Fordæmalaus hlýnun Tanganyika vatns

Tanganyika vatn séð utan úr geimnum (af wikipedia).

Vísindamenn sem rannsakað hafa Tanganyika vatn, sem er eitt af elstu vötnum Jarðar og annað dýpsta og er staðsett í Austur Afríku sigdældinni, hafa fundið út að hlýnunin undanfarna áratugi eigi sér ekki fordæmi síðastliðin 1500 ár. Þeir segja að áframhaldandi hlýnun eigi eftir að hafa slæm áhrif á fiskistofna vatnsins, sem milljónir manna í kringum vatnið reiða sig á. Niðurstöður rannsóknanna birtist í nýjasta tímariti Nature Geoscience.

Höfundar tóku borkjarnasýni úr botnsetlögum vatnsins og endursköpuðu sögu yfirborðshita úr setlögunum. Gögnin sýna að yfirborðshiti sem mældur var árið 2003, um 26°C hafi verið sá hæsti síðastliðin 1500 ár. Auk þess er mesta hitabreytingin sem sjá má úr setlögunum, sú sem varð á síðustu öld og telja höfundar að sú hlýnun sé valdur að meiri hluta þeirrar hnignunar sem orðið hefur á vistkerfi vatnsins á sama tíma. Það telja þeir vera vegna minnkandi hringstreymis næringarefna úr neðri lögum vatnsins við hærri yfirborðshita.

Niðurstaðan er fengin út frá tveimur leiðöngrum sem farnir voru árið 2001 og 2004, en þá voru kjarnarnir teknir.

Tanganyika vatn er á landamærum Búrundí, Kongó, Tansaníu og Zambíu, sem eru fjögur af fátækustu löndum Jarðar. Um 10 milljónir manna búa við vatnið og reiða sig á það með vatn og fæði og eru fiskveiðar mikilvægar fyrir þá – en um 200 þúsund tonn af sardínum og öðrum fiskitegendum fást úr vatninu árlega.

Borað var í botnsetlög Tanganyika vatns til að finna yfirborðshita vatnsins síðastliðin 1500 ár. Niðurstaðan var sú að hlýnunin á síðustu öld átti sér ekki fordæmi, allan þann tíma. Mynd, Kate Whittaker.

Vatnið er lagskipt, en í efstu 100 metrunum lifa meirihluti lífvera vatnsins. Neðar er vatnið sífellt súrefnissnauðara og að lokum alveg súrefnissnautt. Eftir því sem yfirborðshiti eykst, því meira eykst eðlisþyngdarmunur milli efri og neðri laganna og meiri vind þarf til að knýja blöndunina áfram. Við minni blöndun, þá minnkar flæði næringarríks og súrefnissnauðs neðri laga upp á við til að viðhalda vistkerfi vatnsins.

Gögnin virðast benda til að á skeiðum hlýinda síðastliðin 1500 ár, þá sé einnig minni framleiðsla þörunga í vatninu – sem bendir til að hitastig hafi megináhrif á lífræna frumframleiðslu vatnsins.

Loftslagslíkön benda til þess að svæðið í kringum Tanganyika vatn eigi eftir að hlýna, sem ef rétt mun reynast mun auka enn á hlýnun yfirborðslaga vatnsins. Telja höfundar að það muni hafa slæm áhrif á fiskgegnd og þar með fæðu íbúanna við Tanganyika vatn, en hingað til hefur ofveiði verið talin helsta ástæða minnkandi veiði undanfarna áratugi. Höfundar álíta sem svo að hlýnunin auki allavega á þann vanda sem fiskistofnar vatnsins eru í, ef þeir eru þá ekki frumorsökin fyrir vandanum.

Heimildir og ítarefni

Greina má lesa í Nature Geoscience (ágrip):  Tierney o.fl. 2010 – Late-twentieth-century warming in Lake Tanganyika unprecedented since AD 500

Umföllun þessi er byggð á umfjöllun Brown Háskóla: Brown Geologists Show Unprecedented Warming in Lake Tanganyika

Tengdar færslur á loftslag.is

Athugasemdir

ummæli

About Höski

Áhyggjumaður um loftslagsmál