember og loks þá þriðju fyrir nóvember til desember. Meðaltal þessar þriggja talna er meðalbreytingin síðustu þrjá mánuði ársins. Til að kanna líkur þess að þetta meðaltal sé yfir 0.04°C má endurtaka leikinn 1000 sinnum og skoða dreifingu meðalbreytinga. Í R notar maður skipunina sample til að velja mánuð af handahófi og mean(sample(breytingar,3)) tekur meðaltal þriggja talna sem valdar eru af handahófi. Við búum til Test vigur til að geyma niðurstöðu hverrar endurtekningar og notum for lykkju til að endurtaka leikinn 1000 sinnum. Í lokin finnum við líkindin með því að telja hversu oft niðurstaðan er yfir 0.04°C (hversu oft mánuðurnir þrír eru að meðaltali 0.04°C hlýrri en september). Tilraunin er því eftirfarandi R skipanir:
Test=rep(0,1000)
for (i in c(1:1000)) {Test[i]=mean(sample(breytingar,3))}
likur=sum(Test >=0.04)/1000
Þetta gefur líkur á bilinu 22 – 26%. Þar sem sample dregur tölur af handahófi úr breytingaröðinni, er flökt á líkunum ef tilraunin er endurtekin (fyrir þá sem hafa áhuga er flöktið staðaldreift, með meðaltal 24% og 1.4% staðalfrávik).
Sambærileg tilraun þar sem spurt er hverjar séu líkurnar á því að meðaltal hitabreytinga síðustu þriggja mánaða ársins sé stærri en núll (sem samkvæmt ofanskráðu nægir til að tryggja árinu amk. 2. sætið) gefur líkur á bilinu 46 – 50%.
Loks má spurja hverjar séu líkurnar á að hitabreytingar þriggja síðustu mánaða ársins séu að meðaltali stærri en -0.05°C (sem samkvæmt ofanskráðu tryggir árinu amk. 4 sætið). Svarið við því reynist 79 – 83% líkur.
Niðurstaða þessarar leikfimi er því sú að um fjórðungs líkur eru á að árið verði það hlýjasta, það eru um helmings líkur á að það verði í 1. – 2. sæti og um 4/5 líkur á að það verði í 1. – 4. sæti.
Hér þarf auðvitað að setja allskyns fyrirvara.
Í fyrsta lagi þá eru hér notaðar breytingar milli tveggja samliggjandi mánaða. Ef hitabreytingar tvo eða þrjá mánuði fram í tímann hafa aðra dreifingu, gefur þetta ranga niðurstöðu. Í raun ætti að notast við eins, tveggja og þriggja mánaða breytingu (eins fyrir sept til okt, tveggja fyrir sept til nóv, og þriggja fyrir sept til des). Því er auðveldlega kippt í liðinn með því að reikna breytingar fyrir mismunandi seinkun:
for (i in c(1:1000)) {
Test[i]= mean(c(sample(breytingar1,1),
sample(breytingar2,1),
sample(breytingar3,1))) }
Þetta breytir niðurstöðunum merkilega lítið. Líkurnar á 1. sæti aukast lítillega (um 3 – 4%) aðrar tölur hreyfast ekki mikið.
Í öðru lagi tekur tilraunin hér að ofan ónægt tillit til sjálfylgni í hitabreytingum milli mánaða. Hægt er að gera álíka tilraun og hér að ofan, nema í stað þess að velja þrjú gildi af handahófi er valinn einn mánuður af handahófi, og meðaltal tekið af hitabreytingu þess og næstu tveggja mánaða. Ókosturinn við þessa aðferð er að ekki er hægt að gera tilraunina 1000 sinnum eins og hér að framan, því á 30 ára tímabili eru einungis 356 mismunandi tímabil 3 samliggjandi mánaða, og einungis um 119 tímabil sem skerast ekki. Fyrir vikið verður meira flökt á niðurstöðum.
Test=rep(0,100)
N=length(breytingar) – 3
for (i in c(1:100)) {
pos=sample(c(1:N),1)
Test[i]=mean(c(breytingar1[pos],breytingar2[pos],breytingar3[pos])) }
Þessar tilraunir hækka líkurnar á fyrsta sæti aftur lítillega upp í 30%. Líkurnar á því að árið verði í efstu fjórum sætum lækka lítillega og verða 75%. Líkur á 1. – 2. sæti breytast lítið.
Í þriðja lagi má gagnrýna tilraunina á þeim forsendum að hér séu notuð meðalhitafrávik án þess að leiðrétt sé fyrir hlýnun jarðar, þ.e. hlýnun sé innbyggð í tilraunina. Þetta er auðvelt að laga með því að gera tilraunina fyrir frávik frá línulegri aðfellu að gögnunum. Tilraunir með slík frávik sýna að líkindin lækka lítillega (um 2 – 3%) en ekki nægilega til að kollfella niðurstöðuna hér að framan.
Loks má einskorða útreikningana við La Nina tímabil, en slíkt breytir niðurstöðum ekki verulega.
Öll þessi leikfimi skilar okkur þeirri niðurstöðu að það er ekki óhugsandi að árið verði það hlýjasta (rúmlega fjórðungs líkur), það eru um helmingslíkur að það verði í 1. – 2. sæti og verulegar líkur (7/10) á að það verði meðal efstu fjögurra sæta. Það má deila um hvort gagn sé af þessari vitneskju, en það er önnur saga.
Þó ótrúlegt megi virðast er oft meiri óvissa í veðurspám frá degi til dags í hitabeltinu en á miðlægum breiddargráðum bæði á norður og suðurhveli jarðar. Í hitabeltinu nærri miðbaug þykir veður nú engu að síður vera frekar einsleitt. Sé maður staddur á tilteknum stað í hitabeltinu má segja að líkur á miklum síðdegisskúrum séu töluverðar, en þó gerir suma dagana skúri, en aðra ekki. Eins getur stundum ringt fyrri hluta dags og aðra daga um og eftir sólsetur. Oftast fylgja eldingar, en þó ekki alltaf. Lengst af yptu veðurfræðingar öxlum og sögðu að það væri háð tilviljunum hvort og hvenær dagsins himnarnir hvolfdu úr sér nærri miðbaug með sól í hvirfilpunkti þar sem lóðstreymi loftsins er ráðandi fyrir veðrið.
Á miðlægum breiddargráðum, á norðurhveli jarðar á milli 30°N.br og norður fyrir 70° eru stýriþættir veðursins, hinar löngu bylgjur í háloftunum sem ferðast frá vestri til austurs umhverfis jörðina. Þetta eru hinar svokölluðu Rossby-bylgjur með bylgjulengd upp á hundruðir eða þúsundir km. Þær stýra veðrinu nærri jörðu með minni bylgjum, þ.e. þrýstikerfum, lægðum og hæðum. Málið er að á síðari tímum eru þessar löngu bylgjur og þrýstikerfin þar með, betur spáð í reiknilíkönunum, heldur en veðrið í hitabeltinu. Það má orða þetta þannig að lægð sem myndast yfir N-Ameríku , vex yfir Atlanshafi og endar hér við land sjö dögum seinna. Þá er úrkoma kuldaskila lægðarinnar auðspáð, heldur en skúraveðri í Gambíu í V-Afríku, svo dæmi sé tekið.
Rossbybylgjur eru lengstu bylgjur í hreyfingu lofthjúps umhverfis norður- og suðurhvel jarðar. Þær hreyfast frá austri til vesturs og kjarni þeirra er hátt í veðrahvolfi, 8 til 12 km hæð. Sveifla hverrar bylgju getur vaxið með tíma eins og myndir (a)- (c) sýna.
Árið 1971 birtu tveir vísindamenn niðurstöður sínar, sem í fyrstu létu lítið yfir sér. Þetta voru þeir Roland Madden og Paul Julian. Þeir höfðu skoðað loftþrýstigögn og meðaltal háloftavinda um nokkurt árabil yfir SA-Asíu, nánar tiltekið á milli Canton(3°S) og í Singapore (1°N). Háttbundnar sveiflur í þrýstingi og vindi á 40-50 daga fresti voru greinilegar. Þessi uppgötvun þeirra félaga fékk litla athygli í fyrstu, en þegar El-Nino gerði vart við sig með áþreifanlegum hætti 1982-1983 hlutu rannsóknir sem beindust að lágtíðnisveiflum í hitabeltinu aukna og endurnýjaða athygli. Hugtakið Madden-Julian sveiflan (MJO) fékk þá þýðingu sem mikilvæg breyta í veðurlagi hitabeltisins, einkum þó á austurhelmingi jarðar ( frá 0-lengdarbaugunum um Greenwich austur að daglínu í Kyrrahafinu.) Þessi sveifla þykir skýra ágætlega stóran hluta þess breytileika sem fyrir finnst í veðri hitabeltisins á tímakvarða daga og vikna.
Madden-Julian sveiflan á svokölluðu Hovmöller-riti. Hún ferðast með hraðanum 5-10 m/s til austurs. Á lóðrétta ásnum er tími og efst dagurinn 28. sept. og neðst 28. mars. Á lárétta ásnum eru lengdargráðurnar frá 0° til austur að 180°E. Einingin er frávik frá meðaltali langbylgjugeislunar í W/m2 mælt með gervitungli.
MJO hefur þýðingu fyrir vind, skýjafar, úrkomu og yfirborðshita sjávar. Breytileikinn kemur m.a. fram í sveiflum í útgeislun jaðrar sem skapast aftur af myndun skúraskýja á hverjum stað. Ef við staðsetjum okkur við 0° nærri miðbaug seint í nóvember, sjáum við á meðfylgjandi Hovmöllerriti að frávikið ferðast í austurátt og er komið nærri daglínu, 20 þús km austar, um miðjan janúar.
Nú orðið þekkja menn ágætlega Madden-Julian veðursveifluna, en helsta óvissan kemur fram í hraða hennar austur á bóginn. Tímaspönnin er nú álitin meiri, en fyrstu rannsóknir gáfu til kynna eða 30-60 dagar. Áður en skýrt er frekar hvernig MJO hefur áhrif á veður og þar með spáhæfni í vestanvindaveltinu þar sem Rossby-bylgjurnar ráða ríkjum er rétt að skýra betur með hjálp einfaldaðrar skýringarmyndar hvað á sér í raun stað þarna suðurfrá.
Ráðandi veðurþættir í MJO. Sjá skýringar í texta.
Nú vilja menn kanna í þaula hvort og þá hvernig Julian-Madden sveiflan hefur áhrif á veðurlag á norðurslóðum þar sem Rossby bylgjurnar og vestanvindarnir í háloftunum ráða ríkjum. Með keyrslu margvíslegra líkana og tölfræðilegum samanburði hafa vísindamenn komist að því að uppstreymissvæðin við miðbaug geta virkað eins og öflug vifta á Rossby-bylgjurnar norðar. Ekki nóg með það heldur þykjast menn einnig hafa fundið út með nokkurri vissi að sveifla MJO sem hafi átta fasa eða andlit. Sumir þessara fasa leiða til ákveðins veðurlags eða ríkjandi lægðagangs t.a.m. við Atlantshaf nokkru síðar.
Raunveruleg og meðvituð tenging á milli kerfa getur aukið spáhæfni veðurspáa til lengri tíma og sá tími er liðinn að líta á veðurfar hitbeltis sem einangrað fyrirbæri ótengdu því sem á sér stað á norðurslóðum (eða á suðurhvelinu).
Þannig getur aukið uppstreymi lofts (fasi nr. 3 og 4 í MJO) við norðvestur Ástralíu og Indónesíu augljóslega haft þau áhrif nokkrum dögum seinna að styrkja vestanvindinn yfir Íslandi og hér suðurundan á Atlantshafinu. Dýpri lægðir með úrkomu hér við land má því samkvæmt þessu að einhverju leyti rekja til þess sem er í gangi í veðrinu í hitabeltinu hinu meginn á hnettinum nokkru áður !
Hinir átta fasar eða andlit MJO við miðbaug. Þeir endurtaka sig nokkuð háttbundið á 30-60 daga fresti.
Einhverjir kunna að segja að þessi röksemdarfærsla sé eins og hvert annað bull. En það verður stöðugt ljósara að orka í veðurkerfum sem á uppruna sinn á fjarlægum slóðum hefur talsvert meiri áhrif á veðurlagið en marga grunar. Hér er átt við veðurlag eða breytileika frá dögum til vikna í veðrinu. Veðurfarið sjálft, þ.e. meðaltal yfir lengri tíma sjórnast af öðrum og nærtækari þáttum s.s. sjávarhitanum umhverfis landið og lengri tíma sveiflum í eðlisástandi sjávar og hafíss hér við land.
Það er mjög áhugavert að velta fyrir sér þeirri mynd sem dregin er upp í fjölmiðlum. Eins og hún birtist almenningi þá lítur út fyrir að fylkingar vísindamanna sem telja hlýnun jarðar vera raunverulega ógn og þeirra sem afneita henni séu jafnstórar. Staðreyndin er hins vegar sú að afneitunarsinnar samanstanda af fámennum hópi vísindamanna og öðrum sérvitringum á borð við Söru Palin, Hannesi Hólmsteini og Rush Limbaugh. Langflestir vísindamenn telja að vandamálið sé mjög alvarlegt og hluti þeirra telja ógnina mun alvarlegri en sú mynd sem dregin er upp af meginþorra vísindamanna.
Það eru nokkur atriði sem höfundarnir nefna sem valda þessari skökku mynd. Í fyrsta lagi hafa fjölmiðlar tilhneigingu til að flytja fréttir af ágreiningi, sem leiðir til þess að hann virðist djúpstæðari en efni standa til. Báðir hóparnir fá sama vægi í fjölmiðlum, þó svo að sá sem talar fyrir viðtekinni skoðun sé á sama máli og þorri vísindamanna, en efasemdamaðurinn á sér fáa skoðabræður innan vísindasamfélagsins. Í öðru lagi greina fjölmiðlar ekki frá bakgrunni þeirra einstaklinga sem afneita vandanum. Í bókinni kemur meðal annars fram að sumir efasemdamennirnir eiga oft á tíðum ótrúverðugan feril að baki, t.d. var sami maðurinn ósammála eyðingu ósonlagsins og taldi óbeinar reykingar ekki skaðlegar.
Sumarvertíðin á Norðurslóðum er nú í algleymingi og með hverjum sumardegi sem líður minnkar umfang hafíssins á Norður-Íshafinu. Einn eitt árið fylgjast menn með framvindunni – verður þetta metár í bráðnun eða er hafísinn kannski að jafna sig á ný eftir hrunið 2007? Við þessu fást ekki svör fyrr en í lok sumars þegar útbreiðsla hafíssins á norðurhveli nær sínu árlega lágmarki í september. Þangað til látum við okkur nægja að rýna í stöðuna eins og ég ætla að reyna að gera hér en best er að árétta að ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði, fylgist bara þessu af óútskýrðum áhuga.
Ekki minni útbreiðsla mælst áður í júní.
Það sem af er sumri hefur þróunin í stuttu máli verið sú að eftir meiri útbreiðslu hafíssins í lok vetrar en verið hefur í nokkur ár er nú svo komið að útbreiðslan er minni en hún hefur áður mælst á þessum árstíma. Þetta undirstikar meðal annars hversu lítið samhengi er á milli vetrarútbreiðslu og þess sem gerist sumarið á eftir. Eins og ég sagði í síðasta gestapistli þá verður að líta á hafíssvæðið sem tvö svæði, annarsvegar Norður-Íshafið sjálft og svo einstök hafssvæði þar suður af. Mikil hafísútbreiðsla í Norður-Kyrrahafi og jafnvel í Eystrasalti að vetrarlagi er t.d. engin vísbending um ástand kjarnasvæðisins á Norður-Íshafinu þar sem sumarbráðnunin á sér stað.
Útbreiðsla hafíssins 24. júní 2010. Til samanburðar er lágmarksútbreiðslan haustið 2007. Norðvestur-siglingaleiðirnar eru merktar inn: Amundsen leiðin 1903-1906 (blá) og beina breiða leiðin um Parry-sund (græn). Kortið sem notað er í grunninn er af síðunni Cryosphere Today
Opnast Norðvesturleiðin?
Í síðasta pistli hálfpartinn lofaði ég óvenjumikilli bráðnun á heimskautasvæðunum norður af Kanada, aðallega þá vegna þess hversu hlýtt var á þeim slóðum síðasta vetur. Mér finnst enginn ástæða til að bakka með þá spádóma. Forvitnilegt verður að sjá hvort fær siglingaleið muni opnast að þessu sinni um hið breiða Parry sund eins og gerðist í fyrsta almennilega sinn svo vitað sé árið 2007. Skipum hafði að vísu fyrir þann tíma tekist að sigla þar einstaka sinnum í gegn með herkjum, gjarnan þá með aðstoð ísbrjóta. Það kæmi mér allavega ekkert á óvart að þarna galopnist allt í haust. Önnur leið sem er mun þrengi og oftar opin liggur sunnar þar sem Amundsen tókst fyrstum manna að sigla í gegn á árunum 1903-1906.
Þótt deila megi um ágæti þess að heimskautaísinn bráðni mikið, þá horfa ýmsir vonaraugum til Norðvesturleiðarinnar í sambandi við skipaferðir. Sjálfsagt er þó langt í að slíkar siglingar verði almennar nema í mjög takmarkaðan tíma á ári. Norðausturleiðin sem liggur norður fyrir Síberíu er hinsvegar mun oftar aðgengileg stórskipum, ísinn er samt óútreiknanlegur og sem dæmi um það þá opnaðist Norðausturleiðin ekki árið 2007 þrátt fyrir metbráðnun.
Bræðsluspár
Nú er það svo að mjög margir þættir spila inn í varðandi sumarafkomu heimskautaíssins og kannski ekki furða þó spádómar séu misvísandi og sennilega bara tilviljun hvað af þeim rætist. Almennt virðast flestir spá því að lágmarkið í haust verði í stíl við það sem verið hefur 2 síðustu ár og að lágmarksmetið frá því 2007 verði ekki slegið að þessu sinni. Í þeim spádómum er t.d. horft til þróunar á aldursamsetningu íssins. Mjög lítið er eftir að gömlum lífseigum ís miðað við það sem var fyrir aldamót. Á móti kemur að hinn viðkvæmi fyrsta árs ís er þó ekki eins áberandi og verið hefur allra síðust ár og hlutfall 1-3ja ára íss hefur aukist sem bendir til einhvers endurbata á heimskautaísnum eftir nokkuð öflug vetrarhámörk síðustu 3 ár. Eftir því sem líður á sumarið verða spárnar auðvitað nákvæmari, ef til vill mun hinn mikla bráðnun í þessum mánuði fá einhverja til að endurskoða varfærnislegar spár sínar.
Mynd frá Bandarísku hafísmiðstöðinni NSIDC sem sýnir aldurssamsetningu hafíssins í lok hverrar bræðsluvertíðar síðustu 3 ár ásamt meðaltali áranna 1981-2000.
Bifreiðakaup eru ein allra stærsta ákvörðun sem einstaklingar taka í umhverfismálum. Ríki heims keppast nú við að setja sér markmið í loftslagsmálum þ.e.a.s hversu mikið eigi að takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Meginuppsretta gróðurhúsalofttegunda er vegna bruna jarðefnaeldsneytis eins og olíu. Ísland er ríkt af grænni orku sem gefur kolefnisfrítt rafmagn og hita og því er bruni jarðefnaeldsneytis hjá einstaklingum bundinn við samgöngur. Ef ná á árangri í samdrætti á útblæstri verða allir að leggja sig fram, fyrirtæki sem og einstaklingar. Þar sem einkabíllinn er stærsta útblástursuppspretta heimila er brýnt að beina sjónum að því hvernig minnka megi útblástur og þar með jarðefnaeldsneytiseyðslu fólksbifreiða á Íslandi.
Árið 2020 hefur verið notað sem viðmiðun í áætlunum ríkja í loftlagsmálum og stefna ríki að mismunandi miklum samdrætti fyrir þann tíma. Ef miðað er við meðallíftíma bifreiða þá er ljóst að langstærstum hluta bifreiða sem nú er á götum landsins verður skipt út fyrir árið 2020. Ef neytendur velja bifreiðar með t.d. 20% lægra útblástursgildi þá er ljóst að samdráttur í útblæstri frá samgöngum verður kringum 20% minni fyrir árið 2020.
Jákvæð þróun í hönnun bifreiða hjá framleiðendum hjálpar mikið til að gera slíkan árangur raunhæfan. En neytendur verða að þekkja eyðslu- og útblásturgildi bifreiða til að geta tekið þetta skref við næstu bifreiðakaup. Orkusetur kynnir nú nýja reiknivél sem aðstoða á neytendur til að velja betri bifreiðar með tilliti til útblásturs. Neytandinn þarf einungis að slá inn skráningarnúmer eigin bifreiðar og þá koma upplýsingar um eyðslu og útblástur bifreiðarinnar. Einnig kemur upp einföld einkunnargjöf sem raðar bifreiðum eftir útblástursgildum. Því næst getur neytandinn valið hversu mikið hann hyggst draga úr útblæstri við næstu bifreiðakaup. Neytandinn velur bifreiðaflokk sem sýnir glöggt að auðvelt er að draga verulega úr útblæstri án þess að nauðsynlegt sé að skipta um stærðarflokk. Reiknivélinni er ætlað að slá tvær flugur í einu höggi þ.e. kynna fyrir neytendum lykilstærðir um eyðslu- og útblástursgildi og aðstoða um leið við að finna eyðsluminni bifreiðar.
Smíði reiknivélarinnar er fjármögnuð með styrk frá Norrænu ráðherranefndinni og verður reiknivélin því aðgengileg á öllum tungumálum Norðurlanda. Það er fróðlegt að velta upp tölum um hvaða áhrif smávægilegar breytingar á bílaflota Norðurlanda hafa á útblástur. Fólksbifreiðar á Norðurlöndum eru um tíu milljónir talsins og ef meðalútblástursgildi færi úr 180 niður í 150 CO2 g/km á næstu tíu árum myndi útblástur frá bifreiðum minnka um 5 milljón CO2 tonn á ári. Árlegur heildarútblástur gróðurhúsaloftegunda á Íslandi er einmitt í kringum 5 milljónir tonna þannig að segja má að skynsamlegar ákvarðanir bifreiðaeiganda á Norðurlöndum geti hreinsað út ígildi alls Íslands í útblástursbókhaldi heimsins. Það er vonandi að reiknivélin komist í notkun á Norðurlöndunum og hafi áhrif á einhverja þeirra 10 milljón ákvarðanna sem teknar verða um bifreiðakaup á Norðurlöndum fyrir 2020.
Reiknivélina má prófa á eftirfarandi slóð: Reiknivél