Frá Alþjóðaorkustofnuninni (IEA) kom nýlega fram mat á hnattrænni losun á CO2 fyrir árið 2010 og eru þær tölur slæmar fréttir. Milli áranna 2003 og 2008 þá jókst losun CO2 hraðar en verstu spár IPCC höfðu gert ráð fyrir. Í kjölfar efnahagskreppunnar þá hægði umtalsvert á aukningunni og í raun var minni losun árið 2009 (29 gígatonn) heldur en á árinu 2008 (um 29,4 gígatonn).
Því er það ekki gott, að þrátt fyrir hægan bata í efnahagi þjóða þá var aukningin í losun CO2 frá jarðefnaeldsneeyhti árið 2010 sú mesta frá upphafi mælinga. Vöxturinn milli áranna 2009 og 2010 er um 1,6 gígatonn og var losunin því um 30,6 gígatonn árið 2010. Mesti vöxtur þar á undan var milli áranna 2003 og 2004 en þá jókst losunin um 1,2 gígatonn. Eins og sést á mynd 1, þá var losunin í kringum þær sviðsmyndir IPCC sem sýna miðlungslosun, en aukningin árið 2010 hefur orðið til þess að losunin er á pari við næstverstu sviðsmynd IPCC:
Mynd 1: Mat á losun CO2 vegna bruna jarðefnaeldsneytis plottað ásamt sviðsmyndum IPCC. Sviðsmyndir miða við stöðuna eins og hún var árið 2000.
Sem stendur, hvort heldur talað er um uppsafnaða losun eða árlega losun, þá erum við á pari við sviðsmynd A2 en lýsingin á henni er svipuð og raunin hefur verið (sjá Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi):
Í sviðsmyndahópi A2 er samþætting hagkerfa lítil og fólki fjölgar út öldina. Áhersla er á staðbundnar lausnir en tækniþróun og hagvöxtur er hægari en í öðrum sviðsmyndum.
Bjartsýni sumra sviðsmynda um öra þróun tæknilausna til móts við losun CO2 hefur því ekki ræst. En hvað þýðir það ef að kolefnislosun heldur áfram á sömu braut?
Mynd 2: Styrkur CO2 í andrúmsloftinu eins og það hefur mælst á Mauna Loa frá árinu 1958 til 2008 (svört brotalína) ásamt mismunandi sviðsmyndum IPCC (IPCC Data Distribution Centre)
Mynd 3: Ætlað hitastig mismunandi IPCC sviðsmynda út frá loftslagslíkönum.Skygging sýnir ±1 staðalfrávik meðalhitastigs hvers árs. (Heimild: IPCC).
Sviðsmynd A2 leiðir að styrk CO2 í andrúmsloftinu sem verður í kringum 850 ppm árið 2100 og meðal hitastig sem yrði um 3,5° C heitara en árið 2000 (eða meira en 4°C heitara en fyrir iðnbyltinguna).
Áður en efnahagskreppan hófst þá var losun CO2 á pari við A1F1 (mikil brennsla jarðefnaeldsneytis) og ef losun eykst enn á ný upp í þær hæðir, þá erum við að tala um 950 ppm CO2 í lok aldarinnar og um 4°C hnattræn hlýnun frá árinu 2000 (meira en 4,5°C heitara en fyrir iðnbyltinguna).
Það virðist augljóst að erfitt verður að ná markmiðum sem miða að því að hækkun hitastigs verði ekki meira en 2°C ofan við það hitastig sem var fyrir iðnbyltinguna . Alþjóðlegar stofnanir hafa miðað við tvær gráður sem ákveðin hættumörk sem þó gæti verið of mikið. Loftslagssetur Bresku Veðurstofunnar (UK Hadley Centre Met Office) gaf út nýlega að til þess að halda hitastigi innan við 3°C hækkun hitastigs, þá hefði kolefnislosun þurft að halda áfram að dragast saman árið 2010 (Mynd 4).
Mynd 4: Hlýnun samkvæmt líkönum Hadley Centre fyrir árið 2100 miðað við mismunandi sviðsmyndir (Heimild)
Eins og staðan er nú, þá fylgjum við gulu og rauðu örunum á mynd 4. Ef fram heldur sem horfir, þá gætu afleiðingarnar orðið slæmar. Afleiðingar skv. IPCC ef hnattræn hlýnun verður 3-4°C ofan við stöðuna fyrir iðnbyltinguna eru meðal annars:
- Vatnsskortur eykst fyrir hundruði milljóna manna
- 30-40% tegunda lífvera í útrýmingahættu
- 30% af votlendi við sjávarsíðuna gæti horfið
- Aukið tjón vegna flóða og storma
- Viðamiklir kóraldauðar
- Minnkandi kornuppskera
- Dauðsföllum vegna hitabylgja, flóða og þurrka fjölgar
Ein af niðurstöðum IEA er að 80% af þeim orkuveitum sem munu brenna jarðefnaeldsneyti árið 2020 eru í byggingu eða búið að byggja – sem þýðir að kolefnislosun við bruna jarðefnaeldsneytis mun að öllum líkindum halda töluverðum dampi -en einn þriðji af losun manna á CO2 kemur þaðan. Það þýðir að þeim mun meira þarf að minnka losun á öðrum sviðum – eins og t.d. samgöngum.
Viðvörunarbjöllur hringja og segja okkur að herða róðurinn í að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar loftslagsbreytinga. Nauðsynlegt er að fara að fylgja grænu örinni á mynd 4, sem þýðir að bregðast þarf við snöggt og strax til að draga úr losun CO2 út í andrúmsloftið.
Heimildir og ítarefni
Þessi færsla er að mestu leiti unnin upp úr færslu á Skeptical Science – IEA CO2 Emissions Update 2010 – Bad News
Tengt efni á loftslag.is
- Tveggja gráðu markið
- Tvær gráður of mikið
- Hverjir verða mest varir við afleiðingar aukinnar losunar gróðurhúsalofttegunda
- Þiðnandi sífreri mun auka á hnattræna hlýnun jarðar
- Súrnun sjávar og lífríki hafsins
Ótrúlegt að sjá! …en þó ekki! Sé litið til þess að Bandaríkin og Kína séu farin að starfa saman til þess að koma í veg fyrir undirritun fjölþjóðlegra reglugerða (smbr. Kyoto) um þak á útblástur… er erfitt að sjá miklar breytingar verða á þróun á næstu árum eða jafnvel áratugum!
Ætli mannkynið sé ekki mesta skrímsli sem uppi hefur verið á Jörðinni fyrr og síðar..
Drög að sjálfsmorði
Ætli við mannfólkið séum ekki sjálfum okkur verst. Reyndar er ég nú frekar bjartsýnn að upplagi, en það virðist þó ekki ganga mjög vel að draga úr losun almennt.
Kannski það hafi eitthvað með okkar innbyggðu afneitun á slæmum fréttum að gera…við viljum einfaldlega ekki vita eitthvað sem er þesslegt að geta haft neikvæð áhrif á framtíðina – þ.a.l. munum við leita allra leiða til að sannfæra sjálf okkur um að þetta muni reddast… Jæja, vonandi breytist þetta í náinni framtíð, með betri upplýsingum til almennings, það er allavega mín von og bjartsýni.
@Sveinn Atli. Ég held að öll bjartsýni á þessu sviði sé okkar versti óvinur. Það er að mínu mati jafn heimskulegt og að standa aðgerðarlaus á meðan húsið brennur. Hugsa svo bara “þetta reddast” vegna þess að maður nennir ekki að taka af skarið og ausa vatni. Halda því svo fram að aðgerðarleysið stafi af bjartsýni en ekki leti er ákaflega slæmt.
@Magnús Bergsson
Ég tel mig nú vera að gera eitthvað í málunum, þó ég sé líka bjartsýnn (þrátt fyrir allar alvarlegu vísbendingarnar) á framvindu mála, þannig að ég ætla nú ekki að taka undir þetta hjá þér í mínu persónulega tilfelli. En hitt er svo annað mál að það er rétt hjá þér að aðgerðarleysi er heimskulegt og slæmt, þannig að ég tek undir það…heils hugar.
En stundum hugsa ég til þess að þessi bjartsýni geti verið einhver afneitun í mér…veit það ekki. En það er þó nauðsynlegt að vera bjartsýnn á framtíðina um leið og maður reynir að gera eitthvað í málunum, að mínu mati.
Magnús er ósanngjarn að mínu mati – Sveinn Atli er bjartsýnn á að hægt verði að gera eitthvað í málinu og er meðal annars með því að halda úti þessari heimasíðu einn af þeim sem eru að gera hvað mest hér á landi.
Ef við notum sömu metafóruna og Magnús – þá er Sveinn Atli ekki að horfa aðgerðarlaus á það á meðan húsið brennur, hann er að hringja viðvörunarbjöllunum og gera fólki ljóst að bruninn á sér stað og um leið reynir hann að benda á bestu lausnir til að bjarga húsinu.
Mikið skelfing væri það notalegt ef ég gæti værið jafn bjartsýnn og þið. Það má vera að það sem þið kallið ásættanlega niðurstöðu telji ég óásættanlega. Þetta er eins og með skuldsetningu fyrirtækja og heimilia. Sumir telja það eðlilegt að skulda en ég sem dæmi tel það óeðlilegt.
Því ætla ég ekki að tala mig út um þessi loftslagsmál. Í þeim efnum verður bara það sem verða vill. Þessi loftslagsmál eru lika þess eðlis að þau verða ekki afgreidd í athugasemdir við bloggfærslu á annars frábærri vefsíðu 🙂
Já, þetta er svo sem ekkert til að vera bjartsýnn yfir í augnablikinu, þegar ekkert virðist vera að gerast varðandi minnkun útblásturs almennt… En allavega, ekki ætla ég persónulega að missa móðinn, þrátt fyrir augljóst aðgerðaleysi í augnablikinu.
En rétt er það, að ekki verða þessi mál útrædd á einfaldan hátt í athugasemdum – takk fyrir hrósið og endilega haltu áfram að koma með athugasemdir, við þolum smá skot og viljum gjarnan fá gagnrýnar athugasemdir – allt í góðu með það 😉
Hér má sjá að við erum að losa margfallt hraðar en losnaði fyrir um það bil 55 milljónum árum síðan á PETM. Þá varð mikill útdauði lífvera – sérstaklega sjávarlífvera (sjá t.d. Súrnun sjávar hraðari en fyrir 55 milljónum ára)