Samkvæmt skýrslu Prófessors Sir Gordon Conway, frá Imperial Háskólanum í London, þá er, þrátt fyrir að margt nýtt hafi komið fram varðandi loftslagsbreytingar á síðustu árum, margt sem við ekki vitum um loftslagsbreytingar í Afríku. Loftslagið í Afríku virðist stjórnast af þremur mikilvægum þáttum: trópískum varmaflutning (e. tropical convection), breytingum í monsúnkerfinu og El Nino í Kyrrahafinu. Fyrstu tveir þættirnir eru staðbundnir þættir sem hafa áhrif á regn og hitastig á svæðinu. Sá síðasti er fjarlægari, en hefur mikil áhrif á úrkomu hvers árs og hitastigsmunstur í Afríku. Þrátt fyrir mikilvægi hvers þáttar, þá skiljum við ekki enn hvernig samspil þeirra er og hvernig þeir hafa áhrif í samspili með loftslagsbreytingum. Eitt ætti að vera ljóst að hraðar breytingar í hnattrænu hitastigi getur haft mikil áhrif á útkomuna, varðandi t.d. hærri sjávarstöðu, hærra hitastig og öðrum m.a. veðurfarslegum þáttum sem geta haft áhrif þar á. En útkoman er ólík eftir svæðum og er það m.a. skoðað nánar í skýrslunni.
Loftslagsbreytingar í Afríku eru taldar geta haft áhrif á magn drykkjar vatns, sem gæti svo haft áhrif á dreyfingu sjúkdóma, eins og t.d. malaríu, samkvæmt skýrslunni.
En eins og fram kemur í þá er margt í þessu óvissu háð. Sum svæði gætu fengið meiri úrkomu á meðan önnur fengju fleiri þurrka.
Nýtt myndband úr myndbandaröð Greenman3610 á YouTube, Climate Crock of the Week. Myndbönd hans eru oft nokkuð kaldhæðin, en koma þó inn á athyglisverða hluti. Þetta myndband fjallar m.a. um þróun ísþekjunnar á síðustu árum og áratugum.
Greining á setkjörnum benda til þess að líffræðilegar og efnifræðilegar breytingar sem nú eru að verða í einu heimskautavatni séu meiri nú en hafa orðið síðustu 200 þúsund ár og eru að öllum líkindum vegna hlýnunar af mannavöldum, samkvæmt nýrri grein.
Umhverfisbreytingar í vatninu undanfarið árþúsund hefur verið hægt að tengja við náttúrulegar breytingar í loftslagi (t.d. vegna þess að sporbaugur jarðar er lengra frá sólinni en undanfarin árþúsund), en það hefur breyst. Eftir sirka 1950, þegar búast mátti við áframhaldandi kólnun vegna náttúrulegra breytinga þá hefur breytingin verið í hina áttina. Vísindamennirnir notuðu ýmsa vísira (e. indicators), t.d. þörunga, steingerfðar leifar skordýra og jarðefnafræðilegar rannsóknir, til að endurgera þær umhverfis og loftslagsbreytingar sem orðið hafa á afskekktu vatni á Baffinslandi, en setlagakjarnar vatnsins ná aftur um 200 þúsund ár. Niðurstaða rannsóknarinnar birtist 19 október síðastliðinn í Proceedings of the National Academy of Sciences.
Setkjarnarnir voru teknir úr botni vatns sem nær um sirka 0,4 ferkílómetra svæði og um 10 m djúpt og er nálægt þorpinu Clyde River á Baffinslandi. Kjarnarnir ná yfir tímabil sem nær yfir þrjú hlýskeið og tvö kuldaskeið ísaldar. Setkjarnarnir sýna t.d. nokkrar tegundir af mýflugum sem lifa góðu lífi í köldu loftslagi og hafa verið umfangsmiklar síðustu nokkur þúsund ár. Upp úr 1950 fór þeim að hraka mikið, svo mikið að það jafnaðist á við lægsta gildi þeirra síðustu 200 þúsund ár. Tvær tegundir af mýflugunum hafa horfið endanlega frá svæðinu. Að auki hafa tvær tegundir kísilþörunga, sem voru mjög sjaldgæfir áður en 20. öldin gekk í garð, aukist gríðarlega síðustu áratugi – í beinu sambandi við minnkandi lagnaðarís á vatninu.
Þetta forna vatn er óvenjulegt að því leiti að síðastliðin 200 þúsund ár hafa jöklar ekki náð að grafa í burtu setlögin eins og algengt er með vötn á norðlægum slóðum sem þakin hafa verið jökli á síðustu jökulskeiðum. Fyrir vikið sýna setkjarnarnir samfellu sem nær lengjra aftur en aðrir setkjarnar á norðurslóðum.
Eins og sjálfsagt allir áhugamenn um vísindi vita, þá er Ari Trausti með þátt í Ríkissjónvarpinu sem heitir Nýsköpun – íslensk vísindi. Þessir þættir eru einstaklega áhugaverðir og við hér á loftslag.is munum sperra augu og eyru enn meir en venjulega nú, þar sem fjallað verður um það í kvöld hvernig íslenskum jöklum reiðir af við hlýnun loftslags.
5. þáttur.
Sýnt: fimmtudagur 29. okt. 2009 kl. 21.25. Endursýnt: 30. október 2009 kl. 18.25; 31. október 2009 kl. 10.20
Í fimmta þætti raðarinnar um íslensk vísindi og fræði fylgjum við nemendum sem búa til sjálfvirka, litla geimjeppa, könnum hvernig íslenskum jöklum reiðir af við hlýnun veðurfars og hvernig Orkuveita Reykjavíkur fer að því að tryggja að alltaf sé kalt vatn í krönunum.
Það eru nokkur atriði sem vert er að skoða varðandi loftslagsmál og hversu erfitt er að gera sér þau í hugarlund. Það er ekki innbyggt í okkur mannfólkið að bregðast við vanda sem erfitt er að sjá fyrir sér. Mig langar að velta fyrir mér nokkrum ástæðum sem geta legið að baki þessu. Þetta er m.a. í tilefni fréttar sem birt var hér á síðunum fyrir stuttu síðan, “Færri Bandaríkjamenn telja traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun“. Jafnvel þó að vísindin bendi rökfast í átt til þess að hnattræn hlýnun eigi sér stað og að það sé vegna losunar koldíoxíðs í andrúmsloftið af völdum manna, þá eru sumir í vafa. Þetta getur átt sér margar skýringar og ekki ætla ég að skoða þær allar. Einfalda svarið er að fólk hafi margt á sinni könnu og geti eða vilji ekki setja sig inn í þessi mál. Hér eru þó nokkrar vangaveltur sem mig langar að nefna til sögunnar.
Í fyrsta lagi virðist mannfólkið ekki vera forritað til að taka ógnanir sem gerast í framtíðinni eins alvarlega og þær sem eru yfirstandandi. Þó svo hafísinn bráðni, jöklarnir hopi og þurrkar rasi, þá er það bara eitthvað sem á sér stað annarsstaðar og er ekki hluti af okkar daglega lífi. Þetta er ekki neitt sem að við finnum eða sjáum hér og nú. Það getur því ekki jafnast á við þau daglegu vandamál okkar eins og að borga reikningana eða eiga fyrir mat.
Næst má nefna, að það getur kostað peninga að gera “réttu” hlutina, og eins getur verið erfitt að hætta því sem er orðið að vana. Það getur verið erfitt og dýrt að hætta að nota jeppann og kaupa umhverfisvænan bílinn í staðinn. Einnig getur verið erfitt að endurhugsa vana eins og að nota eingöngu bílinn þegar farið er í bæjarferð, heldur en t.d. að skella sér í strætó eða hjóla stöku sinnum einnig.
Í þriðja lagi má nefna það, að hægt er að færa rök fyrir því að sum okkar eru komin langt frá náttúrunni, mörg búum við í bæjum og notum mikinn hluta lífsins innandyra. Þannig má færa rök fyrir því að við séum hugsanlega búin að missa einhver tengsl við náttúruna. Mörgum finnst einnig að við getum ekki haft mikil áhrif á náttúruna. Síðustu áratugi hefur fólksfjölgun verið gífurleg og öll kerfi samfélagsins hafa stækkað. Á sama tíma finnum við fyrir smæð okkar og eigum hugsanlega erfitt að ímynda okkur að við getum gert eitthvað í víðtæku máli eins og t.d. loftslagsvandanum.
Tími er líka nokkuð sem okkur finnst við aldrei hafa nóg af, allir vinna úti og einnig vinna báðir foreldrar oft langan vinnudag. Það má kannski segja að lífsstíllinn sé þannig að erfitt er að hugsa um vandamál sem ekki eru innan rammans ef svo má að orði komast. Þ.e.a.s. þau mál sem falla utan fjölskyldunar eða lífsstíls okkar, eru ekki eins aðkallandi. Hraðinn í þjóðfélaginu gerir það m.a. að verkum að auðvelt er að fresta annars aðkallandi málum sem ættu að fá meiri athygli.
Að lokum langar mig að nefna ýmislegt í umræðunni, þar sem stjórnmál, þrýstihópar og fleiri aðilar drepa umræðu um loftslagmál á dreif og reyna að gera minna (eða í sumum tilfellum meira) úr vandanum en tilefni er til. Þannig finnst sumum hugsanlega erfitt að henda reiður á hvað eru staðreyndir og hvað ekki.
Hér eru nefndar nokkrar vangaveltur sem geta valdið ákvarðanafælni í stærri málum eins og t.d. loftslagsmálum.
Rannsóknin fór fram á setlögum af hafsbotnin Framsunds (Fram Strait). Mynd af Wikipedia.
Unanfarna áratugi hefur hafís Norðuskautsins minnkað töluvert og þar til nú, þá hafa vísindamenn ekki vitað hvort þetta var hluti af hinum náttúrulegum sveiflum eða ekki. Þó vísindamenn hafi verið vissir um að loftslag og hafísútbreiðsla væru tengd, þá voru ekki til góð gögn um það.
Ný rannsókn bendir til tengsla milli hafísútbreiðslu á Norðurskautinu og loftslags, allavega síðastliðin 30 þúsund ár. Rannsóknin birtist í nýlegu hefti Nature Geoscience, en skoðaðir voru steingerðar þörungaleyfar í setlögunum og út frá þeim útbúin samfeld mynd af sveiflum í útbreiðslu hafíss í Framsundi (e. Fram Strait).
Framsund er eina djúpsjávartengingin á milli Norður-Íshafsins og Atlantshafsins og gefa setlög af því svæði góðar vísbendingar um sveiflur í hafísútbreiðslu. Niðurstöðurnar benda til þess að hafís Norðurskautsins bregðist ákaflega vel við jafnvel skammtímaloftslagsbreytingum.
Með því að skoða lífrænar leifar í setkjörnunum gátu vísindamennirnir tímasett hvenær Framsund var annað hvort þakið hafís eða íslaust. Notaðir voru efnaleifar þörunga sem myndast í hafís (IP25) og þörunga sem myndast án hafíss (brassicasterol). Á tímabilinu í kringum hámark síðasta jökulskeiðs frá um 30 þúsund árum og fram til fyrir um 17 þúsund árum þá fannst hvorugur þörunganna, sem bendir til þess að samfelld hafísbreiða hafi hulið sundið. Hlýnunin á Bölling fyrir um 14-15 þúsund árum kemur greinilega fram í setkjörnunum, en þá var sundið íslaust jafnvel um vetrarmánuðina. Þá sáust engin merki um IP25, en töluverð aukning varð í brassicasterol.
Síðar koma báðir þörungarnir fram, sem sýnir að eftir það var sundið aðeins hulið hafís á veturna og vorin.
Áður en þessi rannsókn var gerð, þá var lengsta skráða saga hafíss um þúsund ár aftur í tíman (frá Íslandi), en til að staðfesta kenninguna voru notuð setlög sem hægt var að tengja við hafíssögu Íslands.
Hér er stutt yfirlit yfir færslur af Loftslag.is. Einnig er yfirlit yfir fréttir sem við rákumst á við fréttaöflun, en gerðum ekki sérstakar færslur um. Þetta eru stuttar fréttir sem í flestum tilfellum tengjast loftslagsmálum á einhvern hátt, beint eða óbeint.
Yfirlit – fréttir og pistlar:
Frá því síðasta yfirlit leit dagsins ljós þá hafa ýmsar færslur ratað á síður Loftslag.is. Við höfum skrifað ýmsar fréttir frá því síðasta yfirliti, verður farið yfir nokkrar hér. Við skrifuðum umfjöllun um það að nýliðin september var næst hlýjasti september frá því 1880. Nýleg rannsókn þar sem mælingar sýna fram á munstur milli vöxt trjáa og geimgeisla varð á vegi okkar. Skoðanakönnun sem gerð er af Pew Research Center for the People & the Press gefur til kynna að færri Bandaríkjamenn telji traustar sannanir fyrir hnattrænni hlýnun, en í síðustu könnun, þessi frétt varð m.a. fréttaefni þar sem vitnað var í Loftslag.is á Visir.is. Hafa pálmar vaxið á norðurslóðum er spurning sem vísindamenn við háskóla í Hollandi velta fyrir sér og varð meðal annars fréttaefni á bæði Mbl.is og Visir.is. Nú síðast birtum við svo frétt um að tölfræðingar telja leitni hitastigs vera upp á við á síðustu árum og áratugum.
Fimmtudaginn 22. október birtist fróðlegur gestapistill um fugla og loftslagsbreytingar eftir Tómas Grétar Gunnarsson og kunnum við honum þakkir fyrir. Einnig eru nokkrar bloggfærslur sem vert er að nefna. Þankatilraun um það hvort að loftslagsvandinn sé tabú kom fram, en litlar umræður fóru fram um það, en enn er opið fyrir athugasemdir ef vilji er til þess að ræða það efni nánar. Við fengum fróðlega fyrirspurn frá Guðlaugi Ævari, sem við reynum að svara í “Geta hafnarbylgjur frá Austur Grænlandi valdið tjóni á Íslandi?“. Það hafa verið einhverjar vangaveltur að undanförnu um hokkíkylfuna svokölluðu, af því tilefni spurðum við spurningarinnar, “Er búið að strauja hokkíkylfuna?” í einni færslu. Að lokum má benda á stutta færslu um hversu mikið af CO2 er losað í andrúmsloftið af völdum manna.
Ýmislegt annað hefur ratað á síðurnar, m.a. myndbönd, léttmeti og heit málefni, sem sjá má hér. Helst má nefna af þessum lista færslu undir heit málefni, þar sem tekin er fyrir pistill sem birtis á vef BBC þar sem pistlahöfundurinn lýsir eftir hlýnun jarðar.
Stuttar fréttir
Hrísgrjónabændur heims eru í vanda, en mörg af þeim löndum sem framleiða hrísgrjón hafa orðið fyrir miklum búsifjum vegna óvenjulegs veðurfars. Skemmst er frá að minnast á óvenjulega mikla úrkomu á Filippseyjum, seinkun á monsúninum á Indlandi og mjög útbreidda þurrka á Ástralíu. Október-desember hefti Rice Today einblínir á loftslagsbreytingar og möguleg áhrif þess á hrísgrjónarækt. Í því kemur fram að það sé erfitt að sanna að loftslagsbreytingar séu valdar að núverandi veðri. Þrátt fyrir það, þá hefur stofnun í hrísgrjónarannsóknum (International Rice Research Institute – IRR) kortlagt þau svæði á Filippseyjum sem líklegust eru til að verða fyrir neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga. Nánar má lesa um málið á Science Daily, en einnig er hægt að nálgast tímaritið á heimasíðu IRRI (ókeypis en nauðsynlegt að skrá sig).
Jarðskjálftafræðingar hafa í gegnum tíðina síað út bylgjusuð sem jarðskjálftamælar nema þegar úthafsalda kemur af fullum krafti að landi – vegna truflana sem suðið veldur við mælingu jarðskjálfta. Nú ætla menn að snúa þessu við og sía út jarðskjálftana til að sjá breytingu í þeirri orku sem úthafsaldan veldur þegar hún kemur að landi. Talið er að þetta verði gott innlegg í umræðuna um það hvort fellibylir á Atlantshafi hafi aukist með hlýnun jarðar. Þar sem menn deila um það hvort fellibylir séu að aukast eða ekki þá gæti þessi rannsókn skorið úr um það. Sjá nánari umfjöllun á Discovery.
Bílasýningin í Tokyo er hafin. Að þessu sinni er mun meira úrval umhverfisvænna bíla en áður hefur verið. Þar eru til sýnis allskyns hugmyndabílar, tengitvinnbílar, rafmagnsbílar svo fátt eitt sé nefnt. Það eru því margir sem berjast um sviðsljósið nú sem endranær. Rafmagnsbílar virðast m.a. ætla að stela sviðsljósinu í ár vegna tækniframfara í endurhlaðanlegum rafhlöðum, sem getur gert fjöldaframleiðslu enn fýsilegri en áður. Við viljum benda á betri og nánari um fjöllun um þessa sýningu á heimasíðunni visindin.is.
Skógarmítill. Ljósm. Erling Ólafsson (af ni.is).
Það er ekki úr vegi að benda fólki á íslenskt dæmi um afleiðingar hlýnandi loftslags – svokallaða Skógarmítlu sem færir sig norðar á bóginn. En þar sem þessi umræða hefur farið fram víða á íslenskum fjölmiðlum, þá látum við okkur nægja að benda á ítarlegar umfjallanir um þetta. Heimasíða Náttúrufræðistofnunar Íslands er lógískasti staðurinn til að byrja – hér er frétt og svo nánari umfjöllun á þeirri síðu. Einnig má lesa fréttir um málið meðal annars á ruv.is og mbl.is
.
Heimsmeistarakeppnin í fótbolta fer fram í Suður-Afríku 2010. Flestir stærri íþróttaviðburðir, eins og t.d. Ólimpíuleikarnir og HM í fótbolta reyna að jafna kolefnisfótsporin, helst þannig að það verði hlutlaust. HM í Suður-Afríku er engin undantekning þar á. Keppning í Suður-Afríku þarf að takast á við 10 sinnum stærri kolefnislosun heldur en keppnin 2006 í Þýskalandi. Mikilvægt er í þessu sambandi að taka fram að Þjóðverjar þurftu ekki að huga að því að kolefnisjafna frá flugi eins og gert verður í Suður-Afríku. Kolefnislosun frá flugi í þessum mánuði á meðan keppnin fer fram, verður 67% af heildarlosun landsins á tímabilinu, þar sem búist er við um 500.000 áhorfendum og þátttakendum á keppnina. Sjá nánar, Reuters og COP15.
Nú hefur AP fréttastofan (Associated Press) gert óháða könnun á því hvað tölfræðingar segja um hlýnunina.
AP fréttastofan sendi hitagögn frá NOAA og NASA (bæði mælingar á jörðu og úr gervihnöttum) til fjögurra sjálfstæðra tölfræðinga sem fengu ekki að vita hvað fælist í gögnunum – en þeir fengu það hlutverk að gera á þeim venjubundin tölfræðileg próf og skoða leitni gagnanna (trend).
Samkvæmt fréttastofunni þá fundu tölfræðingarnir sem greindu hitagögnin, enga tölfræðilega niðursveiflu síðastliðinn áratug og í raun varð vart við mjög ákveðna leitni upp á við í tölunum á áratuga grunni. Að auki kom í ljós að sveiflur núna væru líkar því sem orðið hafa reglulega allt frá árinu 1880. Það má túlka sem svo að þær sveiflur séu náttúrulegar sveiflur ofan á undirliggjandi hlýnun.
Úr myndinni 2012 sem kemur út fyrir jól, John Cusack bjargar málunum við heimsenda.
Eftir margra ára vangaveltur um það hvort það verði heimsendir árið 2012, þá hefur vísindamaður hjá NASA loks séð ástæðu til að gefa út þá yfirlýsingu að heimurinn muni að öllum líkindum ekki enda árið 2012. Ekki sé von á árekstri loftsteins (hvað þá plánetu) árið 2012 og ekki er talið að sólgos muni rista jörðina það sama ár.
Vísindamaður hjá NASA, David Morrison segir að kvikmyndir eins og 2012 byggi að engu leiti á vísindalegum rannsóknum:
“I don’t have anything against the movie. It’s the way it’s been marketed and the way it exploits people’s fears,”
Lesa má um málið nánar á heimasíðu Discovery, en einnig hefur David Morrison útbúið heimasíðu um þessar vafasömu heimsendahugmyndir.
Samkvæmt rannsókn sem gerð var frá Háskólanum í Utrecht í Hollandi, þá uxu pálmar á svæði sem var um 500 km frá Norðurpólnum fyrir rúmum. 50 miljón árum (tengt svokölluðu Paleocene–Eocene Thermal Maximum). Loftslagið þar hefði þá verið líkt því sem er í Flórída í dag að sögn Appy Sluijs, sem er einn þeirra sem stóð að rannsókninni. Í rannsókninni fundust frjókorn úr m.a. pálmaplöntum (ekki er hægt að segja til um hvort þetta voru tré) í setlögum á sjávarbotni á svæði því sem rannsóknin fór fram á.
Ef pálmaplöntur hafa vaxið á þessu tímabili þá þykir ljóst að hitastig hefur ekki farið undir 8°C á kaldasta tíma ársins, sem er töluvert meira en áður hefur verið talið. Það má orða það þannig að menn töldu að það hefði verið heitt, en ekki svona heitt. Loftslagslíkön sem notuð eru í dag hafa ekki náð að sýna svo hátt hitastig á þessum tíma á þessu svæði. Þar með hafa vaknað spurningar um hvort að líkönin geti með nægilega tryggum hætti sýnt fram á hitastig þessa tíma og hvort þau hafi þá mögulega vanmetið áhrif aukins CO2 í lofthjúpnum. Þá spyrja menn sig hvort óútskýrð magnandi svörun hafi átt sinn þátt í þessu aukna hitastigi.
Ástæða aukningar CO2 á þessum tíma og hvaða magnandi svörun varð þess valdandi að það hlýnaði svona mikið eru á huldu. Kenningar hafa verið uppi um að við opnun Atlantshafsins hafi eldfjöll losað gríðarlega mikið magn CO2 – það eitt og sér þykir þó langt frá því að vera nóg. Kolefnisríkur loftsteinn hefur einnig verið nefndur til sögunnar, en Irridium frávik í setlögum þess tíma bendir ekki til þess að það sé möguleiki (Irridium er frumefni sem óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkra loftsteina). Móbruni og breytingar í sporbaug jarðar hafa einnig verið nefnd til sögunnar. Hver svo sem ástæðan fyrir því að aukningin á CO2 varð, þá verður að koma til magnandi svörun. Hingað til hefur metanlosun verið talin líklegasti sökudólgurinn, þá við bráðnun sífrera í sjávarsetlögum á norðurslóðum. Það gæti hafa haft magnandi áhrif og aukið hraða hlýnunarinnar.
Í þessari rannsókn kemur fram ný tilgáta um ferla sem gætu hafa haft áhrif samfara fyrrnefndum kenningum, en hún er sú að óþekkt tegund skýja hafi myndast á norðurslóðum þegar hlýnaði – sem virkaði eins og teppi yfir norðurskautinu. Þannig hafi hitinn aukist á norðurslóðum og hlýnunin orðið hraðari.
Vísindamennirnir velta því fyrir sér hvort slík myndun skýja geti orðið hálfgerður vendipunktur við núverandi hlýnun.