Þessi pistill er skrifaður í tilefni kosninga og sem hluti af því sem er að gerast í París 1,5 hópnum. París 1,5 er baráttuhópur um að Ísland geri sitt til að stöðva hlýnun jarðar við 1,5°C, m.a. með því að koma loftslagsmálunum að í komandi kosningum. Það munu koma fleiri pistlar á loftlsagsvefinn sem varða París 1,5 og baráttuna fyrir því að taka á loftslagsvandanum í framtíðinni. Á loftslagsvefnum er undirsíða sem nefnist París 1,5 þar sem pistlar sem tengjast hópnum eða tengdum málefnum verða birtir.
Það virðast ekki miklir möguleikar á því að loftslagsvandinn leysist af sjálfu sér. Þátttaka og átak almennings og stjórnvalda verður að koma til. Stjórnvöld geta t.d. haft áhrif á kauphegðun almennings með stjórnvaldsaðgerðum og almenningur getur haft áhrif á stjórnvöld með persónulegum aðgerðum t.d. með því að taka þátt í umræðu um vandann og ýta við aðgerðum á öllum sviðum. Stjórnvöld eru einskonar snið af almenningi hvers tíma og almenningsáliti (sem vissulega má hafa áhrif á) og því munu þau leggja áherslu á þau mál sem er almenningi ofarlega í huga (allavega í teóríunni). Stjórnmálamenn tala með þeim hætti að lofa því sem almenningur virðist vilja heyra á hverjum tíma (það er svo annað mál með efndir). Til að eitthvað gerist tel ég að það þurfi að hafa áhrif á stjórnmálamenn og aðra áhrifamenn – en hvernig er best að ná eyrum stjórnmálamanna og hafa áhrif á stefnu og getu þeirra til að framfylgja ákveðnum málum?
Það er augljóst hverjum sem vill sjá að það eru litlar sem engar alvöru aðgerðir stjórnvalda hér á landi (og þó víðar væri leitað) gegn loftslagsvandanum. Þrátt fyrir fagurt orðskrúð á tyllidögum þá eru aðgerðir nánast ósýnilegar og í þeim fáu tilfellum þar sem eitthvað er gert er það of lítið og of seint og virðist bara vera til að sýnast út á við. En það eru kannski til ráð til að ýta umræðu og almenningsáliti í rétta átt? Sem einstaklingar höfum við þá möguleika að segja skoðun okkar opinberlega, m.a. í ræðu og riti. Ef það eru nógu margir sem að skrifa bréf (já það er gamaldags), senda tölvupósta, standa upp og segja skoðun sína, taka upp símann og ræða við þá sem eru í framboði ásamt því að skrifa pistla í blöð og tímarit um loftslagsvandann þá hef ég þá trú að það muni virka. Segjum eins og rétt er, að það sé ekki of seint að taka á vandanum enn þá og þá verður hlustað (það gæti orðið of seint síðar). Þetta mun væntanlega á endanum verða þannig að flestir verða meðvitaðir um að það er ekki nóg að viðurkenna vandann, heldur þarf líka að taka á honum af alvöru og með því að lýsa því yfir við t.d. stjórnvöld, þar á meðal stjórnmálamenn og aðra sem geta haft áhrif – þannig höfum við áhrif og getum jafnvel flýtt fyrir málum.
Sem sagt – látum í okkur heyra og þá munum við hafa áhrif. Skrifum pistla í blöð og tímarit. Sendum tölvupósta, bréf og hringjum í frambjóðendur flokka og spyrjum þá útí skoðanir þeirra á loftslagsvandanum – mætum á framboðsfundi og spyrjum spurninga. Kjósum ekki þá sem að telja þetta ekki vandamál – kjósum þá sem vilja setja málið á oddinn, sama hvar í flokki fólk stendur. Ef “þinn flokkur” býður ekki uppá einstaklinga sem að hafa vilja til að taka á vandanum, færðu þá atkvæði þitt annað – en það má líka byrja á því að ýta sínu fólki í rétta átt fyrst og vonast eftir breytingum og hafa þannig áhrif á grasrótina. Öll framboð byrja með fólki með skoðanir og það má hafa áhrif á fólk með málefnalegri umræðu og staðreyndum. Allar stjórnmálastefnur þurfa að koma að málinu með sínar nálganir. Það er ekki hægt að taka þá afstöðu miðað við þær upplýsingar sem liggja frami að vandinn sé ekki til staðar af því að einhverjum líkar ekki við lausnir þær sem eru lagðar fram. Ef einhverjum líkar ekki lausnirnar þá er bara um að gera að setja fram lausnir sem viðkomandi hugnast og samræmast lífsviðhorfum og/eða pólitískum skoðunum viðkomandi – afneitun er ekki rétta svarið, enda erum við öll á sama báti þegar að því kemur að taka á vandanum.
Við fólkið erum grasrótin – látum í okkur heyra og hópumst upp á dekk til að hafa áhrif á að móta framtíðina, það er ekki of seint!
Stóra málið sem liggur fyrir COP21 loftslagsráðstefnunni í París er að ríki heims vilja reyna að ná samkomulagi um að taka á loftslagsvandanum og reyna að halda hlýnun jarðar innan 2°C markinu. Það virðist þó vera eitt stórt atriði varðandi það sem gæti hugsanlega valdið töluverðum vanda við lausnina, en það er einfaldlega þegar allir þættir eru lagðir saman, þá virðist sem dæmið gangi ekki alveg upp.
Eins metnaðarfullt og COP21 ráðstefnan er, þá eru ákveðnir þættir sem vinna á móti og gera verkefnið flóknara. T.d. er tímaþátturinn erfiður og flækjustig verksins sem framundan er líka flókið. Sumir vísindamenn og sérfræðingar telja að 2°C markmiðið sé nú þegar utan seilingar vegna þess að biðin sé nú þegar orðin of löng og of lítið hafi verið gert hingað til. Verkefnið sé þannig vaxið að erfitt sé að ná markmiðinu án þess að það hafi mikil áhrif á efnahag heimsins eða að sumar forsendur fyrir árangri séu tækni sem ekki sé enn búið að finna upp.
