Sumarvertíðin á Norðurslóðum er nú í algleymingi og með hverjum sumardegi sem líður minnkar umfang hafíssins á Norður-Íshafinu. Einn eitt árið fylgjast menn með framvindunni – verður þetta metár í bráðnun eða er hafísinn kannski að jafna sig á ný eftir hrunið 2007? Við þessu fást ekki svör fyrr en í lok sumars þegar útbreiðsla hafíssins á norðurhveli nær sínu árlega lágmarki í september. Þangað til látum við okkur nægja að rýna í stöðuna eins og ég ætla að reyna að gera hér en best er að árétta að ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði, fylgist bara þessu af óútskýrðum áhuga.
Ekki minni útbreiðsla mælst áður í júní.
Það sem af er sumri hefur þróunin í stuttu máli verið sú að eftir meiri útbreiðslu hafíssins í lok vetrar en verið hefur í nokkur ár er nú svo komið að útbreiðslan er minni en hún hefur áður mælst á þessum árstíma. Þetta undirstikar meðal annars hversu lítið samhengi er á milli vetrarútbreiðslu og þess sem gerist sumarið á eftir. Eins og ég sagði í síðasta gestapistli þá verður að líta á hafíssvæðið sem tvö svæði, annarsvegar Norður-Íshafið sjálft og svo einstök hafssvæði þar suður af. Mikil hafísútbreiðsla í Norður-Kyrrahafi og jafnvel í Eystrasalti að vetrarlagi er t.d. engin vísbending um ástand kjarnasvæðisins á Norður-Íshafinu þar sem sumarbráðnunin á sér stað.
Opnast Norðvesturleiðin?
Í síðasta pistli hálfpartinn lofaði ég óvenjumikilli bráðnun á heimskautasvæðunum norður af Kanada, aðallega þá vegna þess hversu hlýtt var á þeim slóðum síðasta vetur. Mér finnst enginn ástæða til að bakka með þá spádóma. Forvitnilegt verður að sjá hvort fær siglingaleið muni opnast að þessu sinni um hið breiða Parry sund eins og gerðist í fyrsta almennilega sinn svo vitað sé árið 2007. Skipum hafði að vísu fyrir þann tíma tekist að sigla þar einstaka sinnum í gegn með herkjum, gjarnan þá með aðstoð ísbrjóta. Það kæmi mér allavega ekkert á óvart að þarna galopnist allt í haust. Önnur leið sem er mun þrengi og oftar opin liggur sunnar þar sem Amundsen tókst fyrstum manna að sigla í gegn á árunum 1903-1906.
Þótt deila megi um ágæti þess að heimskautaísinn bráðni mikið, þá horfa ýmsir vonaraugum til Norðvesturleiðarinnar í sambandi við skipaferðir. Sjálfsagt er þó langt í að slíkar siglingar verði almennar nema í mjög takmarkaðan tíma á ári. Norðausturleiðin sem liggur norður fyrir Síberíu er hinsvegar mun oftar aðgengileg stórskipum, ísinn er samt óútreiknanlegur og sem dæmi um það þá opnaðist Norðausturleiðin ekki árið 2007 þrátt fyrir metbráðnun.
Bræðsluspár
Nú er það svo að mjög margir þættir spila inn í varðandi sumarafkomu heimskautaíssins og kannski ekki furða þó spádómar séu misvísandi og sennilega bara tilviljun hvað af þeim rætist. Almennt virðast flestir spá því að lágmarkið í haust verði í stíl við það sem verið hefur 2 síðustu ár og að lágmarksmetið frá því 2007 verði ekki slegið að þessu sinni. Í þeim spádómum er t.d. horft til þróunar á aldursamsetningu íssins. Mjög lítið er eftir að gömlum lífseigum ís miðað við það sem var fyrir aldamót. Á móti kemur að hinn viðkvæmi fyrsta árs ís er þó ekki eins áberandi og verið hefur allra síðust ár og hlutfall 1-3ja ára íss hefur aukist sem bendir til einhvers endurbata á heimskautaísnum eftir nokkuð öflug vetrarhámörk síðustu 3 ár. Eftir því sem líður á sumarið verða spárnar auðvitað nákvæmari, ef til vill mun hinn mikla bráðnun í þessum mánuði fá einhverja til að endurskoða varfærnislegar spár sínar.
Tengt efni á loftslag.is:
Sæll Emil og takk fyrir góðan pistil. Mig langar að benda þér á fyrirlestur sem ég hef heyrt góða hluti um, en ekki náð að horfa á sjálfur. Fyrirlesturinn heitir “On thin Ice: The Arctic and Climate Change” og eftir prófessor David Barber (það er ekki myndbandið sem kemur fyrst – það þarf að skruna til hægri – myndband númer 14).