Í nýlegu myndbandi fer hinn eitursnjalli Potholer54 yfir enn eina mýtuna sem algeng er í loftslagsumræðunni.
Tengt efni á loftslag.is:

Í nýlegu myndbandi fer hinn eitursnjalli Potholer54 yfir enn eina mýtuna sem algeng er í loftslagsumræðunni.
Tengt efni á loftslag.is:

Í þessum fróðlega fyrirlestri frá Earth101 talar Stefan Rahmstorf um mögulegar afleiðingar þess að Golfstraumurinn hægi á sér. Stefan færir rök fyrir því að veiking Golfstraumsins sé jafnvel hafin nú þegar. Stefan kom til landsins árið 2016 og hélt fyrirlesturinn á vegum Earth101. Á vef Earth101 má einnig finna marga aðra athyglisverða fyrirlestra sem fjalla um loftslagsmál, m.a. frá helstu sérfræðingum heims.

Af vefsíðu Earth101:
“Stefan Rahmstorf er haffræðingur og loftslagsfræðingur. Frá árinu 2000 hefur hann verið prófessor í hafeðlisfræði við háskólann í Potsdam og hann er einnig deildarformaður loftslagsrannsóknarstofnunarinnar í Potsdam. Hann var einn af aðalhöfundum Fjórðu yfirlitsskýrslu IPCC og er meðlimur í Bandaríska jarðeðlisfræðifélaginu (AGU). Hann er einn stofnenda RealClimate bloggsins og var nefndur sem einn af tíu fremstu loftslagsvísindamönnum heims í Financial Times árið 2009.”
Tengt efni á loftslag.is

Í þessu myndbandi þá ræða nokkrir vísindamenn um bráðnun jökulhvelsins á Suðurskautinu. Með því að takmarka hækkun hitastigs þá má hugsanlega halda aftur af sjávarstöðubreytingum, eða hvað? Fróðlegt myndband þar sem nokkrir vísindamenn velta fyrir sér sviðsmyndum framtíðarinnar varðandi sjávarstöðubreytingar og tengingu við bráðnun á jökla á Suðurskautinu.
Þetta myndband er úr smiðju Peter Sinclair sem hefur gert myndbönd undir heitinu Greenman3610 á YouTube og hefur oft verið vísað í þau hér á Loftslag.is.
Tengt efni á loftslag.is

Hnattrænt hitafrávik á þessu ári gæti farið 1°C yfir meðalhitastig þess sem var fyrir iðnbyltingu, samkvæmt Met Office (bresku veðurstofunni). Það yrði langhæsti hiti sem mælst hefur frá upphafi mælinga og markar ákveðin tímamót í loftslagssögu jarðar, sem nú stýrist í grófum dráttum af losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum.
Ef skoðuð eru gögn frá janúar til september, þá sýna gögn frá HadCRUT að hitafrávik það sem af er þessa árs er um 1,02 °C (±0.11 °C) ofan við hitastig fyrir iðnbyltingu.
Eins og við fyrri hitamet jarðar er það El Nino sem keyrir hitastigið upp, ofan á hinni undirliggjandi hnattrænu hlýnun af mannavöldum. Þróunin minnir um margt á undanfara metársins 1998, en það ár var um skeið lang heitasta árið frá upphafi mælinga eða fram til 2005. Árin 2012 og 2014 hafa samkvæmt flestum mælingum verið heitari og það án sterkra áhrifa El Nino. Ef þróunin heldur fram sem horfir, þá verður 2015 heitasta árið frá upphafi mælinga – en þar með er ekki öll sagan sögð, því áhrifa El Nino gæti gætt meira árið 2016 og það því slegið það met sem 2015 slær eða að minnsta kosti verið nálægt því.
Þó svo fari að árin 2015 og 2016 verði þau heitustu frá upphafi, þá er búist við því að ofanáliggjandi náttúrulegar sveiflur haldi áfram að hafa áhrif á hnattrænan hita og því mun hlýnunin ekki halda stanslaust áfram á næstu árum – þó undirliggjandi hnattræn hlýnun haldi áfram.
Hitastigið eftir þetta ár, verður þá langt komið með að vera hálfnað upp í tveggja gráðu markið (2°C) sem er það hitastig sem oft er notað núorðið í alþjóðasamskiptum sem mörk ásættanlegrar hækkunar hitastigs. Þótt flestir telji það ásættanlegt, þá eru ýmsir sem telja þá hækkun hitastigs óásættanlega m.a. vegna hækkunar sjávarstöðu, auk þess sem hliðarafurð losunar CO2 út í andrúmsloftið, súrnun sjávar, getur verið orðið vandamál fyrr.
Magn heildarlosunar á CO2 út í andrúmsloftsins verður lykillinn að því hversu mikil hin hnattræna hlýnun af mannavöldum verður. Það er talið að ef losað verði að mesta lagi 2.900 gígatonnum af CO2 út í andrúmsloftið, þá muni vera yfir 66% líkur á því að hægt verði að takmarka hlýnunina við 2°C. Í lok árs 2014 var búið að losa yfir 2.000 gígatonnum af CO2, sem þýðir að mannkynið hefur lítið borð fyrir báru og að nú þegar sé töluverð hlýnun í viðbót í kortunum. Þó það taki langan tíma fyrir jörðina að hitna, þá tekur enn lengri tíma fyrir sjávarstöðu að ná jafnvægi miðað við ákveðið hitastig þ.e. jafnvægi þarf að komast á vegna þenslu sjávar vegna aukins sjávarhita og vegna bráðnunar jökla.
Það er því þannig að um 2/3 hefur verið losað af því CO2 sem mun mögulega valda um 2°C hækkun eftir iðnbyltingu og á sama tíma hefur hitastigið aukist um helming af því – en á sama tíma hefur sjávarstaða eingöngu hækkað um 20 sm frá því fyrir iðnbyltingu eða 1/3 af því sem talið er að geti orðið ef hitastigið nær stöðugu 2°C hitafráviki um aldamótin 2100.
Rannsóknir benda til að enn sé hægt hægt að koma í veg fyrir að hitinn fari yfir 2°C markið, hins vegar er það svo að því seinna sem dregið verður úr losun, því hraðar verður mannkynið að draga úr losun til að svo verði.
Global temperatures set to reach 1 °C marker for first time
Tengt efni á loftslag.is

Hér er nýjasta myndband Peter Sinclair, en það fjallar um jökulbráðnun og sjávarstöðubreytingar, með tilvísun í hitastig eins og það var á Plíósen.
Tengt efni á loftslag.is

Nokkrar nýjar greinar og skýrslur undanfarið sýna klárlega að vandi fugla er mikill og verður enn meiri við áframhaldandi loftslagsbreytingar og aðrar neikvæðar breytingar af mannavöldum.
Samkvæmt nýju mati þá er á bilinu fjórðungur til helmingur allra tegunda fugla mjög berskjölduð (e. vulnerable) fyrir loftslagsbreytingum. Varað er við því að ef áfram heldur sem horfir í losun manna á gróðurhúsalofttegundum, þá muni þurfa að kosta til miklum verndunaraðgerðum, sem ekki er víst að dugi til.
Þetta nýja mat (Foden o.fl. 2013) var gert af vísindamönnum á vegum International Union for Conservation of Nature (IUCN), sem eru samtök sem meðal annars útbúa svokallaðan Rauða lista yfir tegundir í hættu (Red List of Threatened Species).
Í matinu tóku Foden og félagar tillit til ýmissa þátta sem ekki höfðu áður ratað inn í útreikninga þeirra. Þættir eins og hversu fljótt tegundir gátu flust á milli búsvæða, og hvort á milli svæða væru hindranir, t.d. fjallgarðar. Þá var tekið með í reikninginn líkur á því að tegundirnar geti þróast, t.d. þróast þær dýrategundir hraðar sem fjölga sér hratt.
Niðurstaðan er sláandi, en á bilinu 24 -50% allra fuglategunda eru talin mjög berskjölduð og þá vegna loftslagsbreytinga. Þessi niðurstaða er sambærileg við niðurstöðu rannsóknar sem birtist í Nature fyrir nokkrum árum (Thomas o.fl. 2004), en þar var talið líklegt að um 15-37 % allra dýrategunda yrðu nánast údauðar árið 2050 – vegna loftslagsbreytinga.
Sérstaklega varasöm svæði eru t.d. Amazon frumskógurinn og Norðurskautið, en þar eru breytingarnar einna mestar og mikið af fuglum sem eru mjög aðlagaðir að því loftslagi.
Í nýrri tilkynningu frá hinni bandarísku stofnun Fish and Wildlife Service (USFWS 2013) er sagt frá breytingum sem við íslendingar könnumst við. Meðfram ströndum Maine, nyrst á Austurströnd Bandaríkjanna, hafa stofnstærðir ýmissa fugla hrunið undanfarin ár. Þar eins og hér við Íslandsstrendur eru það meðal annars tegundir eins og lundar og kríur sem hafa farið halloka.
Ástæðan er talin vera minnkandi fæða, hvoru tveggja vegna fiskveiða og vegna færslu fiskistofna til norðurs vegna hlýnunar sjávar. Erfiðara reynist því fyrir fugla við sjávarsíðuna að fæða unga sína. Kríustofninn við strendur Maine hefur t.d. hnignað um 40 % á síðustu 10 árum.
Nýlega birtist grein í Proceedings of the Royal Society B (Iwamura o.fl. 2013) um áhrif sjávastöðubreytinga á farflug vaðfugla.
Það hefur verið vitað í nokkurn tíma að sjávarborð sé að hækka vegna hlýnunar jarðar. Nú hafa Iwamura og félagar sýnt fram á hvernig sjávarstöðubreytingar hafa áhrif á vaðfugla. Milljónir vaðfugla stunda farflug milli hlýrra vetrarstöðva og fæðuríkari sumarstöðva á hverju ári. Viðfangsefni rannsóknarinnar var farflug vaðfugla frá Norðurskautssvæðum Rússlands og Alaska og suður eftir til Suðaustur Asíu og Ástralíu. Skoðaðar voru 10 tegundir vaðfugla.
Vísindamennirnir hafa áætlað að við sjávarstöðuhækkanir þá muni flæða yfir 23-40% af búsvæðum við ströndina, sem myndi valda allt að 70% fækkun í stofnum sumra tegunda. Sjávarstöðuhækkanir eru taldar hafa mest áhrif á þær tegundir fugla þar sem stór hluti stofnsins stoppar á einum stað í farfluginu, til að matast og endurnýja orkuna fyrir áframhaldandi för. Þessir flöskuhálsar ákvarða í raun stofnstærð þessara tegunda og því mun eyðilegging þeirra vegna sjávarstöðuhækkanna og annarra athafna mannanna hafa úrslitaáhrif í viðhaldi þeirra.
Að lokum er rétt að minnast á skýrslu BirdLife International (2013), en þar kemur meðal annars fram að allt að 1 tegund af hverjum 8 séu í útrýmingahættu – og þá sérstaklega vegna búsvæðabreytinga í kjölfar loftslagsbreytinga og landbúnaðar.
BirdLife samstarfið hefur sett niður á kort mikilvæg svæði jarðar fyrir fugla og líffræðilega fjölbreytni (Important Bird and Biodiversity Areas). Þau svæði eru nú orðin yfir 12 þúsund að tölu.

Við endum á orðum eins af forsvarsmönnum BirdLife, Dr Leon Bennun – hér lauslega þýtt:
Fuglar eru í raun nákvæmir og auðlæsir umhverfismælar sem sýna glöggt það álag sem lífsmynstur nútímamanna hefur á líffræðilegan fjölbreytileika jarðarinnar.
Foden o.fl. 2013: Identifying the World’s Most Climate Change Vulnerable Species: A Systematic Trait-Based Assessment of all Birds, Amphibians and Corals
Rauði Listinn: Red List of Threatened Species
Thomas o.fl. 2004: Extinction risk from climate change (PDF)
USFWS 2013: Seabirds Warn of Ocean Change
Iwamura o.fl. 2013: Migratory connectivity magnifies the consequences of habitat loss from sea-level rise for shorebird populations
BirdLife International 2013: State of the World’s Birds – indicator for our changing worlds
Tengt efni á loftslag.is

Við viljum vekja athygli á áhugaverðri dagskrá sem er í tengslum við Dag Jarðar og félagasamtökin Grænn Apríl standa fyrir, í Háskólabíói þann 21.apríl en dagskrá hefst klukkan 15:
Þema dagsins er „Birting loftslagsbreytinga“ og um það verður fjallað í stuttum fyrirlestrum af okkar færustu vísindamönnum.
Fyrirlesarar eru:
Dr. Tómas Jóhannesson, Jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands – Áhrif loftslagsbreytinga á veðurfar.
Dr. Guðfinna Aðalgeirsdóttir, dósent við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands – Áhrif loftslagsbreytinga á jökla og hækkun sjávarstöðu.
Dr. Bjarni Diðrik Sigurðarson, prófessor og brautarstjóri skógfræði og landgræðslu við Landbúnaðarháskóla Íslands – Skógar og loftslagsbreytingar: hver er tengingin?
Dr. Jón Ólafsson, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands – Súrnun sjávar.
Dr.Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands – Verndun jarðvegs.
Dr. Harald J. Sverdrup, verkfræðingur og Frumkvöðull Ársins 2012 í Noregi – Tenging auðlinda og auðs.
Inn á milli fyrirlestra verða sýnd myndbönd þar sem spurt er; “Hvað er smart við að vera umhverfisvænn?” ásamt myndasýningu Gunnars V. Andréssonar, ljósmyndara af náttúruperlum Íslands.
Auk þess mun tónlistarfólkið Torgeir Vassvik, Friðrik Karlsson og Íris Lind Verudóttir koma fram.
Dagskrá hefst klukkan 15:00. Miðaverð í forsölu til 19.apríl er (miði.is) 990 krónur eftir það 1.290 krónur. Allur ágóði af viðburðinum rennur til skógræktarátaksins APRÍLSKÓGAR 2013.
Það eru félagasamtökin Grænn Apríl sem standa fyrir Degi Jarðar 2013

Það er ekki óalgengt að fram séu settar “efasemdir” um loftslagsvísindin á opinberum vettvangi eins og til að mynda á vef- og fjölmiðlum hér á landi. Oft er það einhver misskilningur manna varðandi eitthvað sem sumir velja að kalla meint gróðurhúsaáhrif eða einhverjar aðrar ályktanir sem hafa lítið sem ekkert með raunveruleikann að gera. Það er þarft verk að skjalfesta opinberar yfirlýsingar varðandi þessi mál. Það getur vonandi haft það í för með sér að viðkomandi hugsi sig um varðandi þeirra eigin frjálslegu túlkanir á loftslagsfræðunum í framtíðinni.
Mig langar að leggja út með tilvísunum í þrjá einstaklinga úr hinum títt umtöluðu bloggheimum. Sá fyrsti er góðkunningi okkar á loftslag.is, Ágúst H. Bjarnason. Hann á það til að draga upp einhver sérvalin gögn, til að reyna að draga upp mynd af meintri kólnun eða öðru sem virðist að óathuguðu máli geta dregið úr áhyggjum manna af manngerðum loftslagsbreytingum. Vinsælt hjá honum hefur verið að benda á það þegar smávægileg kólnun verður til skemmri tíma vegna náttúrulegs breytileika eða einhverjar skammtíma sveiflur í sjávarstöðunni. Það er erfitt að finna fullyrðingar hjá honum þar sem hann virðist oft ýja að einhverju, en þær finnast þó, eins og sjá má hér undir:
Gott er til þess að hugsa til þess að um þessar mundir er ekkert sem bendir til þess að sjávarborð sé að rísa óvenju hratt, nema síður sé.
[Heimild: Ágúst H. Bjarnason – Verkfræðingur og bloggari – Hækkun sjávarborðs; engar fréttir eru góðar fréttir…]
Ágúst var reyndar svo vinsamlegur að vísa í færslu á loftslag.blog.is í athugasemdum (ekki var mögulegt fyrir ritstjórn loftslag.is að gera athugasemdir við þessa færslu hans), þar sem við ræddum aðferðafræði hans, sjá hér. Það er reyndar ekki alltaf auðvelt að finna beinar fullyrðingar eða ályktanir um fræðin hjá Ágústi, enda setur hann oft mikla varnagla á og setur hlutina oft upp í spurnarformi sem ruglar lesendur sem þurfa því stundum að álykta út frá hans orðum – og þær ályktanir geta svo sem farið um víðann völl. Ágúst hefur þó stundum notað eftirfarandi ályktun sína þegar um þetta er rætt…en allavega slær hann þarna mikinn varnagla á fræðin en útilokar í sjálfu sér ekkert:
Helmingur [hita] hækkunarinnar gæti stafað af völdum náttúrulegra breytinga og helmingur vegna losunar manna á koltvísýringi. Hugtakið “helmingur” er hér mjög loðið og gæti þýtt nánast hvað sem er.
[Heimild: Ágúst H. Bjarnason – Verkfræðingur og bloggari – Er hnatthlýnunin ógurlega bara hjóm eitt…?]
Vinsamlega takið eftir varnaglanum, orðalaginu og spurningamerkinu í yfirskriftinni hjá Ágústi… Annars er fátt sem styður þessa fullyrðingu, þar sem gögn styðja ekki svona ályktanir nema síður sé. Hér undir er svo enn ein spurningamerkjafyllt “ályktun” um þessi mál – lesendum sem “efuðust” um fræðin var svo góðfúslega gefið leyfi til að koma með áskanir á hendur Al Gore, umhverfisráðherra og fleiri, ásamt fullyrðingum um trúarbrögð, skattpíningar og fleira sem nefnt var til sögunnar án athugasemda frá Ágústi – en hann vandaði sig þó við að gera athugasemdir við gagnrýnar og málefnalegar athugasemdir ritstjórnar loftslag.is, sem endaði svo með lokun fyrir athugasemdir þegar hann var kominn á endastöð frekari umræðu – en allavega hér er tilvitnunin í Ágúst:
Hvað varð eiginlega um þessa hnatthlýnun sem allir voru að tala um…? Nú dámar mér alveg… Engin hnatthlýnun í 11 ár…?
[Heimild: Ágúst H. Bjarnason – Verkfræðingur og bloggari – BBC spyr: Hvað varð um hnatthlýnunina?]
Sérval gagna hefur stundum leitt til svona fullyrðinga um enga hnatthlýnun í 5/11/16 ár eða hvað það nú er í hvert og eitt skiptið, sjá til að mynda athyglisvert graf hér undir með “efasemda” rúllustiganum.

Sá næsti sem fær heiðurinn af því að verða rækilega skjalfestur hér á loftslag.is er hæstaréttarlögmaðurinn, Jón Magnússon, sem virðist hafa sterka ályktanaþörf þegar kemur að þessum efnum. Í kjölfar þess að Met-Office uppfærði nýlega spár um hnattrænana hita næstu fimm árin, þá fannst Jóni tilvalið að koma með eftirfarandi fullyrðingar:
Þetta þýðir að öll tölvumódel og spár vísindamannanna sem hafa spáð afturkallanlegri hlýnun af mannavöldum og óbætanlegar skemmdir á jörðinni og vistkerfinu vegna útblásturs koltvíoxýðs hafa sem betur fer reynst rangar.
[..]
Ævintýrið um hnattræna hlýnun af mannavöldum er dýrasta ævintýrið sem mannkynið hefur nokkurn tíma látið sér detta í hug að trúa á.
[Heimild: Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokks – Breska veðurstofan endurskoðar spár um hnattræna hlýnun.]
Jahérna hér, þetta eru merkilegar fullyrðingar (úti er ævintýri – bara öll módelin ónýt…hvurslags er þetta…). En þetta er náttúrulega einhver óskhyggja í fyrrverandi þingmanninum, sem ekki fær staðist, eins og kemur t.a.m. fram í eftirfarandi umfjöllun á loftslag.is – Mistúlkanir á 5 ára spá Met Office og náttúrulegur breytileiki
Að lokum er svo einn af mínum uppáhalds “efasemdamönnum”, enda merkilega berorður um vísindamenn af öllum sortum – hans uppáhald eru reyndar fiskifræðingar og fullyrðingar um þá, en fast á hæla þeim koma svo fullyrðingar hans um loftslagsvísindi og loftslagsvísindamenn – eins og lesa má í eftirfarandi tilvitnun hans:
Blekkingin um “hlýnun andrúmsloftsins” hefur breyst í kuldamartröð í vetur í Evrópu og USA.
Veðurguðirninr virtust móðgast stórlega við loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn og virðast hafa tekið ákvörðun um að “kæla niður” bullið um óðelilega hlýnun loftslags – í Evrópu og Ameríku frá því ráðstefnunni lauk með góðu kuldakasti.
Heimsendaspár um “hækkun á yfirborði sjávar” virðist líka hafa verið “vitlaust reiknað”.. og varla kemur það á óvart… enda skylt skeggið hökunni í blekkingarleiknum….
[..]
Það er ágætt ef eitthvað af þessum “vísindahórum” fara loksins draga í land með eitthvað af platinu og blekkingunum – en betur má ef duga skal.
[Heimild: Kristinn Pétursson – fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bloggari og áhugmaður um vandaða þjóðmálaumræðu – Blekkingaleikurinn á undanhaldi í vísindaheiminum?]
Þarna fer Kristinn Pétursson, sem eldur í sinu í umræðu um loftslagsmál með berorðar fullyrðingar um heila vísindagrein, sem eiga lítið skilt við vandaða þjóðmálaumræðu og þaðan að síður við þær staðreyndir sem blasa við varðandi loftslagsvandann. Ásakanir um heimsendaspár heyrast oft á tíðum þegar “efasemdamenn” ræða um þessi mál, hvað sem veldur…
Fullyrðingar í þessum dúr sjáum við stundum í hinum títtnefndu og á stundum logandi bloggheimum, svo og í öðrum fjölmiðlum. Að mínu persónulega mati, þá valda svona fullyrðingar ruglingi í umræðunni (sem er hugsanlega ætlunin í sjálfu sér). Það að einhverjir leyfi sér að fullyrða svona án haldbærra gagna stenst að sjálfsögðu engan vegin skoðun. Það er mín ósk að í athugasemdir við þessa færslu verði settar aðrar skjalfestar heimildir um ályktanaglaða “efasemdamenn” á Íslandi og orðaval þeirra. Vinsamlega vísið í orð viðkomandi með heimild/tengli þar sem finna má samhengið, líkt og hér að ofan. Sjálfur mun ég reyna að safna saman einhverjum vel völdum tilvísunum í athugasemdum hér undir, bæði nýjum og gömlum. Það væri fróðlegt að sjá hverju hefur verið haldið fram varðandi þessi mál í gegnum tíðina, af hverjum og í hvaða samhengi.
Ýmistlegt efni af loftslag.is sem gott er að hafa í bakhöndinni þegar þessi mál eru skoðuð:

Ný rannsókn bendir til þess að bruni á öllum jarðefnaeldsneytisbirgðum jarðar myndi valda hækkun sjávarstöðu um allt að fimm metra og að sjávarstaða myndi haldi áfram að rísa í 500 ár eftir að bruna þeirra lýkur.
Loftslagsbreytingar, þar á meðal sjávarstöðubreytingar, eru yfirleitt settar í samhengi við næstu 100 ár. Nýleg grein sem birtist í tímaritinu Geophysical Research Letters skoðar hversu langvinnar núverandi loftslagsbreytingar geta orðið.
Í greininni er skoðað hvernig sjávarstaða gæti breyst yfir lengri tíma, vegna hlýnunar sjávar. Höfundar fundu að yfirborðshlýnun og sjávarstöðubreytingar tengdar eðlismassabreytingum sjávar (varmaþennslu þar á meðal) – aukast nánast línulega í takt við uppsafnaða losun á CO2, – þ.e. ef horft er til framtíðar eftir að bruna jarðefnaeldsneytis lýkur. Sérstakur þáttur í greiningunni voru ýmis viðbrögð loftslagskerfa, meðal annars þau sem verða við súrnun sjávar og breytingar í uppleysni sjávar.
Sú sjávarstöðubreyting er á bilinu 0,7-5,0 m, þ.e. ef allt hefðbundið jarðefnaeldsneyti væri brennt – sem myndi að öllum líkindum ná hámarki um 500 árum eftir að brennslu lyki. Nauðsynlegt er að fólk geri sér grein fyrir því að þessi grein byggir eingöngu á sjávarstöðubreytingum vegna fyrrnefndra eðlismassabreytinga, en ekki er tekin með bráðnun stóru jökulbreiðanna á Grænlandi og Suðurskautinu.
Greinin birtist í Geophysical Research Letters og er eftir Williams o.fl. 2012 (ágrip): How warming and steric sea level rise relate to cumulative carbon emissions.
Umfjöllun má lesa á heimasíðu NOC (National Oceanogaphy Centre): Long term sea level rise due to fossil fuels assessed
Tengt efni á loftslag.is

Hér fyrir neðan má
horfa á myndband þar sem Jerry Mitrovica prófessor við Harvard háskóla fjallar á aðgengilegan hátt um ýmislegt sem skiptir máli þegar fjallað er um sjávarstöðubreytingar.
Þessi fyrirlestur var haldinn í Washington árið 2011, en þar fer hannn sérstaklega í saumana á nokkrum punkta sem efasemdamenn um hnattræna hlýnun halda oft á lofti þegar fjallað er um sjávarstöðubreytingar og hrekur þau rök á einfaldan og auðskiljanlegan hátt.
Það er vel þess virði að horfa á þennan fyrirlestur, en hann er um hálftíma langur.
Tengt efni á loftslag.is