Samkvæmt nýrri rannsókn (Fu o.fl. 2013) þá er að lengjast tímabil þurrka í suðurhluta Amazon frumskógarins. Þurrkatímabilið stendur nú yfir í um þrjár vikur lengur en það gerði fyrir 30 árum síðan – sem eykur hættu á skógareldum og skógardauða.
Þegar þurrkarnir miklu voru árin 2005 og 2010, þá mátti sjá með gervihnöttum minnkandi gróður á stórum landsvæðum í suður Amazon (appelsínugul og rauð svæði).Mynd frá Ranga Myneni, Jian Bi and NASA.
Niðurstöður þessarar rannsóknar eru á skjön við þá niðurstöðu sem nýlega kom frá IPCC, en þar er reiknað með að þurrkatímabilið muni lengjast um aðeins 10 daga eða minna fram til ársins 2100. Líklegasta skýringin, fyrir þessum lengri tíma þurrka, telja höfundar vera hin hnattræna hlýnun.
Samkvæmt skýrslu IPCC er því spáð ennfremur að vætutíð framtíðar verði blautari. Það er þó ekki talið gagnast frumskógum því frumskógarjarðvegur nær eingöngu ákveðnu rakastigi, þrátt fyrir mikla úrkomu, sem þornar þegar tímabil þurrka skellur á. Því er mikilvægt fyrir frumskóginn að vatn bætist sífellt við, því annars minnkar vöxtur og hættan á skógareldum eykst.
Árið 2005, þegar miklir þurrkar voru á Amazon svæðinu, þá gaf frumskógurinn frá sér mikið magn af CO2 í stað þess að binda það, eins og skógum er von og vísa. Ef slíkt endurtekur sig trekk í trekk, þá má segja að farið sé yfir ákveðinn vendipunkt og að magnandi svörun sé komin af stað.
Hvert er hlutverk stjórnmálamanna? Hvernig viljum við að stjórnmálamenn meti upplýsingar varðandi vandamál sem eru til staðar og þá t.d. hvers má ætlast til af þeim þegar kemur að loftslagsvandanum? Loftslagsvandinn er vel skjalfestur og það virðist ljóst að það þurfi að taka á honum af mikilli festu á næstu árum og áratugum – hvað sem líður flokkspólitík og persónulegum skoðunum. Ríki heims hafa m.a. skrifað undir yfirlýsingar þess efnis að það þurfi að halda hlýnun jarðar innan 2°C.
Það er því umhugsunarvert þegar hlýnun jarðar er nefnd í ræðustól Alþingis, að þá er talað um að breytingar á loftslagi muni væntanlega hafa í för með sér mjög jákvæð tækifæri fyrir Íslendinga. Það er líka umhugsunarvert að þegar hlýnun jarðar er nefnd, þá eru stundum látnar fylgja óljósar tilvísanir í vafasamar fréttir sem virðast t.d. koma frá Pressunni (og eiga uppruna sinn í enn vafasamari heimildir af Daily Mail) um að ekki sé allt sem sýnist í loftslagsvísindunum (“en það er önnur saga” – Haraldur Einarsson, tilvísun í myndbandið). Þessi tækifæri virðast svo mikil að það tekur því ekki að nefna neikvæðar hliðar þess eða lausnir á vandanum sem er þó vel skjalfestur. Það er talað um nýja fiskistofna eins og þeir séu nú þegar í hendi og valdi litlum sem engum vandkvæðum fyrir núverandi vistkerfi og fiskistofna. Það má sjálfsagt búast við því að það séu tækifæri í stöðunni þegar hlýnun jarðar heldur áfram, en að hundsa vandann með tali um langsótt tækifæri er ekki rétta leiðin fram á við. Það þarf að ræða afleiðingar súrnunar sjávar fyrir sjávarútveg á Íslandi og það þarf að ræða lausnir á þeim vanda – svo eitthvað sé nefnt.
Það sem við ættum að heyra frá stjórnmálamönnum er hvernig við getum tekið á vandanum og verið leiðandi í þeim efnum, t.d. með aukinni notkun sjálfbærar orku (og það skiptir líka máli í hvað orkan er notuð – svo því sé haldið til haga) ásamt setningu markmiða um að minnka notkun jarðefnaeldsneytis hér og nú (vinnsla olíu og gass heyrir ekki undir þann hatt). Það eru tækifæri í stöðunni, t.a.m. að vera leiðandi á vettvangi lausna og sýna þar með gott fordæmi meðal þjóða heims. Tal um nýja fiskistofna og óljós tækifæri minnir helst á álfasögur – tækifærin liggja í að vera leiðandi í að finna lausnir og þar með setja lausnirnar á dagsskrá til framtíðar. Kannski er það ekki líklegt til vinsælda að vilja nefna þessi mál eða kannski skortir stjórnmálamenn almennt þor til að taka á vandamálum sem ná yfir lengri tíma en einstök kjörtímabil og velja því að setja fram valkvæma óskhyggju, í stað raunverulegra lausna miðaðrar umræðu! Hér má sjá dæmi um umræðu um hlýnun jarðar á Alþingi – gefum Haraldi Einarssyni, þingmanni Framsóknarflokksins á Suðurlandi orðið þar sem hann ræðir um tækifærin og loftslagsmálin (með innskoti um að ekki sé allt sem sýnist í þessum efnum – ætli heimildin sé Pressufréttin?):
Hér undir má sjá fróðlegt myndband frá Greenman3610 (Peter Sinclair) sem hæfir hugsanlega líka þessari umræðu. Myndbandið nefnist; “Welcome to the Rest of Our Lives” – þarna er m.a. komið inn á þær breytingar sem þegar eru komnar fram og hvað gæti búið í framtíðinni:
Þeir sem fylgjast með loftslagsumræðunni vita að það er ansi sveiflukennt hvaða rök eru notuð gegn kenningunni um hnattræna hlýnun af mannavöldum hverju sinni. Stundum eru teknir stuttir bútar í hitamælingum til að sína fram á að það sé ekki að hlýna – þó leitnin sé klárlega önnur. Stundum er vísað í undarlegar vísindagreinar sem hafa ratað í fálesin tímarit og standast ekki skoðun. Upplýsingarnar koma oft frá “vísindamönnum” sem eru leynt og ljóst á kaupi hjá afneitunariðnaðinum. Bergmál þessara “upplýsinga” er síðan ansi hátt í sumum fjölmiðlum, t.d. Fox sjónvarpstöðinni í Bandaríkjunum og í Daily Mail götublaðinu á Englandi.
Þáttur hafíssins á Norðurskautinu
Annað til fjórða hvert ár vekur hafísinn athygli þessara fjölmiðla og þá vegna þess að lágmarksútbreiðsla þessa árs hefur þá verið meiri en árið á undan.
Þar vitnar Pressan í Daily Mail, en þar segir meðal annars:
Kalt sumar á Norðurheimskautinu hefur valdið því að nú þekur ís meira en 2,6 milljónum fleiri ferkílómetra en á sama tíma fyrir ári en þetta er 60 prósenta aukning á ís á svæðinu á milli ára…
…Daily Mail segir að sumir heimsþekktir vísindamenn telji að nú sé jörðin að fara inn í kuldatímabil sem muni vara fram að miðri þessari öld en ef það verður raunin mun það gera lítið úr dómsdagsspám um gróðurhúsaáhrifin og áhrif þeirra á hækkandi meðalhita. (Pressan 9.sept 2013)
Það skal tekið fram að þessi frétt birtist nokkrum dögum áður en hægt var að staðfesta að lágmarkinu væri náð og margt rangt við þessa frétt annað en það sem um er fjallað hér.
Mánaðarleg meðalútbreiðsla hafíss í september frá 1979-2013, hnignun um 13,7% á áratug.(Mynd: National Snow and Ice Data Center)
Nú upp úr mánaðarmótum komu svo tölur fyrir útbreiðsluna í september 2013, en lágmarkinu var náð 13. september, samkæmt NSIDC (National Snow and Ice Data Center). Þegar skoðuð er meðalútbreiðsla mánaðarins, þá var um að ræða sjöttu minnstu útbreiðsluna frá upphafi gervihnattamælinga. Útbreiðslan reyndist þó vera 32% minni í fyrra en í ár, enda var það ár algjört metár. Þrátt fyrir það þá er leitnin sú að hafísinn er að minnka um 13,7% á á áratug, en hafísinn í ár var um 22% minni en meðaltal áranna 1981-2010.
Það þarf mikinn brotavilja til að túlka þessa þróun þannig að hafísinn sé að jafna sig.
Þess ber að geta að rúmmál hafíss, sem er enn betri mælikvarði á þróun hafíssins, hefur haldið áfram að vera mjög lágt – enda er orðið lítið um hafís sem þraukar árið. Sjá Polar Science Center.
Ástæðuna fyrir því að hafísinn vekur athygli annað til fjórða hvert ár, má sjá á þessari mynd:
Útbreiðsla hafíss samkvæmt NSIDC (bláir punktar). Ár þar sem hafís er að “jafna sig” eru ár þar sem hafísinn er meiri en árið áður og merkt með rauðum til að sýna hvernig “efasemdamenn” skoða gögnun oft á tíðum.
Þó gervihnattagögnin séu að sjálfsögðu langmikilvægustu gögnin og nákvæmust, þá eru fleiri gögn sem sýna hversu undarlegt það er að halda því fram að hafísinn sé að jafna sig. Walsh & Chapman (2001, uppfært 2008) hafa áætlað útbreiðslu hafíss allt aftur til ársins 1870 með gögnum t.d. frá dönsku veðurstofunni, norsku norðurpólsstofnuninni og frá hafrannsóknaskipum.
Meðaltal hafísútbreiðslu frá júlí-september á Norðurskautinu milli áranna 1870-2008 (Walsh & Chapman 2001 uppfært til 2008) og mæld gögn frá NSIDC milli 2009-2013.
Þó hér sé ekki um beinar mælingar að ræða, þá fer ekki milli mála hvert stefnir.
Fyrir tveimur árum síðan kom út ítarleg grein um ástand hafíssins á Norðurskautinu. Þar er farið yfir þá vísa (e. proxys) sem til eru um útbreiðslu hafíss síðastliðin 1450 ár (sjá Kinnard o.fl. 2011). Kinnard og félagar söfnuðu saman 69 gagnasettum sem vísa í útbreiðslu hafíss á Norðurskautinu, ýmist beint eða óbeint. Mest voru notaðir borkjarnar í jökulís, en einnig trjáhringjarannsóknir, vatnaset og söguleg gögn þar sem minnst var á hafís. Mikið af vísunum geyma vísbendingar eða merki sem eru önnur en frá útbreiðslu hafíss – þá sérstaklega hitastig – en tölfræðilega greiningin sem notuð er veitir höfundum möguleika á að einangra frá breytileika í gögnunum sem þá er frábrugðinn hitamerkinu.
Sú tölfræðilega greining sýndi góða fylgni við hafísútbreiðslu síðsumars (ágúst), bæði fyrir allt Norðurskautið sem og fyrir gögn sem tengdust sérstaklega hafisútbreiðslu við Rússland. Samkvæmt greiningunni þá voru gögnin nægilega nákvæm til að áætla um útbreiðslu hafíss síðastliðin 1450 ár.
Áætluð hafísútbreiðsla síðastliðin 1450 ár samkvæmt Kinnard o.fl. 2011.
Meiri óvissa er eftir því sem farið er lengra aftur í tíman – þá aðallega vegna þess að þau gögn sem nothæf eru fækkar. Engu að síður er augljóst að í lok tuttugustu aldar er niðursveiflan fordæmalaus – allavega síðastliðin 1450 ár – bæði hvað varðar magn og lengd tímabils. Undanfarin ár hefur ísinn þíðan minnkað enn meir.
Þessi mynd hefur verið staðfest af fleirum, m.a. Polyak o.fl. (2010), en greining þeirra bendir til þess að bráðnun hafíss nú sé meiri en verið hefur síðastliðin nokkur þúsund ár og ekki hægt að útskýra með náttúrulegum breytileika.
Ályktanir um að hafísinn sé að jafna sig er því úr lausu lofti gripnar og eingöngu til þess fallnar að villa um fyrir fólki.
Að lokum er hér gott myndband eftir Peter Hedfield, þar sem hann fer í gegnum mýtuna um að hafísinn á Norðurskautinu sé að jafna sig:
Þeir sem fylgjast með loftslagsvísindum vita að nú hefur birst uppkast að fyrstu skýrslunni af þremur um loftslagsmál á vegum IPCC (AR5). Um er að ræða skýrslu vinnuhóps 1 sem heldur utan um þá vísindalegu þekkingu sem til er varðandi veðurfar og loftslagsbreytingar. Vinna þessa hóps fær yfirleitt mesta athygli, en vinnuhópar 2 og 3 fjalla um aðlögun og aðgerðir vegna loftslagsbreytinga.
Þó að heildarniðurstaðan sé svipuð og í síðustu skýrslu, sem birtist árið 2007 (AR4), þá er ýmislegt sem hefur breyst frá því þá. Niðurstaðan er þó orðin ljósari en áður og lítill vafi virðist vera á mannlegum orsökum núverandi hlýnunar. Hér er stutt samantekt á því sem helst ber á milli skýrslunar frá 2007 og þeirrar nýju. Þetta er alls ekki tæmandi listi, enda hafa fjölmargar vísindagreinar, nokkur ár af nýjum gögnum og ný og fullkomnari líkön bæst við í sarpinn síðan síðasta skýrslan kom fram. Helstu breytingar sem við veljum að nefna hér eru eftirtaldar:
Kólnunaráhrif arða í lofthjúpnum eru taldar minni en áður áætlað
Framlag sólarinnar til hækkunar hitastigs frá 1750 er talið minna en áður áætlað
Sjávarstaða á heimsvísu er talið munu rísa meira en áður var áætlað fyrir árið 2100
Það er minni vissa um að aukning úrkomu hafi átt sér stað – en meiri vissa um aukna úrkomu í framtíðinni
Það er ekki breyting í vissu um að tíðni mikillar úrkomu hafi aukist – en meiri vissa að mikil úrkoma muni aukast í framtíðinni
Það er engin breyting á fyrri ályktunum varðandi leitni flóða, hvorki í fortíð né framtíð
Það er minni vissa um aukningu þurrka eða að það hafi orðið sjáanleg breyting í þurrkum frá 1950
Það er minni vissa um aukningu fellibylja
Neðri mörk jafnvægissvörunar loftslags var fært úr 2°C í 1,5°
Nýjar rannsóknir og betri greiningartækni hefur aukið þekkingu vísindamanna á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Þrátt fyrir það eru óvissuþættir nokkrir og hafa jafnvel aukist í sumum þáttum frá síðustu skýrslu.
Samantekt á hitamælingum. a) Tímaraðir sem sýna breytingar í hnattrænu ársmeðaltali. Sýndar eru samantektir þriggja stofnana. b) Áratugameðaltöl gagnanna í a). c) Kort af hitabreytingum í MLOST gagnasafninu fyrir tímabilið 1901 til 2012. Hitabreytingin er reiknuð út frá hallatölu bestu línu gegnum gagnasafnið í hverjum reit. Gerð er krafa um að gögn séu til staðar fyrir a.m.k. 70% tímabilsins, og a.m.k. 20% tímans fyrstu og síðustu 11 árin. Mynd Veðurstofa Íslands.
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er mjög líklegt (extremely likely), eða yfir 95% líkur að athafnir manna hafi valdið meira en helming þeirrar hlýnunar sem varð frá 1951-2010. Sú vissa hefur aukist frá því að vera yfir 90% eða líklegt samkvæmt skýrslunni 2007. Áhrif aukinna gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eru margvísleg. Sjávarstaða hækkar, úrkomumynstur breytast, hafís og jöklar minnka – en allir þessir þættir eru í neikvæðara ástandi en áður var talið.
Einn mikilvægur punktur er að breyting hefur orðið á loftslagslíkönum og notaðar aðrar sviðsmyndir. Hver ný sviðsmynd um losun (RCP – Representative Concentration Pathway) er fulltrúi ákveðins geislunarálags – eða hversu mikla auka orku jörðin mun taka til sín vegna athafna manna. Hin nýju RCP líkön ná yfir stærra svið framtíðarhorfa en gömlu SRES sviðsmyndirnar og því varasamt að bera saman líkön AR4 og AR5.
Kólnunaráhrif arða í lofthjúpnum eru taldar minni en áður áætlað
Örður hafa áhrif á loftslag á tvennan hátt, annars vegar með því að dreifa sólarljósi aftur út í geim og hins vegar með því að mynda ský. Loftslagslíkön taka nú í meira magni inn þátt skýja og ferli tengd örðum. Niðurstaða nákvæmari líkana valda því að kólnunaráhrif arða virðast minni en áður hefur verið talið. Þrátt fyrir aukna þekkingu og nákvæmari líkön þá eru örður enn stærsti óvissuþátturinn við að meta hversu mikil hlýnunin er og verður af völdum manna. Þessi óvissa veldur einnig óvissu við fínstillingu jafnvægissvörunar loftslags (sjá nánari umfjöllun um jafnvægissvörun loftslags hér neðar).
Framlag sólarinnar til hækkunar hitastigs frá 1750 er talið minna en áður áætlað
Í nýju skýrslunni eru nokkrar rannsóknir teknar með þar sem könnuð eru áhrif sólar á loftslag með því að breyta skýjahulu. Niðurstaða skýrslunnar eru þó þær að þau áhrif séu lítil og hafi verið léttvæg síðastliðna öld. Ennfremur er fylgni milli útgeislun sólar og hitabreytinga mjög lítil. Á milli áranna 1980 og 2000 hækkaði hitastig hratt, á sama tíma og sólvirkni minnkaði.
Þó að sólvirkni hafi minnkað frá árinu 1980 og til dagsins í dag, sem veldur neikvæðu geislunarálagi, þá er það þannig að ef skoðað er tímabilið frá upphafi iðnbyltingarinnar (frá 1750 og þar til nú), þá er geislunarálagið jákvætt. En áframhaldandi niðursveifla í sólvirkni hefur orðið til þess að geislunarálag sólarinnar hefur minnkað frá síðustu skýrslu.
Vissan er lítil varðandi spádóma um framtíðarsólvirkni. Því reikna líkön með því að sólvirkni haldist óbreytt. Ekki er talið líklegt að loftslag hverfi aftur til þess tíma þegar litla ísöldin var og hét vegna minnkandi sólvirkni (minna en 10% líkur), enda muni hlýnun af mannavöldum yfirskyggja minnkandi sólvirkni.
Sjávarstaða á heimsvísu er talin munu rísa meira en áður var áætlað fyrir 2100
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er talið líklegt (a.m.k. 66% vissa) að sjávarstaða verði 0,29-0,82 m hærri í lok aldarinnar en á viðmiðunartímabilinu 1986-2005, samkvæmt öllum sviðsmyndum. Þetta er hærra en árið 2007, en þá var talið líklegt að sjávarstaða myndi hækka frá 0,18-0,59 m.
Framlag Grænlands og Suðurskautsins til hærri sjávarstöðu hefur hækkað frá síðustu skýrslu. Þekking vísindamanna á eðlisfræði jökulhvela hefur aukist, auk þess sem gögn eru mun betri sem sýna bráðnun og hreyfingu jökla.
Við síðustu skýrslu þá var vísindaleg þekking talin ófullnægjandi til að meta líklegar sjávarstöðuhækkanir. Þekkingin hefur styrkst en samt er aðeins meðal vissa um framtíðarsjávarstöðuhækkanir. Það er að hluta til vegna þess að mat á hreyfingum jökla er tiltölulega nýtt og vegna þess að nokkur munur er á þeim líkönum sem meta sjávarstöðubreytingar.
Það er minni vissa um að aukning úrkomu hafi átt sér stað – en meiri vissa um aukna úrkomu í framtíðinni
Vissan hefur minnkað frá síðustu skýrslu um að úrkoma hafi aukist frá árinu 1900. Hins vegar er vissan meiri en síðast eða nánast öruggt (yfir 99% líkur) að meðalúrkoma muni aukast hnattrænt um 1-3% við hverja °C hækkun hitastigs.
Breytileiki verður nokkur milli svæða, en almennt séð þá verða blaut svæði blautari og þurr svæði geta orðið þurrari. Það væri í samræmi við þá leitni sem sést hefur með gervihnöttum frá árinu 1979.
Fram til ársins 2100 verða úrhellisatburðir mjög líklegir á sumum svæðum (yfir 90% líkur), hér hefur vissa aukist frá síðustu skýrslu. Þeir atburðir verða öfgafyllri en geta þó orðið sjaldnar. Í heildina er búist við að öfgar í úrkomu muni breytast hraðar en meðalaukning í úrkomu við hækkandi hita.
Mögulegar breytingar til loka þessarar aldar. a) Hnattræn hlýnun fyrir mismunandi sviðsmyndir. Sýnd eru vik frá meðalhita áranna 1986 – 2005. b) Hafísútbreiðsla á norðurhveli að hausti (5 ára hlaupandi meðaltal). c) Hnattrænt meðaltal sýrustigs sjávar. Ferillinn (og gráa umslagið) sem sýndur er fyrir 2005 er reiknaður með þekktum mæliröðum af styrk gróðurhúsalofttegunda, ryks og annarra þátta sem hafa áhrif á geislunarjafnvægi. Bláu og rauðu ferlarnir eftir 2005 sýna útreikninga fyrir tvær mismunandi sviðsmyndir um losun gróðurhúsa-lofttegunda en súlurnar lengst til hægri sýna meðaltal fleiri sviðsmynda, fyrir árin 2081 – 2100. Rauða og bláa umslagið sýna dreifingu líkanreikninga. Fjöldi líkana sem notaður var í hverju tilviki er sýndur á myndunum en á mynd b) er einnig sýndur innan sviga fjöldi líkana sem náðu vel að herma eftir meðalhafísþekju 1979 – 2012. Mynd Veðurstofa Íslands
Það er engin breyting á fyrri ályktunum varðandi leitni flóða, hvorki í fortíð né framtíð
Bæði þá og nú, hafa vísindamenn ekki séð neina leitni flóða og því lítil vissa um breytingar á stærð og tíðni flóða hnattrænt. Ennfremur eru engir spádómar um aukin flóð í framtíðinni.
Það er minni vissa um aukningu þurrka eða að það hafi orðið sjáanleg breyting í þurrkum frá 1950
Samkvæmt uppkasti nýju skýrslunnar þá er lítil vissa um að breytingar hafi orðið á þurrkum hnattrænt frá árinu 1950 og að menn eigi þar þátt í breytingum á þurrkum.
Varðandi framtíðina, þá þykir líklegt (a.m.k. 66% vissa) að sum svæði muni finna fyrir auknum þurrkum, en hnattrænt er óvissan mikil.
Það er minni vissa um aukningu fellibylja
Samkvæmt nýju skýrslunni þá er minni vissa um að það hafi orðið langtímaaukning í fellibyljum hnattrænt og lítil vissa um þátt manna í þeim breytingum. Ástæðan er endurgreining gagna, þar sem tekið er meira tillit til auðveldara aðgengi að gögnum. Nýrri gögn benda til þess að að núverandi breytingar séu mögulega innan náttúrulegs breytileika.
Meðal vissa er um að tíðni fellibylja muni minnka eða haldast stöðugt í framtíðinni. Hins vegar er líklegra en ekki að tíðni sterkustu fellibyljana muni aukast (meira en 50% líkur) á þessari öld
Neðri mörk jafnvægissvörunar loftslags var fært úr 2°C í 1,5°C
Jafnvægissvörun loftslags við tvöföldun CO2 í andrúmsloftinu er oft notað til að reikna út hækkun hitastigs í framtíðinni, sjá m.a. Jafnvægissvörun loftslags hér á loftslag.is. Í nýju skýrslu IPCC er þessi jafnvægissvörun hitastigs talin geta verið á bilinu 1,5° – 4,5°C. Breytingin frá fyrri skýrslu er sú að lægra gildið hefur lækkað úr 2°C í 1,5°C – en efri mörkin eru enn þau sömu. Þessi lækkun neðri markanna virðist byggjast á stöðnun í hækkun hitastigs andrúmslofts við yfirborð jarðar á síðasta áratug.
Þessa stöðnun í hækkun hitastigs andrúmslofts við yfirborð jarðar hefur verið útskýrð á ýmsan hátt, m.a. með þeirri staðreynd að yfir 90% af hlýnun jarðar nú um stundir virðist fara í höfin og hefur verið bent á að þessi breyting geti verið gagnrýni verð. En útreikningar á því hvernig hitastig er talið getað hækkað fram að 2100 í skýrslunni eru væntanlega gerðir í samræmi við þessa jafnvægissvörun og það gefur okkur því ekki miklar vonir um væga útkomu þó neðri mörkin hafi færst lítillega til.
Lokaorð
Þessi nýja skýrsla IPCC virðist staðfesta enn frekar að hnattræn hlýnun af mannavöldum er staðreynd og ef ekkert verður að gert, þá er enn meiri hækkun hitastigs í pípunm á næstu áratugum, sem er í samræmi við fyrri skýrslur og samdóma álit sérfræðinga á þessu sviði um langt skeið. Fram að 2100 þá er gert ráð fyrir að hitastig geti hækkað töluvert – allt eftir því hvaða sviðsmyndir í losun gróðurhúsalofttegunda eru skoðaðar. En í hnotskurn er staðan sú að eftir því sem meira af gróðurhúsalofttegundum er dælt út í andrúmsloftið (og hluti endar í hafinu líka og veldur m.a. súrnun sjávar) þá aukast líkurnar á meiri hækkun hitastigs og meiri súrnun sjávar sem hefur svo áhrif á aðra þætti eins og hafís, jökla, sjávarstöðu, vistkerfi sjávar o.s.frv.
Í dag og næstu daga er haldin ráðstefna í Stokkhólmi, en þar munu helstu höfundar væntanlegrar IPCC skýrslu, vinnuhóps 1 kynna niðurstöðu sína. Sú skýrsla verður birt á föstudaginn kemur. Síðasta skýrsla kom út árið 2007 og því hefur verið beðið í ofvæni eftir nýrri skýrslu, enda mikið af gögnum bæst í sarpinn auk nýrra vísindagreina.
Í Stokkhólmi munu vísindamenn kynna stjórnvöldum helstu ríkja heims, niðurstöðu áralangrar vinnu á vegum IPCC. Ein af líklegum niðurstöðum í skýrslunni er að yfir 95% líkur séu taldar að athafnir manna hafi stjórnað þeirri hitaaukningu sem orðið hefur undanfarna áratugi. Þá verður fókusinn eflaust á sjávarstöðubreytingar, minnkun hafíss og jökla, auk aukningar hitabylgja. Nánar verður farið í niðurstöður skýrslunnar þegar það kemur betur í ljós.
Talið er líklegt að vísindamenn þrýsti á að yfirvöld geri með sér samning fyrir árið 2015 um að draga sem mest úr áhrifum loftslagsbreytinga. Þá hafa samtök til verndar börnum verið áberandi síðustu daga, enda hafa slæm áhrif loftslagsbreytinga oft mikil áhrif á ungabörn sem verða oft fyrir barðinu á hungursneyðum.
Nú, þegar uppi eru stór áform varðandi leit og hugsanlega vinnslu jarðefnaeldsneytis (olía og gas) á Drekasvæðinu, þá er vert að spyrja nokkura spurninga og velta hlutunum fyrir sér í ljósi vísindalegra upplýsinga um loftslagsvánna sem við búum yfir í dag. Áhrif brennslu jarðefnaeldsneytis á loftslag jarðar núna og í framtíðinni er vandamál sem við þurfum að takast á við – en það virðist viðtekin hugmynd að minnast helst ekki á þann vanda þegar rætt er um mögulegan hagvöxt og framtíðarhorfur með vinnslu jarðefnaeldsneytis úr jörðu. Ráðamenn gefa sér væntanlega, eins og margir aðrir, að framkvæmdir og vinnsla á jarðefnaeldsneyti sem hugsanlega leiða til hagvaxtar til skemmri tíma hljóti í hlutarins eðli að vera eðlilegar. Þ.a.l. hljóti sú vinnsla að verða eitt af því sem mun leiða hagvöxt til framtíðar – alveg sama hver kostnaðurinn er til lengri tíma fyrir mannkynið í heild. Úræðaleysi og úrelt sjónarmið “hagvaxtar” virðast því miður vera útbreidd skoðun varðandi þessi mál. Við sjáum núna að umræðan snýst m.a. um að reyna að greiða veg olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu, þannig að sem flestum hindrunum verði rudd úr vegi og búið verði svo um hnútana að ekki verði hægt að snúa þeim ákvörðunum við síðar. En á það að vera svo – viljum við virkilega greiða þá leið?
Fyrsta spurningin sem kemur í hugann nú, er náttúrulega hversu miklu af jafðefnaeldsneyti má brenna til að við höldum okkur undir 2°C markinu sem þjóðir heims stefna að í dag samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum og hversu langan tíma mun taka að ná því marki? Í stuttu og frekar einfölduðu máli, þá er það talið vera um það bil 1/5 af því jarðefnaeldsneyti sem nú þegar er í bókhaldi olíu-, kola- og gasfyrirtækja heimsins og það mun væntanlega taka innan við 20 ár að brenna því magni [Global Warming’s Terrifying New Math]. 4/5 af jarðefnaeldsneytinu þarf því að vera í jörðinni áfram ef við eigum að hafa raunhæfan möguleika á árangri. Eins og staðan er í dag, bendir s.s. allt til þess að það verði strembið að halda okkur innan tveggja gráðanna sem almennt er talið að þurfi til að hnattræn hlýnun verði ekki of mikil. Núverandi spár gera flestar ráð fyrir um 2-4°C (jafnvel meira) fyrir næstu aldamót (svo ekki sé litið lengra fram í tímann eða aðrir þættir skoðaðir, eins og t.a.m. súrnun sjávar sem ekki bætir stöðuna). Hækkun hitastigs um 2-4°C myndi valda töluverðum vandræðum fyrir komandi kynslóðir og það má halda því fram að sú Jörð sem komandi kynslóðir erfa sé ekki lík þeirri sem við tókum við. Það má kannski líta svo á að við fremjum mannréttindabrot við ókomnar kynslóðir með því að skilja Jörðina þannig eftir okkur að við rýrum lífskjör og gerum lífið erfiðara í framtíðinni. Þá kemur náttúrulega að samviskuspurningunni hvort að við viljum hafa það á samviskunni?
Næsta spurning sem gæti kviknað er hvaða áhættu erum við að taka með því að bæta í brennanlegan forða jarðaefnaeldsneytis? Það er talið nokkuð ljóst að hitastig mun hækka um margar gráður ef ekkert verður að gert og þó svo aðeins sá forði sem nú er í bókum olíu-, gas- og kolafélaga yrði brennt, þá er áhættan á talsverðum loftslagsbreytingum talsverð – svo ekki sé talað um hugsanlega ófundnar lindir, sem við Íslendingar virðumst vilja taka þátt í að nýta til fulls. Áhættan er því veruleg og það er óðs manns æði að ætla sér að kreista jörðina um allt það jarðefnaeldsneyti sem til er – sérstaklega í ljósi þess að við höfum þegar 400% meira í bókhaldinu en þykir rétt að brenna – samkvæmt alþjóðlegum samþykktum þjóða heims!
Hvað ætlar litla Ísland sér í loftslagsmálunum? Ætlum við að taka þátt í að kreista síðasta dropa jarðefnaeldsneytis úr jörðu eða viljum við sýna þor og dug? Það virðist vera útbreidd skoðun að nýting jarðefnaeldsneytisforðans sem hugsanlega leynist á Drekasvæðinu sé hið besta mál – þrátt fyrir að viðvörunarljós blikki og öll rök hnígi að því að við þurfum að leita annarra leiða en gjörnýtingu jarðefnaeldsneytis í framtíðinni. Erum við upplýst þjóð? Höfum við vilja til að sýna dug og þor eða ætlum við að vera ofurseld úreltu hugarfari skyndi „hagvaxtar”?
Höfum þor – skörum fram úr – veljum einu réttu leiðina og hættum við allar hugmyndir um olíu- og gasvinnslu á Íslandi í dag – þó svo það sé veik von margra að með henni getum við viðhaldið hagvexti til framtíðar eftir hinar efnahagslegu hamfarir sem við höfum upplifað. Reyndar ber að geta þess að litla Ísland er í dag (eftir hrunið) númer 28 í heiminum ef tekið er tillit til vergrar landsframleiðslu á mann (heimild: CIA Factbook). Ekki er sjálfgefið að hagvöxtur verði að aukast umfram aðra til að Ísland standi á eigin fótum eða að það muni þýða eymd og volæði fyrir landann ef þessi „auðlind“ jarðefnaeldsneytis verði ekki nýtt (“auðlind” sem ekki er enn í hendi).
Sendum merki um áræðni og þor – hættum að ásælast jörðina sem afkomendur okkar eiga að erfa. Það yrði mikilvægt merki til allra þjóða ef hið litla Ísland, sem nýlega er búið að upplifa hrun fjármálakerfisins, hefði þor og dug til að sýna fordæmi í þessum málum. Segjum því nei við gas- og olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
Persónulega er ég á engan hátt á móti heilbrigðum hagvexti eða alvöru framförum – þvert á móti. En brennsla á gasi og olíu er vart merki um heilbrigða þróun mála eða til merkis um framfarir eins og mál standa. Þar af leiðandi er eina vitið fyrir framtíð okkar að við geymum jarðefnaeldsneytið þar sem það er, enn um sinn. Brennsla jarðefnaeldsneytir er að verða gamaldags og er eitthvað sem við ættum ekki að ýta undir í framþróuðum, upplýstum nútíma samfélögum, sérstaklega í ljósi þess að afleiðingar brennslu jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda eru vel kunnar. Það virðist ekki vera til hið pólitíska afl hér á landi sem hefur þor og/eða vilja til að taka beina afstöðu á móti vinnslu jarðefnaeldsneytis á íslenska landgrunninu eða hvað þá að telja þá hugmynd vafasama – samanber núverandi hugmyndir stjórnvald varðandi olíuleit á Drekasvæðinu. Það þarf hugrekki til að spyrna við slíkum hugmyndum og taka ákvarðanir sem gætu jafnvel (þótt slíkt sé ekki sjálfgefið) hægt á hagvexti til skamms tíma. Það eigum við þó að sýna og segja nei við gamaldags hagvaxtarhugmyndum um vinnslu jarðefnaeldsneytis.
Í ljósi þess að það er ekki í samræmi við niðurstöður vísindamanna um loftslagsvánna að halda áfram að brenna eldsneyti hugsunarlaust, þá eigum við Íslendingar að hafa þor til að skara fram úr á alþjóða vettvangi með því að segja nei við olíu- og gasvinnslu á Íslandsmiðum og þá um leið já við sjálfbærri nýtingu sjálfbærrar orku. Sjálfbær vinnsla orku hefur sína kosti og galla, en brennsla á olíu og gasi hafa nánast bara galla fyrir jarðarbúa í heild – það er því versti kostur sem við getum nýtt okkur – þó svo það ýti hugsanlega undir hagvöxt til skamms tíma. Hitt er svo annað mál að það gæti verið að seinni kynslóðir geti séð kosti við að hafa aðgang að ónýttum olíu- og gaslindum – þegar þar að kemur að við nýtum það ekki til brennslu, heldur sem dýra og eftirsótta afurð í allskyns framleiðsluvörur.
Horfum fram á veginn og sýnum það þor og þann dug að hafa aðra skoðun en þá viðteknu. Sem upplýst þjóð eigum við að vera í forsvari breytinga, en ekki fylgja í blindni gamaldags hugmyndum um „hagvöxt“ til skamms tíma – hagvöxt sem verður væntanlega þeim dýrkeyptur sem erfa munu jörðina eftir okkar dag – Segjum því nei við vinnslu jarðefnaeldsneytis á Íslandsmiðum.
Nú er að renna upp sú tíð sem íslenskir kvikmyndaáhugamenn hafa beðið eftir, en það er alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF í Reykjavík (Reykjavík International Film Festival).
Að venju er nokkur hluti hátíðarinnar tileinkaður “Grænum myndum” á RIFF sem hefst 26. september nk. og stendur til 6. október. Margar álitnar spurningar vakna:
Getum við haldið í lífsmynstur okkar eða er kominn tími til að breyta til? Ræður plánetan við þessa meðferð? Komum við vel fram hvort við annað? Hvernig getum við lagt af mörkum til annarrar og betri framtíðar? Í þessum heimildarmyndunum er leitað svara við þessum spurningum og bent á lausnir.
Hér fyrir neðan er lýsing á grænu myndunum og við vekjum sérstaka athygli á loftslagstengdum heimildarmyndum með því að tengja á sýnishorn þeirra af youtube:
Álöldin / The Age of Aluminum / Die Akte Aluminum
Leikstjóri: Bert Ehgartner (AUT) 2012 / 52 min
Ál er í stórsókn og hefur fundið sér leið inni í hvern einasta kima lífs okkar: svitalyktareyðar, sólarvörn, bólusetningar eða drykkjarvatn. En hvað vitum við í raun og veru um aukaverkanir af daglegri neyslu þess? Þessum létta málmi fylgja þungavigtar afleiðingar. Nýjustu rannsóknir tengja það við aukningu á Alzheimer, brjóstakrabbameini og fæðuofnæmi. Flókin vinnsla áls er einnig vistfræðilegt álitaefni.
Bylting / Revolution
Leikstjóri: Rob Stewart (CAN) 2012 / 87 min
Falleg og ögrandi kvikmynd sem kemur til með að skjóta ýmsum skelk í bringu. Leikstjórinn Rob Stewart leggur upp í lífshættulega langferð til þess að komast að sannleikanum um ástand Jarðarinnar. Hann sýnir fram á að allar okkar aðgerðir eru tengdar og að eyðilegging náttúrunnar, útrýming dýrategunda, súrnun sjávar, mengun og fæðu- og vatnsskortur eru að minnka getu Jarðarinnar til þess að hýsa mannfólkið. Við að ferðast um hnöttinn og hitta fólk sem vinnur að lausn vandans finnur Stewart hvatningu og von með byltingar fortíðarinnar að leiðarljósi.
EBM GMG / GMO OMG
Leikstjóri: Jeremy Seifert (USA) 2013 / 90 min
EBM GMG segir leynda sögu þess að risavaxin efnafyrirtæki hafa tekið yfir fæðuframboð okkar; landbúnaðarlegu hættuástandi sem er orðið að menningarlegu hættuástandi. Myndin fylgist með baráttu leikstjórans og fjölskyldu hans fyrir því að lifa og borða án þess að taka þátt í óheilbrigðu, ósanngjörnu og eyðileggjandi fæðukerfi.
Framtíðin ástin mín / Future my love
Leikstjórir: Þegar kvikmyndagerðarmaðurinn Maja Borg er við það að glata ástmegi hugsjóna sinna, fer hún með okkur í ljóðrænt ferðalag um fjármálahrunið og kannar róttækt efnahags- og félagslegt líkan, sett fram af 95 ára fútúrista, Jacque Fresco. Með sköpun sérstæðrar áferðar, úr varfærnislegum vef myndbrota úr safni, svarthvítrar Super 8 filmu og háskerpu í lit, dregur Maja Borg upp áleitna mynd af óvenjulegri ástarsögu á sama tíma og hún ögrar sameiginlegum og persónulegum útópíum okkar sem hverfast um frelsisleit.
Fljót breytir um stefnu / A River Changes Course
Leikstjóri: Kalyanee Mam (CAM / USA) 2013 / 83 min
Verðlaunamynd af Sundance-hátíðinni. Kalyanee Mam dvaldi um tveggja ára tímabil
í heimalandi sínu og vann þar með sinn einlæga stíl þar sem viðfangsefnið er
skoðað á raunverulegan og athugandi hátt (“cinema verité”). Hún segir sögu þriggja
fjölskyldna sem búa í Kambódíu dagsins í dag. Þær standa frammi fyrir erfiðum
ákvörðunum vegna örrar þróunar og glíma við að viðhalda sínum hefðbundnu lífsháttum
þegar nútíminn þrengir að þeim.
Gráðugur ljúgandi bastarður / Greedy Lying Bastard
Leikstjóri: Loftslagsbreytingar búa ekki lengur í spádómum um framtíðina heldur eiga hlutdeild í raunveruleika dagsins í dag. Þrátt fyrir að sannanir um loftslagsvánna hrannist upp og samhljóða álit vísindanna vitni um sekt mannsins í þessu máli gætir áfram takmarkaðs pólitísks vilja til þess að koma í veg fyrir hlýnun plánetunnar okkar. Gráðugir ljúgandi bastarðar skoðar þennan hóp manna og samtaka sem breiða út efasemdir um loftslagsvísindi og staðhæfa að gróðurhúsalofttegundir komi ekki hegðun mannsins við.
Grimmur grænn eldur: Baráttan fyir lifandi hnetti / A Fierce Green Fire; The Battle for a Living Planet
Leikstjóri: Mark Kitchell (USA) 2012 / 114 min
Þetta er fyrsta stórmyndin sem segir frá umhverfisverndarhreyfingunni í heild sinni – grasrótarstarfi og aktívisma í mismunandi löndum, yfir fimmtíu ára tímabil frá verndarstefnu til loftslagsbreytinga. Hún var frumsýnd sem verk í vinnslu á Sundance fyrr á þessu ári og nú hefur framleiðslu endanlega verið lokið. Kvikmynd hefur aldrei áður útskýrt sögu umhverfisverndar frá a til ö og vonandi verður þetta áhrifamikil mynd sem nær til, og fræðir, stóran hóp hungraðra áhorfenda.
Hvarfpunktur / Vanishing Point
Leikstjórar: Julia Szucs & Stephen A. Smith (CAN) 2012 / 83 min
Þessi heimildarmynd segir sögu tveggja inúítasamfélaga á norðurheimsskautssvæðinu. Annað á kanadísku eyjunni Baffin og hitt í Norð-Vestur Grænlandi. Svæðin tvö tengjast gegnum landflutninga undir forystu frækins töframanns. Navarana, heldri maður af Inughuit-ætt og afkomandi töframannsins, sækir innblástur og von í þessi tengsl til þess að horfast í augu við afleiðingarnar af hröðum breytingum á samfélaginu og umhverfinu.
Indverskt sumar / Indian Summer
Leikstjóri: Simon Brook (FRA) 2013 / 84 min
Indverskt sumar er gamansöm vegamynd um ferðalag um Suður-Indland til að kanna læknismeðferðina Ayurvedic, fimm þúsund ára óhefðbundna lækningu. Myndin fylgir óvenjulegu pari: Heimsfrægum frönskum eitlalækni sem þráir að kynnast annars konar lækningum og draga þekkingu sína í efa og fyrrverandi sjúklingnum hans sem valdi indverskar lækningar fram yfir þá meðferð sem mælt er með. “Læknisfræðilegur gamanleikur” sem fjallar á nýstárlegan og frumlegan hátt um efnið.
Leiðangur á enda veraldar / Expedition to the End of the Word / Ekspeditionen til Verdens Ende
Leikstjóri: Daniel Dencik (DEN / SWE) 2013 / 59 min
Stórfengleg og alvöru ævintýramynd þar sem listamenn og vísindamenn fá tækifæri til að upplifa löngu gleymdan æskudraum. Á þrímastra skonnortu fullri af listamönnum, vísindamönnum og metnaði sem hefði sæmt Nóa eða Kólumbusi er lagt af stað á enda veraldar: að síbráðnandi jökulbreiðum Norðaustur Grænlands. Söguleg háskaför þar sem áhöfnin stendur einnig frammi fyrir tilvistarlegum spurningum.
Loforð Pandóru / Pandora’s Promise
Leikstjóri: Robert Stone (USA) 2013 / 87 min
Í Loforði Pandóru, bendir leikstjórinn Robert Stone á að í stað þess að eyða mannkyninu muni kjarnorka hugsanlega bjarga því. Ein margra óvæntra staðreynda sem afhjúpaðar eru í myndinni er sú að vopnakapphlaup Kalda stríðsins skaffi nú eldsneyti fyrir jörðina: 10% af raforku Bandaríkjanna er unnin úr rússneskum kjarnaoddum. Djúphugul mynd sem opnar inn á nauðsynlega umræðu – og veitir langþráða framtíðarvon.
Að undanförnu hefur farið fram lífleg umræða um það hvað mælingar á lofthita við yfirborð jarðar hefur að segja um það hvort að það sé “pása” í hnattrænni hlýnun um þessar mundir. Þessa meintu “pásu” er hægt að sjá, með góðum vilja, yfir skemmri tíma – en þýðir það að hnattræn hlýnun hafi stöðvast. Í eftirfarandi myndbandi setur hópur leiðandi vísindamanna á sviði loftslagsvísinda hlutina í samhengi.
Fyrir um mánuði síðan (8-13 júní 2013) var haldin ráðstefna á vegum AGU (American Geophysical Union) um loftslagsmál í Colarado Bandaríkjunum, en aðaltilgangur hennar var að draga saman helstu vísindamenn (bæði raun og félagsvísindamenn) og blaðamenn til að ræða hver þekkingin er í loftslagsvísindum sem stendur og hvernig hægt er að koma þeim skilaboðum áleiðis til stjórnvalda, fjölmiðla og almennings.
Mörg þekkt nöfn tóku til máls, meðal annars Micheal Mann, Gavin A. Schmidt, Peter Sinclair, Richard B. Alley o.fl. Nú er hægt að horfa á marga af fyrirlestrunum sem haldnir voru, á YouTube stöð AGU – en þar er meðal annars þessi skemmtilegi fyrirlestur Richard B. Alley.
Hér er svo áhugaverður fyrirlestur sem Micheal Mann hélt, þar sem hann fer meðal annars yfir skipulagðar árásir sem hann hefur orðið fyrir:
Endilega horfið á og skoðið síðan fleiri fyrirlestra, en eins og dagskráin gefur til kynna þá voru fyrirlestrarnir mjög fjölbreyttir.