Kevin Anderson, aðstoðarframkvæmdastjóri Tyndal Center for Climate Research í háskólanum í Manchester (hann kom nýlega til Íslands og hélt fyrirlestur) hefur m.a. hrært upp í umræðunni um 2°C markið nýlega þar sem hann sakar starfsfélaga sína á sviði loftslagsrannsókna um að velja að ritskoða eigin rannsóknir. Anderson gerir sérstaklega athugasemdir við að mörg módel treysti á “neikvæða losun” með ókominni tækni sem á að fjarlægja koltvísýring úr loftinu. Þessi tækni, tiltekur hann að sé enn aðeins huglæg og ekki í hendi. Aðrir hafa einnig tekið undir með Anderson og telja að tíminn til að ná 2°C markinu sé hugsanlega nú þegar runninn úr greipum okkar.
Markmiðin eru einnig hlaðin óvissu, t.d. varðandi það hversu mikil kolefnislosun sé í raun örugg og hvernig aðrir ófyrirséðir þættir geti haft áhrif á útkomuna (hversu viðkvæmt er loftslagið?). 2°C markið er mögulega ekki öruggt til að byrja með, kannski þyrfti í raun að setja markið enn neðar (sem myndi gera verkefnið enn flóknara).
Á myndinni hér að ofan má sjá að árið 2014 voru losuð um 52,7 gígatonn af gróðurhúsalofttegundum – mælt í svokölluð CO2 jafngildseiningum (CO2 equivalents). Miðað við núverandi þróun í losun gróðurhúsaslofttegunda þá stefnum við um eða yfir 4°C hækkun (þó nokkur óvissa) á hitastigi jarðar (miðað við 1880). Miðað við útgefin vilyrði þjóða heims um losun á næstu árum og áratugum (fram til 2030) þá erum við enn yfir markinu. Bláa línan sýnir svo mögulega þróun í losun gróðurhúsalofttegunda til að halda okkur innan 2°C markinu (það er töluvert gap á milli hennar og núverandi vilyrða þjóða heims). Það er fátt sem bendir til þess á núverandi tímapunkti að síðasta leiðin verði valin í París. Að sjálfsögðu er hægt að skerpa á markmiðunum í framtíðinni og reyna að draga enn meira úr losun þegar fram líða stundir. Tíminn virðist ekki ætla að vinna með okkur í þessu risavaxna verkefni, en það verður þó fróðlegt að fylgjast með árangrinum á COP21 í París og að sjá fram á hvaða væntingar verður hægt að hafa til þess sem þar gerist fyrir framtíðina – þeim mun afgerandi skref sem eru tekin þar, því minna flækjustig í framtíðinni.
Heimildir og ýtarefni:
Þessi færsla byggist lauslega á eftirfarandi grein af vef The Washington Post:
The magic number eftir Chris Mooney – sem við getum mælt með að lesendur okkar glöggvi sig á, enda enn ýtarlegri en hér.
Jafnvægissvörun loftslags (e. climate sensitivity) er hugtak sem vísar í þá hnattrænu hlýnun sem verður við tvöföldun á styrk CO2 í andrúmslofti jarðar. Það hefur reynst torsótt að finna rétta tölu fyrir jafnvægissvörunina, líklega mest vegna þess að það kemur betur og betur í ljós að hún er ekki ein eiginleg tala, heldur mismunandi tala eftir því hvert ástand jarðarinnar er hverja stund (Armour o.fl. 2012 og Meraner o.fl. 2013).
Skýrsla IPCC frá 2013 (AR5) birti samantekt ritrýndra greina um jafnvægissvörun loftslags og var niðurstaðan sú að líklegt gildi hennar(með meira en 66% líkum) væri á milli 1,5-4,5°C (fyrir tvöföldun á styrk CO2 í andrúmsloftinu). Það mat var lægra en það sem kom út úr síðustu samantekt IPCC (AR4), vegna þess að sumar rannsóknir sem meta saman loftslagslíkön og mælingar, benda til að jafnvægissvörun loftslags sé lægri (sjá t.d.Otto o.fl. 2013 sem dæmi).
Nú nýverið birtist ný grein, Sherwood (2014), sem bendir til þess að sú jafnvægissvörun loftslags sem skiptir máli í dag, sé meiri en 3°C – eða nær hærri mörkum þess bils sem kom út úr samantekt IPCC. Loftslagslíkön sýna hátt bil jafnvægissvörunar loftslags og felst stærsti munurinn í því hvernig líkönin takast á við skýjamyndun (e. cloud feedback). Í stuttu máli: aukning í skýjahulu vegna hnattrænnar hlýnunnar myndi valda dempandi svörun (e. negative feedback) – þ.e. skýin myndu endurgeisla meira af sólarljósi út í geim og þar með kæla jörðina. Aftur á móti myndi minnkandi skýjahula verka sem magnandi svörun (e. positive feedback) – þ.e. að meira af sólarljósi myndi ná yfirborði jarðar og auka á hlýnunina.
Höfundar fyrrnefndrar greinar (Sherwood o.fl. 2014) skoðuðu hvernig mismunandi loftslagslíkön tókust á við svörun vegna skýja og kom í ljós að líkön með lága jafnvægissvörun loftslags voru í mótsögn við athuganir. Það kom í ljós að í þeim var reiknað með því að vatnsgufa drægist hærra upp í lofthjúpinn við hækkandi hita. Í raun (samkvæmt athugunum), þá hefur hlýnun í neðri hluta lofthjúpsins þau áhrif að vatnsgufa dregst neðar og minna verður um háskýjamyndanir. Minnkandi skýjahula í háloftunum veldur svo aukinni hlýnun (magnandi svörun).
Það skal tekið fram að þetta er aðeins ein grein og fjallar aðeins um einn þátt jafnvægissvörunar og pottþétt ekki síðasta greinin þar um. Þessi grein Sherwood o.fl (2014) er þó í samræmi við aðra nýlega ritrýnda grein (Fasullo & Trenberth 2012), en þeir fundu út að aðeins þau loftslagslíkön með háa jafnvægissvörun náðu að líkja eftir minnkandi vatnsgufu á lykilstöðum lofthjúpsins.
Einn höfunda, Steve Sherwood ræðir þessa grein í myndbandinu hér fyrir neðan. Ef rétt, þá sýnir þessi grein að áframhaldandi losun á jarðefnaeldsneyti getur leitt til þess að hnattrænn hiti geti verið búinn að hækka um 4°C um 2100 – sem myndi svo sannarlega ógna samfélagi manna og lífríki jarðar í heild.
Þegar Íslendingar eru spurðir út í það hvort að þeir séu hlyntir olíuvinnslu á Drekasvæðinu, þá svara 80% því til að vera því hlyntir. Þegar Íslendingar eru spurðir út í hnattræna hlýnun af mannavöldum þá hefur mikill meirihluti velt málinu fyrir sér og hefur áhyggjur af loftslagsbreytingum vegna aukina gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum. Það má því halda því fram með góðum rökum að fólk hér á landi virðist almennt vita af loftslagsvandanum.
En hvernig stendur þá á því að það er misvægi á milli þess að meirihluti þjóðarinnar virðist vita af loftslagsvandanum og svo því að 80% landsmanna vill meiri olíuvinnslu sem eykur vandann? Ætli almenningur hafi almennt ekki kynnt sér málin í þaula? Það virðist vanta tenginguna á milli þess að þekkja til þeirrar staðreyndar að vandamálið sé til staðar og svo því að þekkja til orsaka og afleiðinga sama vandamáls. Þegar fólk telur að rök séu til þess að auka vandamálið með því bæta við olíuforða heimsins þá hefur sennilega ekki myndast nauðsynleg tenging varðandi orsakasamhengi hlutanna.
Það er nú þegar til mikið meira en nægur forði jarðefnaeldsneytis í heiminum til að hækka hita jarðar um meira en þær 2°C sem þjóðir heims virðast sammála um að forðast. Til að halda okkur inna 2°C hækkun hitastigs, þá mega þjóðir heims ekki brenna nema sem nemur u.þ.b. fimmtungi af núverandi þekktum birgðum jarðefnaeldsneytis sem eru enn í jörðu. Það þýðir á manna máli að um 80% af hinum þekktu birgðum þurfa að vera áfram í jörðu til að við getum með nokkurri vissu haldið okkur innan 2°C marksins. Við hækkandi hitastig má til að mynda eiga von á fleiri sterkum fellibyljum svipuðum Sandy og Haiyan – s.s. líkur á sterkum fellibyljum aukast með hækkandi hitastigi. Það ásamt öðrum öfgum í veðri tengist m.a. hlýnandi loftslagi – annað sem nefna má er að jöklar bráðna, sjávarstaða hækkar, bráðnun íss og hnignun vistkerfa, svo eitthvað sé nefnt. Það er því ekki laust við að afleiðingar fylgi núverandi stefnu varðandi jarðefnaeldsneytisnotkun jarðarbúa.
Það má ekki heldur gleyma að minnast á það hér að losun koldíoxíð fylgir annað vandamál, sem er súrnun sjávar – enn önnur ástæða fyrir Íslendinga að tengja. Súrnun sjávar ætti eitt og sér að fá þjóð sem lifir af fiskveiðum til að tengja saman orsakir og afleiðingar í þessum efnum. Ekki síst í ljósi þess að meirihluti þjóðarinnar virðist telja að vísindamenn hafi rétt fyrir sér varðandi vandamálið og það bendir til þess að þjóðin sé upplýst. En sú staðreynd að sama þjóð heimtar olíuvinnslu á Drekasvæðinu, hlýtur að benda til þess að það vanti tengingar á milli þessara þátta. Það er ekki nema von að ríkisstjórn Íslands hafi það í stefnuskrá sinni að hefja olíu- og gasvinnslu sem fyrst, þegar þjóðin heimtar það – eða eins og það er orðað í stjórnarsáttmálanum:
Ríkisstjórnin mun eins og kostur er stuðla að því að nýting hugsanlegra olíu- og gasauðlinda geti hafist sem fyrst
(úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar)
Við Íslendingar teljum okkur upplýsta þjóð og það á vafalítið við á mörgum sviðum. En þjóð sem ekki hefur náð betri tengingu varðandi loftslagsmálin, þrátt fyrir að flestir virðist samþykkja að um vandamál sé að ræða, virðist ekki vel tengt þegar að ákveðnum hliðum málsins kemur. Það er óábyrgt og óviðunandi að stór gjá sé á milli orsakasamhengis og afleiðinga varðandi þessi mál í huga fólks. Við eigum að hafa þor og dug til að segja nei við skammtíma hagsmunum gamaldags “hagvaxtar” sjónarmiða og virða rétt komandi kynslóða til að við skiljum plánetuna eftir í eins góðu ástandi og hægt er. Það þýðir að við megum ekki halda áfram að vera háð jarðefnaeldsneyti og að olíu- og gasvinnsla í íslenskri lögsögu er ekki raunverulegur valmöguleiki til framtíðar. Eftirspurn almennings eftir stjórnmálamönnum með þor til að taka á málunum ætti að vera meira en þeirra sem velja veg skammtíma “hagsmuna”.
Samkvæmt nýrri rannsókn (Fu o.fl. 2013) þá er að lengjast tímabil þurrka í suðurhluta Amazon frumskógarins. Þurrkatímabilið stendur nú yfir í um þrjár vikur lengur en það gerði fyrir 30 árum síðan – sem eykur hættu á skógareldum og skógardauða.
Þegar þurrkarnir miklu voru árin 2005 og 2010, þá mátti sjá með gervihnöttum minnkandi gróður á stórum landsvæðum í suður Amazon (appelsínugul og rauð svæði).Mynd frá Ranga Myneni, Jian Bi and NASA.
Niðurstöður þessarar rannsóknar eru á skjön við þá niðurstöðu sem nýlega kom frá IPCC, en þar er reiknað með að þurrkatímabilið muni lengjast um aðeins 10 daga eða minna fram til ársins 2100. Líklegasta skýringin, fyrir þessum lengri tíma þurrka, telja höfundar vera hin hnattræna hlýnun.
Samkvæmt skýrslu IPCC er því spáð ennfremur að vætutíð framtíðar verði blautari. Það er þó ekki talið gagnast frumskógum því frumskógarjarðvegur nær eingöngu ákveðnu rakastigi, þrátt fyrir mikla úrkomu, sem þornar þegar tímabil þurrka skellur á. Því er mikilvægt fyrir frumskóginn að vatn bætist sífellt við, því annars minnkar vöxtur og hættan á skógareldum eykst.
Árið 2005, þegar miklir þurrkar voru á Amazon svæðinu, þá gaf frumskógurinn frá sér mikið magn af CO2 í stað þess að binda það, eins og skógum er von og vísa. Ef slíkt endurtekur sig trekk í trekk, þá má segja að farið sé yfir ákveðinn vendipunkt og að magnandi svörun sé komin af stað.
Hvert er hlutverk stjórnmálamanna? Hvernig viljum við að stjórnmálamenn meti upplýsingar varðandi vandamál sem eru til staðar og þá t.d. hvers má ætlast til af þeim þegar kemur að loftslagsvandanum? Loftslagsvandinn er vel skjalfestur og það virðist ljóst að það þurfi að taka á honum af mikilli festu á næstu árum og áratugum – hvað sem líður flokkspólitík og persónulegum skoðunum. Ríki heims hafa m.a. skrifað undir yfirlýsingar þess efnis að það þurfi að halda hlýnun jarðar innan 2°C.
Það er því umhugsunarvert þegar hlýnun jarðar er nefnd í ræðustól Alþingis, að þá er talað um að breytingar á loftslagi muni væntanlega hafa í för með sér mjög jákvæð tækifæri fyrir Íslendinga. Það er líka umhugsunarvert að þegar hlýnun jarðar er nefnd, þá eru stundum látnar fylgja óljósar tilvísanir í vafasamar fréttir sem virðast t.d. koma frá Pressunni (og eiga uppruna sinn í enn vafasamari heimildir af Daily Mail) um að ekki sé allt sem sýnist í loftslagsvísindunum (“en það er önnur saga” – Haraldur Einarsson, tilvísun í myndbandið). Þessi tækifæri virðast svo mikil að það tekur því ekki að nefna neikvæðar hliðar þess eða lausnir á vandanum sem er þó vel skjalfestur. Það er talað um nýja fiskistofna eins og þeir séu nú þegar í hendi og valdi litlum sem engum vandkvæðum fyrir núverandi vistkerfi og fiskistofna. Það má sjálfsagt búast við því að það séu tækifæri í stöðunni þegar hlýnun jarðar heldur áfram, en að hundsa vandann með tali um langsótt tækifæri er ekki rétta leiðin fram á við. Það þarf að ræða afleiðingar súrnunar sjávar fyrir sjávarútveg á Íslandi og það þarf að ræða lausnir á þeim vanda – svo eitthvað sé nefnt.
Það sem við ættum að heyra frá stjórnmálamönnum er hvernig við getum tekið á vandanum og verið leiðandi í þeim efnum, t.d. með aukinni notkun sjálfbærar orku (og það skiptir líka máli í hvað orkan er notuð – svo því sé haldið til haga) ásamt setningu markmiða um að minnka notkun jarðefnaeldsneytis hér og nú (vinnsla olíu og gass heyrir ekki undir þann hatt). Það eru tækifæri í stöðunni, t.a.m. að vera leiðandi á vettvangi lausna og sýna þar með gott fordæmi meðal þjóða heims. Tal um nýja fiskistofna og óljós tækifæri minnir helst á álfasögur – tækifærin liggja í að vera leiðandi í að finna lausnir og þar með setja lausnirnar á dagsskrá til framtíðar. Kannski er það ekki líklegt til vinsælda að vilja nefna þessi mál eða kannski skortir stjórnmálamenn almennt þor til að taka á vandamálum sem ná yfir lengri tíma en einstök kjörtímabil og velja því að setja fram valkvæma óskhyggju, í stað raunverulegra lausna miðaðrar umræðu! Hér má sjá dæmi um umræðu um hlýnun jarðar á Alþingi – gefum Haraldi Einarssyni, þingmanni Framsóknarflokksins á Suðurlandi orðið þar sem hann ræðir um tækifærin og loftslagsmálin (með innskoti um að ekki sé allt sem sýnist í þessum efnum – ætli heimildin sé Pressufréttin?):
Hér undir má sjá fróðlegt myndband frá Greenman3610 (Peter Sinclair) sem hæfir hugsanlega líka þessari umræðu. Myndbandið nefnist; “Welcome to the Rest of Our Lives” – þarna er m.a. komið inn á þær breytingar sem þegar eru komnar fram og hvað gæti búið í framtíðinni:
Þeir sem fylgjast með loftslagsvísindum vita að nú hefur birst uppkast að fyrstu skýrslunni af þremur um loftslagsmál á vegum IPCC (AR5). Um er að ræða skýrslu vinnuhóps 1 sem heldur utan um þá vísindalegu þekkingu sem til er varðandi veðurfar og loftslagsbreytingar. Vinna þessa hóps fær yfirleitt mesta athygli, en vinnuhópar 2 og 3 fjalla um aðlögun og aðgerðir vegna loftslagsbreytinga.
Þó að heildarniðurstaðan sé svipuð og í síðustu skýrslu, sem birtist árið 2007 (AR4), þá er ýmislegt sem hefur breyst frá því þá. Niðurstaðan er þó orðin ljósari en áður og lítill vafi virðist vera á mannlegum orsökum núverandi hlýnunar. Hér er stutt samantekt á því sem helst ber á milli skýrslunar frá 2007 og þeirrar nýju. Þetta er alls ekki tæmandi listi, enda hafa fjölmargar vísindagreinar, nokkur ár af nýjum gögnum og ný og fullkomnari líkön bæst við í sarpinn síðan síðasta skýrslan kom fram. Helstu breytingar sem við veljum að nefna hér eru eftirtaldar:
Kólnunaráhrif arða í lofthjúpnum eru taldar minni en áður áætlað
Framlag sólarinnar til hækkunar hitastigs frá 1750 er talið minna en áður áætlað
Sjávarstaða á heimsvísu er talið munu rísa meira en áður var áætlað fyrir árið 2100
Það er minni vissa um að aukning úrkomu hafi átt sér stað – en meiri vissa um aukna úrkomu í framtíðinni
Það er ekki breyting í vissu um að tíðni mikillar úrkomu hafi aukist – en meiri vissa að mikil úrkoma muni aukast í framtíðinni
Það er engin breyting á fyrri ályktunum varðandi leitni flóða, hvorki í fortíð né framtíð
Það er minni vissa um aukningu þurrka eða að það hafi orðið sjáanleg breyting í þurrkum frá 1950
Það er minni vissa um aukningu fellibylja
Neðri mörk jafnvægissvörunar loftslags var fært úr 2°C í 1,5°
Nýjar rannsóknir og betri greiningartækni hefur aukið þekkingu vísindamanna á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Þrátt fyrir það eru óvissuþættir nokkrir og hafa jafnvel aukist í sumum þáttum frá síðustu skýrslu.
Samantekt á hitamælingum. a) Tímaraðir sem sýna breytingar í hnattrænu ársmeðaltali. Sýndar eru samantektir þriggja stofnana. b) Áratugameðaltöl gagnanna í a). c) Kort af hitabreytingum í MLOST gagnasafninu fyrir tímabilið 1901 til 2012. Hitabreytingin er reiknuð út frá hallatölu bestu línu gegnum gagnasafnið í hverjum reit. Gerð er krafa um að gögn séu til staðar fyrir a.m.k. 70% tímabilsins, og a.m.k. 20% tímans fyrstu og síðustu 11 árin. Mynd Veðurstofa Íslands.
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er mjög líklegt (extremely likely), eða yfir 95% líkur að athafnir manna hafi valdið meira en helming þeirrar hlýnunar sem varð frá 1951-2010. Sú vissa hefur aukist frá því að vera yfir 90% eða líklegt samkvæmt skýrslunni 2007. Áhrif aukinna gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eru margvísleg. Sjávarstaða hækkar, úrkomumynstur breytast, hafís og jöklar minnka – en allir þessir þættir eru í neikvæðara ástandi en áður var talið.
Einn mikilvægur punktur er að breyting hefur orðið á loftslagslíkönum og notaðar aðrar sviðsmyndir. Hver ný sviðsmynd um losun (RCP – Representative Concentration Pathway) er fulltrúi ákveðins geislunarálags – eða hversu mikla auka orku jörðin mun taka til sín vegna athafna manna. Hin nýju RCP líkön ná yfir stærra svið framtíðarhorfa en gömlu SRES sviðsmyndirnar og því varasamt að bera saman líkön AR4 og AR5.
Kólnunaráhrif arða í lofthjúpnum eru taldar minni en áður áætlað
Örður hafa áhrif á loftslag á tvennan hátt, annars vegar með því að dreifa sólarljósi aftur út í geim og hins vegar með því að mynda ský. Loftslagslíkön taka nú í meira magni inn þátt skýja og ferli tengd örðum. Niðurstaða nákvæmari líkana valda því að kólnunaráhrif arða virðast minni en áður hefur verið talið. Þrátt fyrir aukna þekkingu og nákvæmari líkön þá eru örður enn stærsti óvissuþátturinn við að meta hversu mikil hlýnunin er og verður af völdum manna. Þessi óvissa veldur einnig óvissu við fínstillingu jafnvægissvörunar loftslags (sjá nánari umfjöllun um jafnvægissvörun loftslags hér neðar).
Framlag sólarinnar til hækkunar hitastigs frá 1750 er talið minna en áður áætlað
Í nýju skýrslunni eru nokkrar rannsóknir teknar með þar sem könnuð eru áhrif sólar á loftslag með því að breyta skýjahulu. Niðurstaða skýrslunnar eru þó þær að þau áhrif séu lítil og hafi verið léttvæg síðastliðna öld. Ennfremur er fylgni milli útgeislun sólar og hitabreytinga mjög lítil. Á milli áranna 1980 og 2000 hækkaði hitastig hratt, á sama tíma og sólvirkni minnkaði.
Þó að sólvirkni hafi minnkað frá árinu 1980 og til dagsins í dag, sem veldur neikvæðu geislunarálagi, þá er það þannig að ef skoðað er tímabilið frá upphafi iðnbyltingarinnar (frá 1750 og þar til nú), þá er geislunarálagið jákvætt. En áframhaldandi niðursveifla í sólvirkni hefur orðið til þess að geislunarálag sólarinnar hefur minnkað frá síðustu skýrslu.
Vissan er lítil varðandi spádóma um framtíðarsólvirkni. Því reikna líkön með því að sólvirkni haldist óbreytt. Ekki er talið líklegt að loftslag hverfi aftur til þess tíma þegar litla ísöldin var og hét vegna minnkandi sólvirkni (minna en 10% líkur), enda muni hlýnun af mannavöldum yfirskyggja minnkandi sólvirkni.
Sjávarstaða á heimsvísu er talin munu rísa meira en áður var áætlað fyrir 2100
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er talið líklegt (a.m.k. 66% vissa) að sjávarstaða verði 0,29-0,82 m hærri í lok aldarinnar en á viðmiðunartímabilinu 1986-2005, samkvæmt öllum sviðsmyndum. Þetta er hærra en árið 2007, en þá var talið líklegt að sjávarstaða myndi hækka frá 0,18-0,59 m.
Framlag Grænlands og Suðurskautsins til hærri sjávarstöðu hefur hækkað frá síðustu skýrslu. Þekking vísindamanna á eðlisfræði jökulhvela hefur aukist, auk þess sem gögn eru mun betri sem sýna bráðnun og hreyfingu jökla.
Við síðustu skýrslu þá var vísindaleg þekking talin ófullnægjandi til að meta líklegar sjávarstöðuhækkanir. Þekkingin hefur styrkst en samt er aðeins meðal vissa um framtíðarsjávarstöðuhækkanir. Það er að hluta til vegna þess að mat á hreyfingum jökla er tiltölulega nýtt og vegna þess að nokkur munur er á þeim líkönum sem meta sjávarstöðubreytingar.
Það er minni vissa um að aukning úrkomu hafi átt sér stað – en meiri vissa um aukna úrkomu í framtíðinni
Vissan hefur minnkað frá síðustu skýrslu um að úrkoma hafi aukist frá árinu 1900. Hins vegar er vissan meiri en síðast eða nánast öruggt (yfir 99% líkur) að meðalúrkoma muni aukast hnattrænt um 1-3% við hverja °C hækkun hitastigs.
Breytileiki verður nokkur milli svæða, en almennt séð þá verða blaut svæði blautari og þurr svæði geta orðið þurrari. Það væri í samræmi við þá leitni sem sést hefur með gervihnöttum frá árinu 1979.
Fram til ársins 2100 verða úrhellisatburðir mjög líklegir á sumum svæðum (yfir 90% líkur), hér hefur vissa aukist frá síðustu skýrslu. Þeir atburðir verða öfgafyllri en geta þó orðið sjaldnar. Í heildina er búist við að öfgar í úrkomu muni breytast hraðar en meðalaukning í úrkomu við hækkandi hita.
Mögulegar breytingar til loka þessarar aldar. a) Hnattræn hlýnun fyrir mismunandi sviðsmyndir. Sýnd eru vik frá meðalhita áranna 1986 – 2005. b) Hafísútbreiðsla á norðurhveli að hausti (5 ára hlaupandi meðaltal). c) Hnattrænt meðaltal sýrustigs sjávar. Ferillinn (og gráa umslagið) sem sýndur er fyrir 2005 er reiknaður með þekktum mæliröðum af styrk gróðurhúsalofttegunda, ryks og annarra þátta sem hafa áhrif á geislunarjafnvægi. Bláu og rauðu ferlarnir eftir 2005 sýna útreikninga fyrir tvær mismunandi sviðsmyndir um losun gróðurhúsa-lofttegunda en súlurnar lengst til hægri sýna meðaltal fleiri sviðsmynda, fyrir árin 2081 – 2100. Rauða og bláa umslagið sýna dreifingu líkanreikninga. Fjöldi líkana sem notaður var í hverju tilviki er sýndur á myndunum en á mynd b) er einnig sýndur innan sviga fjöldi líkana sem náðu vel að herma eftir meðalhafísþekju 1979 – 2012. Mynd Veðurstofa Íslands
Það er engin breyting á fyrri ályktunum varðandi leitni flóða, hvorki í fortíð né framtíð
Bæði þá og nú, hafa vísindamenn ekki séð neina leitni flóða og því lítil vissa um breytingar á stærð og tíðni flóða hnattrænt. Ennfremur eru engir spádómar um aukin flóð í framtíðinni.
Það er minni vissa um aukningu þurrka eða að það hafi orðið sjáanleg breyting í þurrkum frá 1950
Samkvæmt uppkasti nýju skýrslunnar þá er lítil vissa um að breytingar hafi orðið á þurrkum hnattrænt frá árinu 1950 og að menn eigi þar þátt í breytingum á þurrkum.
Varðandi framtíðina, þá þykir líklegt (a.m.k. 66% vissa) að sum svæði muni finna fyrir auknum þurrkum, en hnattrænt er óvissan mikil.
Það er minni vissa um aukningu fellibylja
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er minni vissa um að það hafi orðið langtímaaukning í fellibyljum hnattrænt og lítil vissa um þátt manna í þeim breytingum. Ástæðan er endurgreining gagna, þar sem tekið er meira tillit til auðveldara aðgengi að gögnum. Nýrri gögn benda til þess að að núverandi breytingar séu mögulega innan náttúrulegs breytileika.
Meðal vissa er um að tíðni fellibylja muni minnka eða haldast stöðugt í framtíðinni. Hins vegar er líklegra en ekki að tíðni sterkustu fellibyljana muni aukast (meira en 50% líkur) á þessari öld
Neðri mörk jafnvægissvörunar loftslags var fært úr 2°C í 1,5°C
Jafnvægissvörun loftslags við tvöföldun CO2 í andrúmsloftinu er oft notað til að reikna út hækkun hitastigs í framtíðinni, sjá m.a. Jafnvægissvörun loftslags hér á loftslag.is. Í nýju skýrslu IPCC er þessi jafnvægissvörun hitastigs talin geta verið á bilinu 1,5° – 4,5°C. Breytingin frá fyrri skýrslu er sú að lægra gildið hefur lækkað úr 2°C í 1,5°C – en efri mörkin eru enn þau sömu. Þessi lækkun neðri markanna virðist byggjast á stöðnun í hækkun hitastigs andrúmslofts við yfirborð jarðar á síðasta áratug.
Þessa stöðnun í hækkun hitastigs andrúmslofts við yfirborð jarðar hefur verið útskýrð á ýmsan hátt, m.a. með þeirri staðreynd að yfir 90% af hlýnun jarðar nú um stundir virðist fara í höfin og hefur verið bent á að þessi breyting geti verið gagnrýni verð. En útreikningar á því hvernig hitastig er talið getað hækkað fram að 2100 í skýrslunni eru væntanlega gerðir í samræmi við þessa jafnvægissvörun og það gefur okkur því ekki miklar vonir um væga útkomu þó neðri mörkin hafi færst lítillega til.
Lokaorð
Þessi nýja skýrsla IPCC virðist staðfesta enn frekar að hnattræn hlýnun af mannavöldum er staðreynd og ef ekkert verður að gert, þá er enn meiri hækkun hitastigs í pípunm á næstu áratugum, sem er í samræmi við fyrri skýrslur og samdóma álit sérfræðinga á þessu sviði um langt skeið. Fram að 2100 þá er gert ráð fyrir að hitastig geti hækkað töluvert – allt eftir því hvaða sviðsmyndir í losun gróðurhúsalofttegunda eru skoðaðar. En í hnotskurn er staðan sú að eftir því sem meira af gróðurhúsalofttegundum er dælt út í andrúmsloftið (og hluti endar í hafinu líka og veldur m.a. súrnun sjávar) þá aukast líkurnar á meiri hækkun hitastigs og meiri súrnun sjávar sem hefur svo áhrif á aðra þætti eins og hafís, jökla, sjávarstöðu, vistkerfi sjávar o.s.frv.
Nú, þegar uppi eru stór áform varðandi leit og hugsanlega vinnslu jarðefnaeldsneytis (olía og gas) á Drekasvæðinu, þá er vert að spyrja nokkura spurninga og velta hlutunum fyrir sér í ljósi vísindalegra upplýsinga um loftslagsvánna sem við búum yfir í dag. Áhrif brennslu jarðefnaeldsneytis á loftslag jarðar núna og í framtíðinni er vandamál sem við þurfum að takast á við – en það virðist viðtekin hugmynd að minnast helst ekki á þann vanda þegar rætt er um mögulegan hagvöxt og framtíðarhorfur með vinnslu jarðefnaeldsneytis úr jörðu. Ráðamenn gefa sér væntanlega, eins og margir aðrir, að framkvæmdir og vinnsla á jarðefnaeldsneyti sem hugsanlega leiða til hagvaxtar til skemmri tíma hljóti í hlutarins eðli að vera eðlilegar. Þ.a.l. hljóti sú vinnsla að verða eitt af því sem mun leiða hagvöxt til framtíðar – alveg sama hver kostnaðurinn er til lengri tíma fyrir mannkynið í heild. Úræðaleysi og úrelt sjónarmið “hagvaxtar” virðast því miður vera útbreidd skoðun varðandi þessi mál. Við sjáum núna að umræðan snýst m.a. um að reyna að greiða veg olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu, þannig að sem flestum hindrunum verði rudd úr vegi og búið verði svo um hnútana að ekki verði hægt að snúa þeim ákvörðunum við síðar. En á það að vera svo – viljum við virkilega greiða þá leið?
Fyrsta spurningin sem kemur í hugann nú, er náttúrulega hversu miklu af jafðefnaeldsneyti má brenna til að við höldum okkur undir 2°C markinu sem þjóðir heims stefna að í dag samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum og hversu langan tíma mun taka að ná því marki? Í stuttu og frekar einfölduðu máli, þá er það talið vera um það bil 1/5 af því jarðefnaeldsneyti sem nú þegar er í bókhaldi olíu-, kola- og gasfyrirtækja heimsins og það mun væntanlega taka innan við 20 ár að brenna því magni [Global Warming’s Terrifying New Math]. 4/5 af jarðefnaeldsneytinu þarf því að vera í jörðinni áfram ef við eigum að hafa raunhæfan möguleika á árangri. Eins og staðan er í dag, bendir s.s. allt til þess að það verði strembið að halda okkur innan tveggja gráðanna sem almennt er talið að þurfi til að hnattræn hlýnun verði ekki of mikil. Núverandi spár gera flestar ráð fyrir um 2-4°C (jafnvel meira) fyrir næstu aldamót (svo ekki sé litið lengra fram í tímann eða aðrir þættir skoðaðir, eins og t.a.m. súrnun sjávar sem ekki bætir stöðuna). Hækkun hitastigs um 2-4°C myndi valda töluverðum vandræðum fyrir komandi kynslóðir og það má halda því fram að sú Jörð sem komandi kynslóðir erfa sé ekki lík þeirri sem við tókum við. Það má kannski líta svo á að við fremjum mannréttindabrot við ókomnar kynslóðir með því að skilja Jörðina þannig eftir okkur að við rýrum lífskjör og gerum lífið erfiðara í framtíðinni. Þá kemur náttúrulega að samviskuspurningunni hvort að við viljum hafa það á samviskunni?
Næsta spurning sem gæti kviknað er hvaða áhættu erum við að taka með því að bæta í brennanlegan forða jarðaefnaeldsneytis? Það er talið nokkuð ljóst að hitastig mun hækka um margar gráður ef ekkert verður að gert og þó svo aðeins sá forði sem nú er í bókum olíu-, gas- og kolafélaga yrði brennt, þá er áhættan á talsverðum loftslagsbreytingum talsverð – svo ekki sé talað um hugsanlega ófundnar lindir, sem við Íslendingar virðumst vilja taka þátt í að nýta til fulls. Áhættan er því veruleg og það er óðs manns æði að ætla sér að kreista jörðina um allt það jarðefnaeldsneyti sem til er – sérstaklega í ljósi þess að við höfum þegar 400% meira í bókhaldinu en þykir rétt að brenna – samkvæmt alþjóðlegum samþykktum þjóða heims!
Hvað ætlar litla Ísland sér í loftslagsmálunum? Ætlum við að taka þátt í að kreista síðasta dropa jarðefnaeldsneytis úr jörðu eða viljum við sýna þor og dug? Það virðist vera útbreidd skoðun að nýting jarðefnaeldsneytisforðans sem hugsanlega leynist á Drekasvæðinu sé hið besta mál – þrátt fyrir að viðvörunarljós blikki og öll rök hnígi að því að við þurfum að leita annarra leiða en gjörnýtingu jarðefnaeldsneytis í framtíðinni. Erum við upplýst þjóð? Höfum við vilja til að sýna dug og þor eða ætlum við að vera ofurseld úreltu hugarfari skyndi „hagvaxtar”?
Höfum þor – skörum fram úr – veljum einu réttu leiðina og hættum við allar hugmyndir um olíu- og gasvinnslu á Íslandi í dag – þó svo það sé veik von margra að með henni getum við viðhaldið hagvexti til framtíðar eftir hinar efnahagslegu hamfarir sem við höfum upplifað. Reyndar ber að geta þess að litla Ísland er í dag (eftir hrunið) númer 28 í heiminum ef tekið er tillit til vergrar landsframleiðslu á mann (heimild: CIA Factbook). Ekki er sjálfgefið að hagvöxtur verði að aukast umfram aðra til að Ísland standi á eigin fótum eða að það muni þýða eymd og volæði fyrir landann ef þessi „auðlind“ jarðefnaeldsneytis verði ekki nýtt (“auðlind” sem ekki er enn í hendi).
Sendum merki um áræðni og þor – hættum að ásælast jörðina sem afkomendur okkar eiga að erfa. Það yrði mikilvægt merki til allra þjóða ef hið litla Ísland, sem nýlega er búið að upplifa hrun fjármálakerfisins, hefði þor og dug til að sýna fordæmi í þessum málum. Segjum því nei við gas- og olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
Persónulega er ég á engan hátt á móti heilbrigðum hagvexti eða alvöru framförum – þvert á móti. En brennsla á gasi og olíu er vart merki um heilbrigða þróun mála eða til merkis um framfarir eins og mál standa. Þar af leiðandi er eina vitið fyrir framtíð okkar að við geymum jarðefnaeldsneytið þar sem það er, enn um sinn. Brennsla jarðefnaeldsneytir er að verða gamaldags og er eitthvað sem við ættum ekki að ýta undir í framþróuðum, upplýstum nútíma samfélögum, sérstaklega í ljósi þess að afleiðingar brennslu jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda eru vel kunnar. Það virðist ekki vera til hið pólitíska afl hér á landi sem hefur þor og/eða vilja til að taka beina afstöðu á móti vinnslu jarðefnaeldsneytis á íslenska landgrunninu eða hvað þá að telja þá hugmynd vafasama – samanber núverandi hugmyndir stjórnvald varðandi olíuleit á Drekasvæðinu. Það þarf hugrekki til að spyrna við slíkum hugmyndum og taka ákvarðanir sem gætu jafnvel (þótt slíkt sé ekki sjálfgefið) hægt á hagvexti til skamms tíma. Það eigum við þó að sýna og segja nei við gamaldags hagvaxtarhugmyndum um vinnslu jarðefnaeldsneytis.
Í ljósi þess að það er ekki í samræmi við niðurstöður vísindamanna um loftslagsvánna að halda áfram að brenna eldsneyti hugsunarlaust, þá eigum við Íslendingar að hafa þor til að skara fram úr á alþjóða vettvangi með því að segja nei við olíu- og gasvinnslu á Íslandsmiðum og þá um leið já við sjálfbærri nýtingu sjálfbærrar orku. Sjálfbær vinnsla orku hefur sína kosti og galla, en brennsla á olíu og gasi hafa nánast bara galla fyrir jarðarbúa í heild – það er því versti kostur sem við getum nýtt okkur – þó svo það ýti hugsanlega undir hagvöxt til skamms tíma. Hitt er svo annað mál að það gæti verið að seinni kynslóðir geti séð kosti við að hafa aðgang að ónýttum olíu- og gaslindum – þegar þar að kemur að við nýtum það ekki til brennslu, heldur sem dýra og eftirsótta afurð í allskyns framleiðsluvörur.
Horfum fram á veginn og sýnum það þor og þann dug að hafa aðra skoðun en þá viðteknu. Sem upplýst þjóð eigum við að vera í forsvari breytinga, en ekki fylgja í blindni gamaldags hugmyndum um „hagvöxt“ til skamms tíma – hagvöxt sem verður væntanlega þeim dýrkeyptur sem erfa munu jörðina eftir okkar dag – Segjum því nei við vinnslu jarðefnaeldsneytis á Íslandsmiðum.
Það hefur legið í loftinu í þó nokkurn tíma að 400 ppm CO2 gildið í andrúmsloftinu myndi falla á hinni víðfrægu Mauna Loa mælistöð á Havaí. Það hefur nú gerst og mældist styrkur CO2 yfir 400 ppm á stöðinni á Havaí. Það er ekki talið að gildi CO2 hafi verið svona hátt í allavega 800 þúsund ár, jafnvel allt að 15 milljón ár. Fyrir iðnbyltinguna var meðalgildi CO2 í andrúmsloftinu um 280 ppm og hafði þá sveiflast á bilinu 180 ppm til 280 ppm síðastliðin 800 þúsund ár, sjá mynd.
Það er ekki til algilt svar um það hvenær styrkur CO2 í andrúmsloftinu var síðast svona hár, en rannsóknir sýna að það gæti verið á bilinu 800 þúsund til 15 milljón ár síðan þetta gerðist síðast. Talið er líklegt að þetta gæti hafa gerst á Plíosen tímabilinu, fyrir um 2 til 4,6 milljónum ára. Þess má geta að siðmenning nútímamannsins byrjaði fyrir um 12 þúsund árum síðan – þannig að gildi CO2 hefur ekki verið hærra í sögu mannkyns. Nýlegar rannsóknir sýna að það gæti verið enn lengra síðan gildi CO2 fór hærra, eða um 10-15 milljónir ára.
Um miðja öldina gæti styrkur CO2 verið orðin um 450 ppm, fer eftir því hvernig þróun losunar verður.
Kosningarnar 2013 virðast ekki fjalla mikið um umhverfismálin, hvað þá loftslagsmálin, í hugum kjósenda og frambjóðenda almennt. Það eru önnur mál sem virðast vera ofarlega í huga fólks og frambjóðenda og ýmis tilboð svo og gylliboð sett fram til að fá atkvæðabært fólk til að setja X-ið við hin ýmsu framboð. Umhverfismálin eru þó almennt málefni sem við ættum að taka alvarlega og hafa ofarlega í huga fyrir kosningar – enda mikilvægt málefni. Það eru aðilar sem hafa reynt að setja þessa umræðu í forgang kjósenda, með því m.a. að spyrja stjórnmálaöflin spurninga um þeirra stefnu og birt opinberlega.
Okkur á ritstjórninni langar að nefna tvö verkefni sem hafa haft frumkvæði að því að setja umhverfi og loftslag á kortið fyrir þessar kosningar. Fyrst má nefna félag 5 guðfræðinga sem hafa krafist svara um m.a. loftslagsmál og olíuvinnslu – Guðfræðingar krefjast svara. Þau spurðu framboðin um Drekasvæðið, loftslagsvandann og flóttamannamálin og nú þegar aðeins einn dagur er til kosninga þá hafa eftirfarandi framboð svarað – svör má sjá í tenglunum:
Það eru fleiri framboð sem bjóða fram og hafa þau væntanlega heldur ekki sent svör, en listinn er af FB-síðu guðfræðinganna. Það er hægt að lesa bréf guðfræðinganna á Facebook síðu þeirra, sjá hér. Guðfræðingarnir völdu að orða þann hluta bréfsins sem fjallar um loftslagsvánna svo:
Því hefur verði haldið fram að sú loftslagsvá sem nú steðjar að jarðarbúum sé brýnasta áskorun sem mannkyn hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Við erum því sammála. Þessi staða kallar á bráða úrlausn á ýmsum vandamálum sem lúta að réttlátri skiptingu jarðargæða og heimsskipan, sem og friðsamlegri sambúð þjóða heims. — Þetta eru hin raunverulegu viðfangsefni stjórnmálanna á 21. öldinni. Eruð þið undir það búin að taka þátt í lausn þeirra?
[..]
Hvað mun framboð/flokkur ykkar leggja til að gert verði í loftslagsmálum? Hvað munuð þið leggja til að gert verði til að að vinna gegn þeim veðurfarsbreytingum sem búast má við í náinni framtíð?
Hitt verkefnið sem okkur langar að benda á er xUmhverfisvernd (hægt er að sjá myndböndin í tenglinum), þar sem umhverfisverndarsamtök spyrja framboðin spurninga og birta á YouTube. Þar svara frambjóðendur frá framboðunum spurningum sem lúta að umhverfi og náttúru, m.a. um loftslagsbreytingar, Drekasvæðið og Norðurslóðir.
Svör stjórnmálahreyfingana eru við spurningum eftirfarandi umhverfisverndarsamtaka: