Byrjum þessa færslu á algerri endurtekningu frá síðasta ári.
“Enn og aftur er komið að því að skoða árið sem var að líða með fókus á hitastig í heiminum. Það virðist vera orðið venja að það ár sem er nýliðið í hvert og eitt skiptið sé meðal 10 heitustu ára frá upphafi og á því varð engin breyting í ár” [2013 – enn eitt hlýtt ár og hnatthitaspámeistari ársins]. 2014 var hlýjasta ár frá upphafi mælinga í gagnasafni NASA GISS og endaði árið með hitafráviki upp á +0,68°C og einnig í gagnasafni NOAA, en þar endaði árið með hitafráviki upp á +0,69°C.
Hitafrávik 1880 – 2014 blá lína. Appelsínugul lína er 5 ára hlaupandi meðaltal. [Heimild http://data.giss.nasa.gov/gistemp/tabledata_v3/GLB.Ts+dSST.txt]
Janúar 2015
Nýjustu tölur um hitafrávik í byrjun árs 2015 eru komnar í hús og er hitafrávikið 0,75°C í gagnaröð NASA GISS og 0,77°C hjá NOAA. Í báðum tilfellum var mánuðurinn í öðru sæti yfir hlýjustu janúarmánuði frá upphafi mælinga.
Hnatthitaspámeistarinn 2014
Undanfarin ár höfum við á loftslag.is verið með smá leik á upphafi árs þar sem er spáð fyrir um komandi ár. Spáð er í hitafrávik ársins sem er nýhafið og höfum við notað NASA GISS sem viðmið. Á síðasta ári voru fjórir sem treystu sér í að spá fyrir um 2014 og var spáin eftirfarandi:
Spá 2014
Spá
Höskuldur Búi
+0,63°C
Sveinn Atli
+0,64°C
Jón Erlingur
+0,66°C
Emil Hannes
+0,68°C
Þar sem árið 2014 endaði í +0,68°C þá er augljóst að Emil Hannes negldi þetta og er því hér með krýndur Hnatthitaspámeistari 2014. Hann var einnig meistari ársins 2013 og hefur því endurtekið leikinn frá síðasta ári og óskum við á loftslag.is honum hjartanlega til hamingju.
Það væri gaman að fá enn fleiri hnatthitaspámenn þetta árið, líka þeir sem telja að kólnun sé í nánd og jafnvel byrjuð – það væri spennandi að sjá þeirra spár til samanburðar.
Árið 2015 – vangaveltur og spá
Þá er komið að því að setja sig í spámannsstellingar á ný eins og undanfarin ár. Með hættu á því að endurtaka mig, þá ætla ég að byrja á því að ræða um El Nino ástandið í Kyrrahafinu sem gæti haft áhrif í ár, það hefur yfirleitt þau áhrif að hitastig á heimsvísu hækkar. Þar sem talið er líklegt að El Nino verði í gangi fyrri hluta ársins, þá ætla ég að spá því að það ástand fari í gang í ár og að það muni hafa áhrif til hækkunar frá árinu 2014. Það er svo spurning hversu langan tíma af árinu það ástand gæti varað. Til að gera langa sögu stutta, þá ætla ég að spá lítilsháttar hækkun hitastigs árið 2015, frá því sem var 2014, eða um +0,02°C hærra en 2014 endaði í, sem er þá hitafrávik upp á +0,70°C fyrir árið 2015. Sem yrði þá heitasta ár frá upphafi mælinga árið 1880 ef litið er á gögn NASA GISS. Miðað við byrjun ársins, hitafrávik janúarmánaðar var +0,75°C, þá er þetta kannski ekki svo fjarstæðukennd spá, en það getur allt gerst.
Við hvetjum hér með lesendur loftslag.is að spreyta sig í þessari skemmtilegu keppni – hver verður Hnatthitaspámeistari fyrir árið 2015? Spár má setja inn í athugasemdir við færsluna og mun það gilda sem skráning. Það væri líka fróðlegt að fá spár frá kólnunarsinnum.
Þessi færsla er hluti af endurbirtingum hér á loftslag.is. Mikilvægt efni af síðunni og annað fróðlegt sérvalið efni mun rata inn undir endurbirtingarnar. Upphaflegu færsluna má finna hér en allar endurbirtingarnar má finna undir flipanum Endurbirtingar 2013.
Það er staðreynd að komið hafa hlýrri og kaldari skeið í sögu jarðar en nú er. En hvað hefur orsakað þessar breytingar í loftslagi áður fyrr? Um leið opnast fyrir spurninguna: Er þetta hlýskeið sem við upplifum núna náttúrulegt?
Undirliggjandi langtímabreytingar í hita jarðar
Miklar breytingar á hita hafa orðið í fyrndinni, svo miklar að við mennirnir eigum erfitt með að ímynda okkur það. Í jarðfræðilegum skilningi þá eru langtímabreytingar, þær breytingar sem tekið hafa milljónir, jafnvel milljarða ára (jörðin sjálf er talin vera 4,5 milljarða ára). Sem dæmi þá var orka sólarinnar í upphafi jarðsögunnar einungis um 70% af orkunni sem er nú í dag, en orka hennar hefur aukist smám saman síðan þá og í mjög fjarlægri framtíð munu breytingar sólarinnar einar og sér nægja til að eyða öllu lífi á jörðinni. Í upphafi jarðarinnar var andrúmsloft jarðar einnig allt öðruvísi en það er í dag. Líf tók að þróast og breytti andrúmsloftinu smám saman og í samvinnu við sólina hefur það skapað þær aðstæður sem við lifum við í dag.
Óreglulegar sveiflur í hita jarðar
Þrátt fyrir misgóð gögn um hitastig síðustu hundruði milljóna ára, þá er heildarmyndin nokkuð ljós:
Hér er áætlað hitastig jarðar aftur til byrjun Kambríum fyrir um 540 milljónum ára. Eins og sjá má vinstra megin á myndinni þá er hitastig núna frekar lágt. Mynd af wikipedia.
Þessar gríðarlegu hitasveiflur eiga sér margar ástæður og er ein af þeim magn CO2 í andrúmsloftinu. Það er þó langt í frá eina ástæða hitabreytinga fyrri jarðsögutímabila, eins og sést ef skoðað er áætlað magn CO2 í andrúmsloftinu fyrir sama tímabil:
Hér má sjá nokkrar mismunandi rannsóknir á magni CO2, aftur til loka Kambríum. Eins og sést eykst óvissan mikið eftir aldri. Mynd af wikipedia.
Það sem talið er að hafi hvað mest áhrif á sveiflur í hitastigi fyrri jarðsögutímabila er lega landanna, sem hreyfast af völdum flekahreyfinga (e. plate tectonics). Þegar stórir landmassar eru á pólunum er kaldara á jörðinni, heitara þegar pólarnir eru landlausir. Við flekahreyfingar kítast einnig saman flekar sem oft á tíðum mynduðu stóra fellingagarða (sambærilega við Himalayjafjöllin og Andesfjöllin sem dæmi). Þær breytingar breyttu vindakerfi heims og höfðu þar með mikil áhrif á loftslag jarðar. Lega landanna hefur einnig haft gríðarleg áhrif á sjávarstrauma og þar með hvernig hiti dreifðist um jörðina. “Nýlegt” dæmi er þegar Ameríkuflekarnir tengdust fyrir um 5 milljónum ára og Panamasundið lokaðist. Við það breyttust hafstraumar og talið er líklegt að það sé ein af ástæðunum fyrir því að ísöldin byrjaði smám saman fyrir um 2,6 milljónum ára.
Reglulegar breytingar í hita
Hitastigsferillinn sem við sáum hér fyrir ofan virðist mjúkur að sjá þegar hann er skoðaður – enda um langt tímabil að ræða, en undir niðri eru reglulegar hitastigsbreytingar sem verða á skemmri tíma. Þær breytingar sjást ekki í þeim gögnum sem til eru fyrir þessi fyrri jarðsögutímabil, en ískjarnar úr jöklum Grænlands og Suðurskautsins sýna okkur sveiflur sem eru töluverðar yfir þúsundir ára:
En hver er ástæða þessara reglulegu breytinga?
Sporbaugur 0, alveg hringlaga
Til að byrja að svara þessari spurningu verður m.a. að skoða sveiflur Milankovitch. Milutin Milankovitch var rússneskur vísindamaður sem rannsakaði og kortlagði loftslagsbreytingar fyrri tíma út frá gögnum um sporbaug braut jarðar, halla hennar um möndul sinn og snúning jarðar um möndul sinn. Þessi atriði hafa áhrif á loftslag jarðar og eftir að hann kom fram með þessa kenningu þá kom í ljós að þessi atriði féllu saman við hlý- og kuldaskeið ísaldar. Allir þessir þættir gerast með ákveðnu millibili og geta ýmist haft jákvæða svörun, þ.e. allir þættir ýti í sömu átt (til annað hvort hlýnunar eða kólnunar) eða “unnið” hver á móti öðrum og þar með dregið úr áhrifunum.
Sporbaugur 0,5 ekki hringlaga og miðjuskekkja
Sporbaugur jarðar breytist í tíma. Það má segja að það sé miðskekkja í sporbaugnum (sem ekki er hringlaga) og sú skekkja er ekki alltaf eins heldur breytist með tíma. Sporbaugurinn fer frá því að vera næstum hringlaga til þess að vera meira sporöskjulaga og tekur þessi sveifla u.þ.b. 413.000 ár. Einnig eru aðrir þættir í ferli sporbaugsins sem hafa áhrif og eru það sveiflur sem taka u.þ.b. 96.000 – 136.000 ár. Þessi breyting hefur áhrif á hversu langar árstíðirnar eru og hversu mikil inngeislun sólarinnar er. Þetta hefur misjöfn áhrif eftir á hvoru jarðhvelinu áhrifin eru í hvert skiptið. Þetta er þó eitt af þeim atriðum sem hefur áhrif til lengri tíma. Á myndunum hér til hliðar má sjá breytingar í sporbaug jarðar.
.
Möndulhalli jarðar sveiflast frá 22,1°-24,5°Möndulsnúningssveifla jarðar
Möndulhallinn er einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á þessar reglubundnu breytingar. Í dag er hallinn um 23,44° (sem er u.þ.b. við miðju þess sem hallinn getur orðið. Möndulhallinn fer frá því að vera 22,1°-24,5°. Þessi sveifla tekur um 41.000 ár. Þegar möndulhallinn er meiri, þá hitnar á báðum jarðhvelum að jafnaði, en sumrin verða heitari en veturnir kaldari. Það má því kannski segja í þessari sveiflu séum við í meðalstöðu.
Næsti þáttur sem er hluti af sveiflum Milankovitch, er svokallaður möndulsnúningur. Möndulsnúningurinn er einhverskonar snúðshreyfing. Þannig að það er misjafnt að hvaða fastastjörnum pólarnir vísa. Þessi sveifla tekur um 26.000 ár. Þetta hefur þau áhrif að það hvel sem er í áttina að sólu, við sólnánd, er með meiri mun á milli sumars og veturs, en hitt jarðhvelið hefur mildari sumur og mildari vetur. Staðan í dag er þannig að suðurhvelið upplifir meiri mun á milli árstíða, þ.e. að suðurpóllinn er í átt að sólu við sólnánd.
Eins og áður sagði, þá hafa Milankovitch sveiflur allar samanlögð áhrif, þar sem þær magna eða draga úr sveiflunum eftir hvernig þær hitta saman. Heildaráhrif þessara sveiflna, er einn af þeim þáttum sem hafa ráðið miklu um það hvort jörðin hefur upplifað hlý eða köld skeið í jarðsögunni:
Sveiflur Milankovitch. Myndin sýnir allar sveiflurna á einni mynd. Rauði ferillinn og svarti ferillinn sýna heildaráhrifin á tvo vegu. Svarti ferlillinn sýnir sólarinngeislun á sólstöðum á 65. breiddargráðu norðurs. Þegar inngeislunin er há, þá er hlýskeið og öfugt. Þetta fellur nokkuð vel að fyrri hlý og kuldaskeiðum ísaldar, til lengri tíma litið. Fyrir neðan eru svo tvö hitastigsproxý (götunga í sjávarsetlögum og ískjarna úr Vostock ískjarnanum) sem styðja þessa kenningu Milankovitch.
Milankovitch sveiflurnar eru því taldar frumorsök sveifla í hitastigsbreytingum ísaldar, í átt til kulda- og hlýskeiða.
Aðrir þættir hafa síðan magnað upp þessar breytingar, svokölluð magnandi svörun. Þættir sem taldir eru hafa magnað upp þessar breytingar eru t.d. aukning í CO2, en vitað er að við hlýnun sjávar þá minnkar geta þess til að halda CO2. Eins og sjá má á mynd hér ofar sem sýnir hitastig síðustu 650 þúsund ára og tengsl við meðal annars CO2, þá eykst CO2 í kjölfarið á hlýnun jarðar (sú aukning gerist almennt um 800 árum eftir að það byrjar að hlýna). Það má því segja að við það að hlýna af völdum Milankovitch sveifla, þá losnar meira CO2 sem veldur meiri hlýnun. Svipuð ferli eiga sér stað í átt til kólnunar, nema með öfugum formerkjum. Annar stór þáttur í magnaðri svörun til hlýnunar og kólnunar ísalda er t.d. hafís- og jöklamyndanir, en þeir þættir minnka og auka endurkast frá sólinni út úr lofthjúpnum.
Skammtímasveiflur í loftslagi/veðri
Áður er en farið yfir skammtímasveiflur í loftslagi, þá er rétt að geta að það er munur á loftslagi og veðri:
Loftslag er í raun tölfræðilegar upplýsingar á bak við hitastig, raka, loftþrýsting, vindstyrk, regn, efnasamsetningu lofthjúpsins og ýmsir aðrir veðurfræðilegir þættir á ákveðnu svæði yfir langt tímabil. Loftslag er því ekki veður, sem er gildi fyrrnefndra veðurfræðilegra þátta á ákveðnum stað og tíma.
Hitastig síðustu 1800 ár fyrir norðurhvel jarðar. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar í ýmsum litum.
Hér fyrir ofan var minnst á langtímabreytingar af völdum sólarinnar, en einnig eru skammtímasveiflur í sólinni sem hafa áhrif á loftslag til skamms tíma, t.d. sólblettasveiflur og útgeislun sólar (sjá Sólin). Þessar sveiflur eru ekki miklar alla jafna, en þó er talið að lágmark í sólblettasveiflunni Maunder lágmarkið (e. Maunder Minimum – niðursveifla í sólblettum sem stóð frá árinu 1645-1715) hafi átt töluverðan þátt í að viðhalda litlu ísöldinni (e. Little Ice Age – kuldatímabil sem varð frá sirka 14. öld, sumir segja 17. öld og fram til sirka 1850) .
Maunder lágmarkið frá 1645-1715. Sólblettasveiflur síðustu 400 ára.
Eins og sést á myndinni, þá er niðursveifla í sólblettum í gangi núna. Því þykir ljóst að sú hækkun sem orðið hefur á hitastigi jarðar eftir 1950 er ekki af völdum sólblettasveifla.
Breytileiki í hafinu, þ.e. sjávarstraumar sem knúnir eru af mismunandi sjávarhita og hafa áhrif á loftslag eru nokkur t.d. El Niño–Southern Oscillation (ENSO) og Pacific Decadal Oscillation (PDO), einnig Norðuratlantshafsstraumurinn og fleiri. Þau áhrif er þó varla hægt að kalla loftslagsbreytingar, heldur frekar flökt eða breytileiki í loftslagi, þar sem þau hafa áhrif í stuttan tíma (nokkur ár til áratuga breytileiki), en þau dreifa hita um jarðkúluna og eru því mikilvæg yfir langan tíma (til kólnunar og hlýnunar), þar sem þau hafa áhrif á ferli sem geta valdið magnandi svörun TENGILL.
Hitastig jarðar mælt með gervihnöttum frá 1975 til ársins í ár. Takið eftir uppsveiflunni árið 1998 af völdum El Nino og niðursveiflunni eftir 1991 af völdum eldgossins í Mount Pinatubo.
Stór eldgosgeta valdið snöggum breytingum í stuttan tíma og þá til kólnunar (ár eða nokkur ár), t.d. eldgosið í Mount Pinatubo árið 1991 sem lækkaði hitastig jarðar tímabundið um sirka 0,4°C . Þau tímabil í jarðsögunni þar sem eldvirkni hefur verið mun meiri en nú, hafa þó getað valdið töluverðri kólnun þann tíma. Þess lags eldvirkni verður þó einungis nokkrum sinnum á hverjum hundrað milljón árum og veldur gríðarlegum loftslagsbreytingum í milljónir ára með tilheyrandi útdauða lífvera. Eldfjöll gefa frá sér CO2 í nokkuð miklu magni en það er þó einungis 1/130 af því sem menn losa á ári eins og staðan er í dag.
Það sama má segja um stóra loftsteina og halastjörnur sem lenda á jörðinni. Slíkir árekstrar valda miklum breytingum yfir stuttan tíma jarðsögulega séð og geta því valdið útdauða dýra í miklu magni, t.d. er talið að loftsteinn sem lenti á Mexíkó fyrir um 65 milljónum ára hafi átt töluverðan þátt í því að risaeðlurnar dóu út (aðrar kenningar eru til um þann útdauða en við ætlum ekki út í þá sálma hér).
Kenningin um loftslagsbreytingar af mannavöldum
Eins og sést af ofangreindri upptalningu á áhrifavöldum loftslagsbreytinga þá er margt sem hefur áhrif á loftslag. Undanfarna áratugi hefur breytingin þó verið óvenju hröð og lítið tengd þeim náttúrulegu ferlum sem þekktir eru, þó vissulega séu tímabundnar sveiflur, tengdar virkni sólar, El Nino og eldvirkni svo dæmi séu tekin.
Hitastig jarðar frá því mælingar hófust.
Það er nú talið nokkuð víst að núverandi breytingar í loftslagi jarðar sé af mannavöldum (sjá kaflann um Grunnatriði kenningunnar).
Það skal á það bent að auki, að þrátt fyrir að hitastig fyrr í jarðsögunni hafi oft verið hærra en það er nú, þá eru bara um 200 þúsund ár síðan maðurinn (homo sapiens) gekk fyrst um lendur Austur-Afríku og það eru einungis nokkur þúsund ár síðan siðmenningin varð til. Því hefur samfélag manna aldrei upplifað aðrar eins breytingar og nú eru byrjaðar, né þær sem mögulega eru í vændum.
Það hefur legið í loftinu í þó nokkurn tíma að 400 ppm CO2 gildið í andrúmsloftinu myndi falla á hinni víðfrægu Mauna Loa mælistöð á Havaí. Það hefur nú gerst og mældist styrkur CO2 yfir 400 ppm á stöðinni á Havaí. Það er ekki talið að gildi CO2 hafi verið svona hátt í allavega 800 þúsund ár, jafnvel allt að 15 milljón ár. Fyrir iðnbyltinguna var meðalgildi CO2 í andrúmsloftinu um 280 ppm og hafði þá sveiflast á bilinu 180 ppm til 280 ppm síðastliðin 800 þúsund ár, sjá mynd.
Það er ekki til algilt svar um það hvenær styrkur CO2 í andrúmsloftinu var síðast svona hár, en rannsóknir sýna að það gæti verið á bilinu 800 þúsund til 15 milljón ár síðan þetta gerðist síðast. Talið er líklegt að þetta gæti hafa gerst á Plíosen tímabilinu, fyrir um 2 til 4,6 milljónum ára. Þess má geta að siðmenning nútímamannsins byrjaði fyrir um 12 þúsund árum síðan – þannig að gildi CO2 hefur ekki verið hærra í sögu mannkyns. Nýlegar rannsóknir sýna að það gæti verið enn lengra síðan gildi CO2 fór hærra, eða um 10-15 milljónir ára.
Um miðja öldina gæti styrkur CO2 verið orðin um 450 ppm, fer eftir því hvernig þróun losunar verður.
Það eru liðnar þó nokkrar vikur síðan ljóst varð að hafíslágmarkið í ár myndi slá öll fyrri met, með minni útbreiðslu en áður hefur mælst. Það stendur heima og vel það, þar sem metið frá því 2007 var slegið rækilega og var hafís útbreiðslan í ár 18% undir metinu frá því þá, eða 3,41 milljón ferkílómetrar (metið árið 2007 var 4,17 milljón ferkílómetrar) – sjá töflu hér undir.
Þann 16. september 2012 fór hafísútbreiðslan í 3,41 milljón ferkílómetra. Þetta virðist vera lágmark ársins í ár. Vegna kólnandi veðurs og lækkandi sólarstöðu mun hafísútbreiðslan líklega byrja að aukast að venju, þó slá megi þann varnagla að veður og vindar gætu enn ýtt lágmarkinu aðeins neðar.
Hafíslágmarkið í ár er 760 þúsund ferkílómetrum lægra en fyrra met frá 2007, sem átti sér stað 18. september 2007. Þetta jafngildir um það bil 7,6 sinnum stærð Íslands. Lágmarkið í ár er 3,29 milljón ferkílómetrum undir meðaltali hafíslágmarksins fyrir tímabilið 1979 – 2000. Lágmarkið í ár er því 18% undir 2007 mælingunum og 49% undir meðaltali tímabilsins 1979 til 2000.
Í allt var heildar bráðnun hafíssins í ár um 11,83 milljón ferkílómetrar af hafís, frá því hámarkinu var náð þann 20. mars í ár og þar til lágmarkinu var náð. Þetta er mesta hafísbráðnun frá því gervihnattamælingar hófust og meira en 1 milljón ferkílómetrum meiri en mælingar frá fyrri árum hafa sýnt. Á myndinni hér til hliðar má sjá hvernig aðstæður eru í ár, borið saman við miðgildi áranna 1979 til 2000 – klikkið á myndina til að stækka hana.
Sex lægstu lágmörk hafísútbreiðslu hafa öll mælst á síðustu 6 árum (2007 til 2012). Hér undir má sjá samanburð á nokkrum árum og tímabilum.
Í töflunni hér undir má sjá samanburðinn á milli ára og tímabila í tölugildum:
Tafla 1. Fyrri hafís lágmörk á Norðurskautinu
ÁR
LÁGMARKS HAFÍS
DAGSSETNING
MILLJÓN FERKÍLÓMETRAR
2007
4,17
18. september
2008
4,59
20. september
2009
5,13
13. september
2010
4,63
21. september
2011
4,33
11. september
2012
3,41
16. september
1979 – 2000 meðaltal
6,70
13. september
1979 – 2010 meðaltal
6,14
15. september
Sá veruleiki sem við blasir er undir þeim framtíðarspám sem hafa verið gerðar, sjá mynd hér undir. Það má jafnvel spá í það hvort að verstu spár varðandi þróun hafísútbreiðslu geti orðið að veruleika. Þess má geta að hafísinn er þynnri en áður og það bendir til að það geti orðið stutt í að við upplifum Norðuskaut án hafíss á þessum tíma árs.
Eins og margir vita, þá eru margar hitagagnaraðir í gangi sem mæla þróun hnattræns hitastigs (sjá t.d. GISTEMP, NCDC og Berkeley Earth). Fyrir stuttu kom út ný útgáfa á gagnasettinu frá bresku veðurstofunni (Met Office) og háskólanum í East Anglia – svokölluð HadCRUT gagnaröð. Sú gagnaröð hefur verið mikið notuð og nær allt aftur til 1850, en hefur þótt takmörkuð vegna lélegrar útbreiðslu mælistöðva nálægt Norðurskautinu.
Nýjasta útgáfan sem kölluð er HadCRUT4 hefur aukið við fjölda mælistöðva – sérstaklega á norðurskautinu (400 stöðvar við Norðurskautið, Síberíu og Kanada). Einnig er búið að lagfæra gögnin vegna breytinga sem urðu á mælingum sjávarhita, sérstaklega þær sem teknar voru eftir seinni heimstyrjöldina (munur var á hvort hent var út fata og hitinn mældur í henni eða hvort mælt var vatn sem tekið var beint inn í vélarúmið).
Munurinn á HadCRUT3 og HadCRUT4.
Þrátt fyrir breytingar er heildarmyndin svipuð, frá árinu 1900 hefur hlýnað um 0,75°C. Þrjú heitustu árin hafa þó sætaskipti en 1998 dettur niður í þriðja sætið yfir heitustu árin – munurinn er þó ekki mikill á þessum árum nú, því hitafrávik heitustu áranna (2010 og 2005) er 0,53°C en 1998 hefur frávikið 0,52°C.
Hér fyrir neðan útskýrir Peter Stott breytingarnar:
Hitastig desember mánaðar 2011 og svo endanleg niðurstaða ársins samkvæmt NCDC hefur nú verið kunngjörð. Árið endaði sem það 11. hlýjasta samkvæmt tölum NCDC, sem er hlýjasta La Nina ár frá því farið var að halda utan um þess háttar gögn (samkvæmt gögnum NASA GISS, þá er árið það 9. hlýjasta). Í upphaf árs 2011 fórum við yfir horfur hitastigs árið 2011, Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011 – það virðist vera sem þær vangaveltur hafi í stórum dráttum gengið eftir. Desember árið 2011 var 10. heitasti desember frá upphafi mælinga og árið endaði sem 11. heitasta samkvæmt gagnasafni NCDC. Þetta má sjá nánar í gröfum, töflum og myndum hér undir.
Desember 2011 og árið í heild
Helstu atriði sýnd á myndum og gröfum, bæði fyrir mánuðinn desember 2011 og svo fyrir árið í heild. Fyrst hitafrávik víða um heim fyrir desember:
Og svo fyrir árið í heild:
Í töflunni hér fyrir neðan má lesa helstu tölur varðandi hitastigsfrávikin fyrir desember 2011.
Desember
Frávik
Röð
(af 132 árum)
Heitasti/kaldasti desember
samkv. skrám
Á heimsvísu
Land
+0,88 ± 0,14°C
8. heitasti
2006(+1,37°C) / 1929 (-1,21°C)
Haf
+0,32 ± 0,04°C
16. heitasti
1997, 2009 (+0,58°C) / 1909 (-0,53°C)
Land og haf
+0,48 ± 0,09°C
10. heitasti
2006 (+0,74°C) / 1916 (-0,56°C)
Og nú að hitafrávikunum fyrir allt árið 2011:
Janúar – desember
Frávik
Röð
(af 132 árum)
Heitasta/kaldasta tímabilið
Á heimsvísu
Land
+0,83 ± 0,18°C
8. heitasta
2007 (+1,05°C) / 1907 (-0,56°C)
Haf
+0,40 ± 0,03°C
11. heitasta
2003 (+0,52°C) / 1909 (-0,45°C)
Land og Haf
+0,51 ± 0,08°C
11. heitasta
2005, 2010 (+0,64°C) / —
Í grafinu hér undir má sjá þessi gögn í öðru ljósi:
Og svo hitafrávikin fyrir árið 2011 í heild.
Því næst má sjá hvernig hitastig hefur verið við El Nino (hlýrri ár) og La Nina (kaldari ár) atburði og eins og glöggt kemur fram þá er 2011 hlýjasta La Nina ár frá upphafi skráninga:
Á síðustu myndinni má sjá ýmsar staðreyndir varðandi veður- og loftslagsfrávik ársins í einni mynd (klikkið á myndina til að stækka hana):
Meðalútbreiðsla hafíss í ágúst 2011 var sú næst minnsta síðan gervihnattamælingar hófust árið 1979. Bæði Norðaustur- og Norðvesturleiðin virðast vera opnar fyrir siglingar. Í ágústmánuði var hafísútbreiðslan nokkuð nærri því þegar hafísútbreiðslan var minnst fyirr mánuðinn árið 2007. Það undirstrikar enn fremur þá áframhaldandi bráðnun hafíss sem á sér stað á Norðurskautinu.
Hafísútbreiðslan mun mjög líklega ná lágmarki ársins á næstu 2 vikum og munum við fylgjast með því hér á loftslag.is.
Meðal útbreiðsla hafíss í ágúst 2011 var 5,52 milljón ferkílómetrar. Það er 160.000 ferkílómetrum meira en fyrra met fyrir mánuðinn, sem var sett í ágúst 2007 og 2,15 milljón ferkílómetrum, eða 28% undir meðaltali áranna 1979 til 2000.
Í ágúst dregur úr áhrifum sólarljós á Norðurskautinu og það byrjar að draga verulega úr bráðnun hafíss. En þrátt fyrir að dregið hafi úr bráðnun í ágústmánuði, þá var bráðnunin meiri en í meðal ári, eða sem samsvarar 67.700 ferkílómetrum á dag. Til samanburðar þá var meðal bráðnun hafíss í ágúst fyrir árin 1979 til 2000 53.700 ferkílómetrar á dag, það munar um minna.
Meðal útbreiðsla hafíss í ágúst 2011 var sú næst minnsta fyrir mánuðinn. Þegar 2011 er tekin með, er línuleg leitni útbreiðslunar fyrir ágúst -9,3% á áratug.
En útbreiðsla hafíss segir ekki alla söguna, þar sem ísinn hefur einnig orðið þynnri. Hér að ofan er rúmmál hafíssins sýnt, en þynnri hafís þýðir minna rúmmál. Það má nú þegar sjá að rúmmál ársins er komið undir met síðasta árs og tími bráðnunarinnar er enn ekki liðin. Þróunin er ekki mjög uppörvandi og það má sjá töluverðan og marktækan mun á rúmmálinu núna og því sem var bara fyrir nokkrum árum síðan – t.d. í kringum aldamótin. Hér undir má svo sjá þessa þróun á annan hátt:
Já, það er eiginlega bara spurning um hvenær en ekki hvort að við fáum árlegt hafíslágmark þar sem ekki verður hafís að neinu ráði á Norðurskautinu…ef marka má þær leitni línur sem sýndar eru í grafinu.
Hitastig í veðrahvolfinu, samkvæmt gervihnattamælingum, sveiflast yfirleitt meira heldur en hitastig við jörðu og því hefur augnabliksstaða sveiflnanna stundum verið notað af “efasemdamönnum” sem dæmi um litla hlýnun og jafnvel kólnun þegar þannig liggur á mönnum. Eins og sjá má á grafinu hér undir þá eru sveiflurnar þó nokkrar og þegar það á við, hefur náttúruleg og eðlileg niðursveifla í þessum tölum verið notað sem dæmi um eitthvað sem ekki er í tölunum, sjá t.d. Hröð kólnun lofthjúpsins undanfarið samkvæmt gervihnattamælingum… (Ágúst H. Bjarnason, 13. apríl 2011). Vonandi mun hann fjalla jafn ítarlega um toppinn á sveiflunni þegar þar að kemur…
Það má segja að það sé ekkert nýtt í þessu grafi, hitastig í veðrahvolfinu sveiflast meira en niður við yfirborð jarðar og leitnin sýnir hækkandi hitastig í veðrahvolfinu. Leitnin er í raun í nokkru samræmi við leitni hitastigs við yfirborð jarðar, hvað sem segja má um sveiflurnar sjálfar eða einstakar túlkanir á augnabliksstöðu þeirra.
Við munum fjalla nánar um hitastigið í júlí við yfirborð jarðar þegar tölurnar birtast hjá NOAA og NASA síðar í mánuðinum ásamt því að skoða tölurnar fyrir maí og júní – þar sem við höfum ekki verið ýkja duglegir við að fjalla um hitastig í lofthjúpnum að undanförnu. Samkvæmt þróun hitastigs í veðrahvolfinu nú, má kannski búast við því að hitastig geti verið á uppleið aftur eftir að La Nina ástandið í miðjarðarhafinu hopaði, en það mun tíminn einn leiða í ljós.
Heimildir
Grafið er fengið af vefsíðu Dr. Roy Spencer. En ekki get ég þó mælt með hans túlkunum á loftslagsvísindunum, þó svo hann vinni m.a. við að taka þessar tölur saman, sjá nánar Latest Global Temps. Dr. Roy Spencer er “efasemdamaður” og við munum væntanlega fjalla nánar um hann og hans þátt í “efasemda” umræðunni hér á loftslag.is á næstunni, þangað til geta lesendur forvitnast um kappann hér og hér.
Útbreiðsla hafíss, í júní 2011, á Norðurhvelinu var sú næst minnsta fyrir mánuðinn síðan gervihnattamælingar hófust árið 1979. Þar með er áframhald á hnignandi stöðu hafísins, sem er staðreynd síðustu ára og áratuga. Meðalútbreiðsla hafíss fyrir mánuðinn var undir júnímánuði 2007, en það ár endaði með lægstu útbreiðslu við enda bráðnunartímabilsins hingað til. Samt sem áður er útbreiðsla hafíss í júní í ár meiri en var í júní 2010. Nú nálgast krítískt tímabil varðandi bráðnunina, þar sem veður og vindar munu ráða úrslitum um hvort árið í ár verði nærri lágmarks útbreiðslunni 2007 (sem var um 4,13 milljón ferkílómetrar).
Meðal hafísútbreiðslan í júní 2011 var 11,01 milljón ferkílómetrar. Þetta er 140.000 ferkílómetrum undir núverandi minnstu útbreiðslu fyrir mánuðinn, frá júní 2010 og 2,15 milljón ferkílómetrum undir meðaltalinu fyrir árin 1979 til 2000.
Hafísútbreiðslan í júní 2011 minnkaði að meðaltali um 80.800 ferkílómetra á degi hverjum, sem er um 50% meiri bráðnun en meðaltalið var fyrir árin 1979 til 2000.
Hafísútbreiðsla fyrir júní 2011 er sú næst minnsta frá því gervihnattamælingar hófust, sem er í takt við minnkandi leitni í útbreiðslu hafís síðustu 30 árin. Lægst var hafísútbreiðslan fyrir júní 2010.
Lofthiti í júní var um 1 til 4 gráðum celsius hærri en að meðaltali fyrir mest allt Norðurskautið. Þó má sjá svæði á kortinu, hér að ofan, þar sem er eilítið kaldara en í meðalári. Ísland var einmitt statt á einu af þessum kaldari svæðum, eins og við höfum mörg upplifað hér á landi – og glögglega má sjá á þessu korti.
Eitthvað hefur fréttum af hitastigi á heimsvísu verið ábótavant upp á síðkastið hér á loftslag.is. En fyrir því eru einfaldar ástæður, sem eru að sjálfsögðu hinir miklu kuldar um allan heim sem við viljum að sjálfsögðu ekki greina frá – enda myndi hið endalausa fjáraustur frá kolefnissköttunum stöðvast við þess háttar váfréttir 😉 … En spaugi sleppt, þá hefur einfaldlega ekki gefist tími í allt sem hugur okkar hér á ritstjórninni leitar til – það þarf að velja og hafna.
Þess ber, í ljósi þessa tímaleysis okkar, að geta að við erum að leita fyrir okkur um einhverja aðila sem eru tilbúnir að skrifa fast á loftslag.is, svokallaða “fasta penna”, eins og við veljum að kalla það. Ef einhverjir hafa áhuga á að taka að sér smá skrif (engar kvaðir um magn, en innihald þarf að tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt) þá endilega hafið samband. Við munum þá gaumgæfa CV-ið, ættartengsl og pólitískar skoðanir viðkomandi í kjölfarið – gott er að þekkja einhverja gallharða stjórnmálamenn með lævísar skattahugmyndir – það hjálpar bara 😉 Launin eru ótakmörkuð virðing pólitískra venslamanna og vina, vanþakklæti “efasemdamanna”, stanslaust þakklæti Al Gore og elítunnar sem senda okkur reglulega feita tékka úr digrum sjóðum kolefnisskatta og hinnar svokölluðu grænu gjaldtöku. Þar fyrir utan er þetta ágætis námskeið í ensku (alveg ókeypis og á eigin vegum), svo ekki sé talað um réttritun okkar ylhýru íslensku og þjálfun í ritvinnslu (einnig ókeypis og eftir áhuga viðkomandi) 😀
En núna, eftir þetta létta hjal, skulum við líta á hitastig (afkomu) fyrsta ársfjórðungs í stuttu máli og myndum og athuga svo hvaða “Hnatthitaspámeistara-tal” þetta er í yfirskriftinni…
Hitastig á heimsvísu – janúar til mars
Hér er fyrst mynd með hitafrávikum fyrir tímabilið janúar til mars 2011:
Svo skulum við skoða hvern mánuð fyrir sig í eftirfarandi töflum, byrjum á janúar:
Janúar
Frávik
Röð
(af 132 árum)
Heitasta/næst
heitasta tímabilið
Á heimsvísu
Land
+0,45°C
29. heitasta
2007 (+1,75°C)
Haf
+0,35°C
11. heitasta
1998 (+0,56°C)
Land og Haf
+0,38°C
17. heitasta
2007 (+0,82°C)
Svo febrúar:
Febrúar
Frávik
Röð
(af 132 árum)
Heitasta/næst
heitasta tímabilið
Á heimsvísu
Land
+0,51°C
28. heitasta
2002 (+1,60°C)
Haf
+0,36°C
10. heitasta
1998 (+0,56°C)
Land og Haf
+0,40°C
17. heitasta
1998 (+0,83°C)
Og mars:
Mars
Frávik
Röð
(af 132 árum)
Heitasta/næst
heitasta tímabilið
Á heimsvísu
Land
+0,83°C
12. heitasta
2008 (+1,83°C)
Haf
+0,36°C
12. heitasta
2010 (+0,55°C)
Land og Haf
+0,49°C
13. heitasta
2010 (+0,78°C)
Og nú að hitafrávikunum fyrir tímabilið janúar til mars 2011:
Janúar – mars
Frávik
Röð
(af 132 árum)
Heitasta/næst
heitasta tímabilið
Á heimsvísu
Land
+0,60°C
21. heitasta
2002 (+1,42°C)
Haf
+0,36°C
12. heitasta
1998 (+0,56°C)
Land og Haf
+0,43°C
14. heitasta
2002 (+0,72°C)
Í grafinu hér undir má sjá þessi gögn í öðru ljósi fyrir tímabilið janúar til mars:
Þetta var hin þurra upptalning og núna vendum við okkar kvæði í kross.
Hnatthitaspámeistari Íslands 2011
Í byrjun árs skrifuðum við (Höski) færsluna Náttúrulegur breytileiki og horfur fyrir árið 2011 þar sem farið var yfir hitahorfur ársins 2011. Í athugasemdum við þá færslu komu upp fróðlegar umræður um hitahorfur ársins og var í þeim pælingum velt upp spám um hitastig ársins sem er að líða. Í kjölfarið varð til einskonar keppni sem mun standa yfir þetta árið. Núna er vert að skoða tölurnar og gefa fleirum möguleika á að taka þátt í þessari óformlegu keppni…hvur veit nema að verðlaun verði í boði… Hér undir er spá þeirra sem gáfu álit sitt á hugsanlegu hitastigi ársins 2011 (sjá nánari útlistingar varðandi “spádómana” í athugasemdum hér):
Höskuldur Búi – 0,51°C +/- 0,02
Sveinn Atli – 0,41°C +/- 0,02
Emil Hannes – 0,38°C +/- 0,02
Jón Erlingur – 0,46°C +/- 0,02
Það er pláss fyrir fleiri spádóma, endilega látið ljós ykkar skýna, enda gildir þetta titilinn Hnatthitaspámeistari Íslands 2011, hvorki meira né minna 🙂 Það er fróðlegt að skoða þróunina hingað til og velta fyrir sér hvort að hitastigið muni halda áfram að hækka (mars er hlýrri en bæði janúar og febrúar) eða hvort það kólni kannski eitthvað eins og sumir “efasemdamenn” halda fram.
Þess má geta, að eins og fyrstu þrír mánuðurnir hafa þróast, sjá hér að ofan, þá er sá sem þetta skrifar með forrystu enn sem komið er, en allt getur gerst…
Gefið gjarnan upp hitastig í forminu x,xx°C +/- 0,02 í athugasemdum við færsluna. Gaman væri að fá útlistingu á ástæðum (þarf ekki). Nafn má gjarnan fylgja með.
Smáaletrið:
Við erum að leita að “föstum pennum”, það er í sjálfu sér ekki neitt spaug, þó svo það hafi verið hlaðið spaugi hér að ofan – áhugasamir endilega hafið samband.