Gögn sem sýna að meira CO2 veldur hlýnun

Fyrir skömmu kom út leiðarvísirinn Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir. Hér er einn kafli hans.

Gögn sem sýna að meira CO2 veldur hlýnun

CO2 gleypir varmageislun (einnig þekkt sem hitageislun). Sýnt hefur verið fram á þetta í rannsóknarstofum [16] og gervihnattamælingar staðfesta breytingar á varmageislun frá lofthjúpnum undanfarna áratugi.

Þetta eru beinar mælingar sem sýna að aukinn styrkur CO2 veldur hlýnun jarðar [5].

Fortíðin geymir einnig áhugaverða sögu. Ískjarnar sýna að í lok jökulskeiða jókst styrkur CO2 í kjölfar hlýnunnar. Hlýnunin hafði því áhrif á magn CO2 í lofti. Þannig að hlýnun eykur CO2 í lofti, og aukinn styrkur CO2 veldur svo einnig hlýnun. Í sameiningu lýsa þessi tvö ferli magnandi svörun. Magnandi svörun (e. positive feedback) eykur þá loftslagsbreytingu sem þegar er hafin, meðan dempandi svörun dregur úr loftslagsbreytingum.

Hlýnun í lok jökulskeiða stafaði af breytingum í afstöðu jarðar og sólar og hlýnandi heimshöf losuðu meira CO2 í lofthjúpinn. Þetta varð til þess að:

• Aukinn styrkur CO2 í lofthjúpnum magnaði þá hlýnun sem þegar var hafin (magnandi svörun).

• Þegar CO2 blandaðist í lofthjúpnum varð hnattræn hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa [17,18].

Gögnin frá ískjörnunum eru í fullu samræmi við það að aukning CO2 leiði til hlýnunnar. Í raun er ekki hægt að útskýra þá miklu hlýnun sem verður í lok jökulskeiða ísaldar öðru vísi en með magnandi svörun CO2. Aukinn styrkur CO2 í kjölfar hlýnunnar er því ekki í mótsögn við hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa. Þvert á móti er þetta vísbending um magnandi svörun í loftslagi.

 Við kíkjum á næsta kafla af Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir á morgun.

Heimildir og ítarefni

5. Manning og Keeling 2006: Global oceanic and land biotic carbon sinks from the Scripps atmospheric oxygen flask sampling network.

16. Burch 1970: Investigation of the absorption of infrared radiation by atmospheric gases.

17. Cuffey og Vimeux 2001 (ágrip): Covariation of carbon dioxide and temperature from the Vostok ice core after deuterium-excess correction.

18. Caillon o.fl. 2003 (ágrip): Timing of atmospheric CO and Antarctic temperature changes across Termination III.

Tengt efni á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál