Það eru liðnar þó nokkrar vikur síðan ljóst varð að hafíslágmarkið í ár myndi slá öll fyrri met, með minni útbreiðslu en áður hefur mælst. Það stendur heima og vel það, þar sem metið frá því 2007 var slegið rækilega og var hafís útbreiðslan í ár 18% undir metinu frá því þá, eða 3,41 milljón ferkílómetrar (metið árið 2007 var 4,17 milljón ferkílómetrar) – sjá töflu hér undir.
Þann 16. september 2012 fór hafísútbreiðslan í 3,41 milljón ferkílómetra. Þetta virðist vera lágmark ársins í ár. Vegna kólnandi veðurs og lækkandi sólarstöðu mun hafísútbreiðslan líklega byrja að aukast að venju, þó slá megi þann varnagla að veður og vindar gætu enn ýtt lágmarkinu aðeins neðar.
Hafíslágmarkið í ár er 760 þúsund ferkílómetrum lægra en fyrra met frá 2007, sem átti sér stað 18. september 2007. Þetta jafngildir um það bil 7,6 sinnum stærð Íslands. Lágmarkið í ár er 3,29 milljón ferkílómetrum undir meðaltali hafíslágmarksins fyrir tímabilið 1979 – 2000. Lágmarkið í ár er því 18% undir 2007 mælingunum og 49% undir meðaltali tímabilsins 1979 til 2000.
Í allt var heildar bráðnun hafíssins í ár um 11,83 milljón ferkílómetrar af hafís, frá því hámarkinu var náð þann 20. mars í ár og þar til lágmarkinu var náð. Þetta er mesta hafísbráðnun frá því gervihnattamælingar hófust og meira en 1 milljón ferkílómetrum meiri en mælingar frá fyrri árum hafa sýnt. Á myndinni hér til hliðar má sjá hvernig aðstæður eru í ár, borið saman við miðgildi áranna 1979 til 2000 – klikkið á myndina til að stækka hana.
Sex lægstu lágmörk hafísútbreiðslu hafa öll mælst á síðustu 6 árum (2007 til 2012). Hér undir má sjá samanburð á nokkrum árum og tímabilum.
Í töflunni hér undir má sjá samanburðinn á milli ára og tímabila í tölugildum:
ÁR | LÁGMARKS HAFÍS | DAGSSETNING |
---|---|---|
MILLJÓN FERKÍLÓMETRAR | ||
2007 | 4,17 | 18. september |
2008 | 4,59 | 20. september |
2009 | 5,13 | 13. september |
2010 | 4,63 | 21. september |
2011 | 4,33 | 11. september |
2012 | 3,41 | 16. september |
1979 – 2000 meðaltal | 6,70 | 13. september |
1979 – 2010 meðaltal | 6,14 | 15. september |
Sá veruleiki sem við blasir er undir þeim framtíðarspám sem hafa verið gerðar, sjá mynd hér undir. Það má jafnvel spá í það hvort að verstu spár varðandi þróun hafísútbreiðslu geti orðið að veruleika. Þess má geta að hafísinn er þynnri en áður og það bendir til að það geti orðið stutt í að við upplifum Norðuskaut án hafíss á þessum tíma árs.
Nánari upplýsingar, heimildir og ítarefni:
- Arctic sea ice extent settles at record seasonal minimum
- Arctic Sea Ice Blog – interesting news and data
Tengt efni á loftslag.is:
- Opinbert met – Hafís á Norðurhveli hefur aldrei mælst minni – 2-3 vikur eftir af bráðnunartímabilinu
- Öfgavetur í kjölfar mikillar bráðnunar hafíss á norðurslóðum
- Hafís Norðurskautsins síðastliðin 1450 ár
- Er hafís Norðurskautsins að jafna sig?
- Myndband um hafíslágmarkið 2011
- Hokkíkylfa eða hokkídeild?
- Frekari sönnunargögn um að hlýnun jarðar sé raunveruleg
- Bræðsluvertíðarlok á Norður-Íshafinu
Lítur ekki vel út. Sérstaklega ekki síðasta myndin. En hvernig er það Sveinn, eru ekki til ný módel sem nota stöðuna í dag sem útgangspunkt?
Gerðu upphaflegu spárnar ekki ráð fyrir því að þetta myndi kannski gerast árið 2030 eða seinna?
Hafþór Örn
Ég hef séð einhverja umfjöllun (og einhver gröf, sem ég finn ekki í fljótu bragði) þar sem reynt er að spá fyrir um þróunina miðað við núverandi stöðu. Sumir telja að það geti orðið íslaust innan 10 ára, aðrir telja að það muni taka meiri tíma – en það er kannski aukaatriði í stóra samhenginu, hvort það tekur 5 eða 50 ár, aðalatriðið er að ísinn er að bráðna vegna hækkandi hitastigs af manna völdum – og það er svo sem ekkert sem bendir til þess að sú þróun muni snúa við. Hér undir er tengill á grein þar sem aðeins er fjallað um þetta, Arctic “death spiral” leaves climate scientists shocked and worried. Þarna kemur meðal annars fram að einn sérfræðingur að nafni Wadham (sem hefur verið með sterkar yfirlýsingar að undanförnu) telji að hafíssinn gæti hugsanlega horfið eftir um 4 ár…eða eins og það er orðað í greininni:
albert
Þegar maður lítur á síðasta grafið, þá er ljóst að spárnar gerðu ekki ráð fyrir að þessum punkti yrði náð fyrr en eftir einhverja áratugi, jafnvel ekki fyrr en um eða eftir 2050…þannig að það má kannski segja að verra en verstu spár séu að verða að veruleika varðandi bráðnun hafíssins.