Undanfarnar vikur og mánuðir hafa vakið athygli áhugamanna um loftslagsmál, en upp á síðkastið hafa vísindamenn verið afdráttarlausir í ákalli sínu til almennings og stjórnmálamanna um að það sé ekki lengur hægt að bíða eftir aðgerðum – draga verði úr bruna jarðefnaeldsneytis og þar með styrkaukningu CO2 í andrúmsloftinu.
Samstarf Breta og Bandaríkjamanna
Í febrúar bárust fréttir af því að tvær af virtustu vísindastofnunum heims hefðu útbúið í sameiningu bækling um loftslagsmál, en það eru annars vegar hin breska Konunglega Vísindaakademía (Royal Society) og hins vegar Vísindaráð Bandaríkjanna (National Academy of Science). Þessi bæklingur er settur upp á sem einfaldastan hátt og er fyrri hlutinn byggður upp af lykilspurningum, sem svarað er á einfaldan hátt með nánari útskýringum. Í seinni hluti hans er farið yfir grunnatriði kenningarinnar um hin auknu gróðurhúsaáhrif af mannavöldum.
Sem dæmi er hér ein spurning úr skýrslunni, ásamt stutta svarinu:
Þýðir minni hitaaukning undanfarið að loftslagsbreytingar séu hættar?
Nei. Árið 1998 var mjög hlýtt vegna óvenjulega sterks El Nino og því virðist hitaaukning við yfirborð jarðar ekki eins hröð samanborið við aukninguna áratuginn þar á undan. Þrátt fyrir það, þá var fyrsti áratugur þessarar aldar heitari en seinasti áratugur síðustu aldar. Minni hitaaukning í skamman tima, breytir ekki skilning okkar á langtímabreytingum í hnattrænum hita vegna aukningar á gróðurhúsalofttegundum af mannavöldum.
Hér má lesa um bækling Konunglegu Vísindaakademíunnar og Vísindaráðs Bandaríkjanna af heimasíðu Royal Society: Climate Change: Evidence & Causes. PDF: Climate Change: Evidence & Causes. Einnig má lesa fjölmargar aðrar spurningar og svör vísindamannanna hér.
Hér er kynningarmyndband frá sömu stofnunum um bæklinginn og vísindin sem liggja á bak við hann.
Ein stærstu óháðu vísindasamtök heims stíga einnig fram
- Vísindamenn eru sammála: loftslagsbreytingar eru hér og nú. Á grunni vel ígrundaðra gagna, hafa um 97% loftslagsvísindamanna komist að þeirri niðurstöðu að loftslagsbreytingar séu í gangi, hér og nú. Þessi samhljómur byggist ekki á einni rannsókn, heldur á stöðugum straumi gagna síðastliðna tvo áratugi..
- Við eigum á hættu að keyra loftslagskerfi jarðar í átt að óvæntum, ófyrirsjáanlegum og hugsanlega óafturkræfum breytingum með mjög skaðvænlegum áhrifum. Loftslag jarðar er á braut til hitastigs sem er hærra en jarðarbúar hafa upplifað í milljónir ára. Innan vikmarka þess hitastigs sem núverandi losun við bruna jarðefnaeldsneytis munu valda, eru hitar sem taldir eru geta eyðilegt í stórum stíl samfélög og vistkerfi..
- Því fyrr sem við bregðumst við því minni verður áhættan og kostnaðurinn og það er margt hægt að gera. Að bíða með aðgerðir mun auka kostnað, margfalda áhættu og loka á ýmsa möguleika til að takast á við vandann. Það koldíoxíð sem við framleiðum nú, safnast fyrir í lofthjúp jarðar og er þar í áratugi, aldir og lengur..
Consensus Sense from What We Know on Vimeo.
Alþjóða Veðurfræðistofnunin afdráttarlaus
Auk öfgahitanna í Ástralíu má nefna að víða um heim var óvenjuöfgafull úrkoma, meira um ákafa hita og meira tjón vegna flóða af völdum storma og hækkandi sjávarstöðu.
Hægt er að lesa yfirlýsingu WMO hér- PDF: WMO Statement on the status of the global climate in 2013
Loftslagsnefnd Sameinuðu Þjóðanna skilar inn svartri skýrslu
Að lokum er nauðsynlegt að nefna það að vinnuhópur II hjá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) er nýbúin að skila inn skýrslu sinni um afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir náttúru og samfélög og til hvaða úrræða megi grípa til þess að aðlagast breytingunum. Hér er um að ræða fimmtu úttekt nefndarinnar og er hún mun hispurslausari en fyrri úttektir.
Skýrslan virðist staðfesta að breytingar eru hraðari en reiknað var með. Skýrslan dregur fram líklegar afleiðingar, breytingar á búsvæðum tegunda til lands og sjávar, mikla fólksflutninga frá svæðum sem verst fara út úr breytingum, sem eru raunar fjölmenntustu landsvæði jarðar, alvarlegan samdrátt í vatnsbúskap og meiri áhrif til hins verra fyrir fæðuframleiðslu og fæðuöryggi jarðarbúa. Sem dæmi um neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á jarðrækt (af heimasíðu Veðurstofunnar):
Fjöldi rannsókna, frá ólíkum svæðum og á mörgum nytjategundum, sýnir að loftslagsbreytingar hafa oftar neikvæð áhrif á jarðrækt en jákvæð. Þær rannsóknir sem sýna jákvæð áhrif eiga við um köld svæði og er ekki enn ljóst hvort áhrifin þar eru í heildina jákvæð eða neikvæð. Loftslags-breytingar hafa haft neikvæð áhrif á maís- og hveitirækt á mörgum svæðum og í heildina þegar litið er til jarðarinnar allrar. Á hinn bóginn eru áhrif á sojabauna- og hrísgrjónarækt víðast hvar lítil eða ekki merkjanleg. Áhrifin eru einkum á framleiðslu matvara en síður á dreifingu, aðgengi eða aðra þætti sem lúta að fæðuöryggi. Síðan síðasta skýrsla IPCC kom út árið 2007 hafa skyndilegar en tímabundnar verðhækkanir á kornvöru og matvælum fylgt í kjölfar óvenjulegs veðurfars á mikilvægum framleiðslusvæðum. Sýnir það að þessir markaðir eru m.a. viðkvæmir fyrir óvenjulegu veðurlagi.
Hægt er að lesa samantektarskýrsluna hér-PDF: Summary for Policymakers. Góð samantekt er á heimasíðu Veðurstofunnar, Áhrif loftslagsbreytinga: Úttekt vinnuhóps 2 hjá IPCC
Tengt efni á loftslag.is
- IPCC 2013 – skýrsla vinnuhóps 1
- Aukið við yfirlýsingu
- Yfirlýsing frá breska jarðfræðafélaginu um loftslagsbreytingar
- Yfirlýsing frá Vísindaráði Bandaríkjanna
- Yfirlýsing GSA um loftslagsbreytingar
Leave a Reply