Þó hlutverk skýrslunnar sé fyrst og fremst að fræða vísindamenn IPCC í hvernig best er að koma staðreyndum til almennings, þá getur verið áhugavert fyrir þá sem fjalla um loftslagmál sem og áhugasaman almenning að skoða skýrsluna.
Hér fyrir neðan er kynning á þeim 6 aðferðum sem rætt er nánar í handbókinni:
Aðferðirnar eru eftirfarandi (lauslega þýtt):
Vertu örugg(ur) í miðlun upplýsinga
Ræddu hinn raunverulega heim, ekki óhlutbundnar hugmyndir
Tengdu við það sem skiptir máli fyrir þinn áheyrandahóp
Byrjum þessa færslu á algerri endurtekningu frá síðasta ári.
“Enn og aftur er komið að því að skoða árið sem var að líða með fókus á hitastig í heiminum. Það virðist vera orðið venja að það ár sem er nýliðið í hvert og eitt skiptið sé meðal 10 heitustu ára frá upphafi og á því varð engin breyting í ár” [2013 – enn eitt hlýtt ár og hnatthitaspámeistari ársins]. 2014 var hlýjasta ár frá upphafi mælinga í gagnasafni NASA GISS og endaði árið með hitafráviki upp á +0,68°C og einnig í gagnasafni NOAA, en þar endaði árið með hitafráviki upp á +0,69°C.
Hitafrávik 1880 – 2014 blá lína. Appelsínugul lína er 5 ára hlaupandi meðaltal. [Heimild http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt]
Janúar 2015
Nýjustu tölur um hitafrávik í byrjun árs 2015 eru komnar í hús og er hitafrávikið 0,75°C í gagnaröð NASA GISS og 0,77°C hjá NOAA. Í báðum tilfellum var mánuðurinn í öðru sæti yfir hlýjustu janúarmánuði frá upphafi mælinga.
Hnatthitaspámeistarinn 2014
Undanfarin ár höfum við á loftslag.is verið með smá leik á upphafi árs þar sem er spáð fyrir um komandi ár. Spáð er í hitafrávik ársins sem er nýhafið og höfum við notað NASA GISS sem viðmið. Á síðasta ári voru fjórir sem treystu sér í að spá fyrir um 2014 og var spáin eftirfarandi:
Spá 2014
Spá
Höskuldur Búi
+0,63°C
Sveinn Atli
+0,64°C
Jón Erlingur
+0,66°C
Emil Hannes
+0,68°C
Þar sem árið 2014 endaði í +0,68°C þá er augljóst að Emil Hannes negldi þetta og er því hér með krýndur Hnatthitaspámeistari 2014. Hann var einnig meistari ársins 2013 og hefur því endurtekið leikinn frá síðasta ári og óskum við á loftslag.is honum hjartanlega til hamingju.
Það væri gaman að fá enn fleiri hnatthitaspámenn þetta árið, líka þeir sem telja að kólnun sé í nánd og jafnvel byrjuð – það væri spennandi að sjá þeirra spár til samanburðar.
Árið 2015 – vangaveltur og spá
Þá er komið að því að setja sig í spámannsstellingar á ný eins og undanfarin ár. Með hættu á því að endurtaka mig, þá ætla ég að byrja á því að ræða um El Nino ástandið í Kyrrahafinu sem gæti haft áhrif í ár, það hefur yfirleitt þau áhrif að hitastig á heimsvísu hækkar. Þar sem talið er líklegt að El Nino verði í gangi fyrri hluta ársins, þá ætla ég að spá því að það ástand fari í gang í ár og að það muni hafa áhrif til hækkunar frá árinu 2014. Það er svo spurning hversu langan tíma af árinu það ástand gæti varað. Til að gera langa sögu stutta, þá ætla ég að spá lítilsháttar hækkun hitastigs árið 2015, frá því sem var 2014, eða um +0,02°C hærra en 2014 endaði í, sem er þá hitafrávik upp á +0,70°C fyrir árið 2015. Sem yrði þá heitasta ár frá upphafi mælinga árið 1880 ef litið er á gögn NASA GISS. Miðað við byrjun ársins, hitafrávik janúarmánaðar var +0,75°C, þá er þetta kannski ekki svo fjarstæðukennd spá, en það getur allt gerst.
Við hvetjum hér með lesendur loftslag.is að spreyta sig í þessari skemmtilegu keppni – hver verður Hnatthitaspámeistari fyrir árið 2015? Spár má setja inn í athugasemdir við færsluna og mun það gilda sem skráning. Það væri líka fróðlegt að fá spár frá kólnunarsinnum.
Undanfarnar vikur og mánuðir hafa vakið athygli áhugamanna um loftslagsmál, en upp á síðkastið hafa vísindamenn verið afdráttarlausir í ákalli sínu til almennings og stjórnmálamanna um að það sé ekki lengur hægt að bíða eftir aðgerðum – draga verði úr bruna jarðefnaeldsneytis og þar með styrkaukningu CO2 í andrúmsloftinu.
Samstarf Breta og Bandaríkjamanna
Í febrúar bárust fréttir af því að tvær af virtustu vísindastofnunum heims hefðu útbúið í sameiningu bækling um loftslagsmál, en það eru annars vegar hin breska Konunglega Vísindaakademía (Royal Society) og hins vegar Vísindaráð Bandaríkjanna (National Academy of Science). Þessi bæklingur er settur upp á sem einfaldastan hátt og er fyrri hlutinn byggður upp af lykilspurningum, sem svarað er á einfaldan hátt með nánari útskýringum. Í seinni hluti hans er farið yfir grunnatriði kenningarinnar um hin auknu gróðurhúsaáhrif af mannavöldum.
Sem dæmi er hér ein spurning úr skýrslunni, ásamt stutta svarinu:
Þýðir minni hitaaukning undanfarið að loftslagsbreytingar séu hættar?
Nei. Árið 1998 var mjög hlýtt vegna óvenjulega sterks El Nino og því virðist hitaaukning við yfirborð jarðar ekki eins hröð samanborið við aukninguna áratuginn þar á undan. Þrátt fyrir það, þá var fyrsti áratugur þessarar aldar heitari en seinasti áratugur síðustu aldar. Minni hitaaukning í skamman tima, breytir ekki skilning okkar á langtímabreytingum í hnattrænum hita vegna aukningar á gróðurhúsalofttegundum af mannavöldum.
Hér er kynningarmyndband frá sömu stofnunum um bæklinginn og vísindin sem liggja á bak við hann.
Ein stærstu óháðu vísindasamtök heims stíga einnig fram
AAAS, The American Association for the Advancement of Science eru alþjóðleg samtök vísindamanna sem, eins og nafnið gefur til kynna, stuðlar að framgangi vísinda, en samtökin gefa meðal annars út hið virta tímarit Science. Í mars opnuðu samtökin heimasíðu og gáfu út bækling sem heitir Það sem við vitum (e. What We Know). Helstu punktarnir eru þessir:
Vísindamenn eru sammála: loftslagsbreytingar eru hér og nú. Á grunni vel ígrundaðra gagna, hafa um 97% loftslagsvísindamanna komist að þeirri niðurstöðu að loftslagsbreytingar séu í gangi, hér og nú. Þessi samhljómur byggist ekki á einni rannsókn, heldur á stöðugum straumi gagna síðastliðna tvo áratugi..
Við eigum á hættu að keyra loftslagskerfi jarðar í átt að óvæntum, ófyrirsjáanlegum og hugsanlega óafturkræfum breytingum með mjög skaðvænlegum áhrifum. Loftslag jarðar er á braut til hitastigs sem er hærra en jarðarbúar hafa upplifað í milljónir ára. Innan vikmarka þess hitastigs sem núverandi losun við bruna jarðefnaeldsneytis munu valda, eru hitar sem taldir eru geta eyðilegt í stórum stíl samfélög og vistkerfi..
Því fyrr sem við bregðumst við því minni verður áhættan og kostnaðurinn og það er margt hægt að gera. Að bíða með aðgerðir mun auka kostnað, margfalda áhættu og loka á ýmsa möguleika til að takast á við vandann. Það koldíoxíð sem við framleiðum nú, safnast fyrir í lofthjúp jarðar og er þar í áratugi, aldir og lengur..
Í lok síðasta mánaðar kom út árleg yfirlýsing Alþjóða Veðurfræðistofnuninni, WMO – World Meteorological Organization um veður síðasta árs. Auk yfirlits um veðurfar síðasta árs sem var öfgafullt víða um heim, var farið sérstaklega yfir óvenjulega hita sem voru á Ástralíu árið 2013 og sérstaklega yfir sumarið.
Í yfirlýsingunni kemur fram að jörðin haldi áfram að hitna, en 13 af 14 heitustu árum frá upphafi mælinga urðu á þessari öld og að fyrsti áratugur þessarar aldar sé heitastur. Þó náttúruhamfarir verði án loftslagsbreytinga af mannavöldum, þá er talað um að þær séu að auka líkurnar og styrk öfgaveðurs. Í yfirlýsingunni er fyrrnefnt dæmi um óvenjulega hita í Ástralíu tekið sem dæmi og er WMO frekar afdráttarlaust varðandi þann atburð, en talið er að öfgarnir í hita Ástralíu hefðu verið nánast útilokaðir án loftslagsbreytinga af mannavöldum.
Auk öfgahitanna í Ástralíu má nefna að víða um heim var óvenjuöfgafull úrkoma, meira um ákafa hita og meira tjón vegna flóða af völdum storma og hækkandi sjávarstöðu.
Loftslagsnefnd Sameinuðu Þjóðanna skilar inn svartri skýrslu
Að lokum er nauðsynlegt að nefna það að vinnuhópur II hjá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) er nýbúin að skila inn skýrslu sinni um afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir náttúru og samfélög og til hvaða úrræða megi grípa til þess að aðlagast breytingunum. Hér er um að ræða fimmtu úttekt nefndarinnar og er hún mun hispurslausari en fyrri úttektir.
Skýrslan virðist staðfesta að breytingar eru hraðari en reiknað var með. Skýrslan dregur fram líklegar afleiðingar, breytingar á búsvæðum tegunda til lands og sjávar, mikla fólksflutninga frá svæðum sem verst fara út úr breytingum, sem eru raunar fjölmenntustu landsvæði jarðar, alvarlegan samdrátt í vatnsbúskap og meiri áhrif til hins verra fyrir fæðuframleiðslu og fæðuöryggi jarðarbúa. Sem dæmi um neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á jarðrækt (af heimasíðu Veðurstofunnar):
Fjöldi rannsókna, frá ólíkum svæðum og á mörgum nytjategundum, sýnir að loftslagsbreytingar hafa oftar neikvæð áhrif á jarðrækt en jákvæð. Þær rannsóknir sem sýna jákvæð áhrif eiga við um köld svæði og er ekki enn ljóst hvort áhrifin þar eru í heildina jákvæð eða neikvæð. Loftslags-breytingar hafa haft neikvæð áhrif á maís- og hveitirækt á mörgum svæðum og í heildina þegar litið er til jarðarinnar allrar. Á hinn bóginn eru áhrif á sojabauna- og hrísgrjónarækt víðast hvar lítil eða ekki merkjanleg. Áhrifin eru einkum á framleiðslu matvara en síður á dreifingu, aðgengi eða aðra þætti sem lúta að fæðuöryggi. Síðan síðasta skýrsla IPCC kom út árið 2007 hafa skyndilegar en tímabundnar verðhækkanir á kornvöru og matvælum fylgt í kjölfar óvenjulegs veðurfars á mikilvægum framleiðslusvæðum. Sýnir það að þessir markaðir eru m.a. viðkvæmir fyrir óvenjulegu veðurlagi.
Þeir sem fylgjast með loftslagsvísindum vita að nú hefur birst uppkast að fyrstu skýrslunni af þremur um loftslagsmál á vegum IPCC (AR5). Um er að ræða skýrslu vinnuhóps 1 sem heldur utan um þá vísindalegu þekkingu sem til er varðandi veðurfar og loftslagsbreytingar. Vinna þessa hóps fær yfirleitt mesta athygli, en vinnuhópar 2 og 3 fjalla um aðlögun og aðgerðir vegna loftslagsbreytinga.
Þó að heildarniðurstaðan sé svipuð og í síðustu skýrslu, sem birtist árið 2007 (AR4), þá er ýmislegt sem hefur breyst frá því þá. Niðurstaðan er þó orðin ljósari en áður og lítill vafi virðist vera á mannlegum orsökum núverandi hlýnunar. Hér er stutt samantekt á því sem helst ber á milli skýrslunar frá 2007 og þeirrar nýju. Þetta er alls ekki tæmandi listi, enda hafa fjölmargar vísindagreinar, nokkur ár af nýjum gögnum og ný og fullkomnari líkön bæst við í sarpinn síðan síðasta skýrslan kom fram. Helstu breytingar sem við veljum að nefna hér eru eftirtaldar:
Kólnunaráhrif arða í lofthjúpnum eru taldar minni en áður áætlað
Framlag sólarinnar til hækkunar hitastigs frá 1750 er talið minna en áður áætlað
Sjávarstaða á heimsvísu er talið munu rísa meira en áður var áætlað fyrir árið 2100
Það er minni vissa um að aukning úrkomu hafi átt sér stað – en meiri vissa um aukna úrkomu í framtíðinni
Það er ekki breyting í vissu um að tíðni mikillar úrkomu hafi aukist – en meiri vissa að mikil úrkoma muni aukast í framtíðinni
Það er engin breyting á fyrri ályktunum varðandi leitni flóða, hvorki í fortíð né framtíð
Það er minni vissa um aukningu þurrka eða að það hafi orðið sjáanleg breyting í þurrkum frá 1950
Það er minni vissa um aukningu fellibylja
Neðri mörk jafnvægissvörunar loftslags var fært úr 2°C í 1,5°
Nýjar rannsóknir og betri greiningartækni hefur aukið þekkingu vísindamanna á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Þrátt fyrir það eru óvissuþættir nokkrir og hafa jafnvel aukist í sumum þáttum frá síðustu skýrslu.
Samantekt á hitamælingum. a) Tímaraðir sem sýna breytingar í hnattrænu ársmeðaltali. Sýndar eru samantektir þriggja stofnana. b) Áratugameðaltöl gagnanna í a). c) Kort af hitabreytingum í MLOST gagnasafninu fyrir tímabilið 1901 til 2012. Hitabreytingin er reiknuð út frá hallatölu bestu línu gegnum gagnasafnið í hverjum reit. Gerð er krafa um að gögn séu til staðar fyrir a.m.k. 70% tímabilsins, og a.m.k. 20% tímans fyrstu og síðustu 11 árin. Mynd Veðurstofa Íslands.
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er mjög líklegt (extremely likely), eða yfir 95% líkur að athafnir manna hafi valdið meira en helming þeirrar hlýnunar sem varð frá 1951-2010. Sú vissa hefur aukist frá því að vera yfir 90% eða líklegt samkvæmt skýrslunni 2007. Áhrif aukinna gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eru margvísleg. Sjávarstaða hækkar, úrkomumynstur breytast, hafís og jöklar minnka – en allir þessir þættir eru í neikvæðara ástandi en áður var talið.
Einn mikilvægur punktur er að breyting hefur orðið á loftslagslíkönum og notaðar aðrar sviðsmyndir. Hver ný sviðsmynd um losun (RCP – Representative Concentration Pathway) er fulltrúi ákveðins geislunarálags – eða hversu mikla auka orku jörðin mun taka til sín vegna athafna manna. Hin nýju RCP líkön ná yfir stærra svið framtíðarhorfa en gömlu SRES sviðsmyndirnar og því varasamt að bera saman líkön AR4 og AR5.
Kólnunaráhrif arða í lofthjúpnum eru taldar minni en áður áætlað
Örður hafa áhrif á loftslag á tvennan hátt, annars vegar með því að dreifa sólarljósi aftur út í geim og hins vegar með því að mynda ský. Loftslagslíkön taka nú í meira magni inn þátt skýja og ferli tengd örðum. Niðurstaða nákvæmari líkana valda því að kólnunaráhrif arða virðast minni en áður hefur verið talið. Þrátt fyrir aukna þekkingu og nákvæmari líkön þá eru örður enn stærsti óvissuþátturinn við að meta hversu mikil hlýnunin er og verður af völdum manna. Þessi óvissa veldur einnig óvissu við fínstillingu jafnvægissvörunar loftslags (sjá nánari umfjöllun um jafnvægissvörun loftslags hér neðar).
Framlag sólarinnar til hækkunar hitastigs frá 1750 er talið minna en áður áætlað
Í nýju skýrslunni eru nokkrar rannsóknir teknar með þar sem könnuð eru áhrif sólar á loftslag með því að breyta skýjahulu. Niðurstaða skýrslunnar eru þó þær að þau áhrif séu lítil og hafi verið léttvæg síðastliðna öld. Ennfremur er fylgni milli útgeislun sólar og hitabreytinga mjög lítil. Á milli áranna 1980 og 2000 hækkaði hitastig hratt, á sama tíma og sólvirkni minnkaði.
Þó að sólvirkni hafi minnkað frá árinu 1980 og til dagsins í dag, sem veldur neikvæðu geislunarálagi, þá er það þannig að ef skoðað er tímabilið frá upphafi iðnbyltingarinnar (frá 1750 og þar til nú), þá er geislunarálagið jákvætt. En áframhaldandi niðursveifla í sólvirkni hefur orðið til þess að geislunarálag sólarinnar hefur minnkað frá síðustu skýrslu.
Vissan er lítil varðandi spádóma um framtíðarsólvirkni. Því reikna líkön með því að sólvirkni haldist óbreytt. Ekki er talið líklegt að loftslag hverfi aftur til þess tíma þegar litla ísöldin var og hét vegna minnkandi sólvirkni (minna en 10% líkur), enda muni hlýnun af mannavöldum yfirskyggja minnkandi sólvirkni.
Sjávarstaða á heimsvísu er talin munu rísa meira en áður var áætlað fyrir 2100
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er talið líklegt (a.m.k. 66% vissa) að sjávarstaða verði 0,29-0,82 m hærri í lok aldarinnar en á viðmiðunartímabilinu 1986-2005, samkvæmt öllum sviðsmyndum. Þetta er hærra en árið 2007, en þá var talið líklegt að sjávarstaða myndi hækka frá 0,18-0,59 m.
Framlag Grænlands og Suðurskautsins til hærri sjávarstöðu hefur hækkað frá síðustu skýrslu. Þekking vísindamanna á eðlisfræði jökulhvela hefur aukist, auk þess sem gögn eru mun betri sem sýna bráðnun og hreyfingu jökla.
Við síðustu skýrslu þá var vísindaleg þekking talin ófullnægjandi til að meta líklegar sjávarstöðuhækkanir. Þekkingin hefur styrkst en samt er aðeins meðal vissa um framtíðarsjávarstöðuhækkanir. Það er að hluta til vegna þess að mat á hreyfingum jökla er tiltölulega nýtt og vegna þess að nokkur munur er á þeim líkönum sem meta sjávarstöðubreytingar.
Það er minni vissa um að aukning úrkomu hafi átt sér stað – en meiri vissa um aukna úrkomu í framtíðinni
Vissan hefur minnkað frá síðustu skýrslu um að úrkoma hafi aukist frá árinu 1900. Hins vegar er vissan meiri en síðast eða nánast öruggt (yfir 99% líkur) að meðalúrkoma muni aukast hnattrænt um 1-3% við hverja °C hækkun hitastigs.
Breytileiki verður nokkur milli svæða, en almennt séð þá verða blaut svæði blautari og þurr svæði geta orðið þurrari. Það væri í samræmi við þá leitni sem sést hefur með gervihnöttum frá árinu 1979.
Fram til ársins 2100 verða úrhellisatburðir mjög líklegir á sumum svæðum (yfir 90% líkur), hér hefur vissa aukist frá síðustu skýrslu. Þeir atburðir verða öfgafyllri en geta þó orðið sjaldnar. Í heildina er búist við að öfgar í úrkomu muni breytast hraðar en meðalaukning í úrkomu við hækkandi hita.
Mögulegar breytingar til loka þessarar aldar. a) Hnattræn hlýnun fyrir mismunandi sviðsmyndir. Sýnd eru vik frá meðalhita áranna 1986 – 2005. b) Hafísútbreiðsla á norðurhveli að hausti (5 ára hlaupandi meðaltal). c) Hnattrænt meðaltal sýrustigs sjávar. Ferillinn (og gráa umslagið) sem sýndur er fyrir 2005 er reiknaður með þekktum mæliröðum af styrk gróðurhúsalofttegunda, ryks og annarra þátta sem hafa áhrif á geislunarjafnvægi. Bláu og rauðu ferlarnir eftir 2005 sýna útreikninga fyrir tvær mismunandi sviðsmyndir um losun gróðurhúsa-lofttegunda en súlurnar lengst til hægri sýna meðaltal fleiri sviðsmynda, fyrir árin 2081 – 2100. Rauða og bláa umslagið sýna dreifingu líkanreikninga. Fjöldi líkana sem notaður var í hverju tilviki er sýndur á myndunum en á mynd b) er einnig sýndur innan sviga fjöldi líkana sem náðu vel að herma eftir meðalhafísþekju 1979 – 2012. Mynd Veðurstofa Íslands
Það er engin breyting á fyrri ályktunum varðandi leitni flóða, hvorki í fortíð né framtíð
Bæði þá og nú, hafa vísindamenn ekki séð neina leitni flóða og því lítil vissa um breytingar á stærð og tíðni flóða hnattrænt. Ennfremur eru engir spádómar um aukin flóð í framtíðinni.
Það er minni vissa um aukningu þurrka eða að það hafi orðið sjáanleg breyting í þurrkum frá 1950
Samkvæmt uppkasti nýju skýrslunnar þá er lítil vissa um að breytingar hafi orðið á þurrkum hnattrænt frá árinu 1950 og að menn eigi þar þátt í breytingum á þurrkum.
Varðandi framtíðina, þá þykir líklegt (a.m.k. 66% vissa) að sum svæði muni finna fyrir auknum þurrkum, en hnattrænt er óvissan mikil.
Það er minni vissa um aukningu fellibylja
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er minni vissa um að það hafi orðið langtímaaukning í fellibyljum hnattrænt og lítil vissa um þátt manna í þeim breytingum. Ástæðan er endurgreining gagna, þar sem tekið er meira tillit til auðveldara aðgengi að gögnum. Nýrri gögn benda til þess að að núverandi breytingar séu mögulega innan náttúrulegs breytileika.
Meðal vissa er um að tíðni fellibylja muni minnka eða haldast stöðugt í framtíðinni. Hins vegar er líklegra en ekki að tíðni sterkustu fellibyljana muni aukast (meira en 50% líkur) á þessari öld
Neðri mörk jafnvægissvörunar loftslags var fært úr 2°C í 1,5°C
Jafnvægissvörun loftslags við tvöföldun CO2 í andrúmsloftinu er oft notað til að reikna út hækkun hitastigs í framtíðinni, sjá m.a. Jafnvægissvörun loftslags hér á loftslag.is. Í nýju skýrslu IPCC er þessi jafnvægissvörun hitastigs talin geta verið á bilinu 1,5° – 4,5°C. Breytingin frá fyrri skýrslu er sú að lægra gildið hefur lækkað úr 2°C í 1,5°C – en efri mörkin eru enn þau sömu. Þessi lækkun neðri markanna virðist byggjast á stöðnun í hækkun hitastigs andrúmslofts við yfirborð jarðar á síðasta áratug.
Þessa stöðnun í hækkun hitastigs andrúmslofts við yfirborð jarðar hefur verið útskýrð á ýmsan hátt, m.a. með þeirri staðreynd að yfir 90% af hlýnun jarðar nú um stundir virðist fara í höfin og hefur verið bent á að þessi breyting geti verið gagnrýni verð. En útreikningar á því hvernig hitastig er talið getað hækkað fram að 2100 í skýrslunni eru væntanlega gerðir í samræmi við þessa jafnvægissvörun og það gefur okkur því ekki miklar vonir um væga útkomu þó neðri mörkin hafi færst lítillega til.
Lokaorð
Þessi nýja skýrsla IPCC virðist staðfesta enn frekar að hnattræn hlýnun af mannavöldum er staðreynd og ef ekkert verður að gert, þá er enn meiri hækkun hitastigs í pípunm á næstu áratugum, sem er í samræmi við fyrri skýrslur og samdóma álit sérfræðinga á þessu sviði um langt skeið. Fram að 2100 þá er gert ráð fyrir að hitastig geti hækkað töluvert – allt eftir því hvaða sviðsmyndir í losun gróðurhúsalofttegunda eru skoðaðar. En í hnotskurn er staðan sú að eftir því sem meira af gróðurhúsalofttegundum er dælt út í andrúmsloftið (og hluti endar í hafinu líka og veldur m.a. súrnun sjávar) þá aukast líkurnar á meiri hækkun hitastigs og meiri súrnun sjávar sem hefur svo áhrif á aðra þætti eins og hafís, jökla, sjávarstöðu, vistkerfi sjávar o.s.frv.
Í dag og næstu daga er haldin ráðstefna í Stokkhólmi, en þar munu helstu höfundar væntanlegrar IPCC skýrslu, vinnuhóps 1 kynna niðurstöðu sína. Sú skýrsla verður birt á föstudaginn kemur. Síðasta skýrsla kom út árið 2007 og því hefur verið beðið í ofvæni eftir nýrri skýrslu, enda mikið af gögnum bæst í sarpinn auk nýrra vísindagreina.
Í Stokkhólmi munu vísindamenn kynna stjórnvöldum helstu ríkja heims, niðurstöðu áralangrar vinnu á vegum IPCC. Ein af líklegum niðurstöðum í skýrslunni er að yfir 95% líkur séu taldar að athafnir manna hafi stjórnað þeirri hitaaukningu sem orðið hefur undanfarna áratugi. Þá verður fókusinn eflaust á sjávarstöðubreytingar, minnkun hafíss og jökla, auk aukningar hitabylgja. Nánar verður farið í niðurstöður skýrslunnar þegar það kemur betur í ljós.
Talið er líklegt að vísindamenn þrýsti á að yfirvöld geri með sér samning fyrir árið 2015 um að draga sem mest úr áhrifum loftslagsbreytinga. Þá hafa samtök til verndar börnum verið áberandi síðustu daga, enda hafa slæm áhrif loftslagsbreytinga oft mikil áhrif á ungabörn sem verða oft fyrir barðinu á hungursneyðum.
Meðalútbreiðsla hafíss í ágúst 2011 var sú næst minnsta síðan gervihnattamælingar hófust árið 1979. Bæði Norðaustur- og Norðvesturleiðin virðast vera opnar fyrir siglingar. Í ágústmánuði var hafísútbreiðslan nokkuð nærri því þegar hafísútbreiðslan var minnst fyirr mánuðinn árið 2007. Það undirstrikar enn fremur þá áframhaldandi bráðnun hafíss sem á sér stað á Norðurskautinu.
Hafísútbreiðslan mun mjög líklega ná lágmarki ársins á næstu 2 vikum og munum við fylgjast með því hér á loftslag.is.
Meðal útbreiðsla hafíss í ágúst 2011 var 5,52 milljón ferkílómetrar. Það er 160.000 ferkílómetrum meira en fyrra met fyrir mánuðinn, sem var sett í ágúst 2007 og 2,15 milljón ferkílómetrum, eða 28% undir meðaltali áranna 1979 til 2000.
Í ágúst dregur úr áhrifum sólarljós á Norðurskautinu og það byrjar að draga verulega úr bráðnun hafíss. En þrátt fyrir að dregið hafi úr bráðnun í ágústmánuði, þá var bráðnunin meiri en í meðal ári, eða sem samsvarar 67.700 ferkílómetrum á dag. Til samanburðar þá var meðal bráðnun hafíss í ágúst fyrir árin 1979 til 2000 53.700 ferkílómetrar á dag, það munar um minna.
Meðal útbreiðsla hafíss í ágúst 2011 var sú næst minnsta fyrir mánuðinn. Þegar 2011 er tekin með, er línuleg leitni útbreiðslunar fyrir ágúst -9,3% á áratug.
En útbreiðsla hafíss segir ekki alla söguna, þar sem ísinn hefur einnig orðið þynnri. Hér að ofan er rúmmál hafíssins sýnt, en þynnri hafís þýðir minna rúmmál. Það má nú þegar sjá að rúmmál ársins er komið undir met síðasta árs og tími bráðnunarinnar er enn ekki liðin. Þróunin er ekki mjög uppörvandi og það má sjá töluverðan og marktækan mun á rúmmálinu núna og því sem var bara fyrir nokkrum árum síðan – t.d. í kringum aldamótin. Hér undir má svo sjá þessa þróun á annan hátt:
Já, það er eiginlega bara spurning um hvenær en ekki hvort að við fáum árlegt hafíslágmark þar sem ekki verður hafís að neinu ráði á Norðurskautinu…ef marka má þær leitni línur sem sýndar eru í grafinu.
Útbreiðsla hafíss, í júní 2011, á Norðurhvelinu var sú næst minnsta fyrir mánuðinn síðan gervihnattamælingar hófust árið 1979. Þar með er áframhald á hnignandi stöðu hafísins, sem er staðreynd síðustu ára og áratuga. Meðalútbreiðsla hafíss fyrir mánuðinn var undir júnímánuði 2007, en það ár endaði með lægstu útbreiðslu við enda bráðnunartímabilsins hingað til. Samt sem áður er útbreiðsla hafíss í júní í ár meiri en var í júní 2010. Nú nálgast krítískt tímabil varðandi bráðnunina, þar sem veður og vindar munu ráða úrslitum um hvort árið í ár verði nærri lágmarks útbreiðslunni 2007 (sem var um 4,13 milljón ferkílómetrar).
Meðal hafísútbreiðslan í júní 2011 var 11,01 milljón ferkílómetrar. Þetta er 140.000 ferkílómetrum undir núverandi minnstu útbreiðslu fyrir mánuðinn, frá júní 2010 og 2,15 milljón ferkílómetrum undir meðaltalinu fyrir árin 1979 til 2000.
Hafísútbreiðslan í júní 2011 minnkaði að meðaltali um 80.800 ferkílómetra á degi hverjum, sem er um 50% meiri bráðnun en meðaltalið var fyrir árin 1979 til 2000.
Hafísútbreiðsla fyrir júní 2011 er sú næst minnsta frá því gervihnattamælingar hófust, sem er í takt við minnkandi leitni í útbreiðslu hafís síðustu 30 árin. Lægst var hafísútbreiðslan fyrir júní 2010.
Lofthiti í júní var um 1 til 4 gráðum celsius hærri en að meðaltali fyrir mest allt Norðurskautið. Þó má sjá svæði á kortinu, hér að ofan, þar sem er eilítið kaldara en í meðalári. Ísland var einmitt statt á einu af þessum kaldari svæðum, eins og við höfum mörg upplifað hér á landi – og glögglega má sjá á þessu korti.
Hvernig er hitastig aprílmánaðar 2011 á heimsvísu? Hér má lesa um það hvort að mánuðurinn var kaldur eða hlýr á heimsvísu. Varðandi hitahorfur ársins 2011, þá má lesa nánar um það í færslunni Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011. Þar kemur m.a. fram að þetta ár byrjar í La Nina ástandi sem þýðir yfirleitt öðru óbreyttu að jafnaði kaldari ár en ella. Hvort það verður svo, á þó eftir að koma í ljós þegar líða tekur á árið. Apríl mánuður í ár er 7. heitasti apríl frá upphafi mælinga, en tímabilið janúar til apríl í ár er það 14. heitasta fyrir það tímabil. Þetta má sjá nánar í gröfunum hér undir.
Apríl 2011
Helstu atriði sýnd á myndum og gröfum, bæði fyrir mánuðinn apríl 2011 og tímabilið janúar – apríl.
Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastigsfrávikin fyrir apríl 2011.
Apríl
Frávik
Röð
(af 132 árum)
Heitasti/næst heitasti apríl
samkv. skrám
Á heimsvísu
Land
+1,12 ± 0,11°C
6. heitasti
2007(+1,44°C)
Haf
+0,39 ± 0,04°C
11. heitasti
2010 (+0,57°C)
Land og haf
+0,59 ± 0,07°C
7. heitasti
2010 (+0,78°C)
Norðuhvel jarðar
Land
+1,38 ± 0,15°C
4. heitasti
2000 (+1,62°C)
Haf
+0,34 ± 0,04°C
12. heitasti
2010 (+0,59°C)
Land og Haf
+0,73 ± 0,11°C
6. heitasti
2010 (+0,94°C)
Suðurhvel jarðar
Land
+0,43 ± 0,14°C
25. heitasti
2005 (+1,06°C)
Haf
+0,44 ± 0,04°C
10. heitasti
1998 (+0,61°C)
Land og Haf
+0,44 ± 0,06°C
13. heitasti
1998 (+0,66°C)
Og nú að hitafrávikunum fyrir tímabilið janúar til apríl 2011:
Janúar – apríl
Frávik
Röð
(af 132 árum)
Heitasta/næst
heitasta tímabilið
Á heimsvísu
Land
+0,74 ± 0,20°C
17. heitasta
2007 (+1,38°C)
Haf
+0,38 ± 0,04°C
11. heitasta
2010 (+0,56°C)
Land og Haf
+0,48 ± 0,09°C
14. heitasta
2010 (+0,72°C)
Í grafinu hér undir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:
Og svo hitafrávikin fyrir tímabilið janúar – apríl eftir árum.
Sjóher Bandaríkjanna mun þurfa að takast á við breytta heimsmynd vegna hnattrænnar hlýnunar, samkvæmt nýlegri skýrslu.
Fjölmargt er tínt til í skýrslunni, en meðal annars er það aukið eftirlit með Norðurskautinu og siglingaleiðum þar um vegna minnkandi hafíss – meiri umferð gerir það að verkum að fleiri skip lenda í sjávarháska á erfiðum norðurslóðunum.
Einnig má nefna kostnað vegna breytinga á hafnaraðstöðu til framtíðar vegna hækkandi sjávarstöðu – auk þess sem hærri sjávarstaða eykur á þörf þess að bregðast við flóðatjóni vegna storma við ströndina. Þá er ótalið hinn pólitíski óstöðugleiki sem verður vegna minna framboðs matvæla vegna aukinna þurrka og annarra loftslagstengdra vandræða.
Íshellur eru landfastur ís, sem getur bæði verið af jökuluppruna (skriðjökull – jökulstraumur), en einnig getur hann verið landfastur hafís sem hefur þykknað vegna snjóaalaga (oft í fjörðum). Þá geta íshellur verið hvoru tveggja (jökulís og landfastur ís). Íshellur eru því mjög stöðug form (hafa myndast á áratugum eða árhundruðum) og því þykir það nokkuð merkilegt þegar þær brotna upp.
Hér má sjá Larsen íshelluna sem var í fréttum fyrir nokkrum árum og hvernig hún hrundi saman.
Athugið að ekki er verið að tala um venjulegan hafís, en útbreiðsla hans sveiflast árstíðabundið eins og hafís Norðurskautsins. Hafís Suðurskautsins hefur í raun aukið útbreiðslu sína í heild undanfarna áratugi, nema í kringum Suðurskautsskagann (Antarctic Peninsula) – en þar er hlýnunin mest og íshellur að brotna upp. Hlýnun Skagans er um 2,5°C síðan 1950, sem er töluvert á jafn stuttum tíma (reyndar sá hluti jarðar sem er að hlýna hvað hraðast).
Uppbrotnun íshellna á Suðurskautsskaganum er talin tengjast að miklu leyti hlýnun jarðar, hlýrra loft og meiri bráðnun á íshellunni, auk þess sem hafís á þeim slóðum hefur minnkað útbreiðslu sína en hann var nokkur vörn fyrir hlýrri sjó sem nú nær að valda bráðnun á Skaganum.
Afleiðingar uppbrotnunar íshellna
Uppbrotnun íshellna hefur ekki bein áhrif á hækkun sjávarborðs, þar sem þær eru nú þegar fljótandi í sjó, en þær hafa óbein áhrif þar sem jökulstraumar eiga þá greiðari leið út í sjó – sem aftur getur valdið hækkunar sjávarstöðu (sjá t.d. frétt Jökulstraumur þynnist).
Bráðnun íshellunnar hefur þau áhrif að jökulstraumar eiga greiðari aðgang í skriði sínu í átt til sjávar.
Wilkins íshellan
Ný skýrsla um breytingar á syðri og kaldari hluta Suðurskautsskagans sýna umtalsverðar breytingar á íshellum síðastliðin 63 ár – sem vísindamenn tengja við hlýnun jarðar. Skýrslan sem gefin er út af USGS (U.S. Geological Survey) er tekin saman úr mörgum kortum, loftmyndum og gervihnattamyndum, sem skrásetur hvernig íshellan hefur verið að hopa.
Wilkins íshellan hefur verið að hopa undanfarna áratugi, mest þó síðustu ár.
Árið 2002 brotnaði Larsen hellan upp á norðausturhluta Suðurskautsskagans – um þrjú þúsund ferkílómetrar. Svipað hefur brotnað upp – í minni skömtum – síðastliðin 12 ár af Wilkins íshellunni sem er á suðvesturhluta Skagans. Það eru litlar líkur taldar til þess að íshellan muni ná aftur sömu stærð.
Það er talið víst að þessi breyting sé vegna hlýnunar, en óljóst er hvort þetta muni ná til annarra hluta Suðurskautsins, þó ekki sé hægt að útiloka það.