Nýjar tölur um losun CO2 fyrir árið 2010

Frá Alþjóðaorkustofnuninni (IEA) kom nýlega fram mat á hnattrænni losun á CO2 fyrir árið 2010 og eru þær tölur slæmar fréttir. Milli áranna 2003 og 2008 þá jókst losun CO2 hraðar en verstu spár IPCC höfðu gert ráð fyrir. Í kjölfar efnahagskreppunnar þá hægði umtalsvert á aukningunni og í raun var minni losun árið 2009 (29 gígatonn) heldur en á árinu 2008 (um 29,4 gígatonn).

Því er það ekki gott, að þrátt fyrir hægan bata í efnahagi þjóða þá var aukningin í losun CO2 frá jarðefnaeldsneeyhti árið 2010 sú mesta frá upphafi mælinga. Vöxturinn milli áranna 2009 og 2010 er um 1,6 gígatonn og var losunin því um 30,6 gígatonn árið 2010. Mesti vöxtur þar á undan var milli áranna 2003 og 2004 en þá jókst losunin um 1,2 gígatonn. Eins og sést á mynd 1, þá var losunin í kringum þær sviðsmyndir IPCC sem sýna miðlungslosun, en aukningin árið 2010 hefur orðið til þess að losunin er á pari við næstverstu sviðsmynd IPCC:

Mynd 1: Mat á losun CO2 vegna bruna jarðefnaeldsneytis plottað ásamt sviðsmyndum IPCC. Sviðsmyndir miða við stöðuna eins og hún var árið 2000.

Sem stendur, hvort heldur talað er um uppsafnaða losun eða árlega losun, þá erum við á pari við sviðsmynd A2 en lýsingin á henni er svipuð og raunin hefur verið (sjá Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi):

Í sviðsmyndahópi A2 er samþætting hagkerfa lítil og fólki fjölgar út öldina. Áhersla er á staðbundnar lausnir en tækniþróun og hagvöxtur er hægari en í öðrum sviðsmyndum.

Bjartsýni sumra sviðsmynda um öra þróun tæknilausna til móts við losun CO2 hefur því ekki ræst. En hvað þýðir það ef að kolefnislosun heldur áfram á sömu braut?

Mynd 2: Styrkur CO2 í andrúmsloftinu eins og það hefur mælst á Mauna Loa frá árinu 1958 til 2008 (svört brotalína) ásamt mismunandi sviðsmyndum IPCC (IPCC Data Distribution Centre)

Mynd 3: Ætlað hitastig mismunandi IPCC sviðsmynda út frá loftslagslíkönum.Skygging sýnir ±1 staðalfrávik meðalhitastigs hvers árs. (Heimild: IPCC).

Sviðsmynd A2 leiðir að styrk CO2 í andrúmsloftinu sem verður í kringum 850 ppm  árið 2100 og meðal hitastig sem yrði um 3,5° C heitara en árið 2000 (eða meira en 4°C heitara en fyrir iðnbyltinguna).

Áður en efnahagskreppan hófst þá var losun CO2 á pari við A1F1 (mikil brennsla jarðefnaeldsneytis) og ef losun eykst enn á ný upp í þær hæðir, þá erum við að tala um 950 ppm CO2 í lok aldarinnar og um 4°C hnattræn hlýnun frá árinu 2000 (meira en 4,5°C heitara en fyrir iðnbyltinguna).

Það virðist augljóst að erfitt verður að ná markmiðum sem miða að því að hækkun hitastigs verði ekki meira en 2°C ofan við það hitastig sem var fyrir iðnbyltinguna . Alþjóðlegar stofnanir hafa miðað við tvær gráður sem ákveðin hættumörk sem þó gæti verið of mikið. Loftslagssetur Bresku Veðurstofunnar (UK Hadley Centre Met Office) gaf út nýlega að til þess að halda hitastigi innan við 3°C hækkun hitastigs, þá hefði kolefnislosun þurft að halda áfram að dragast saman árið 2010 (Mynd 4).

 

Mynd 4: Hlýnun samkvæmt líkönum Hadley Centre fyrir árið 2100 miðað við mismunandi sviðsmyndir (Heimild)

Eins og staðan er nú, þá fylgjum við gulu og rauðu örunum á mynd 4. Ef fram heldur sem horfir, þá gætu afleiðingarnar orðið slæmar. Afleiðingar skv. IPCC ef hnattræn hlýnun verður 3-4°C ofan við stöðuna fyrir iðnbyltinguna eru meðal annars:

  • Vatnsskortur eykst fyrir hundruði milljóna manna
  • 30-40% tegunda lífvera í útrýmingahættu
  • 30% af votlendi við sjávarsíðuna gæti horfið
  • Aukið tjón vegna flóða og storma
  • Viðamiklir kóraldauðar
  • Minnkandi kornuppskera
  • Dauðsföllum vegna hitabylgja, flóða og þurrka fjölgar

Ein af niðurstöðum IEA er að 80% af þeim orkuveitum sem munu brenna jarðefnaeldsneyti árið 2020 eru í byggingu eða búið að byggja – sem þýðir að kolefnislosun við bruna jarðefnaeldsneytis mun að öllum líkindum halda töluverðum dampi -en einn þriðji af losun manna á CO2 kemur þaðan. Það þýðir að þeim mun meira þarf að minnka losun á öðrum sviðum – eins og t.d. samgöngum.

Viðvörunarbjöllur hringja og segja okkur að herða róðurinn í að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar loftslagsbreytinga. Nauðsynlegt er að fara að fylgja grænu örinni á mynd 4, sem þýðir að bregðast þarf við snöggt og strax til að draga úr losun CO2 út í andrúmsloftið.

Heimildir og ítarefni

Þessi færsla er að mestu leiti unnin upp úr færslu á Skeptical Science – IEA CO2 Emissions Update 2010 – Bad News

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál