Hver var staða hafíssins á Norðurskautinu í lok sumars?

Þeir sem fylgjast með loftslagsumræðunni vita að það er ansi sveiflukennt hvaða rök eru notuð gegn kenningunni um hnattræna hlýnun af mannavöldum hverju sinni. Stundum eru teknir stuttir bútar í hitamælingum til að sína fram á að það sé ekki að hlýna – þó leitnin sé klárlega önnur. Stundum er vísað í undarlegar vísindagreinar sem hafa ratað í fálesin tímarit og standast ekki skoðun. Upplýsingarnar koma oft frá “vísindamönnum” sem eru leynt og ljóst á kaupi hjá afneitunariðnaðinum. Bergmál þessara “upplýsinga” er síðan ansi hátt í sumum fjölmiðlum, t.d. Fox sjónvarpstöðinni í Bandaríkjunum og í Daily Mail götublaðinu á Englandi.

Þáttur hafíssins á Norðurskautinu

Annað til fjórða hvert ár vekur hafísinn athygli þessara fjölmiðla og þá vegna þess að lágmarksútbreiðsla þessa árs hefur þá verið meiri en árið á undan.

Sumir ganga reyndar nokkuð langt og túlka gögnin þannig: Metaukning á ís á Norðurheimskautinu: Eru gróðurhúsaáhrifin ýkt? .

Þar vitnar Pressan í Daily Mail, en þar segir meðal annars:

Kalt sumar á Norðurheimskautinu hefur valdið því að nú þekur ís meira en 2,6 milljónum fleiri ferkílómetra en á sama tíma fyrir ári en þetta er 60 prósenta aukning á ís á svæðinu á milli ára…

…Daily Mail segir að sumir heimsþekktir vísindamenn telji að nú sé jörðin að fara inn í kuldatímabil sem muni vara fram að miðri þessari öld en ef það verður raunin mun það gera lítið úr dómsdagsspám um gróðurhúsaáhrifin og áhrif þeirra á hækkandi meðalhita. (Pressan 9.sept 2013)

Það skal tekið fram að þessi frétt birtist nokkrum dögum áður en hægt var að staðfesta að lágmarkinu væri náð og margt rangt við þessa frétt annað en það sem um er fjallað hér.

Mánaðarleg meðalútbreiðsla hafíss í september frá 1979-2013, hnignun um 13,7% á áratug.(Mynd: National Snow and Ice Data Center)

Mánaðarleg meðalútbreiðsla hafíss í september frá 1979-2013, hnignun um 13,7% á áratug.(Mynd: National Snow and Ice Data Center)

Nú upp úr mánaðarmótum komu svo tölur fyrir útbreiðsluna í september 2013, en lágmarkinu var náð 13. september, samkæmt NSIDC (National Snow and Ice Data Center). Þegar skoðuð er meðalútbreiðsla mánaðarins, þá var um að ræða sjöttu minnstu útbreiðsluna frá upphafi gervihnattamælinga. Útbreiðslan reyndist þó vera 32% minni í fyrra en í ár, enda var það ár algjört metár. Þrátt fyrir það þá er leitnin sú að hafísinn er að minnka um 13,7% á á áratug, en hafísinn í ár var um 22% minni en meðaltal áranna 1981-2010.

Það þarf mikinn brotavilja til að túlka þessa þróun  þannig að hafísinn sé að jafna sig.

Þess ber að geta að rúmmál hafíss, sem er enn betri mælikvarði á þróun hafíssins, hefur haldið áfram að vera mjög lágt – enda er orðið lítið um hafís sem þraukar árið. Sjá Polar Science Center.

Ástæðuna fyrir því að hafísinn vekur athygli annað til fjórða hvert ár, má sjá á þessari mynd:

Útbreiðsla hafíss samkvæmt NSIDC (bláir punktar). Ár þar sem hafís er að "jafna sig" eru ár þar sem hafísinn er meiri en árið áður og merkt með rauðum til að sýna hvernig "efasemdamenn" skoða gögnun oft á tíðum.

Útbreiðsla hafíss samkvæmt NSIDC (bláir punktar). Ár þar sem hafís er að “jafna sig” eru ár þar sem hafísinn er meiri en árið áður og merkt með rauðum til að sýna hvernig “efasemdamenn” skoða gögnun oft á tíðum.

Þó gervihnattagögnin séu að sjálfsögðu langmikilvægustu gögnin og nákvæmust, þá eru fleiri gögn sem sýna hversu undarlegt það er að halda því fram að hafísinn sé að jafna sig. Walsh & Chapman (2001, uppfært 2008) hafa áætlað útbreiðslu hafíss allt aftur til ársins 1870 með gögnum t.d. frá dönsku veðurstofunni, norsku norðurpólsstofnuninni og frá hafrannsóknaskipum.

Meðaltal hafísútbreiðslu frá júlí-september á Norðurskautinu milli áranna 1870-2008 (Walsh & Chapman 2001 uppfært til 2008) og mæld gögn frá NSIDC milli 2009-2013.

Meðaltal hafísútbreiðslu frá júlí-september á Norðurskautinu milli áranna 1870-2008 (Walsh & Chapman 2001 uppfært til 2008) og mæld gögn frá NSIDC milli 2009-2013.

Þó hér sé ekki um beinar mælingar að ræða, þá fer ekki milli mála hvert stefnir.

Fyrir tveimur árum síðan kom út ítarleg grein um ástand hafíssins á Norðurskautinu. Þar er farið yfir þá vísa (e. proxys) sem til eru um útbreiðslu hafíss síðastliðin 1450 ár (sjá Kinnard o.fl. 2011). Kinnard og félagar söfnuðu saman 69 gagnasettum sem vísa í útbreiðslu hafíss á Norðurskautinu, ýmist beint eða óbeint. Mest voru notaðir borkjarnar í jökulís, en einnig trjáhringjarannsóknir, vatnaset og söguleg gögn þar sem minnst var á hafís. Mikið af vísunum geyma vísbendingar eða merki sem eru önnur en frá útbreiðslu hafíss – þá sérstaklega hitastig – en tölfræðilega greiningin sem notuð er veitir höfundum möguleika á að einangra frá breytileika í gögnunum sem þá er frábrugðinn hitamerkinu.

Sú tölfræðilega greining sýndi góða fylgni við hafísútbreiðslu síðsumars (ágúst), bæði fyrir allt Norðurskautið sem og fyrir gögn sem tengdust sérstaklega hafisútbreiðslu við Rússland. Samkvæmt greiningunni þá voru gögnin nægilega nákvæm til að áætla um útbreiðslu hafíss síðastliðin 1450 ár.

Áætluð hafísútbreiðsla síðastliðin 1450 ár samkvæmt Kinnard o.fl. 2011.

Meiri óvissa er eftir því sem farið er lengra aftur í tíman – þá aðallega vegna þess að þau gögn sem nothæf eru fækkar. Engu að síður er augljóst að í lok tuttugustu aldar er niðursveiflan fordæmalaus – allavega síðastliðin 1450 ár – bæði hvað varðar magn og lengd tímabils. Undanfarin ár hefur ísinn þíðan minnkað enn meir.

Þessi mynd hefur verið staðfest af fleirum, m.a. Polyak o.fl. (2010), en greining þeirra bendir til þess að bráðnun hafíss nú sé meiri en verið hefur síðastliðin nokkur þúsund ár og ekki hægt að útskýra með náttúrulegum breytileika.

Ályktanir um að hafísinn sé að jafna sig er því úr lausu lofti gripnar og eingöngu til þess fallnar að villa um fyrir fólki.

Að lokum er hér gott myndband eftir Peter Hedfield, þar sem hann fer í gegnum mýtuna um að hafísinn á Norðurskautinu sé að jafna sig:

Heimildir og ítarefni:

National Snow and Ice Data Center – A better year for the cryosphere

Polar Science Center: Arctic Sea Ice Volume Anomaly, version 2

Walsh & Chapman 2001:  20th-century sea-ice variations from observational data og viðbótargögn

Kinnard o.fl. 2011: Reconstructed changes in Arctic sea ice over the past 1,450 years

Yfirlitsgreinin um sögu hafíss birtist í Quaternary Science Review, Polyak o.fl. 2010: History of sea ice in the Arctic

Tengt efni á loftslag.is

 

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál