Á föstudaginn verður viðburður á vegum Ungra Umhverfissinna, SÍF (Samband íslenskra framhaldsskólanema), LÍS (Landssamtök íslenskra stúdenta) og SHÍ (Stúdentaráð HÍ) sem nefnist Alþjóðlegt Loftslagsverkfall. Eftirfarandi er lýsing viðburðarins af Facebook.
—
Samstillt alþjóðlegt verkfall fyrir loftslagið!
Söfnumst saman næsta föstudag, 24. maí, klukkan 12:00, fyrir framan Hallgrímskirkju og göngum niður á Austurvöll! 📢
Sýnum í verki að okkur er umhugað um framtíð okkar, barna okkar og komandi kynslóða. Krefjum fram róttækar og metnaðarfullar aðgerðir gegn loftslagsvánni því það ríkir neyðarástand vegna þeirra loftslagshamfara sem eru að eiga sér stað! Tíminn er á þrotum og við þurfum aðgerðir núna strax! ⌛
Verkfallið er innblásið af hinni sænsku Gretu Thunberg, en skólaverkfall hennar hefur vakið mikla athygli. Á síðasta alþjóðlega samstillta loftslagsverkfalli 24. mars mótmæltu 1.6 milljón manns aðgerðaleysi í loftslagsmálum í yfir 2000 borgum og bæjum í fleiri en 125 löndum í öllum sjö heimsálfum. Þar af voru yfir 2000 manns sem mótmæltu hér á Íslandi. Nú fer Greta í sitt fertugasta loftslagsverkfall og því er blásið til samstillts verkfall um allan heim til að kalla á raunverulegar aðgerðir gegn loftslagsvánni. ✊
Stjórnvöld hafa sett sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum og stefna á kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 en árleg losun jókst síðast um 2,2% á milli ára! Betur má ef duga skal! Núverandi aðgerðaáætlun er ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5°C á heimsvísu og við krefjumst róttækra aðgerða til að ná því markmiði. 🌡️
Ljóst er að stórauka þarf fjárframlög til loftslagsaðgerða. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) metur að það þurfi 2,5% af vergri landsframleiðslu allra þjóða til loftslagsmála á ári, allt til ársins 2035, ef halda á hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C. Núverandi áætlun er upp á 0,05% af landsframleiðslu á ári næstu fimm árin. ☁️
Við krefjumst þess að Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5% af landsframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. Þar verður atvinnulífið einnig að axla ábyrgð.
Við viljum afdráttarlausar aðgerðir. Núna. Fyrir komandi kynslóðir. Fyrir loftslagið.
Þjóðir heims hafa undirritað samkomulag í París um að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan 2°C marksins og jafnvel undir 1,5°C. Þetta er metnaðarfyllra en flestir þorðu að vona, sem er mjög jákvætt og gæti orðið vendipunktur í þeim áformum að taka á loftslagsvandanum að alvöru. Það var því mikill gleðidagur þegar búið var að undirrita samkomulagið, þann 12. desember 2015. Það má væra góð rök fyrir því að þarna hafi orðið sá viðsnúningur sem að við þurfum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Ef málið er skoðað vel, þá má segja að þarna hafi verið tekin endanleg ákvörðun um að það ekki sé hægt að nota allar birgðir jarðefnaeldsneytis sem þekktar eru, heldur verður að skilja meirihluta þess í jörðinni – s.s. endilok olíualdarinnar. Það er mikið meira en nóg til í kolefnisbókhaldi olíufyrirtækja á núverandi tímapunkti til að fara langt yfir markið, þannig að samkomulagið þýðir í raun að þjóðir heims hafna því að nýta allt það jarðefnaeldsneyti sem vitað er um, þ.a.l. má færa fyrir því rök að ekki sé þörf á að finna meira heldur. Hvort að þetta hefur einhver áhrif á fjárfestingar í jarðefnaeldsneytisvinnslu á tíminn eftir að leiða í ljós, en markmið þjóða heims gera ekki ráð fyrir fullri vinnslu allra þekktra jarðefnaeldsneytisbirgða, það virðist skýrt á núverandi tímapunkti, ef marka má aðgerðaloforð þjóðanna. Hvort að þessi samningur komi til með að hafa áhrif á hlutabréfaverð fyrirtækja í vinnslu jarðefnaeldsneytis og á fjárfestingastefnu fyrirtækjanna verður fróðlegt að fylgjast með í náinni framtíð.
Eftirfylgnihluti samkomulagsins er mikilvægur og það knýr stjórnvöld þjóða heims til að setja fram alvöru aðgerðaáætlanir í kjölfar aðgerðaloforðanna. Það er því brýnt að þessi mál séu til umræðu í stjórnkerfinu, meðal almennings og kjörina fulltrúa. Í kosningabaráttu framtíðarinnar þá verður þetta að vera mál sem flokkar takast á um og koma fram með hugmyndir til að taka á vandanum – það ætti ekki að vera nein leið fram hjá því. Þetta leggur líka þá ábyrgð á almenning að krefjast þess að tekið sé á vandanum og einnig að almenningur sé hluti lausnarinnar – tími afneitunar er liðinn og sú náglun hefur beðið afhroð. Ákvörðunin um að taka á vandanum liggur fyrir – nú þurfum við bara að fylgja þeirri stefnu – annars er lítið varið í samkomulagið.
Hvað felur samkomulagið í sér?
Parísarsamkomulagið skyldar þær 195 þjóðir sem skrifuðu undir til að vinna saman að því að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum innan 2°C marksins (miðað við hitastig fyrir iðnvæðingu), með aukamarkmið að reyna að stefna að því að halda því innan 1,5°C. Það inniber líka að það þarf að stoppa aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda eins fljótt og hægt er og ná jafnvægi á milli losunar og bindingar.
Fyrir loftslagsráðstefnuna í París settu þjóðir heims fram aðgerðaloforð, sem eru þekkt sem Intended Nationally Determined Contribution (INDC), þar sem hver þjóð leggur fram drög að því hversu mikið þau ætla að draga úr losun til 2030, sem getur t.d. verið með aukningu endurnýjanlegrar orku og/eða með því að draga úr eyðingu skóga. Það er mikill munur á aðgerðaloforðum þjóðanna og það eru 2 mikilvæg atriði sem geta leitt til þess að þjóðir telja sig hafa undankomuleið til að vera ekki með. Aðgerðaloforðin eru frjáls og er þjóðum frjálst hvernig þau nálgast lausnina, þannig að það eru engin refsiákvæði fyrir að efna ekki loforðin. Hitt atriðið er að samkvæmt bjartsýnustu spám þá duga forsendur loforðanna ekki til – aðgerðaloforðin eins og þau eru í dag (ef það er staðið við þau eins og þau eru núna – það er ekki sjálfgefið að staðið verði við loforðin) valda væntanlega á bilinu 2,7 til 3,5°C hlýnun, sem er verulega yfir markið. Það er þó gert ráð fyrir þeim möguleika að það verði skerpt á aðgerðaloforðunum á næstu árum til að reyna að ná markmiðum samkomulagsins. Sumir sérfræðingar benda á að samkomulagið gefi okkur tíma til að taka á vandanum af alvöru og markmiðin eru að einhverju leiti skýr, þó framkvæmdin sé enn óskýr. Það er til að mynda mun betra að hafa markmið til að hafa að leiðarljósi, en að keyra í blindni fram af bjargbrúninni, sem virtist vera aðferðafræðin fyrir Parísarsamkomulagið.
Góðu fréttirnar eru að samkomulagið inniheldur ferli til eftirfylgni til að styrkja aðgerðaloforðin á næstu árum. Árið 2020 þurfa þjóðir heims að setja fram ný aðgerðaloforð og svo á að halda því ferli áfram á næstu árum á allavega 5 ára fresti. Þjóðir heims gætu sett fram sömu markmið árið 2020, en vonin er að ný markmið verði skarpari og enn skýrari eftir því sem tíminn líður. Þannig að hugsanlega verði gengið enn lengra í framtíðinni en núverandi aðgerðaloforð gefa til kynna.
Parísarsamkomulagið er að hluta til bindandi samningur, en aðgerðaloforð þjóðanna eru ekki bindandi. Samkomulagið inniheldur einhver bindandi atriði, t.d. þurfa lönd að taka þátt í kerfi til að mæla framvinduna við að ná markmiðum sínum og fara í gegnum eftirfylgni.
Hvað er með í samkomulaginu og hvað ekki?
Hér verður farið stuttlega yfir hvað er með og hvað ekki.
Lykilatriðin:
Að hámarks losun gróðurhúsalofttegund verð náð eins fljótt og auðið er og að náð verði jafnvægi í losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda á seinnihluta aldarinnar
Að halda hnattrænni hlýnun af mannavöldum vel fyrir innan 2°C og stefna að aðgerðum til að ná jafnvel að halda hlýnun innan 1,5°C
Endurskoðun og eftirfylgni á 5 ára fresti
100 milljarða dollara loftslags fjármögnun til þróunarlanda á ári hverju frá 2020 til þróunarlanda með skuldbindingu um enn frekari fjármögnun í framtíðinni.
Það er mikilvægt að allir eru með. Fyrri samningar hafa sett ábyrgðina fyrir minnkandi losun á ríkari þjóðir. Í Parísarsamkomulaginu hafa allar 195 þjóðirnar sem standa að samkomulaginu samþykkt að grípa til aðgerða. Ríkari þjóðir viðurkenna að þær eigi að stefna að því að byrjað strax (eins fljótt og hægt er) að draga úr losun og draga hraðar úr henni en aðrar þjóðir.
Kerfi fyrir eftirfylgni (e. ratchet mechanism). Þetta er tæknilegt hugtak fyrir þann hluta samkomulagsins sem gerir ráð fyrir nýjum loforðum og eftirfylgni fyrir árið 2020. Þetta er mjög mikilvægur þáttur samkomulagsins, þar sem að sum stærri þróunarlönd hafa verið treg til að samþykkja kerfi sem myndi krefjast þess að þau myndu skerpa á loforðunum á næsta áratug. Flest aðgerðaloforðin eru markmið sem ná til 2030, en ef þau markmið eru ekki bætt, þá lítur út fyrir að það verði ómögulegt að ná 1,5°C markmiðinu og nánast ómögulegt að ná 2°C markinu. Þetta kerfi á að fá þjóðir heims að borðinu aftur árið 2020 þar sem þau þurfa að setja sér markmið fyrir árin 2025 – 2030 (ný markmið eða þau sömu).
Það er enn stefnt að 100 milljarða dollara fjármagni á ári hverju til að taka á vandanum fyrir árið 2020. En það eru líka skuldbindingar um að reyna að auka það eftir 2020. Það var ljóst frá fyrsta degi að mörg þróunarlönd, sem sum munu finna mest fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, að aukin fjárhagsaðstoð var ein af forsendum fyrir þeirra aðgerðaáætlunum. Það hefur þó ekki leitt til mikilla breytinga, ríkari þjóðir virðast hingað til ekki hafa staðið við markmið Kaupmannahafnarsamkomulagsins frá 2009 um að ná 100 milljarða dollara fjárhagsaðstoð á ári fyrir árið 2020. Ríkari þjóðir ættu að geta gert betur þar og samkomulagið er í rétta átt, en sumir telja að ríkari þjóðir sem eru að lang mestu leiti með sögulega mestu losun gróðurhúsalofttegunda ættu að gera enn betur og skuldi í raun fyrir sína losun í gegnum tíðina.
Hvað er ekki með?
Það má sjálfsagt finna til margt sem ekki er með, en hér verða bara nefnd 2 atriði sem dæmi.
Flugsamgöngur og skipaflutningar eru fyrir utan samkomulagið og hefur það verið gagnrýnt – enda um 5% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.
Sú hugmynd að “halda því í jörðinni“, er hugmynd sem fjallar um að stoppa vinnslu með lögum og reglugerðum til að koma í veg fyrir óhefta vinnslu jarðefnaeldsneytis – s.s. að stjórnvöld á einhvern hátt stjórni vinnslunni í gegnum regluverk. Þessi náglun er ekki með í Parísarsamkomulaginu. Sameinuðu Þjóðirnar hafa viljað fá þjóðir til að leggja til minnkun á losun sjálfviljug og eftir eigin hugmyndafræði, t.d. með aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku, betri orkunýtingu og notkun kolefnisforðabúra, en hefur aldrei lagt til höft á notkun jarðefnaeldsneytis sem slíka. Það má þó gera ráð fyrir að þessi samningur hafi gert að engu vinnslu á mörgum nýjum svæðum, enda meira en nóg til að brenna og samt enda verulega fyrir ofan markið eins og áður hefur komið fram.
James Hansen
Það hafa ýmsir sagt sína skoðun á Parísarsamkomulaginu, meðal annars James Hansen fyrrverandi yfirmaður og vísindamaður hjá NASA, sem stundum hefur verið talin faðir heimsvitundar um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Hann fann sig knúinn til að orða hlutina á eftirfarandi hátt þegar samkomulagið var í höfn:
“Þetta er svindl, falsanir. Það er bara kjaftæði hjá þeim að segja: “Við höfum markmið upp á að halda hlýnun innan 2°C og svo ætlum við að gera aðeins betur á 5 ára fresti.” Þetta eru bara merkingarlaus orð. Það eru engar aðgerðir, bara loforð. Svo lengi sem jarðefnaeldsneyti virðist vera ódýrasta eldsneytið á markaðnum, þá mun það verða brennt áfram.”
Endum þetta með þessum pælingum James Hansen – hann hefur þó vonandi ekki rétt fyrir sér, en það verður einhver að taka að sér að segja að kálið sé ekki sopið þó í ausuna sé komið (ef það er þá komið í ausuna) – jafnvel þó það sé orðað á þann hátt að það sé ekki endilega það orðalag sem flestir vilja heyra, en hann er greinilega skúffaður með niðurstöðuna.
Við höfum áður minnst á verkefnið Earth 101, en á næstu dögum er fjöldinn allur af áhugaverðum viðburðum í tengslum við það.
Miðvikudaginn 25. febrúar næstkomandi, heldur prófessor Kevin Anderson, fráfarandi forstöðumaður Tyndall-loftslagsstonunarinnar í Manchester erindi á Háskólatorgi Háskóla Íslands, sem kallast Strúturinn eða Fönixinn. Sjá nánar hér:
Á fimmtudaginn 26. febrúar verður svo sýning á heimildarmyndinni Merchents of Doubt, auk þess sem Erik Conway svarar spurningum úr sal. Sýningin er í Bíó Paradís og hefst klukkan 20:00, sjá hér:
Föstudagskvöldið 27. febrúar er stefnan aftur tekin á Bíó Paradís, en þar verða sýndar, í samstarfi við Stockfish kvikmyndahátíðina, verðlaunamyndir úr stuttmyndakeppni Alþjóðabankans um loftslagsmál. Sjá einnig hér:
Á sunnudaginn 1. mars næstkomandi verður síðan haldið málþing í Háskóla Íslands, en þar mun Halldór Björnsson verkefnisstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands stjórna umræðum, en Guðni Elísson prófessor setur þingið og kynnir þátttakendur. Á málþinginu verða nokkrir þekktustu sérfræðingar samtímans á sviði loftslagsrannsókna, Gavin Schmidt, Erick Fernandes, Kevin Anderson og Erik M. Conway. Sjá nánar hér:
* Það voru svo sem engar merkilegar fréttir frá COP19 sem haldið var í Varsjá núna í nóvember – en það voru svo sem engin vonbrigði, þar sem vonbrigði byggja á því að til staðar hafi verið von til að byrja með. Við hlökkum til að ræða um COP20 á næsta ári, vonandi verður það fréttnæmt.
Þeir sem fylgjast með loftslagsvísindum vita að nú hefur birst uppkast að fyrstu skýrslunni af þremur um loftslagsmál á vegum IPCC (AR5). Um er að ræða skýrslu vinnuhóps 1 sem heldur utan um þá vísindalegu þekkingu sem til er varðandi veðurfar og loftslagsbreytingar. Vinna þessa hóps fær yfirleitt mesta athygli, en vinnuhópar 2 og 3 fjalla um aðlögun og aðgerðir vegna loftslagsbreytinga.
Þó að heildarniðurstaðan sé svipuð og í síðustu skýrslu, sem birtist árið 2007 (AR4), þá er ýmislegt sem hefur breyst frá því þá. Niðurstaðan er þó orðin ljósari en áður og lítill vafi virðist vera á mannlegum orsökum núverandi hlýnunar. Hér er stutt samantekt á því sem helst ber á milli skýrslunar frá 2007 og þeirrar nýju. Þetta er alls ekki tæmandi listi, enda hafa fjölmargar vísindagreinar, nokkur ár af nýjum gögnum og ný og fullkomnari líkön bæst við í sarpinn síðan síðasta skýrslan kom fram. Helstu breytingar sem við veljum að nefna hér eru eftirtaldar:
Kólnunaráhrif arða í lofthjúpnum eru taldar minni en áður áætlað
Framlag sólarinnar til hækkunar hitastigs frá 1750 er talið minna en áður áætlað
Sjávarstaða á heimsvísu er talið munu rísa meira en áður var áætlað fyrir árið 2100
Það er minni vissa um að aukning úrkomu hafi átt sér stað – en meiri vissa um aukna úrkomu í framtíðinni
Það er ekki breyting í vissu um að tíðni mikillar úrkomu hafi aukist – en meiri vissa að mikil úrkoma muni aukast í framtíðinni
Það er engin breyting á fyrri ályktunum varðandi leitni flóða, hvorki í fortíð né framtíð
Það er minni vissa um aukningu þurrka eða að það hafi orðið sjáanleg breyting í þurrkum frá 1950
Það er minni vissa um aukningu fellibylja
Neðri mörk jafnvægissvörunar loftslags var fært úr 2°C í 1,5°
Nýjar rannsóknir og betri greiningartækni hefur aukið þekkingu vísindamanna á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Þrátt fyrir það eru óvissuþættir nokkrir og hafa jafnvel aukist í sumum þáttum frá síðustu skýrslu.
Samantekt á hitamælingum. a) Tímaraðir sem sýna breytingar í hnattrænu ársmeðaltali. Sýndar eru samantektir þriggja stofnana. b) Áratugameðaltöl gagnanna í a). c) Kort af hitabreytingum í MLOST gagnasafninu fyrir tímabilið 1901 til 2012. Hitabreytingin er reiknuð út frá hallatölu bestu línu gegnum gagnasafnið í hverjum reit. Gerð er krafa um að gögn séu til staðar fyrir a.m.k. 70% tímabilsins, og a.m.k. 20% tímans fyrstu og síðustu 11 árin. Mynd Veðurstofa Íslands.
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er mjög líklegt (extremely likely), eða yfir 95% líkur að athafnir manna hafi valdið meira en helming þeirrar hlýnunar sem varð frá 1951-2010. Sú vissa hefur aukist frá því að vera yfir 90% eða líklegt samkvæmt skýrslunni 2007. Áhrif aukinna gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eru margvísleg. Sjávarstaða hækkar, úrkomumynstur breytast, hafís og jöklar minnka – en allir þessir þættir eru í neikvæðara ástandi en áður var talið.
Einn mikilvægur punktur er að breyting hefur orðið á loftslagslíkönum og notaðar aðrar sviðsmyndir. Hver ný sviðsmynd um losun (RCP – Representative Concentration Pathway) er fulltrúi ákveðins geislunarálags – eða hversu mikla auka orku jörðin mun taka til sín vegna athafna manna. Hin nýju RCP líkön ná yfir stærra svið framtíðarhorfa en gömlu SRES sviðsmyndirnar og því varasamt að bera saman líkön AR4 og AR5.
Kólnunaráhrif arða í lofthjúpnum eru taldar minni en áður áætlað
Örður hafa áhrif á loftslag á tvennan hátt, annars vegar með því að dreifa sólarljósi aftur út í geim og hins vegar með því að mynda ský. Loftslagslíkön taka nú í meira magni inn þátt skýja og ferli tengd örðum. Niðurstaða nákvæmari líkana valda því að kólnunaráhrif arða virðast minni en áður hefur verið talið. Þrátt fyrir aukna þekkingu og nákvæmari líkön þá eru örður enn stærsti óvissuþátturinn við að meta hversu mikil hlýnunin er og verður af völdum manna. Þessi óvissa veldur einnig óvissu við fínstillingu jafnvægissvörunar loftslags (sjá nánari umfjöllun um jafnvægissvörun loftslags hér neðar).
Framlag sólarinnar til hækkunar hitastigs frá 1750 er talið minna en áður áætlað
Í nýju skýrslunni eru nokkrar rannsóknir teknar með þar sem könnuð eru áhrif sólar á loftslag með því að breyta skýjahulu. Niðurstaða skýrslunnar eru þó þær að þau áhrif séu lítil og hafi verið léttvæg síðastliðna öld. Ennfremur er fylgni milli útgeislun sólar og hitabreytinga mjög lítil. Á milli áranna 1980 og 2000 hækkaði hitastig hratt, á sama tíma og sólvirkni minnkaði.
Þó að sólvirkni hafi minnkað frá árinu 1980 og til dagsins í dag, sem veldur neikvæðu geislunarálagi, þá er það þannig að ef skoðað er tímabilið frá upphafi iðnbyltingarinnar (frá 1750 og þar til nú), þá er geislunarálagið jákvætt. En áframhaldandi niðursveifla í sólvirkni hefur orðið til þess að geislunarálag sólarinnar hefur minnkað frá síðustu skýrslu.
Vissan er lítil varðandi spádóma um framtíðarsólvirkni. Því reikna líkön með því að sólvirkni haldist óbreytt. Ekki er talið líklegt að loftslag hverfi aftur til þess tíma þegar litla ísöldin var og hét vegna minnkandi sólvirkni (minna en 10% líkur), enda muni hlýnun af mannavöldum yfirskyggja minnkandi sólvirkni.
Sjávarstaða á heimsvísu er talin munu rísa meira en áður var áætlað fyrir 2100
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er talið líklegt (a.m.k. 66% vissa) að sjávarstaða verði 0,29-0,82 m hærri í lok aldarinnar en á viðmiðunartímabilinu 1986-2005, samkvæmt öllum sviðsmyndum. Þetta er hærra en árið 2007, en þá var talið líklegt að sjávarstaða myndi hækka frá 0,18-0,59 m.
Framlag Grænlands og Suðurskautsins til hærri sjávarstöðu hefur hækkað frá síðustu skýrslu. Þekking vísindamanna á eðlisfræði jökulhvela hefur aukist, auk þess sem gögn eru mun betri sem sýna bráðnun og hreyfingu jökla.
Við síðustu skýrslu þá var vísindaleg þekking talin ófullnægjandi til að meta líklegar sjávarstöðuhækkanir. Þekkingin hefur styrkst en samt er aðeins meðal vissa um framtíðarsjávarstöðuhækkanir. Það er að hluta til vegna þess að mat á hreyfingum jökla er tiltölulega nýtt og vegna þess að nokkur munur er á þeim líkönum sem meta sjávarstöðubreytingar.
Það er minni vissa um að aukning úrkomu hafi átt sér stað – en meiri vissa um aukna úrkomu í framtíðinni
Vissan hefur minnkað frá síðustu skýrslu um að úrkoma hafi aukist frá árinu 1900. Hins vegar er vissan meiri en síðast eða nánast öruggt (yfir 99% líkur) að meðalúrkoma muni aukast hnattrænt um 1-3% við hverja °C hækkun hitastigs.
Breytileiki verður nokkur milli svæða, en almennt séð þá verða blaut svæði blautari og þurr svæði geta orðið þurrari. Það væri í samræmi við þá leitni sem sést hefur með gervihnöttum frá árinu 1979.
Fram til ársins 2100 verða úrhellisatburðir mjög líklegir á sumum svæðum (yfir 90% líkur), hér hefur vissa aukist frá síðustu skýrslu. Þeir atburðir verða öfgafyllri en geta þó orðið sjaldnar. Í heildina er búist við að öfgar í úrkomu muni breytast hraðar en meðalaukning í úrkomu við hækkandi hita.
Mögulegar breytingar til loka þessarar aldar. a) Hnattræn hlýnun fyrir mismunandi sviðsmyndir. Sýnd eru vik frá meðalhita áranna 1986 – 2005. b) Hafísútbreiðsla á norðurhveli að hausti (5 ára hlaupandi meðaltal). c) Hnattrænt meðaltal sýrustigs sjávar. Ferillinn (og gráa umslagið) sem sýndur er fyrir 2005 er reiknaður með þekktum mæliröðum af styrk gróðurhúsalofttegunda, ryks og annarra þátta sem hafa áhrif á geislunarjafnvægi. Bláu og rauðu ferlarnir eftir 2005 sýna útreikninga fyrir tvær mismunandi sviðsmyndir um losun gróðurhúsa-lofttegunda en súlurnar lengst til hægri sýna meðaltal fleiri sviðsmynda, fyrir árin 2081 – 2100. Rauða og bláa umslagið sýna dreifingu líkanreikninga. Fjöldi líkana sem notaður var í hverju tilviki er sýndur á myndunum en á mynd b) er einnig sýndur innan sviga fjöldi líkana sem náðu vel að herma eftir meðalhafísþekju 1979 – 2012. Mynd Veðurstofa Íslands
Það er engin breyting á fyrri ályktunum varðandi leitni flóða, hvorki í fortíð né framtíð
Bæði þá og nú, hafa vísindamenn ekki séð neina leitni flóða og því lítil vissa um breytingar á stærð og tíðni flóða hnattrænt. Ennfremur eru engir spádómar um aukin flóð í framtíðinni.
Það er minni vissa um aukningu þurrka eða að það hafi orðið sjáanleg breyting í þurrkum frá 1950
Samkvæmt uppkasti nýju skýrslunnar þá er lítil vissa um að breytingar hafi orðið á þurrkum hnattrænt frá árinu 1950 og að menn eigi þar þátt í breytingum á þurrkum.
Varðandi framtíðina, þá þykir líklegt (a.m.k. 66% vissa) að sum svæði muni finna fyrir auknum þurrkum, en hnattrænt er óvissan mikil.
Það er minni vissa um aukningu fellibylja
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er minni vissa um að það hafi orðið langtímaaukning í fellibyljum hnattrænt og lítil vissa um þátt manna í þeim breytingum. Ástæðan er endurgreining gagna, þar sem tekið er meira tillit til auðveldara aðgengi að gögnum. Nýrri gögn benda til þess að að núverandi breytingar séu mögulega innan náttúrulegs breytileika.
Meðal vissa er um að tíðni fellibylja muni minnka eða haldast stöðugt í framtíðinni. Hins vegar er líklegra en ekki að tíðni sterkustu fellibyljana muni aukast (meira en 50% líkur) á þessari öld
Neðri mörk jafnvægissvörunar loftslags var fært úr 2°C í 1,5°C
Jafnvægissvörun loftslags við tvöföldun CO2 í andrúmsloftinu er oft notað til að reikna út hækkun hitastigs í framtíðinni, sjá m.a. Jafnvægissvörun loftslags hér á loftslag.is. Í nýju skýrslu IPCC er þessi jafnvægissvörun hitastigs talin geta verið á bilinu 1,5° – 4,5°C. Breytingin frá fyrri skýrslu er sú að lægra gildið hefur lækkað úr 2°C í 1,5°C – en efri mörkin eru enn þau sömu. Þessi lækkun neðri markanna virðist byggjast á stöðnun í hækkun hitastigs andrúmslofts við yfirborð jarðar á síðasta áratug.
Þessa stöðnun í hækkun hitastigs andrúmslofts við yfirborð jarðar hefur verið útskýrð á ýmsan hátt, m.a. með þeirri staðreynd að yfir 90% af hlýnun jarðar nú um stundir virðist fara í höfin og hefur verið bent á að þessi breyting geti verið gagnrýni verð. En útreikningar á því hvernig hitastig er talið getað hækkað fram að 2100 í skýrslunni eru væntanlega gerðir í samræmi við þessa jafnvægissvörun og það gefur okkur því ekki miklar vonir um væga útkomu þó neðri mörkin hafi færst lítillega til.
Lokaorð
Þessi nýja skýrsla IPCC virðist staðfesta enn frekar að hnattræn hlýnun af mannavöldum er staðreynd og ef ekkert verður að gert, þá er enn meiri hækkun hitastigs í pípunm á næstu áratugum, sem er í samræmi við fyrri skýrslur og samdóma álit sérfræðinga á þessu sviði um langt skeið. Fram að 2100 þá er gert ráð fyrir að hitastig geti hækkað töluvert – allt eftir því hvaða sviðsmyndir í losun gróðurhúsalofttegunda eru skoðaðar. En í hnotskurn er staðan sú að eftir því sem meira af gróðurhúsalofttegundum er dælt út í andrúmsloftið (og hluti endar í hafinu líka og veldur m.a. súrnun sjávar) þá aukast líkurnar á meiri hækkun hitastigs og meiri súrnun sjávar sem hefur svo áhrif á aðra þætti eins og hafís, jökla, sjávarstöðu, vistkerfi sjávar o.s.frv.
Einn áhrifamesti fyrirlesari um loftslagsbreytingar, Bill McKibben heldur opinn fyrirlestur í boði Landverndar, Norræna hússins og námsbrautar í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ. Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröðinni “Frá vitund til verka” um hugarfarsbreytingu í umhverfismálum og fer fram í Háskólabíó, SAL 1, sunnudaginn 5. maí kl. 12:30. Ef þið hafið möguleika, vinsamlega skráið ykkur á Facebook viðburð sem hefur verið stofnaður um fyrirlesturinn – en annars bara mæta, þetta er opinn viðburður.
Bill McKibben er höfundur fjölda bóka um umhverfismál og einn stofnenda hinnar alþjóðlegu grasrótarhreyfingar 350.org, sem berst fyrir því að verja Jörðina fyrir hlýnun andrúmslofts. Samtökin hafa samhæft um 15 þúsund fjöldafundi í 189 löndum síðan 2009.
Bill McKibben er höfundur bókarinnar „The End of Nature“ sem var ein fyrsta bók fyrir almenning um loftslagsbreytingar. McKibben skrifar í fjölmörg tímarit, m.a. The New York Times, The Atlantic Monthly, Rolling Stone og Outside. Hann kemur fram út um allan heim og er afar vinsæll og áhrifamikill fyrirlesari. Time Magazine hefur útnefnt hann sem „The planet’s best green journalist“ og árið 2010 skrifaði Boston Globe að hann væri „probably the country’s [US] most important environmentalist“.
Hér að neðan eru linkar á upplýsingar um McKibben og um 350.org.
Það er áætlað að undir hafsbotni á norðurslóðum megi finna allt að fjórðung allra óupgötvaðra olíu- og gasbirgða í heiminum. Hratt hop eldri og þykkari hafíss ásamt meiri eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti hefur dregið athygli að Norðurskautinu sem aldrei fyrr. Jafnvel á sama tíma og heimurinn ræðir um nauðsyn þess að skipta í loftslagsvænni orku, þá eru öflugir efnahagshvatar fyrirtækja og stjórnvalda til að hrinda af stað könnun Norðurslóða, til að mynda könnun staða eins og í Alaska, Vestur Kanada, Grænlands- og Barentshafi ásamt Norður-Rússlandi.
Málþinginu er ætlað til að auka þekkingu og byggja upp getu meðal frjálsra félagasamtaka (NGOs) á sviði olíu- og gas notkunar og bjóða upp á tækifæri fyrir viðkomandi samtök til stefnumótunar um málefnið.
Ráðstefnudögunum tveimur verður skipt í þrjá þematengda fundi/efni, þar sem eftirfarandi efni verða höfð að leiðarljósi.
Olía og gas á norðurslóðum í hnattrænu samhengi – umfangið í dag og þróun til framtíðar, ásamt umræðu um þá hvata sem að baki liggja
Tekist á við áskoranir – dæmi um núverandi stefnu og frumkvæði
Horft fram á við – hlutverk frjálsra félagasamtaka og hvernig hægt er að hafa áhrif á umræðuna
Málþingið verður haldið dagana 12.-13. nóvember og mun ég skrifa um upplifun mína hér á loftslag.is undir liðnum Haparanda. Þetta er einstakt tækifæri fyrir mig (og vonandi fyrir lesendur líka) til að setja mig inn í hvernig umræðan um þetta málefni er að þróast. Þetta er ekki síst athyglisvert í ljósi núverandi umræðu hér á landi um hugsanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Ég kem að þessu sem óbundinn einstaklingur og vona að ég geti komið boðskapi fundarins á framfæri hér á loftslag.is. Ég fer á fundinn í boði UNEP GRID-Arendal, en milliliður og aðal hvatamaður að þátttöku minni á málþinginu er Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Á málþinginu verða aðilar frá frjálsum félagasamtökum, iðnaðinum, stjórnvöldum, háskólum, sjóðum og öðrum áhugasömum einstaklingum. Þátttökulistinn inniheldur m.a. fólk frá Shell, Greenpeace, Háskólum frá m.a. Laplandi og Danmörku og opinberum stofnunum frá ýmsum löndum.
Nýjung, núna er einnig hægt að bæta við ummælum á loftslag.is í gegnum Facebook, sjá hér undir.
Það eru liðnar þó nokkrar vikur síðan ljóst varð að hafíslágmarkið í ár myndi slá öll fyrri met, með minni útbreiðslu en áður hefur mælst. Það stendur heima og vel það, þar sem metið frá því 2007 var slegið rækilega og var hafís útbreiðslan í ár 18% undir metinu frá því þá, eða 3,41 milljón ferkílómetrar (metið árið 2007 var 4,17 milljón ferkílómetrar) – sjá töflu hér undir.
Þann 16. september 2012 fór hafísútbreiðslan í 3,41 milljón ferkílómetra. Þetta virðist vera lágmark ársins í ár. Vegna kólnandi veðurs og lækkandi sólarstöðu mun hafísútbreiðslan líklega byrja að aukast að venju, þó slá megi þann varnagla að veður og vindar gætu enn ýtt lágmarkinu aðeins neðar.
Hafíslágmarkið í ár er 760 þúsund ferkílómetrum lægra en fyrra met frá 2007, sem átti sér stað 18. september 2007. Þetta jafngildir um það bil 7,6 sinnum stærð Íslands. Lágmarkið í ár er 3,29 milljón ferkílómetrum undir meðaltali hafíslágmarksins fyrir tímabilið 1979 – 2000. Lágmarkið í ár er því 18% undir 2007 mælingunum og 49% undir meðaltali tímabilsins 1979 til 2000.
Í allt var heildar bráðnun hafíssins í ár um 11,83 milljón ferkílómetrar af hafís, frá því hámarkinu var náð þann 20. mars í ár og þar til lágmarkinu var náð. Þetta er mesta hafísbráðnun frá því gervihnattamælingar hófust og meira en 1 milljón ferkílómetrum meiri en mælingar frá fyrri árum hafa sýnt. Á myndinni hér til hliðar má sjá hvernig aðstæður eru í ár, borið saman við miðgildi áranna 1979 til 2000 – klikkið á myndina til að stækka hana.
Sex lægstu lágmörk hafísútbreiðslu hafa öll mælst á síðustu 6 árum (2007 til 2012). Hér undir má sjá samanburð á nokkrum árum og tímabilum.
Í töflunni hér undir má sjá samanburðinn á milli ára og tímabila í tölugildum:
Tafla 1. Fyrri hafís lágmörk á Norðurskautinu
ÁR
LÁGMARKS HAFÍS
DAGSSETNING
MILLJÓN FERKÍLÓMETRAR
2007
4,17
18. september
2008
4,59
20. september
2009
5,13
13. september
2010
4,63
21. september
2011
4,33
11. september
2012
3,41
16. september
1979 – 2000 meðaltal
6,70
13. september
1979 – 2010 meðaltal
6,14
15. september
Sá veruleiki sem við blasir er undir þeim framtíðarspám sem hafa verið gerðar, sjá mynd hér undir. Það má jafnvel spá í það hvort að verstu spár varðandi þróun hafísútbreiðslu geti orðið að veruleika. Þess má geta að hafísinn er þynnri en áður og það bendir til að það geti orðið stutt í að við upplifum Norðuskaut án hafíss á þessum tíma árs.
Sökum anna hjá ritstjórum loftslag.is þá er lítið af nýju efni á loftslag.is þessa daga – en það stendur til bóta. Hér er aftur á móti tilkynning um dag umhverfisins af heimasíðu umhverfisráðuneytisins.
Dagur umhverfisins verður haldinn hátíðlegur þann 25. apríl næstkomandi. Að þessu sinni ber daginn upp á 250 ára fæðingarafmæli náttúrufræðingsins og læknisins Sveins Pálssonar sem dagurinn er tileinkaður og bera hátíðarhöldin þeirra tímamóta nokkur merki.
Dagskráin hefst í raun daginn á undan, þ.e. þriðjudaginn 24. apríl, með málþingi um Svein Pálsson þar sem fjallað verður um hann frá ólíkum verkum hans og hugðarefnum. Að málþinginu standa Læknafélag íslands, Landgræðsla ríkisins, Mýrdalshreppur og umhverfisráðuneytið.
Eins og kunnugt er var Sveinn annálaður fræðimaður, rithöfundur, læknir og ferðagarpur sem var frumkvöðull í rannsóknum á náttúru landsins og þá sérstaklega jöklunum. Hann er talinn meðal fyrstu Íslendinganna sem vöktu athygli á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, og vegna þess var fæðingardagur hans valinn sem Dagur umhverfisins. Málþingið hefst kl. 15 í sal 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands og er öllum opið. Nánari upplýsingar má finna hér.
Á Degi umhverfisins, miðvikudaginn 25. apríl, verður hátíðarsamkoma umhverfisráðuneytisins í Listasafni Sigurjóns kl. 10:30 þar sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhendir viðurkenningar fyrir störf á sviði umhverfismála. Kuðungurinn verður veittur fyrirtæki sem hefur skarað fram úr í umhverfismálum og Varðliðar umhverfisins er viðurkenning sem veitt er grunnskólabörnum fyrir verkefni á sviði umhverfismála.
Þá verður Sveins minnst með veglegum hætti í Vík í Mýrdal, þar sem hann bjó og starfaði um áratuga skeið. Hefst dagskrá þar kl. 15, á Guðlaugsbletti, þar sem umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir mun afhjúpa minnisvarða um Svein. Að lokinni hátíðardagskrá í Félagsheimilinu Leikskálum verður farið að leiði Sveins í gamla kirkjugarðinum á Reyni en gerðar hafa verið endurbætur á legsteini Sveins auk aðkomu garðsins og nánasta umhverfi.
Það virðist vera komið upp nýtt “-gate” mál. Þeir sem hafa fylgst með umræðunni um loftslagsmál hafa vafalaust tekið eftir málum eins og hinu svokallað “climate-gate” máli, þar sem “efasemdamenn” um hnattræna hlýnun af mannavöldum fullyrtu út og suður um svik og pretti vísindamanna án þess að stoðir reyndust vera fyrir því í raun og veru. Þessi svokölluðu “geita” mál urðu fleiri, þar sem “efasemdamenn” fullyrtu um alls kyns falsanir vísindamanna (m.a. varðandi bráðnun jökla Himalaya og rannsóknir varðandi Amazon). Ekki er hægt að segja að þessum fullyrðingum þeirra hafi fylgt gögn sem gátu stutt mál þeirra (en tilgangurinn helgar jú meðalið). Að mestu leiti voru þetta staflausar fullyrðingar og einskis verðir útúrsnúningar hjá hinum sjálfskipuðu “efasemdamönnum”. Umræðu um þessi svokölluðu “geita” mál mátti einnig finna á bloggi “efasemdamanna” hér á landi og fóru menn mikinn oft á tíðum. Þegar öllu er á botnin hvolft þá eru þessi “climate-gate” mál hvorki fugl né fiskur. Við höfum hér á loftslag.is fjallað aðeins um þau mál og þann algera skort á rökum sem þau byggðu á. Það má í þessu ljósi líka nefna endalausan straum frétta af vísindamönnum sem voru hreinsaðir af tilbúnum ásökunum “efasemdamannanna”, sjá t.d. Vísindamenn hreinsaðir af ásökunum um óheiðarlega meðferð gagna og Michael Mann sýknaður af vísindalegum misgjörðum svo eitthvað sé nefnt…
Nú er komið upp nýtt mál sem væntanlega mun ekki heyrast mikið um á síðum “efasemdamanna” – nema þá kannski til að benda á “ofsóknir” á hendur þeim eða um meintar falsanir í þeirra garð (já, það má segja að þeir kasti steinum úr glerhúsi). En hvað sem öðru líður, þá hefur málið fengið hið lýsandi nafn Denial-gate, eða eins og ég vel að kalla það hérna “afneitunargeitin”. Málið fjallar um það að það hafa lekið út skjöl frá Heartland Institute varðandi fjármögnun “efasemdamanna”, þ.e. hverjir standa fjárhagslega að baki “efasemdamönnum” svo og önnur viðkvæm skjöl. Fyrst var fjallað um þetta mál á Desmogblog.com, Heartland Institute Exposed: Internal Documents Unmask Heart of Climate Denial Machine. Það má því segja að hjarta afneitunarinnar í BNA hafi verið afhjúpað og sé í herbúðum Heartland Institute (sem m.a. tók þátt í að afneita tengslum tóbaks og krabbameins á sínum tíma – vanir menn í afneitunar faginu). Þetta mál byggist meðal annars á, því er virðist, skjölum úr ársreikningi Heartland Institute, þar sem m.a. er að hluta til sagt frá því hverjir þáðu styrki svo og hverjir veittu þá.
Meðal þess sem hefur komið fram eru gögn um fjármögnun margra “efasemdamanna”, m.a. hafa þeir Anthony Watts á WUWT, Craig Idso á CO2Science, Bob Carter og Fred Singer þáð umtalsverðar upphæðir, svo einhverjir fáir séu nefndir til sögunnar. Við höfum m.a. fjallað um þess “kappa” hér á síðum loftslags.is, sjá m.a. Miðaldaverkefnið (Craig Idso), Mótsagnarkennt eðli röksemda “efasemdamanna” um hnattræna hlýnun (Fred Singer o.fl.), Tengsl El Nino og langtíma hlýnunar hrakin (Bob Carter) og Staðnir að óvönduðum vinnubrögðum (Anthony Watts). Þeir félagar hafa hver um sig þegið umtalsverðar upphæðir, jafnframt því að vera framarlega í heimi loftslags afneitunarinnar. Anthony Watts hefur fengið sem nemur rúmum 11 milljónum króna (um 90.000 USD) til að setja fram sínar “rannsóknir” þar sem hann var m.a. staðin að óvönduðum vinnubrögðum, Graig Idso fær sem nemur rúmri 1,4 milljónum á mánuði (11.600 USD), sem væntanlega er fyrir hans þátt og Miðaldaverkefni hans, Singer fær líka mánaðargreiðslur sem virðast nema minnst 600 þúsundum á mánuði (5.000 USD) plús kostnað. Þetta eru aðeins örfá dæmi um fjármögnun “efasemdamanna” eins og þau líta út í skjölum Heartland…en nánar má lesa um þetta á Desmogblog.com.
Að sjálfsögðu hefur Heartland Institute tjáð sig um málið og segja að eitt af aðalgögnunum sem lekið var sé tilbúningur (ætli það sé þá staðfesting á að hin skjölin séu úr þeirra herbúðum…ekki gott fyrir þá hvað sem öðru líður), en það var svo sem ekki við öðru að búast, en að þeir myndu klóra eitthvað í bakkann varðandi þetta mál. Ætli það megi ekki leyfa þeim að njóta vafans varðandi það plagg þar til annað kemur í ljós, þó ekki hafi “efasemdamenn” almennt talið nokkurn vafa um að vísindamenn væru með falsanir og svik í hinu svokallað “climate-gate” máli… En jæja, svona er þetta stundum, what goes around comes around, ying og yang og allt það…