COP21 og grasrót vafans

Í tilefni hverrar einustu COP ráðstefnu hefur farið í gang maskína afneitunar um loftslagsfræðin og er eitt frægasta dæmið uppspuninn um hið svokallaða “Climategate” frá 2009. COP21 er engin undantekning, þó að það megi nú með sanni segja að afneitunin sé lágværari og mun minna áberandi en áður.  Afneitunin fær samt pláss á síðum Morgunblaðsins þann 1. desember 2015 og hafa þau skrif fengið pláss sem fréttaskýring!

Kristján Jónsson skrifar grein sem kallast – Stefnt að ramma um “sjálfviljug markmið” – og undir millifyrirsögninni “Umdeild vísindi” kemur eftirfarandi fram:

Mikið af pólitísku kapítali hefur verið fjárfest í ákveðnum fullyrðingum. Deilt er um túlkun á rannsóknum, spálíkön, hvort fiktað hafi verið við tölur. Geysilegur hiti er í deilunum og menn saka hver annan um að gæta peningahagsmuna olíufyrirtækjanna eða reyna að tryggja sér rannsóknastyrki og stöður, t.d. með því halda á lofti skoðunum sem nái eyrum ráðamanna. Þekktir vísindamenn, nefna má eðlisfræðinginn og Nóbelshafann Ivar Giaever, hafa gagnrýnt harkalega þá sem neiti að ræða lengur forsendurnar, segi allt klappað og klárt. Þannig séu vísindin aldrei, segir Giaever. Hann hefur sagt að kenningar um hlýnun af mannavöldum séu „rugl“.

Óhjákvæmilegt er að fara yfir gamlar mælingatölur um hitafar, lagfæra gallaðar tölur og samræma. Fikta. En mörgum brá í brún þegar í ljós kom að heimsþekktir vísindamenn NASA í Bandaríkjunum höfðu „leiðrétt“ tölur frá Íslendingum um mikinn hitamun milli Reykjavíkur og Akureyrar á hafísárunum á sjöunda áratug 20. aldar.

Þarna er verið að sá vafa í huga fólks með vægast sagt vafasömum fullyrðingum sem standast ekki skoðun. Hér verður farið yfir nokkrar þessara fullyrðinga.

Greinin, sem er dulbúin fréttaskýring um hin mikilvægu loftslagsmál, er sett upp þannig að gefið er í skyn að einhverjar deilur séu um kenninguna um hnattræna hlýna af mannavöldum – að þar séu andstæðir pólar og fær lesandinn á tilfinninguna að þar sé jafn skipt. Deilurnar eru þó ekki jafnari en svo að það eru yfirgnæfandi meiri hluti loftslagsvísindamanna (um 97-98 %) sammála því að jörðin sé að hlýna vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.

Eitt af því sem rýrir enn meira þessa grein er að hann ætlast til þess að einn maður, öldungurinn og eðlisfræðingurinn Ivar Giaever (86 ára), nóbelsverðlaunahafi frá árinu 1973 hafi nógu mikla vigt í umræðum um loftslagsmál að verjandi sé að vitna í hann. Reyndar er til tilvitnun í hann, þar sem hann segir:

“I am not really terribly interested in global warming.  Like most physicists I don’t think much about it.  But in 2008 I was in a panel here about global warming and I had to learn something about it.  And I spent a day or so – half a day maybe on Google, and I was horrified by what I learned.  And I’m going to try to explain to you why that was the case.” Ivar Giaever, Nobel Winning Physicist and Climate Pseudoscientist
Þetta sýnir kannski hvað hann hefur sett sig vel inn í hlutina og hversu vel ígrundað það er að nota hann sem heimild í umfjöllun um loftslagsmál. Þessi vafans aðferð er nokkuð algeng, það er reynt að gera lítið úr vísindunum, ýjað að því að um falsanir og svik sé að ræða og vísað í ósérhæfða sérfræðinga – þarna fer Kristján því í gegnum mjög þekkta aðferðafræði afneitunar, sem hefur virkað vel til þess að hafa áhrif á fólk á síðustu árum og áratugum, en nú láta færri gabba sig svona og þessi aðferðafræði er vonandi að verða úrelt.

Þess má geta að aðferðafræði Kristjáns minnir hressilega á afneitunarblogg númer 1 á Íslandi, þar sem þeir þættir sem Kristján nefnir hafa verið til umfjöllunar á bloggsíðu sem Ágúst H. Bjarnason (verkfræðingur) stendur fyrir – sú síða hefur í gegnum árin verið ein stærsta heimild þeirra sem vilja nálgast efnivið í afneitun á þessum fræðum og virðist Kristján hafa sótt efni það, sjá t.d. þetta og þetta.

Varðandi meintar falsanir NASA sem Ágúst H. Bjarnason hefur haldið á lofti, þá hefur Halldór Björnsson sérsfræðingur hjá Veðurstofu Íslands svarað þessu og við birtum meðal annars hér á loftslag.is (sjá Athugasemd varðandi meintar falsanir NASA). Þar kemur meðal annars fram:

Leiðréttingar GHCN eru hinsvegar af og frá, eins og þú bendir réttilega á. Hinsvegar er það að hengja bakara fyrir smið að halda því fram að þetta sé villa hjá NASA. Þeir erfa þessa villu frá NOAA og lagfæra hana að nokkru. Að lokum er rétt að taka fram að lagfæringar VÍ á mæliröðinni fyrir Reykjavík eru á engan hátt endanlegur sannleikur um þróun meðalhita þar. Hinsvegar er ljóst að staðsetning mælisins upp á þaki Landsímahússins var óheppileg, þar mældist kerfisbundið meiri hiti en á nálægum stöðvum. Vegna þessa er full ástæða til að til að leiðrétta mæliröðina, en vel er hugsanlegt að leiðréttingin (um 0.4°C) sé full mikil. Þessi leiðrétting kann að verða endurskoðuð síðar. Slíkt hefði þó óveruleg áhrif á langtímaleitni lofthita í Reykjavík (og engin á hnattrænt meðaltal).

Það getur vel verið að einhverjir lesi þessa “fréttaskýringu” Morgunblaðsins gagnrýnislaust, en ef vel er skoðað og staðreyndir málsins teknar fyrir, þá sést að engar deilur eru um að losun gróðurhúsaloftegunda af mannavöldum veldur hnattrænni hlýnun og þarf engar falsanir á gögnum til að sýna fram á að hnattræn hlýnun á sér stað.

Þó notuð sé aðferð vafans og reynt að draga úr vilja almennings til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þá er enginn vafi að jörðin er að hlýna af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum.

Tengt efni á loftslag.is:

Athugasemdir

ummæli

About Ritstjórn Loftslag.is

Ritstjórn Loftslag.is